Þriðjudagur 5.7.2011 - 15:30 - 1 ummæli

Við erum Framsókn

Egill Helgason, Páll Vilhjálmsson og fleiri hafa verið að velta fyrir sér hvar Framsókn er að finna í litrófi stjórnmálanna.  Erum við hægri, vinstri, miðju, út í kanti, þjóðernissinnaður eða landsbyggðar? Viljum við starfa með Sjálfstæðisflokknum, ríkisstjórnarflokkunum eða bara ekki starfa með neinum…

Framsókn hefur alltaf farnast best þegar við hættum að skilgreina okkur út frá því hvað aðrir eru, segja eða hugsa.

Þegar við erum við sjálf, – alíslenskur flokkur sem byggir á hugmyndafræði samvinnunnar og ungmennafélagsandanum.

Þar sem manngildið er ætíð ofar auðgildinu.

Þegar við erum einfaldlega Framsóknarflokkurinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2011 - 08:18 - Rita ummæli

Verðbólga, ekki mitt vandamál…

Í bítinu í morgun sagði Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, að verðbólga væri komin til vegna þess að hagkerfið væri að taka aftur við sér. Hann virtist telja að stjórnvöld gætu lítið gert til að draga úr henni.  Vandinn væri helst Seðlabankans að leysa, enda gætu stjórnmálamenn ekki axlað ábyrgð á erfiðum aðgerðum eins og hækkun stýrivaxta.

Þetta var undarlegt að heyra, nánast deja vu 2007-2008…

Seðlabankinn segir að meginskýring á verðbólgunni sé hækkanir á hrávöru, olíu, húsnæði og sköttum.  Hagvöxtur hefur tekið eilítið við sér en fjárfesting er enn þá langt undir því, sem meira að segja forsætisráðherra vill sjá, eftirspurn eftir lánsfé er lítil og atvinnuleysi alltof hátt. Því stemmir það ekki að meginástæða verðbólgunnar sé að hagkerfið sé að taka aftur við sér.

Stýrivextirnir, aðalstjórntæki Seðlabankans, þykir ekki sérstaklega gott við þessar aðstæður.  Í skýrslunni Peningastefna eftir höft viðurkennir bankinn það sjálfur:

„Verðbólga getur aukist tímabundið af öðrum ástæðum en þegar eftirspurn er meiri en framleiðslugeta. Við þær aðstæður verður framkvæmd peningastefnunnar erfiðari. Þetta á sérstaklega við um verðhækkanir sem rekja má til framboðshliðar þjóðarbúskaparins, t.d. hækkunar olíu- eða hrávöruverðs. Í því tilviki fara jafnan saman aukin verðbólga og rýrnandi viðskiptakjör, sem að öðru óbreyttu draga úr efnahagsumsvifum. Aukið aðhald peningastefnunnar til að draga úr verðbólgu gæti þá aukið enn frekar á samdráttinn. Í því tilviki getur því verið rétt að leyfa verðbólgu að rísa tímabundið í trausti þess að það hafi ekki áhrif á langtímaverðbólguvæntingar og hafi því lítil áhrif á verðbólguþróun til lengri tíma litið.“

Mikil hækkun stýrivaxta (ef þeir virka…) getur þannig aukið á vandann, dregið enn frekar úr fjárfestingum og aukið atvinnuleysið.

Á árunum 1970-1980 stóðu stjórnvöld víðs vegar um heim frammi fyrir stöðnun og verðbólgu m.a. vegna mikilla hækkana á olíu.  Lausnin var m.a. lækkun skatta að hætti Reagans auk þess sem dregið var markvisst úr olíunotkun.

Við getum gert það sama.  Við getum lækkað gjöld á olíu, launatengd gjöld og farið markvisst í að draga úr olíunotkun í samfélaginu.

Eða við getum fundið fínan sandhaug, stungið hausnum í hann og vonast eftir því að vandinn hverfi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.7.2011 - 23:46 - Rita ummæli

Stöðnun og verðbólga

Íslenskt hagkerfi horfir fram á stöðnun í hagkerfinu samhliða hækkandi verðbólgu, (e. stagflation).  Seðlabankinn telur hættu á að verðbólga fari yfir 5% á síðasta fjórðungi ársins.  Meginástæðan er hækkun á olíu, hrávöru, húsnæði og opinberri þjónustu.  Á sama tíma er eftirspurn eftir lánsfé lítil, fjárfestingar í lágmarki og atvinnuleysi hátt.

Við þessar aðstæður getur stýritæki Seðlabankans, stýrivextirnir, virkað eins og olía á eldinn

Hvað er þá til ráða?

Lykilinn skv. Robert Mundell, hagfræðingi er samspil stjórnvalda og seðlabanka: “The correct policy mix is based on fiscal ease to get more production out of the economy, in combination with monetary restraint to stop inflation. The increased momentum provided by the tax cut will cause sufficient demand for [money] to permit real monetary expansion at higher rates.” 

Stjórnvöld geta, ef þau vilja, dregið úr verðbólgunni.

Spurning er bara hvort þau vilja…

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2011 - 09:56 - Rita ummæli

Sjávarútvegur og hagfræðin

Sérfræðingahópur sjávarútvegsráðherra hefur skilað skýrslu um áhrif breytinga á fiskveiðistjórnun. Þeirra niðurstaða er að bann við framsali og beinni/óbeinni veðsetningu dragi úr hagkvæmni sjávarútvegsins og getu hans til að fjármagna sig með ódýrasta mögulega hætti. Ráðherra og aðrir stjórnarliðar hafa varist með því að benda á að huga verði að öðrum þáttum en bara hagkvæmni greinarinnar. Stjórnarliðar virðast ekki ætla að svara rökum sérfræðinganna, heldur halla sér frekar að líffræðilegum og samfélagslegum rökum fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Ég tel að það séu mistök enda eru ágætis hagfræðileg rök fyrir því að takmarka brask með aflaheimildir og möguleika fyrirtækja til að fjármagna sig ótakmarkað með ódýrasta mögulega hætti.

Eignaverðsbóla frá 2003

Í ársbyrjun 1995 var verð á aflahlutdeild í þorski 260 kr/kg og mátti rekja hækkanir fram til 2001 til bættrar afkomu fyrirtækjanna og breytingum á úthlutun heildarafla. Eftir 2003 fóru einkavæddir bankar að lána ótæpilega og skuldir sjávarútvegsins margfölduðust um leið. Í júní 2008 náði verðið hámarki í 3.800 kr/kg, sem mátti fyrst og fremst rekja til offramboðs á ódýru lánsfé (Hrafn Sævaldsson, 2007). „Við hrun bankakerfisins hrundi verð á aflahlutdeildum um meira en helming þrátt fyrir að mikil lækkun á gengi krónunnar ætti að hafa gert aflahlutdeildir verðmeiri ef eitthvað er í krónum talið. Þessi þróun virðist benda til þess að verð á aflahlutdeildum á kvótamarkaði hafi ráðist meira af framboði á lánsfé í bankakerfinu en raunverulegu verðmæti aflahlutdeildar.“ (Jón Steinsson, 2010)

Þessar sögulegu staðreyndir sýna að frá 2003 til 2008 myndaðist eignaverðsbóla (e. asset price bubble) á aflaheimildum. „Þegar eignaverð hækkar eykst aðgengi að lánsfé þar sem virði hins undirliggjandi veðs hækkar. Hækkandi eignaverði virðist einnig fylgja tilhneiging til að vanmeta áhættu á viðsnúningi eignaverðs og því skekkt áhættumat og hækkandi veðhlutföll (e. loan-to-value ratios). Allt þetta getur síðan fóðrað enn frekari hækkun eignaverðs sem kemur af stað vítahring þenslu og hækkandi eignaverðs sem að lokum endar með hörðum skelli þegar eignaverðsbólan springur.“ (SÍ Peningastefna eftir höft, 2010).

Mat sérfræðinga Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri er að hækkun skulda frá 2003 hafi verið 50-60% vegna kaupa á aflaheimildum, 20-30% vegna fjárfestinga í ótengdum rekstri og afgangurinn, 10-15%, vegna taps á gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum. Á sama tíma stóð fjárfesting í rekstrarfjármunum líkt og skipum, tækjum og húsum í stað. (Stefán B. Gunnlaugsson, Ögmundur Knútsson & Jón Þorvaldur Heiðarsson, 2010)

Ótakmarkað framsal og óbein veðsetning á aflaheimildum stuðlaði þannig að fjármálalegum óstöðugleika og slæmri nýtingu á fjármunum í aðdraganda hrunsins.

Hluti af peningastefnu

Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Mikilvægt er að draga úr núverandi skuldsetningu og tryggja að aldrei aftur verði til eignaverðsbóla í greininni. Lausnin þarf hins ekki að vera boð og bönn í lögum um fiskveiðistjórnun. Seðlabankar hafa í auknum mæli verið að huga að eignaverðsbólum samhliða verðstöðugleika. Þar duga ekki stýrivextir einir til, heldur getur verið nauðsynlegt að taka upp s.k. þjóðhagsvarúðartæki til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Með þeim er horft á samspil þjóðarbúsins í heild, verðlagningu áhættu og tengsl fjármálastofnana og þeirra markaða sem þær starfa á.

Beiting þjóðarhagsvarúðartækja kann að leiða til hærri fjármagnskostnaðar, en líta megi á það sem tryggingariðgjald sem þjóðfélagið greiði til að draga úr líkum á fjármálakreppu. Tæki sem mætti innleiða til að takmarka framsal í stað beins banns væri t.d. einhvers konar Pigou-skattur á söluandvirði aflaheimilda. Ef seljandinn endurfjárfesti ekki söluhagnaðinn í greininni þyrfti hann að borga mjög háan skatt. Önnur leið gæti verið að tengja skatta á fyrirtækin við þróun verðs á aflaheimildum. Takmarka mætti veðsetningu með því að setja þak á veðhlutfall skipa og miða við kostnað við nýsmíði. Eða að lán umfram ákveðið viðmið hefði neikvæð áhrif á eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja og þar með hvata þeirra til að lána óvarlega til sjávarútvegsins.

 Sjávarútvegur skiptir okkur öll máli. Við verðum því að vera tilbúin að ræða efnislega þær ábendingar sem fram koma til að lokaniðurstaðan verði til hagsbóta fyrir okkur öll.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní 2011)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.6.2011 - 14:14 - Rita ummæli

Að vera heppinn…

Fyrir stuttu barst mér þessi tölvupóstur með reynslusögu ungs fólks af íbúðakaupum:

„Ég hóf minn búskap árið 2002 í Reykjavík en ég er borin og barnfædd út á landi og það sama á við um unnusta minn. Við fluttum saman til Reykjavíkur þar sem ég hóf háskólanám. Í stað þess að leigja okkur íbúð keyptum við litla íbúð í úthverfi árið 2003 með láni frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóði og bjuggum við þar til byrjun árs 2007. Þá seldum við og fjárfestum í þeirri íbúð sem við búum í dag sem við litum á sem framtíðareign okkar. Sú íbúð kostaði þá 33,3 milljónir…

Til að gera langa sögu stutta þá vorum við með viðskipti okkar við sparisjóð í okkar heimabæ. Þegar við skoðuðum möguleika á fjármagni til kaupa á síðari fasteign okkar þá tókum við þá ákvörðun að leita til þjónustufulltrúa og sparisjóðsstjórans um íbúðalán. Við skoðuðum einnig möguleika stóru bankanna um 100% fjármögnun og erlent íbúðalán. Sparisjóðurinn gat boðið okkur verðtryggt íbúðalán á ágætis vöxtum sem var svokallað hattalán Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Mest var hægt að fá 27,1 milljón í lán með þessum hætti. Við áttum rúmar 6 milljónir í sparifé sem við gátum notað til þess sem upp á vantaði. Okkur fannst við því vera að velja örugga leið þegar við völdum að versla við ríkið (Íbúðalánasjóð) og litla sparisjóðinn sem hafði verið okkur svo góður og traustur alla okkar ævi.

Það voru því miður mikil mistök.

Nú nagar maður sig í handabökin yfir því að hafa ekki tekið meiri áhættu og tekið 100% verðtryggt/gengistryggt íbúðalán hjá t.d. Landsbankanum og sett þessar rúmar 6 milljónir í eitthvað gáfulegra en fasteignina. Því um áramótin síðustu stóð lánið í 39 milljónum en fasteignamatið ekki nema 23,7 milljónir. Fasteignin var í vor metin á 33,5 milljónir sem er vissulega jákvætt þar sem við keyptum á 33,3 milljónir fyrir fjórum árum síðan. Við sóttum um 110% leiðina hjá sparisjóðnum og verður lánið okkar vonandi afskrifað niður í rúmar 36 milljónir.

En ef við hefðum nú verið svo heppin eins og hann Jón sem keypti íbúð á sama tíma og við í sama húsi og nákvæmlega eins íbúð sem hann fjármagnaði með 100% láni frá Landsbankanum. Hann fær nefnilega lánið sitt hjá Landsbankanum afskrifað niður í rúmar 26 milljónir.

Fjárhagsstaða hans er því augljóslega mun betri en mín af því hann er svo heppinn.

Mig langar að benda á að fjármál almennings í þessu landi byggja að mörgu leyti á heppni. Ert þú svo heppinn að Landsbankinn var með útibú í því bæjarfélagi sem þú ólst upp í? Ert þú svo heppinn að  hafa verið með viðskipti þín við Landsbankann af því að hann var næstur heimili foreldra þinna og foreldrar þínir stofnuðu fyrsta reikninginn þinn í Landsbankanum? Varstu svo heppinn að hafa tekið 100% verðtryggt/gengistryggt íbúðalán hjá Landsbankanum?

Ég var að minnsta kosti ekki svo heppin.“

Æ oftar heyri ég frá fólki sem tók verðtryggð lán og hefur horft upp á eigið fé sitt hverfa í fasteignum sínum.   Ungt fólk, miðaldra fólk, gamalt fólk, –  í verðtryggðu umhverfi þar sem þeirra eina hlutverk er að vinna og vinna til að tryggja verðgildi fjármagnsins.

Gengistryggðu lánin eru núna mörg hver orðin verðtryggð íslensk lán og því ekki langt að bíða þar til við sitjum öll enn á ný í sömu verðtryggingarsúpunni.

Varla yljar það þó sérstaklega…

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.6.2011 - 09:36 - 1 ummæli

Árangur í fiskveiðistjórnun

Í skýrslu OECD segir um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu: „Iceland has been successful in managing its large industry thanks to its systems of Total Allowable Catches (TACs) based on scientific recommendations and Individual Quota System (IQS), which gives quota holders a strong incentive to ensure that the resource is managed well.  This system could be threatened by potential policy responses to the perceived unfairness of quotas initally having been given away and Iceland‘s possible accession to the EU…However, there is nothing the government can do now to undo the perceived unfairness of the initial allocation as most current quota holders purchased their quotas.“

Meðhöfundur að skýrslunni var víst Gunnar Haraldsson sem hefur unnið lengi sem ráðgjafi og sérfræðingur í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, m.a. með Ragnari Árnasyni. Það er erfitt að gagnrýna eitthvað sem maður hefur unnið að árum saman en er ekki heldur langt gengið að fullyrða að við höfum náð miklum árangri (e. successful) í fiskveiðistjórnun?

Árið 1991 veiddum við rétt rúmlega 1 milljón tonna og 2008 veiddum við rúmlega 1,2 milljónir tonna. Alvarlegast er að þorskaflinn, mikilvægasti fiskstofninn, hefur farið jafnt og þétt minnkandi.  Árið 1991 var hann 306 þúsund tonn en minnstur árið 2008 þegar hann var einungis 151 þúsund tonn.

Efnahagsreikningur íslensks sjávarútvegs hefur stækkað um 55% árin 1997-2008 ef stærð hans er mæld í SDR.  Aukning skulda hefur verið meiri en eigna og hefur bókfært eigið fé greinarinnar þurrkast út.  Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri áætlar að 50-60% haf verið vegna kaupa á aflaheimildum, 20-30% vegna fjárfestinga í ótengdum rekstri og afgangurinn 10-15% vegna taps á gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum.  Varanlegir rekstrarfjármunir hækka ekki, sem segir okkur að greinin hafi lítið sem ekkert fjárfest m.a. í skipum, tækjum og húsum.

Fiskveiðistjórnun Íslendinga hefur því skilað okkur minnkandi þorskveiðum, gríðarlegri skuldsetningu og fjárstreymi út úr greininni.

Í hverju liggur þá árangurinn? Samþjöppun? Hærra verði á aflaheimildum? Fækkun starfa í fiskvinnslu?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.6.2011 - 08:59 - 2 ummæli

Tollur á lestölvur

Það er að verða bylting í heimi bóka.  Í fyrsta skipti um síðustu jól fór fólk í umtalsverðu mæli að kaupa rafrænar bækur til að lesa í lestölvum.

Ég tel mjög brýnt að við reynum að styðja við þessa þróun hér á landi, og þar með okkar litla málsvæði.  Því spurði ég fjármálaráðherra um tolla og vörugjöld á lestölvur en almennt bera lestölvur 7,5% toll, 25% vörugjald og 25,5% virðisaukaskatt auk gjalds af eftirlitsskyldum rafföngum og úrvinnslugjald.

Svar hans var að ekki væri stefna stjórnvalda að fella niður tolla á einstök vörunúmer nema við á grundvelli tvíhliða samninga um gagnkvæmar tollívilnanir. Einnig að stefnt er að því að heildstæð endurskoðun fari fram í ráðuneytinu, í samráði við þá aðila sem málið varðar, sem miði að því að móta almenna stefnu og samræma gjaldtöku eins fljótt og mögulegt er.

Gæti svarið verið meira kantað?  Meira a la baunateljarar?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.6.2011 - 23:59 - Rita ummæli

Rannsókn á sparisjóðunum

Í kvöld samþykktum við að hefja rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.  Það var gert í formi þingsályktunar og hún er svohljóðandi:

Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, sbr. einnig ályktun þingsins um rannsóknarskýrslu Alþingis frá 28. september 2010, að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er leiti sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi.
Nefndin skal í þessu skyni:
a.      Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða sem leiddu m.a. til gjaldþrots margra þeirra og endurfjármögnunar annarra.
b.      Meta starfshætti sparisjóðanna á undanförnum árum og varpa ljósi á hverjar séu helstu orsakir mismunandi árangurs rekstrar þeirra. Meðal annars verði fjármögnun og útlánastefna þeirra skoðuð, eignarhald, aukning stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sala stofnfjár og hlutafélagavæðing þeirra, svo og aðrir þættir sem kunna að skipta máli.
c.      Gera úttekt á lagaramma og öðru starfsumhverfi sparisjóðanna og bera saman við starfsumhverfi sambærilegra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum.
d.      Leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna, eftirlit og endurskoðun hjá sparisjóðunum, hverjir kunni bera ábyrgð á því og hvernig niðurstöðum eftirlitsaðila var fylgt eftir.
e.      Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir á.
f.      Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.
g.      Skila forseta Alþingis skýrslu eigi síðar en 1. júní 2012 um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Það er von mín að þessi rannsókn muni upplýsa um hvað gerðist með sparisjóðina okkar og skýra út fyrir þúsundum stofnfjáreigendum út um allt land hvað gerðist eiginlega.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 17:08 - Rita ummæli

Eldhúsdagsræða ’11

Frú forseti, góðir Íslendingar. Nú þegar hillir vonandi undir þinglok og kjörtímabilið er hálfnað getur verið gott að staldra við og horfa um öxl. Við framsóknarmenn getum gert það með stolti. Allt frá efnahagshruninu höfum við lagt fram umfangsmiklar tillögur á fjölmörgum sviðum sem eiga það sameiginlegt að endurspegla sýn okkar á hið nýja Ísland, þetta nýja Ísland sem okkur dreymdi flest um þegar rykið fór að setjast yfir rústum auðhyggjunnar.

Okkar helsta markmið var að tryggja að heimilin í landinu biðu sem minnstan skaða af ofsaakstri útrásarvíkinga og frjálshyggjuplebba sem keyrðu íslenskt hagkerfi beint út í skurð. Að koma hjólum atvinnulífsins sem fyrst af stað svo við gætum strax farið að vinna okkur út úr vandanum. Að tryggja það að ofurskuldir innantóms bankakerfis lentu hjá þeim sem ábyrgðina bæru, þeim sem voru nógu gráðugir eða vitlausir til að lána peninga inn í spilaborgina, en ekki saklausum skattgreiðendum sem ekkert höfðu til saka unnið nema helst að láta glepjast af gylliboðum bankamanna, syndaaflausnum eftirlitsstofnana og bláeygðum stjórnmálamönnum.

Þannig vildum við koma höndum yfir óskattlagðar eignir íslenskra auðmanna í útlöndum, en stjórnvöld hafa sýnt því einkennilega lítinn áhuga allt frá hruni.

Við lögðum fram heildstæðar tillögur í skuldamálum þar sem höfuðstóll húsnæðislána og lán til fyrirtækja yrðu lækkuð um 20% með mögulegu krónutöluhámarki. Tilgangur þess var að tryggja að þær skuldir sem erlendir kröfuhafar höfðu þá þegar afskrifað rynnu til íslenskra skuldara sem sátu uppi með allt tjónið af gengishruninu og verðbólgu. Hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrr í kvöld um þetta sem töfrabrögð um leið og hann gagnrýndi orðræðu og málflutning stjórnarandstöðunnar. En skoðum hans eigin staðreyndir.

Nýleg skýrsla fjármálaráðherra sem hann reyndi að fela, stinga undir blaðabunka annarra þingskjala, og þær aðgerðir sem bankarnir hafa gripið til á undanförnum vikum sýna að þessi leið var fær. Það er deginum ljósara að draga hefði mátt verulega úr því gríðarlega tjóni sem íslensk heimili og fyrirtæki hafa orðið fyrir ef gripið hefði verið til þessara aðgerða strax. Í kjölfar þess vildum við grípa til sértækra aðgerða fyrir þá skuldara sem enn yrðu í vanda og lögðum fram frumvarp um greiðsluaðlögun. Sú greiðsluaðlögun átti aðeins að koma til í undantekningartilfellum enda hefur komið á daginn að sú leið er erfið og tímafrek. Það sanna tölurnar, tæpum þremur árum eftir hrun, hafa aðeins 22 af rúmlega 2.800 umsækjendum lokið samningum um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Enn hefur enginn farið í gegnum allt greiðsluaðlögunarferlið.

Þá vildum við lækka vexti strax og við lögðum fram tillögu þess efnis, auk þess sem við höfum barist af hörku fyrir rétti fólks sem tók gengistryggð lán og, síðast en ekki síst, afnámi verðtryggingarinnar. Verðtryggingarnefndin undir forustu framsóknarmanna hefur sýnt svart á hvítu að nauðsynlegt er að hefja afnám verðtryggingar á lánum heimilanna sem fyrst. Ísland er nefnilega einstakt að því leyti að hér taka heimilin nær alla áhættu af verðbólgunni með lánum sínum. Þeir sem raunverulega geta haft áhrif á verðbólguna og efnahagsmálin, þ.e. stjórnvöld, bankar og lífeyrissjóðir, eru hins vegar bæði með beltið og axlaböndin. Þau eru stikkfrí og þurfa aldrei að bíða tjón vegna óábyrgrar hegðunar sinnar.

Við lögðum fram þingsályktunartillögu um hvernig standa ætti að endurreisn bankanna. Við lögðum áherslu á að nýja bankakerfið mundi þjóna hagsmunum íslensks samfélags en ekki öfugt, að stærð þess yrði í samræmi við íslenskt efnahagslíf og að bankarnir yrðu færir um að þjónusta atvinnulífið. Hið opinbera héldi eftir eignarhlut í bönkunum og tryggði þannig að endurreisn þeirra byggði á þörfum íslensks samfélags en ekki erlendra vogunarsjóða sem keypt höfðu kröfur á hendur þeim á hrakvirði og reyndu í kjölfarið að hámarka hagnað sinn á kostnað almennings eins og nú er raunin.

Við höfum lagt fram ítarlega stefnu í atvinnumálum um sköpun 12 þús. nýrra starfa því að við gerum okkur grein fyrir því að vinna er ávallt forsenda velferðar. Atvinnuleysi er einfaldlega alltaf óásættanlegt, hvað þá af þeirri stærðargráðu sem blasir við okkur núna.

Hugmyndafræði frjálshyggjunnar sem lék lausum hala fyrir hrun skýtur í síauknum mæli upp kollinum innan raða hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar. Sú hugmyndafræði snýst um að gróði sé fyrir fáa útvalda og að allt snúist um arðsemi, hagkvæmni og hagnað. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp.

Henni ber að hafna.

Það eru launuð störf sem greiða fyrir matinn, húsnæðið, heilsugæsluna, leikskólana og allt annað sem við þurfum á að halda. Við eigum ekki að lifa á brauðmolum af borði hinna ríku, við þurfum einfaldlega góð, vel launuð störf. Verðmætasköpun án atvinnu er einskis virði, það kenndi hrunið okkur.

Ég hef enn þá trú að við getum byggt betra samfélag, frú forseti, betra Ísland. Það er ekkert áhlaupaverk og við verðum að hafa kjark og þor til að takast á um þau grundvallarsjónarmið sem við viljum byggja framtíð okkar á. Ég vil samfélag sem byggir á samvinnu manna þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér og axlar um leið ábyrgð sína á velferð samfélagsins, samfélag þar sem við búum við jafnræði, sanngirni og lýðræði, þar sem við vinnum öll að því að tryggja hagsmuni hvers og eins í samfélaginu frekar en að hámarka hagnað örfárra.

Við framsóknarmenn höfum barist dyggilega fyrir þessum gildum á síðustu tveimur árum. Ég veit að sagan mun sýna að þær tillögur sem við höfum lagt fram um endurreisn Íslands eru ekki aðeins vel ígrundaðar og raunhæfar heldur hefðu þær lágmarkað það tjón sem íslenskur almenningur og íslenskt samfélag hefur beðið í kjölfar hrunsins ef á þær hefði verið hlustað. Um það vitna blákaldar staðreyndir í dag.

Það er ekki of seint að stöðva endurreisn hins gamla kerfis auðvalds og sérhagsmuna. Það er ekki of seint að byggja nýtt Ísland á grundvelli samvinnu þar sem manngildið er ætíð sett ofar auðgildinu.

 (Ræða flutt í Eldhúsdagsumræðum 9. júní 2011 á Alþingi)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2011 - 14:23 - Rita ummæli

Framtíðarstefna í sjávarútvegi

Þingflokkur Framsóknarmanna hefur lagt fram þingsályktunartillögu um mótun framtíðarstefnu í sjávarútvegi.

Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa samráðshóp til að leita leiðar til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Hópurinn leggi tillögur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. janúar 2012 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög. Við vinnu hópsins verði áhersla lögð á eftirfarandi:

  1. Sjávarauðlindin verði tryggð sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá. 
  2. Stjórn fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og nýliðun. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta, annars vegar pott með nýtingarsamningum og hins vegar pott þar sem veiðileyfum verði úthlutað til ákveðinna aðila. Frístundaveiðar verði kallaðar ferðaþjónustuveiðar til að atvinnugreinin geti dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustunnar.
  3. Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til landsvæða þar sem auðlindarentan verður til og hluti í ríkissjóð.
  4. Hlúð verði að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi.
  5. Tryggt verði að auðlindin verði nýtt á sem skynsamlegastan hátt og nýtingin verði byggð á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins.
  6. Áhersla verði lögð á að sjávarútvegur sé ekki einungis veiðar heldur einnig hátæknivæddur matvælaiðnaður. 
  7.  Sjónum verði í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins til að tryggja áframhaldandi forustu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins.

Greinargerð

Mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að tryggja stöðugleika og ná sem víðtækastri sátt í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar. Felur það ekki síst í sér að auka verðmætasköpun þjóðarbúsins, efla arðsemi greinarinnar og styrkja þjóðarhag. Ekki hefur tekist að vinna saman að úrlausn þeirra verkefna sem snúa að sjávarútvegsmálum en nauðsynlegt er að móta skýra stefnu til lengri tíma litið og tryggja stöðugleika um fiskveiðistjórnarkerfið á þann hátt að rekstrarumhverfið sé stöðugt og hægt sé að skipuleggja rekstur og fjárfestingu.

Tillagan byggist á því að samráðshópur þingflokka, fulltrúa atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka verði skipaður til að leita leiðar til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Sérstök áhersla verði lög á sjö atriði.

1. Sjávarauðlindin sameign þjóðarinnar.

Mikilvægt er að tryggja eign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni. Í 1. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, kemur fram að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að lögfesta hvað hugtakið „sameign þjóðarinnar“ þýðir eða þjóðareign. Úthlutun aflaheimilda og nýtingarsamningar á þeim byggjast á að stjórnvöld fari með eignarréttinn á auðlindinni og geti með samningum falið öðrum nýtingarréttinn í ákveðinn tíma og magni. Málið er flókið og skal hafa til hliðsjónar 385. mál á 135. löggjafarþingi og 15. mál á 136. löggjafarþingi, frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

2. Stjórn fiskveiða verði með blandaðri leið.

Í tillögunni er lagt til að blönduð leið verði farin í stjórn fiskveiða. Grunnur núverandi kerfis um aflahlutdeild á skip hefur reynst vel bæði með tilliti til hagstjórnar og verndunar fiskstofna. Því er lagt til að sá grunnur verði áfram grundvöllur fiskveiðistjórnar og að enn frekari aukningu arðsemi og atvinnu í greininni. Hins vegar er lagt til nýtt fyrirkomulag úthlutana þar sem sérstaklega er gætt byggðasjónarmiða, m.a. með úthlutun aflaheimilda til fiskvinnsla, strandveiða og annarra aðgerða sem einnig auka möguleika á nýliðun í greininni. Að auki er sérstaklega ýtt undir nýsköpun með veiðum á van- og ónýttum tegundum og einnig fullnýtingu hráefnis, fiskeldi og rækt, t.d. kræklingarækt.

Í tillögunni er lagt til að úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta. Í potti eitt verða gerðir nýtingarsamningar til u.þ.b. 20 ára, á grunni aflahlutdeildar á hvern bát. Samningurinn verði á milli ríkis og útgerðar og eitt af skilyrðum verði annaðhvort að útgerðin sé algerlega í eigu íslenskra aðila eða í það minnsta að eigendur hafi haft íslenska búsetu að lágmarki síðustu fimm ár. Slíkt ákvæði gæti tryggt raunverulegt eignarhald Íslendinga á auðlindinni. Lagt er til að nýtingarsamningar verði til u.þ.b. 20 ára og að mati flutningsmanna mun það tryggja nægjanlega stöðugleika fyrir greinina til að auka fjárfestingar í henni. Að auki flýtir það fyrir nauðsynlegri endurnýjun flotans og eykur rekstrar- og atvinnuöryggi starfsmanna á sjó og í landi. Nýtingarsamningarnir innihaldi m.a. ákvæði um aukna veiðiskyldu og takmarkað framsal. Rétt þykir að setja ákvæði í samninginn sem tryggi að sé samningurinn brotinn eða útgerð verði gjaldþrota falli aflahlutdeildin aftur til ríkisins.

Nýtingarsamningar verði endurskoðaðir á fimm ára fresti með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn. Hefur þeim hugmyndum verið komið á framfæri að eftir ákveðinn tíma, t.d. 10 ár, verði nauðsynlegt að tryggja með einhverjum hætti að hluti aflaheimildanna sé á hreyfingu til að tryggja hámarksarðsemi greinarinnar til lengri tíma sem og möguleika nýrra aðila að vaxa upp úr potti tvö. Jafnframt er lagt til að skoðað verði með hvaða hætti sé hægt að draga úr veðsetningu greinarinnar, í því sambandi er lagt til að óbein veðsetning aflaheimilda verði takmörkuð enn frekar.

Í potti tvö verði um að ræða nokkrar ólíkar aðferðir við að úthluta aflaheimildum. Í núverandi kerfi er einnig um þónokkrar ólíkar aðferðir að ræða þar sem aflaheimildum er úthlutað vegna byggðasjónarmiða eða annarra ívilnana. Þær aflaheimildir eru u.þ.b. 3,5% af heildarþorskígildum. Í potti tvö er lagt til að farin verði sú leið að úthluta til fiskvinnslu, þar sem það á við, ákveðnu magni aflaheimilda til að tryggja atvinnu og byggðasjónarmið. Um nýjung er að ræða þar sem hugsunin er sú að fiskvinnslan fengi úthlutað eftir ákveðnum reglum, samkvæmt byggðasjónarmiðum, og tekið yrði mið af vinnslu ársins á undan. Í tillögunni er lagt til að svokallaðar frístundaveiðar verði hér eftir kallaðar ferðaþjónustuveiðar. Hugmyndin er að útgáfa veiðileyfa byggist fyrst og fremst á að slíkar veiðar geti landað á Hafrannsóknastofnun eða VS-afla, þá geti sú atvinnugrein dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustu en sé ekki takmörkuð af því að eiga ekki aðgang að aflaheimildum. Setja þarf sérstakar reglur um þessa atvinnugrein og veiðileyfaúthlutunina. Að mati flutningsmanna eru ferðaþjónustuveiðar mikilvægur vaxtarbroddur í einstökum sjávarbyggðum og hafa mikla möguleika til að dafna og stækka.

Lögð er rík áhersla á nýsköpun í sjávarútvegi. Ein leið til þess er að auka úthlutun veiðileyfa til aðila sem vilja reyna fyrir sér með að nýta van- eða ónýttar tegundir. Rökin fyrir því er að úthlutunin verði að einhverju leyti í formi meðaflareglna en einnig að úthlutað verði aflaheimildum til slíkra aðila til að tryggja rekstrargrundvöll, til að mynda á ársgrundvelli, á meðan verið er að byggja upp þekkingu á veiðum og vinnslu. Hér er einnig hugað að vexti fiskeldis (t.d. á þorski, lúðu og laxi) sem er mikilvægur vaxtarbroddur og ræktun, eins og t.a.m. kræklingarækt. Nýsköpun yrði einnig styrkt beint með fjárframlögum úr sjóðum sem verða til af veiðigjaldi/auðlindarentu.

Mikilvægt er að haft sé í huga að samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 mega allir stunda fiskveiðar í frístundum til eigin neyslu, þó með ákveðnum skilyrðum. Engu síður er mikilvægt að tryggja þann rétt enn frekar með úthlutun veiðileyfa til svokallaðra strandveiða. Úthlutun aflaheimildanna og þar með stjórn á kerfinu verði fólgin í að ákveða fyrir fram magn og auglýsa veiðileyfi innan fjögurra svæða skipt eftir landshlutum. Bátar fái úthlutað veiðileyfum dreift á báta í stað daga og þau tengd við lögskráningu þeirra. Þannig er réttur einstaklings til veiða tryggður en um leið er reynt að koma í veg fyrir að stórir aðilar geri út marga báta til strandveiða. Með úthlutun leyfa á svæði og á bát ætti dreifing báta að verða skynsamlegri eftir möguleikum á að veiða. Bátar með kvóta umfram 50 þorskígildistonn fái ekki strandveiðiheimildir. Réttur til strandveiða rýrni í hlutfalli við keyptan nýtingarrétt báta. Báti með 25 tonna kvóta væri því heimilt að veiða 50% af úthlutuðum strandveiðiheimildum. Þegar bátur eignaðist 50 tonn skuli hann skila inn veiðileyfi sem þá verður endurúthlutað. Þetta væri hvati fyrir strandveiðibáta til að kaupa sig inn í stærra kerfið. Sambærileg regla gæti gilt um þá sem hafa selt frá sér kvóta. Réttur þeirra til strandveiða gæti þannig vaxið um 20% ári eftir sölu – þannig að eftir 5 ár fengju þeir fullan strandveiðirétt.

Hugmyndir um stærðir potta eitt og tvö byggjast annars vegar á að núverandi tilfærslur frá potti eitt til tvö eru um 3,5% af heildarþorskígildi og hins vegar á að koma með sterkari hætti til móts við byggðasjónarmið, nýliðun, nýsköpun og aðra vaxtarbrodda í greininni.

Afar breytilegt er hvað einstaka tegundir leggja til tilfærslunnar í dag. Þar eru margar með 0% en nokkrar þær helstu (þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur) á bilinu 3–8% og jafnvel 10% í steinbít. Hugmyndin er að allir og allar tegundir leggi eitthvað í pott tvö og þannig verði munur jafnaður á milli útgerða sem einungis nýta hefðbundna stofna sem eru grunnur tilfærslunnar til strandveiða, línuívilnunar, byggðakvóta o.s.frv. í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Einnig þarf að huga að milliríkjasamningum um nýtingu stofna og skipti á aflaheimildum vegna þeirra samninga. Aukningin eigi sér stað samhliða aukinni stofnstærð og þar með hærra aflamarki. Með því að auka aflamarkið um 3–5% og í sumum tegundum allt að 10% væri pottur tvö stóraukinn frá því sem nú er. Ef vel tekst til á næstu árum er rétt að endurskoða stærð potts tvö með það fyrir augum að hann stækki enn frekar á þar næstu árum en þó aldrei meira en 15% í einstökum tegundum samhliða stofnstærðaraukningu og jákvæðari reynslu af úthlutunum til potts 2.

Mikilvægt er að hafa í huga að árlegt aflamark sveiflast jafnt hlutfallslega hjá pottum eitt og tvö og eftir stofnstærð og ákvörðun um aflamark ársins, þ.e. hefur sömu áhrif á pottana til hlutfallslegrar aukningar eða minnkunar.

3. Nýting veiðigjalds sem sjávarútvegurinn greiðir.

Lagt er til að á nýtingarsamninga í potti eitt verði lagt árlegt veiðigjald, þ.e. svokölluð auðlindarenta. Veiðigjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar. Bent hefur verið á að mikilvægt sé að skilgreina hvað auðlindir séu, hverjar séu í eigu ríkis og hverjar falli undir hið óskilgreinda hugtak „sameign þjóðarinnar“. Jafnframt hefur verið bent á mikilvægi þess að jafnræði um gjaldtöku gildi á milli atvinnugreina.

Mikilvægt er að hluti auðlindarentunnar renni til greinarinnar sjálfrar til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Einnig er nauðsynlegt að nýir aðilar geti sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna til að auðga þekkingu og nýtingu á auðlindinni. Þá er lagt til hér að hluti gjaldsins renni aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til, einkum til mótvægis við að annars mætti halda því fram að um væri að ræða viðbótarskattlagningu, sérstaklega landsbyggðarinnar. Hluti af auðlindarentunni rynni síðan í ríkissjóð.

4. Nýsköpun og nýting hráefnis.

Mikilvægt er að umgengni um sjávarauðlindina sé ávallt eins og best verður á kosið. Því er lagt til að allt kapp verði lagt á að hlúa enn frekar að nýsköpun og meiri nýtingu þess hráefnis sem nú er illa nýtt eða hent. Setja þarf efnahagslega hvata til að stýra því en einnig er mikilvægt að horfa til umhverfislegra þátta.

5. Nýting sjávarauðlindarinnar á grundvelli vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkis.

Hin vísindalega þekking hefur á síðustu árum þróast í átt að langtímanýtingarstefnu á einstökum tegundum. Settar hafa verið aflareglur, m.a. í þorski, sem byggjast á 20% aflareglu næstu fimm árin. Slík stefna hefur síðan fengið staðfestingu á alþjóðavettvangi, m.a. hjá Alþjóðafiskveiðiráðinu (ICES). Mikilvægt er að sett verði langtímanýtingarstefna (aflaregla) um sem flestar tegundir og að allar tegundir verði skilgreindar sem nýtingarstofnar við Ísland. Einnig þarf að setja um nýtingarstofnana nýtingarstefnu, þ.e. ákvarða þarf heildarafla.

6. Sjávarútvegur sem meira en veiðar.

Mikilvægt er að árétta hversu háþróaður íslenskur sjávarútvegur er. Ekki er hægt að einblína á veiðar heldur verður að horfa á atvinnugreinina sem heild og hefur því verið haldið fram að einn helsti kostur íslenska kerfisins sé samþætting veiða og vinnslu. Lögð er áhersla á að styðja þá vinnu að gæða- og umhverfisvotta íslenskan sjávarútveg.

7. Forusta íslensks sjávarútvegs.

Íslenskur sjávarútvegur stendur vel á alþjóðavísu. Til að viðhalda áframhaldandi forustu má hvergi slaka á rannsóknum á sviðum sjálfbærrar nýtingar og samspili hinna ýmissa tegunda hafsins. Ekki síst þarf að huga að ýmsum umhverfislegum þáttum á alþjóðavísu og á innlendum vettvangi. Skoða skal notkun efnahagslegra hvata í fiskveiðistjórnarkerfinu til að tryggja sem mesta sjálfbærni í íslenskum sjávarútvegi.“

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur