Jæja, þá mun ekki líða á löngu áður en að íslenska lögreglan fái sína KBG deild, þar sem hún mun hafa óheftan aðgang að einkalífi borgaranna. Dómsmálaráðherra segir að vísu hafa sínar efasemdir um þetta en bendir á að svona deild muni starfa undir ströngu eftirlit og umsjón Alþingsins. Það ætti að róa borgarana, eða hvað?
Hvaða reynslu hafa Íslendingar í að reka öflugar og óháðar eftirlitsstofnanir og hvert er traust almennings til þingsins. Nei, þetta boðar ekki gott.
Eitt aðalsmerki íslensks lýðræðis hefur verið að hér á landi höfum við getað búið í sátt og samlyndi án leynilögreglu. Það var alltaf sagt að hér þekki allir alla svo engin þörf sé fyrir leyniþjónustu.
Reynsla annarra þjóða sýnir að rekstur leynilögreglu er miklu erfiðleikum háð, kostnaðurinn er gífurlegur og eftirlitið eitthvað það erfiðasta sem til er. Ef við getum ekki haft eftirlit með bönkum er borin von að við getum haft eftirlit með leynilögreglu. Íslenska stjórnsýslu skortir allan faglegan grunn til að taka þetta vandasama verk að sér.
Útkoman af þessari tilraun getur orðið hræðileg, einkalíf margar verður eyðilagt, rannsóknir verða byggðar á vafasömum grunni, klíkuskapur og ættartengsl munu ráða hvernig tekið verður á hinum og þessum.
En það sem verður langhættulegast er þegar þessi „Stasi“ deild verður notuð í pólitískum tilgangi. Það er aðeins tímaspursmál hvenær hún verður notuð á lymskulegan hátt til að þakka niður í óþægilegum einstaklingum. Svo er alltaf hætta á að þessi deild verði ríki í ríkinu og haldi þingmönnum, ráðherrum og dómurum í gíslingu í krafti þeirra upplýsinga sem hún aflar.
Ég ráðlegg Rögnu að lesa bækur Stieg Larssonar áður en lengra er haldið! Svona mál á að taka fyrir á nýju stjórnlagaþingi.
Ps. Munurinn á milli VG og D minnkar með hverjum degi!