Mánudagur 16.8.2010 - 08:45 - 17 ummæli

Íslensk leynilögregla að hætti Stieg Larsson

Jæja, þá mun ekki líða á löngu áður en að íslenska lögreglan fái sína KBG deild, þar sem hún mun hafa óheftan aðgang að einkalífi borgaranna.  Dómsmálaráðherra segir að vísu hafa sínar efasemdir um þetta en bendir á að svona deild muni starfa undir ströngu eftirlit og umsjón Alþingsins.  Það ætti að róa borgarana, eða hvað?

Hvaða reynslu hafa Íslendingar í að reka öflugar og óháðar eftirlitsstofnanir og hvert er traust almennings til þingsins.  Nei, þetta boðar ekki gott.

Eitt aðalsmerki íslensks lýðræðis hefur verið að hér á landi höfum við getað búið í sátt og samlyndi án leynilögreglu.  Það var alltaf sagt að hér þekki allir alla svo engin þörf sé fyrir leyniþjónustu.

Reynsla annarra þjóða sýnir að rekstur leynilögreglu er miklu erfiðleikum háð, kostnaðurinn er gífurlegur og eftirlitið eitthvað það erfiðasta sem til er.  Ef við getum ekki haft eftirlit með bönkum er borin von að við getum haft eftirlit með leynilögreglu.  Íslenska stjórnsýslu skortir allan faglegan grunn til að taka þetta vandasama verk að sér.

Útkoman af þessari tilraun getur orðið hræðileg, einkalíf margar verður eyðilagt, rannsóknir verða byggðar á vafasömum grunni, klíkuskapur og ættartengsl munu ráða hvernig tekið verður á hinum og þessum.

En það sem verður langhættulegast er þegar þessi „Stasi“ deild verður notuð í pólitískum tilgangi.  Það er aðeins tímaspursmál hvenær hún verður notuð á lymskulegan hátt til að þakka niður í óþægilegum einstaklingum.   Svo er alltaf hætta á að þessi deild verði ríki í ríkinu og haldi þingmönnum, ráðherrum og dómurum í gíslingu í krafti þeirra upplýsinga sem hún aflar.

Ég ráðlegg Rögnu að lesa bækur Stieg Larssonar áður en lengra er haldið!  Svona mál á að taka fyrir á nýju stjórnlagaþingi.

Ps.  Munurinn á milli VG og D minnkar með hverjum degi!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.8.2010 - 13:51 - 16 ummæli

„Velfærd kræver velstand“

„Velfærd kræver velstand“ er eitt af baráttumálum Venstre, stærsta stjórnmálaflokks Dana.  Nú er Venstre eða danskir stjórnmálaflokkar ekki oft í umræðunni á Íslandi en stundum er gott að líta út fyrir sinn eigin sjóndeildarhring og skoða hvað nágrannar manns eru að sýsla og athuga hvort maður geti nú ekki lært eitthvað af þeim.

Venstre flokkur Dana er hægra megin við miðju en fékk nafnið á 19. öld eftir franskri hefð frá 1789 þegar flokkar sem stóðu með almenningi sátu vinstra megin á franska þinginu en konungshollir flokkar hægra megin.  Nú eiga Íslendingar og Venstre langa sögu saman og þessi flokkur reyndist Íslendingum vel í sjálfstæðisbaráttunni.  Það var einmitt í stjórnartíð Venstre sem Íslendingar fengu heimastjórn og Peter Alberti ráðherra Venstre (sem síðar varð að segja af sér vegna fjármálaskandals og endaði í tukthúsi) valdi Hannes Hafstein sem fyrsta ráðherra Íslands.

Nóg um sögu Venstre en hver er stefnuskrá Venstre á 21. öldinni?   Í stuttu máli, þessi:

  • Standa vörð um norrænt velferðarkerfi
  • Byggja atvinnulífið á sveigjanlegu, sterku og frjálsu markaðskerfi
  • Taka þátt í evrópskri samvinnu innan ESB og innleiða evru

Er hér ekki komin uppskrift að flokki sem margir á Íslandi eru að leita að?  Eru úrslit í nýlegum sveitarstjórnarkosningum ekki einmitt krafa um að stokkað sé upp í íslensku flokkakerfi?

Það er deginum ljósara að flokkarnir hafa staðnað.  Margir geta ekki hugsað sér að kjósa neinn af gömlu flokkunum.  Hvað er svona heilagt við þessa flokka?  Enginn þeirra var til þegar ríkisstjórn Venstre gaf okkur heimastjórn 1904.  Eru þeir 20. aldar fyrirbæri og þar með komnir fram yfir síðasta söludag 2010, eða geta þeir aðlagað sig nýjum aðstæðum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.8.2010 - 07:55 - 2 ummæli

Um áhættu og arðsemi

Ísland og Grikkland hafa sömu lánseinkunn á langtíma innlendum skuldbindingum hjá Fitch, BBB+.  Íslenska ríkið borgar rétt undir 6% vexti á óverðtryggðum 10 ára skuldabréfum í krónum, á meðan gríska ríkið þarf að borga rúmlega 10% í evrum.  Fátt sýnir á jafnafgerandi hátt hinn falska raunveruleika sem ríkir í íslensku fjármálakerfi.

Ég læt lesendum eftir að dæma hvort þeir vilja hafa sinn sparnað á 6% vöxtum í krónum eða 10% í evrum fyrir sömu áhættu?

Hvers vegna stendur á þessu, gætu sumir spurt?  Er þetta vegna þess að framtíðarhorfur íslensku krónunnar og íslenska hagkerfisins eru svona miklu betri en á evrusvæðinu?  Ef það væri skýringin væru hér engin gjaldeyrishöf.  Og þar liggur svarið.

Haftabúskapur ríkisins hefur byggt upp falskt og lokað hagkerfi sem virðist á uppleið en er byggt á sandi.  Krónan er með falskan botn og vextir reyrðir niður með fölskum stögum.

Því lengur og dýpra sem við höldum áfram á þessari leið því erfiðara verður að snúa taflinu við og opna kerfið.  Skellurinn verður svo mikill að enginn stjórnmálamaður mun taka það í mál.  Í raun mun margt versna með árunum, sérstaklega vaxtabyrði af erlendum lánum sem þarf að endurfjármagna á margföldum vöxtum.

Þessi brenglaði innlendi fjármálamarkaður mun ennfremur leiða til rangra ákvarðana í fjárfestingaverkefnum.  Allt í einu verða pólitísk óarðbær verkefni arðbær í hinu falska umhverfi.  Sérstaklega er mikil hætta á að lífeyrissjóðirnir verði þvingaðir til að koma með sínar erlendu eignir yfir í íslenskar krónur á vöxtum sem alls ekki endurspegla áhættuna.  Þetta hefur nú þegar gerst, eins og ég hef skrifað um þegar lífeyrissjóðirnir keyptu íslensk bréf Seðlabankans á háu yfirverði með gjaldeyri.  Fórnarávöxtun lífeyrissjóðanna var umtalsverð sem mun koma niður á lífeyrisgreiðslum í framtíðinni.

Það sem er svo furðulegt er að engin umræða var um þessi kaup lífeyrissjóðanna sem út frá fjárfestingarsjónarmiði voru að mörgu leyti andhverfa Magma málsins.  Mismunurinn er auðvita að í fyrra dæminu voru Íslendingar báðum megin við borðið en í hinu seinna sitja útlendingar öðru megin!

Á meðan þetta ástand varir og fjárfestingar á Íslandi snúast um flest annað en áhættu og arðsemi verður algjör stöðnun í atvinnutækifærum næstu kynslóðar.

Er ekki nóg að færa næstu kynslóð ósjálfbæran skuldabagga þarf líka að tæma þeirra framtíðarlaunaumslag?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.8.2010 - 18:13 - 15 ummæli

Svíar stefna á skattalækkanir

Taflið á Norðurlöndunum hefur aldeilis snúist við.  Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar hefur tilkynnt að ríkisstjórn hans vonist eftir að geta innleitt SEK 15bn lækkun skatta og létt lífeyrisþegum lífið á næstu árum.

Á sama tíma eru ekkert nema skattahækkanir á dagskrá á Íslandi næstu 4 árin og eins og venjulega eru lífeyrisþegar í framvarðasveit að taka á sig byrðarnar.

Ríkisfjármál Svía eru einhver þau bestu í Evrópu enda nýtur sænska ríkið bestu lánskjara í heimi AAA.  Ísland er á hinum endanum og virðist vera að tapa baráttunni að falla ekki í ruslaflokk þrátt fyrir fjármálahöf og endalausar skattahækkanir.

Íslendingar í leit að betri og stöðugri lífskjörum, gætu gert margt vitlausara en að flytja til Svíþjóðar.

Hvernig Svíþjóð hefur komist svona létt út úr kreppunni verandi í ESB er auðvita ráðgáta sem við ræðum ekki hér.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.8.2010 - 07:44 - 12 ummæli

Jaðarskattur á fjármagn stefnir í 55%

Morgunblaðið greinir frá hugmyndum ríkisstjórnarinnar um hækkaða skatta sem, ef reynast réttar, eiga eftir að hafa mikil áhrif á nýsköpun og fjármagnsmyndun hér á landi.

Margt bendir til að nýi auðlegðarskatturinn fari upp í 1.5% og fjármagnsskattur upp í 25%.  Á sama tíma fara vextir lækkandi þannig að hlutfallslega eykst vægi auðlegðarskattsins langt umfram 0.25%.  Tökum dæmi.

Hæstu vextir á bankabók eru nú rétt undir 6% og fara lækkandi.  2011 má búast við að þessir vextir verði komnir niður í 5%.  Fyrir þá sem eru í auðlegðarþrepinu, verður jaðarávöxtun eftir skatta á þessari bankabók 2.25%, þ.e. 55% fara í skatta af síðustu ávaxtakrónunni.

Ekki verður ástandið betra hjá fasteignaeigendum.  Þar stefnir í að sumir verði að borga allt að 2% eignarskatt af sínum fasteignum.  1.5% til ríkisins og 0.5% til sveitarfélagsins í formi fasteignaskatts (hámark í dag).  M.ö.o eign sem ekki gefur arð af sér er tekin upp af hinu opinbera á 50 árum.

Þar með er eignarréttur á Íslandi orðinn takmarkaður.  Þeir sem eiga of „miklar“ eignir eru í raun leigutakar hjá hinu opinbera.

Það hættulegasta við þessa skattlagningu eru áhrifin á hegðun frumkvöðla sem hafa orku, vilja og metnað til að standa í fjármagnsmyndun sem getur skapað fjölda atvinnustarfa.  Þeir munu einfaldlega flytja úr landi með sínar hugmyndir þar sem skattakerfið er „vinsamlegra“ og auðveldara verður fyrir þá að byggja upp sparnað fyrir sig og sína afkomendur.

Skilningur á Íslandi á hlutverki fjármagns sem undirstöðu fyrir atvinnusköpun og góðum lífskjörum er lítill.  Sagan kennir okkur að þær þjóðir sem halda að ríkið geti fjármagnað allt og ekki þurfi að hlúa að fjármagnseigendum gera það á eigin kostnað.  Afríka og Suður-Ameríka er full af svona dæmum.  Á hinn bóginn er mikil respekt borin fyrir fjármagni í Asíu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.8.2010 - 07:47 - 11 ummæli

Fjárfestar flýja

Fréttablaðið greinir frá á forsíðu í dag að erlendir fjárfestar hafi hætt við fjárfestingu í Íslandsbanka.  Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart.  Þeir fyrstu sem flýja í óvissuástandi eru varkárir og heiðarlegir fjárfestar.  Þar með er búið að ryðja samkeppni úr vegi og völlurin er nú opinn fyrir „aðra“ fjárfesta.

Þessir aðrir fjárfestar eru líklega óprúttnir erlendir spekúlantar og þeirra góðvinir – gömlu útrásarvíkingarnir íslensku.  Þegar búið verður að eyða erlendum eignum lífeyrissjóðanna vaknar spurningin hvar fæst meira erlent fjármagn?  (gjaldeyrir er jú heróín Íslendinga).  Jú, þá verður dustað af gömlu útrásarvíkingunum, þeir voru nú ekki svo slæmir munu menn segja, og eftir smá kattarþvott verða þeir og þeirra fjármagn boðið velkomið.  Þeir eru Íslendingar og einhvers staðar verða vondir að vera.

Það er nú varla tilviljun að þessi frétt birtist á forsíðu Fréttablaðsins?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.8.2010 - 17:50 - 11 ummæli

Stjórnlagaþing fyrir þjóðina

Nú er komin dagsetning fyrir stjórnlagaþing í haust.  Gríðarlega mikilvægt er að kynna þessa kosningu vel fyrir almenningi og skora á breiðan hóp úr þjóðfélaginu að bjóða sig fram.  Svona kosning má alls ekki að vera á vegum stjórnmálaflokkanna og allar aðferðir þeirra við að koma sínu fólki að eiga að hringja viðvörunarbjöllum hjá kjósendum.

Nú verður þjóðin að vera vakandi.  Þeir sem hafa mesta reynslu af kosningum eru jú stjórnmálamennirnir.  Því verða kjósendur að taka vel eftir hvernig fólk kemur sér á framfæri og undir hvaða fána það fylkir sér.  Allir sem njóta „stuðnings“ flokkanna og geta auglýst sig á „faglegan“ og áhrifaríkan hátt mega ekki skyggja á hinn almenna frambjóðenda.

Á Alþingi sitja aðeins 63 svo í mesta lagi getur einn Alþingismaður setið á þessu stjórnlagaþingi, annað væri óeðlilegt.  Sama á við fjölmiðlafólk, það má ekki troða sér hér fram og misnota sína aðstöðu sem þekkt andlit.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.8.2010 - 06:44 - 4 ummæli

Sjálfstæðara Alþingi

Ein lexía af klúðrinu um lögfræðiálit Seðlabankans, stofnun sem heyrir undir framkvæmdavaldið, er að Alþingi verður að fara að vinna á sjálfstæðari hátt.

Alþingi verður að fara að taka frumkvæðið um lagasetningu og hafa á sínum snærum hóp sérfræðinga óháða frá framkvæmdavaldinu.

Nefndir Alþingis þurfa að vera a.m.k. jafn upplýstar um mál líðandi stundar og fulltrúar framkvæmdavaldsins.

Án sjálfstæðrar upplýsingaveitu getur Alþingi ekki sinnt sínu starfi og mun halda áfram að verða háð framkvæmdavaldinu um hvað og hvenær það fær skammtaðar fréttir af mikilvægum málum sem viðkemur kjósendum.

Það getur aldrei talist lýðræðislegt að ókosnir fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi upplýsingar sem kosnir fulltrúar kjósenda hafa ekki tímanlegan aðgang að.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.8.2010 - 16:22 - 3 ummæli

Íslandsstofa: Steinn Logi hæfastur?

Pressan greinir frá ótrúlegu ráðningarferli hjá Íslandssofu þar sem segir: „Hörð átök voru um ráðningu framkvæmdastjóra Íslandsstofu. Hæfustu umsækjendum var fórnað og lægsti sameiginlegi samnefnari var ráðinn til að sætta stríðandi aðila. Núverandi framkvæmdastjóri var því málamiðlun.“

Hvert er hlutverk Íslandsstofu?  Samkvæmt vefsíðu þeirra er það:

„Íslandsstofa tók til starfa 1. júlí 2010 og sameinar starfsemi Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu og erlent markaðsstarf Ferðamálastofu.   Íslandsstofa verður þó annað og meira en einföld samlagning þeirrar starfsemi sem þegar var fyrir hendi, því henni er ætlað víðtækara starf sem snýr m.a. að því að styrkja ímynd og orðspor Íslands og styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis.“

Það er því nokkuð ljóst að reynsla og þekking af erlendu markaðsstarfi ætti að vera lykilatriði fyrir nýjan framkvæmdastjóra ásamt góðum leiðtogahæfileikum.

Nú ætla ég ekki að fara að dæma þá sem sóttu um, enda veit ég ekki deili á þeim nema að því leyti sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum.  Hins vegar verður að segjast að ef það er rétt, sem Pressan greinir frá, að Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi markaðsstjóri Icelandair, fyrrverandi forstjóri Húsasmiðjunnar og fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar hafi sótt um starfið og ekki fengið viðtal er maður orðlaus.

Stjórn Íslandsstofu þarf að gera fulla og ítarlega grein fyrir sínu vali.  Sú greinargerð þarf að styðjast við faglegt mat óháðs aðila.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.8.2010 - 08:44 - 3 ummæli

Hið 100 ára vandamál

Þegar ný vinstristjórn í Danmörku bauð Íslendingum heimastjórn rétt eftir aldarmótin 1900 með einn ráðherra búsettan í Reykjavík voru landsmenn í sjöunda himni eins og búast mátti við.  Fáir gerðu sér þó grein fyrir hvaða afleiðingar þetta átti eftir að hafa næstu öldina og líklega erum við nú að taka út hinar verstu afleiðingar af þessari ákvörðun.

Í stjórnarskrárdeilunni á þessum árum um 1900 höfðu verið nokkrar umræður um að fara fram á tvo ráðherra við Dani, annan búsettan í Kaupmannahöfn og hinn í Reykjavík og var hér höfðað til fyrirkomulags Norðmanna og Svía.

Það voru líklega mikil mistök að fara ekki þessa norsku leið enda sjá augu betur en auga!

Að skipta landshöfðingja út fyrir heimastjórn með einn ráðherra var ekki nóg.  Með aðeins einn ráðherra myndaðist hefð fyrir „ráðherraveldi“  í anda gamla landshöfðingjans sem enn bjagar landsmenn.  Með tveimur ráðherrum hefði æðsta valdið á Íslandi dreifst og meiri umræða og skoðanaskipti hefði orðið um málefni líðandi stundar.  Þó ráðherrum fjölgaði síðar urðu þeir eins konar kópíur af þeim fyrsta, einráðir á sínu sviði, því lengi býr að fyrstu gerð.

Það er löngu orðið tímabært að þjóðin setji sér sína eigin stjórnarskrá þar sem framkvæmdavaldinu eru settar lýðræðislegar skorður og staða og völd ráðherra eru vel skilgreind og í samræmi við þarfir heildarinnar.

Þetta 100 ára gamla vandamál þarf að leysa sem fyrst.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur