Fimmtudagur 8.9.2011 - 07:23 - 1 ummæli

„Gríðarlega víðtækt“ vald fjármálaráðherra

Neyðarlögin átti að endurskoða 1. janúar 2010.  Endurskoðunarákvæðið var sett inn að frumkvæði Alþingis sbr. nefndarálit meirihluta viðskiptanefndar þann 6. október 2008: „Að lokum ræddi nefndin um nauðsyn þess að lög þessi verði endurskoðuð og leggur til í ákvæði til bráðabirgða að þau skuli endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010. Nefndin leggur áherslu á að ákvæði frumvarpsins eru hugsuð sem neyðarráðstöfun og því þurfi ráðherra að leita staðfestingar þingsins. Leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að verði heimildin notuð skuli fjárlaganefnd Alþingis upplýst jafnharðan um ráðstafanir.“

Steingrímur J. Sigfússon var ekki fyllilega sáttur við nefndarálit meirihlutans og þótti sérstök ástæða til að árétta að framsal valds til fjármálaráðherra og Fjármálaeftirlitsins væri skv. frumvarpinu „…gríðarlega víðtækt og það og fleiri ákvæði frumvarpsins kunna að ganga fram á ystu brún gagnvart ýmsum stjórnarskrárvörðum réttindum.“

Í dag er 8.  september 2011 og fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon virðist kunna ágætlega við sitt gríðarlega víðtæka vald.

Því hef ég ásamt þingmönnum úr Framsóknarflokknum, Hreyfingunni og Lilju Mósesdóttur lagt fram frumvarp um afnám valdheimilda fjármálaráðherra úr neyðarlögunum.

Nú er bara að bíða og sjá hvort stjórnarliðar telja ekki ástæðu til að taka undir efni frumvarpsins.

Neyðinni á víst að vera lokið, – var það ekki?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 13:56 - 2 ummæli

Framsóknarstefna á heimsvísu

Fyrir stuttu hittust allir helstu seðlabankastjórar í heimi í Jackson Hole í Bandaríkjunum.  Þar flutti Christine Lagarde, nýr forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sína fyrstu stóru ræðu sem stjórnandi sjóðsins. Í ræðunni talaði hún um mikilvægi þess að skapa störf og draga úr skuldum.  Þessi tvö atriði væru lykilatriði til að byggja upp varanlegan og sjálfbæran vöxt í heiminum.

Þarna boðaði Christine Lagarde framsóknarstefnu á heimsvísu.

Enginn raunverulegur vöxtur verður án vinnu, og án vinnu verður enginn varanleg velferð.

Þetta er kjarninn í hugmyndafræði Framsóknarmanna. Þess vegna leggjum við Framsóknarmenn jafn mikla áherslu á að tekið verði á skuldvanda heimila og fyrirtækja.  Fólk sem er að drukkna í skuldum fjárfestir ekki, ræður ekki fólk í vinnu og kaupir ekki vörur eða þjónustu.

Því verðum við að taka á skuldavandanum og skapa störf.

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.9.2011 - 08:18 - 17 ummæli

Brestur í brynju verðtryggingar

Almenningur kallar eftir afnámi verðtryggingar.  Í skýrslu verðtryggingarnefndar voru skoðaðar fjölmargar leiðir til að draga varanlega úr notkun verðtryggingar.  Ein þeirra var að Íbúðalánasjóður fengi heimild til að bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán. Fagnaði forstjóri sjóðsins þessari hugmynd og hafa nú jafnvel þingmenn stjórnarflokkanna tekið undir hana.

Þessi breyting er mikilvægt upphafsskref í átt að óverðtryggðu umhverfi, – en meira þarf til.

Lækka vexti

Verðtrygging tekur út stærstu áhættuþætti lánveitenda, verðbólgu og gengisþróun.  Þrátt fyrir þetta hafa raunvextir verið hærri en í nágrannalöndunum þar sem verðtrygging þekkist varla. Það er ekki hægt að sætta sig við núverandi ástand.  Því verður að leita allra leiða til að lækka raunvexti til frambúðar.  Sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna reiknaði út að lækkun raunvaxta í 3% til frambúðar svaraði til þess að höfuðstóll lána væri lækkaður um 20%.  Því vil ég endurskoða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna og hvetja til sparnaðar vegna kaupa á húsnæði og búseturétti með skattkerfinu.

Óverðtryggð húsnæðislán

Ég vil óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. Þar yrðu boðin óverðtryggð húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum vaxta á ákveðnum tímabilum (0, 3, 5 og 7 ára fresti.  Ég vil sjá almenna húsnæðislánalöggjöf um lánstíma og veð. Lyklafrumvarpið verður að samþykkja. Bjóða þarf ný íbúðabréf í samræmi við breytt fyrirkomulag útlána og tryggja jafnvægi á milli einstaks húsnæðisláns og íbúðabréfs.  Auðvelda þarf fólki flutning í nýtt kerfi með því að fella niður gjaldtöku við skilmálabreytingu og endurfjármögnun.  Jafnframt þarf að semja við lífeyrissjóði um endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs til að flýta kerfisbreytingu.

Þak á verðtrygginguna

Stór hluti verðbreytinga verður vegna gengisþróunar.  Þrýstingur er á gengi krónunnar til lækkunar.  Verðbólguskot myndi þýða að þúsundir heimila myndu lenda í vanskilum með lán sín.  Því vil ég að sett verði þak á verðtryggingu núverandi lána sem miðist á ársgrundvelli við 4% hámark, sbr. tillögu Framsóknarflokksins frá því haustið 2009.  Leita þarf einnig samninga við lánveitendur um að hækka ekki annan kostnað lántakenda til að komast framhjá þessu þaki á meðan unnið er að afnámi verðtryggingar.

Stríðið við verðtrygginguna verður langt og strangt, en loksins hyllir í fyrsta sigurinn.

(Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. september 2011)

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.9.2011 - 15:33 - 1 ummæli

Er bílinn aðfararhæf eign?

Í lögum um niðurfærslu veðkrafna Íbúðalánasjóðs segir: „Heimilt er að færa niður veðkröfur skv. 1. mgr. um allt að 4. millj. kr. hjá einstaklingum og um allt að 7 millj. kr. hjá hjónum, sambýlisfólki og einstæðum foreldrum enda sé veðkrafan á veðrétti umfram 110% af verðmæti eignar og lántaki eða maki hans eiga ekki aðrar aðfararhæfar eignir með veðrými sem svarar að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu veðkröfu.  Sé veðrými á aðfararhæfri eign í eigu lántaka eða maka hans skal lækka niðurfærslu veðkröfu sem því nemur.

Íbúðalánasjóður notar skattframtal umsækjenda um niðurfærslu sem viðmið til að ákvarða verðmæti aðfararhæfra eigna eins og bíla.

Þá vaknar spurningin um hvort bíllinn sé aðfararhæfur eða ekki?

Fjármögnunarfyrirtækin halda því fram að þau eigi bílana sem Hæstiréttur hefur dæmt að hafi verið keyptir með láni en ekki leigðir af viðkomandi fyrirtækjum.  Þar er um að ræða 65 þúsund lánasamninga. Þessir bílar eru svo færðir inn á skattframtal viðkomandi lántaka skv. ráðleggingum fjármögnunarfyrirtækjanna.

Er bíll sem þú „leigðir/fékkst lánað til“ aðfararhæfur?  Á sjóðurinn að taka tillit til hans við mat á niðurfærslunni? Spyr sjóðurinn fólk hvort það „eigi“ bílinn eða ekki?

Eða er öllum sama nema þegar kemur að vörslusviptingu?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.9.2011 - 14:45 - Rita ummæli

Hver á bílinn minn, – aftur

Af gefnu tilefni tel ég ástæðu til að endurbirta grein mína Hver á bílinn minn?

“Samkvæmt dómi Hæstaréttar er kaupleiga eins og hver önnur lántaka. Í stað þess að skilgreina lánið sem lán er búinn til lagatæknilegur orðhengill um kaupleigu til að falsa bókhaldið.” Þetta skrifaði Jónas Kristjánsson nýlega á blogginu sínu.

Hvers vegna eru þá ökutækin sem lánað var til enn skráð á fjármögnunarfyrirtækin hjá Ökutækjaskrá? Í kjölfar gengisdóma Hæstaréttar og lagasetningar í kjölfarið hafa tugþúsundir lántakenda fengið endurútreikning á lánum sínum, sem er viðurkenning fjármögnunarfyrirtækja á að samningarnir voru í raun lán en ekki leiga.

Þrátt fyrir þetta neita fyrirtækin og Ökutækjaskrá að breyta eigendaskráningu ökutækjanna í samræmi við dómana.

Forsendan fyrir ólögmæti gengistryggingarinnar var að samningarnir væru lán. Ástæðan var að gengistrygging leigu er lögleg, en ekki lána samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir: “Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni.”

Fjármögnunarfyrirtækin keyptu aldrei viðkomandi ökutæki og voru ekki aðilar að kaupunum. Því geta þau ekki átt viðkomandi ökutæki. Eignarréttur færist frá seljanda til kaupanda, ekki fyrirtækjanna sem lána til kaupanna.

Þetta staðfestir skattaleg og bókhaldsleg meðferð viðkomandi ökutækja. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. X-532/2010 var bent á að í bókhaldi fjármögnunarfyrirtækisins var tækið aldrei fært sem eign, heldur hafi aðeins krafan verið færð til eignar samkvæmt samningi. Tekjur vegna samningsins voru færðar sem vaxtatekjur, en ekki leigutekjur. Sama virðist gilda um önnur fjármögnunarfyrirtæki við skoðun á ársreikningum.

Samningsákvæði um að eignarréttur haldist hjá einhverjum sem keypti aldrei ökutækið, eignaðist það aldrei, færði það aldrei til bókar né taldi fram til skatts er því merkingarlaust þegar það er lesið í tengslum við lög, önnur ákvæði samningsins, framkvæmd hans og túlkun dómstóla á innihaldi hans.

Fjármögnunarfyrirtækin geta ekki bæði sleppt og haldið. Annað hvort eiga þau ökutækin eða ekki. Hæstiréttur segir að þau eigi þau ekki og það hlýtur að gilda.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2011 - 07:03 - 19 ummæli

Ekki lánað til námsmanna erlendis

Ung íslensk kona hefur búið og starfað í Noregi í tvö ár.  Samhliða hefur hún ítrekað sótt um skólavist í draumaskólann sinn.  Í haust fékk hún loksins draum sinn uppfylltan, með jákvæðum svari um skólavist. Starfinu var sagt upp og næsta skref var að sækja um námslán til LÍN.

Þar brá henni harkalega í brún þegar henni var synjað um námslán.

Menntamálaráðherra (og samstarfsráðherra Norðurlanda) hefur gefið út nýja reglugerð um LÍN sem leyfir þeim ekki að veita námslán til Íslendinga sem búið hafa erlendis lengur en 12 mánuði.

Í 3.gr. nýju reglugerðarinnar segir:  „Námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: 1. Umsækjandi um námslán hafi verið við launuð störf hér á landi: a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta og haft samfellda búsetu hér á landi á sama tíma. b. í skemmri tíma en 12 mánuði og haft búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili.“

Ekki virðast vera samræmdar reglur á milli Norðurlandanna.  Skilst mér einnig að málið hafi ekki verið tekið upp í menntamálanefnd Norðurlandaráðs  né af samstarfsráðherra Norðurlanda.

Eftir stendur unga konan án skólavistar, án vinnu, án framtíðar.

Þetta er ekki í lagi. Ég hef ætíð talið mikla kosti fólgna í því að Íslendingar búi og mennti sig erlendis.  Þannig fáum við fólk heim með fjölbreytta menntun,  góða tungumálakunnáttu, víðtækt tengslanet og aukna víðsýni. Það getur ekki verið að við viljum loka fyrir aðgang að lánasjóðnum í miðjum niðurskurði í íslenska skólakerfinu, atvinnuleysi og kreppu.

Því hef ég ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur óskað eftir því að menntamálanefnd fundi með ráðherra og LÍN um reglugerðina og skýri stöðuna varðandi réttindi íslenskra ríkisborgara erlendis gagnvart LÍN.

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2011 - 09:41 - 45 ummæli

Að tala niður Ísland

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ákvað fyrir nokkrum dögum að fara í megrun og borða kolvetnissnautt íslenskt fæði.

Íslenski bloggheimurinn froðufelldi en fagnaði um leið tækifærinu.  Áður hafði aðeins verið hægt að skrifa um ættjarðarlög og íslenska fánann á flokksþingi Framsóknarmanna  en núna, loksins, var komin staðfesting á þjóðernishyggju formannsins.

Hann taldi mat framleiddan á Íslandi vera betri en annan.

Fólkið sem hafði hingað til fjölmennt á bændamarkaði á Suðurlandi til að kaupa ferskt hunang, landnámsegg og chili chutney,  rölt hamingjusamt á milli Frú Laugu og pólsku kjötbúðarinnar í Laugalæk, og vökvað kryddplönturnar sínar úti í glugga gat greinilega ekki hugsað sér að vera sammála formanni Framsóknarflokksins.

Þeirri hugsun að staðbundin (lesist: íslensk) framleiðsla sé betri fyrir umhverfið og mann sjálfan.  Þeirri hugsun að draga eigi úr umhverfisáhrifum af flutningi matvæla þvert yfir heiminn.  Þeirri hugsun að styðja eigi við innlenda framleiðslu og nýsköpun og fjölga þannig störfum.  Þeirri hugsun að spara eigi gjaldeyri þar sem hægt er. Þeirri hugsun að stuðla bæri að aukinni sjálfbærni í íslensku samfélagi.

Nei, – nú skyldi svo sannarlega tala niður Ísland og allt það sem er íslenskt.

Sorglegt.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.8.2011 - 13:54 - 9 ummæli

Heimilin í fyrirrúmi

Það er kallað eftir nýrri húsnæðisstefnu á Íslandi.  Húsnæðisstefnu sem tryggir fólki öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.  Húsnæðisstefnu þar sem fólk hefur raunverulegt val um að leigja eða kaupa búseturétt eða séreign. Húsnæðisstefnu sem gerir ungu fólki kleift að búa í öruggu og ódýru húsnæði.

Við þurfum þó ekki sífellt að finna upp hjólið.

Nágrannalönd okkar geta vísað okkur veginn.  Í Danmörku er skýr lagarammi um hverjir mega lána til kaupa á húsnæði og hvernig. Þar er sett 80% hámark á veðsetningu íbúðarhúsnæðis, skýrar reglur um framkvæmd greiðslumats, yfirtöku og uppgreiðslu lána.  Þar deila lántakar og lánveitendur áhættunni af lánveitingunni og hafa sameiginlega hagsmuni af velferð beggja. Í Noregi er ungu fólki að 34 ára aldri veittur 20% skattaafsláttur vegna sparnaðar til kaupa á húsnæði eða búseturétti. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er einnig tryggt framboð af leigu- og búseturéttaríbúðum.

Samhliða eigum við að leita allra leiða til að lækka vexti og afnema verðtryggingu á íslenskum húsnæðislánum í samræmi við tillögur sem koma fram í skýrslu verðtryggingarnefndar.

Ég hef þegar komið þessum skoðunum á framfæri í nefnd velferðarráðherra um nýja húsnæðisstefnu og sem formaður verðtryggingarnefndar efnahags- og viðskiptaráðherra.

Næstu skref verða framlagning frumvarpa þessa efnis á nýju löggjafarþingi.

Því hlýtur maður að spyrja hvað ætlar norræna velferðarstjórnin að gera?

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.8.2011 - 11:31 - 32 ummæli

Guðmundur farinn

Guðmundur Steingrímsson hefur, ásamt nokkrum  flokksmönnum, ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn.  Óska ég þeim góðs gengis á nýjum vettvangi og þakka samstarfið. Þeir vita að ég hefði óskað að til þessa hefði ekki komið, en ákvörðunin er þeirra og hana ber að virða.

Þeir tilgreina sérstaklega stefnu flokksins í Evrópusambandsmálum og forystuna.

Æðsta lýðræðisstofnun Framsóknarflokksins er flokksþingið.  Eftir síðasta flokksþing var ég mjög ánægð með ákvarðanir flokksmanna. Við vorum með skýra stefnu í sjávarútvegsmálum, tæpar 50 tillögur í atvinnumálum og við höfðum tekið stórt skref í átt að bættum vinnubrögðum og lýðræði með breytingum á lögum flokksins.

Þar lögðu margir hönd á plóg og sýndu SUF-ararnir okkar þar mátt sinn og megin með vönduðum tillögum ekki hvað síst í sjávarútvegsmálum.

Ég var einnig mjög sátt við ályktun flokksþings um Evrópusambandið sem málefnanefndin lagði mikla vinnu í.  Í henni endurspeglaðist sterk andstaða meirihluta Framsóknarmanna við aðild að Evrópusambandinu, en einnig trú okkar á lýðræðið og rétt þjóðarinnar til að taka ákvarðanir um stór mál er varða framtíð hennar.  Margir voru ósáttir, bæði stuðningsmenn aðildar/-umsóknar og andstæðingar aðildar/-umsóknar. Það breytir því ekki að stefna flokksins var þarna mörkuð af æðstu lýðræðisstofnun flokksins.

Ef okkur hugnast ekki stefna eða forysta flokksins þá eru ýmsar leiðir til að bregðast við því.

Ein getur verið að gefast upp og fara.

Önnur getur verið að vera sú breyting sem maður vill sjá innan flokksins.

Því flokkurinn okkar er aldrei neitt annað en fólkið sem starfar í honum.

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.8.2011 - 13:00 - 5 ummæli

Hver á bílinn minn?

„Samkvæmt dómi Hæstaréttar er kaupleiga eins og hver önnur lántaka. Í stað þess að skilgreina lánið sem lán er búinn til lagatæknilegur orðhengill um kaupleigu til að falsa bókhaldið.“ Þetta skrifaði Jónas Kristjánsson nýlega á blogginu sínu.

Hvers vegna eru þá ökutækin sem lánað var til enn skráð á fjármögnunarfyrirtækin hjá Ökutækjaskrá? Í kjölfar gengisdóma Hæstaréttar og lagasetningar í kjölfarið hafa tugþúsundir lántakenda fengið endurútreikning á lánum sínum, sem er viðurkenning fjármögnunarfyrirtækja á að samningarnir voru í raun lán en ekki leiga.

Þrátt fyrir þetta neita fyrirtækin og Ökutækjaskrá að breyta eigendaskráningu ökutækjanna í samræmi við dómana.

Forsendan fyrir ólögmæti gengistryggingarinnar var að samningarnir væru lán. Ástæðan var að gengistrygging leigu er lögleg, en ekki lána samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir: „Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni.“

Fjármögnunarfyrirtækin keyptu aldrei viðkomandi ökutæki og voru ekki aðilar að kaupunum. Því geta þau ekki átt viðkomandi ökutæki. Eignarréttur færist frá seljanda til kaupanda, ekki fyrirtækjanna sem lána til kaupanna.

Þetta staðfestir skattaleg og bókhaldsleg meðferð viðkomandi ökutækja. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. X-532/2010 var bent á að í bókhaldi fjármögnunarfyrirtækisins var tækið aldrei fært sem eign, heldur hafi aðeins krafan verið færð til eignar samkvæmt samningi. Tekjur vegna samningsins voru færðar sem vaxtatekjur, en ekki leigutekjur. Sama virðist gilda um önnur fjármögnunarfyrirtæki við skoðun á ársreikningum.

Samningsákvæði um að eignarréttur haldist hjá einhverjum sem keypti aldrei ökutækið, eignaðist það aldrei, færði það aldrei til bókar né taldi fram til skatts er því merkingarlaust þegar það er lesið í tengslum við lög, önnur ákvæði samningsins, framkvæmd hans og túlkun dómstóla á innihaldi hans.

Fjármögnunarfyrirtækin geta ekki bæði sleppt og haldið. Annað hvort eiga þau ökutækin eða ekki. Hæstiréttur segir að þau eigi þau ekki og það hlýtur að gilda.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur