Mánudagur 24.9.2012 - 10:36 - 3 ummæli

1. sæti í Suðvesturkjördæmi

Að vel ígrunduðu máli hef ég tekið ákvörðun um að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningar.

Suðvesturkjördæmi og áður Reykjaneskjördæmi hafa átt öfluga fulltrúa úr framvarðasveit Framsóknarflokksins um langt skeið. Það er mikilvægt að svo verði áfram og að forysta framsóknarmanna verði leiðandi á framboðslistum flokksins á höfuðborgarsvæðinu í næstu Alþingiskosningum.

Þessi ákvörðun er ekki auðveld, því eftir tæplega 10 ára starf með framsóknarmönnum í Suðurkjördæmi hef ég eignast þar fjölmarga vini og mikla stuðningsmenn. Þeim vil ég þakka það óeigingjarna starf sem þeir hafa unnið fyrir flokkinn og veit að þeir virða þessa ákvörðun mína.

Jafnframt vona ég að Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi taki mér jafn vel og íbúar Suðurkjördæmis hafa gert og treysti mér fyrir þeirri miklu ábyrgð sem felst í að leiða lista flokksins í þessu fjölmennasta kjördæmi landsins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.9.2012 - 09:00 - 18 ummæli

Ekki láta glepjast af úrtölumönnum

Leiðari Fréttablaðsins í dag og laugardagsgrein Þorsteins Pálssonar náðu athyglisverðum samhljómi varðandi Framsóknarflokkinn.  Ég hugsaði eftir lestur þeirra: “ Við erum greinilega aftur farin að ýta við  ákveðnum öflum í samfélaginu.“

Fyrir síðustu kosningar var hamrað á því við kjósendur að eina leiðin út úr vandanum væri Evrópusambandið.  Þar væri að finna lægri vexti, enga verðtryggingu, lægra matvælaverð, – í raun alla okkar drauma.

Við þyrftum að vísu að vera þæg og góð við erlenda kröfuhafa og fjármagnseigendur.

Allar aðrar hugmyndir s.s. að við sjálf gætum unnið okkur út úr vandanum, að við sjálf gætum afnumið verðtrygginguna, að við sjálf gætum lækkað vexti, að við sjálf gætum tryggt afskriftir skulda voru talaðar niður í svaðið.

Hvað þá að menn hafi viljað viðurkenna að við þyrftum hvort sem er sjálf að taka á okkur málum áður en okkur yrði hleypt inn í myntbandalagið.

Ég trúi að Íslendingar geti sjálfir tryggt sér betri lífsgæði.

Lykilinn að því er að við látum ekki glepjast af úrtölumönnum.

Höfum trú á okkur sjálfum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.9.2012 - 08:35 - 2 ummæli

Kökumeistarar 2012

Í fyrra bað frumburðurinn um lopapeysuköku í afmælið.  Enn og aftur komst ég að því hversu vel gift ég er.  Eiginmaðurinn gúglaði sykurmassaskreytingar, sat yfir youtube myndböndum og ég veit ekki hvað og Voila!

Lopapeysukakan varð að raunveruleika.

Meistaraverk 2011

 

Í ár var ákveðið að sameina afmæli dætranna og bjóða fjölskyldu og vinum saman.  Enn á ný kom fram óskalisti um kökur.  Kröfur höfðu aukist, enda þær séð hvað hægt var að gera með stuttum fyrirvara. Mitt innlegg var að krefjast þess að kökurnar og kremið yrðu jafngóðar og skreytingin og lofa að redda öllum öðrum veitingum.

Yngri dóttirin vildi Hello Kitty köku.

Besta súkkulaðikaka sem ég hef lengi smakkað.

 

Sú eldri birtist með myndir af Angry Birds (ég hváði… víst ekki nógu dugleg að spila tölvuleiki…).   Eiginmaðurinn neitaði að gera þetta einn aftur og eldri dóttirin var innlimuð í skreytingarhópinn.

Meistaraverk 2012

 

Hún endaði svo með að sýna snilldartakta, enda listræn með afburðum, og átti meira og minna heiðurinn að því hversu vel tókst til. Við dáðumst sérstaklega að lausn hennar varðandi kambana og goggana.

Veisluborðið í heild sinni.

Má byrja?

Takið sérstaklega eftir ávaxtapinnunum í horninu, – svona til algjörra málamynda í kolvetnisdýrðinni.

Flokkar: Matur

Fimmtudagur 13.9.2012 - 09:36 - 3 ummæli

Foreldrar hætti að skíra?

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup flutti líflega og innblásna ræðu við þingsetninguna.  Í ræðunni komu skýrt fram áhyggjur hans af því að samband þjóðkirkjunnar og ríkisins væri að rofna sem og túlkun hans á því hvert hlutverk trúarinnar ætti að vera í íslensku samfélagi.

Þar vitnaði hann m.a. í Angelu Merkel, kanslara Þýskalands þar sem hún sagði: Ég lít ekki svo á að það sé aðalatriðið hvort ég er evangelisk eða kaþólsk, en þetta þýðir það að ég aðhyllist hina kristnu lífssýn og kristinn mannskilning og það tel ég vera mikils virði fyrir hið þýska samfélag.

Undir þetta get ég svo sannarlega tekið.

Ég hrökk hins vegar við þegar vígslubiskupinn talaði um að eitt mesta áhyggjuefni hans væri að ungir foreldrar hættu að bera börn sín til skírnar og hætti þar með að gefa þeim það veganesti sem kynslóðirnar hafa þegið mann fram af manni. Kannski vegna þess að þeir treystu ekki lengur kirkjunni.

Í mínum huga hefur þetta ekkert með traust til kirkjunnar minnar að gera.

Heldur val einstaklinga.

Dætur mínar eru ekki skírðar, en ég tel að við hjónin séum að kenna þeim að aðhyllast þá lífssýn og mannskilning sem frú Merkel talaði um.

Við höfum líka lagt áherslu á að þær kynnist ólíkum kirkjum m.a. Þjóðkirkjunni, Hvítasunnukirkjunni og Kaþólsku kirkjunni. Þegar þær eru eldri og þroskaðri munu þær sjálfar taka ákvörðun um hvort þær vilji skírast inn í Þjóðkirkjuna, eða annað trúfélag.

Eða standa utan trúfélaga.

Þeirra er valið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.9.2012 - 09:04 - 1 ummæli

Sársauki er ekki sjálfsagður

Ung kona fer heim úr skóla vegna mikilla tíðaverkja.  Hún tekur strætó og í vagninum líður yfir hana af verkjum. Þegar hún rankar við sér, veltir hún fyrir sér hvort þetta eigi í alvöru að vera svona sárt. Kona mætir á heilsugæslustöðina með þvagsýni vegna sársauka við þvaglát.  Verkir við blæðingar eru einnig sárir. Ekkert finnst í þvagsýninu og ekki þykir ástæða til að tengja þetta tvennt saman. Hún hugsar með sér að væntanlega sé hún bara svona gölluð. Ung stúlka er nýlega byrjuð á blæðingum. Verkir eru miklir og hún liggur í fósturstellingu á gólfinu heima og bíður eftir að móðir hennar komi heim úr vinnu.  Verkjalyf virðast lítið virka og tíminn líður hægt.

Allt eru þetta raunverulegar sögur af konum með endómetríósu eða legslímuflakk.

Hvað er endómetríósa?

Endómetríósa er krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu en legholinu. Legslímuflakk hefur fundist á eggjastokkum, eggjaleiðurum, blöðru, ristli, legböndum og víðar.  Sjúkdómurinn er meðfæddur og virðist að verulegu leyti háður erfðum.

Frumur í legslímuflakki bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkt og þær gera á sínum eðlilega stað í leginu.  Afleiðingin er að blæðingar eiga sér stað inn í vefi og valda þar bólgu og örvefsmyndun með samgróningum milli líffæra í kviðarholinu og blöðrumyndun á eggjastokkunum. Í stað þess að fara út úr líkamanum eins og við hefðbundnar blæðingar kemst blóðið ekki í burtu. Slæmir verkir tengdir tíðablæðingum koma í kjölfarið og verða oft mjög langvinnir og erfiðir.

Af þeim konum sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni. Sjúkdómurinn einkennist meðal annars af miklum sársauka við blæðingar, sársauka við egglos, verkjum í kviðarholi á milli blæðinga, verkjum við samfarir, þvaglát og hægðalosun, erfiðleikum við að verða barnshafandi og ófrjósemi, erfiðleikum á meðgöngu og við fæðingu.

Þjáðst í hljóði

Talið er að 5-10% kvenna í heiminum þjást af endómetríósu en erfiðustu tilfellin nái til um 2% kvenna. Árið 2012 voru rúmlega 70.000 konur á Íslandi á aldursbilinu 13 til 45 ára.  Má því reikna með að á hverjum tíma eigi hundruð ef ekki þúsundir kvenna í vanda vegna sjúkdómsins hér á landi, en hjá mörgum greinist sjúkdómurinn seint og ekki fyrr en óafturkræfar vefjaskemmdir hafa orðið.

Ranghugmyndir hafa lengi verið uppi um sjúkdóminn og upplýsingagjöf villandi. Ein þessara ranghugmynda er að verkir séu eðlilegur hluti af lífi konunnar eða að tíðaverkir séu fyrst og fremst sálrænir. Aðrar konur fá að heyra að þær séu bara með lágan sársaukaþröskuld. Þegar þessu er haldið fram getur það fælt stúlkur og konur frá því að leita sér hjálpar. Einnig þekkist að læknar ráðleggi jafnvel ungum stúlkum að verða barnshafandi til að losna við sjúkdóminn. Vandinn er að meðganga og brjóstagjöf geta, líkt og hormónameðferð, dregið tímabundið úr einkennum en lækna ekki sjúkdóminn. Sama gildir um aðgerðir þegar leg og/eða eggjastokkar eru fjarlægð, en með því er oft ekki tekið á legslímuflakki utan legsins.

Áhrif endómetríósu geta verið mikil á líf kvenna.  Í rannsókn á vegum Endometriosis All Party Parliamentary Group í Bretlandi árið 2005 kom fram að 65% kvenna höfðu fengið ranga sjúkdómsgreiningu í upphafi og að meðalgreiningartími er 8,3 ár.  Jafnframt kom fram að 78% þeirra kvenna sem þjást af legslímuflakki hafa misst að meðaltali 5,3 daga í mánuði úr vinnu sökum sjúkdómsins. Konur með endómetríósu er einnig mun líklegri til að eiga í erfiðleikum við að eignast börn og þurfa á tæknifrjóvgun að halda og eiga í erfiðleikum á meðgöngu og við fæðingu.

Tökum sjúkdóminn alvarlega

Það er kominn tími til að hætta að þjást í hljóði.  Endómetríósa er sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega og konur sem af honum þjást trúanlegar.  Því mun ég á þessu þingi endurflytja tillögu um að ráðherra beiti sér fyrir fræðslu um sjúkdóminn og skoði möguleikann á stofnun göngudeildar fyrir konur með endómetríósu.  Meðflutningsmenn mínir eru Álfheiður Ingadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Björn Valur Gíslason og Mörður Árnason.

Íslenskar stúlkur eru bráðþroska og hefjast blæðingar hjá þeim við 13 ára aldur að meðaltali.  Því er algengt er að stúlkur leiti fyrst til kennara, hjúkrunarfræðinga eða heimilislækna vegna verkja. Með því að auka fræðslu um sjúkdóminn og tryggja að stúlkur fái greiningu sem fyrst má draga úr skaða, vanlíðan og verkjum. Með samþykkt ályktunarinnar gætum við stutt við starfsfólk heilbrigðis- og skólastofnana, stytt greiningartíma, tryggt sérhæfða þjónustu og aukið lífsgæði stórs hóps kvenna.

Að lokum vil ég minna á að ráðstefnu sem Samtök um endómetríósu halda um sjúkdóminn laugardaginn 15. september í Hörpunni.  Hún er hugsuð fyrir fagfólk, konur og aðstandendur og hefst klukkan 9.00.  Nánari upplýsingar má finna á www.endo.is

(Greinin birtist fyrst i DV 12. sept. 2012)

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.9.2012 - 09:55 - 7 ummæli

Verðtrygging – böl eða blessun?

Ræða á fundi Samfylkingarfélagsins í Kópavogi 10. september 2012 um verðtrygginguna – böl eða blessun?  Frummælendur voru Vilhjálmur Þorsteinsson og ég:

„Er ekki hægt að gera eitthvað í þessari verðtryggingu.“ spurði rúmlega tvítug systir mín fyrir stuttu í fjölskyldumatarboði. Ég sat og horfði á hana og hugsaði: Mikið vildi ég að ég gæti bara sagt já.  Boðið henni einfaldar lausnir.  T.d. sagt „við bönnum hana bara“ eða „við tökum bara upp evru“.

"Hmmm...bara eitt smáatriði." sagði töfrakonan við Öskubusku

Smellum bara fingri og allt verður gott. Svona eins og góða töfrakonan í Öskubusku.

Í staðinn sagði ég já, en… það er ekki einfalt… (kannski svipað og í Öskubusku þegar töfrakonan fór að tala um að vagninn myndi breytast aftur í grasker klukkan tólf).

Lífið vill oft vera svo miklu, miklu flóknara en við óskum okkur.  Helsta ástæða þess að hægt hefur gengið að aflétta verðtryggingunni á Íslandi er að gífurlegir hagsmunir eru þarna undir.  Í umræðunni um verðtrygginguna hafa tekist á þeir sem eiga peninga … og þeir sem skulda peninga.  Í ljósi þess að við erum enn með eitt hæsta hlutfall almennrar verðtryggingar í heiminum, – tel ég nokkuð ljóst hverjir hafa haft betur hingað til.

Ég skal fúslega viðurkenna hvorum hópnum ég tilheyri.  Ég hóf að taka mín fyrstu lán í kringum tvítugt með kreditkortum.  Fyrsta verðtryggða lánið (og yfirdráttur) var í boði Lánasjóðs íslenskra námsmanna og viðskiptabankans, svo Íbúðalánasjóðs við kaup á fyrstu fasteigninni.  Seinna meir voru það gengistryggð lán í boði bankans og fjármögnunarfyrirtækjanna.

Það sem flækir hins vegar sviðsmyndina, og hagsmunatengslin er sú staðreynd að við, almennir borgarar þessa lands, erum einnig helstu fjármagnseigendur landsins í gegnum lögbundinn sparnað okkar í lífeyrissjóðunum. Utan um þessar eignir halda Samtök launþega og atvinnurekenda fyrir okkar hönd.  Eignir lífeyrissjóðanna nema um 2200 milljörðum og árlega streyma um 150 til 200 milljarðar inn í sjóðina í nýjum iðgjöldum.  Þeirra hlutverk er að ávaxta þessa fjármuni og greiða lífeyri við starfslok. Þetta endurspeglast í því að 70% af skuldabréfum Íbúðalánasjóðs eru í eigu lífeyrissjóðanna, sem og stór hluti af öðrum skuldum ríkisins og annarra sem eru á skuldabréfamarkaði. Lífeyrissjóðirnir eru skuldbundnir til að greiða verðtryggðan lífeyri í gegnum lög, og hafa lagt áherslu á jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda.  Því hafa t.d. skuldabréf Íbúðalánasjóðs verið mjög góð fjárfesting að þeirra mati.

Trú margra hefur verið að forsenda góðrar stöðu lífeyrissjóðanna sé verðtryggingin.  Þessu hef ég að vísu verið ósammála, og bent á að staða lífeyrissjóðanna fór ekki að batna með upptöku verðtryggingar, heldur þegar raunávöxtunin fór að vera jákvæð með vaxtafrelsinu.

En trúin á mikilvægi verðtryggingarinnar er sterk.  Sem og trúin á skaðsemi hennar.

Blessun og böl.

Þetta eru þær staðreyndir sem við stóðum frammi fyrir í vinnu verðtrygginganefndarinnar.

Nefndin var skipuð samkvæmt ályktun Alþingis frá júní 2010 um að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi, meti kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru hagfelldastar í því skyni.

Nefndinni var falið að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt.  Jafnframt skyldi hún leggja fram tillögur til að draga úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika væri ógnað.

Heimild: Valdimar Ármann, fyrirlestur 10. sept. 2012 hjá SFF um verðtrygginguna.

Hlutverk nefndarinnar var ekki að leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána.

Nefndina skipuðu fulltrúar allra flokka á þingi, auk eins fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis og eins fulltrúa fjármálaráðuneytis.  Strax í upphafi vinnunnar var ákveðið að leita eftir að áheyrnarfulltrúa frá Seðlabanka Íslands.

Okkar hlutverk var ekki að koma með tillögur til að afnema verðtryggingu, heldur að draga úr vægi hennar.

Niðurstöður nefndarinnar endurspegluðu að sjálfsögðu þessa staðreynd.

Í skýrslu nefndarinnar er fjallað um 15 mismunandi hugmyndir að mögulegum leiðum til að ná markmiðum nefndarinnar.  Þær eru bann við verðtryggingu á öllum fjármálagerningum, bann við verðtryggingu lána með veði í húsnæði, bann við verðtryggðum jafngreiðslulánum, staðgreiðsla verðbóta, þak á verðtryggingu, önnur viðmið en núverandi vísitölu til verðtryggingar, síleska leiðin þar sem komið var upp sérstakri mælieiningu (UF) til að sýna raunvirði til að sporna gegn peningaglýju og misskilningi fólks á afleiðingum verðbólgu, vaxtabætur aðeins greiddar þeim sem skulda óverðtryggt, breytingar á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða, upptaka annarrar myntar, aukið framboð af ólíkum tegundum lána, afnám kvaða af verðtryggingu, að ná valdi á verðbólgu, bæta neytendavernd og óbreytt ástand. Þessar hugmyndir komu sumar fram hjá gestum nefndarinnar og aðrar úr ýmsum heimildum.

Hugmyndir að leiðum endurspegluðu ekki afstöðu einstakra nefndarmanna eða nefndarinnar í heild.

Í lok vinnunnar urðum við sammála um að forsenda þess að ná tökum á verðbólgu sé ábyrg stjórnun efnahagsmála.  Bæta þarf hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja, líkt og Seðlabankinn hefur kallað eftir.  Nefndin taldi að tryggja yrði fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum og skuldabréfum.  Hluti af því er útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð húsnæðislán. Hvetja yrði til sparnaðar vegna kaup á fasteign og búseturétti.

Síðast en ekki síst lögðum við áherslu á að efla fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku og neytendavernd til að sporna gegn ofskuldsetningu og áhættu tengda ólíkum lánaformum.

Þrjú sérálit er lögð fram í skýrslunni.

  • Arinbjörn Sigurgeirsson, Hrólfur Ölvisson, Lilja Mósesdóttir og ég stóðum að áliti þar sem lagt var til afnám verðtryggingar með nokkrum aðgerðum. Vegna núverandi lána verði sett þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli (hámark 4%) og unnið að lækkun raunvaxta. Jafnframt verði innleitt óverðtryggt húsnæðislánakerfi og fjölgað búsetuformum.
  • Vilhjálmur Þorsteinsson taldi að stefna eigi að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Til lengri tíma litið muni vextir og verðbólga færast nær því sem gerist á evrusvæðinu og verðtrygging hverfa úr sögunni. Upptaka evru leiðir ekki sjálfkrafa til afnáms verðtryggingar á skuldabréfum en efna mætti til skiptaútboða verðtryggðra skuldabréfa yfir í óverðtryggð.
  • Pétur H. Blöndal lagði áherslu á að fráleitt sé að hafa tvær myntir í ekki stærra efnahagslífi, verðtryggða og óverðtryggða krónu. Óstöðugleiki og erfið hagstjórn, ótti sparifjáreigenda við verðbólguskot og lokaðir erlendir markaðir gera það að verkum að byggja verður upp peningalegar eignir með sparnaði til að tryggja innlent lánsfé.   Því er ekki hægt að styðja afnám verðtryggingar á þessari stundu.

Það sem gerst hefur í framhaldi af vinnu nefndarinnar er að Alþingi samþykkti að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða óverðtryggð lán og breytilega vexti og hefur sjóðurinn unnið að því að bjóða þess háttar lán.

Efnahags- og viðskiptanefnd undir forystu Helga Hjörvars fór í mikla vinnu við að leggja til frekari tillögur en ekki náðist samstaða í nefndinni.  Þingflokkur Framsóknarmanna tók virkan þátt í þeirri vinnu og beið með að leggja fram sitt frumvarp um vexti og verðtryggingu þar til ljóst var að ekki næðist samstaða innan nefndarinnar.

Í frumvarpi okkar er m.a. lagt til 4% þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli á neytendalánum, leyfa neytendum að færa sig yfir í óverðtryggð lán, upptöku þjóðhagsvarúðartækja, endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, afnema sjálfkrafa hækkanir hjá hinum opinbera og reglu um verðtryggingajöfnuð hjá lánastofnunum.  Við munum endurflytja frumvarpið aftur á nýju þingi.

Nú á mínu fertugasta aldursári get ég staðið hér og horft tilbaka yfir feril minn og Íslendinga almennt sem lántakar og viðurkennt fúslega að það felist ekki mikið lán í því að taka lán.

Húsið vinnur alltaf, - eða hvað?

Þvert á móti, – hefur lántaka hér á landi reynst vera ein stór rússíbanareið, eða löng heimsókn í spílavíti þar sem húsið virðist einhvern veginn alltaf vinna.

En ekki íslensk heimili, ekki fjöldinn, ekki við.

Því er kannski ekki að undra að ég hef mikinn áhuga á að börnin mín og barnabörn þurfi ekki að upplifa það sama.

Því hef ég talað fyrir breyttu fyrirkomulagi. Að við afnemum verðtrygginguna, endurskoðum húsnæðislánakerfið okkar og hvetjum börnin okkar til að spara fyrir hlutunum.  Því hef ég jafnframt fyrir afnámi verðtryggingar, stutt þær breytingar sem stjórnvöld hafa lagt til á húsnæðiskerfinu til að fjölga búsetuformum, lagt fram frumvarp um skattaafslátt vegna húsnæðissparnaðar hjá ungu fólki, og hvatt til endurskoðunar á lífeyrissjóðakerfinu.

Því það er kominn tími til að hagsmunir hússins og okkar nái saman.

Við verðum að axla ábyrgðina sjálf á stjórnun okkar efnahagsmála.  Hluti af því er afnám verðtryggingarinnar.

Engar töfralausnir, enginn töfrakona sem sveiflar töfrasprotanum, heldur markviss skref til betra Íslands.

Án verðtryggingar.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.9.2012 - 11:06 - 7 ummæli

Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Síðastliðinn fimmtudag skrifaði Jón Steinsson mikla lofræðu um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í Fréttablaðið. Jóni svíður að stjórnvöld skuli ekki njóta sannmælis meðal íslensks almennings og tínir til ýmis atriði sem hann telur henni til tekna. Vissulega er rétt hjá Jóni að ríkisstjórnin er ekki alslæm og ýmislegt hefur áunnist við að reisa landið úr rústum fjármálahrunsins. En heldur þótti mér sérkennilegt að telja til afreka tvö af stærstu mistökum stjórnarinnar.

Í greininni hrósar Jón stjórnvöldum fyrir vel heppnaða einkavæðingu bankanna og að hafa ekki farið í almennar aðgerðir til hjálpar skuldugum heimilum. Einmitt í þessum tveimur atriðum greinir á milli stefnu stjórnvalda og þeirra leiða sem Framsóknarflokkurinn lagði til í kjölfar hrunsins.

Við lögðum til að við uppgjör milli gömlu og nýju bankanna yrði svigrúmið sem þar myndaðist nýtt til að fara í almennar leiðréttingar á lánum heimila og fyrirtækja. Með því yrði tryggt að jafnt yrði látið yfir alla ganga og þeir sem varlega fóru fengju aðstoð, ekki síður en þeir sem spenntu bogann of hátt fyrir hrun. Tekið yrði tillit til hugsanlegs ólögmætis gengistryggingarinnar við uppgjörið og kröfuhafar látnir taka ábyrgð á óvarlegum lánveitingum til bankanna.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hunsaði þetta allt. Andlitslausum vogunarsjóðum voru afhentar skuldir heimilanna til innheimtu og aðgangsharka þeirra hefur skilað bönkunum 200 milljarða hagnaði frá hruni. Jón heldur því fram að tillögur Framsóknarmanna hefðu ?verðlaunað þá sem fóru sér að voða fjárhagslega á árunum fyrir hrun á kostnað þeirra sem fóru varlegar?. Staðreyndin er sú að það er einmitt það sem núverandi stjórnvöld hafa gert.

Helstu úrlausnir á skuldavandanum hafa ekki komið frá ríkisstjórninni, heldur með þrautseigju einstaklinga fyrir dómstólum. Aðgerðir stjórnvalda hafa nánast verið eins og að spila í rússneskri rúllettu – hending ein hefur ráðið því hvort tegund láns, orðalag samninga, tímasetning eða veð hafa orðið til þess að fólk hafi fengið úrlausn sinna mála eða skilið eftir í skuldafjötrunum.
Í aðgerðum stjórnvalda hefur ekki falist nein sanngirni, réttlæti eða jöfnuður. Afleiðingin er að aldrei hafa fleiri Íslendingar verið á vanskilaskrá og aldrei fleiri í vanskilum við Íbúðalánasjóð.
Það er spurning hvort í orðum Jóns Steinssonar endurspeglist málshátturinn að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. sept. 2012)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.9.2012 - 19:01 - 12 ummæli

Iðgjöld til lausnar skuldavandans

Landssamtök lífeyrissjóða hafa lagst alfarið gegn nauðsynlegri skuldaleiðréttingu og fært skýr rök fyrir máli sínu.  Nú síðast með álitsgerð um skattlagningu séreignasparnaðarins frá hæstaréttarlögmanninum Einari Gauti Steingrímssyni.  Þar kemst lögmaðurinn að þeirri niðurstöðu að almenn skattlagning á séreignasparnaðinum stangist á við 65., 72. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Þar er verið að tala um jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, möguleika Alþingis til að leggja á nýja skatta og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Væntanlega telja þeir þetta vera afturvirka skattheimtu.  Eignarrétturinn er einnig mun skýrari gagnvart séreignasparnaðinum en sameignarsjóðunum.

Lífeyrissjóðirnir hafa einnig haldið fram að 110% leiðin og greiðsluaðlögun á lánsveðum gangi ekki upp vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og dómstólar hafa tekið undir með þeim hvað varðar greiðsluaðlögunina.

Hvað er þá til ráða?  Ekki viljum við að lífeyrissjóðirnir eða löggjafinn brjóti stjórnarskrána.

Lífeyrissjóðir virðast hvorki geta fellt niður skuldir hjá lífeyrisþegum né leyft skattlagningu á uppsafnaðan lífeyrissparnað.  En hvað með Fagnaðarár (Jubilee) í greiðslu iðgjalda inn í lífeyrissjóðina?  Fagnaðarárið var kjarni laga Mósesbóka biblíunnar þar sem kveðið var á um að skuldir skuli felldar niður  með reglulegu millibili og þrælar leystir úr skuldaánauð. Við virðumst eiga í erfiðleikum með að gera það beint, – en hvað með að sleppa því í 1 ár að borga iðgjöld í lífeyrissjóðina og nýta fjármunina frekar í niðurfærslu skulda?  Iðgjöldin færu til ríkisins sem skattur og ríkið myndi nota peningana til að færa niður höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna?

Efnahagsleg áhrifin væru jákvæð.  Skuldsetning heimilanna myndi lækka og peningamagn í umferð minnka, – en nú þegar sitja lífeyrissjóðirnir með 160 milljarða króna í innistæðum sem þeir geta ekki fjárfest. Árleg iðgjöld lífeyrissjóðanna eru um 200 milljarðar króna og 20% af verðtryggðum skuldum Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna eru um 195 milljarðar króna.

Aðild að lífeyrissjóðum og lágmarksiðgjöld eru lögbundin og Alþingi getur breytt sínum eigin lögum.  Breytingin yrði tímabundin og framvirk, – ekki afturvirk og Alþingi er frjálst að ráðstafa skatttekjum eins og það telur best.  Iðgjaldaskatturinn myndi ganga jafnt yfir alla og því ekki stangast á við jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.  Ríkissjóðurinn myndi geta komið til móts við núverandi lífeyrisþega í gegnum tryggingakerfið, ef til skerðinga kæmi. Mótrökin væru að þetta myndi rýra sparnaðinn sem þessu nemur, hugsanlega veikja stuðninginn við sjálft lífeyriskerfið og að skoða þyrfti samspil laga og samninga um iðgjöld.

Að loknu Fagnaðarárinu færu hlutir aftur í samt horf og iðgjöldin héldu áfram að streyma inn í lífeyrissjóðina.

Hvað finnst ykkur?  Hvaða önnur með- og mótrök væru gegn þessari hugmynd?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.9.2012 - 18:50 - 3 ummæli

Óbreytt kerfi þegar hentar?

Magnús Kristinsson ákvað að selja fjölskyldufyrirtækið Berg – Huginn til Síldarvinnslunnar. Af því tilefni ákvað meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Vestmannaeyja að leggja til hliðar stuðning við óbreytt kerfi og frjálsan markað stundarkorn í ljósi neikvæðrar áhrifa af flutningi aflaheimilda á efnahag Vestmannaeyja.  Þeir kröfðust þess að fá að ganga inn í kaupin á grundvelli forkaupsréttarákvæðis í lögum um fiskveiðistjórnun.

Hlutverk bæjarfulltrúanna er að sjálfsögðu að gæta að hagsmunum bæjarfélagsins.

Vandinn er að ákvæðið um forkaupsrétt sveitarfélaganna er óljóst.  Í 3. mgr. 12. gr. segir: „Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu.“

Þýðir orðið fiskiskip í lagatextanum eignarhlutur í fyrirtæki eða aflaheimildir?

Af lestri lögskýringargagna með lögunum virðist forkaupsréttur að skipi ná a.m.k. til skipsins sjálfs, fylgihluta þess og í mörgum tilvikum til aflaheimilda líka.  En hvað ef sérsamningur hefur verið gerður um sölu aflaheimilda og flutning á annað skip?  Við eigendaskipti á fyrirtæki er ekki þar með sagt að fyrirtækið sjálft, eða rekstur þess fari frá byggðarlaginu og erfitt kann að vera að sannfæra dómara um annað í ljósi yfirlýsinga forráðamanna Síldarvinnslunnar.  Ekki virðist hafa reynt á þetta ákvæði fyrir dómstólum.

Því til viðbótar er nú fullyrt að eignarhaldið hafi þegar verið flutt frá sveitarfélaginu til Reykjavíkur.

Í framtíðinni kunna fleiri handhafar aflaheimilda að selja, lenda í fjárhagsörðugleikum, hætta rekstri eða falla frá í Eyjum. Því má spyrja hvort bæjarstjórnin þurfi ekki að hvetja til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun til að bæta forkaupsrétt sveitarfélaga, efla almenn byggðaákvæði, dreifðara eignarhald, takmörkun á framsali, uppboði á sjávarafla eða tryggja sveitarfélögum ákveðna hlutdeild í veiðigjaldinu til að hafa efni á að kaupa kvóta?

Í stað þess að standa áfram vörð um óbreytt kerfi?

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 08:55 - 2 ummæli

Verndum börn gegn ofbeldi

Á undanförnu hefur verið fjallað um börn og heimilisofbeldi. Ég vil því benda á nýsamþykkt ákvæði barnalaga, í lögum nr. 61/2012 en lögin eiga að taka gildi 1. janúar 2013:

Í 3. gr. laganna segir að forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Í 13. gr. laganna er fjallað um hvað dómari á að líta til þegar deilt er um forsjá eða lögheimili barns. „Dómari lítur m.a. til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.“

Í 22. gr. er fjallað um umgengi við foreldri: „Barn á rétt að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“

Allar ákvarðanir stjórnvalda eiga alltaf að miðast við hvað er barninu fyrir bestu.

Ekki hvað er best fyrir móður eða föður, – heldur barn.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur