Það er alltaf að koma betur í ljós hvað hrunið á Íslandi á margt sameiginlegt með Enron. Sérstakur þáttur sem er vert að skoða er ákvarðanataka innan íslensks samfélags. Hún minnin á margt um vinnubrögðin hjá Enron og rökin sem liggja henni til grundvallar eru þau sömu.
Eitt sem Jeff Skilling, fyrrum forstjóri Enrons sem enn situr í fangelsi að mér vitandi, sagði að hefði verið undirstaða „velgengni“ Enrons var skjót ákvarðanataka. Þar með gat Enron náð í verkefni og fjárfestingar áður en aðrir gátu lokið sinni heimavinnu. Til að halda forskoti á keppinautana var besta að allar ákvarðanir væru teknar af honum sjálfum og í hæsta lagi var stjórnarformaður eða fjármálastjóri látinn vita. Umfram allt varð að halda öllum veigameiri ákvörðunum í höndum örfárra einstaklinga sem höfðu sömu sýn á hlutina. Það hefði aldrei gengið upp að láta 5 manna stjórn taka ákvarðanir að sögn Jeffs, slíkt hefði drepið allt frumkvæði og framfarir! Sem sagt, Enron hefði aldrei orðið að Enron ef ákvarðanir hefðu verið teknar af hópi einstaklinga með mismunandi reynslu og þekkingu.
Hér er komið að kjarna málsins. Hrun Íslands má nefnilega rekja miklu meir til einsleitinnar og óábyrgrar ákvarðanatöku örfárra einstaklinga, sem ekki trúðu á teymisvinnu, en einhverrar hugmyndafræði. Málið snýst um hegðun en ekki theoríu.
Þetta átti ekki aðeins við í bönkunum og hjá útrásarvíkingunum, heldur einnig í stjórnsýslunni. Allt var á sömu Enron-bókina lært, alls staðar. Það sem er svo sorglegt er að við skulu þurfa að endurtaka mistök annarra þjóða trekk í trekk. Og enn erum við, við sama heygarðahornið – ráðherraveldið gnæfir yfir öllu hér og ef eitthvað er, hefur ákvarðanataka í íslensku þjóðfélagi orðið einsleitari og þrengri eftir hrun en fyrir. Hér er ég ekki að leggja mat á gæði ákvarðanatöku heldur að vekja athygli á ferlunum og áhættuþáttum þeim samfarandi. Pendúlinn hefur einfaldlega sveiflast í hina áttina, enn er það mjög þröngur og einsleitur hópur sem situr í brúnni en tekur nú helst engar ákvarðanir nema þær feli í sér boð eða bönn.
Ekki svo að skilja, að ekki þurfi að styrkja regluverkið og bæta vinnubrögðin, en það er verk sem átti að gerast 2009 og vera löngu búið. Nú, 2010, hefðu menn átt að vera að byggja upp ný atvinnutækifæri og byrja á nýjum fjárfestingum. Í staðin eru skilaboðin að útlendingar eigi að halda sér sem lengst frá Íslandi með sína peninga, lífeyrissjóðirnir eigi að koma að uppbygginu atvinnulífsins í framtíðinni en ekki strax, því enginn treystir sér að taka ákvörðun um hvar og hvernig slíkt geti gerst. Nei, best er að gera sem minnst, því þá er ekki hægt að gagnrýna menn fyrir rangar ákvarðanir.
Það er hverri þjóð dýrmætt að eiga sér góða og hæfa leiðtoga en þar erum við Íslendingar, því miður, sárafátækir og höfum verið um langt skeið