Sunnudagur 23.5.2010 - 08:08 - 11 ummæli

OR: Grín tekur á djóki!

Það besta sem gæti hent OR er að Besti flokkurinn sigri í Reykjavík.  Þá mun grín taka á djóki, enda fylgir öllu gríni nokkur alvara.

Gömlu flokkarnir virðast hvorki skilja né hafa áhuga á fjárhagsstöðu OR.

Með Besta flokknum kemur nýtt fólk með nýja hugmyndir og áherslur.  En það er einmitt það sem stjórn OR þarf.

Nýir vendir sópa best.

PS. Vinsamlegast engar athugasemdir um að lengi geti vont versnað!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.5.2010 - 07:42 - 31 ummæli

Um „Højskole“ og „Universitet“

Flestar þjóðir nota latneska orðið „universitas“ yfir sínar æðstu menntastofnanir.  Danir nota orðið „universitet“og „højskole“ yfir sínar æðri menntastofnanir en hér er munur á.  Danir nota orðið „højskole“ á svipaðan hátt og Þjóðverjar nota „hochschule“.  Þetta mætti kalla fagháskóla sem sérhæfa sig í fögum tengdum atvinnulífinu.  Hér má nefna Handelshøjskolen og Danmarks Tekniske Højskole sem að vísu hefur nýlega breytt um nafn og kallar sig nú Universitet, enda eru þar stundaðar miklar rannsóknir og skólinn útskrifar marga doktorsnema á hverju ári.

Þegar kemur að hinum „klassísku“ fögum, eins og guðfræði, lögfræði, læknisfræði eða stærðfræði er ein stofnun sem ber herðar og höfðu yfir aðrar í Danmörku og það er Københavns Universitet, æðsta og elsta menntastofnun Dana.  Flestir eru sammála um þetta, enda eiga nær öll lönd eina (stór lönd eiga fleiri)  menntastofnun sem skarar fram úr, t.d. Harvard í Bandaríkjunum.

Það sem einkennir æðstu menntastofnun í hverju landi er einkum:

1. þar fara fram miklar rannsóknir enda er rannsóknarskylda prófessora mikil

2. þar sækjast efnilegustu stúdentarnir eftir að stunda nám

3. þar keppast hæfustu kennarar og vísindamenn um prófessorsstöður

4. þar er boðið upp á viðurkennt doktorsnám

Á Íslandi er aðeins ein stofnun sem gæti kallast „univeristet“ og það er Háskóli Íslands, allar aðrar stofnir sem kalla sig háskóla eru „højskole“  og ber að sameina og endurskipuleggja.

Það er ekki rétt af HÍ að taka yfir HR.  Betra væri að við notuðum strúktúr Dana og Þjóðverja og byggðum upp einn „universitet“ og einn fagháskóla með útibú úti á landi.  Þannig myndi HÍ kenna hin „klassísku“ fög eins og gert er í Hafnarháskóla.  Fagfögin eins og verkfræði, viðskiptafræði og landbúnaðarfræði færðust yfir í nýja sameinaða og endurskipulagða stofnun FHÍ (Fagháskóli Íslands) sem tæki yfir HR, Bifröst og aðrar háskóla.

Lögfræði eins og læknisfræði á heima í HÍ.  Allt of mikil útvötnun hefur orðið á lögfræðinámi hér á landi, taka þarf þetta fag föstum tökum og setja undir einn hatt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.5.2010 - 10:02 - 8 ummæli

Ráðherrar og atvinnurekstur

Íslendingar hafa óbilandi trú á ráðherrum og ríkisstjórnum.  Stjórnmálamenn sem fæstir hafa nokkurn tíma komið að atvinnurekstri og flestir eru aldir upp á ríkismölinni í Reykjavík eru ekki í stakk búnir að reisa við atvinnulíf heillar þjóðar.  Þeir sem hafa óbilandi trú á þessari leið munu þurfa að bíða lengi.

Athyglisvert er að líta á ástandið hér á landi út frá framboði og eftirspurn eftir fólki og fjármagni.

Opinberir aðilar er allir af vilja gerðir til að koma hjólum atvinnulífsins af stað en skortir bæði aðgang að fjármagni og reyndu fólki.

Einkageirinn á mikið af hæfu fólki en það er upptekið í eigin björgunaraðgerðum og þeir fáu sem hafa reynslu, tíma og þekkingu til að skapa ný tækifæri skortir fjármagn á viðráðanlegu verði.

Bankarnir eru uppteknir af eigin vandamálum og meiri  orka  fer þar í að reyna að bjarga rjúkandi rústum en að byggja upp nýtt.

Ofan á þetta bætist að jafnvel þó atvinnuleysi nálgist 10% þá er eftirspurn í hagkerfinu veikari en framboðið.   Það er því lítið vit í að skapa ný störf fyrir yfirmettaðan innlendan markað.  Eina leiðin er atvinnuuppbygging sem byggir á erlendri eftirspurn. 

Því miður hafa Íslendingar ekki mikla reynslu í að byggja upp fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu til útlendinga, nema að hluta til í fjórum geirum – ferðamennsku, sjávarútvegi og hugbúnaðar- og orkuiðnaði.  Þetta er sá litli grunnur sem við verðum að byggja á.  En til að svo megi verða þarf að leiða saman fólk með reynslu og hæfileika og fjármagn.  Og hér erum við komin að vandamálinu.

Margt af því fólki sem ætti nú að vera í atvinnuuppbyggingu er að eyða tíma í að bjarga fyrirtækjum sem voru byggð upp fyrir allt aðrar aðstæður en ríkja nú.  Allt of mikill tími hefur farið í björgunaraðgerðir og of lítill í uppbyggingu.  Tapaður tími er töpuð tækifæri.

Sama má segja um fjármagnið.  Mikið af því er bundið í vonlausum fyrirtækjum sem vafasamt er að hafi einhverja framtíð.  Innlent fjármagn er á ósamkeppnishæfu verði og aðgangur að erlendu fjármagni er að mestu lokaður og fæst aðeins á óheyrilegu verði nema með aðkomu erlendra fjárfesta sem hafa betra lánstraust en íslenska ríkið.

Atvinnuuppbygging við þessar aðstæður er erfið og ekki á færi ráðherra að leysa upp á eigin spýtur.  Hér þarf að stokka upp á nýtt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.5.2010 - 06:58 - 13 ummæli

Suður-Ameríkuvæðing Íslands

Suður-Ameríka hefur löngum haft orð á sér fyrir óviðráðanlegar skuldir, gríðarlega spillingu, pólitískan óstöðuleika og hræðslu við útlendinga og erlendar fjárfestingar. 

Skandinavía er hins vegar þekkt fyrir ráðdeild, heiðarleika, pólitískan stöðuleika og sjálfsöryggi í samstarfi við erlenda aðila.

Í dag, á Ísland fátt sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum nema fortíðina, nútíðin er Suður-Ameríka.  Spurningin er hvað með framtíðina?  Hvert stefnum við?  Ætlum við að umbylta okkar samfélagi og tilheyra hinum Norðurlöndunum eða er það verkefni óyfirstíganlegt vegna hagsmunaárekstra?  Ef svo er, er mikilvægt að ákveða hvaða Suður-Ameríkufyrirmynd við kjósum – Argentína, Venesúela, Bólivía eða Brasilía?  Öll þessi lönd hafa farið sínar leiðir með mismundi árangri. 

Miðað við umræðuna í þjóðfélaginu í dag, fær maður á tilfinninguna að mikil stemning sé fyrir Venesúela og Bólivíu.  Neita að borga erlendar skuldir, ríkisvæða öll helstu fyrirtæki og allar auðlindir og segja alþjóðasamfélaginu stríð á hendur. 

Eitt er víst, framtíðarsýn Íslands er eins þokukennd sem fyrr.  Var einhver að tala um ESB?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.5.2010 - 10:33 - 12 ummæli

ENRON og Ísland: sama hegðunarmynstur

Það er alltaf að koma betur í ljós hvað hrunið á Íslandi á margt sameiginlegt með Enron.  Sérstakur þáttur sem er vert að skoða er ákvarðanataka innan íslensks samfélags.  Hún minnin á margt um vinnubrögðin hjá Enron og rökin sem liggja henni til grundvallar eru þau sömu.

Eitt sem Jeff Skilling, fyrrum forstjóri Enrons sem enn situr í fangelsi að mér vitandi, sagði að hefði verið undirstaða „velgengni“ Enrons var skjót ákvarðanataka.  Þar með gat Enron náð í verkefni og fjárfestingar áður en aðrir gátu lokið sinni heimavinnu.  Til að halda forskoti á keppinautana var besta að allar ákvarðanir væru teknar af honum sjálfum og í hæsta lagi var stjórnarformaður eða fjármálastjóri látinn vita.  Umfram allt varð að halda öllum veigameiri ákvörðunum í höndum örfárra einstaklinga sem höfðu sömu sýn á hlutina.  Það hefði aldrei gengið upp að láta 5 manna stjórn taka ákvarðanir að sögn Jeffs, slíkt hefði drepið allt frumkvæði og framfarir!  Sem sagt, Enron hefði aldrei orðið að Enron ef ákvarðanir hefðu verið teknar af hópi einstaklinga með mismunandi reynslu og þekkingu. 

Hér er komið að kjarna málsins.  Hrun Íslands má nefnilega rekja miklu meir til einsleitinnar og óábyrgrar  ákvarðanatöku örfárra einstaklinga, sem ekki trúðu á teymisvinnu, en einhverrar hugmyndafræði.  Málið snýst um hegðun en ekki theoríu.

Þetta átti ekki aðeins við í bönkunum og hjá útrásarvíkingunum, heldur einnig í stjórnsýslunni.  Allt var á sömu Enron-bókina lært, alls staðar.  Það sem er svo sorglegt er að við skulu þurfa að endurtaka mistök annarra þjóða trekk í trekk.  Og enn erum við, við sama heygarðahornið – ráðherraveldið gnæfir yfir öllu hér og ef eitthvað er, hefur ákvarðanataka í íslensku þjóðfélagi orðið einsleitari og þrengri eftir hrun en fyrir.  Hér er ég ekki að leggja mat á gæði ákvarðanatöku heldur að vekja athygli á ferlunum og áhættuþáttum þeim samfarandi.  Pendúlinn hefur einfaldlega sveiflast í hina áttina, enn er það mjög þröngur og einsleitur hópur sem situr í brúnni en tekur nú  helst engar ákvarðanir nema þær feli í sér boð eða bönn. 

Ekki svo að skilja, að ekki þurfi að styrkja regluverkið og bæta vinnubrögðin, en það er verk sem átti að gerast 2009 og vera löngu búið.  Nú, 2010, hefðu menn átt að vera að byggja upp ný atvinnutækifæri og  byrja á nýjum fjárfestingum.  Í staðin eru skilaboðin að útlendingar eigi að halda sér sem lengst frá Íslandi með sína peninga, lífeyrissjóðirnir eigi að koma að uppbygginu atvinnulífsins í framtíðinni en ekki strax, því enginn treystir sér að taka ákvörðun um hvar og hvernig slíkt geti gerst.  Nei, best er að gera sem minnst,  því þá er ekki hægt að gagnrýna menn fyrir rangar ákvarðanir.

Það er hverri þjóð dýrmætt að eiga sér góða og hæfa leiðtoga en þar erum við Íslendingar, því miður, sárafátækir og höfum verið um langt skeið 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.5.2010 - 14:20 - 12 ummæli

Ríkið í útrás með tóman kassa?

VG virðast vilja ríkið í útrás og bregðast við eins og gamlir útrásarvíkingar sem misstu af draumadíl.  Allt er á sömu bókina lært.  Útrás ríkisins á að vera upp á gamla mátann, kassinn tómur og allt á lánum.

Hvernig hugðust Steingrímur og Ögmundur borga fyrir hlut HS Orku?  Með því að skera enn meira niður hjá sjúkum, öldruðum eða öryrkjum?  Kassinn er tómur og AGS leyfir engar meiri lántökur.  Það er því tómt mál að tala um að ríkið hefði getað komið að þessum kaupum.

Þessi sala til Magma sýnir að á Íslandi er enginn starfhæfur fjármálamarkaður, aðeins útlendingar geta verslað með raunverulegar eignir, aðeins þeir hafa lánstraust og aðgang að raunverulegu fjármagni.

Þessi sorgarsaga ætti að sannfæra menn um að 16,000 störf verða ekki sköpuð hér í bráð nema með aðstoð erlendra fjárfesta.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.5.2010 - 09:52 - 14 ummæli

Að skattleggja sig til hagsældar

Egill Helgason skrifar hér á Eyjunni um hugmyndir Ólafs Reynis Guðmundsonar um að skattleggja álverin og ferðamenn til að stoppa í fjárlagagat ríkisins.  Hugmyndin hljómar vel en gæti reynst hættuleg og sett slæmt fordæmi.

Margir telja að álverin þoli hærra raforkuverð vegna þess að það sé svo lágt án þess að taka heilstætt á hagnaðarútreikningi álvinnslu á Íslandi.  Hráefnið í álvinnslu, báxítið, kemur frá Ástralíu og stærsti álnotandinn er Kína.  Landfræðilega liggur Ísland langt frá báðum þessum löndum.  Flytja þarf því hráefnið og álið næstum hringinn í kringum jörðina með skipum sem brenna olíu til þess að vinna það á Íslandi.  Þetta er kostnaður sem draga þarf frá rafmagnsverðinu hér á Íslandi til að gera okkur samkeppnishæfa.

Síðan má ekki gleyma að ekkert hræðir erlenda fjárfesta meir en óstöðuleiki og enginn óstöðuleiki er verri en skattaóstöðuleiki.  Ef farið verður að krukka með skattlagningu á álverin er hætt við að öll plön um ný álver verði lögð á hilluna og að pressa komi upp erlendis að loka elsta og óhagkvæmasta álverinu hér á landi.  Þá má búast við að aðrir erlendir fjárfestar bíði þar til langtíma skattastefna landsins skýrist!

Það er engin tilviljun að Írar hreyfðu ekki við skattlagningu á erlenda fjárfesta í sínum skattahækkunum og niðurskurði. Þeir vita vel að erlendir fjárfestar hafa alltaf val.  Þeir geta flutt sig til og önnur lönd standa alltaf reiðubúin að bjóða betri kjör.

Lönd sem ætla að nota erlenda ferðamenn til að koma sér út úr eigin vandamálum þurfa ekki annað en að líta til Grikklands til að sjá hvað gerist þegar útlendingar fá á tilfinninguna að þeir eigi að borga brúsann.

Það eru því miður engar töfralausnir til á skuldavanda þjóðarinnar.  Gríðarlegur niðurskurður er handan við hornið.  Fjárlög 2011 verða erfið en ekkert miðað við fjárlögin 2012.  Þá þarf að skera niður aðra 50 ma kr. ofan á það sem skorið verður niður 2011.

Nei, engin þjóð getur skattlagt sig til hagsældar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.5.2010 - 09:24 - 20 ummæli

Uppsagnir eða launalækkun?

Nú er komið í ljós sem margir vissu að skattahækkanir eru ekki að skila í kassann því sem búist var við.  Engin þjóð getur skattlagt sig inn í hagsæld.

Vinstri stjórn S og VG boðar nú niðurskurð upp á 50 ma kr.  Þessi upphæð stendur undir launakostnaði u.þ.b. 5000 ríkisstarfsmanna eða um það bil fjórðungs þeirra sem vinna hjá ríkinu.

Hvar á þessi þungi hnífur að falla?  Ekki hjá stjórnarráðinu ef marka má orð VG, ekki er mikil stemmning þar að skera niður æðstu toppa ríkisins, hins vegar virðist félagsmálaráðherra boða niðurskurð hjá sjúkum, öldruðum og öryrkjum.  Áherslurnar eins og þær birtast almenningi í gegnum fjölmiðla eru ótrúlegar og boða ekki gott.

En hverjir eru möguleikarnir í stöðunni?

Þar sem aðeins 5% af útgjöldum ríkisins fara nú í viðhald og framkvæmdir verður að skera niður í þeim köflum sem kallast tilfærslur og rekstur.  Þetta þýðir niðurskurð í velferðakerfinu og þjónustu við borgarana, lækkun launa ríkisstarfsmanna og uppsagnir af stærðargráðu sem jafnvel Margrét Thatcher hefði veigrað sér við.

Hvernig VG ætla að ná samstöðu um einn stærsta niðurskurð í íslenska velferðakerfinu er spurning sem menn ættu að velta fyrir sér.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.5.2010 - 23:26 - 13 ummæli

Sá yðar sem syndlaus er …

Heimur Biblíunnar hefur sífellt verið að fjarlægjast heimi nútímamannsins hér á landi en með hruninu hefur Biblían og hennar boðskapur öðlast nýja og ferska merkingu ef svo er hægt að komast að orði.  Hrunið hefur afhjúpað grunnhvatir og gildi sem margir héldu að væru gleymd og grafin.  Reiðin, heiftin og dómharkan virðist lítið breytt frá dögum Jesús.

Dæmisögur Biblíunnar eru allt í einu orðnar sögur nútímans aðeins með nýjum persónum og leikendum.  Öllu og öllum er afneitað fyrir fyrstu farsímahringingu dagsins.  Margir eru blogggrýttir áður en til dóms kemur.

Getum við tekið á hruninu og persónum þess út frá kristilegum gildum sem hafa mótað íslenskt samfélag öldum saman eða hrundu þau einnig með bönkunum?

Hvernig ætlum við að græða sárin og hlúa að næstu kynslóð án þess að byggja á grunni okkar forfeðra?  Hver er sá áttaviti er við nú fylgjum?  Vitum við það?

Er ekki rétt að staldra við og íhuga hvert við stefnum?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.5.2010 - 09:37 - 6 ummæli

OR orðin að vogunarsjóði

OR státar sig að góðri afkomu á fyrsta ársfjórðungi upp á kr. 7.2 ma.  En hvaðan kemur þessi hagnaður?  Kíkjum á málið.

Rekstrartekjur af orkusölu eru kr. 7.4 ma en tekjur af fjármálastarfsemi eru kr. 8.8 ma.  M.ö.o. mest af tekjum og yfir 75% af hagnaði  OR kemur frá fjármálabraski, ekki orkusölu.

Rekstur OR byggist ekki nema að hluta til á orkusölu, það sem skiptir OR mestu máli eru sveiflur í íslensku krónunni.  Það mætti líkja OR við vogunarsjóð sem hefur orkusölu sem hliðargrein.

Ljósi punkturinn í þessu milliuppgjöri er bættur rekstarhagnaður, hins vegar hafa skuldir aukist og sjóðsflæðinu er haldið gangandi með lántökum.

Hvernig OR breyttist úr veitufyrirtæki í vogunarsjóð er verðugt rannsóknarefni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur