Miðvikudagur 13.2.2013 - 15:05 - 2 ummæli

Heimilisofbeldi. Íslenskur veruleiki.

Ég hef lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til velferðarráðherra um heimilisofbeldi.

Hún er svohljóðandi:

  1. Hvernig er háttað skráningu mála vegna heimilisofbeldis?
  2. Eru til samræmdar verklagsreglur innan félagsþjónustu og barnaverndar um viðbrögð og afgreiðslu mála vegna heimilisofbeldis? Ef ekki, er setning slíkra reglna fyrirhuguð?
  3. Fyrir hvaða aðgerðum til að draga úr heimilisofbeldi hefur ráðherra beitt sér?
  4. Er starfandi sérstakt fagteymi eða samráðsvettvangur milli aðila sem vinna í málaflokknum?
  5. Hversu mörg tilvik heimilisofbeldis voru skráð á árunum 2003–2013 hjá lögreglu? Hversu mörg af þessum tilvikum leiddu til ákæru? Hversu margar ákæranna leiddu til sakfellingar, hversu margar til sýknunar og hversu mörgum var vísað frá dómi?
  6. Hversu oft hefur verið tekin ákvörðun um nálgunarbann frá því að það úrræði var lögleitt?

Heimilisofbeldi er staðreynd, ömurlegur hluti af íslenskum veruleika og við verðum að gera okkur bæði grein fyrir þessu vandamál og leiðum til að takast á við það.

Næsta þriðjudag verður fundur á vegum fræðslu- og kynningarnefndar Framsóknarflokksins um heimilisofbeldi á Hverfisgötu 33 12.15-13.30.  Þar verða frummælendur Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur og ég.

Karl Garðarsson er fundarstjóri.

Boðið verður upp á súpu og ég hvet sem flesta til að mæta til að ræða þetta mikilvæga mál.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.2.2013 - 10:36 - 7 ummæli

Staðfesta í skuldamálum

Helsta baráttumál okkar Framsóknarmanna á þessu kjörtímabili hefur verið skuldavandi heimila og fyrirtækja. Þess vegna höfum við ítrekað lagt fram tillögur til lausnar.  Yfirleitt við litlar vinsældir annarra flokka.

Jafnvel talin vera með vanda heimilanna á heilanum.

En í stórum málum dugar ekkert annað en staðfesta.

Aðeins þannig nær maður árangri.

Hér má finna lista yfir helstu málin okkar um skuldavandann á kjörtímabilinu (… sum hafa að vísu verið lögð fram aftur og aftur og aftur… ;):

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.2.2013 - 19:36 - 2 ummæli

Drög að ályktun um stöðu heimilanna

Þetta eru drög að ályktun um stöðu heimilanna fyrir flokksþingið sem hefst á föstudaginn:

„Heimilin eru undirstaða þjóðfélagsins. Það þarf að taka á skuldavanda þeirra því hann heftir framgang  efnahagslífsins. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda  heimila. Ekkert getur réttlætt annað en að ófyrirséð efnahagshrun deilist á lánveitendur jafnt sem
lántakendur. Enn vantar mikið upp á að bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafi unnið úr þeim  gríðarlega flóknu og erfiðu skuldamálum sem heimilin eiga við að glíma, ekki síst vegna lagalegrar  óvissu um ýmis mikilvæg mál, doða og ráðaleysi stjórnvalda.

Það er því krafa Framsóknarflokksins að stökkbreytt húsnæðislán verði leiðrétt á sanngjarnan hátt enda um forsendubrest að ræða við  efnahagshrunið 2008. Brýnt er að að lausn fáist sem fyrst í dómsmál varðandi skuldir heimilanna en  ólíðandi er hve langan tíma hefur tekið að greiða úr málum.

Neytendavernd í fjármálum almennings verður að tryggja. Skipta verður ábyrgð jafnar á milli  lánveitenda og lántaka. Sett verði „lyklalög“ en slíkt felur í sér ríkari ábyrgð lánveitenda. Auðvelda  þarf fólki að færa lánaviðskipti milli lánastofnana og þar þarf m.a. að skoða stimpilgjald til lækkunar.

Lagt er til að skipaður verði starfshópur sérfræðinga er hafi það verkefni að útfæra afnám  verðtryggingar nýrra neytendalána. Þessari vinnu verði lokið fyrir árslok 2013. Meðan nefndin vinnur  sína vinnu er brýnt að takmarka áhrif verðtryggingar. Framsóknarflokkurinn hefur m.a. í því samhengi  lagt til að sett verði þak á verðtryggingu.

Neytendalán eru þau lán sem neytendur taka í verslunum, þjónustufyrirtækjum og  fjármálafyrirtækjum s.s. húsnæðislán, lán til bifreiðakaupa og greiðsludreifingarlán svo eitthvað sé  nefnt. Hér er því ekki lagt til að vísitölutenging annarra lána s.s. til fjárfesta verði afnumin enda eru  slíkar tengingar vel þekktar víða um heim.

Ljóst er að lánastofnanir þurfa að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir til handa sínum viðskiptavinum. Má  þar nefna vaxtaþak, þak á verðbólgu, lengingu í lánum svo nokkur dæmi séu tekin. Ef ekki vill betur  til þarf ríkið að gera lánastofnunum skylt að bjóða upp á slíkar lausnir.“

Hér má finna öll drögin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.2.2013 - 10:55 - 3 ummæli

Af hverju skipta skólamáltíðir máli?

Hollari og bragðbetri skólamáltíðir leiða til betri árangurs í prófum, 14% minni fjarvista og hærri tekna út ævina vegna betri lestrarkunnáttu.  Rannsóknir sem unnar voru á áhrifum átaks Jamie Olivers fyrir hollari skólamáltíðum í breskum skólum leiddu þetta í ljós.

Hollur matur fyrir börn er því fjárfesting til framtíðar.

Engin samnorræn stefna

Samnorrænt verkefni um skólamáltíðir sem lauk 2011 leiddi í ljós mjög ólíka stöðu skólamáltíða á Norðurlöndunum.  Í Finnlandi og Svíþjóð er hádegisverður ókeypis fyrir grunnskólabörn á meðan íslenskir foreldrar greiða fyrir hann.  Í Danmörku og Noregi er nesti algengast en máltíðir eru greiddar af notendum ef þær eru í boði.

Sérstök lög og reglur eru um skólamáltíðir í Finnlandi, Svíþjóð og hér á landi og eru ríki og sveitarfélög ábyrg fyrir að framfylgja þeim.  Því eru gefnar út leiðbeiningar frá stjórnvöldum og lýðheilsuyfirvöldum sem ætlað er að hvetja til heilsusamlegra matarvenja barna og ungmenn.

Hins vegar borðar stór hluti barnanna ekki það sem er í boði.  Helsta ástæðan sem börnin nefna fyrir því er að þeim líkar ekki maturinn og fara því í staðinn út í sjoppu.  Sérstaklega er þetta áberandi í aldurshópnum 13-16 ára, en í Finnlandi og á Íslandi borða aðeins um 35-40% barna á þessum aldri alla hluta máltíðarinnar í skólamötuneytinu.  Aðrar hindranir sem verkefnið leiddi í ljós voru skortur á þekkingu meðal starfsfólks skólanna, foreldra og sveitarfélagsins, misskilningur um hvað er talið hollt, skortur á peningum, ákvarðanir um útboð sem stjórnast fremur af verði og pólitískum ákvörðunum en gæðum og að skólamáltíðir nytu ekki nægrar virðingar.

Verð á skólamáltíðum

Meðalverð á skólamáltíðum hefur lækkað um 4% í 20 stærstu sveitarfélögunum undanfarin fimm ár.  Þetta kom fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Valdimarsdóttur, varaþingmanns Framsóknarflokksins.  Þetta segir ekki nema hálfa söguna því sums staðar hafði verðið lækkað um nær fjórðung og annars staðar hafði það hækkað um nær helming. Árið 2012 var meðalverð á skólamáltíðum 376 krónur, þ.e. 15 krónum lægra að raunvirði en það var fyrir fimm árum.  Dýrust var skólamáltíðin á Álftanesi, 482 krónur og ódýrust í Grindavík eða 279 krónur.

Kostnaður vegna skólamáltíða fyrir fjölskyldu með tvö börn á grunnskólaaldri er því tæplega 15 þúsund krónur á mánuði.

Offita barna

Einn helsti heilsufarsvandi vestrænna ríkja er offita. Í skýrslu Unicef árið 2011 um stöðu barna á Íslandi kom fram að 20% barna á Íslandi eru yfir kjörþyngd.  Þar af eru 5% þeirra of feit.  Meðferð er oft vandasöm og árangur lélegur.  Hefur Landlæknisembættið því lagt mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Þær eru einna helst að fá börn til að hreyfa sig og borða næringarríkan og hollan mat.

Miklir hagsmunir eru þar í húfi fyrir heilsu einstaklings þegar komið er fram á fullorðinsár en einnig samfélagið í heild.  Talið er að allt að 6% af útgjöldum til heilbrigðismála megi rekja til offitu og ofþyngdar meðal fullorðinna.  Á Íslandi má því áætla að þesssi útgjöld námu um 9 milljörðum króna árið 2010.

En hvernig búum við börnin okkar undir framtíðina og gerum þau almennt meðvitaðri um eigin heilsu?

Í Evrópusáttmála um baráttu gegn offituvandanum var bent sérstaklega á aðgerðir sem snúa að börnum og ungmennum.  Þær voru m.a. að koma í veg fyrir markaðssetningu er beinist að börnum, stuðla að brjóstagjöf, bjóða upp á hreyfingu á viðráðanlegu verði og tryggja aðgengi að hollri fæðu.

Fræðsla skiptir líka máli

Í nýjusta stefnuyfirlýsingu sinni leggur Jamie aukna áherslu á samþættingu matar og fræðslu í skólum.  Ekki sé nóg að bjóða upp á hollan og góðan mat í skólum heldur þurfi einnig að fræða börn um hvaðan matur kemur og hvernig á að útbúa hann. 

Undir þetta tóku ungir Framsóknarmenn fyrir skömmu þegar þeir ályktuðu um mikilvægi þess að börn fái á fyrstu skólastigunum fræðslu um kosti og galla hinna ýmsu fæðutegunda, gæði matvæla og hugsanlegar hættur sem stafað geta af efnum í fæðu.

Nauðsynlegt er að tengja námsefni við máltíðir.  Fyrirmynd þar gæti verði Jamie‘s School Kitchen Garden verkefnið þar sem nemendur rækta sitt eigið grænmeti og að kennsla í matreiðslu og næringarfræði yrði skylda fyrir alla árganga í grunnskólum.  Síðast en ekki síst þarf að hvetja sveitarfélög til að bjóða upp á hollan og góðan mat, með því að umbuna þeim sem standa sig vel.

Bætt næring barnanna okkar skilar sér ekki bara beint til þeirra í formi betri námsárangurs og meiri lífsgæða. Hún eykur líka framleiðni samfélagsins og sparar gríðarlega fjármuni í heilbrigðiskerfinu.

Sameiginlegt átak heimila og skóla, með stuðningi yfirvalda, skiptir þar sköpum.

(Birtist fyrst í DV 4. febrúar 2013)

Flokkar: Matur · Óflokkað

Miðvikudagur 30.1.2013 - 10:40 - Rita ummæli

Fá kynferðisbrot leiða til ákæru

Allsherjar- og menntamálanefnd hélt áfram að funda um ofbeldi gegn börnum og þá sérstaklega kynferðislegt ofbeldi.

Á fundinum kom fram að unnið væri að því að skýra notkun tálbeitna auk skoða aukið eftirlit með dæmdum afbrotamönnum.

Ég tók upp ábendingu frá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna frá því í fyrra um að fá kynferðisbrot gegn börnum sem tilkynnt eru til barnaverndarnefndar leiða til ákæru, og jafnvel enn færri til sakfellingar geranda í málinu.

Mannréttindanefndin sagði í minnisblaði sínu um þetta: „Íslenska ríkið ætti tafarlaust að gera ráðstafanir til að tryggja að öll kynferðisbrot gegn börnum verði skilvirknislega og tafarlaust rannsökuð, og að afbrotamenn verði látnir svara til saka.  Ríkið ætti tafarlaust að gera ráðstafanir til að koma á samhæfðum aðgerðum sem miða að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.  Ríkið ætti einnig að tryggja að menntun um kynferðislegt ofbeldi og forvarnir verði formlegur hluti af námskrá stofnana sem koma að menntun kennara og annarra sérfræðinga sem starfa með börnum, sem og stofnana sem mennta heilbrigðisstarfsmenn, lögfræðinga og lögreglumenn.“

Þetta er eitthvað sem menn hafa lengi talað um sem áhyggjuefni, ekki bara kynferðislegt ofbeldi gegn börnum heldur líka fullorðnum einstaklingum.

Við þessu þarf að bregðast.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.1.2013 - 09:50 - 1 ummæli

Lausn úr skuldafjötrum

Ung hjón keyptu íbúð með yfirtöku á tuttugu milljónir króna láni á tæplega 6% verðtryggðum vöxtum.  Nokkrum mánuðum áður hafði sambærileg íbúð selst á sautján milljónir. „Ég get ekki mælt með kaupum á þessari eign, íbúðin er of dýr og lánið óhagstætt.“ sagði fasteignasalinn þeirra.  Hjónin létu ekki segjast: „Við verðum að tryggja okkur öruggt húsnæði.  Góðar íbúðir í langtímaleigu eru eins og hvítir hrafnar, heldur sjaldgæfar.  Þetta er eini valkosturinn.“

Þar með var enn ein ung íslensk fjölskylda búin að sökkva sér í skuldir.

Evrópumeistarar í vanskilum

Hagstofan birti nýlega samanburð á lífskjörum íslenskra og evrópskra heimila fyrir árið 2010.  Í könnuninni kom margt athyglisvert fram.  Íslendingar virðast vera Evrópumeistarar í vanskilum húsnæðislána, en þjóðin hefur vermt efstu sætin í vanskilum í Evrópu um nokkurt skeið.  Þar af eru þrefalt fleiri heimili á Íslandi í miklum erfiðleikum með að standa undir útgjöldum en á hinum Norðurlöndunum.  Þetta er þrátt fyrir að mánaðarleg útgjöld íslenskra heimila vegna húsnæðis sem hlutfalls af ráðstöfunartekjum séu lægri en í mörgum öðrum Evrópulöndum.

Af hverju?  Í markaðspunktum Arion banka er því velt upp hvort ein helsta ástæðan geti verið að hér leggi fólk fyrr á sig að eignast húsnæði.  Jafnvel þótt það taki ansi langan tíma í mörgum tilvikum að eignast í raun eitthvað eigið fé í því.  Í samanburði við önnur Evrópulönd hefur verið tiltölulega auðvelt að taka lán og fjárfesta í húsnæði.  Erlendis er fólk eldra þegar það ákveður að kaupa húsnæði, erfiðara er að komast í gegnum greiðslumat og þar af leiðandi minni líkur á að viðkomandi íbúðareigandi lendi af og til í vanskilum.

Áratugum saman hefur íslensk húsnæðisstefna verið séreignastefna.  Árangur þess er meðal annars mikil fækkun leiguíbúða.  Árið 1920 voru 62,9% íbúða leiguíbúðir, um 1980 voru 17% íbúða á leigumarkaði og árið 2009 var hlutfallið komið niður í 13%.  Stuðningur hins opinbera hefur fyrst og fremst beinst að því að auðvelda einstaklingum að eignast eigið húsnæði.  Litið hefur verið á leigu sem skammtímalausn og nánast eingöngu fyrir þá sem vegna félagslegra aðstæðna geta ekki komið sér upp eigin húsnæði.

Að eiga húsnæði er hreinlega orðið órjúfanlegur hluti menningar okkar.

„Öruggt húsnæði

Eftir að eiginmaður minn og ég komum úr námi og tókum okkur fyrstu skref á leigumarkaðnum, var þess ekki langt að bíða að ættingjar og vinir færu að spyrja hvort við ætluðum ekki að fara að kaupa.  Sú spurning var næstum því jafn algeng og spurningin um hvort ekki væri von á einu litlu.  Eftir að frumburðurinn fæddist jókst svo þrýstingurinn á okkur að fjárfesta í íbúð enn meira.

Með góðri aðstoð okkar nánustu tókst að dekka útborgunina og við fluttum stolt í okkar fyrstu íbúð í útjaðri höfuðborgarinnar.  Við vorum komin í „öruggt“ húsnæði.  Allar vangaveltur um verðtryggingu, vexti og eigið fé máttu sín lítils í samanburði við pælingar um val á parketi og eldhústækjum.

Öllum létti.

Eftir á að hyggja vorum við einfaldlega að skipta um leigusala, frá yndislegu hjónunum á neðri hæðinni yfir í embættismennina hjá Íbúðalánasjóði.  Í dag dreymir okkur bara um að hætta að „leigja“ hjá sjóðnum, jafnvel þótt það eina sem bjóðist á hinum vanþróaða íslenska leigumarkaði séu tveggja til þriggja herbergja íbúðir.

Við værum allavega án skuldafjötranna, laus úr vistarböndunum.

Lærum af reynslunni

Eflaust hugsar einhver að þingmaður Framsóknarflokksins ætti ekki að tjá sig mikið um húsnæðismál.  Lög sem komu á verðtryggingu hafa verið kennd við fyrrum formann flokksins Ólaf Jóhannesson og eitt af helstu baráttumálum flokksins fyrir kosningarnar 2003 voru 90% lán Íbúðalánasjóðs.

Í ályktunum flokksins um húsnæðismál hefur áherslan verið á að hver og einn búi við öryggi í samræmi við hóflegar þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform.  Þetta hefur alltaf verið markmiðið og reynsla síðustu ára hefur sýnt okkur að séreignastefna getur ekki uppfyllt þessi markmið.  Gera verður breytingar á húsnæðiskerfinu.  Fólk er síður tilbúið að skuldsetja sig eftir áföll undanfarinna ára, en á í dag ekki marga aðra kosti líkt og sagan af ungu hjónunum segir okkur.

Því verðum við að tryggja raunverulegt val um búsetuform, auka hagkvæmni í byggingu húsnæðis og búa til sambærilegt húsnæðislánakerfi og þekkist í nágrannalöndunum.  Fjölga verður húsnæðissamvinnu- og leigufélögum, endurskoða byggingareglugerðir og fjölga ódýrum byggingalóðum fyrir þessar íbúðir.  Setja þarf lög um fasteignalán og endurskoða stöðu Íbúðalánasjóðs út frá mikilvægi hans við að tryggja öllum landsmönnum öruggt húsnæði.  Afnema þarf verðtryggingu á neytendamarkaði og setja 4% þak á hækkun verðbóta.

Við verðum að taka á vanda fortíðarinnar, bregðast við þörfum dagsins í dag og leggja drög að nýju kerfi til framtíðar.

(Birtist fyrst í DV 28. janúar 2013)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.1.2013 - 09:00 - 9 ummæli

Evrusnuðið

Mér líður stundum eins og  ég sé að taka snuð af ungabarni þegar ég bendi á að evran er ekki lausn á okkar vandamálum. Staðreyndin er þó að stundum þarf að gera meira en gott þykir.

Undir það tók samráðshópur um mótun gengis- og peningamálastefnu sem skilaði af sér til fjármálaráðherra 4. október 2012.  Þar segir:

„Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum.  Því er mikilvægt að tryggja trausta peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.  Slíkt sé grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulagi gengismála og peningastefnu.  Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.  Hvað varðar valkosti til lengri tíma eru skoðanir skiptari en samstaða er um að einhliða upptaka annarrar myntar komi ekki til álita. “

Í hópnum sátu fulltrúar allra þingflokka, fulltrúi ráðherra, og fulltrúar frá SA og ASÍ.

Þessu er ég sammála.

Því hef ég m.a. lagt fram frumvarp ásamt þingflokki framsóknarmanna þar sem ráðherra yrði falið að taka upp þjóðhagsvarúðartæki og endurskoða hvernig staðið er að fjárlagagerð hvers árs o.fl.

Einhver kynni að spyrja hvað er lengri tími? Árið 2009 spáði Árni Páll Árnason að kosið yrði um aðild að ESB árið 2010, eða í síðasta lagi 2011.  Nú spáir Katrín Júlíusdóttir að kosið verði um aðild árið 2014, eða síðasta lagi 2015.  Staðreyndin er að jafnvel þótt við samþykktum aðild á morgun væru mörg ár þar til við getum uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins og tekið upp evru.

Staðið verður fast á Maastricht skilyrðunum. Því til stuðnings má benda á Pólland.  Pólland hefur verið fyrirmyndar ESB ríki.  Árið 2010 uppfyllti landið þó aðeins tvö af fimm Maastricht skilyrðunum.  Árið 2004 var því þó spáð að aðeins tæki 12-20 mánuði að ná þeim.  Innganga í ERMII er ekki talin vænleg fyrr en 2015 og upptaka evru þá í fyrsta lagi 2017.  Áhuginn virðist þó takmarkaður og Pólverjar vilja bíða og sjá hver þróunin verður á evrusvæðinu, þó það þýði strangari inngönguskilyrði.

Þetta er nákvæmlega það sem Yves-Thibault de Silguy, fv. framkvæmdastjóri hjá ESB, sem bar ábyrgð á undirbúning upptöku evrunnar og hefur verið kallaður „faðir evrunnar“, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið:

1)      Ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru eru tvær ólíkar ákvarðanir.   „Þið þurfið að byrja á að ákveða hvort þið viljið Evrópusambandið eða ekki.  Það er pólitísk ákvörðun. Svo þurfið þið að vera í Evrópusambandinu í ákveðinn tíma áður en þið getið komið ykkur inn í  myntbandalagið.“

2)      Íslendingar munu ekki fá neina flýtimeðferð í gegnum það ferli sem fylgir upptöku evru. „…eftir það sem gerðist með Grikkland þá held ég að öllum ströngustu skilyrðum um inngöngu í myntbandalagið verði fylgt.“

3)      Við munum ekki geta fengið aðstoð Evrópusambandsins við að aflétta gjaldeyrishöftunum. „Nei, það er að mínu mati ekki mögulegt….Við verðum að vera viss um að fjármagn geti farið hindrunarlaust á milli aðildarlanda.  Það er einfaldlega skilyrði.  Ég get ekki séð að það sé mögulegt að fá undanþágu frá þessum reglum.“

Raunveruleg stefna er því: Króna, traust peningastefna með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.  Tal um annað er að skila auðu í málefnum heimilanna, í stjórnun efnahagsmála.

Hvað með krónueignir erlendra aðila?  Til að taka á þeim þarf þrennt til: Afskrifa þær að hluta, endurfjármagna að hluta og auka útflutning til að afla meiri gjaldeyris sem notaður verður til að borga það sem út af stendur.

Ef menn telja aðild að ESB skipta máli pólitískt, fínt.  En evran leysir ekki efnahagsvanda okkar.

Það getum við ein gert.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.1.2013 - 07:47 - 1 ummæli

Höfnum afneitun og ótta

Umfjöllun Kastjós um kynferðisbrot gegn börnum hefur verið erfið en nauðsynleg fyrir samfélagið. Við höfum öll þurft að velta fyrir okkur hvað væri hægt að gera öðruvísi. Hvernig við getum komið í veg fyrir að brotið sé á börnunum okkar?

Hugrakkir einstaklingar hafa stigið fram, sagt frá og hafnað afneitun og ótta.

Nú er komið að okkur.

Blátt áfram talar um að kynferðislegt ofbeldi þrífist best í afneitun og ótta. Þegar við neitum að horfast í augu við þetta samfélagsmein, neitum að tala um það. Hræðumst að tala um það.

Í bæklingnum þeirra er talað um 7 skref til að koma í veg fyrir, greina og bregðast við kynferðislegri misnotkun á börnum:
Skref 1. Gerðu þér grein fyrir staðreyndum og áhættuþáttunum. Staðreyndir – ekki traust – eiga að hafa áhrif á ákvarðanir þínar varðandi barnið þitt.
Skref 2. Fækkaðu tækifærunum. Ef þú kemur í veg fyrir eða fækkar þeim kringumstæðum þar sem barn er eitt með einum fullorðnum – dregur þú verulega úr hættunni á að barn þitt verði fyrir kynferðislegri misnotkun.
Skref 3. Talaðu um það. Börn halda oft misnotkuninni leyndri – en hægt er að fá þau til að rjúfa þögnina með því að tala opinskátt um þessi málefni.
Skref 4. Vertu vakandi. Ekki búast við að merkin séu augljós hjá barni sem sætir kynferðislegri misnotkun. Merkin eru oft til staðar en þú þarft að koma auga á þau.
Skref 5. Búðu til áætlun. Kynntu þér hvert þú átt að leita, í hvern þú átt að hringja og hvernig þú átt að bregðast við.
Skref 6. Fylgdu grunsemdum eftir. Framtíðarvelferð barns er í húfi.
Skref 7. Gerðu eitthvað í málinu.

Nánari upplýsingar er að finna í bækling Blátt áfram. 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.1.2013 - 12:28 - 15 ummæli

Óþarfa áhyggjur af Icesave?

Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra virtist hafa eilitlar áhyggjur af niðurstöðu EFTA dómstólsins í Icesave málinu í viðtali á Bylgjunni í hádeginu.

Einkennilegt.  Ráðherrann hefur hingað til verið sannfærð um að Evrópusambandið vilji gefa okkur 1000 milljarða króna + í evrum til að losa gjaldeyrishöftin og flest önnur vandamál hér á landi s.s. verðtrygginguna, okurvextina og hátt matvælaverð.

Af hverju ekki Icesave líka?

ESB getur ekki munað um að gefa okkur nokkra milljarða í viðbót.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.1.2013 - 09:58 - 4 ummæli

Rangar bólur?

Greiningardeildir og viðskiptafréttamenn eru farnir að tala um bólur í hlutabréfum, fasteignum og ríkisskuldabréfum. Vandinn er að þessar bólur skapa ekki ný verðmæti, enga raunverulega nýsköpun og engan gjaldeyri.

SA sagði að hagvöxturinn þyrfti að vera 5% 2011-2015 til að við gætum farið að bæta lífskjörin, útrýma atvinnuleysi og borga niður skuldir af alvöru. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 2,6-2,9% hagvexti fyrir sama spátímabil.  Samtökin töluðu um að fjárfesta í útflutningi, uppbyggingu og framtíðarstörfum,  ferðaþjónustuna utan háannatíma, stóriðju og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins.

Lykilatriðið var þó lánsfé á lægri vöxtum.

Núna er fjármagn að leita í fjárfestingar sem munu ekki hjálpa okkur út úr kreppunni.  Við þurfum að eyða peningum á réttum stöðum.

Ein leið er að fá stóru fjármálafyrirtækin til að fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki (SMEs).  Í Bretlandi hafa stjórnvöld í samstarfi við stærstu bankana farið á stað með svokallað Project Merlin þar sem lána átti 76 milljarðar punda til SMEs.  Í Bandaríkjunum eru seðlabankamenn farnir að ræða opinskátt hversu lítill hluti af lánsveitingum stórra fjármálafyrirtækjanna er að fara til SMEs og hindra þannig viðsnúninginn.  Skoða þarf leiðir til að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest í nýsköpunarverkefnum, en ekki bara stærri fyrirtækjum og skuldabréfum.  Samningar við kröfuhafa gömlu bankanna verða að beina fjármagninu á rétta staði.

Aukið framboð lánsfjár ætti að lækka vexti, sem og endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.

Búum til réttar bólur.

Í fjölgun starfa, auknum kaupmætti og raunverulegri verðmætasköpun.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur