Hollari og bragðbetri skólamáltíðir leiða til betri árangurs í prófum, 14% minni fjarvista og hærri tekna út ævina vegna betri lestrarkunnáttu. Rannsóknir sem unnar voru á áhrifum átaks Jamie Olivers fyrir hollari skólamáltíðum í breskum skólum leiddu þetta í ljós.
Hollur matur fyrir börn er því fjárfesting til framtíðar.
Engin samnorræn stefna
Samnorrænt verkefni um skólamáltíðir sem lauk 2011 leiddi í ljós mjög ólíka stöðu skólamáltíða á Norðurlöndunum. Í Finnlandi og Svíþjóð er hádegisverður ókeypis fyrir grunnskólabörn á meðan íslenskir foreldrar greiða fyrir hann. Í Danmörku og Noregi er nesti algengast en máltíðir eru greiddar af notendum ef þær eru í boði.
Sérstök lög og reglur eru um skólamáltíðir í Finnlandi, Svíþjóð og hér á landi og eru ríki og sveitarfélög ábyrg fyrir að framfylgja þeim. Því eru gefnar út leiðbeiningar frá stjórnvöldum og lýðheilsuyfirvöldum sem ætlað er að hvetja til heilsusamlegra matarvenja barna og ungmenn.
Hins vegar borðar stór hluti barnanna ekki það sem er í boði. Helsta ástæðan sem börnin nefna fyrir því er að þeim líkar ekki maturinn og fara því í staðinn út í sjoppu. Sérstaklega er þetta áberandi í aldurshópnum 13-16 ára, en í Finnlandi og á Íslandi borða aðeins um 35-40% barna á þessum aldri alla hluta máltíðarinnar í skólamötuneytinu. Aðrar hindranir sem verkefnið leiddi í ljós voru skortur á þekkingu meðal starfsfólks skólanna, foreldra og sveitarfélagsins, misskilningur um hvað er talið hollt, skortur á peningum, ákvarðanir um útboð sem stjórnast fremur af verði og pólitískum ákvörðunum en gæðum og að skólamáltíðir nytu ekki nægrar virðingar.
Verð á skólamáltíðum
Meðalverð á skólamáltíðum hefur lækkað um 4% í 20 stærstu sveitarfélögunum undanfarin fimm ár. Þetta kom fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Valdimarsdóttur, varaþingmanns Framsóknarflokksins. Þetta segir ekki nema hálfa söguna því sums staðar hafði verðið lækkað um nær fjórðung og annars staðar hafði það hækkað um nær helming. Árið 2012 var meðalverð á skólamáltíðum 376 krónur, þ.e. 15 krónum lægra að raunvirði en það var fyrir fimm árum. Dýrust var skólamáltíðin á Álftanesi, 482 krónur og ódýrust í Grindavík eða 279 krónur.
Kostnaður vegna skólamáltíða fyrir fjölskyldu með tvö börn á grunnskólaaldri er því tæplega 15 þúsund krónur á mánuði.
Offita barna
Einn helsti heilsufarsvandi vestrænna ríkja er offita. Í skýrslu Unicef árið 2011 um stöðu barna á Íslandi kom fram að 20% barna á Íslandi eru yfir kjörþyngd. Þar af eru 5% þeirra of feit. Meðferð er oft vandasöm og árangur lélegur. Hefur Landlæknisembættið því lagt mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Þær eru einna helst að fá börn til að hreyfa sig og borða næringarríkan og hollan mat.
Miklir hagsmunir eru þar í húfi fyrir heilsu einstaklings þegar komið er fram á fullorðinsár en einnig samfélagið í heild. Talið er að allt að 6% af útgjöldum til heilbrigðismála megi rekja til offitu og ofþyngdar meðal fullorðinna. Á Íslandi má því áætla að þesssi útgjöld námu um 9 milljörðum króna árið 2010.
En hvernig búum við börnin okkar undir framtíðina og gerum þau almennt meðvitaðri um eigin heilsu?
Í Evrópusáttmála um baráttu gegn offituvandanum var bent sérstaklega á aðgerðir sem snúa að börnum og ungmennum. Þær voru m.a. að koma í veg fyrir markaðssetningu er beinist að börnum, stuðla að brjóstagjöf, bjóða upp á hreyfingu á viðráðanlegu verði og tryggja aðgengi að hollri fæðu.
Fræðsla skiptir líka máli
Í nýjusta stefnuyfirlýsingu sinni leggur Jamie aukna áherslu á samþættingu matar og fræðslu í skólum. Ekki sé nóg að bjóða upp á hollan og góðan mat í skólum heldur þurfi einnig að fræða börn um hvaðan matur kemur og hvernig á að útbúa hann.
Undir þetta tóku ungir Framsóknarmenn fyrir skömmu þegar þeir ályktuðu um mikilvægi þess að börn fái á fyrstu skólastigunum fræðslu um kosti og galla hinna ýmsu fæðutegunda, gæði matvæla og hugsanlegar hættur sem stafað geta af efnum í fæðu.
Nauðsynlegt er að tengja námsefni við máltíðir. Fyrirmynd þar gæti verði Jamie‘s School Kitchen Garden verkefnið þar sem nemendur rækta sitt eigið grænmeti og að kennsla í matreiðslu og næringarfræði yrði skylda fyrir alla árganga í grunnskólum. Síðast en ekki síst þarf að hvetja sveitarfélög til að bjóða upp á hollan og góðan mat, með því að umbuna þeim sem standa sig vel.
Bætt næring barnanna okkar skilar sér ekki bara beint til þeirra í formi betri námsárangurs og meiri lífsgæða. Hún eykur líka framleiðni samfélagsins og sparar gríðarlega fjármuni í heilbrigðiskerfinu.
Sameiginlegt átak heimila og skóla, með stuðningi yfirvalda, skiptir þar sköpum.
(Birtist fyrst í DV 4. febrúar 2013)