Lilja Mósesdóttir talar um markaðslaun og að menn þurfi að hækka og lækka í launum í takt við markaðslaun. En hver eru þessi markaðslaun og hver reiknar þau út? Eigum við óháða og sjálfstæða stofnun sem heldur utan um launakjör helstu stétta og birtir upplýsingar um markaðslaun reglulega? Hvaða gögn styðst Kjararáð við þegar það ákveður laun ríkisstarfsmanna?
Er ekki rétt að staldra aðeins við og huga að grundvallarskilgreiningum á hugtökum eins og „markaðslaun“ áður en lengra er haldið?
Eitt er víst að þegar stjórnmálamenn byrja að krukka í launatöxtum og skilgreiningum er voðinn vís. Hvergi er þetta augljósara en í bankageiranum.
Seðlabankinn og Landsbankinn eru undir Kjararáði en Íslandsbanka og Arion Banka er frjálst að ákveða laun út frá markaðsforsendum. Eins og staðan er í dag, eru bankastjórar Íslandsbanka og Arion banka með um 1.7 m kr á mánuði á meðan sömu stöður í Seðlabanka og Landsbanka eiga að vera undir launum forsætisráðherra. Ætli stærstu bankar landsins starfi á jafnréttisgrundvelli í svona kerfi? Hver eru rökin fyrir þessum mismun? Gerir þetta ríkisbankana samkeppnishæfari og sterkari? Ef svo er, af hverju flykkjast ekki hinir bankarnir til Kjararáðs?
Nú eru ansi margir starfsmenn hjá bönkunum með yfir 1 m kr á mánuði, eða yfir launum forsætisráðherra. Er eðlilegt að bankastjórar Seðlabankans og Landsbankans séu með handstýrð laun en þeirra undirmenn séu allir launahærri enda má borga þeim markaðslaun í samræmi við einkabankana? Hvaða tilgangi þjónar svona skrípaleikur? Er hér aðeins um pólitíska barbabrellu að ræða?
Nei, svona launastrúktúr er stórhættulegur og grefur undan réttlætiskennd og góðum viðskiptaháttum. Hann skapar vantraust hjá starfsfólki og gerir erfitt fyrir að ráða gott og hæft fólk. Sérstaklega á þetta við í stoðgreinum eins og lögfræði, tölvunarfræði og endurskoðun þar sem ríkið og bankarnir keppa við stærsta hluta einkageirans. Þá ýtir svona kerfi undir pólitískar ráðningar í æðsu stöður og hyglar einstaklingum sem setja völd og ítök ofar öllu.
Ráðherrar eiga ekki að skipta sér af markaðslaunum, þeirra verk er að sjá svo um að allar stofnanir og fyrirtæki í landinu starfi á jafnréttisgrundvelli.