Snýst hin Bjarta framtíð Besta og Guðmundar um að styðja við kröfuhafa bankanna og tryggja þeim aðgang að ofurhagnaði bankanna? Guðmundur Steingrímsson, talsmaður Bjartrar framtíðar (nýja framboð hans og Besta), sagði á Sprengisandi um helgina að hann hefði rætt að styðja ríkisstjórnina í að lækka eigið fé bankanna = hefja útgreiðslu arðs úr nýju bönkunum. Tilgangurinn að sögn Guðmundar væri að nýta peningana til að fjárfesta í nýrri atvinnustarfsemi.
Ástæður þess að ég geri athugasemd við þetta er að ríkið hefur aðrar leiðir til að nálgast ofurhagnað bankanna en að hefja arðgreiðslur, – í gegnum skattkerfið.
Vandinn á næstunni verður heldur ekki skortur á fjármagni til fjárfestinga, heldur mun frekar skortur á fjárfestingartækifærum. Lífeyrissjóðirnir þurfa að nýfjárfesta fyrir um 100-150 milljarða króna á ári, auk þess að endurnýja eldri fjárfestingar enda með eignasafn upp á um 2000 milljarða króna. Eigendur krónubréfa halda á um 300-400 milljörðum króna og þegar útgreiðslur hefjast munu kröfuhafar sitja uppi með allt að 300-400 milljarða í krónum. Til samanburðar má nefna að Framtakssjóðurinn í eigu sextán lífeyrissjóða var með 30 milljarða í eigið fé.
Einhver gæti talið það réttlætismál að kröfuhafar fái sína hlutdeild í hagnað bankanna, þar sem þeir töpuðu þúsundum milljarða króna á íslensku bönkunum. Þeir hinir sömu gleyma að núverandi kröfuhafar eru ekki endilega þeir sömu og lánuðu bönkunum á sínum tíma. Stór hluti núverandi kröfuhafa eru svokallaðir vogunarsjóðir, sumir hafa jafnvel kallað þá hrægammasjóði, sem keyptu kröfur á gömlu bankana á slikk, aðeins lítið brot af upprunalegu verðmæti þeirra.
Gleymum heldur ekki ástæðunni fyrir hinum mikla bókfærða hagnaði og sterkri eiginfjárstöðu bankanna. Þegar nýju bankarnir voru settir á stofn höfðu menn ekki mikla trú á íslensku efnahagslífi og afskrifuðu stóran hluta lánasafnanna. Íslensk heimili og fyrirtæki reyndust mun duglegri að borga en menn ætluðu. Því jókst bjartsýni bankamanna umtalsvert og verðmæti lánasafnanna var fært upp = voða mikill hagnaður og miklu sterkari eiginfjárstaða.
Við skulum vona að talsmaður Bjartrar framtíðar hafi bara verið að grínast…svona að hætti Besta.