Sunnudagur 18.10.2015 - 13:58 - 2 ummæli

Vandað, hagkvæmt, hratt – upphafsfundur um hagkvæmt húsnæði

Ég ásamt umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra bjóðum til upphafsfundar verkefnis ríkisstjórnarinnar um hagkvæmt húsnæði. Verkefnið hefur fengið yfirskriftina „Vandað, hagkvæmt, hratt“ og til upphafsfundarins eru boðnir allir helstu hagsmunaaðilar sem málefnið snertir.

Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 21. október kl. 8:30-11:00 en boðið er upp á morgunverð frá kl. 8:00. Fundarstjóri verður Þórhallur Gunnarsson.

Verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála, í tengslum við gerð kjarasamninga síðastliðið vor. Í ljósi þess hversu brýnt málefnið er þá var ákveðið að boða fundinn við fyrsta tækifæri þar sem ráðherrarnir þrír komast allir. Margir koma að efni fundarins en áhersla er lögð á að verkefnið fari strax af stað. Upphafsfundurinn er aðeins fyrsta skrefið.

Markmið fundarins er að stilla saman strengi allra þeirra sem þurfa að koma að verkefninu. Umræður verða á borðum í sal með þjóðfundarfyrirkomulagi og er vonast til að þær skili góðum hugmyndum að leiðum til að lækka byggingarkostnað.

Við verðum í pallborði og haldin verða stutt erindi um sögu hagkvæms húsnæðis og þarfir nýrrar kynslóðar.

Dagskrá
Að loknum morgunverði setur Þórhallur Gunnarsson fundarstjóri fundinn. Þá verður efnt til pallborðsumræða ráðherranna þriggja og að þeim loknum fara fram umræður í sal með þjóðfundasniði. Að því búnu fer Pétur Ármannsson arkitekt yfir sögu hagkvæmra húsnæðislausna á Íslandi. Eftir stutt kaffihlé halda umræður áfram þar til kemur að stuttu innleggi Unu Sighvatsdóttur blaðamanns sem fjallar um þarfir og væntingar nýrra kynslóða til húsnæðis. Loks segja ráðherrarnir hver um sig nokkur orð út frá efni og umræðum fundarins.

Nauðsynlegt er tilkynna þátttöku fyrirfram.

Smelltu hér til að skrá þig á ráðstefnuna.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (2)

 • Þór Saari

  Kæra Eygló.
  Vandamálið er hugsanlega ekki þessi hái byggingarkostnaður því samkvæmt þessari frétt var kostnaðarverð 91 fermetra íbúða í raðhúsi í Vík í Mýrdal aðeins 16 milljónir króna eða rétt rúmlega 175.000 á fermetrann.
  Þetta vekur því upp spurningar um meintan háan byggingakostnað almennt og hvort hann stafi ekki af því að byggingaraðilar séu að selja hús með um 100% álagningu eða meira.
  http://www.visir.is/vik-i-myrdal-ein-mesta-vaxtarbyggd-landsins/article/2015151019005

 • Anna Margrét Bjarnadóttir

  Ég mundi einnig vilja hvetja til að áherslan verði lögð á að byggja upp íðbúðahúsnæði annarsstaðar en í miðborg Reykjavíkur, horfa meira til úthverfana og nágrannasveitafélaga því þar er meira pláss, minni umferð, meiri náttúra, meira pláss fyrir börn að leika sér, ódýrari lóðir…..hakvæmara og fjölskylduvænna….

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur