Sunnudagur 21.10.2012 - 15:01 - 4 ummæli

Ansi framsóknarleg niðurstaða

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir. Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði vilja að tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar til grundvallar endurskoðun á stjórnarskránni.

Gaman var að sjá hvað niðurstöður kjósenda við hinum spurningunum voru í miklu samræmi við stefnu og ályktanir Framsóknarflokksins.

Sp. 2

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?  82,5% já, 17,5%  nei.

Í ályktun flokksþings 2011 segir: „Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindum m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006.“ Á 135 og 136. löggjafarþingi flutti þingflokkur Framsóknarmanna tillögu um þjóðareign á náttúruauðlindum auk þess sem þingflokkurinn studdi frumvarp til stjórnskipunarlaga sem flutt var af forystumönnum allra flokka á Alþingi fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar 2009.  Þar mátti finna nokkuð samhljóða ákvæði um auðlindir í þjóðareign og þingflokkur framsóknarmanna hafði lagt til.

Sp. 3

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? 57,5% já,  42,5% nei.

Í ályktun flokksþings 2011 segir: „Þjóðin þekkir rætur sínar, menningararf og þau siðrænu gildi sem hún hefur bygg samfélag sitt á um aldir. Þessi siðrænu gildi eru að miklu leyti sprottin úr kristnum  jarðvegi enda hefur kristin kirkja haft mótandi áhrif á menningu þjóðarinnar  undanfarin þúsund ár. Við viljum að áfram verði stutt við öflugt starf þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.“

Sp. 4

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?  77,9% já, 22,1% nei.

Í ályktun flokksþings 2011 segir: „Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri „.

Sp. 5

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? 63,2% já, 36,8% nei (vantar tölur úr Rvk norður).

Í ályktun flokksþings 2011  segir: „Við viljum að vægi atkvæða verði jafnað eins og kostur er.  Við höfnum alfarið að landið verði gert að einu kjördæmi.“ Í grundvallarstefnuskrá flokksins segir: „I. Þjóðfélagsgerð. Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar. V. Stjórnarfar. Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu. IX. Búsetuskilyrði. Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.“

Sp. 6

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? 72,2% já, 27,8 nei. (vantar tölur úr Rvk norður)

Í kosningastefnuskrá 2009 er talað um“…að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.“.  Í grunnstefnuskrá flokksins segir: „V. Stjórnarfar. Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.“

Því er óhætt að fullyrða að niðurstaðan er ansi framsóknarleg.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.10.2012 - 23:24 - 4 ummæli

Fyrir hvað stendur Framsókn?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.10.2012 - 08:55 - 3 ummæli

Fordómar, mismunun og transfólk

Í vor samþykkti Alþingi ný lög um réttarstöðu transfólks. Við vinnslu frumvarpsins þurfti ég að horfast í augu við mína eigin fordóma og það var ekki þægilegt.

Við vinnslu málsins kom fjöldi fólks á fund velferðarnefndar og þar á meðal Anna Kristjánsdóttir. Ég hafði í gegnum tíðina fylgst með henni í fjölmiðlum, lesið bloggpistlana hennar og þótt þeir skemmtilegir. En þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hana og það var ekki auðvelt. Ég hafði áhyggjur af því að horfa of mikið á hana, nota ekki rétt kynorð og spyrja kannski of mikið. Fundurinn var erfiður og óþægilegur.

Ég fann að ég var ekki ein um að finnast það.

Fátt er nefnilega stærri hluti af okkur en kyn okkar. Fyrsta spurningin þegar við fæðumst er oftast hvort við erum strákur eða stelpa, fötin og snuðin eru í „réttum“ lit og uppeldi okkar einkennist af líffræðilegu kyni.

Eftir samþykkt laganna sat þetta allt saman í mér.

Ég hef talið mig frekar hleypidómalausa manneskju og hef ekki oft þurft að horfast í augu við mína eigin fordóma. Þó hef ég ætíð geymt með mér frásögnina frá opnun Helfararsafnsins í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna. Þar hófst sýningin á því að gestir urðu að velja á milli tveggja hurða. Yfir annarri stóð „án fordóma“ og hin „með fordóma“. Þegar fólk valdi hurðina merkt „án fordóma“ var hún læst.

Þannig var fólk minnt á að enginn er án fordóma. Ekki þú og svo sannarlega ekki ég.

Því spurði ég sjálfa mig: Ef þetta voru mín „hleypidómalausu“ viðbrögð, hvernig ætli staðan sé almennt varðandi mannréttindi transfólks? Eflaust hefði verið auðveldast að hrista þetta af sér og sökkva sér í önnur viðfangsefni. Leyfa þessu bara að liggja og leyfa mér að hunsa þessi viðbrögð mín.

Telja þau jafnvel eðlileg.

En ég gat það ekki. Ég hafði því samband við Önnu og bað um að fá að hitta hana og ræða hvað þyrfti að gera. Hvað ég gæti gert? Hvað gæti Alþingi Íslendinga gert?

Útskúfun, einelti og ofbeldi

Á síðustu áratugum hafa Íslendingar tekið stór skref í átt að bættri réttarstöðu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Staða þessara hópa er orðin með því besta sem þekkist í heiminum, en við eigum enn langt í land með að bæta stöðu transfólks. Transfólk er mun líklegra til að verða fyrir útskúfun, einelti og ofbeldi en flestir aðrir þjóðfélagshópar.

Einfaldlega fyrir að vera það sjálft.

Fáir hópar eru í jafn mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi í heiminum og transfólk. Frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2011 voru tilkynnt 816 morð á transfólki á heimsvísu. Talið er að í Bandaríkjunum sé stór hluti hatursmorða á transkonum. Eitt af nýrri dæmunum um misþyrmingar á transfólki er frá Danmörku. Þangað hafði 22 ára gömul transkona frá Guatemala flúð vegna ótta við ofbeldisverk þarlendra stjórnvalda. Þegar hún kom til Danmerkur var henni vísað í flóttamannabúðir fyrir einhleypa karla þar sem henni var margsinnis nauðgað áður en dönsk yfirvöld ákváðu að senda hana aftur til heimalandsins þar sem hennar beið ekkert nema dauðinn. Brottvísuninni var afstýrt á síðustu stundu og mál hennar tekið aftur upp. Nýlegt dæmi hér á landi er þegar transmaður var laminn á skemmtistað í Reykjavík fyrir að fara á karlasalernið.

Þann 31. mars 2010 brást ráðherranefnd Evrópuráðsins við með því að gefa út tilmæli til aðildarríkja um aðferðir til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Þar er bent á að mannréttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks þarfnist sérstakra aðgerða eigi þau að vera virk.

Lagaleg vernd
Með samþykkt laga um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda var verið að bregðast við áliti setts umboðsmanns Alþingis. Í álitinu kom fram að réttarbótar væri þörf til að tryggja grundvallarmannréttindi transfólks með vísan til 71. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndin sem samdi frumvarp það er varð að lögum um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, vakti athygli á því við velferðarráðherra og innanríkisráðherra að nauðsynlegt væri að leggja til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga er lúta annars vegar að refsiverðri mismunun í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi og hins vegar að smánun annarrar manneskju, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.

Því hef ég lagt fram frumvarp sem tryggir réttarstöðu transfólks þannig að refsivert verði fyrir aðila í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi að neita manneskju um vöru eða þjónustu vegna kynvitundar hennar og að sama skapi verði refsivert að ráðast opinberlega með háði, smánun, ógnun eða á annan hátt á manneskju vegna kynvitundar hennar. Með samþykkt þessa frumvarps yrði vernd transfólks gegn mismunun sambærileg og nú er vegna mismunar á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða og kynhneigðar.

Lagaleg vernd tekur þó aðeins á afleiðingum mismununar í garð transfólks. Til að takast á við mismununina sjálfa þurfum við, hvert og eitt, að horfast í augu við eigin fordóma og taka á þeim.

(Fyrst birt í DV 10. okt. 2012)

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.10.2012 - 09:13 - 2 ummæli

Lán eru ólán

Ungt fólk á Íslandi hefur frekar verið hvatt til að skulda en að spara.  Lán hafa verið álitin bókstaflegt lán eða heppni hvers þess sem fær lánið.

Þessu þarf að breyta.

Því hef ég lagt fram frumvarp um sérstakar skattaívilnanir til þeirra sem leggja peninga til hliðar vegna húsnæðisöflunar.  Þar er lagt til að reglubundinn, en valfrjáls sparnaður til kaupa á húsnæði eða búseturétti fyrir 34 ára aldur veiti reikningseiganda skattaafslátt innan vissra marka.

Sparnaðurinn verði að lágmarki bundinn í tvö ár ef viðkomandi sýnir með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þ.m.t. búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis. Annars verði heildarinneignin laus til frjálsrar ráðstöfunar að liðnum tíu árum. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að börn undir 16 ára aldri sem ekki teljast sjálfstæðir skattaðilar geti notið skattaafsláttarins og það sem þau nýta ekki geta foreldrar barnanna nýtt.

Sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga, sem úr gildi eru fallin en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. Munurinn felst m.a. í því að í þessu frumvarpi eru ekki eins ítarleg ákvæði um form og efni þeirra samninga sem um ræðir. Þess í stað er ráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.

Meðflutningsmenn mínir eru þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason, Siv Friðleifsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.10.2012 - 17:53 - Rita ummæli

Fjárlög = geðheilbrigðisstefna?

Ég hef óskað eftir fundi í velferðarnefnd um breytt fyrirkomulag niðurgreiðslu ríkisins á ofvirknislyfjum til fullorðinna, þróun á notkun á geð- og taugalyfjum og skort á heildstæðri geðverndarstefnu.

Geðfötlun og geðsjúkdómar eru ein helsta ástæða örorku á Íslandi og í dag er Geðhjálp stærstu undirsamtök Öryrkjabandalagsins.  Notkun á og kostnaður vegna geð- og taugalyfja hefur aukist mjög mikið, ekki síst hjá yngstu aldurshópunum. Stóran hluta af þeirri aukningu má rekja til þess að á árunum 2003 til 2010 fór kostnaður á örvandi lyfjum sem notuð eru við ADHD og til að örva heilastarfsemi úr 97 millj. kr. í 728 millj. kr.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur ekki verið mótuð sérstök geðverndarstefna, heldur virðast áherslur stjórnvalda koma einna helst fram í fjárlögum sbr. tillaga um að hætta niðurgreiðslu á ofvirknislyfjum til fullorðinna og spara þar með 220 milljónir kr.

Ég hef haft töluverðar áhyggjur af þessu um tíma og lagði fram nokkrar fyrirspurnir um málefnið á síðasta þingi.

Hér er fyrirspurnir mínar til ráðherra um málefnið frá síðasta þingi:

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.10.2012 - 11:12 - 3 ummæli

Lýðræði,- fyrir okkur öll

Bæklingurinn um þjóðaratkvæði um breytingar á stjórnarskránni er kominn í hús. Um leið og ég blaða í gegnum hann, fannst mér tilvalið að deila kosningaauglýsingu okkar Framsóknarmanna frá síðustu Alþingiskosningum um breytingar á stjórnskipun og stjórnarfari.

Hér má einnig finna ályktanir flokksins frá flokksþinginu 2011 um það sem við teljum mestu skipta við breytingar á stjórnarskránni og grein sem ég skrifaði eftir forsetakosningarnar um að þjóðarvilji ráði för.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.10.2012 - 19:30 - 2 ummæli

„Faðir evrunnar“ um Ísland og ESB

Viðskiptablaðið birtir áhugavert viðtal við Yves-Thibault de Silguy, fv. framkvæmdastjóra hjá ESB sem bar ábyrgð á undirbúning upptöku evrunnar og hefur verið kallaður „faðir evrunnar“. Það sem vakti einna helst athygli mína í viðtalinu var eftirfarandi:

1)      Ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru eru tvær ólíkar ákvarðanir.   „Þið þurfið að byrja á að ákveða hvort þið viljið Evrópusambandið eða ekki.  Það er pólitísk ákvörðun. Svo þurfið þið að vera í Evrópusambandinu í ákveðinn tíma áður en þið getið komið ykkur inn í  myntbandalagið.“

2)      Íslendingar munu ekki fá neina flýtimeðferð í gegnum það ferli sem fylgir upptöku evru. „…eftir það sem gerðist með Grikkland þá held ég að öllum ströngustu skilyrðum um inngöngu í myntbandalagið verði fylgt.“

3)      Við munum ekki geta fengið aðstoð Evrópusambandsins við að aflétta gjaldeyrishöftunum. „Nei, það er að mínu mati ekki mögulegt….Við verðum að vera viss um að fjármagn geti farið hindrunarlaust á milli aðildarlanda.  Það er einfaldlega skilyrði.  Ég get ekki séð að það sé mögulegt að fá undanþágu frá þessum reglum.“

4)      Evran er ekki ástæða kreppunnar í Evrópu. Hennar hlutverk var ekki að tryggja vöxt eða velmegun, heldur til að vernda, viðhalda og bæta hinn sameiginlega markað.  „Evran er einfaldlega bara góður blóraböggull.“  Má ekki segja það sama um alla gjaldmiðla?  Þeir einfaldlega endurspegla hagstjórnina, en skapa hana ekki.

5)      Tvö svæði eru og verða innan Evrópusambandsins. „Ég held að Evrópa verði á tveimur hraðstigum, ef svo má að orði komast; evrusvæðið og svo afgangurinn af fríverslunarsvæðinu.  Með markaðsreglum verði tryggt að hinn sameiginlegi markaður virki fyrir alla Evrópu.“

6)      Aukin samþætting evrusvæðisins mun væntanlega til samskonar kerfis og í Bandaríkjunum.  „Hvers konar lýðræðislegt skipulag setur maður inn í þetta kerfi?  … En lykilinn að velgengni er alltaf meira lýðræði og meiri samþætting.“

Hafið þið lesið viðtalið?  Hvað fannst ykkur?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.9.2012 - 12:00 - 3 ummæli

Kosningaloforðið efnt

Lýðræði ríkti á blogginu og Facebook á föstudag.  Lesendur og vinir ákváðu, eftir mjög spennandi kosningar, að íslenskir lambaskankar með spænsku ívafi yrðu í matinn á laugardagskvöldið.

Næsta skref var að efna kosningaloforðið og töfra fram hægeldaða lambaskanka með chorizo pylsu og hvítlauk ásamt silkimjúkri kartöflumús að hætti Lorraine Pascale.

Eftir að hafa kíkt í gott morgunkaffi hjá framsóknarmönnum í Kópavogi lág leiðin í Pylsumeistarann í Laugalæk.  Skemmtilegt hvað úrvalið af góðum pylsum hefur aukist á síðustu árum.  Flottar chorizo pylsur rötuðu í pokann auk þess sem ég stóðst ekki freistinguna og bætti líka við Bratwurst, svona í tilefni Oktoberfest.

Freistingar á hverju strái.

Lambaskankarnir voru í kjötborðinu í Melabúðinni, en flest annað var til. Lambaskankar, pipar, salt, olía, rauðvín, balsamik edik, lárviðarlauf, paprika (notaði reykta ungverska),  piparkorn, hvítlaukur, ferskt rósmarín, nautakraftur, chorizo pylsa, gulrætur, rauðlaukur og smá hunang.

Í kartöflumúsinni eru að sjálfsögðu kartöflur ásamt smjöri, rjóma, pipar og salti.   Ég er ekki enn þá búin að ákveða hvort gullauga eða rauðar eru betri í kartöflumús og skipti því reglulega á milli.

Allt tilbúið fyrir eldamennskuna.

Lambaskankarnir voru saltaðir og pipraðir og brúnaðir í olíu í stórum potti.

Skankarnir farnir að brúnast.

Ég setti lambaskankana til hliðar í eldfast form og setti rauðvínið og balsamik edikið í pottinn og sauð í 5 mínútur.  Hrærði aðeins til að ná þessu brúna úr pottinum skv. skýrum fyrirmælum frá Jamie Oliver.  Bragðið, segir hann, kemur víst frá öllu þessu brúna sem ég skrapaði áður fyrr niður í vaskinn.

Lambaskankarnir voru ekki lengi einir í forminu.  Út í var bætt heilum hvítlauk (skorin lárétt, enginn fundur á sunnudegi…), 2 lárviðarlaufum, 2 tsk af ungverskri papriku, nokkrum heilum piparkornum og 2 rósmarín sprotum ásamt rauðvíni, ediki og kjötkrafti.

Allt tilbúið fyrir ofninn.

Þetta var látið mala í tvær klukkstundir í ofninum á 140°C. Var ég búin að nefna hversu ánægð ég var með niðurstöðu kjósenda?  Cannellonið hefði þýtt hnoð á pastadegi, endalausar rúllur í gegnum pastavélina, hlaup á eftir lífrænni mjólk til að gera ricotta ostinn plús Pylsumeistarinn klikkaði aðeins á ítölsku pylsunni.

Yndislegt þegar kjósendur eru svona almennilegir við þingmennina sína 🙂

Næst chorizo, rauðlaukur og gulrætur.

Skar niður pylsurnar, rauðlaukinn og gulræturnar og skutlaði út í ásamt hunangi.  Las aðeins, braut saman þvott og heyrði í nokkrum félögum…

Næst voru það kartöflurnar.  Þessi síða segir allt sem þarf um gerð góðrar kartöflumúsar, The Reluctant Gourmet.

Takið sérstaklega eftir skilaboðunum á svuntunni...

Þarf ekki e-hv grænt með?

Eftir 1 klst í viðbót í ofninum tók ég skankana og grænmetið til hliðar og síaði vökvann og setti í pott til að láta þykkna.

Þetta var allt frekar dökkt þannig að það varð að finna eitthvað grænt með og fyrir valinu urðu ljúffengar sykurbaunir frá Coop.

Krásirnar komnar á borð.

Allt komið á borðið, vantar bara umsagnaraðila.

Ætli þetta sé gott?

 

Ég elda, þú vaskar upp!

Endirinn á öllum góðum máltíðum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.9.2012 - 14:08 - 16 ummæli

Beint lýðræði í eldhúsinu

Vikan er búin að vera viðburðarrík og fjölskyldan hefur eilitið setið á hakanum.  Því er ætlunin að bretta upp ermar og elda eitthvað ofsalega gott fyrir kallinn og dæturnar á morgun.

Það verður þó að vera smá pólitík í þessu og því hef ég ákveðið að efna til atkvæðagreiðslu um hvað á að vera í matinn.

Valið stendur á milli:

Heimatilbúins cannelloni með spínati og ricotta osti (heimagerðum, að sjálfsögðu) og ítalskri kjötsósu

 

eða

hægeldaðir lambaskankar að hætti Lorraine Pascale með chorizo pylsu og hvítlauki og silkimjúkri kartöflumúsar (tvísíuð, til að tryggja enga kekki).

Kosningin stendur til 9.00 í fyrramálið (…svo ég komist í búð) með því að setja inn ummæli hér á blogginu eða á Facebook.

Sönnunargögnin verða birt hér á vefnum og á Facebook síðunni ásamt umsögnum á sunnudaginn 🙂

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.9.2012 - 14:18 - 13 ummæli

Ríkisendurskoðun gegn uppljóstrurum

Kastljós fjallaði um mikla framúrkeyrslu við uppsetningu á bókhaldskerfi ríkisins.  Áætlanir gerðu ráð fyrir 160 milljóna kr. kostnaði en hann virðist hafa endað í rúmum 4 miljörðum.  Umfjöllunin byggði á drögum á svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem þingmenn höfðu margítrekað reynt að fá afhenta. Helstu viðbrögð Ríkisendurskoðunar og Fjársýslunnar, – fulltrúa hins opinbera í málinu eru að stöðva þyrfti umræðuna um skýrsluna.  Ríkisendurskoðun hefur tilkynnt lögreglu um leka á skýrslunni.  Næstu skref virðast vera að fá lögbann á áframhaldandi umfjöllun.

Þessi viðbrögð eru verulegt áhyggjuefni.

Aðalatriðið virðist ekki vera upplýsingarnar í skýrslunni, heldur lekinn sjálfur.

Því á að stöðva hann.  Með öllum tiltækum ráðum.

Þetta segir einfaldlega að við verðum að setja lög um vernd uppljóstrara. Í þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis sem Birgitta Jónsdóttir var fyrsti flutningsmaður að er fjallað um hvernig við eigum að gera það.

Þar segir um vernd uppljóstrara:

„Tölfræðilegar upplýsingar benda til að afhjúpendur (e. whistleblowers) hafi komið upp um mörg spillingarmál, bæði í einkageiranum og þeim opinbera. Ýta ætti undir slíkar afhjúpanir og telja flutningsmenn rétt að íhuga hvort mögulegt sé að setja sértækar reglur sem auka hvatann til þess að afhjúpa óeðlilega starfshætti. Í því skyni kæmi m.a. til greina að veita órjúfanlegan rétt til að afhenda þingmönnum upplýsingar… Skoða ætti hvort gera eigi breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, varðandi þagnarskyldu til að almannahagsmunir varðandi upplýsingafrelsi séu sem best tryggðir. Sama gildir um ákvæði í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, varðandi sveitarstjórnarmenn. Tillögur þessa efnis hafa þrisvar verið lagðar fyrir Alþingi, á þskj. 41 á 130. löggjafarþingi, þskj. 994 á 132. löggjafarþingi og þskj. 330 á 133. löggjafarþingi. Einnig var þar lagt til að breyta 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að refsilaust yrði að greina frá leynilegum upplýsingum í þágu almannaheilla.“

Menntamálaráðherra var falið að fylgja eftir þessari ályktun Alþingis.

Ég hef því óskað eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd með fulltrúum ráðuneytisins og starfshóps sem skipaður var til að fylgja tillögunni eftir til að fá upplýsingar um hvenær við munum sjá lagafrumvarp í þessum anda frá ráðherranum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur