Sunnudagur 10.4.2011 - 08:58 - Rita ummæli

Afgerandi nei

Niðurstöður Icesave kosninganna liggja fyrir.  Meirihluti Íslendinga sagði nei við Icesave samningunum og varð nei-ið ofan á í öllum kjördæmum.

Niðurstaðan eru sár vonbrigði fyrir stjórnarflokkana og forystu Sjálfstæðisflokksins.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar verða nú að tala fyrir íslenskum hagsmunum og útskýra forsendur þess að við höfnum ríkisábyrgð á þessum kröfum.

Í fyrsta lagi, það er ekki lagaleg forsenda fyrir þeim og hefur aldrei verið að okkar mati. 

Í öðru lagi, við höfum gert það sem við getum til að tryggja að breskir og hollenskir innstæðueigendur fái innstæður sínar greiddar með samþykkt neyðarlaganna o.fl.  Trygggingasjóðir þeirra fá greitt út úr þrotabúunum í samræmi við þær áætlanir sem slitastjórn Landsbankans hefur kynnt.  Nýjustu fréttir gefa til kynna að líkur eru á að þeir fái að fullu greitt upp í sínar forgangskröfur.

Þetta þarf að kynna og fylgja vel eftir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 19:04 - 14 ummæli

Framsókn gegn ESB aðild

Flokksþing Framsóknarmanna ályktaði í dag að Framsóknarflokkurinn telji að Ísland eigi ekki að verða aðili að Evrópusambandinu.  Ályktunin er svohljóðandi:

„Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar. Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun berjast fyrir þeim rétti að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið fyrir utan Evrópusambandið.“

Þessi stefna endurspeglar andstöðu meginþorra Framsóknarmanna við aðild að Evrópusambandinu, að við tökum skýra afstöðu um leið og við virðum hugsjónir okkar um lýðræði og rétt Íslendinga til að taka afstöðu til stórmála.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 08:09 - 4 ummæli

Nefndi ekki „orðið“

Fréttablaðið birtir í dag smáfrétt af flokksþingi Framsóknarmanna og virðist telja lykilatriðið af öllu sem gerðist í gær að í 50 mínútna yfirlitsræðu formanns hafi hann ekki sagt „orðið“. 

Það er til skýring á þessu fyrirbæri. 

Blaðamenn Fréttablaðsins hafa legið yfir Icesave (oops, skrifaði orðið…) núna dögum og vikum saman, fengið innsendar tugi ef ekki hundruðir greina um málið og fátt annað komið fram í fréttum og fréttaskýringum blaðsins síðustu daga.

Þeir eru einfaldlega komnir með „orðið“ á heilann. Æ, greyin.

Gleðilegan kjördag kæru Íslendingar 🙂

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.4.2011 - 16:28 - 1 ummæli

Beina brautin ekkert bein..

Allir tala um mikilvægi þess að tekið verði hratt og vel á vanda starfandi fyrirtækja í fjárhagsvanda.  Núverandi staða er vítahringur hvort sem litið er til fyrirtækjanna sjálfra, bankanna, heimilanna eða hagskerfisins í heild.

Heildarfjöldi fyrirtækja í hlutafélagaskrá er 32.565, og þarf af eru um 15 þúsund fyrirtæki í virkri starfsemi.  Creditinfo heldur utan um vanskil, fjárnám og gjaldþrot fyrirtækja og af þessum fyrirtækjum eru um 6 þúsund á vanskilaskrá og áætlað er að 1350 fyrirtæki bætist við þann hóp á næstu 12 mánuðum.

Þetta endurspeglast  í að árið 2010 voru 982 gjaldþrot og 3818 árangurslaus fjárnám = ekkert til skiptanna.

Þrátt fyrir þennan mikla vanda tók tíma fyrir stjórnvöld að taka við sér, og var það ekki fyrr en í desember á síðasta ári sem undirritað var samkomulag um skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hin svokallaða Beina braut.  Samkomulagið gekk út að fjármálafyrirtækin ættu að hafa lokið skoðun á stöðu þessara fyrirtækja fyrir 1. júní 2011 og gert lífvænlegum fyrirtækjum í fjárhagsvanda tilboð um úrvinnslu skulda þeirra.

Allir áttu að vera vinir í skóginum…

Í upphafi var talað um 5000-7000 fyrirtæki, en nú er gert ráð fyrir að ca. 1700 fyrirtækjum verði boðið að fara Beinu brautina.  Í lok mars höfðu 363 tilboð verið send, þar af 190 sem afgreidd voru áður en verkefnið hófst.  Áætlað er að ef áfram verður unnið á þessum hraða verður búið að endurskipuleggja fjárhag þessara fyrirtækja í kringum 2050.

Alveg eins og í sértæku skuldaðalöguninni fyrir heimilin eru menn að uppgötva að það er ekki bara hægt að segja fólki að treysta hvort öðru.  Hagsmunirnir fara einfaldlega ekki saman þegar kemur að því að meta virði eigna og rekstrar og óvissa og reiði vegna gengistryggðra lána hjálpar ekki til.

Á meðan er atvinnulífið lamað.

Eftir fjöldamótmælin síðasta haust urðu stjórnvöld að horfast í augu við að úrlausnir þeirra fyrir heimilin voru ekki að virka.  Hvað þarf núna til?

Strax í febrúar 2009 bentu við Framsóknarmenn á mikilvægi þess að tekið yrði hratt og markvisst á skuldavanda fyrirtækja.  Ég hef ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun ráðgjafastofu fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum, sem gæti gegnt hlutverki sáttasemjara á milli bankanna og fyrirtækja.  Tryggja þarf flýtimeðferð á gengistryggðum lánum í gegnum dómstóla landsins til að draga úr óvissu eða með því að koma á gerðardómi um ágreiningsmál, líka fyrir fyrirtæki.  Við verðum að taka á vanda þeirra fyrirtækja sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á grundvelli ólögmætra lána. Útbúa þarf fjárhagslega hvata fyrir bankana til að hreinsa út lán í vanskilum úr efnahagsreikningi sínum og tryggja að þau komi afskriftum til þeirra fyrirtækja sem eru lífvænleg.

Allt þetta þarf að gera sem allra fyrst, ef við eigum að komast á þessa beinu braut!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.4.2011 - 10:28 - 10 ummæli

Umboðsmaður skuldara bregst við

Í tilkynningu á vef Umboðsmanns skuldara kemur fram að gerð verður könnun á endurútreikningi fjármálafyrirtækjanna á ólögmætum gengistryggðum lánum. Kallað verður eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjunum og mun Raunvísindastofnun Háskóla Íslands fara yfir útreikningana og aðferðafræði þeirra, og skoða hvort þeir séu í samræmi við lög nr. 151/2010.

Því ber að fagna að Umboðsmaður skuldara hefur brugðist við ábendingum og kvörtunum fjölmargra lántaka með þessum hætti.

Nú spyr ég hvað Fjármálaeftirlitið er að gera?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.4.2011 - 16:13 - 20 ummæli

Kjóstu eins og ég vil, annars hefurðu verra af!

Þingmenn fá marga tölvupósta með hvatningu, ábendingum og já, skömmum um hin ýmsu mál.  Í dag barst okkur tölvupóstur frá Hrafni Gunnlaugssyni þar sem hann hvatti okkur, stjórnlagaráðsmenn og ýmsa fjölmiðla til að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. 

Ekkert svo sem nýtt í því.

Mér brá hins vegar hastarlega við svarpósti sem kom frá Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands.  Þar óskar hann eftir fá ekki frekari pósta frá Hrafni og skrifar svo: „Er ákaflega vel inni í efnahagsforsendum og að ef Nei verður ofaná þá verður samningaviðræðum slitið í Karphúsinu vegna forsendubrests það gildir um báða aðila.“

Hefur forysta atvinnurekenda og verkalýðsfélaga hótað að slíta viðræðum um kjarasamninga fyrir hönd sinna umbjóðenda, kjósenda í landinu, ef þeir kjósa ekki í samræmi við vilja forystunnar?

Eru menn alveg búnir að tapa áttum og tengslum við þá sem þeir eru að vinna fyrir? 

Áður fyrr var ekkert sjálfsagt við að menn gætu myndað félög, barist fyrir sínum hagsmunum eða fengið að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa í samræmi við sínar pólitískar skoðanir.  Atkvæðarétturinn var nátengdur við að fólk kysi „rétt“, og þá í samræmi við hagsmuni atvinnurekanda eða ákveðins stjórnmálaafls.

Líkt og núna…

Þarna virðist verkalýðshreyfingin endanlega skriðin upp í faðminn á samtökum atvinnurekenda og má vart á milli sjá hverjir berjast harðar fyrir hagsmunum auðvaldsins.

Það er því ástæða til að benda almennum kjósendum á að nýta sér atkvæðisrétt sinn næst þegar þessir sömu menn sækjast eftir endurkjöri til forystustarfa í verkalýðshreyfingunni.

Svona áður en þeir taka hann líka af okkur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.4.2011 - 11:43 - 2 ummæli

Bréf frá Eygló, Birki og Sigmundi Davíð

Kæru félagar!

Nú styttist í 31. flokksþing framsóknarmanna, sem hefst föstudaginn 8. apríl næstkomandi. Á flokksþinginu 2009 hófst mjög umfangsmikið endurskoðunar- og uppbyggingarstarf sem hefur  staðið í tvö ár og nær hámarki á flokksþinginu, en þá verður skýrsla skipulagsnefndarinnar lögð fram.

Flokkurinn hefur gengið í gegn um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna á þessum tíma. Árangurinn í þessum kosningum var á margan hátt jákvæður, sérstaklega var árangurinn góður á mörgum stöðum í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Í alþingiskosningunum 2009 varð mikil endurnýjun þar sem margir nýir þingmenn tóku sæti á Alþingi, í þingflokki sem er einn sá yngsti í íslenskri stjórnmálasögu.

Á þeim tíma sem liðinn er frá flokksþingi 2009 hefur Framsóknarflokkurinn lagt fram margvíslegar tillögur til að bæta hag heimila og fyrirtækja í landinu. Flokkurinn lagði m.a. fram efnahagstillögur í febrúar 2009 til að bregðast við fjárhagsvanda heimila og atvinnulífs og Þjóðarsátt 2010, tillögur að aðgerðum til endurreisnar íslensks efnahagslífs í samvinnu stjórnmálaflokka. Það er ljóst að ef farið hefði verið að tillögum okkar væri öðruvísi umhorfs í ríkisfjármálum og atvinnulífi í dag og heimilin í landinu stæðu betur en nú er raunin.

Mörg stór mál hafa sett svip á undanfarin tvö ár. Icesave málið er óþarft að kynna, en þar hefur Framsóknarflokkurinn frá upphafi staðið sterkur og markað sér sérstöðu. En þau mál sem öðrum fremur hafa skipt höfuðmáli þennan tíma eru atvinnumálin og leit að lausnum á skuldavanda heimilanna.  Framsókn hefur eins og áður sagði lagt fram skynsamar lausnir í þessum málaflokkum en því miður hafa þær ekki nýst eins og ástæða var til vegna andstöðu núverandi ríkisstjórnarflokka.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur farið jafn vel eftir kröfum almennings um endurnýjun og ný vinnubrögð í stjórnmálum. Framsókn hefur barist fyrir skynsamlegum og raunhæfum lausnum á skuldavanda heimilanna, ríkisfjármálum og endurreisn atvinnulífsins og hvarvetna í samfélaginu verðum við vör við aukna jákvæðni gagnvart því góða starfi sem flokkurinn hefur unnið undanfarin tvö ár.

Framsóknarmenn hafa fulla ástæðu til að vera stoltir af framlagi sínu til endurreisnar landsins undanfarin tvö ár.

Við framsóknarmenn munum því bera höfuðið hátt, nú þegar við hefjum 31. flokksþing okkar næstkomandi föstudag. Næstu tvö ár munu skipta höfuðmáli varðandi endurreisn efnahagslífsins og framtíð íslensku þjóðarinnar og framsóknarmenn ganga vaskir fram til þeirrar baráttu fullir bjartsýni og samvinnuanda.

Við hlökkum til að sjá ykkur á glæsilegu og skemmtilegu flokksþingi um næstu helgi.

Kær kveðja,

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

formaður

Birkir Jón Jónsson

varaformaður

Eygló Þóra Harðardóttir

ritari

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2011 - 11:23 - 2 ummæli

Siðlaus lögleysa?

Sigurður G. Guðjónsson lögfræðingur skrifar pistil á Pressunni undir fyrirsögninni Siðleg lögleysa þar sem hann fjallar um gengislánalögin svokölluð (nr. 151/2010).  Lögin voru sett í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar og afnám vaxtaákvæðis lánasamninganna. Gunnlaugur Kristinsson, löggiltur endurskoðandi skrifaði einnig nýlega grein þar sem hann veltir upp þeirri spurningu hvort fjármálafyrirtækin séu vísvitandi að hagnast á ólögmætum aðferðum við endurútreikning gengistryggðra lána.

Við vinnslu málsins í desember 2010 óskaði ég sérstaklega eftir því að þingmenn fengju nákvæmar upplýsingar um hvernig ætti að endurútreikna lánin skv. frumvarpinu.  Ég var ekki sátt við þau svör sem ég fékk og taldi að málið væri vanreifað og illa kynnt.   Svo ég tala nú ekki um þá óvissu sem ég taldi lögin fela í sér varðandi lögmæti þeirra með tilliti til stjórnarskrárinnar og afturvirkni þeirra.

En lögin voru samþykkt.

Í framhaldinu óskaði ég eftir fundi með efnahags- og viðskiptaráðherra um mikilvægi þess að skýrar leiðbeiningar kæmu frá ráðuneytinu um hvernig ætti að endurreikna lánin, með sýnidæmum og útskýringum. Ég veit ekki til að það hafi verið gert.

Viðskiptanefnd fundaði einnig nýlega um málið með efnahags- og skattanefnd með umboðsmanni skuldara og þar ítrekaði umboðsmaður athugasemdir sínar við frumvarpið sjálft.  Jafnframt kom fram það mat starfsmanna stofnunarinnar að þeir teldu að fjármálafyrirtækin væru að reikna lánin á sama máta og að þau væru að fara að lögum.  Vandinn væri hins vegar lögin sjálf.

Því hef ég lagt fram spurningar í nokkrum liðum um endurútreikning gengistryggðra lána og hefur efnahags- og viðskiptaráðherra 10 þingdaga til að svara spurningunum.  Þær eru eftirfarandi:

  1. Hefur ráðuneytið gefið út leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtækin um hvernig eigi að reikna ólögmæt gengistryggð lán í samræmi við lög nr. 151/2010? Ef svo er, hvernig eru þær leiðbeiningar? Ef ekki, af hverju?
  2. Hvernig endurreikna fjármálafyrirtæki ólögmæt gengistryggð lán og er sú aðferðafræði í samræmi við 1. gr. laga nr. 151/2010? Óskað er skriflegra skýringa á aðferðafræðinni við útreikningana og sýnidæma um: a) bílalán,  b) húsnæðislán, c) önnur veðlán til einstaklinga, og d) fyrirtækjalán?
  3. Hvernig er eftirliti með endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána háttað?
  4. Af hverju tók það ráðuneytið um tvo mánuði frá samþykkt laga nr. 151/2010 að gefa út reglugerð sem heimilaði umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækjanna?
  5. Hver eru áhrifin af dómi Hæstaréttar nr. 604/2010, þess efnis að Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu er varðar ólögmæti gengistryggingar? Hvernig hefur ráðuneytið fylgt því eftir að fjármálafyrirtæki hlíti niðurstöðu dómsins?
  6. Hver er afstaða ráðuneytisins til þess hvort lög nr. 151/2010 stangist á við 12. viðauka EES-samningsins um neytendavernd?

Vonandi munu svörin eitthvað skýra stöðuna, – en ljóst er að á endanum verða það dómstólar sem kveða úr um hvort lög nr. 151/2010 séu lögleg eða lögleysa.

Siðferði laganna og þeirra sem settu þau verður þó hver og einn að dæma um.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2011 - 10:56 - 2 ummæli

Fyrsta konan

Sögulegur atburður gerðist í gær.  Kvennaskólinn sigraði í Gettu betur í fyrsta skipti og í liðinu var fyrsta konan í sigurliði í sögu keppninnar.  Enn eru því konur að stíga fyrstu skrefin í átt að jafnrétti á fjölmörgum sviðum.

Eitt sinn (ekki í fyrsta sinn, að vísu) hlustaði ég á virðulegan eldri karl útskýra af hverju umræða um jafnrétti vera ónauðsynleg.  Það væri búið að setja lög um jafnrétti, konur hefðu haft kosningarétt áratugum saman og vandinn væri miklu frekar að konur væru ekki nógu duglegar að sækja fram.

Vildu það jafnvel ekki.

Eftir umræðuna (lesist: prédikunina) sat ég og hugsaði til eigins ferils sem stjórnmálamaður.  Ég er fyrsta konan sem er kosin á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, sem og gamla Suðurlandskjördæminu og gamla Vestmannaeyjakjördæminu.   Þessa staðreynd get ég  þakkað öllum þeim konum sem ruddu brautina og tóku slaginn í kjördæminu, innan flokksins og samfélaginu öllu.

Vegna þess að þær sóttu fram, börðust og gerðu þar af leiðandi baráttu okkar hinna auðveldari, – takk kærlega Unnur, Elín, Lóa, Þuríður og þið allar hinar.

Enn eru ótrúlega mörg hlutverk í okkar samfélagi sem konur hafa aldrei gegnt.  Má þar nefna að enn þá eigum við eftir að sjá fyrstu konuna sem fjármálaráðherra, samgönguráðherra (heitir víst innanríkisráðherra núna) og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Enn hefur kona aldrei verið formaður Samtaka atvinnulífsins, forseti ASÍ eða formaður Viðskiptaráðs Íslands.

Og ég er sannfærð um að það er fullt af konum sem bæði vilja og svo sannarlega geta hugsað sér að taka að sér eitthvert af þessum hlutverkum, – þar á meðal undirrituð 😉

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.4.2011 - 11:21 - 8 ummæli

Kynjaskekkja við styrkveitingar?

Síðasta áratug störfuðu nær jafn margar konur og karlar við kennslu við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir þetta voru konur mun ólíklegri til að sækja um styrki sem verkefnisstjórar í samkeppnissjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís. Kynjaskekkja virðist því vera til staðar við umsóknir og úthlutun styrkja til vísindarannsókna.

Á árunum 2004-2010 voru tæplega 70% karlar verkefnisstjórar þeirra verkefna sem fengu styrk frá Rannsóknasjóði en rúm 30% konur. Rannsóknasjóður veitir styrki á grundvelli almennra áhersla Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknaverkefna. Á sama tímabili var hlutfall karla sem fengu úthlutað úr Tækjasjóði um 78,4% og konur 21,6%. Tækjasjóður styrkir kaup á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun styrkja í gegnum markáætlun á sviði vísinda og tækni var um þrjú áherslusvið að ræða: erfðafræði í þágu heilbrigðis þar sem kynjahlutfallið var 50/50, örtækni þar sem allir verkefnisstjórar voru karlmenn og öndvegissetur og rannsóknaklasa þar sem karlar voru verkefnisstjórar í þremur verkefnum en kona í einu. Hlutföllin snúast við innan Rannsóknarnámssjóðs, en þar voru 59,9% konur verkefnisstjórar og 40,2% karlar.

Karlar í öndvegi?
Spyrja má hvort hærri styrkupphæðir sé að finna á þeim sviðum þar sem karlar eru líklegri til að sækja um? Sem dæmi má nefna að innan markáætlunar um öndvegissetur og rannsóknaklasa sem úthlutað var til í febrúar 2009 fóru allt að 125 milljónir króna til verkefna um jarðhita og vitvélasetur þar sem karlar voru verkefnisstjórar á meðan allt að 35 milljónir króna fóru til rannsókna á jafnrétti og margbreytileika þar sem kona var verkefnisstjóri. Ætlunin er að óska eftir nánari greiningu á skiptingu upphæða eftir kynjum og sjóðum.

Í rannsókn sem unnin var á vegum Evrópusambandsins árið 2009, „The Gender Challenge in Research Funding – Assessing the European National Scenes“, kemur sama skekkja fram. Konur eru almennt ólíklegri til að sækja um styrki í rannsóknasjóði, sækja um lægri upphæðir og fá lægra hlutfall af úthlutuðum styrkjum bæði í fjölda talið og upphæðum. Hefur þessi kynjaskekkja verið sérstaklega áberandi í öndvegisverkefnum.

Konum að kenna?
Lengi var talið að vísindi væru hlutlaus og kynlaus, en æ fleiri hafa gert sér grein fyrir að vísindin endurspegla umhverfi og samfélag þeirra sem stunda þau. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að gerðar voru meiri kröfur til kvenna sem fengu styrk en karla. Konur urðu að birta 2,5 sinnum fleiri vísindagreinar en karlar og fá mun fleiri tilvitnanir til að fá styrk. (Konur í vísindum 2002, bls. 6) Brottfall kvenna er einnig meira eftir því sem hærra er komið innan akademíunnar. Samspil flókinna samfélagslegra þátta virðist draga úr möguleikum kvenna til frama innan vísindanna. Vinnumarkaður er kynjaskiptur, konur skila sér verr inn í framhaldsnám, nám tryggir þeim síður en körlum öruggan starfsframa, konur sinna heimili og börnum í meiri mæli en karlar og konur og karlar sækja í ólíkar fræðigreinar sem eru metnar misjafnlega þegar kemur að úthlutun styrkja.

Víða hafa stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða til að fjölga umsóknum kvenna s.s. með því að hvetja konur til að sækja um styrki, jafna kynjahlutföll innan úthlutunarnefnda, upplýsa um mikilvægi kynjasjónarmiða við úthlutun og skipulagningu styrkja, veita meiri upplýsingar og efla rannsóknir á orsökum og afleiðingum kynjaskekkju innan vísindaumhverfisins.

Aukum jöfnuð
Á næstunni mun menntamálaráðherra setja af stað tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn á þessu sviði, m.a. til að greina ástæður þess að konur sækja síður í sjóðina en karlar. Kanna þarf betur orsakir mismunandi þátttöku karla og kvenna í vísindarannsóknum á Íslandi svo hægt verði að grípa til markvissra aðgerða til að auka hlut kvenna á því sviði.

Nauðsynlegt er að tryggja jafnrétti á sem flestum sviðum samfélagsins og hluti af því er að framlag karla og kvenna í vísindum sé sem jafnast.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2011)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur