Þriðjudagur 11.5.2010 - 22:24 - 3 ummæli

Seðlabankinn og Kaupþing

Stærð og umfang Kaupþingsmálsins virðist verða af stærðargráðu sem fáir hafa getað gert sér grein fyrir.  Maður er hreint agndofa.

Stóra spurningin er, á hvaða forsendum báðu Kaupþingsmenn um 80 ma kr. lán frá Seðlabankanum.  Í hvað átti þetta lán að fara og hvaða eftirlit hafði Seðlabankinn með þessu láni?  Hvaða gögn lagði Kaupþing fram önnur en veð í FIH bankanum í Danmörku?  Voru þessi gögn sannreynd af starfsmönnum Seðlabankans?  Er til ýtarleg skrifleg lánaumsókn í Seðlabankanum?  Eða var þetta munnlegt eins og með Glitni?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.5.2010 - 20:13 - 11 ummæli

Lítið land þarf ekki fleiri en 6 ráðuneyti

Fámennt land eins og Ísland þarf eingöngu 6 ráðherra. Þannig væri hægt að gera ráðuneytin stærri, faglegri og ódýrari. Hugsa verður málið upp á nýtt og gleyma núverandi skipulagi.

Hér er ein tillaga:

  1. Forsætisráðherra
  2. Utanríkisráðherra
  3. Fjármálaráðherra
  4. Innanríkisráðherra
  5. Atvinnu- og efnahagsmálaráðherra
  6. Velferðamálaráðherra

Það eru auðvita til margar aðrar tillögur, en stjórnarráðið verður að setja gott fordæmi og skera fyrst niður hjá sér áður en hinn mikli niðurskurður 2011 verður tilkynntur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.5.2010 - 15:15 - 4 ummæli

Dómgreinarlaus Hæstiréttur?

Magnús Guðmundsson hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurð til Hæstaréttar. Lögmaður hans, Karl Axelsson, er tengdur Jóni Steinari hæstaréttadómara enda unnu þeir saman á sömu lögmannsstofu samkvæmt frétt í DV. Þetta er ansi óheppilegt en sem betur fer sitja fleiri en 3 dómarar í Hæstarétti svo auðvelt ætti að vera að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í svona viðkæmu og mikilvægu máli.

Hér er um æðsta dómstól landsins að ræða svo gera verður meiri kröfur um góð vinnubrögð og dómgreind en gengur og gerist annars staðar í þjóðfélaginu.

Það er því með ólíkindum að sú frétt berist til almennings að Hæstiréttur hafi skipað Jón Steinar einn af þremur dómurum til að dæma í þessu máli. Hvað segir það okkur um dómgreind Hæstaréttar?

Er hægt að hafa dómgreindarlaust dómsvald í siðmenntuðu lýðveldi?

Hér er enn eitt dæmið um nauðsyn þess að fá nýja stjórnarskrá og það sem fyrst.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.5.2010 - 09:15 - 5 ummæli

Niðurskurður: „eins dauði er annars brauð“

Ríkisstjórnin boðar nú niðurskurð sem er forsenda fyrir endurreisn einkageirans. Niðurskurður er nauðsynlegur til að vextir lækki og erlendir fjármálamarkaðir opnist. Niðurskurður er því miður eina afísingarefnið sem dugar á atvinnulífið í okkar stöðu.

Spurningin er, treystir VG sér að standa í brúnni og stýra einum mesta niðurskurði í sögu landsins. Hugmyndafræðilega er það sjálfsmorð og búast má við að órólegu deildinni líki meðalið illa.

Vandamálið í okkar hagkerfi er að við verðum að flytja störf frá hinu opinbera, bönkum, verslun og byggingariðnaði yfir í gjaldeyrisskapandi störf. En þau störf verða ekki sköpuð nema með innlendu og erlendu fjármagni á viðunandi kjörum. Og þar sendur hnífurinn í kúnni. Fjármálamarkaðir verða að sjá traustvekjandi plan þar sem fjármögnunarþörf ríkisins er skorin niður. Það er ekki í boði lengur að lifa um efni fram á AGS lánum.

Þetta hafa menn vita en vegna pólitískra hugmyndafræði hefur niðurskurði verið frestað. Einkageirinn hefur verið látinn taka á sig atvinnuleysið hingað til en nú er tíminn að renna út. Nú er komið að hinum viðkvæma viðsnúningi þar sem ríkið þarf að skera niður til að endurreisa einkageirann sem aftur styrkir skattstofninn. Það er alveg ljóst að það verður að koma þessari hringrás af stað en hún kallar á tímabundna erfileika og sársauka.

Eins og sagt er “eins dauði er annars brauð” og það á við hér.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.5.2010 - 07:48 - 19 ummæli

Sjálfstæði Seðlabankans fórnað

Seðlabanki Íslands er einhver mesta hrakfalla stofnun sem Íslendingar hafa átt.  Allt er þetta stjórnmálamönnum að kenna sem sjá Seðlabankann ekki sem hornstein nútíma hagkerfis heldur sem pólitískt bitbein og eftirlaunastofnun.

Það er sorglegt að sjá hvernig sverðið hefur snúist í hendi Jóhönnu.  Hún kom Davíð út en fellur síðan í sömu gildru og hann.  Svo virðist sem íslenskir ráðherrar skilji ekki hugtakið „sjálfstæður“.

Ef Seðlabankinn á að vera sjálfstæð stofnun þá á stjórn bankans að ákvarða launakör sama hversu ósamála ráðherrar eru því.  Ráðherrar eiga að þegja og alls ekki að tjá sig um störf eða ákvarðanir bankans.  Slíkt grefur ekki aðeins undan Seðlabankanum heldur einnig ráðherrum og þeirra dómgreind.

Þessi barátta um laun Seðlabankastjóra er miklu mikilvægari en margir gera sér grein fyrir.  Hér er verið að berjast fyrir sjálfstæði bankans.  Ef stjórnarformaður lætur í minni pokann, hefur hún gefist upp og allt tal um að bankinn sé sjálfstæð stofnun er ótrúverðugt.

Eina færa leiðin er fyrir stjórnarformanninn að standa við sín orð eða að segja af sér.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.5.2010 - 14:58 - 9 ummæli

Gjaldmiðill og hagstjórn: Hvert á að halda?

Í framhaldi af síðustu færslu og umræðu um stöðu Íslands í gjaldmiðlamálum, freistast ég nú til að draga upp dálitla skematíska mynd af stöðunni.  Vonandi hjálpar hún við að aðgreina hinar mismunandi leiðir sem okkur standa til boða og útskýrir um leið hvað er líkt og ólíkt með Íslandi og Grikklandi.

Spurningin er hvert á að halda – A, B eða C?  Ætli A sé betri en B og B betri en C?  Er B nauðsynlegur „áningarstaður“ á leið A?

Þegar leiðin hefur verið valin er gott að fara undirbúa sig og gera áætlun um hvernig við ætlum að komast á leiðarenda.  Ekki satt?

PS.  Svo getur fólk velt fyrir sér á hvaða leið Grikkir séu?  Margir halda því fram að þeir eigi að koma í okkar sælureit!

Gjaldmidill.001

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.5.2010 - 10:47 - 29 ummæli

Upptaka dollarans rökrétt

Núverandi kynslóð á Íslandi mun ekki sjá upptöku evru hér á landi jafnvel þó að við göngum í ESB innan nokkurra ára.  Í fyrsta lagi munum við ekki uppfylla Maastricht skilyrðin næstu 30-40 árin og í öðru lagi hafa Grikkir sett evrusamstarfið í uppnám og framtíð sameiginlegs gjaldmiðils í Evrópu er óviss í meira lagi.

En er evran rökréttur gjaldmiðill fyrir Ísland?  Við erum að meirihluta orku- og hráefnisútflytjendur.  Í framtíðinni mun orkusala verða sá þáttur í okkar hagkerfi sem leggur grunninn að endurreisn hagkerfisins.  Að því leyti erum við miklu betur sett en löndin við Miðjarðarhafi.  Og að þessu leyti erum við ólík öðrum ESB löndum.

Orka og hráefni eru að mestu verðlögð í dollurum.  Landsvirkjun gerir upp í dollurum enda eru lán og tekjur hennar í dollurum.  Álið okkar er verðlagt í dollurum.  Útgerðin er með stóran hluta af sínum kostnaði í dollurum.  Vissulega er stór hluti af okkar innflutningi í evrum og sama gildir um tekjur af sjávarútvegi, en það eru ekki nógu sterk rök eins og staðan er í dag til að taka upp evru.

Það er því ljóst að við erum og verðum mikið dollaraland.  Því er rökrétt að við hugum að upptöku dollara.  Þetta er viðurkennd leið, mörg örríki um allan heim nota dollarann og Seðlabanki Bandaríkjanna myndi ekki setja sig á móti þessari leið á sama hátt og Seðlabanki Evrópu.

Sveigjanlegur haftagjaldmiðill er ekki markmið í sjálfu sér, hann er aðeins nauðsynlegur þegar hagstjórn fer úr öllum böndum.  Lönd sem ætla sér að búa við lélega og óábyrga hagstjórn verða auðvita að hafa gjaldmiðil eins og krónuna áfram.  Hún er hjálpartæki skussans.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.5.2010 - 06:55 - 2 ummæli

Kaupþingsmenn feta í fótspor Guinness

Hér er blogg um markaðsmisnotkun sem ég skrifaði í október á síðasta ári.  Sagan endurtekur sig alltaf – eða hvað?

———–

Eitt frægasta dómsmál um markaðsmisnotuð í Bretlandi var hið svokallaða „Guinness four“ málið þar sem fjórir stjórnendur Guinness voru dæmdir í fangelsi 1990 eftir að vera fundnir sekir um að „styrkja“ verð á hlutabréfum Guinness með alls konar aðferðum í því skyni að hækka verðið sem fengist í yfirtöku Distillers á Guinness.

Málið var mjög umdeilt, var áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu sem dæmdi að fjórmenningarnir hefðu verið þvingaðir af breska viðskiptaráðuneytinu til að gefa pólitíska yfirlýsingu sem skaðaði þá í réttarhöldunum. Dómnum var áfrýjað til æðsta dómstóls Bretlands „House of Lord“ sem engu að síður féllst ekki á sakaruppgjöf og staðfesti fangelsisdóminn.

Einn fjórmenningana sagði eftirfarandi þegar honum var sleppt úr fangelsi:

„Why did I allow myself to become involved? Why did I fail to confirm whether these actions were lawful. Why did the Guinness lawyers not tell us that they weren’t?“

„I simply do not believe that my actions were criminal … I am, however, prepared to plead guilty to foolishness.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.5.2010 - 07:44 - 9 ummæli

Hin þýska húsmóðir

Angela Merkel, kanslari Þýskalands segir að Evrópa væri ekki í þessum skuldavanda ef fleiri Evrópubúar höguðu sér eins og þýsk húsmóðir.  Þýskar húsmæður lifa ekki um efni fram, þær halda stíft og örugg heimilisbókhald.  Þjóðverjar hafa óbeit á lánum og margir Þjóðverjar lifa allt sitt líf án þess að taka eitt einasta lán.  Stærsti hlutinn lifir í leiguhúsnæði og dettur ekki í hug að kaupa sér bíl fyrir en búið er að spara fyrir honum og hægt að staðgreiða hann.  Engar Evrópuþjóðir haga sér svona nema eftir vill Austurríkismenn og Svisslendingar.

Og hér er vandamálið.  Ef Evrópa á að komast út úr sínum erfiðleikum án þess að evran hrynji verður hin sparsama þýska húsmóðirin að koma Evrópu til bjargar.  En ekki eru allir Þjóðverjar jafn hrifnir af því og segja að ekki eigi að bjarga fólki sem hagi sér óskynsamlega.  Ekki bætir úr að Frakkar setja sig í stjórnarsætin með Sarkozy og Strauss-Kahn og hafa „grand“ hugmyndir um björgunaráætlun sem þeir skipuleggja en Þjóðverjar borga fyrir.  Allt stefnir í nýja evrópska baráttu þar sem Þjóðverjar eru næsta einir á báti, en í þetta skipti halda þeir á sterkum spilum.

Enn einu sinn eru allra augu á Berlín.  Aftur er Berlín orðin borg sem skiptir Evrópu máli og hefur áhrif.  Sagan endurtekur sig, en ekki alltaf með sömu formerkjum.

Þjóðverjar eiga enga góða möguleika í stöðunni.  Ef þeir neita að borga hrynur evran með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Ef þeir borga eru þeir að taka á sig skuldir „óreiðumanna“ með ófyrirsjáanlegum afleiðinum fyrir næstu kynslóð Þjóðverja.   Þetta er ekki gott val og það skyldi engan undra að frú Merkel vilji hugsa sinn gang vel.

Munu næstu kynslóðir Evrópubúa haga sér meir eins og Þjóðverjar?  Varla. Það gera Þjóðverjar sér grein fyrir og því svíður þeim að þurfa að draga óvita að landi sem ekkert læra.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.5.2010 - 12:55 - 5 ummæli

Launastrúktúr ríkisins er skrípaleikur!

Lilja Mósesdóttir talar um markaðslaun og að menn þurfi að hækka og lækka í launum í takt við markaðslaun.  En hver eru þessi markaðslaun og hver reiknar þau út?  Eigum við óháða og sjálfstæða stofnun sem heldur utan um launakjör helstu stétta og birtir upplýsingar um markaðslaun reglulega?  Hvaða gögn styðst Kjararáð við þegar það ákveður laun ríkisstarfsmanna?

Er ekki rétt að staldra aðeins við og huga að grundvallarskilgreiningum á hugtökum eins og „markaðslaun“ áður en lengra er haldið?

Eitt er víst að þegar stjórnmálamenn byrja að krukka í launatöxtum og skilgreiningum er voðinn vís.  Hvergi er þetta augljósara en í bankageiranum.

Seðlabankinn og Landsbankinn eru undir Kjararáði en Íslandsbanka og Arion Banka er frjálst að ákveða laun út frá markaðsforsendum. Eins og staðan er í dag, eru bankastjórar Íslandsbanka og Arion banka með um 1.7 m kr á mánuði á meðan sömu stöður í Seðlabanka og Landsbanka eiga að vera undir launum forsætisráðherra.  Ætli stærstu bankar landsins starfi á jafnréttisgrundvelli í svona kerfi?  Hver eru rökin fyrir þessum mismun?  Gerir þetta ríkisbankana samkeppnishæfari og sterkari?  Ef svo er, af hverju flykkjast ekki hinir bankarnir til Kjararáðs?

Nú eru ansi margir starfsmenn hjá bönkunum með yfir 1 m kr á mánuði, eða yfir launum forsætisráðherra.  Er eðlilegt að bankastjórar Seðlabankans og Landsbankans séu með handstýrð laun en þeirra undirmenn séu allir launahærri enda má borga þeim markaðslaun í samræmi við einkabankana?  Hvaða tilgangi þjónar svona skrípaleikur?  Er hér aðeins um pólitíska barbabrellu að ræða?

Nei, svona launastrúktúr er stórhættulegur og grefur undan réttlætiskennd og góðum viðskiptaháttum.  Hann skapar vantraust hjá starfsfólki og gerir erfitt fyrir að ráða gott og hæft fólk.  Sérstaklega á þetta við í stoðgreinum eins og lögfræði, tölvunarfræði og endurskoðun þar sem ríkið og bankarnir keppa við stærsta hluta einkageirans.  Þá ýtir svona kerfi undir pólitískar ráðningar í æðsu stöður og hyglar einstaklingum sem setja völd og ítök ofar öllu.

Ráðherrar eiga ekki að skipta sér af markaðslaunum, þeirra verk er að sjá svo um að allar stofnanir og fyrirtæki í landinu starfi á jafnréttisgrundvelli.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur