Föstudagur 19.8.2011 - 09:17 - 2 ummæli

Í minningu Unnar

Löngu áður en ég kynntist Unni Stefánsdóttur var nafnið Unnur sérstakt í mínum huga.

Ein sterkasta sögupersóna Íslendingasagnanna var Unnur djúpúðga sem nam öll Dalalönd í Breiðafirði.  Á ýmsu gekk áður en hún lagði af stað til Íslands.  Í Laxdælu segir: „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.“

Þetta las ég á yngri árum og þótti nafnið Unnur fallegt og konan merkileg.

Seinna kynntist ég mágkonu minni, henni Unni.  Hún var gáfuð, kraftmikil og sannur hástökkvari þegar kom að því að fara yfir einstaka hindranir á lífsleiðinni.

Allar, – nema krabbameinið sem tók hana alltof snemma frá okkur.

Nú er önnur Unnur fallin fyrir sama sjúkdómnum. Unnur Stefánsdóttir stóð sannarlega vel undir þessu nafni. Hún var brautryðjandi og frumkvöðull í íþróttum, í umönnun leikskólabarna og í stjórnmálum.

Nú að morgni dags horfi ég á mína eigin litlu Unni sem fagnar brátt 5 ára afmæli sínu.

Í kvöld ætla ég að segja henni sögurnar af nöfnum hennar, af krafti þeirra og hæfni til að ryðja nýjar brautir.

Hvernig þær voru afbragð annarra kvenna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.8.2011 - 18:29 - 6 ummæli

Skortir lagastoð fyrir verðtryggingunni?

Umboðsmaður Alþingis hefur kallað eftir gögnum frá Seðlabanka Íslands um hvort verðtrygging hafi verið reiknuð í samræmi við lög.

Verðtryggingu var komið á með Ólafslögunum.  Í 34. gr. laganna segir: „Stefna skal að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í því skyni er heimilt, eins og nánar greinir í þessum kafla, að mynda sparifjárreikninga og stofna til lánsviðskipta í íslenskum krónum eða öðrum verðmæti með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, sbr. 39. gr.“

Í ákvæði til bráðabirgða (þetta er lykilatriði)  sem varð 13. grein laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands segir: „Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.“

Almenna reglan var að verðbæta ætti greiðslur, ekki höfuðstól. Með bráðabirgðaákvæðinu var ákveðið að reikna afborganir og vexti af verðbættum höfuðstól.

Væntanlega til að forðast fjöldamótmæli og byltingu var ákveðið að lána fyrir verðbótunum og verðbæta höfuðstólinn, ekki greiðslurnar. Í staðinn fékk fólk sjálfkrafa lánað fyrir verðbótunum með vaxtavöxtum, aftur og aftur…

Þegar núverandi lög, nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu voru sett fylgdi þetta bráðabirgðaákvæði ekki með. Í 13. gr. laganna segir: „Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.“

Í staðinn er reikniaðferðin útfærð í reglum Seðlabankans nr. 492 frá 2001 með síðari breytingum. Samkvæmt reglunum er verðtryggingin bundin við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir mánaðarlega. Einnig er heimilt að miða við innlenda eða erlenda hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalna. Lánstími verðtryggðra lána er minnst 5 ár og innlán aðeins verðtryggð sé binditími þeirra minnst 3 ár, sem þó má víkja frá í ákveðnum tilvikum, t.d. í tilviki reglubundins sparnaðar. Ekki er kveðið á um fasta eða breytilega vexti. Við útreikning á verðtryggðu láni breytist höfuðstóll þess í samræmi við breytingar á vísitölu milli mánaða. Höfuðstóllinn breytist á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.

Nú er spurningin hvort þessi reglugerð hafi lagastoð og það er stórmál ef svo er ekki.

Ef ekki þá hefur útreikningur verðbóta frá 2001 ekki haft lagastoð…

LÖGFRÆÐIÁLIT HH

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.8.2011 - 13:01 - 3 ummæli

Fjárfestingarsjóður Steingríms

Á síðustu misserum hefur staðið yfir ein mesta umbylting á íslenskum fjármálamarkaði sem sögur fara af. Ríkissjóður hefur varið tugum, ef ekki hundruðum milljarða í að endurreisa fjármálafyrirtæki hingað og þangað um landið og jafnframt hafa gríðarlegir eignir ríkissjóðs verið seldir einkaaðilum.

Engin þessara viðskipta hafa komið til formlegrar umfjöllunar á Alþingi fyrr en eftir að frá þeim hefur verið gengið og virðist sem fjármálaráðherra telji sig hafa frjálsar hendur til að fara með ríkissjóð sem sinn eigin fjárfestingasjóð og höndla með hundruði milljarða af skattfé almennings án þess að spyrja kóng eða prest.

Þetta hefur fyrst og fremst verið gert í skjóli neyðarlaganna sem sett voru í október 2008 og galopinna söluákvæða í fjárlögum.

Alþingi hefur ítrekað krafist þess að sett verði fram skýr stefna um hvernig endurreisa skuli íslenska bankakerfið. Endurskoða átti neyðarlögin í janúar 2010, leggja átti fram stefnu um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja, uppbyggingu fjármálamarkaðarins og rammalöggjöf um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Tryggja átti eftirlitshlutverk Alþingis og koma í veg fyrir að einstakir ráðherrar gætu að eigin geðþótta ráðstafað eignum ríkisins án opinnar og upplýstrar umræðu.

Ekkert af þessu hefur verið gert.

Þær heimildir sem nú eru til staðar uppfylla ekki skilyrði um opna og faglega stjórnsýslu og veita ráðherra óhófleg völd.

Löngu er tímabært að afnema þessar víðtæku valdheimildir fjármálaráðherra og mun ég leggja fram frumvarp þess efnis á Alþingi um leið og það kemur saman að loknu sumarleyfi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.8.2011 - 15:38 - 5 ummæli

Samvinnu um Suðurnes

Samstarfshópur á vegum Velferðarráðuneytisins um málefni Suðurnesja skilaði af sér áfangaskýrslu nýlega.

Þar eru helstu niðurstöður eftirfarandi:

  • Hlutfall atvinnuleysis er langhæst á Suðurnesjum eða 14,5% en er 8,6% á landsvísu.
  • Af þeim sem eru í atvinnuleit á Suðurnesjum eru einungis 69% með grunnskólapróf en á landsvísu er hlutfallið 52%. Á Suðurnesjum skila 90% grunnskólanema sér í framhaldsskóla á meðan landsmeðaltal er 97%.
  • Hlutfall örorkulífeyrisþega er hátt á Suðurnesjum. Í aldurshópnum 16–66 ára á Suðurnesjum eru 8,8% einstaklinga á örorkulífeyri. Á landinu öllu er hlutfallið 6,9%.
  • Hlutfall barna á Suðurnesjum sem eiga foreldra á atvinnuleysisskrá er 21,8% en yfir landið mælist hlutfallið 14%.
  • Það sem af er árinu 2011 eru 13% þeirra sem farið hafa í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara af Suðurnesjum en þar búa 6,6% landsmanna.
  • Árið 2010 voru 8,6% allra gjaldþrota fyrirtækja á landinu á Suðurnesjum.
  • 25% af eignum Íbúðalánasjóðs eru á Suðurnesjum.
  • Álag á félagsþjónustu sveitarfélaganna hefur aukist verulega og fleiri fá fjárhagsaðstoð til lengri tíma.

Eftir þennan lestur er mér nokk sama hvort það sé stjórnvöldum, Árna Sigfússyni eða einhverjum öðrum að kenna hvernig staðan er.

Að benda og kenna einhverjum um kemur að litlu gagni fyrir þá sem fá ekki vinnu, þá sem horfa á eftir húsnæði sínu á uppboð, fyrirtækinu í gjaldþrot eða börnunum til útlanda.

Við hljótum öll að telja þetta ástand fullkomlega óásættanlegt.

Eigum við ekki að reyna frekar samvinnu?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.8.2011 - 12:04 - 3 ummæli

Fór ég öfugu megin fram úr?

Ég las blöðin og bloggið með hafragrautnum í morgun.  Eftir að hafa lesið leiðara Ólafs Stephensen í Fréttablaðinu um væntanlega einkavæðingu ríkisbankanna datt ég inn í blogg Björns Vals Gíslasonar um viðbrögð Eiríks Bergmanns við umræðu um frumvarp stjórnlagaráðs.

Ég er alla jafna ósammála þessum tveimur mönnum, – en nú sat ég og kinkaði kolli yfir báðum þessum pistlum.

Kannski var tími til að fara bara aftur upp í…

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.8.2011 - 11:27 - 9 ummæli

Gimme money…

Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli. Hann er stofnaður og rekinn af einkaaðilum. Ríkið hefur stutt við skólann með beinum ríkisframlögum og í gegnum skólagjaldalán LÍN þar sem námið er lánshæft.

Ekkert hefur komið fram hjá menntamálaráðuneytinu né þingmönnum að það sé ekki vilji til að styðja áfram við skólann, -innan skynsamlegra marka.

Kvikmyndagerð er mikilvæg iðngrein, sem getur verið einn af vaxtarsprotum okkar til framtíðar.

Hins vegar verða menn að sníða sér stakk eftir vexti. Því miður hafa stjórnendur Kvikmyndaskólans verið of metnaðarfullir og ekki gætt nægilega vel að því að reksturinn væri í samræmi við tekjurnar.

Lausnin var að biðja um meira fjármagn frá ríkinu, – eftir að búið var að fjölga brautum og nemendum.

Ég held að mörg einkafyrirtæki vildu óska þess að þau gætu leitað til ríkisins í hvert skipti sem þau þyrftum meira fjármagn í reksturinn.

Nú er spurning hvort Ögmundur ætlar að vera góða álfkonan og gefa þeim meiri pening…

Kannski öllum hinum líka?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.8.2011 - 11:22 - 8 ummæli

Nauðgarinn ber ábyrgðina

Nauðganir eru hryllilegar og eiga ekki að líðast.  Þrjár nauðganir eru í rannsókn eftir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.  Fleiri eiga hugsanlega eftir að koma fram.

Þeir sem komu að Þjóðhátíð í Eyjum harma þetta mjög.

Mér finnst þó umræðan vera á nokkrum villugötum þegar gagnrýnin í fjölmiðlum er fyrst og fremst farin að snúa að mótshöldurum.  Það voru ekki nefndarmenn í Þjóðhátíðarnefnd sem nauðguðu.  Það voru ekki gæslumenn í Herjólfsdal sem nauðguðu.

Það voru brenglaðir einstaklingar sem tóku ákvörðun um að nei væri ekki nei og að þeirra vilji skipti meira máli en fórnarlambsins.  Að þeirra væri valdið til að niðurlægja og misnota aðra manneskju kynferðislega.

Ábyrgðin á nauðgun er alltaf þess sem nauðgar.

Það er satt að ákveðnar aðstæður gefa þessum brengluðum einstaklingum frekar tækifæri til að ráðast á fórnarlömb sín.

Er lausnin þá að hætta að bjóða upp á þær aðstæður?  Eigum við að banna útihátíðir? Skv. Stígamótum voru fjórtán tilvik skráð hjá samtökunum á útihátíðum í fyrra. Eigum við þar með að loka öllum skemmtistöðum? Skv. Stígamótum voru tíu brot af þessu tagi framin á eða við skemmtistað í fyrra.  Á að banna fólki að vera utandyra? Skv. Stígamótum voru 32 kynferðisafbrot framin af þessu tagi utandyra í fyrra.

Heildarfjöldi mála hjá Stígamótum vegna kynferðisafbrota; sifjaspella, vændis og nauðgana í fyrra voru 350. Hvert og eitt þeirra alvarlegt, erfitt og sorglegt.

En eigum við að leysa þau með að hætta með útihátíðir, setja upp öryggismyndavélar í heimahús, skírlífsbelti á alla karlmenn eða loka kirkjunni?

Vegna óeðlilegrar hegðunar brenglaðra einstaklinga?

Tryggjum að ábyrgðin sé hjá þeim sem bera hana í raun.

Nauðgaranna sjálfra.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.7.2011 - 18:16 - 1 ummæli

Allar konur fá túrverki…

Reynslusaga Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur af endómetríósu, af fræðslufundi hjá Samtökum kvenna með endómetríósu í fyrra:

„Eins og svo margar konur glímdi ég við túrverki þegar ég fór á blæðingar. Að öðru leyti áttu verkirnir sem ég glímdi við ekkert skylt með túrverkjum annarra kvenna. Mínir verkir voru svo slæmir að ég var óvinnufær tvo daga í mánuði. Stundum rankaði ég við mér í leigubíl fyrir framan heimili mitt, eftir að hafa misst meðvitund í skólanum og verið send heim. Ég beit í koddann og þjáðist með slíkum tilþrifum að það hræddi líftóruna úr meðleigjendum og var læknum ráðgáta. Ég lenti á spítala oftar en einu sinni. Ég leitaði til átta sérfræðinga, sem sendu mig heim með íbúfen og staðfestingu á því að ég væri bara ein af þessum óheppnu konum sem Rósa frænka ákvað að fara einkar hörðum höndum um.

Og nei – það eru engin verkjalyf til.

Það var nánast ómögulegt að lofa sér í nokkurn skapaðan hlut þegar blæðingar voru í aðsigi. Ég vissi að ég yrði að öllum líkindum í keng undir sæng, ýmist með eða án meðvitundar og ófær um að klæða mig sjálf, hvaðan af síður að mæta til vinnu. Sumir settu upp svip þegar ég viðurkenndi að hafa verið rúmliggjandi sökum túrverkja.

“Allar konur fá túrverki”, var mér sagt.

Ég var nú meiri ræfils tuskan að höndla ekki þennan sáraeinfalda og ofuralgenga kvensjúkdóm.

Eftir tíu ára árangurslaust ráf milli sérfræðinga átti ég erindi til Ástralíu á ráðstefnu. Þar sem kollurinn á mér var ennþá í íslensku tímabelti þótt restin af mér væri í eyjaálfu vaknaði ég fyrir allar aldir og sat og maulaði morgunkorn yfir áströlskum spjallþætti sem ég fann eftir grams í sjónvarpinu. Þar var kona nokkur að lýsa skefilegum túrverkjum sem höfðu hrjáð hana árum saman. Ég teygði mig í fjarstýringuna og hækkaði í snarhasti, þar sem orðin sem streymdu út úr munni konunnar hefði auðveldlega getað komið út úr mínum eigin.

Þátturinn fjallaði um endómetríósis, sjúkdóm sem ég sannfærðist á augabragði um að ég þjáðist af. Um leið og ég steig fæti aftur á íslenska grund pantaði ég mér tíma hjá sérfræðingi sem blés mig upp, stakk á mig göt, smeygði inn hátæknibúnaði og brenndi burtu samgróninga og æxli. Maðurinn minn þurfti að sofa í öðru rúmi í þá tíu daga sem ég var að jafna mig.

Kaldhæðnin kristallast í því að eftir að hafa eytt áratug og tugþúsundum króna í lækna, bæði hérlendis og erlendis (því ég bjó um skeið í Bandaríkjunum) þurfti ég að fara hinum megin á plánetuna til þess að geta sjúkdómsgreint sjálfa mig eftir að hafa, fyrir algera tilviljun, horft á imbann.

Ekki nóg með það, heldur komst ég að því að í heimildaöflun minni að þetta er næst algengasti kvensjúkdómavandinn í heimi. Konur með endometríósu glíma líka margar hverjar við frjósemisvanda, sem gerði mig enn meira hugsi yfir því að enginn skyldi hafa velt upp þeim möguleika að ég þjáðist af umræddum sjúkdómi. Til að auka enn á áhyggjur mínar kom í ljós að enginn í vinahópi mínum hafði nokkru sinni heyrt á sjúkdóminn minnst.

Kannski orðið “legslímuflakk” hafi haft eitthvað með það að gera?

Eftir kviðarholsspeglunina mína var mér ráðlagt að fara á sprautuna, depo provera, til að koma í veg fyrir að ég færi á blæðingar. Mér var ráðlagt að sýna þolinmæði í 9 mánuði á meðan ég væri að aðlagast sprautunni. Skemmst er frá því að segja að ég fór á níu mánaða langar blæðingar. Einnig fékk ég hárlos, fór niður í 49 kíló og missti húmorinn. Fyrst um sinn voru verkirnir örlítið skárri, en innan við ári eftir aðgerðina var ég aftur komin með skaðræðiskvalir þegar ég fór á blæðingar. Eini munurinn var sá að í þetta sinn bar ég harm minn í hljóði, þar sem mér þótti aðrar leiðir þrautreyndar. Ég fann reyndar lyf sem gerði kraftaverk og leysti mig undan öllum þjáningum, sem var eins og að vera fótalaus og finna hjólastól. Lyfið hét Bextra. Ekki var Eva lengi í paradís því lyfið var tekið af markaði skömmu síðar því það hafði valdið hjartadauða í fjórum manneskjum í Asíu. Þegar ég var sem verst haldin af verkjum öfundaði ég þessar manneskjur þarna í Asíu.

Sjúkdómurinn náði sögulegum hæðum 21. desember 2008, en þá fékk ég þvílíkt verkjakast að faðir minn, sem er læknir og einkar íhaldssamur á lyf, kom ofan í mig handfylli af marglitum pillum að kvöldi einkar skelfilegs dags.

Ég var sannfærð um að frjósemi minni væru takmörk sett, og eftir margra ára óteljandi skoðanir og inngrip var ég orðin fráhverf tilhugsuninni um barneignir hvort eð er. Þessvegna kom það engum meir á óvart en sjálfri mér þegar ég pissaði á prik í janúar 2009 og uppgötvaði að ég var kona eigi einsömul. Þótt hvorki mér né manninum mínum fyndist þetta góður tími til barneigna varð sjúkdómurinn minn til þess að ég valdi ekki fóstureyðingu, meðal annars.

Og nú stend ég hér, fyrir framan ykkur með blautt hár, nýkomin úr ungbarnasundi með sex mánaða gömlum syni mínum (því ég var eini fjölskyldumeðlimurinn sem gat sinnt því ómissandi hlutverki í dag). Og ykkur að segja voru hríðarnar ekkert ósvipaðar slæmum endo verkjum.

Þegar ég lít yfir farinn veg veit ég ekki hvað ég myndi segja við konu sem greinist með endometriosis í dag, annað en “þú ert ekki að ímynda þér þetta, þú ert ekki aumingi og þú ert ekki ein”.

PS:  Þessi saga er sögð hér til að vekja athygli á sjúkdómnum endómetríósa og hvetja lesendur til að heita á mig í hálf maraþoninu og styrkja þannig Samtök kvenna með endómetríósu.  Það er gert með því að fara inn á hlaupastyrkur.is

PSS: Þetta er stytt útgáfa af frábærri ræðu sem Þórdís Elva hélt og hvet ég lesendur til að lesa hana í heild sinni á vefsíðu Endó samtakanna.

Flokkar: Endómetríósa · Samvinnuhugsjónin

Miðvikudagur 27.7.2011 - 12:37 - 3 ummæli

Minni virðing = fleiri konur?

Frá degi til dags í Fréttablaðinu fjallar um pistilinn minn í gær, Ofurlaun þingmanna?  Þar segir:

„Eygló Harðardóttir tekur saman athyglisverðar staðreyndir í pistli á Eyjunni. Þar ber hún tekjur þingmanna saman við aðrar stéttir og útkoman er sú að hún og samstarfsfólk hennar á Alþingi eru með svipuð laun og fréttamenn á Ríkisútvarpinu, veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands og fangapresturinn. Eygló kemur með þarfa ábendingu þegar hún segir að sögulega sé þekkt að þegar konum fjölgi í ákveðnum stéttum lækki laun og virðing stéttanna. Eygló á hrós skilið fyrir að benda á þessa staðreynd, sem lengi hefur staðið jafnréttisbaráttunni fyrir þrifum. Það má hins vegar einnig velta því upp hvort atburðir undanfarinna ára hafi ekki átt einhvern þátt í þverrandi virðingu fyrir þingmönnum.“

Þetta er áhugavert.  Það þurfti heilt bankahrun til þess að kona yrði forsætisráðherra og að hlutföll kynjanna á þingi næðu 40/60 hlutföllunum.

Þýðir minnkandi virðing fyrir þingmönnum að konur fá frekar tækifæri til að „prófa“ þingmennsku og ráðherrasætin?  Þýða svo fleiri konur að laun lækka, jafnvel þannig að undirmenn eru farnir að vera með hærri laun?

Er það bara allt í lagi?

PS. Látið mig vita hvað ykkur finnst.  Hægt er að setja tengil inn á Facebook, nota “like” hnappinn eða setja inn ummæli.  Ég samþykki inn ummælin og áskil mér rétt til að eyða út grófum, ómálefnalegum og nafnlausum ummælum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.7.2011 - 11:09 - 2 ummæli

3,5% ávöxtunarkrafa viðmið?

Innlendir vextir hafa verið umtalsvert hærri en í nágrannalöndunum, meira að segja þegar offramboð er á lánsfé og sparnaður umtalsverður. Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði, taldi að ein af lykilskýringunum væri 3,5% ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna og háir vextir myndu á endanum kæfa hagkerfið.

Þessi krafa um 3,5% ávöxtun myndaði, að hans mati vaxtagólf, þar sem lífeyrissjóðirnir notuðu hana sem e-hv þumalputtareglu við fjárfestingar sínar. Mikil tregða væri við að fara niður fyrir hana sem skýrði hátt vaxtastig.

Ekki hafa allir verið sammála þessu og hafnað því að ávöxtunarkrafan myndi e-hv gólf eða viðmið á markaðnum.

Því þótti mér athyglisvert að sjá að Hagstofa Íslands notar langtímaávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna sem viðmið þegar stofnunin er að ákveða ávöxtunarkröfu á eigið fé á Íslandi við útreikning á fasteignaverðvísitölunni.  Fasteignaverðvísitalan er svo ein af 12 grunnvísitölum vísitölu neysluverðs sem öll lán Íslendinga miðast við.  Í mars 2010 var vægi fasteignaverðsvísitölunnar 22,5% í vísitölu neysluverðs. (Fasteignaverðsvísitölur, – fjármálastöðugleiki og fasteignaverðvísitala vísitölu neysluverðs, Sveinn Óskar Sigurðsson, 2011)

Ætli það sé víðar sem ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna hefur orðið að e-hv viðmiði í efnahagskerfinu?

PS. Látið mig vita hvað ykkur finnst.  Hægt er að setja tengil inn á Facebook, nota „like“ hnappinn eða setja inn ummæli.  Ég samþykki inn ummælin og áskil mér rétt til að eyða út grófum, ómálefnalegum og nafnlausum ummælum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur