Neyðarlögin átti að endurskoða 1. janúar 2010. Endurskoðunarákvæðið var sett inn að frumkvæði Alþingis sbr. nefndarálit meirihluta viðskiptanefndar þann 6. október 2008: „Að lokum ræddi nefndin um nauðsyn þess að lög þessi verði endurskoðuð og leggur til í ákvæði til bráðabirgða að þau skuli endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010. Nefndin leggur áherslu á að ákvæði frumvarpsins eru hugsuð sem neyðarráðstöfun og því þurfi ráðherra að leita staðfestingar þingsins. Leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að verði heimildin notuð skuli fjárlaganefnd Alþingis upplýst jafnharðan um ráðstafanir.“
Steingrímur J. Sigfússon var ekki fyllilega sáttur við nefndarálit meirihlutans og þótti sérstök ástæða til að árétta að framsal valds til fjármálaráðherra og Fjármálaeftirlitsins væri skv. frumvarpinu „…gríðarlega víðtækt og það og fleiri ákvæði frumvarpsins kunna að ganga fram á ystu brún gagnvart ýmsum stjórnarskrárvörðum réttindum.“
Í dag er 8. september 2011 og fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon virðist kunna ágætlega við sitt gríðarlega víðtæka vald.
Því hef ég ásamt þingmönnum úr Framsóknarflokknum, Hreyfingunni og Lilju Mósesdóttur lagt fram frumvarp um afnám valdheimilda fjármálaráðherra úr neyðarlögunum.
Nú er bara að bíða og sjá hvort stjórnarliðar telja ekki ástæðu til að taka undir efni frumvarpsins.
Neyðinni á víst að vera lokið, – var það ekki?