Mánudagur 3.12.2012 - 15:28 - 5 ummæli

Vinna, vöxtur, velferð

„Því miður virðist ekki vera mikill skilningur á rekstri fyrirtækja hjá stjórnvöldum,“ stundi sjálfstæður atvinnurekandi upp við mig fyrir stuttu.  „Maður er rétt búinn að átta sig á nýjustu skatta- og lagabreytingunum, þegar þær næstu dynja yfir.“  Eftir samtalið varð mér hugsað til gamla slagorðs Framsóknarflokksins; vinna, vöxtur, velferð.  Grundvöllur öflugs samfélags byggir nefnilega á þessum þremur orðum og aðeins í þessari röð. Til þess að byggja upp velferðina verður samfélagið að vaxa og til þess að vöxtur eigi sér stað verður fólk að hafa vinnu.

En hvernig skapar maður vinnu?

Málþófsspjaldið?

Í vor kynntu stjórnvöld fjárfestingaráætlun sína fyrir árin 2013-2015.  Áherslur hennar endurspeglast nú í umræðum um fjárlög ársins 2013. Stjórnarliðar virðast helst hissa á að yfir höfuð þurfi að ræða um frumvarpið í þinginu og veifa málþófsspjöldum. Staðreyndin er þó sú að við þetta fjárlagafrumvarp er margt athugunarvert og fjölmörg atriði sem krefjast skýringa og frekari umræðu.

Því miður virðist frumvarpið halda áfram á sömu braut og fyrri fjárlög ríkisstjórnarinnar, að flækja rekstrarumhverfi atvinnulífsins í landinu með endalausum breytingum og tilfærslum í skattkerfinu og auknum kröfum á fyrirtæki í landinu, stór sem smá.

Til að taka af öll tvímæli er ég ekki á móti sköttum sem slíkum, ef þeir eru sanngjarnir, vel útfærðir og auka ekki á flækjustig kerfisins. Þvert á móti tel ég að allir, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, eigi að leggja sitt af mörkum til að við getum haldið hér uppi öflugu samfélagi sem styður þá sem minna mega sín og veitir öllum tækifæri til að mennta sig og skapa í kjölfarið verðmæti, án tillits til efnahags.

Það er bara ekki sama hvernig það er gert.

Ótrúverðug fjárfestingaráætlun.

Í ljósi þess er sérkennilegt að skoða fjárlagafrumvarpið, einkum í tengslum við fjárfestingaráætlun stjórnvalda sem kynnt var í vor.  Þannig er gert ráð fyrir miklum útgjöldum til verkefna sem ljóst er að muni vart standa undir sér og kalla á viðvarandi útgjöld til rekstrar á næstu árum og áratugum. Að skella milljarði hér og milljarðatugum þar í húsbyggingar og sýningar er vart vænlegt til að skapa ríkinu framtíðartekjur.

Til að byggja upp til framtíðar verður að leggja höfuðáherslu á að treysta stoðir atvinnulífsins í landinu. Það verður best gert með því að efla nýsköpun og auðvelda frumkvöðlum að stofna fyrirtæki í kring um hugmyndir sínar, sem í kjölfarið skapa auknar tekjur fyrir samfélagið allt.  Bæta þarf rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem þegar eru í rekstri með því að einfalda skattkerfið og löggjöf um starfsemi fyrirtækjanna. Það er einkum mikilvægt þegar kemur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem ekki hafa efni á að halda úti sérstökum deildum lögfræðinga og endurskoðenda til að takast á við sífellt flóknara lög og reglugerðir sem stjórnvöld hafa sett þeim.

Forgangsröðun er nauðsynleg.

Forgangsraða þarf í stuðningi við nýsköpun og leggja áherslu á þau svið þar sem við höfum þegar sýnt fram á mikinn árangur, svo sem í heilbrigðisvísindum, náttúruvísindum og skapandi greinum. Einfalda þarf menntakerfið og mætti til dæmis færa menntun til 18 ára aldurs til sveitarfélaganna og eftir það taki við háskólar og verk- og iðnskólar á vegum ríkisins. Markmiðið væri að gera námið markvissara og skila nemendum fyrr út í atvinnulífið. Sérstakt átak þarf til að efla iðn- og tæknimenntun í landinu, en mörg sprotafyrirtæki kvarta sáran yfir skorti á vinnuafli með góða menntun á því sviði.

Þá er mikilvægt að auka enn frekar verðmætasköpun í stærstu útflutningsgreinum okkar. Í sjávarútvegi þarf að einblína á að afnema samkeppnishindranir í aðgangi að hráefninu, þanni g að allur fiskur sem ekki fer í eigin vinnslu útgerðanna fari á markað og markaðsverð gildi í beinum viðskiptum. Hluti veiðigjaldsins verði nýttur til að efla markaðsstarf, byggja upp fiskeldi og koma flotanum á innlenda orkugjafa.

Í ferðaþjónustunni þurfum við að einfalda skattaumhverfið og horfa fremur til efnameiri ferðamanna en þess eins að fjölga þeim sem um landið fara og orkan sem við framleiðum þarf að skila sem mestum verðmætum til íslensks samfélags á sjálfbæran máta. Tryggja þarf innlendum fyrirtækjum og heimilum hagstætt verð um leið og við leitum aukinnar arðsemi. Hugmyndir um heildsölu til útlanda eru allra góðra gjalda verðar, en lykiláherslan verður að vera á atvinnusköpun innanlands.

Einfalt og auðskilið kerfi skilar mestum tekjum. Lykilatriði í þessu öllu saman er að einfalda það umhverfi sem íslenskt atvinnulíf starfar í. Þannig eru mestar líkur á að við náum að byggja upp atvinnu, sem getur staðið undir auknum vexti og aukinni velferð til framtíðar.

(Birtist fyrst í DV 3.12.2012)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.11.2012 - 14:17 - 4 ummæli

Einelti er ofbeldi

„Mamma, af hverju kemur enginn í afmælið mitt?“ Þessi orð eru greypt í huga kunningja míns frá því hann spurði móður sína að þessu fyrir meira en 30 árum síðan. Hann hafði boðið öllum bekknum í afmælið sitt, mamman eytt laugardeginum í að baka og búið að skipuleggja skemmtanir og leiki. Klukkan þrjú á sunnudegi var hann kominn í sparifötin og beið þess að bekkjarfélagarnir kæmu til að samgleðjast honum á afmælisdaginn.

Þegar klukkan var farin að ganga fimm var ljóst að enginn kæmi. Hughreystandi orð móður hans, um að krakkarnir hlytu nú bara að hafa gleymt þessu, skiptu hann litlu. Hann vissi betur. Þetta var hluti hins daglega lífs í skólanum. Félagsleg einangrun og útilokun. Þetta var birtingarmynd þess eineltis sem hann varð fyrir af hendi skólafélaganna í árgangnum. Hann var ekki laminn, enda stærri og sterkari en flestir jafnaldrar hans. Ofbeldið sem hann varð fyrir var ekki líkamlegt. Hann kom ekki heim með marbletti eða glóðaraugu. Aðeins ör á sálinni, sem aldrei mun hverfa.

Það þarf ekki að berja til að meiða
Andlegt ofbeldi í hvaða formi sem er getur verið jafnvel hættulegra en líkamlegt ofbeldi. Heimilisofbeldi eða einelti í skólum og á vinnustöðum þar sem engin líkamleg ummerki verða eftir er erfitt að kæra eða klaga. Sú tegund ofbeldis skilur þó oft eftir sig djúpstæð og langvinn áhrif. Sjálfsmynd þolenda hrynur og rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem verða fyrir einelti af þessu tagi á unglingsárunum geta átt í ævilangri baráttu við að mynda félagsleg tengsl við aðra, rækta eigin hæfileika eða bara stunda vinnu. Reiði, biturð, eftirsjá eftir glötuðum tækifærum og vonleysi hringsóla í hugum þeirra. Tíðni sjálfsvígstilrauna, áfengis- og fíkniefnaneyslu er jafnframt mun hærri hjá þessum hópi en öðrum.

Fimmta hvert barn upplifir einelti
Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að um 20% skólabarna telja sig verða fyrir einelti og þessi tala er mjög svipuð í flestum þeim löndum þar sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar. Þrátt fyrir að umræða hafi aukist um einelti í skólum á síðustu árum og fjölmargir skólar hafi tekið upp stefnu sem á að vinna gegn slíku ofbeldi, a.m.k. í orði, sýna fjölmörg dæmi síðustu missera að eitthvað meira þarf til. Þá hefur umræðan um einelti meðal fullorðinna verið lítil sem engin, þó rannsóknir sýni að það viðgangist vissulega. Þannig sýndi könnun sem gerð var á einelti meðal ríkisstarfsmanna árið 2008 að 11% starfsmanna teldu sig hafa orðið fyrir einelti síðustu 12 mánuði og fjórðungur hafði orðið vitni að einelti á sínum vinnustað.

Ef einstaklingur verður fyrir líkamlegu ofbeldi, hvort heldur er í skóla eða á vinnustað, er um lögreglumál að ræða. Slíkt kemst enginn upp með að samþykkja. En hvað með uppnefni, sífelldar háðsglósur, félagslega útilokun eða baktal? Hvernig kærir maður slíkt? Er það bara í lagi, svona innan hóflegra marka? Í SFR könnuninni sem nefnd var hér að ofan kom í ljós að þegar kvörtun var lögð fram var í 76% tilfella ekki brugðist við með viðeigandi hætti. Nær helmingur þeirra sem gripu til aðgerða vegna þess eineltis sem þeir urðu fyrir sögðu að ástandið hefði ekkert breyst, eða jafnvel versnað og fjórðungur fór í kjölfarið að leita sér að annarri vinnu.

Þarf lagasetningu til?
Í Svíþjóð hafa verið sett lög sem snúa við sönnunarbyrði í eineltismálum í skólum. Þar þurfa skólar að sýna fram á að þeir hafi brugðist við eineltinu á fullnægjandi hátt til að firra sig ábyrgð og skaðabótaskyldu og í umræðunni er að setja sambærileg lög fyrir atvinnulífið í heild. Hér á landi stendur það enn upp á fórnarlambið að sýna fram á að ekki hafi verið tekið á málum á réttan hátt og fyrir þá sem orðið hafa fyrir viðvarandi andlegu ofbeldi, hvort sem er á vinnustað eða í skóla, getur slíkt hreinlega orðið viðkomandi ofviða. Þá virðist lausnin oft vera að færa þolandann milli skóla, eða í tilfelli starfsmannanna, að leita sér að nýrri vinnu.

Hvar er réttlætið í því? Hvers vegna er ekki hægt að taka á gerendunum í stað þess að auka áþján þolandans og ýta undir þær ranghugmyndir hans að hann beri á einhvern hátt ábyrgð á ofbeldinu sem hann verður fyrir?

Þetta eru spurningar sem ég hyggst bera undir bæði menntamála- og velferðarráðherra. Andlegt ofbeldi í formi eineltis er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við.

(Birtist fyrst í DV 19. nóv. 2012)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.11.2012 - 18:45 - 2 ummæli

Verðtryggingin dregin fyrir dóm

Á morgun er fundur Hagsmunasamtaka heimilanna í Háskólabíó kl. 20.00.

Frummælendur verða  Guðmundur Ásgeirssonar varaformaður HH, Þórður Heimir Sveinsson hdl.  og  Pétur H. Blöndal alþingismaður.

Í pallborði verða:  Ólafur Garðarsson formaður HH, Guðmundur Ásgeirsson, Þórður Heimir Sveinsson, Pétur H. Blöndal,  Gísli Tryggvason talsmaður neytenda, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Helgi Hjörvar og Guðmundur Steingrímsson.  En á eftir að tilkynna fulltrúa þingflokks Sjálfstæðismanna og Vinstri Grænna.

Ég vil hvetja sem flesta til að mæta.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.11.2012 - 15:00 - 9 ummæli

Hækja

Í Sprengisandi í morgun talaði Árni Páll Árnason um að Samfylkingin yrði að vera af ákveðinni stærð til að vera ekki hækja.  Flokkur undir 20% væri alltaf hækja

Hvað átti hann við með þessu?

Eru Vinstri Grænir hækja Samfylkingarinnar í núverandi stjórn?

En um leið er talað um að Samfylkingin hafi gefið of mikið eftir, sé orðin of vinstri sinnuð og sé ekki raunverulegur valkostur fyrir miðjuna í íslenskum stjórnmálum.

Hver er þá eiginlega hækjan?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.11.2012 - 11:38 - 4 ummæli

Konur í stjórnmálum

Fréttir síðustu daga af því hversu margar konur hyggjast ekki sækjast eftir endurkjöri í Alþingiskosningunum í vor valda mér áhyggjum. Þó ástæður þeirra fyrir þessari ákvörðun séu eflaust jafn mismunandi og þær eru margar, hlýtur maður í kjölfarið að velta fyrir sér stöðu kvenna í íslenskum stjórnmálum. Hvers vegna kjósa konur, umfram karla að hætta fremur en „taka slaginn“? Hvers vegna leiða svo fáar konur lista sinna flokka? Er jafnréttisbylgjan, sem manni virtist vera að fara á skrið á árunum fyrir hrun að fjara út?

 Framsókn og jafnréttið

Framsóknarflokkurinn á merkilega sögu í jafnréttismálum á Íslandi. Hann skipaði fyrstu konuna í embætti viðskipta- og iðnaðarráðherra og í embætti utanríkisráðherra. Hann varð fyrstur flokka til að skipa jafnmargar konur og karla sem ráðherra í ríkisstjórn og í Alþingiskosningunum 2007 voru konur oddvitar í helmingi kjördæma.

 Eru konur ekki eins hæfar?

Hvers vegna er þá konum að fækka í stjórnmálum nú? Getur verið að þær séu ekki eins hæfir stjórnmálamenn og karlar? Ekki er það reynsla mín af samstarfi við konur í stjórnmálum síðasta áratug eða svo. Hefur aukin harka í þjóðmálaumræðunni dregið kjark úr konum? Það kann að vera. Getur verið að starfsumhverfi Alþingismanna letji konur til starfans? Ég játa að síðustu þing hafa verið óvenju strembin, sem kannski er ekki óeðlilegt í ljósi þess ástands sem ríkt hefur í þjóðfélaginu. Langir vinnudagar, lítill frítími, sem oft fer í að sinna kjördæminu og mikið áreiti utan vinnutíma setur mark sitt á fjölskyldulífið, en ætti það að bitna frekar á konum en körlum?

 Konur sem leiðtogar

Í fyrra birtist rannsókn sem nefnist „Konur, karlar og forystusæti á framboðslistum“. Rannsóknin var lokaverkefni Hrafnhildar Bjarkar Baldursdóttur  í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hrafnhildur leitaði þar svara við spurningunni hvers vegna konur sækjast í minni mæli en karlar eftir forystusætum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna.  Þegar þingkonur voru spurðar í rannsókninni hvers vegna þær hefðu ekki sóst eftir forystusætum á listum flokka sinna svöruðu þær því til að sú ákvörðun hefði verið meðvituð. Þær hefðu litið svo á að kostnaðurinn og viðveran sem framboð í oddvitasæti hefði þýtt, væri ekki þess virði ef þær gætu stefnt á öruggt sæti neðar á listanum. Staðreyndin er samt sú að staða oddvita í kjördæmi er allt önnur en þeirra sem á eftir koma.

Jafnrétti og jafnræði

Stefna Framsóknarflokksins byggir á jafnrétti og jafnræði á öllum sviðum, líka milli kynjanna. Slíkt jafnrétti næst ekki ef annað kynið vantar. Það er nefnilega staðreynd að menn geta talað sig bláa í framan um jafnrétti og stöðu kynjanna, en ef því tali er ekki fylgt eftir í verki er það bara tal.

Orðin tóm.

Bestu vinnustaðir sem ég hef unnið á hafa verið með jafnt hlutfall karla og kvenna. Ef hallað hefur á annað kynið hefur það alltaf komið niður á starfsanda, afköstum og árangri og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það sama. En jafnt hlutfall kynjanna þýðir ekki að þar með sé komið jafnræði. Hlutfall kynja í ábyrgðarstöðum skiptir máli. Ekki bara í atvinnulífinu, heldur í stjórnmálunum líka.

Er jafnréttið á undanhaldi?

Nýleg rannsókn Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur, lektors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri sýnir að viðhorf íslenskra ungmenna til verkaskiptingar kynjanna er orðin mun íhaldssamari en það var fyrir 20 árum. Þannig töldu 36% drengja að karlmenn væru hæfari til að sitja í ríkisstjórn og 14% stúlkna voru á þessari sömu skoðun. Þá töldu ungmennin konur almennt hæfari til að sinna heimilis- og umönnunarstörfum, en karlarnir væru mun hæfari til að sjá um fjármál. Það er sérstakt áhyggjuefni að þessi  viðhorf virðast einkum vera í sókn meðal stúlkna og hljóta að einhverju leiti að endurspegla viðhorf á heimilum þessara ungmenna.

Það er gríðarlega mikilvægt að bregðast skjótt við þessari þróun. Við megum ekki sætta okkur við að hér sé að alast upp kynslóð sem telur konur ekki færar um að fara með völd í samfélaginu. Ein leiðin er að tryggja að íslensk ungmenni alist upp með sterkar konur sem fyrirmyndir á öllum sviðum samfélagsins, jafnt í atvinnulífi sem stjórnmálum. Þar er ábyrgð flokkanna og kjósenda mikil.

(Birtist fyrst í DV 7. nóv. 2012)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.11.2012 - 13:14 - 6 ummæli

Húsnæði – fyrir okkur öll

„Af hverju er svona dýrt og erfitt að leigja eða kaupa húsnæði á Íslandi?“ spurði ung kona mig nýlega. Hún og sambýlismaðurinn hennar bjuggu þá í bílskúr á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er góð spurning,“ sagði ég. „Það er nefnilega ekkert sjálfsagt að þetta sé svona dýrt.“

Stór hluti hins svokallaða góðæris var tekinn að láni og þær þrengingar sem við göngum nú í gegn um hafa kennt okkur hversu varasamt það getur verið að skulda of mikið, – hvort sem það er ríkið, bankarnir, fyrirtækin eða heimilin. Þetta er hvað sýnilegast á húsnæðismarkaðnum, þar sem lóðaverð, byggingarkostnaður og söluverð fasteigna hefur verið slíkt, að almenningur hefur illa ráðið við að koma sér þaki yfir höfuðið án mikillar skuldsetningar. Þetta háa fasteignaverð og samspil vaxtakjara og verðtryggingar hefur svo spennt upp leiguverð íbúða, svo það er varla valkostur á mörgum svæðum að leigja, fremur en kaupa.

Of flott?

Stjórnvöld hafa svo sannarlega átt sinn þátt í þessari þróun, meðal annars með miklum kröfum til íbúðarhúsnæðis sem settar eru í byggingarreglugerð. Kröfur um lágmarksstærð húsnæðis, suðurglugga, fjölda salerna, geymslur, þvottahús og fleira hafa orðið til þess að hækka fasteignaverð og draga úr framboði ódýrs húsnæðis, hvort heldur er til kaups eða leigu. Nýlegar fréttir af auknum kostnaði við byggingu námsmannaíbúða, sem þó eru aðeins ætlaðar til skammtímaafnota fyrir námsmenn, undirstrika þennan vanda.

Í byggingarreglugerð eru settar fram kröfur vegna aðgengis fatlaðra, sem löngu voru orðnar tímabærar. Það er hins vegar umhugsunarefni að stjórnvöld skuli gera svo stífar kröfur til nýbygginga, að margir tekjulægri einstaklingar eigi ekki annan kost en að leigja sér bílskúra eða iðnaðarhúsnæði til að koma sér og fjölskyldum sínum í húsaskjól.

Raunverulegt val um húsnæði

Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2011 var samþykkt ályktun þess efnis að allir landsmenn skuli búa við öryggi í húsnæðismálum og hafa raunverulegt val um  búsetuform. Jafnframt var lögð áhersla á að auka þurfi fjölbreytni búsetuforma, meðal annars með því að endurskoða og styrkja lög  um samvinnufélög á sviði húsnæðismála. Þá hafa vinstri flokkarnir, sem mynda hina svokölluðu Norrænu velferðarstjórn einnig talað mikið fyrir nauðsyn þess að fjölga leiguíbúðum. Samt virðist lítið gerast í þeim efnum.

Á árunum eftir seinni heimsstyrjöld var mikill húsnæðisskortur á öllum Norðurlöndunum. Stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð og Noregi byggðu þúsundir íbúða og í Svíþjóð var meira að segja talað um milljónaprógrammið. Hugmyndafræðin var að byggja staðlað og vel skipulagt íbúðarhúsnæði og ná þannig niður kostnaði. Þannig var fólki gert kleift að kaupa eða leigja húsnæði á viðráðanlegu verði.

Efla blandaða byggð

Ekkert segir að staðlað húsnæði þurfi að vera einhverjir steinsteypukumbaldar eða að því þurfi öllu að hrúga niður í nýjum úthverfum. Við skipulag á eldri hverfum mætti auðveldlega taka frá hluta lóða undir slíkt húsnæði og efla þannig blandaða íbúðabyggð á grónum svæðum. Óþarfi er að einblína á rándýrar lúxusíbúðir, sem standa svo margar auðar, líkt og við sjáum dæmi um í Skuggahverfinu í Reykjavík. Lykilatriðið er að staðla, byggja í einingum og jafnvel nýta tækifærið til að þétta byggð.

Þá mætti nýta sér aðferðafræði Ikea, sem er að ákveða verð í samræmi við markhóp og hanna svo húsnæðið í samræmi við það.

Hvað varðar námsmenn og aðra tekjulága sem þurfa á tímabundnu húsnæði að halda, má hugsa sér að veita undanþágur frá byggingarreglugerð vegna byggingar húsnæðis fyrir slíka hópa. Þannig hefur AF Bostäder í Svíþjóð fengið undanþágu til að reisa í tilraunaskyni á þriðja tug smáhýsa á bilinu 10 til 37 fm fyrir allt að þrjá leigjendur. Í þeirri byggingarreglugerð sem sett var hér á landi snemma á þessu ári eru sérákvæði fyrir stúdentagarða, en þar er kveðið á um að lágmarksstærð íbúðar skuli vera 37 fm, einstaklingsíbúðar 28 fm og einstaklingsherbergis á heimavist skuli vera að lágmarki 18 fm. Með þessum kröfum er bæði verið að draga úr framboði húsnæðis fyrir námsmenn, auk þess sem leiguverð kann að verða mörgum ofviða.

Dýrt húsnæði ekkert náttúrulögmál

Það er brýnt að grípa til aðgerða til að draga úr skuldasöfnun landsmanna vegna húsnæðiskaupa. Það má gera bæði með því að leggja áherslu á annað búsetuform en séreignir, en ekki síður með því að endurskoða þær kröfur sem stjórnvöld gera til íbúðarhúsnæðis með byggingarreglugerð og lagasetningu.

Það er nefnilega ekkert náttúrulögmál að húsnæði eigi að vera dýrt á Íslandi.

(Birtist fyrst í DV 2. nóvember 2012)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.10.2012 - 09:19 - 11 ummæli

Viðbrögð við gengistryggingardómum

Fullkomin óvissa hefur verið uppi um úrlausn á ágreiningi um gengistryggð lán. Mikilvægt er að eyða þeirri óvissu sem fyrst.

Allir verða að hafa hagsmuni af því að ljúka málinu og fá niðurstöðu um endurútreikning gengistryggðra lána. Þann hvata hefur vantað og ferlið dregist von úr viti, jafnvel þannig að hagsmunir fjármálafyrirtækjanna hafa legið í að draga málin á langinn og þreyta lántakendur.

Því hyggst ég leggja fram lagafrumvarp þess efnis að lántakar hafi rétt til að greiða af lánum sínum með föstum greiðslum sem nema 5.000 kr. af hverri upprunalegri milljón lánsins og teljist því í skilum uns niðurstaða liggur fyrir í Hæstarétti um hin ýmsu ágreiningsefni.   Jafnframt er ítrekaður sá skilningur að lántaki getur aldrei hafa verið í vanskilum með lán eða lánasamninga, sem þessi lög taka til, þar sem þau hafi verið með ólögmæta skilmála. Inni lántaki af hendi að lágmarki þá greiðslu sem hér er lagt til, telst hann vera í fullum skilum með afborganir af láninu.

Fjármálafyrirtækin þurfa að leggja fram tryggingar fyrir hugsanlegum ofgreiðslum til lántaka annars muni viðbótar greiðslur leggjast inn á handveðsreikning í  Seðlabanka Íslands.  Er þetta lagt til í ljósi reynslunnar af nauðasamningum Avant.

Jafnframt er lagt til að dráttarvextir reiknist af ofgreiddum kröfum 30 dögum eftir gildistöku laganna.  Lántakar munu ekki þurfa að senda sérstakt kröfubréf þess efnis.

Að lokum er lagt til að fjármálafyrirtæki verði skylduð til að láta viðskiptavini sína fá upplýsingar um greiðslusögu lána og forsendur endurútreiknings ef viðskiptavinurinn þess óskar.  Þetta er gert í ljósi þess að ábendingar hafa borist um að beiðnum þess efnis hafi verið hafnað.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.10.2012 - 09:07 - 5 ummæli

Hærra verð á námsmannaíbúðum

Leiguverð á stúdentaíbúðum mun hækka vegna nýrrar byggingareglugerðar, skv. ályktun Stúdentaráðs.

Í vor hafði ég töluverðar áhyggjur af þessu og spurði ráðherra húsnæðis- og skipulagsmála um stöðuna.  Velferðarráðherra sagði að 900 manns væru á biðlista eftir húsnæði og mikil eftirspurn væri eftir litlum og/eða einstaklingsíbúðum í Reykjavík.  Umhverfisráðherra taldi að byggingareglugerðin ætti ekki að vera nein fyrirstaða við það að byggja ódýrt og einfalt húsnæði fyrir námsmenn.  Því til viðbótar kom fram í svörum hennar að mikið samráð hafi verið haft við byggingafélög námsmanna við gerð byggingareglugerðarinnar.

„Í byggingarreglugerð eru sérákvæði um íbúðir og heimavistir fyrir námsmenn. Haft var samráð við byggingarfélög námsmanna við vinnslu reglugerðarinnar og eru ákvæði hennar í samræmi við þær tillögur sem þaðan bárust. Töluvert er dregið úr kröfum um lágmarksstærðir námsmannaíbúða frá því sem gilti samkvæmt almennum ákvæðum eldri byggingarreglugerðar og tekið tillit til sérstöðu þessa húsnæðis. …Við ákvörðun um framangreindar lágmarksstærðir var tekið mið af óskum byggingarfélaga námsmanna og þeirra mati á því hvað væri hæfilegt. Verður því ekki séð að ákvæði byggingarreglugerðar um lágmarksrýmisstærðir komi í veg fyrir að unnt sé að byggja lítið, einfalt og ódýrt húsnæði fyrir námsmenn.“

Því spyr ég:  Var ekki haft þetta mikla samráð við byggingafélög námsmanna?  Vissu menn ekki að ný lög og reglugerð myndu leiða til hækkunar á byggingakostnaði?

———-

Ég hef skrifað aðeins um húsnæði fyrir námsmenn, –  enda mikill skortur á námsmannaíbúðum um land allt, þó hann sé mestur í Reykjavík.

Hér má finna vangaveltur mínar um stærð á námsmannaíbúðum – sk. Pyttehus.

Mikið af góðum athugasemdum bárust frá lesendum sem leiddu til þessa pistils um leiguíbúðir almennt.

Hér er svar velferðarráðherra um stöðu húsnæðismála námsmanna.

Hér er svar umhverfisráðherra um möguleikann á að byggja einfaldara, minna og ódýrara húsnæði.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.10.2012 - 08:04 - 1 ummæli

Gleðilegan kvennafrídag

(Greinin birtist fyrst í fréttabréfi Framsóknarflokksins 24. okt. 2012)
Íslenskar konur njóta mikils jafnréttis og er ástæða til að gleðjast yfir því. Við búum við einar bestu aðstæður á Vesturlöndum og erum í meirihluta í háskólanámi. Við erum líklegri heldur en kynsystur okkar í Evrópu til þess að halda áfram á vinnumarkaði eftir barneignir og á undanförnum árum höfum við tekið við mörgum af valdamestu embættum landsins.
Í stefnumörkun ríkisstjórna síðastliðna öld hefur Framsóknarflokkurinn staðið framarlega í hinni löngu vinnu að jafnrétti.
Á meðan við gleðjumst yfir því jafnrétti sem náðst hefur skulum við heiðra þær sem hafa háð baráttuna hingað til. Mæður, ömmur, langaömmur og langalangaömmur okkar unnu ötullega að þeim réttindum sem við höfum í dag. Yfirvinna er ekki lengur forgangsréttur karla. Bónusgreiðslur eru ekki bara karlamál. Svo er vinnu kjarkmikilla Íslendinga að þakka. Feðraorlof, almenn skólaganga og fleiri leikskólapláss, allt stuðlar þetta að jafnrétti.
En það er vitundarvakning okkar sjálfra sem hefur eflaust stuðlað að stærstu breytingunni: Breyttu hugarfari.
Fyrirmyndir ungra kvenna má finna alls staðar í dag á Íslandi. Frjáls verslun hampar sérstaklega ár hvert þeim sem skara fram úr. Slík umfjöllun veitir ungum stúlkum ómældan stuðning á kvenlægum sviðum sem og hinum sem teljast til þeirra karllægari. Horfum til þessara fyrirmynda sem og hinna sem ekki er talað um í fjölmiðlunum. Þær má finna í frænkum, systrum, vinkonum og framsóknarkonum, því við verðum að hafa í huga að enn er ekki allt unnið.
Í dag er launamunur milli kynjanna fastur í 15%, færri karlmenn taka feðraorlof eftir 2008 og konur eru áberandi fáar í stjórnum fyrirtækja. Gamlar hefðir móta viðhorf en saman stuðlum við að fjölbreyttara og víðsýnna Íslandi þar sem kynin standa jafnfætis.
Það er enn mikil vinna framundan og baráttan ekki búin. Við í Framsókn munum því halda áfram að vinna til framtíðar að jafnrétti kynjanna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.10.2012 - 10:02 - 4 ummæli

Að leita réttar síns

Frá því að ágreiningur kom upp um lögmæti gengistryggingar hafa æðstu ráðamenn landsins sagt dómstólana vera einu leið almennings til að fá leiðréttingu sinna mála.

Gylfi Magnússon, fv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði  í viðtali á Bylgjunni 10. september 2009: „Ja það hefur nú verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg en ef ef einhverjir halda öðru fram og geta fært rök fyrir því að þá er það mjög eðlilegt úrlausnarefni fyrir dómstóla, það er þá bara réttarágreiningur og dómstólar eru til að skera úr honum.“

Í umræðum á Alþingi þann 16. feb. 2012 talaði Árni Páll Árnason, fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, meðal annars um að alla tíð hefði verið vitað að óvissa væri um ákveðin atriði og dómstóla hefði þurft til að eyða þeirri óvissu að fullu.

Þannig hafa stjórnvöld ítrekað vísað fólki á dómstóla til að leita réttar síns. Fyrst til að fá staðfestingu á ólögmæti lánanna og svo til að láta reyna á hvort reikna mætti vexti afturvirkt.

Næst á dagskrá er spurningin um hvort neytendalög eigi við lán neytenda eða ekki.

Er ekki kominn tími til að stjórnvöld fari að segja fjármálafyrirtækjunum að leita réttar síns, ef þau eru eitthvað ósátt við túlkun lánþega og Hæstaréttar á lánaskilmálum sk. gengistryggðra lána?

Og hóta þeim dráttarvöxtum og frekari málaferlum ef þau spýti ekki í lófana við endurútreikninginn.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur