Föstudagur 11.3.2011 - 11:00 - Rita ummæli

Græða á skólum?

 Fyrr í vetur fjallaði menntamálanefnd Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar um menntaskólann Hraðbraut. Í skýrslunni gerði ríkisendurskoðandi athugasemdir við rekstur skólans, ofgreiðslur frá ríkinu og arð sem eigendur skólans höfðu greitt sér út.   Menntamálanefnd tók undir þessar athugasemdir og í framhaldinu ákvað menntamálaráðherra að rifta samningum við skólann.

Í bandaríska þinginu eru menn einnig að skoða rekstur skóla í hagnaðarskyni.  Þingnefnd hefur verið að skoða sérstaklega Ashford háskóla sem einkafyrirtækið Bridgepoint tók yfir.  Þá voru um 300 nemendur í skólanum og reksturinn erfiður.  Með uppbyggingu fjárnáms stunda núna um 78 þúsund manns nám við skólann og skilaði skólinn $216 milljónum í hagnað á síðasta ári.   Framlag til kennslu lækkað úr $5000 í $700 á nemanda, og í staðinn fara um $2700 í að ná í nýja nemendur og $1500 í arðgreiðslur.  Brottfall er mjög hátt, eða um 60-80%, og um 86% af tekjum skólans koma með einum eða öðrum hætti frá alríkisstjórninni sbr. umfjöllun NYTimes

Ég tel að skólar eigi ekki að vera reknir í hagnaðarskyni fyrir opinbert fé.  Ef skólar ætla sér að fá framlag frá ríki eða sveitarfélögum, þá eiga þeir að vera reknir sem non-profit eða hagnaðarlausar stofnanir, sem sjálfseignastofnanir eða samvinnufélög.  Allur afgangur af rekstri  á að fara í að bæta kennsluna, laun starfsfólks og starfsumhverfi nemenda

Það þýðir ekki að ég er á móti framtaki einstaklinga í skólamálum.  Stjórnvöld ættu að hvetja starfsfólk, foreldra og aðra hagsmunaaðila til að stofna, taka yfir og reka skóla. 

En  ekki til að græða pening á ríkinu, –  heldur til að tryggja góða menntun, aukna fjölbreytni, atvinnulýðræði og vonandi meiri ánægju með skóla sem vinnustað nemenda og kennara.

Flokkar: Menntun · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.3.2011 - 07:50 - 2 ummæli

Vantreysta stjórnvöldum

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs sagði við Fréttablaðið í gær, að erlendir bankar vantreysti því umhverfi sem íslensk fyrirtæki búi við: tilviljunarkennda og oft órökréttra lagasetningu, versnandi skattaumhverfi, gjaldeyrishöft og frjálsleg meðferð stjórnvalda á stjórnsýslulögum og stjórnarháttum. Undir þetta tók Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær.  Ég geri ráð fyrir að þar spili stóra rullu breytt kröfuröð með neyðarlögunum, gjaldeyrishöftin, endalausar breytingar á skattkerfinu, Magma málið og aftur Magma málið.

Hefðu íslensk stjórnvöld kannski átt að eyða  minni tíma  í að þröngva upp á íslenska skattgreiðendur ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis?  Hefðu þau kannski átt að eyða meiri tíma í að undirbúa stefnumörkun og breytingar á skattkerfinu, starfsumhverfi fyrirtækja, og stjórnsýslunni.

– Og  forðast fyrir alla muni notkun á orðinu eignarnám á erlendum fjárfestingum á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.3.2011 - 13:30 - 15 ummæli

Endurútreikningur lána

Nú stendur fjöldi fólks frammi fyrir stórri ákvörðun, um hvað það á að gera við gengistryggða lánið sitt.  Dómar Hæstaréttar  um ólögmæti gengistryggingarinnar og afnám samningsvaxtanna, og lög efnahags- og viðskiptaráðherra um endurútreikning lána hafa aðeins að litlu leyti skýrt stöðuna og komið til móts við kröfur um réttlæti og sanngirni.

Við samþykkt laga um endurútreikninga lána fyrir síðustu áramót gerði ég miklar athugasemdir.  Lögin fólu í sér hugsanlegt brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem ekki var gætt jafnræðis gagnvart öllum þeim sem tóku gengistryggð lán.  Nú þegar hefur Hæstiréttur staðfest að ólögmæti gengistryggingarinnar varði ekki aðeins bíla- og kaupleigusamninga heldur einnig skuldabréfalán.  Engu skiptir þótt lánstíminn sé lengri, veðtrygging betri né heimild til breytinga á vöxtum. Lögin vörðuðu einnig hugsanlega við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem dómstólar gætu enn þá komist að betri niðurstöður fyrir bæði lántaka og lánveitendur, sbr. dóminn að ofan. Einnig taldi ég óásættanlegt að íslenskir dómstólar og stjórnvöld hunsuðu reglur Evrópuréttar og Íslands um neytendavernd.

Stóra málið er þó afturvirkni endurútreikninganna.  Er réttmætt að bankar geri kröfu um vangreiðslu nýrra vaxta þó að neytandi hafi greitt afborganir og vexti í fullu samræmi við umsamda skilmála? Dómstólar hafa ekki enn þá tekið afstöðu til þessa.

Stórum spurningum er því ósvarað um gengistryggð lán. 

Því mæli ég eindregið með því að fólk kynni sér leiðbeiningar Talsmanns neytenda til í kjölfar endurútreiknings gengislána. Bendi ég sérstaklega á ábendingar hann um að setja fyrirvara um betri rétt og fá að vita forsendurnar á bakvið útreikningana.  Til að skilja betur útreikningana eða gera athugsemdir við framferði lánastofnana er hægt að hafa samband við umboðsmann skuldara og fá leiðbeiningar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.3.2011 - 11:57 - 4 ummæli

Hagnaður bankanna…

Viðskiptanefnd fundaði með Arion banka, Íslandsbanka og Bankasýslunni í morgun til að fara yfir ársreikninga bankanna.

Þar kom fram að fulltrúar Bankasýslunnar í stjórn bankanna gerðu ekki athugasemdir við launakjör bankastjóranna, sem verður að teljast mjög alvarlegt. Mestur tími fór þó í að ræða svokallaðan „hagnað“ bankanna.  Fyrsta spurningin sem ég velti fyrir mér þegar ég sá ársreikninga þessara tveggja banka  (ársreikningur Íslandsbanka og ársreikningur Arionbanka)  er: Hvernig geta bankar hagnast þegar útlánastarfsemi er nánast engin, meginþorri fyrirtækja í landinu eru í fjárhagslegri endurskipulagningu og um fjórðungur heimila?

Hjá Íslandsbanka er skýringin að stórum hluta tilkomin vegna endurmats á eignasafninu.  Þeir telja sem sagt meiri líkur á að við munum borga af lánunum okkar, eða 14.507 ma.kr. meira.  Sama gildir um Arionbanka.  Endurskoðendur þeirra hafa nokkrar áhyggjur af þessum og koma því með pena ábendingu um óvissuna tengda þessu endurmati.  Mál eins og dómar um gengistryggð lána (s.s. afturvirkni vaxta), atvinnuleysi, verðbólga, vextir og almennt þróun efnahagslífsins skipta víst máli.

Þeir hafa einnig aukið vaxtamuninn, þannig að vextir á innlánum hafa lækkað meira en vextir á útlánum, og þjónustugjöld hafa hækkað.  Að sama skapi hafa þeir ekkert dregið saman rekstrarkostnað hjá sér, og heldur bætt í eins og laun bankastjóranna gefa til kynna.

Því tel ég fyllstu ástæðu til að birta eftirfarandi texta úr skýrslu Íslandsbanka og hvet til 1 mínútu þagnar í kjölfarið…

„The present general distrust towards financial institutions will only be resolved with a continous effort to improve openness and transparency.  The Bank has vowed that it will let its actions speak louder than words in its efforts to encourage greater trust in its operations.“

Flokkar: Fjármálakerfið · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 7.3.2011 - 21:24 - 2 ummæli

SpKef, samþjöppun og kerfisáhætta

Í skýrslu Seðlabankans Peningastefna eftir höft kemur fram að ríki með stór bankakerfi komu verr út úr fjármálakreppunni, efnahagssamdrátturinn varð dýpri og meiri hætta var á kerfislægri banka- og gjaldeyriskreppu.

Þegar bankar verða of stórir getur skapast mikill freistnivandi (e. moral hazard).  Bankarnir taka ekki tillit til hagsmuna samfélagsins, né þeirra neikvæðu áhrifa sem hegðun þeirra getur haft á efnahagslífið í heild.  Þetta sáum við greinilega fyrir hrun og því miður tel ég mikla hættu á að við séum að endurskapa sama umhverfi.

Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands lýsti yfir samskonar áhyggjum af stöðu mála í breska bankakerfinu og óskarverðlaunamyndin The Inside Job lýsir sambærilegri stöðu í Bandaríkjunum. Fátt hafi breyst, bankar eru enn þá of stórir til að þeir geti farið í þrot án aðkomu stjórnvalda, ójafnvægi er enn þá til staðar og hagnaðarsjónarmið til skamms tíma ráða för.

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er ákvörðun fjármálaráðherra að sameina SpKef Landsbankanum.  Þar tel ég að menn vaði áfram í blindni, án þess að skoða heildarmyndina, án þess að hafa nokkra framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag.

Ástæðan er einföld. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki markað sér stefnu um framtíðaruppbyggingu íslenska fjármálakerfisins.  Enn er unnið eftir stefnumörkun sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks mótaði í miklum flýti dagana í kringum hrunið.  Planið um að endurreisa sama gamla kerfið, með sömu áhættu og jafnvel í einhverju tilvikum sömu leikmönnunum.

Það er ástæða þess að Alþingi samþykkt í lok júní 2010 að skipa nefnd um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins, svo að við gætum markað okkur stefnu um fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags.  Stefnu sem tæki afstöðu til sparisjóðanna, eignarhalds fjármálafyrirtækja, innstæðutrygginga, aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, skuldsetningu fjármálafyrirtækja og margt fleira. 

Svo við gætum byggt fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum okkar. Ekki fjármálakerfi sem íslenskt samfélag á að þjóna.

Flokkar: Fjármálakerfið · Óflokkað · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 7.3.2011 - 20:56 - 3 ummæli

Peningastefna og evra

Ítrekað heyrist frá stuðningsmönnum aðildar Evrópusambandsins að eina leiðin til að ná tökum á peningamálum landsins sé upptaka evru, og þar með aðild að Evrópusambandinu. Það sé einnig eina leiðin til að afnema verðtryggingu, lækka fjármagnskostnað og ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi

Reynsla hinna ýmsu ESB landa sannar að lykilatriðið er ekki hvaða mynt er notuð í hverju ríki, heldur hvernig einstök lönd stjórna sínum efnahagsmálum. Dæmi um þetta eru Svíþjóð og Írland. Svíar hafa haldið sig við sænsku krónuna með góðum árangri. Hagvöxtur er mikill, verðbólga lág og skuldir ríkisins lágar. Írland tók upp evru og nýtur nú aðstoðar AGS eftir að írska fjármálakerfið fór í gegnum mikla erfiðleika.

Myntin endurspeglar efnahagsstjórnun, – hún mótar hana ekki. Verðbólga mælir óstöðuga efnahagsstjórnun, – hún skapar hana ekki. Hár fjármagnskostnaður endurspeglar skort á fjármagni, – en skapar hann ekki.

Ábyrgð á peningastefnu er ekki bara Seðlabankans. Ábyrg peningastefna er sambland ábyrgrar stefnu í fjármálum ríkisins, ábyrgrar stefnu í rekstri fjármálafyrirtækja og ábyrgrar stefnu í fjármálum heimila og fyrirtækja. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir bera ábyrgð á efnahagsstjórninni. Ekki bara stjórnvöld og Seðlabankinn.

Samhliða hefðbundnum stýritækjum Seðlabankans þarf að tengja vexti og afborganir á húsnæðislánum við almenna markaðsvexti og það gera þeir ekki með núverandi fyrirkomulagi verðtryggingar. Tryggja þarf að fjármálafyrirtæki geti ekki stækkað efnahagsreikninga sína óstjórnlega og aðskilja verður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Hvetja þarf almenning til að spara fyrir útgjöldum og greiða niður skuldir. Aukinn sparnaður mun auka framboð á fjármagni og lækka vexti. Koma þarf í veg fyrir myndun eignabóla og jafnvægi verður að nást í fjármálum ríkisins.

Allt þetta þarf að gera óháð því hvort við göngum inn í ESB og tökum upp evru eða ekki. Með upptöku evru er ábyrg stjórnun efnahagsmála jafnvel enn brýnni. Reynsla annarra landa sýnir að þá er hætta á auknu innflæði fjármagns, aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja, eignabólum og aðlögun að þrengri kosti er erfiðari með evru og fastgengi.

Því er orðið tímabært að gera sér grein fyrir því að prinsar á hvítum hestum frá Brussel munu ekki bjarga okkur.

Ábyrgðin er okkar og hana verðum við öll að axla.

(Birtist fyrst í FBL 4. mars 2011)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 20:56 - Rita ummæli

Rannsókn á sparisjóðum

Ég hef ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, Birgittu Jónsdóttur og Margréti Tryggvadóttur lagt fram frumvarp um að rannsókn fari fram á sparisjóðunum.  

Íslenskir sparisjóðir hafa orðið fyrir miklu skakkaföllum.  Nauðsynlegt er að varpa skýru ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða, sem leiddu m.a. til gjaldþrots Sparisjóðs Mýrarsýslu, SPRON og Byrs Sparisjóðs og nauðsynlegrar endurfjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. 

Alþingi ályktaði í september 2010 um nauðsyn þess að sjálfstæð og óháð rannsókn færi fram á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls. Í kjölfar skyldi fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna. (Þskj. 1537, 705 mál á 138. löggjafarþingi)

Rannsóknin á ekki að einskorðast við aðdraganda hrunsins í október 2008 heldur taka einnig til tímans eftir hrun eftir hrun, enda eru sífellt að koma fram nýjar upplýsingar um áhrif og orsakir hrunsins hjá sparisjóðum um allt land.

Með samþykkt þessa frumvarps yrði afmarkað með skýrum hætti verkefni og verklýsingu rannsóknarnefndarinnar, sem ályktun þingmannanefndarinnar og almenn löggjöf gerir ekki .

Flokkar: Fjármálakerfið · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 7.3.2011 - 20:55 - Rita ummæli

Þingkonur, þingkarlar og RÚV

Ég er að skoða svör sem Tryggvi Þór Herbertsson fékk um viðmælendur í frétta- og þjóðlífsþáttum RÚV út frá kynjahlutföllum árið 2010. Ég er eiginlega mjög hugsi yfir niðurstöðum útreikninganna, sem eru mínir.

Það sem kemur á óvart er að Silfur Egils er eini þátturinn þar sem þingkonur og þingkarlar komu jafn oft fram.  Þetta er þrátt fyrir, eða kannski vegna þess, að Egill Helgason hafi fengið hvað mesta gagnrýni fyrir að hafa of fáar konur í þætti sínum.

Hlutföllin eru langverst í Speglinum, þar sem talað er við karla í 78,95% tilfella en konur í 21,05%. Síðan koma kvöldfréttir sjónvarpsins með 73,4% karlar en 26,6% konur. Sexfréttirnar og Kastljósið er nokkuð svipuð 69,49%/68,82% karlar og 30,51%/31,18% konur.

Konur eru í dag 41% þingmanna. Hluta til skýrist þetta væntanlega með því að formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru karlar, – og því oft talsmenn flokkanna en þetta skýrir engan veginn niðurstöðuna hvað varðar Spegilinn. 

Nú verða þáttastjórnendur frétta- og þjóðlífsþátta RÚV að hugsa sinn gang.

Hægt er að skoða skjalið hér.

Flokkar: Jafnrétti · Menntun · Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 20:54 - Rita ummæli

Framsóknarhugsjónir

Biturleiki, reiði og rangfærslur eru ekki fyndnar. Það var það sem ég hugsaði eftir að hafa lesið síðasta pistil Svarthöfða undir fyrirsögninni Framsóknarforsetinn. Ég er ósátt við að í pistlinum er því haldið fram að Framsóknarmenn hafi engar hugsjónir og hafi aldrei unnið þjóðinni gagn.  Að ég hafi engar hugsjónir, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki haft neinar hugsjónir og að stofnandi Framsóknarflokksins Jónas Jónsson frá Hriflu hafi ekki haft neinar hugsjónir,- aðrar en að hugsa um okkar eigið skinn.

Jónas frá Hriflu er einn umdeildasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Staðreyndin er samt að Jónas og samherjar hans stóðu fyrir ákveðna hugmyndafræði og hugsjónir, sem leiddu til mikilla samfélagsumbóta. Má þar einna helst nefna uppbygging menntakerfisins og velferðarkerfisins. „Í stuttu máli má segja að Jónas hafi verið félagshyggjumaður sem barðist fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu, uppbyggingu öflugs menntakerfis, eflingu samvinnuhreyfingar og sjálfboðaliðahreyfinga á borð við ungmennafélögin. Með orðræðu nútímans getum við sagt að Jónas hafi verið talsmaður þekkingarsamfélags og félagshagkerfis.“ (Ívar Jónsson, Samtíminn í Jónasi – Jónas í samtímanum)

Samvinnuhugsjónin byggir á hugsjónum um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu, sem og siðferðilegum gildum um heiðarleika, opna starfshætti, félagslega ábyrgð og umhyggju fyrir öðrum. 

Þessar hugsjónir endurspegluðust sterkt í skrifum ungra Framsóknarmanna á áttunda áratugnum, þar sem hugmyndafræði forseta Íslands fór í gegnum sitt mótunarskeið. Ungir Framsóknarmenn vildu skapa þjóðfélag sem myndi tryggja sókn þjóðarinnar til æ fulkomnara og virkara lýðræðis, þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna heldur og í fyrirtækjum, í hagsmunasamtökum og í skólum.  Klofningur í röðum Sambands Ungra Framsóknarmanna þá hafði þannig bæði með hugsjónir og ágreining um framkvæmd þeirra, frekar en metorð einstakra forystumanna. (Sjá skrá að neðan)

Ákvörðun forseta Íslands um að virkja beint lýðræði á Íslandi er því í fullu samræmi við hugsjónir hans.   Fátt virðist vera erfiðara fyrir stjórnmálamenn en að gefa frá sér vald, og er það því athyglisvert að forsetinn hafi ítrekað gert það í sinni forsetatíð.

Þetta eru einnig mínar hugsjónir.  Hugsjónir um frjálst lýðræðis- og menningarþjóðfélag, þar sem við leysum sameiginleg verkefni eftir leiðum samtaka, samvinnu og félagshyggju. Samfélag þar sem manngildi er metið ofar auðgildi.

(Pistilinn birtist fyrst í DV 25. febrúar 2011)

Yfirlýsing SUF og SFV frá 16. mars 1971.

Flokkar: Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.3.2011 - 20:53 - Rita ummæli

Jafnrétti í reynd?

Alþingi vinnur núna að tillögu velferðarráðherra um jafnréttisáætlun til fjögurra ára.   Jafnrétti er því búið að vera töluvert ofarlega í umræðunni innan nefnda þingsins síðustu daga. 

Þar er talað um að draga úr kynbundnum launamun, hvað jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna eiga að gera, rannsóknir á kynbundnum launamun á landsbyggðinni sem og í sjávarútvegi og landbúnaði, styrkveitingum til karla og kvenna, áhrif fæðingarorlofs o.s.frv.

Allt voða fín verkefni. En í áætluninni skortir einhverja heildarsýn á það hvert við erum að stefna með jafnréttisáætluninni. 

Það, þótt greinilega sé þörf fyrir skýr markmið og framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. 

Til að nefna dæmi þá má benda á tvær ráðstefnur sem haldnar voru í vikunni. Á ráðstefnu Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um Lifandi auðlindir er ekki að finna eina konu sem fyrirlesara, – bara fundarstjóra  (sem var væntanlega skellt þarna inn þegar menn renndu yfir listann og hugsuðu úps).  Ég velti einnig fyrir mér hvar konurnar eru þegar ég sá ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga í tilefni Þekkingardagsins, þótt þeir stóðu sig ívíð betur en Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Forsenda þess að ná árangri er að setja sér skýr markmið.  Svo mótum við leiðirnar að því markmiði.  Ef ætlunin er að draga úr launamun kynjanna þá tel ég að stjórnvöld eigi að setja sér skýr töluleg markmið þess efnis.  Ef ætlunin er að jafna hlut kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum hins opinbera þá eigi að setja sér skýr markmið þess efnis, að í lok áætlunarinnar verði hlutföllin 60:40 hjá bæði aðal- og varamönnum og að sjálfsögðu á það einnig að gilda um ráðstefnur á vegum ráðuneyta. 

Við getum gert betur!

PS. Svo verður einhver að fara kynna stefnuskrá Vinstri Grænna fyrir bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðuneytinu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur