Mánudagur 9.1.2012 - 10:37 - 7 ummæli

Björt framtíð fyrir kröfuhafa?

Snýst hin Bjarta framtíð Besta og Guðmundar um að styðja við kröfuhafa bankanna og tryggja þeim aðgang að ofurhagnaði bankanna? Guðmundur Steingrímsson, talsmaður Bjartrar framtíðar (nýja framboð hans og Besta), sagði á Sprengisandi um helgina að hann hefði rætt að styðja ríkisstjórnina í að lækka eigið fé bankanna = hefja útgreiðslu arðs úr nýju bönkunum.  Tilgangurinn að sögn Guðmundar væri að nýta peningana til að fjárfesta í nýrri atvinnustarfsemi.

Ástæður þess að ég geri athugasemd við þetta er að ríkið hefur aðrar leiðir til að nálgast ofurhagnað bankanna en að hefja arðgreiðslur, – í gegnum skattkerfið.

Vandinn á næstunni verður heldur ekki skortur á fjármagni til fjárfestinga, heldur mun frekar skortur á fjárfestingartækifærum.  Lífeyrissjóðirnir þurfa að nýfjárfesta fyrir um 100-150 milljarða króna á ári, auk þess að endurnýja eldri fjárfestingar enda með eignasafn upp á um 2000 milljarða króna.  Eigendur krónubréfa halda á um 300-400 milljörðum króna og þegar útgreiðslur hefjast munu kröfuhafar sitja uppi með allt  að 300-400 milljarða í krónum. Til samanburðar má nefna að Framtakssjóðurinn í eigu sextán lífeyrissjóða var með 30 milljarða í eigið fé.

Einhver gæti talið það réttlætismál að kröfuhafar fái sína hlutdeild í hagnað bankanna, þar sem þeir töpuðu þúsundum milljarða króna á íslensku bönkunum.  Þeir hinir sömu gleyma að núverandi kröfuhafar eru ekki endilega þeir sömu og lánuðu bönkunum á sínum tíma.  Stór hluti núverandi kröfuhafa eru svokallaðir vogunarsjóðir, sumir hafa jafnvel kallað þá hrægammasjóði, sem keyptu kröfur á gömlu bankana á slikk, aðeins lítið brot af upprunalegu verðmæti þeirra.

Gleymum heldur ekki ástæðunni fyrir hinum mikla bókfærða hagnaði og sterkri eiginfjárstöðu bankanna.  Þegar nýju bankarnir voru settir á stofn höfðu menn ekki mikla trú á íslensku efnahagslífi og afskrifuðu stóran hluta lánasafnanna.  Íslensk heimili og fyrirtæki reyndust mun duglegri að borga en menn ætluðu.  Því jókst bjartsýni bankamanna umtalsvert og verðmæti lánasafnanna var fært upp = voða mikill hagnaður og miklu sterkari eiginfjárstaða.

Við skulum vona að talsmaður Bjartrar framtíðar hafi bara verið að grínast…svona að hætti Besta.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.1.2012 - 17:23 - 16 ummæli

Vaðlaheiðargöngin galin?

Ég hef verið ein þeirra sem hafa haft efasemdir um forsendur útreikninga um að Vaðlaheiðargöngin gætu staðið undir sér. Því kom niðurstaða verkfræðingsins Pálma Kristinssonar um að framkvæmdin verði dýrari og rekstrarkostnaður ganganna meiri ekki á óvart.  Niðurstaða hans er að ríkið þurfi hugsanlega að greiða milljarða kostnað vegna ganganna.

Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að Vaðlaheiðargöngin eru með þjóðhagslega arðsemi upp á 5-10%., – þótt það komi hvergi fram í fréttum af málinu.  Það ræðst af fækkun slysa og eignatjóna, styttingu vegalengdar um 15,8 km og styttingu aksturstíma um 10 mínútur.  Hver sá sem hefur keyrt Vaðlaheiðina í snjóbyl veit af hverju.  Arðsemin liggur því í öðru en krónum og aurum í vasa einkaaðila.

Hún liggur í meiri lífsgæðum íbúanna á svæðinu.

Svæðið sem nyti góðs af Vaðlaheiðargöngunum hefur verið eitt af vaxtasvæðum landsins.  Þótt íbúum í einstökum byggðalögum hafi fækkað hefur íbúum á svæðinu fjölgað umtalsvert á undanförnum  áratugum. Stærri þéttbýliskjarnar hafa vaxið og dafnað sem miðstöðvar stjórnsýslu, atvinnulífs og menningar og bætt búsetuskilyrði fólks á stórum svæðum.  Framundan eru tækifæri til uppbyggingar í atvinnulífinu vegna mikilla orkuauðlinda á svæðinu.

Eru Vaðlaheiðargöngin sú einstaka vegaframkvæmd sem íbúar á þessu vaxtasvæði telja mikilvægasta fyrir uppbyggingu svæðisins? Sú sem styður best við atvinnulífið og bætir lífsskilyrðin á svæðinu?  Er þetta sú framkvæmd sem þeir vilja eyða skattpeningunum sínum í?  Sýna útreikningar að hún sé þjóðhagslega hagkvæm?

Ef svarið við þessum spurningum er já, –  af hverju ættum við að telja okkur umkomin til að hafa vit fyrir íbúum á Norðurlandi?

Slíkt væri fullkomlega galið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.1.2012 - 11:27 - 5 ummæli

Evrópumet í athyglisbresti?

Notkun íslenskra barna á tauga- og geðlyfjum hefur aukist gífurlega. Þetta segja svör velferðarráðherra um þróun útgjalda ríkisins vegna tauga- og geðlyfja. Á árunum 2003-2010 hækkaði hlutfall af heildarkostnaði Sjúkratrygginga Íslands hjá börnum á aldrinum 0-9 ára úr 2,5% í 3,6% og 10-14 ára úr 7,2% í 11,9%.  Þeir lyfjaflokkar sem jukust mest á sama tímabili voru örvandi lyf, lyf notuð við ADHD (enska: attention deficit hyperactivity disorde, íslenska: athyglis- og ofvirkniröskun) og lyf sem efla heilastarfsemi, geðrofslyf og flogaveikilyf.

Í rannsókn sem Helga Zoëga, Matthías Halldórsson og fleiri unnu um notkun ADHD lyfja á Norðurlöndum árið 2007 kom fram að Íslendingar væru nær 5 sinnum líklegri en Svíar til að nota ADHD lyf. Meðalnotkunin á Norðurlöndum var 2,76/1000 íbúa á meðan hún var 12,46/1000 íbúa á Íslandi.   Drengir á aldrinum 7-15 ára voru fjórfalt líklegri en stúlkur til að vera á þessum lyfjum, en mismunur á milli kynjanna minnkaði með aldrinum. Notkun íslenskra barna á ADHD lyfjum er með mesta móti í Evrópu en líkist mjög notkun bandarískra barna, þar sem talað hefur verið um faraldur í greiningu á athyglis- og ofvirkniröskun (athyglisbresti).

Í annarri rannsókn sem unnin var af Todd E. Elder (2010) kom fram að yngstu börnin í árgangi væru nær tvöfalt líklegri til að vera greind með ADHD en elstu börnin í næsta árgangi á eftir.  Fæðingardagur barnsins virtist hafa mikil áhrif á mat kennara á líkum þess að barn væri með athyglisbrest, en lítil tengsl við mat foreldra.  Þannig virðist slæm hegðun barna í kennslustundum auka mikið líkur á greiningu barna skv. rannsókninni.

Ég vil börnunum okkar vel.  Ef lyf hjálpa þeim þá tel ég að við eigum ekki að setja fyrir okkur aukna notkun og hærri kostnað.  En af hverju eru drengir margfalt líklegri til að vera greindir með ADHD en stúlkur?  Af hverju skiptir fæðingardagur máli þegar kemur að greiningu á ADHD?  Af hverju er þessi gífurlegi munur á milli Norðurlandanna í greiningu á ADHD og þar með lyfjanotkun þar sem um er að ræða tiltölulega lík samfélög þegar litið er til uppruna, efnahagslegra, menningarlegra, og félagslegra þátta?

Og skila lyfin raunverulegum árangri?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.1.2012 - 15:54 - 5 ummæli

Styrkir til flokka: Einn maður, ein ávísun?

Er ástæða til að breyta, – enn á ný, fjármögnun stjórnmálaflokka á Íslandi?

Fyrir 2006 voru engar sérstakar skorður við fjárframlögum til stjórnmálaflokka og þeir fjármagnaðir fyrst og fremst með framlögum lögaðila og einstaklinga.  Árið 2006 voru sett lög um fjármál stjórnmálaflokka, nr. 162/2006.  Þar var samþykkt að allir stjórnmálaflokkar sem fengju a.m.k. 1 mann kjörinn á Alþingi eða 2,5% atkvæða í næstliðnum Alþingiskosningum ættu að fá fjárveitingu á fjárlögum. Fjárhæðinni skyldi úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Einnig gætu samtök sem byðu fram í öllum kjördæmum fengið styrk frá ríkinu til að mæta kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 milljónir kr.

Í staðinn var stjórnmálasamtökum og frambjóðendum bannað að taka við framlögum umfram 300.000 kr. frá lögráða einstaklingum og lögaðilum og gert skylt að upplýsa um fjárhag sinn og stuðningsmenn.  Það hámark var svo hækkað í 400.000 kr. í fyrra. Þak var einnig sett á kostnað frambjóðenda við kosningabaráttu.

Rökstuðningurinn fyrir lögunum var sögð samþykkt Evrópuráðsins um að aðildarríki skyldu koma sér upp sameiginlegum reglum gegn spillingu í tengslum við fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu.  Mælst var til að ríki veittu stjórnmálaflokkum stuðning og tryggðu um leið að fjárstyrkur frá hinu opinbera eða einkaaðilum truflaði ekki sjálfstæði stjórnmálaflokka.  Komið skyldi í veg fyrir hagsmunaárekstra og gagnsæi fjárframlaga tryggt. Stjórnmálaflokkar væru hornsteinn lýðræðis og forsenda heilbrigðrar og eðlilegrar þjóðmálaumræðu. Með lögum átti að treysta möguleika þeirra til að sinna þessu hlutverki, samhliða því að girða sem kostur er fyrir mögulega misnotkun á aðstöðu og spillingu.

Á fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir 295 milljónum kr. í styrki til stjórnmálasamtaka.

Þessar fjárveitingar ríkisins hafa verið gagnrýndar.  Framlög lögaðila hafa einnig verið gagnrýnd og jafnvel framlög einstaklinga. Aðrir hafa gagnrýnt að ný framboð standi höllum fæti gagnvart þeim sem fyrir eru.  Við afgreiðslu fjárlaga 2012 var lögð fram tillaga um að fella niður fjárveitingu ríkisins til stjórnmálaflokka. Tillagan var felld, en áfram stendur eftir spurningin um hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

Því vakti umfjöllun um bók lagaprófessorsins Lawrence Lessig ‘Republic, lost’ um fjármögnun stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum sérstaka athygli mína.  Hann telur að núverandi löggjöf með takmörkunum á upphæðum styrkja og upplýsingaskyldu hafi gert lítið sem ekkert gagn. Í staðinn leggur hann til að hver einstaklingur með kosningarétt fái $50 ávísun frá ríkinu (til dæmis eins og Frístundakortið í Reykjavík) og geti nýtt ávísunina til að styrkja stjórnmálaflokka.  Til að geta nýtt sér ávísanir yrðu flokkarnir að samþykkja að fjármagna sig aðeins með þeim auk framlaga frá einstaklingum, að hámarki $100 frá hverjum.

Sambærilegar upphæðir hér gætu verið um 1.500 – 2.000 kr. ávísun plús allt að 3.000-6.000 kr. í viðbót.  Kjósendur myndu sjálfir ráðstafa framlögum sínum til stjórnmálaflokka,- hugsanlega í gegnum netbankann eða Ísland.is. Nýir og gamlir stjórnmálaflokkar stæðu jafnfætis hvað framlög varðar.  Áhrif fjármagns frá lögaðilum myndu hverfa þar sem þeir fengju ekki að styrkja stjórnmálaflokka.

Einn maður, ein ávísun.

Varla er hægt að hugsa sér meiri valddreifingu en þetta.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.1.2012 - 13:40 - 6 ummæli

Hvað með millistéttaraulana?

Eina bestu grein síðasta árs átti Karl Sigfússon undir fyrirsögninni Ég er kúgaður millistéttarauli. Í henni lýsir hann reynslu sinni af kúgun lánastofnana og stjórnvalda. Hvernig stjórnvöld hafa verðlaunað þá sem skuldsettu sig í topp á kostnað þeirra sem lögðu fram sparifé sitt við fasteignakaup og stilltu skuldsetningu í hóf. Hvernig þeim hefur verið refsað sem reynt hafa að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar, þrátt fyrir brostnar forsendur. Hvernig ábyrgð og heiðarleiki hafa leitt til þess að viðkomandi situr eftir sem kúgaður millistéttarauli.

Nú segja stjórnvöld að ekkert sé frekar hægt að gera fyrir heimilin í landinu. Þessu hafna framsóknarmenn. Góð stjórnvöld verða að forgangsraða í þágu heimilanna. Mikil tækifæri til almennra leiðréttinga skulda heimilanna glötuðust með yfirfærslu bankanna til kröfuhafa og með því að setja ekki þak á hækkun verðbóta í hruninu. Nýtt ár kemur með ný tækifæri. Tækifæri til að gera betur. Tækifæri til að skoða nýjar hugmyndir og lausnir. Því höfum við framsóknarmenn enn á ný reifað hugmyndir til hjálpar skuldsettum heimilum landsins.

Við viljum nýta skattkerfið til að leysa úr vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja. Það yrði gert með því að afborganir af húsnæðislánum yrðu skattfrjálsar upp að vissu marki, til dæmis sem nemur 1-2 milljónum á ári. Skattaafslátturinn yrði svo nýttur sem viðbótargreiðsla inn á húsnæðislánin. Þannig gætu heimilin greitt töluvert meira inn á lánin sín án aukins kostnaðar fyrir þau. Þessi aðferð gæti komið til móts við þann hóp sem hefur gert sitt besta til að standa í skilum, þrátt fyrir að hafa tapað stórum hluta af eigin fé í fasteignum sínum.

Tekjur ríkissjóðs myndu lækka eitthvað en á móti kæmu lægri vaxtabætur og auknar tekjur Íbúðalánasjóðs.

Við viljum að fulltrúar allra þingflokka og sérfræðingar komi að útfærslu á þessari hugmynd í samvinnuanda og að frumvarp verði lagt fram af ráðherra á vorþingi.

Sýnum á nýju ári að ábyrgð, heiðarleiki og réttlæti er íslenska leiðin.

Rétta leiðin.

(Greinin birtist fyrst í FBL þann 3. janúar 2012)

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.12.2011 - 21:15 - 2 ummæli

Gleðilegt nýtt ár

Ég vil óska landsmönnum farsæls komandi árs og þakka fyrir innlitin og góðar athugasemdir við pistla mína. Hlakka til góðs bloggárs 2012 🙂

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.12.2011 - 12:27 - 2 ummæli

Lausnin felst í samvinnu

Engum dylst að samfélögin á Suðurnesjum eiga í vanda. Hafi einhver verið í vafa um það ætti nýleg skýrsla samstarfshóps á vegum Velferðarráðuneytisins að vera þeim hinum sama holl lesning. Helstu niðurstöður hennar voru sláandi.

Hlutfall atvinnuleysis er langhæst á Suðurnesjum af landinu öllu. Hlutfall barna á Suðurnesjum sem eiga foreldra á atvinnuleysisskrá er tæp 22% miðað við 14% landsmeðaltal. Um 13% þeirra sem farið hafa í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eru af Suðurnesjum þó þar búi aðeins tæp 7% landsmanna. Árið 2010 voru 8,6% allra gjaldþrota fyrirtækja á landinu á Suðurnesjum. Æ fleiri leita til félagsþjónustu sveitarfélaganna og byrði samfélagsins er þung.

Mér er slétt sama hvort stjórnvöldum, Árna Sigfússyni eða einhverjum öðrum er um að kenna. Að benda og kenna einhverjum öðrum um kemur að litlu gagni fyrir þá sem fá ekki vinnu, þá sem horfa á eftir húsnæði sínu á uppboð, fyrirtækinu í gjaldþrot eða börnunum til útlanda.

Ástandið er fullkomlega óásættanlegt.  Til að breyta stöðunni þurfum við samvinnu.

Samvinna í fyrirrúmi á Suðurnesjum.

Allt of lengi hefur uppbygging og stuðningur við einstök svæði verið ómarkviss og skilað litlum árangri. Suðurnesin hafa svo sannarlega fengið að finna fyrir þessu.  Því til viðbótar hefur nálægðin við höfuðborgarsvæðið ítrekað verið notuð til að rökstyðja minni framlög frá hinu opinbera í samanburði við önnur byggðarlög hringinn í kringum landið.  Gildir þar einu hvort litið er til framlaga til símenntunarmiðstöðva, framhaldsskóla eða heilbrigðisþjónustu.

Ég er samvinnumaður. Samvinna er hugmyndafræði, ekki bara rekstrarform. Samvinnustefnan byggir á því að fólk nái meiri árangri með því að vinna saman heldur en hvert í sínu horni og að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns, hörundslitar eða búsetu. Gildi samvinnunnar eru sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða.

Á þeim grunni eiga Suðurnesjamenn sjálfir að fá að taka ákvarðanir um sína framtíð. Valdinu verður að dreifa frá höfuðborgarsvæðinu. Frumkvæði heimamanna verður að vera drifkrafturinn og Suðurnesjamenn verða að fá að bera sjálfir ábyrgð á sínu samfélagi.

Í dag fer ríkið með um 2/3 af opinberu fjármagni á meðan sveitarfélögin fara með um þriðjung. Með því að snúa þessum hlutföllum við geta sveitarfélögin til dæmis sjálf ákveðið hvort þau vilji leggja í þann kostnað að reka skurðstofu og fæðingarhjálp á svæðinu.  Þau geta sjálf metið hvort rétt sé að byggja upp einn, tvo eða þrjá framhaldsskóla og þau geta sjálf forgangsraðað sínum áherslum í atvinnumálum.

Samvinnurekstur

Dæmi um aukið vægi samvinnurekstrar væru svo heilsugæsla þar sem læknar og sjúklingar sameinast um reksturinn,  leik-, grunn- og framhaldsskólar sem reknir eru af foreldrum og kennurum og húsnæðisfélög þar sem íbúar taka höndum saman til að tryggja sér öruggt húsnæði á sanngjörnu verði.  Þá er mikilvægt að koma á fót samvinnusparisjóðum að norrænni fyrirmynd, sem lána peninga á sanngjörnum kjörum til félagsmanna, sem hver og einn getur orðið stofnfjáreigandi kjósi hann svo.

Stöðu Suðurnesja má snúa við en til þess þarf samstillt átak. Við þurfum að horfa fram á við með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Þannig snúum við vörn í sókn.

(Grein sem birtist í nýju blaði á Suðurnesjum þann 15. desember sl.)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.12.2011 - 17:08 - Rita ummæli

Einstakir fjölmiðlar og formenn 2011

Skiptir máli hver fjölmiðilinn er varðandi fjölda fréttaumfjöllunar um formenn stjórnmálaflokkanna?

Er munur á umfjöllun Fréttablaðsins og Morgunblaðsins? Stundum finnst mér þessi blöð vera að fjalla hvort um sitt Ísland.   Er RÚV að túlka hlutleysi sitt þannig að fjalla eigi sem mest um valdhafana?  Á hverjum hefur DV.is mestan áhuga þegar kemur að umfjöllun um formenn stjórnmálaflokkanna? Fjallar Eyjan.is meira um formenn stjórnarandstöðunnar en Jóhönnu og Steingrím?

Þetta voru allt spurningar sem ég var að velta fyrir mér þegar ég tók út einstaka fjölmiðla og umfjöllun þeirra um formenn stjórnmálaflokkanna.

Hér eru niðurstöðurnar:

Þingstk. Allar fréttir RÚV Eyjan DV FBL/visir MBL
Bjarni Benediktsson 25,40% 19,17% 17,76% 19,09% 30,60% 19,33% 17,13%
Jóhanna Sigurðardóttir 31,75% 33,99% 35,41% 28,48% 27,44% 35,45% 33,59%
Margrét Tryggvadóttir 4,76% 3,21% 2,45% 6,06% 5,52% 2,83% 3,44%
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 14,29% 10,30% 10,41% 13,03% 13,56% 10,40% 9,49%
Steingrímur J. Sigfússon 19,05% 33,33% 33,98% 33,33% 22,87% 31,98% 36,35%

Bjarni Benediktsson er í miklu uppáhaldi hjá DV og situr þar á toppnum í umfjöllun um formenn stjórnmálaflokkanna, með 30,60% af heildarumfjöllun.  Morgunblaðið og RÚV eru með hvað minnsta umfjöllun um hann.

Jóhanna Sigurðardóttir fær mesta umfjöllun hjá FBL og RÚV, eða rúm 35% hjá hvorum miðlinum fyrir sig.  MBL sýnir henni einnig töluverðan áhuga (33,59%), á meðan DV (27,44%) og Eyjan.is (28,48%) sjá minna fréttnæmt við hana.

Margrét Tryggvadóttir er að fá töluverða umfjöllun hjá Eyjan.is (6,06%)  og DV (5,52%) á meðan RÚV (2,45%) og FBL (2,83%) sýna henni minni áhuga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur mestra vinsælda hjá Eyjan.is (13,03%) og DV (13,56%) sem fréttaefni á meðan MBL sýnir honum minnstan áhuga (9,49%).

Steingrímur J. Sigfússon er að fá langmesta umfjöllun hjá MBL (36,35%) en langminnsta hjá DV (22,87%) þar sem hann er næstum því kominn niður í þingstyrk sinn í prósentum.

Skyldi þetta segja okkur eitthvað? Er mikil umfjöllun af hinu góða eða ekki?  Ég er ekki viss um að Bjarni Benediktsson hafi verið sérstaklega sáttur við áhuga DV á honum yfir árið á meðan Steingrímur J. Sigfússon þakkar varla áhuga Morgunblaðsins á honum. Jóhanna Sigurðardóttir þykir greinilega minna áhugaverð hjá Eyjan.is en aðrir formenn.  Sigmundur Davíð er greinilega að heilla DV og Eyjan.is meira en aðra fjölmiðla á meðan MBL sýnir honum mjög takmarkaðan áhuga.  Segir það eitthvað hvað RÚV og MBL hafa lítinn áhuga á formönnum stjórnarandstöðunnar? Að valdhafar eru meira áhugaverðir? Fréttavænni?

Og já, það er munur á umfjöllun FBL og MBL þegar kemur að formönnum stjórnmálaflokkanna.

Niðurstaðan sýnir allavega að fréttamat fjölmiðla er ólíkt og íslensk fjölmiðlaflóra er ekki einsleit.

Svo er það okkar allra að vega og meta umfjöllunina sjálfa.

PS.  Athuga þarf að ekki er gerð tilraun til að flokka umfjöllun.  Inni í tölunum geta verið innsendar greinar og fréttir sem hafa ekkert í raun með viðkomandi formann að gera.  Eina krafan er að nafn formannsins komi fram í umfjölluninni.

PSS.  Sá að fyrri pistill um umfjöllun um formenn stjórnmálaflokka komst í Frá Degi til dags í FBL og þá sérstaklega niðurstaða mín að Steingrímur er að fá umfjöllun langt umfram þingstyrk og stjórnarandstaðan langt undir þingstyrk.  Ég vil ítreka þá skoðun mína að Steingrímur er að fá  sömu umfjöllun og forsætisráðherra ekki vegna þess að hann er annar oddviti ríkisstjórnarinnar heldur vegna takmarkaðs aðgengis að forsætisráðherra.  Ég tel einnig að þingstyrkur stjórnarandstöðunnar eigi að skila sér betur í umfjöllun fjölmiðla.  Ástæða þess er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru fulltrúar ákveðinna kjósenda.  Ef ekki heyrist frá þessum fulltrúum þá eru raddir þeirra kjósenda ekki að skila sér nægilega vel út í samfélagið.  Lýðræðið er þá ekki að virka eins og það ætti að virka.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.12.2011 - 13:53 - 2 ummæli

„Fréttavænustu“ formennirnir 2011

Samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna eru flókin. Einhvers konar ástar/haturs samband. Þeir þurfa á hvor öðrum að halda til að fylla hvíta dálka og auðar mínútur og ná til almennings. En svo er kvartað. Stjórnmálamenn undan því að fjölmiðlar sýni ekki „rétta“ mynd af stjórnmálunum. Fjölmiðlar telja sig vera að flytja fréttir, ekki sinna ímyndarsköpun fyrir stjórnmálaflokka.

Því datt mér í hug að skoða fjölda frétta um formenn stjórnmálaflokkanna árið 2011.  Aðferðafræðin var einföld.  Nöfn formanna voru slegin inn í fréttasafn CreditInfo og fjöldi frétta pr. mánuð skráðar.

  • Í 5. sæti er Margrét Tryggvadóttir, núverandi formaður Hreyfingarinnar m/ 3,21%.  Það er töluvert minna en 4,76% þingstyrkur Hreyfingarinnar gefur tilefni til.  (Athuga þarf að  í Hreyfingunni byggist titilinn formaður frekar á reglum Alþingis en þörf þinghópsins fyrir formann.  Hafa því þingmenn Hreyfingarinnar skipt með sér bróðurlega hlutverki formanns, sem og þingflokksformanns.)
  • Í 4. sæti er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins m/ 10,30%.  Það er um þriðjungi minni umfjöllun en þingstyrkur Framsóknarmanna gefur tilefni til en hann er 14,29% af heildarfjölda þingmanna.
  • Í 3. sæti er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins m/ 19,17%.  Það’ er um fjórðungi minni umfjöllun en þingstyrkur Sjálfstæðismanna gefur tilefni til en hann er 25,40% af heildarfjölda þingmanna.
  • Í 2. sæti er Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar m/ 33,99%.  Það er aðeins meira en þingstyrkur Samfylkingarinnar en hann er 31,75% af heildarfjölda þingmanna.
  • Í 1. sæti er Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna m/ 33,33%.  Þessi umfjöllun er um 75% umfram þingstyrk Vinstri Grænna en hann er 19,05% af heildarfjölda þingmanna.

Þó Jóhanna sé með flestar fréttirnar þá er það greinilega mat fjölmiðla að Steingrímur J. Sigfússon hafi verið fréttavænastur á árinu.

Sú staðreynd byggir ekki á þingstyrk hans.  Það gæti tengst því að hann er mun aðgengilegri en forsætisráðherrann og hefur orðið þannig að de facto talsmanni ríkisstjórnarinnar.

Niðurstaðan er því greinilega að umfjöllun fjölmiðla um formenn stjórnmálaflokka hefur ekkert með þingstyrk að gera.  Formenn stjórnarandstöðunnar eiga töluvert erfiðara með að koma sér að hjá fjölmiðlum en formenn stjórnarflokkann. Auðvelt aðgengi getur skipt miklu máli.

Allt íhugunarefni fyrir 2012.

PS.  Hvað var það svo sem orsakaði mesta umfjöllun hjá hverjum formanni yfir árið?

  • Bjarni var með flestar fréttir í febrúar =  Stuðningur Sjálfstæðismanna við Icesave samninginn og synjun forsetans á lögunum.
  • Jóhanna var með flestar fréttir í mars =  Kjarasamningar, aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar og kærunefnd jafnréttismála taldi forsætisráðherra hafi brotið jafnréttislög.
  • Margrét var með flestar fréttir í janúar = Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings og njósnatölva fannst á Alþingi.
  • Sigmundur Davíð var með flestar fréttir í apríl = Námsferill hans vakti athygli og hugsanleg aðkoma Framsóknarflokksins að ríkisstjórnarsamstarfi í tengslum við vantrausttillögu.
  • Steingrímur var með flestar fréttir í október = Mikil átök á landsfundi VG, Hæstiréttur staðfesti neyðarlögin, fjáraukalög lögð fram og Páll Magnússon ráðinn forstjóri Bankasýslunnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.12.2011 - 16:50 - 1 ummæli

10 vinsælustu bloggin 2011

Í lok árs er við hæfi að líta yfir farinn veg. Hér má því finna þau 10 blogg sem flestir lásu á árinu.

Nr. 10  Að velja sér lagaumhverfi
Einn af þeim sem hafði samband við mig í gær lýsti því hvernig hann hefði greitt inn á bílinn sinn meirihluta kaupaverðsins, og gert bílasamning um afganginn.  Þrátt fyrir þetta þá er lánveitandinn skráður eigandi bílsins í ökutækjaskrá, – og sá sem lagði fram meirihluta kaupverðsins skráður umráðamaður.  Óskir um að leiðrétta þetta hefði einnig verið synjað af Umferðarstofu…Lesa meira.

Nr. 9  Hjörð vitleysingja
Óánægja með störf stjórnmálamanna er mikil. Í síðustu könnun Fréttablaðsins vildi helmingur aðspurðra ekki svara til um afstöðu sína til stjórnmálaflokka. Í nýrri könnun MMR kom fram að 13% væru ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar en aðeins um 7% með störf stjórnarandstöðunnar… Lesa meira.

Nr. 8  Gimme money
Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli. Hann er stofnaður og rekinn af einkaaðilum. Ríkið hefur stutt við skólann með beinum ríkisframlögum og í gegnum skólagjaldalán LÍN þar sem námið er lánshæft… Lesa meira.

Nr. 7  Er lögbrot tækniatriði?
Viðtal við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á Pressunni um söluferlið á Byr veldur mér nokkrum heilabrotum… Lesa meira.

Nr. 6  Guðmundur farinn
Guðmundur Steingrímsson hefur, ásamt nokkrum  flokksmönnum, ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn.  Óska ég þeim góðs gengis á nýjum vettvangi og þakka samstarfið. Þeir vita að ég hefði óskað… Lesa meira.

Nr. 5  Guðrún Ebba
Viðtalið við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur snerti mig djúpt. Ég trúi henni. Það var tvennt sem gerði það sérstaklega að verkum… Lesa meira.

Nr. 4  Kjóstu eins og ég vil, annars hefurðu verra af!
Þingmenn fá marga tölvupósta með hvatningu, ábendingum og já, skömmum um hin ýmsu mál.  Í dag barst okkur tölvupóstur frá Hrafni Gunnlaugssyni þar sem hann hvatti okkur, stjórnlagaráðsmenn og ýmsa fjölmiðla til að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. Ekkert svo sem nýtt í því… Lesa meira.

Nr. 3  Að tala niður Ísland
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ákvað fyrir nokkrum dögum að fara í megrun og borða kolvetnissnautt íslenskt fæði. Íslenski bloggheimurinn froðufelldi en fagnaði um leið tækifærinu.  Áður hafði aðeins verið hægt að skrifa um ættjarðarlög og íslenska fánann á flokksþingi…  Lesa meira.

Nr. 2  SVÞ m/ dýrustu raftækin
Í leiðara Fréttablaðsins í gær tekur Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, upp málflutning Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) gegn íslenskum landbúnaði um að hér sé eitt hæsta búvöruverð á byggðu bóli úti í búð. Hans lausn er að koma á samkeppni, þannig að bændur og afurðastöðvar keppi við innflutning. Skoðum aftur staðreyndir, frekar en fullyrðingar…Lesa meira.

Og svo mest lesni pistill ársins:

Nr. 1  Þrí- eða fjórsaga
Eitt helsta umfjöllunarefni fjölmiðla í gær var menntun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Því var haldið fram að hann hefði orðið fjórsaga um menntun sína og gert tortryggileg… Lesa meira.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur