Þriðjudagur 4.5.2010 - 07:26 - 7 ummæli

Rifist um þjórfé á Titanic

Alveg er umræðan á Íslandi kostuleg og smámunarleg.  Nú ætlar allt að verða vitlaust út af 400,000 kr launagreiðslum til Seðlabankastjóra á meðan algjör stöðnun ríkir í atvinnumálum landsmanna.  Hér eins og svo oft áður er tímanum varið í rifrildi um smáatriði á meðan hin raunverulegu málefni fá litla umfjöllun eða afgreiðslu.  Þetta eru einmitt vinnubrögðin sem leyfðu útrásarvíkingunum að haga sér eins og þeir vildu.  Stóru málin eru svæfð á meðan fjölmiðlar og stjórnmálamenn halda almenningi upp á innihaldslausu snakki.

Það er nefnilega miklu auðveldara að lækka laun allra en að auka þjóðartekjur með gjaldeyrisskapandi atvinnuuppbyggingu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.5.2010 - 18:23 - 20 ummæli

Ögmundur við sama heygarðshornið

Enn hneykslast Ögmundur yfir tilraunum til að fá erlenda fjárfesta hingað til lands, nú síðast yfir áformum Íslandsbanka að setja upp söluskrifstofu í New York.  Auðvita væri æskilegt að Íslendingar gætu virkjað sína orku sjálfir og stýrt fjárfestingum af eigi raun.  Til þess þurfum við gjaldeyri en nú fer allur gjaldeyrir okkar og gott betur í að borga erlend lán.  Allir bankar eru fullir af íslenskum krónum, en þær vill enginn erlendis, þær er ekki hægt að nota til að kaupa efni, aðföng eða vélar.

Alla tíð frá upphafi lýðveldis til hruns stóðu erlendir lánamarkaðir okkur opnir.  Við gátum fengið lán í erlendum gjaldeyri til uppbyggingar og haldið eignarhaldinu hér heima.  Þetta er ekki hægt lengur.  Allir erlendir fjármálamarkaðir eru lokaðir Íslendingum nema að til komi erlent eignarhald.  Þetta er afleiðing hrunsins og er íslenskum einstaklingum að kenna en ekki útlendingum.

Ef við viljum ekki erlent fjármagn á þeim kjörum sem þau bjóðast okkur þá verðum við að lækka lífskjörin enn meir.  Þá er nær að tala um að Seðlabankastjóri sýni gott fordæmi og taki launalækkun um 400,000 kr.

Ef Ögmundur fær að ráða verður forsætisráðherra með 500,000 kr á mánuði eftir nokkur ár.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.5.2010 - 11:52 - 7 ummæli

Um höfuðstól og heilaga vexti

Þegar kreppa skellur á eru viðbrögðin í flestum löndum oftast þau að vextir eru lækkaðir til að auka greiðslugetu fyrirtækja og almennings og þar með örva hagkerfið aftur til lífs.  Alls staðar nema á Íslandi.  Nei, hér á landi fara menn alltaf einhverja Fjallabaksleið sem engum öðrum dytti í hug.

Á Íslandi eru vextir heilagir og haldi háum en til að laga greiðslugetu fyrirtækja og einstaklinga er reynt að krukka í höfuðstólinn eins og það sé einhver töfralausn.  Vandamálið við þessa aðgerð er að hún tekur á fortíðinni en gleymir framtíðinni.  Lækkun höfuðstóls hjálpar ekki nýjum fyrirtækjum.  Nei, þvert á móti skekkir höfuðstólslækkun samkeppnisgrundvöll fyrirtækja og verðlaunar skussana.

Þeir sem eru með nýjar hugmyndir eða fóru varlega fyrir hrun fá enga hjálp.  Engan aðgang að lánsfé á viðráðanlegum kjörum.  Öll orkan fer í að bjarga því sem hrunið er, en ekki að byggja upp það sem stendur á traustum grunni.

Með því að lækka vexti í stað höfuðstóls, fá hins vegar allir hjálp, bæði þeir sem eru í fortíðarvanda og hinir sem eru með ný atvinnuskapandi verkefni.

Því miður er saga Seðlabanka Íslands ein hörmungarsaga.  Þar þarf algjörlega nýjan hugsunarhátt og viðhorf.  Þar verður að stokka upp á nýtt og setja bankanum heilbrigð markmið um atvinnuuppbyggingu sem stuðla að nýjum gjaldeyrisskapandi störfum.  Verðbólgumarkmiðið eitt og sér á ekki við lengur.

Már, Seðlabankastjóri ætti að hlusta á orð Mervyn Kings, Seðlabankastjóra Bretlands sem sagði nýlega að halda yrði vöxtum lágum í Bretlandi næstu 4 árin til að örva hagkerfið og vega upp á móti skattahækkunum og niðurskurði.  Verðbólga í Bretlandi er nú hærri en stýrivextir en það virðist ekki hræða Mervyn.  Er ekki kominn tími til að Seðlabanki Íslands fari að standa í lappirnar, svo ég noti kunnulegt orðbragð þar á bæ.

Ps.  Fyrir þá sem hafa áhuga bendi ég á heimasíðu Englandsbanka, http://www.bankofengland.co.uk/

Þar sjá menn að stýrivextir í Bretlandi eru 0.5% en verðbólgan mælist 3.4%.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.5.2010 - 08:45 - 12 ummæli

Spaugstofan Ísland

Sú staðreynd að grínframboðið Besti flokkurinn skuli mælast sem einn stærsti stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík fyrir þessar sveitastjórnarkosningar er einhver sú mesta niðurlægin sem hugsast getur fyrir fjórflokkinn.

Stefnuskrám gömlu flokkanna er hafnað af stórum hluta kjósenda, ekki vegna innihaldsins heldur vegna þeirra einstaklinga sem hafa það eina markmið að halda persónulegum völdum sama hvað á gengur.

Nú virðast kjósendur hafa sagt hingað og ekki lengra.  Annað hvort hreinsa flokkarnir sig eða þeir verða niðurlægðir og sniðgengnir af kjósendum.  Þeir sem stóðu vaktina fyrir og um hrun þurfa að stíga til hliðar.  Þetta á við um Alþingi jafnt sem sveitarstjórnir.

Það sorglega er að eftir eitt og hálft ár frá hruni virðast helstu persónur og leikendur hrunsins ekki skilja að þeir verði að draga sig í hlé.  Þetta er nauðsynlegur þáttur í endurreisninni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.4.2010 - 18:41 - 5 ummæli

Stjórnmálavæðing alþjóðabankakerfisins

Hinn gríski fjármálaharmleikur á eftir að draga dilk á eftir sér.  Mikið er nú rætt erlendis um hvernig bankastarfsemi og lánveitingar munu breytast á næstu árum.  Eitt sem margir búast við að gerist er svokölluð stjórnmálavæðing lánafyrirgreiðslu og þá sérstaklega á lán yfir landamæri.

Í framtíðinni er líklegt að bankar starfi mest á sínum heimamarkaði og innan síns myntsvæðis.  Eftirlitsaðilar og stjórnvöld munu setja mög strangar reglur um lánastarfsemi yfir landamæri.  Vandamálin í Grikklandi má að hluta til rekja til gríðarlegra lánveitinga frá þýskum og frönskum bönkum til Grikklands.  Þetta vilja Frakkar og Þjóðverjar stoppa.  Lánveitingar yfir landamæri verða því í framtíðinni ekki eingöngu á hendi bankamanna.  Stjórnmálamenn og eftirlitstofnanir munu fylgjast mjög vel með að bankar í þeirra löndum haldi sér innan þröngra marka svo ekki komi til að skattgreiðendur í þessum löndum þurfi að bjarga erlendum aðilum.

Afleiðing af þessu er að fyrirtæki verði að reiða sig á bankafyrirgreiðslu frá innlendum bönkum og sætta sig við innlendan fjármagnskostnað.  Stór alþjóðafyrirtæki með mikla erlenda starfsemi og gott sjóðstreymi munu geta notfært sér þetta með því að fjármagna verkefni á jaðarsvæðum á ódýrari hátt en innlendar lánastofnanir eða ríki hafi bolmagn eða lánstraust til.

Gangi þetta eftir getur endurfjármögnun íslenskra fyrirtækja á erlendum lánum orðið erfið á næstu árum nema með því fá stóra erlenda aðila sem hluthafa inn í stærstu fyrirtæki landsins.

Á síðustu 100 árum hefur íslenska hagkerfið byggst að mestu upp á erlendir lántöku og innlendu eignarhaldi.  Í framtíðinni gætum við orðið að sætta okkur við að byggja upp á blandaðan hátt með síauknu erlendu eignarhaldi.  Ísland verður vart tekið aftur inn í 1. flokk lánshæfra þjóða fyrr en heildarskuldir ríkisins falla niður fyrir 60% af landsframleiðslu.   Það skeður varla fyrr en um 2040!

Næsta kynslóð Íslendinga mun í auknu mæli vinna fyrir erlenda eignarhaldsaðila.  Aðeins þannig verður hægt að standa vörð um lífskjör í landinu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.4.2010 - 15:31 - 2 ummæli

„Slimy Bastards“

Listinn í Time um verstu skúrka 2010 er um margt athyglisverður, ekki síst fyrir að þar trjóna 3 Íslendingar sem fulltrúar allra Norðurlandanna (og líklega Evrópu).  Hér á Ísland heimsmet sem seint verður slegið.

En lítum aðeins nánar á þennan lista og þá sérstaklega á þá sem koma úr viðskiptaheiminum.  Þeir eru:

1. Tom Anderson, Myspace

2. Björgólfur Guðmundsson, Landsbankinn

3. Jón Ásgeir Jóhannesson, Baugur

4. Hreiðar Már Sigurðsson, Kaupþing

5. Bernie Madoff, Wall Street fjárfestir

6. Angelo Mozilo, Countrywide

7. Joe Cassano, AIG

8. Jamie McCourt, LA Dodgers

9. Dick Fuld, Lehman Brothers

Íslendingar fylla 1/3 af þessum lista, hinir eru Bandaríkjamenn.  Miðað við höfðatölu eru 500 sinnum meiri líkur á að finna skúrka í viðskiptaheiminum á Íslandi en í Bandaríkjunum.  Kemur það á óvart?

Bandaríkjamenn sem eru á þessum lista eru annað hvort í fangelsi eða fara huldu höfði.  Ekki tíðkast þar að hleypa svona fólki á forsíður fjölmiðla í hvert skipti sem því þóknast að tjá sig út frá sínum forsendum og á sínum nótum.

Er furða að útlendingar séu skeptískir á viðskiptahæfileika og siðferðisvitund Íslendinga.  Svona umtal í einu stærsta og víðlesnasta tímariti hins enskumælandi heims mótar viðhorf útlendinga til Íslendinga.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.4.2010 - 02:24 - 3 ummæli

Jón Ásgeir og lánið

Þegar kemur að því að redda lánum er Jón Ásgeir í sérflokki.  Þeir sem eru að missa jarðir sínar, hús og fyrirtæki standa ekki til boða 10 ára kúlulán.  Jón Ásgeir fer aldrei í vanskil með þetta lán þar sem engar afborganir er af því fyrr en eftir 10 ár þegar því verður líklega rúllað upp í annað 10 ára kúlulán.

Spurningin sem hins vegar er ósvarað er hver lánar skuldakóngi Íslands 440 milljónir á yfirveðsettar fasteignir?  Jón Ásgeir hefur ekki sýnt og sannað með sínum fyrirtækjarekstri að hann sé fínn pappír sem hægt sé að treysta fyrir peningum.   Hér hlýtur eitthvað annað að liggja að baki.  En hvað?

Gaman væri að vita hvaðan þessar 440 milljónir koma upprunalega?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.4.2010 - 13:40 - 14 ummæli

Grikkir gera okkur Icesave grikk

Frestur er á illu bestur hefur verið íslenska strategían í Icesave málinu en Grikkir gætu komið henni í uppnám.  Vaxtakrafan á 2 ára grísk ríkisskuldabréf er nú yfir 20%.  Skuldavandi Grikkja gæti komið annarri kreppu af stað í Evrópu með ófyrirséðum afleiðingum, sérstaklega ef Grikkir neyðast til að fara í skuldaaðlögun eins og margir fjárfestar búast við.

Í þeim fjármálastormi sem þá mun skella á Evrópu er ekki gott að vera með Icesave og endurfjármögnun ríkisins, sveitarfélaga og stærstu fyrirtækja óafgreidda. Vert er að muna að í augum flestra erlendra aðila er Ísland fyrir aftan Grikkland hvað varðar fjármálastöðuleika, og það sem gengur yfir Grikki verður líklega látið ganga yfir Ísland.  Það verður erfitt að veita Íslendingum einhverja sérmeðferð á meðan allt brennur við Miðjarðarhafið.

Árið 2010 gæti reynst lognið á undan storminum – 2011 gæti orðið afdrifaríkt ár fyrir Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.4.2010 - 10:57 - 2 ummæli

OR gagnrýnir boðberann Moody’s

Þegar stjórnarformenn byrja að gagnrýna lánshæfishorfur opinberlega eru vandamálin sjaldan langt undan.  Sú staðreynd að Landsvirkjun fær betri einkunn en OR er einfaldlega sú að Landsvirkjun er betur rekið fyrirtæki.  Þetta ætti stjórnarformaðurinn að íhuga!

Vandamál OR er frekar einfalt, tekjur duga ekki fyrir skuldum.  Lausnin er hækkaðar tekjur en það þýðir taxtahækkun á notendur.  Út frá viðskiptalegum sjónarmiðum hefðu taxtar átt að hækka fyrir löngu til að taka á þessum vanda.  Frestun á taxtahækkun gerir vandann einungis verri og skellurinn fyrir neytendur verður enn verri þegar hann kemur.

Hins vegar hentar það ekki stjórnmálamönnum að hækka taxta fyrir kosningar og þar með eru þeirra hagsmunir settir ofar viðskiptalegum hagsmunum OR.  Það er því ekki hægt annað en að draga þá ályktun en að OR sé rekið út frá pólitískum forsendum og það skýrir ákvörðun Moody’s.

Stjórnarformaður OR hefði frekar átt að gagnrýna stjórnmálamenn en boðberann Moody’s.  Hitt er víst að hækkun taxta OR eftir kosningar verður myndarleg kúla, sem stækkar dag frá degi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.4.2010 - 08:47 - 3 ummæli

Íslenskt atvinnulíf í öngstræti

Íslenskt atvinnulíf virðist hafa strandað illilega þegar útrásarvíkingarnir settu allt á hausinn.  Þeir voru jú við stjórn og allir aðrir aðilar í samfélaginu dönsuðu dátt í kringum þann gullkálf.

Þannig leiddu útrásarvíkingarnir lífeyrissjóðina, stjórnmálamenn og bankana sofandi að feigðarósi.  Þetta var svo einfalt, ekkert þurfti að hugsa bara að taka við fyrirskipunum frá hrunliðinu.  Og þar er vandinn í dag.

Enginn hefur hugmynd hvað eigi að gera í einkageiranum, enginn hefur neina reynslu eða þekkingu og allt traust er farið.  Lífeyrissjóðirnir ráfa um ringlaðir, stjórnmálamenn benda á bankana en þeir virðast gera það sem þeir þekkja best og er einfaldast, láta hlutina rúlla eins og þeir eru.

Þetta er auðvita draumastaða fyrir gömlu útrásarvíkingana, enginn hefur þor eða kjark til að setja þeim mörk, þeir halda sínum gömlu eignum og tekst með ótrúlegri bíræfni að telja  mönnum trú um að þeir einir geti stjórnað sínum gömlu fyrirtækjum af því að þeir hafi einhver sambönd og reynslu.  Hvað með að öll þessi fyrirtæki hafa verið rekin á bólakaf með óábyrgri fjármálastjórnun.  Hvers konar reynsla er það?

Rekstur fyrirtækja á Íslandi á ekki að byggjast á samböndum heldur góðri fjármálastjórn.     Og hér er því miður ekki um auðugan garð að gresja, við eigum lítið af reyndu fólki sem getur sýnt fram á 10 ára reynslu af ábyrgri fjármálastjórnun þar sem lánum var haldið innan skynsamlegra marka.

Því vaknar sú spurning, hvernig eigum við að endurskipuleggja einkageirann þegar okkur skortir nauðsynlega reynslu og þekkingu?   Skynsamlegast væri að fá hjálp frá okkar nágrönnum, en einhvern vegin virðist það vera alversti kosturinn í augum íslenskra stjórnmálamannanna (og útrásarvíkinga), betra að láta hlutina rúlla eins og þeir eru.

Hér fylgja verk ekki orðum okkar stjórnmálamanna.  Í orði  skamma þeir hrunliðið en það nær varla lengra.  Á meðan verða launþegar að sætta sig við að Ísland siglir inn í að verða eina raunverulega láglaunasvæðið í norður Evrópu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur