Síðasta áratug störfuðu nær jafn margar konur og karlar við kennslu við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir þetta voru konur mun ólíklegri til að sækja um styrki sem verkefnisstjórar í samkeppnissjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís. Kynjaskekkja virðist því vera til staðar við umsóknir og úthlutun styrkja til vísindarannsókna.
Á árunum 2004-2010 voru tæplega 70% karlar verkefnisstjórar þeirra verkefna sem fengu styrk frá Rannsóknasjóði en rúm 30% konur. Rannsóknasjóður veitir styrki á grundvelli almennra áhersla Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknaverkefna. Á sama tímabili var hlutfall karla sem fengu úthlutað úr Tækjasjóði um 78,4% og konur 21,6%. Tækjasjóður styrkir kaup á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun styrkja í gegnum markáætlun á sviði vísinda og tækni var um þrjú áherslusvið að ræða: erfðafræði í þágu heilbrigðis þar sem kynjahlutfallið var 50/50, örtækni þar sem allir verkefnisstjórar voru karlmenn og öndvegissetur og rannsóknaklasa þar sem karlar voru verkefnisstjórar í þremur verkefnum en kona í einu. Hlutföllin snúast við innan Rannsóknarnámssjóðs, en þar voru 59,9% konur verkefnisstjórar og 40,2% karlar.
Karlar í öndvegi?
Spyrja má hvort hærri styrkupphæðir sé að finna á þeim sviðum þar sem karlar eru líklegri til að sækja um? Sem dæmi má nefna að innan markáætlunar um öndvegissetur og rannsóknaklasa sem úthlutað var til í febrúar 2009 fóru allt að 125 milljónir króna til verkefna um jarðhita og vitvélasetur þar sem karlar voru verkefnisstjórar á meðan allt að 35 milljónir króna fóru til rannsókna á jafnrétti og margbreytileika þar sem kona var verkefnisstjóri. Ætlunin er að óska eftir nánari greiningu á skiptingu upphæða eftir kynjum og sjóðum.
Í rannsókn sem unnin var á vegum Evrópusambandsins árið 2009, „The Gender Challenge in Research Funding – Assessing the European National Scenes“, kemur sama skekkja fram. Konur eru almennt ólíklegri til að sækja um styrki í rannsóknasjóði, sækja um lægri upphæðir og fá lægra hlutfall af úthlutuðum styrkjum bæði í fjölda talið og upphæðum. Hefur þessi kynjaskekkja verið sérstaklega áberandi í öndvegisverkefnum.
Konum að kenna?
Lengi var talið að vísindi væru hlutlaus og kynlaus, en æ fleiri hafa gert sér grein fyrir að vísindin endurspegla umhverfi og samfélag þeirra sem stunda þau. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að gerðar voru meiri kröfur til kvenna sem fengu styrk en karla. Konur urðu að birta 2,5 sinnum fleiri vísindagreinar en karlar og fá mun fleiri tilvitnanir til að fá styrk. (Konur í vísindum 2002, bls. 6) Brottfall kvenna er einnig meira eftir því sem hærra er komið innan akademíunnar. Samspil flókinna samfélagslegra þátta virðist draga úr möguleikum kvenna til frama innan vísindanna. Vinnumarkaður er kynjaskiptur, konur skila sér verr inn í framhaldsnám, nám tryggir þeim síður en körlum öruggan starfsframa, konur sinna heimili og börnum í meiri mæli en karlar og konur og karlar sækja í ólíkar fræðigreinar sem eru metnar misjafnlega þegar kemur að úthlutun styrkja.
Víða hafa stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða til að fjölga umsóknum kvenna s.s. með því að hvetja konur til að sækja um styrki, jafna kynjahlutföll innan úthlutunarnefnda, upplýsa um mikilvægi kynjasjónarmiða við úthlutun og skipulagningu styrkja, veita meiri upplýsingar og efla rannsóknir á orsökum og afleiðingum kynjaskekkju innan vísindaumhverfisins.
Aukum jöfnuð
Á næstunni mun menntamálaráðherra setja af stað tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn á þessu sviði, m.a. til að greina ástæður þess að konur sækja síður í sjóðina en karlar. Kanna þarf betur orsakir mismunandi þátttöku karla og kvenna í vísindarannsóknum á Íslandi svo hægt verði að grípa til markvissra aðgerða til að auka hlut kvenna á því sviði.
Nauðsynlegt er að tryggja jafnrétti á sem flestum sviðum samfélagsins og hluti af því er að framlag karla og kvenna í vísindum sé sem jafnast.
(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2011)