Mánudagur 12.10.2015 - 12:38 - Rita ummæli

Er geymsla grunnþörf?

„Er ekki hægt að opna geymsluna?“ stundi ég upp úr mér um leið og ég lagði öxlina upp að hurðinni á geymslunni og ýtti hraustlega á hana.  Hurðin opnaðist hægt með drungalegu marri, enda heill sófi sem hallaði sér makindalega upp að henni. Geymslan var orðin full og gott betur.  Eftir stutt en nokkuð hávært samtal okkar hjónanna var tekin ákvörðun um að svona gengi þetta ekki lengur.  Kerru var krækt í bílinn og eftir nokkrar ferðir í Sorpu var geymslan orðin tóm og hef ég sjaldan fundið fyrir öðrum eins létti.

Ég hef oft hugsað um þetta og spurt sjálfa mig hvort þörf okkar hjónanna fyrir að geyma dót væri einsdæmi?

Varla.

Þörfin fyrir að geyma dót hefur leitt til þess að geymsla er skilgreind sem ein af okkar grunnþörfum þegar kemur að íbúðarhúsnæði. Hin aldagömlu viðmið um að við þurfum að geta sofið, eldað mat, farið á klósett og þvegið þvott í íbúðarhúsnæði okkar duga ekki lengur til, heldur verðum við líka að geta geymt dót.  Í byggingareglugerðinni segir að sérgeymsla eigi að fylgja íbúðum og tilgreinir hversu stór hún á að vera að lágmarki miðað við stærð íbúðar.

Til dæmis er minnsta leyfilega geymsla fyrir íbúð sem er 75 m2 eða stærri 6 m2.  Geymslur verða jafnframt að vera loftræstar og mega ekki vera sameiginlegar þvottahúsi. Oft eru þær enn stærri, en í nýrri íbúð sem ég skoðaði á fasteignavef Morgunblaðsins var geymsla í 124 m2 þriggja herbergja íbúð tæpir 16 m2.

Í mörgum nýjum íbúðum er geymslan hluti af íbúðinni.  Í fyrstu íbúðinni sem við keyptum notuðum við geymsluna sem litla skrifstofu, – væntanlega þar sem við höfðum ekki náð að safna miklu dóti.

Við bættum svo úr því á næstu árum sbr. söguna í upphafi.

Í núverandi íbúð er þetta víst geymslan skv. teikningunum, þar sem við höfum útbúið lítið herbergi að hætti Elsu úr Frozen.

20151011_185950_resized

20151011_185934_resized

Sex fermetra geymsla kostar 1,8 milljón króna ef miðað er við 300.000 kr. fermetraverð á íbúð, – að lágmarki og töluvert meira ef það þarf að fjármagna geymsluna með lántöku.

Okkar dót var ekki 1,8 milljóna króna virði.

En þitt?

PS.  Meira um dót til að geyma, – Pappakassar á 63 milljónir

 

 

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur