Mánudagur 7.3.2011 - 20:51 - Rita ummæli

Þingræði og meirihlutaræði

Á blaðamannafundinum á Bessastöðum fékk forsetinn spurningu um hvort að hann væri ekki að vega að þingræðinu með því að vísa Icesave samningnum í annað sinn til þjóðarinnar.  Undir það tók svo Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í utandagskrárumræðu um Icesave í gær í þinginu.

Ég get tekið undir það að forsetinn hefur markað ný spor í sögu forsetaembættisins og íslensku þjóðarinnar með því að vera fyrsti forsetinn sem nýtir sér ákvæði 26.gr. stjórnarskrárinnar. 

En ég er ekki sammála því að hann sé með því að vega að þingræðinu.

Í máli hans hefur hann ítrekað lagt áherslu á að líf ríkisstjórnarinnar eigi ekki að vera undir í hvert sinn sem hann ákveður að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðarinnar.   Þingræði hefur nefnilega verið þýtt þannig að ríkisstjórn situr með stuðningi meirihluta Alþingis ,og svo lengi sem meirihluti þingmanna styður við ríkisstjórnina situr hún áfram. 

Hins vegar getur þessi ákvörðun forsetans breytt því hvernig Alþingi starfar.  Stjórnarliðar verða núna að taka virkari þátt í umræðum, í stað þess að láta stjórnarandstöðuna eina um að ræða flókin og erfið mál.  Stjórnarliðar þurfa að standa fyrir máli sínu og reyna að sannfæra bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina um að það sem þau eru að gera sé það rétta.

Þannig gæti beiting forsetans á 26. greininni styrkt umræðuhefðina á Alþingi, og leitt til þess að alþingismenn þurfi að færa fram betri rök fyrir sinni afstöðu, hlusta á gagnrök í stað þess að treysta á meirihlutaræðið.

Niðurstaðan gæti þannig orðið sterkara og betra Alþingi, -raunverulegt þingræði í stað meirihlutaræðis til stuðnings ríkisstjórnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 20:50 - Rita ummæli

Dómstólaleiðin?

Flestir virðast telja að val kjósenda muni standa á milli núverandi samnings og hinnar svokölluðu dómstólaleiðar í Icesave málinu. Litlar upplýsingar hafa komið fram um hina svokölluðu dómstólaleið og er því athyglisvert að sjá að stuðningur við núverandi samning skuli ekki vera meiri en 57,7% skv. nýjustu MMR könnuninni.

Gísli Tryggvason velti nýlega fyrir sér hver helstu deilumálin yrðu fyrir dómstólum. Nefndi hann m.a.  hugsanlega skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna slælegs eftirlits með bönkunum, jafnræðisreglu EES-réttar um hugsanlegrar mismununar á innstæðueigendum og hvort yfirlýsingar ráðherra á haustdögum 2008 hafa verið skuldbindandi. 

Samskonar vangaveltur koma fram í álitsgerðum fjögurra lögfræðinga fyrir fjárlaganefnd. Var þar m.a. bent á að ESA virtist fyrst og fremst vera að horfa á að ríkið ætti að tryggja að innstæðutryggingakerfið gæti staðið við lágmarkstrygginguna, upp á rúmar 20 þús. evrur, en ekki heildarupphæðina.

Skiptar skoðanir voru meðal lögfræðinganna, eins og góðum lögfræðingum sæmir.

Peter Örebeck, norskur lagaprófessor, sendi inn álit til fjárlaganefndar um ESA og innstæðutilskipunina og taldi að mótrök Íslendinga verði að íslenska ríkið er fullvalda ríki og sé í sjálfsvald sett í hvaða viðskiptum það stendur.  „According to the business-strategies of the Icelandic state the Icesave bank was not among its priorities. The takeover of Landsbanki does not necessitate the takeover of Icesave. It is an option, but not a must. This is my [PÖ] primary position. An alternative position is to say that Iceland takover bid for Landsbanki that leaves out Icesave is in itself not discriminatory in a national sense, as all foreign depositiors in the old Landsbanki were offered identical solutions to domestic depositors. This includes all depositors, whether they are domiciled in Iceland or not. Icelandic citizens abroad who deposited money in Icesave, did not receive special treatment, but is totally under identical regime as UK and Dutch depositors.“

Hvaða dómstólum?
Lárus Blöndal færir rök fyrir því í Morgunblaðinu að dómsmál verði fyrst og fremst höfðað fyrir EFTA dómstólnum, en telur ólíklegt að Bretar og Hollendingar muni reyna að sækja beint á íslenska ríkið fyrir íslenskum dómstólum.  Niðurstaðan frá EFTA dómstólnum, ef hún reynist vera jákvæð fyrir þá, verði svo nýtt til að þvinga Íslendinga til að greiða. Aðrir hafa haldið því fram að Bretar og Hollendingar verði að sækja rétt sinn fyrir íslenskum dómstólum. Allir virðast þó sammála að þeir virðast lítið spenntir fyrir þeirri leið…

Svo er spurning hvar málaferli TIF um forgang lágmarkstryggingarinnar í þrotabúið passa inn í þetta allt saman.

En af hverju er stuðningurinn ekki meiri en 57,7% þrátt fyrir að njóta stuðnings meirihluta þingflokka Samfylkingar, Vinstri Grænna og Sjálfstæðisflokks?  Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að við upplifum samninginn sem nauðung, ósanngjarnan og óréttlátan.

Þvi má færa rök fyrir því að dómstólaleiðin myndi allavega skýra hvað sé hið rétta í Icesave málinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 20:48 - Rita ummæli

Kjósum!

Forsetinn hefur vísað Icesave samningnum til þjóðarinnar, til staðfestingar eður ei.  Nú skiptir öllu að þjóðin fái að kynna sér málið niður í kjölinn, kosti þess og galla að staðfesta ríkisábyrgðina og taki svo upplýsta ákvörðun í framhaldinu.

Lýðræði virkar ekki án upplýsinga.  Því leggur samvinnuhugsjónin mikla áherslu á menntun og þekkingu samhliða einn maður eitt atkvæði auk þess að gætt sé að jafnrétti.

Ábyrgð fjölmiðla og annarra lýðræðisafla er því mikil í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá ábyrgð verður að axla af virðingu.

Ég tel jafnframt að samhliða kosningum um Icesave ættum við að kjósa aftur til stjórnlagaþings.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 20:47 - Rita ummæli

Hvenær þjóðaratkvæði?

Í Kastljósi kvöldsins lét Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar þau orð falla að hún teldi ekki að fjárlög, lánasamningar og milliríkjasamningar ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hváði, spólaði og hlustaði aftur, – og fékk staðfest að ég hafði heyrt rétt.  Milliríkjasamningar ættu ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þýðir þetta þá að það á ekki að greiða atkvæði um ESB samninginn þegar hann liggur loksins fyrir?

ESB samningurinn er samningur á milli Íslands og þeirra fjölmörgu ríkja sem standa að ESB.  Öll hin aðildarríkin þurfa að samþykkja samninginn áður en hann verður fullgiltur.  Hann þýðir heilmikil fjárútlát fyrir íslenska ríkið, – ég hef ekki enn þá rekist á neinn sem segir að við þurfum ekki að greiða með okkur inn í Evrópusambandið og engin fullvissa er um hversu mikið það verður til framtíðar. 

En samt má kjósa um ESB samninginn.

Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu geta haft bein áhrif á fjárlög íslenska ríkisins.  Ef þjóðin kýs að fara þá fyrningarleið sem Samfylkingin hefur talað fyrir mun það hafa í för með sér ófyrirséð fjárútlát fyrir íslenska ríkið í gegnum m.a. meirihluta eignarhald þess á Landsbankanum. 

En samt má kjósa um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Af hverju segja því fulltrúar Samfylkingarinnar ekki einfaldlega að þeir vilja ekki fara með Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að þeir telja að þjóðin muni hafna samningnum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.2.2011 - 12:09 - 1 ummæli

V/ fréttatilkynningar frá NBI

Í fréttatilkynningu frá Nýja Landsbankanum (NBI) er því haldið fram ég fari með rangt mál um stöðu og framtíðarhorfur bankans.  Því hafna ég alfarið.

Á fundi viðskiptanefndar 14. febrúar kom fram að óvissa ríkir um raunvirði eigna bankans, þ.e.a.s. hversu stór hluti þeirra sé í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Á sínum tíma var NBI endurreistur undir þeim formerkjum að stór hluti eignasafnsins væri í erlendri mynt. Því þótti mikilvægt að endurfjármögnun bankans yrði m.a. í formi erlends skuldabréfs á milli nýja og gamla bankans til að rétta af gjaldeyrisjöfnuð nýja bankans.

Skuldir og eignir í erlendri mynt yrðu þannig í jafnvægi.

Gengið var frá endurfjármögnun NBI þrátt fyrir að á þeim tíma hefði ráðamönnum átt að vera ljóst að mikil óvissa væri um lögmæti gengistryggðra lána, verðmæti lánasafnsins og getu bankans til að endurgreiða skuldabréfið í erlendri mynt. Bankinn varð því of stór með lág meðalgæði útlána, auk þess sem nauðsynlegt var að leiðrétta reiknaða skekkju í gjaldeyrisjöfnuði bankans með útgáfu skuldabréfs á milli gamla og nýja bankans.

Þetta var vandarmál sem var fyrirsjáanlegt og lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram þingsályktun um endurreisn íslensku bankanna í júlí 2009, sem byggði á því að stærð hins nýja bankakerfis miðaðist við innlendar innstæður en ekki innlendar eignir.  Þar var bent á að ef endurskipulagning bankakerfisins færi úrskeiðis væri hætta á að ríkið yrði aftur að leggja til meira eigið fé.

Þessar ábendingar voru hunsaðar og samkomulag um endurreisn bankakerfisins undirritað í lok árs 2009.

Meira eigið fé í krónum leysir þó ekki vandann varðandi framboð á erlendum gjaldeyri, en það á eftir að vera viðvarandi vandamál á næstu árum í ljósi mikilla erlendra skulda þjóðarbúsins.  Það er von mín að það muni reynast NBI auðvelt að kaupa gjaldeyri til að standa við skilmála skuldabréfsins, en um það ríkir mikil óvissa.

Óvissan er til staðar, það var staðfest á fundi viðskiptanefndar og því stend ég við orð mín.

—————————

Þingsályktun um endurreisn bankakerfisins

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur