Föstudagur 28.8.2015 - 12:18 - Rita ummæli

Staða heimila og húsnæðiskostnaður

Í Félagsvísum 2014 má finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem tengjast lífskjörum þjóðarinnar.  Þar má meðal annars finna upplýsingar um stöðu heimila á húsnæðismarkaðnum og húsnæðiskostnað frá 2004 til 2013.

Árið 2013 voru 10,7% heimila í félagslegu leiguhúsnæði, 14,2%  voru í leiguhúsnæði á almennum markaði og 2,2% sem voru í leiguhúsnæði en greiddu ekki fyrir það eða samtals 27,1% heimila á húsnæðismarkaðnum.

Rúm 17% heimila bjuggu í eigin húsnæði og skulduðu engin húsnæðislán,  55,3% voru í eigin húsnæði með húsnæðislán eða 72,9% heimila.

Hlutfallslega voru fleiri sem voru á almenna leigumarkaðnum með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað eða 17,9% þeirra heimila, en til samanburðar voru 7% heimila sem áttu eigið húsnæði með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Hlutfallsleg skipting heimila e. stöðu á húsnæðis-markaði 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013
Leiguhúsnæði, endurgjaldslaust 1,9 1,3 0,9 2,0 1,8 2,1 1,9 3,2 2,9 2,2
Leiguhúsnæði, úrræði 8,7 8,1 7,7 7,8 8,3 8,9 9,0 11,7 10,2 10,7
Leiguhúsnæði á almennum markaði 9,4 8,3 9,2 7,6 8,9 10,2 13,8 13,2 15,2 14,2
Samtals í leiguhúsnæði 20 17,7 17,8 17,4 19 21,2 24,7 28,1 28,3 27,1
                     
Eigin húsnæði, skuldlaust 21,3 20,6 20,9 17,4 16,8 17,4 16 17,5 17,4 17,6
Eigin húsnæði, með húsnæðislán 58,8 61,8 61,3 65,2 64,2 61,4 59,3 54,4 54,3 55,3
Samtals eigið húsnæði 80,1 82,4 82,2 82,6 81 78,8 75,3 71,9 71,7 72,9
 
% með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað 10,3 12,5 14,3 10,5 11,4 9,5 9,6 10,1 9,0 8,8
% með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað e. stöðu á húsnæðismarkaði
Eigendur, skuldlaust 6,4 7,2 7,6 6,8 5,0 4,4 3,8 5,1 4,0 7,0
Eigendur með húsnæðislán 11,3 14,1 17,2 11,8 12,6 9,9 10,1 8,8 7,7 6,8
Leigjendur sem greiða markaðsverð 12,2 16,0 13,2 9,4 17,3 15,7 16,5 21,9 18,1 17,9
Leigjendur með niðurgreidda leigu 9,0 5,6 3,6 6,3 5,1 9,0 6,7 13,6 14,0 14,4

 

Nánari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Flokkar: Húsnæðismál

Mánudagur 24.8.2015 - 15:07 - 3 ummæli

Byggjum 2300 leiguíbúðir

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl. kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.  Í sumar hefur verið unnið að frumvörpum og fjármögnun þessara loforða í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og hlutaðeigandi ráðuneyta enda yfirlýsing stjórnvalda ein lykilforsenda langtíma kjarasamninga á vinnumarkaði.

Átak í uppbyggingu íbúða skiptir miklu máli núna, enda var góð samstaða um það og er gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu, líkt og fjármálaráðherra upplýsti í nýlegu Morgunblaðsviðtali og mun stuðla að stöðugleika til framtíðar.

Karens-Minde

Hvernig væri svona leiguíbúð?

Bygging íbúðanna verður fjármögnuð með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt 30% af stofnkostnaði.  Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga auk aukins stuðnings með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017 á að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum.  Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið.  Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

BB_2

Eða svona?

Ríkisstjórnin hefur einnig skuldbundið sig til að styðja við almenna leigumarkaðinn með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumörk verða hækkuð með hliðsjón af þeim tillögum sem komnar eru fram.  Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.  Skattlagning tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður einnig breytt til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða á almenna leigumarkaðnum.

BB_3

Þessar munu rísa í Nordhavn í Kaupmannahöfn og verða tilbúnar árið 2018.

Gert er ráð fyrir að stofnframlög verði skilyrt þannig að þeir lögaðilar einir geti sótt um stofnframlög sem hyggja á rekstur með félagsleg markmið að leiðarljósi.  Þeir lögaðilar sem munu geta sótt um stofnframlög verða ekki rekin í hagnaðarskyni, og geta verið sjálfseignastofnanir, húsnæðissamvinnufélög eða hlutafélög.

Ofangreindar lausnir tryggja meira öryggi í húsnæðismálum og eru unnar í góðu og miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög þar sem byggt er á tillögu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóps um húsnæðismál.

Nánari upplýsingar:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.8.2015 - 15:16 - 1 ummæli

Rauðmáluð timburhús

Eiginmaður minn ólst upp í rauðmáluðu timburhúsi í Keilufellinu í Efra-Breiðholti. Flestar af hans bestu æskuminningum tengjast þessu húsi og hverfinu sem það stóð í.  Hversu notalegt það var að vakna við hljóðið í regndropunum sem dundu á bárujárnsþakinu, litla grenitréð sem þeir bræðurnir tóku toppinn af í badminton, en gnæfir nú yfir húsið og notalega eldhúsið þar sem graslaukur og annað grænmeti úr matjurtagarðinum léku stórt hlutverk í matargerð sex manna fjölskyldunnar.

Fyrir stuttu röltum við um hverfið þar sem húsin standa enn, sum hver óbreytt en önnur mikið endurnýjuð.

IMG_1435

Timburhúsin í Keilufellinu eru viðlagasjóðshús sem voru byggð til að mæta miklum húsnæðisvanda Eyjamanna eftir að eldgos hófst í Heimaey 1973. Þegar yfir lauk hafði Viðlagasjóður reist rúmlega 550 hús á meira en tuttugu stöðum á landinu. Nærri 500 þessara húsa voru varanleg, en einnig var 60 bráðabirgðahúsum komið upp.

IMG_1433

Um var að ræða einingahús, forsmíðuð erlendis, en hér heima þurfti að hanna grunna, ganga frá lögnum og setja húsin upp.  Húsin komu flest frá Norðurlöndunum og svo Kanada. Þar af voru 40 hús byggð í Reykjavík og komu þau frá sænska framleiðandanum BPA.  Fyrst um sinn leigði Viðlagasjóður húsin til íbúanna en árið 1977 hafði sjóðurinn selt nær öll húsin eftir að margir Eyjamenn snéru aftur til Vestmannaeyja.

IMG_1420

Mikil vinna fór í að kanna hvort húsin stæðust íslenskar byggingareglugerðir, sem reyndust strangari en í framleiðslulöndunum.  Aðstæður hér á landi kölluðu líka á breytingar á mörgum húsanna, auk þess að einhver vandamál komu upp  í sumum húsanna sem tengdust lóðafrágangi og leka.

IMG_1417

Húsin í Keilufellinu voru tví- eða þrílyft með opnu bílskýli, svipuð því sem ég hef séð víðast hvar á Norðurlöndunum.  Minni húsin voru um 140 fm2 og þau stærri um 200 fm2.

IMG_1428

Nú 40 árum seinna skilst mér að þessi hús séu vinsæl í endursölu og besta er að verðið er undir 300 þúsund krónum fermetrinn.

PS. Hér má finna yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga um húsnæðismál þar sem gert er ráð fyrir byggingu allt að 2300 leiguíbúða á næstu fjórum árum með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Úthlutun stofnframlaga mun hefjast um áramótin samkvæmt loforði ríkisstjórnarinnar.  Einnig munum við auðvelda ungu fólki að kaupa húsnæði og tryggja að byggingar verði sem hagkvæmastar með auknu lóðaframboði og breyttum skipulagsferlum.

Yfirlýsingin byggir á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og er unnið áfram að frekari útfærslum á þeim. Skýrslu verkefnisstjórnarinnar má nálgast hér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.8.2015 - 19:13 - 8 ummæli

Að byggja sjálf?

„Þetta var hvítt, gamalt hús, alls ekki stórt með grænum samskeytum á hornunum og grænum hurðum og grænu túni umhverfis og þar uxu sjöstjörnur og steinbrjótar og fagurfíflar í grasinu.  Sýrenur og kirsuberjatré voru þar líka og uxu villt og utan um allt þetta reis steinveggur, lágur, grár múrveggur, vaxinn litríkum blómum.“  (Astrid Lindgren)

Þetta var lengi vel draumahúsið, – Riddaragarðurinn þar sem bræðurnir Ljónshjarta bjuggu í Kirsuberjadalnum.

broderna_lejonhjarta

Eftir heimsókn nýlega til Færeyja varð þó smá breyting á.  Núna er draumahúsið svart, með grænum samskeytum og grænum hurðum, og að sjálfsögðu grænu torfþaki.

Faereyjar_hus

Hins vegar hefur þessi draumur um minn eiginn Riddaragarð alltaf verið fjarlægur, bæði mér og ég held fjölmörgum öðrum.

Allavega á höfuðborgarsvæðinu.  Því til að byggja hús, þarf ekki bara pening heldur einnig lóð og líkt og ýmsir sveitastjórnarmenn hafa bent á hafa lóðir bæði verið fáar og dýrar.

Þessu til staðfestingar settist ég eitt rigningarkvöld niður og fletti upp lóðum á höfuðborgarsvæðinu á fasteignavef Morgunblaðsins.  Í leitarvélinni komu upp 601 lóð (bæði fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði).  Þær ódýrustu voru í Hvalfirðinum á skipulögðu sumarbústaðarlandi á hálfa milljón króna en ódýrustu einbýlishúsalóðirnar virtust vera í Mosfellsbænum þar sem upphafsverðið var í kringum 4 milljónir króna.  Þar virtust þær einnig vera flestar.

Í Reykjavík fannst 71 lóð, þar af sú ódýrasta á 7,9 milljónir króna við Iðunnarbrunn í Úlfarsárdalnum.  Í Hafnarfirði fundust 50 lóðir og ódýrasta einbýlishúsalóðin var auglýst á tæpar 12 milljónir króna.

Úrvalið virtist þannig ekki vera mikið og verðið að lágmarki 4 milljónir króna, en ekki ólíklegt að verðmiðinn væri fljótt kominn upp í 8-12 milljónir króna fyrir einbýlishúsalóð.

En hvað með húsið sjálft?

Ég hef oft nefnt drauminn minn um húsnæði undir 300 þúsund krónum fermetrinn og ýmsir talið hann ansi fjarri lagi.  Það væri varla hægt að fá litla íbúð undir 30 milljónum króna hvað þá heilt einbýlishús.

Þökk sé öðru rigningarkvöldi rakst ég á vefsíðu Fiskarhedenvillan sem framleiðir og selur forsmíðuð einingarhús á Norðurlöndunum og í Rússlandi.  Ódýrustu húsin kosta 659.000 SEK eða tæpar 11 milljónir króna með nánast öllu inniföldu, þar með talið raftækjum. Fiskarhedanvillan_pallur

Verð væri þá frá 15 milljónum króna að lágmarki plús flutningskostnaður, kostnaðurinn við grunninn, lagnir, rafmagn og svo öll vinnan við bygginguna.

Untitled
Sälen (112 fm2) á tæpar 14 milljónir króna með þremur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum eða 125 þúsund krónur/fermetrinn er ansi nærri draumnum. Hér má sjá nánari upplýsingar um hvað er innifalið.

Kannski væri jafnvel hægt að byggja upp svona hverfi?

Faereysk_gata

Er þetta hægt?  Gaman væri að heyra frá lesendum hvort þeir hafi sjálfir byggt sitt eigið heimili og hvað það hafi kostað.  Hvort það hafi verið frá grunni eða forsmíðað?

Hér eru síður með fleiri norrænum framleiðendum á forsmíðuðum húsum:

PS: Ég þekki ekki til þessara fyrirtækja, annað en það sem kemur fram á vefsíðum þeirra, og veit ekki til þess að þau tengist mér persónulega eða Framsóknarflokknum.

PSS: Unnið er að tillögu til úrbóta á húsnæðismarkaðnum samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga.  Hér má finna þær tillögur, þar á meðal stofnframlög til byggingar allt að 2300 leiguíbúða, aukinn húsnæðisstuðningur við efnaminni fjölskyldur, varanlegt fyrirkomulag húsnæðissparnaðar fyrir fyrstu kaupendur, endurskoðun á byggingarreglugerðinni, breytt greiðslumat o.fl.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.7.2015 - 10:03 - 2 ummæli

Skuldsett þjóð er ekki frjáls

Ein af kröfum Evrópusambandsins sem Grikkir þurfa að gangast undir til að fá neyðarlánið er að þeir verða að selja ríkiseignir að verðmæti 50 milljarða evra.  Fjármunirnir verða notaðir til að endurgreiða lánið og endurfjármagna grísku bankana.

Mörgum finnst nóg um hörkuna gagnvart Grikkjum, ekki hvað síst að ríkiseignir skulu vera með þessum hætti teknar undan yfirráðum grískra stjórnvalda.

Ég var hins vegar ekkert hissa.

Þessi liður samkomulagsins minnti ansi mikið á ákvæði fyrsta Icesave samningsins frá 2009 um að Íslendingar gætu ekki borið fyrir sig friðhelgi fullveldis ef kröfuhafar okkar teldu ástæðu til að ganga að eignum ríkisins til fullnustu samningnum.   Þar hefðu allar eignir ríkisins verið undir, ef við af einhverjum ástæðum hefðum ekki getað staðið við samninginn.

Fyrst var talað um að þetta ákvæði væri svona „hefðbundið“ og fráleit túlkun að telja eignir og auðlindir þjóðarinnar væru undir. En áhyggjurnar voru nægar til að sett var inn sérstakt ákvæði í lögunum um ríkisábyrgðina sem takmörkuðu afsal friðhelgis.

Reynsla Grikkja sýnir að sannarlega var ástæða var til að hafa áhyggjur.

Lærdómurinn er enn á ný að þjóð sem er að drukkna í skuldum er ekki frjáls, ekki frekar en fyrirtæki eða heimili.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.7.2015 - 19:35 - 14 ummæli

Er lán lukka?

„Það er ekki hægt að spara á Íslandi,“ hef ég oft heyrt frá fólki í kringum mig og mér sjálfri.  Ég var lengi vel alveg sannfærð um þetta og gerðist því í staðinn sérfræðingur í að taka lán.

Lán varð nánast að lukku í mínum huga.

Ef það var eitthvað sem mig langaði í, þá rölti ég í næstu lánastofnun og viðkunnanlegi þjónustufulltrúinn bjargaði því fyrir mig.  Yfirdráttarlán brúaði bilið þar til LÍN borgaði út námslánin, bankalán dekkaði það sem upp á vantaði, 90% verðtryggt íbúðalán hjálpaði til við fyrstu kaupin og 100% gengistryggður bílasamningur reddaði bílnum.  Í fæstum tilvikum átti ég eitthvað sparifé upp í fjárfestingar mínar, hvort sem um var að ræða menntunina, bílinn eða íbúðakaupin.

Enda ekki hægt að spara á Íslandi.

Ég átti að vísu vini sem settu alltaf 10 til 20% af launum sínum um hver mánaðarmót inn á bankabók áður en nokkuð annað var borgað, sama reikning og fermingargjafirnar fóru inn á nokkrum árum fyrr, sem fóru hægar í gegnum háskólanámið til að þurfa ekki að taka námslán, bjuggu lengur heima til að geta sparað fyrir húsnæði eða tóku strætó í vinnuna til að geta borgað hraðar niður íbúðalánið.  Eftir hrun voru þessir vinir mínir yfirleitt mun betur staddir en ég.  Þeir áttu smá aur í bankanum ef þeir misstu vinnuna og gylliboð um meiri lán þegar fasteignabólan fór á flug höfðuðu lítið til þeirra.

Í dag þegar ég heyri enn á ný talað um að ekki sé hægt að spara og fyrir auknum lántökum þá hugsa ég til þessara vina, – sem trúðu ekki að lukkan fælist í lánum heldur eigin hagsýni og ráðdeild.

Þetta er fólkið sem ég vil gjarnan læra af og kenna mínum börnum að það er til önnur leið en sú sem ég valdi.

Þess vegna hef ég talað fyrir húsnæðissparnaði.  Þess vegna hef ég stutt séreignasparnaðarleiðina.  Þess vegna tel ég ekki neikvætt að börnin okkar hætti að vera með þeim yngri í Evrópu til að steypa sér í skuldir vegna fasteignakaupa.  Þess vegna hrekk ég við þegar aftur er byrjað að tala um 90% plús lán við fyrstu kaup.

Hvernig þá?

Lítum á tvö dæmi.  Fyrir utan flesta framhaldsskóla og háskóla má finna mikinn fjölda bíla, sem flestir kosta á bilinu 0,5 til 3 milljónir króna.  Í einum framhaldsskólabekk er ekki ólíklegt að hver nemandi sé með síma og tölvur að verðmæti 100 til 250 þúsund krónur í fórum sínum. Í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins er þannig miðað við að kostnaður vegna ökutækja sé um 73 þúsund krónur og fjarskipta um 12 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu eða samtals um 85 þúsund krónur á mánuði.

Yfir fjögurra ára tímabil eru þetta fjórar milljónir króna.

Fyrir stuttu voru auglýstar íbúðir á 322 þúsund krónur á fermetrann. Byggingarreglugerð hefur verið breytt til að hægt sé að byggja minni íbúðir og sveitarfélög vinna að því að minnka íbúðir samkvæmt skipulagi.  Tveggja herbergja, sextíu fermetra íbúð á þessu verði kostar þannig rétt tæpar 20 milljónir króna.

Fjórar milljónir króna myndu duga fyrir 20% útborgun í þannig íbúð og hana mætti jafnvel leigja út meðan farið er í frekara nám.

Einhverjir af mínum skynsömu og ráðdeildarsömu vinum höfðu reiknað þetta út fyrir löngu, keypt sér strætókort, þakkað fyrir að geta búið heima aðeins lengur og fengið sér Frelsi fyrir gamla Nokia símann.

Við gætum vel lært af þeim, nema við viljum bara hverfa aftur til ársins 2007.

Við höfum valið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.7.2015 - 13:15 - 2 ummæli

Þakviðgerðir í þjóðarhúsinu

Að búa við öruggt húsnæði er grunnþörf hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu. Ísland er velferðarsamfélag og það er beinlínis skylda stjórnvalda að tryggja að fólk hafi þak yfir höfuðið.

Til að tryggja að fólk geti komið sér upp húsnæði höfum við byggt upp ýmis stuðningskerfi. Við höfum haft vaxtabætur sem er niðurgreiðsla ríkisins á vöxtum af lánum teknum til húsnæðiskaupa -en upptaka þess kerfis var aðferð til að jafna aðstöðu fólks gagnvart þessari mikilvægu grunnþörf hvers Íslendings.

Við höfum síðan haft húsaleigubætur til að styðja við þann hóp sem er á leigumarkaði. Sá munur hefur hins vegar verið á þessum tveimur kerfum að mun fleiri hafa notið vaxtabóta en húsaleigubóta. Það er samdóma álit allra sem þetta hafa skoðað að ólíkur stuðningur við leigjendur og fasteignareigendur hafi valdið skekkju á markaðnum. Fyrir utan mismununina sem í því felst þá hefur þetta hamlað uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar og aðgang að fjölbreyttari valkostum fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

Þverpólitísk sátt hefur verið um að þessu þurfi að breyta. Vinna við það hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar en hún náði ekki að koma saman frumvarpi þess efnis. Ég lagði áherslu á að hraða vinnu við þetta mál þegar ég tók við sem ráðherra húsnæðismála enda löngu tímabært að taka næsta stóra skref í húsnæðismálum þjóðarinnar. Það er sá áfangi sem við erum nú að ná og munum ljúka með framlagningu frumvarpa minna sem vonandi taka gildi um næstu áramót.

Af hverju hærri húsnæðisbætur?
Þetta er stór áfangi og hann felur í sér að við bætum kjör allra. Þær fregnir að fleiri eigi von á húsnæðisstuðning hafa hins vegar orðið tilefni leiðs misskilnings. Spurt hefur verið hvort hygla eigi tekjuháum sérstaklega með þessum breytingum. Vissulega mun jafnari réttur til húsnæðisbóta styrkja öll heimili, ekki síst millitekjufólk á leigumarkaði. Tekjutengingar munu hins vegar, líkt og ávallt þegar við tölum um slík jöfnunartæki, tryggja að þeir sem hafa minnst fá hlutfallslega mestan stuðning.

Ég vil biðja þá sem gripið hafa þennan misskilning á lofti að staldra við og velta fyrir sér hvaðan sú gagnrýni kunni að vera komin. Kann að vera að hún eigi heimilisfesti hjá þeim sem vilja helst engan opinberan stuðning til húsnæðismála? Hjá þeim sem vilja að einkaaðilar geti einir gert út á erfiða stöðu heimilanna að þessu leyti? Er hún að koma frá þeim sem vilja alls ekki sjá hækkun húsnæðisbóta verða að veruleika?

Fólk á hrakhólum nær ekki að blómstra
Eftir hrun höfum við séð að húsnæðiskostnaður sem hlutfall af tekjum heimilanna hefur hækkað á leigumarkaði. Það er mikið áhyggjuefni. Af því að við viljum samfélag þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og þar sem börn efnaminni foreldra búa við öryggi þá þurfum við að passa upp á þessi stuðningskerfi. Þau hafa verið byggð upp á löngum tíma í mikilli sátt og samstöðu allra Íslendinga.

Ef við líkjum samfélaginu okkar við hús þá mætti segja að opinber húsnæðisstuðningur sé þakið. Það var hins vegar kominn tími á viðgerð á þakinu og líkt og þegar gert er við þak í fjölbýlishúsi þá er það bæði skylda og hagur allra að leggja í púkkið. Öflug öryggisnet er undirstaða velferðar og hagsældar. Fólk á hrakhólum nær ekki að blómstra svo að þjóðfélagið fái notið góðs af. Uppbygging öryggisnets sem tryggir fólki húsnæði óháð tekjum eða stöðu í lífinu er fjárfesting sem borgar sig, um leið og hún er siðferðisleg skylda okkar.

Húsnæðisbætur eru jafnréttismál, þær eru sanngirnismál og þær eru stórt skref í átt til aukinnar velferðar. Þökk sé styrkri efnahagsstjórn og réttum ákvörðunum er nú loks fjárhagslegt svigrúm til að stíga þetta skref. Því veit að ég við fögnum – íbúarnir í því trausta fjölbýli sem kalla má þjóðarhúsið Ísland, þar sem allir geta hallað höfði og þakið lekur ekki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.6.2015 - 12:08 - 3 ummæli

Bætum stöðu leigjenda

Frumvarp mitt um húsnæðisbætur hefur verið lagt fram á Alþingi.  Því er ætlað að mæta breyttum veruleika íslenskra heimila.   Kostnaður fólks á leigumarkaði vegna húsaskjóls sem hlutfall af tekjum hefur hækkað verulega síðustu ár á meðan húsnæðiskostnaður fólks sem býr í eigin húsnæði hefur lækkað.  Á sama tíma hefur leigjendum fjölgað verulega.  Árið 2007 bjuggu rúm 15% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið í tæp 25%.  Staða þeirra er einnig mun erfiðari, en samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2013 voru rúm 22% leigjenda á almennum markaði undir lágtekjumörkum í samanburði við tæp 6% fjölskyldna í eigin húsnæði, sem sést hvað best í að meirihluti skjólstæðinga Umboðsmanns skuldara býr í leiguhúsnæði í dag.

Þessu hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins lagt áherslu á að bæta úr í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, með því að auka stuðninginn við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga og jafna opinberan húsnæðisstuðning til að skapa fólki raunverulegt val á milli ólíkra búsetuforma, þ.e. eignaríbúða, leiguíbúða eða búsetuíbúða.

Fyrsta skrefið verður nýtt húsnæðisbótakerfi.

Á meðfylgjandi töflu má sjá samanburð á grunnfjárhæðum húsaleigubóta og vaxtabóta í  núgildandi kerfi og dálknum lengst til hægri hverjar bætur til leigjenda verða í nýju húsnæðisbótakerfi.

Húsaleigubætur Vaxtabætur Húsnæðisbætur
Grunnfjárhæðir Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði
Einhleypur 264.000 22.000 400.000 33.333 372.000 31.000
Einstætt foreldri 1 barn 432.000 36.000 500.000 41.667 446.400 37.200
Einstætt foreldri 2 börn 534.000 44.500 500.000 41.667 539.400 44.950
Einstætt foreldri 3 börn 600.000 50.000 500.000 41.667 613.800 51.150
Barnlaus hjón 264.000 22.000 600.000 50.000 446.400 37.200
Hjón 1 barn 432.000 36.000 600.000 50.000 539.400 44.950
Hjón 2 börn 534.000 44.500 600.000 50.000 613.800 51.150
Hjón 3 börn 600.000 50.000 600.000 50.000 651.000 54.250

Þannig tryggjum við sanngirni á íslenskum húsnæðismarkaði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.6.2015 - 08:57 - Rita ummæli

Afnám hafta á mannamáli

Í gær var áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna kynnt í Hörpunni og þar sem áherslan var öll á þjóðarhagsmuni.  Að baki liggur gífurleg vinna og munum við seint getað fullþakkað öllu því góða fólki sem hefur unnið að þessu stóra verkefni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér áætlunina þá er hér myndband um afnám haftanna frá fjármálaráðuneytinu.

Hér er líka klippa af viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í þættinum Forystusæti fyrir Alþingiskosningarnar 2013, einnig þekkt sem „Svo ég segi það nú líklega í 5 skipti…“-viðtalið 😉

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.5.2015 - 16:57 - 5 ummæli

Risaskref í húsnæðismálum

Afar ánægjuleg tímamót urðu í dag þegar ríkisstjórnin samþykkti ráðstafanir sínar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.  Með þeim er risaskref tekið í húsnæðismálum á Íslandi, raunar stærsta skref sem stigið hefur verið í mörg ár.  Málið hefur verið ítarlega unnið og undirbúið í velferðarráðuneytinu, í mjög nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga og er nauðsynlegt og gott innlegg við gerð kjarasamninga.

Nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi verður myndað með áherslum á verulega fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða sem tryggja tekjulægri fjölskyldum og einstaklingum leiguhúsnæði til lengri tíma.  Kerfið verður fjármagnað með stofnframlagi frá ríki og sveitarfélögum og beinum vaxtaniðurgreiðslum sem nemur um 30% af stofnkostnaði. Þetta þýðir í reynd að leiga tekjulágs einstaklings verða ekki nema 20 – 25% af tekjum og er óþarfi að tíunda hversu mikil áhrif þetta hefur á leigumarkaðinn.  Fram til ársins 2019 verða byggðar um 2.300 félagslegar leiguíbúðir, eða allt að 600 á ári frá og með næsta ári og eftir það verður skoðað ítarlega hver þörfin verður. Áhersla verður lögð á hóflega stórar íbúðir, blandaða byggð og að kostnaður við byggingu húsnæðisins verði með sem hagkvæmustum hætti.  Jafnframt verður stuðlað að meira framboði og lægri leigu á almennum leigumarkaði með því að breyta skattlagningu leigutekna hjá einstaklingum. Með þessum aðgerðum getum við sagt að við náum þeim markmiðum sem ég hef stefnt að; að tryggja raunhæfan valkost á húsnæðismarkaði þar sem efnahagur er ekki lykilatriði, en öruggt húsnæði fyrir alla er í fyrirrúmi.

Ég hef líka lagt á það áherslu að hækka húsnæðisbætur. Það verður nú að veruleika á árunum 2016 og 2017 þegar ekki aðeins grunnfjárhæðin verður hækkuð ásamt frítekjumarkinu, heldur munu bætur miðast við hversu margir eru í heimili. Hækkun húsnæðisbóta mun styrkja verulega stöðu efnaminni leigjenda á markaði og jafna stöðu leigjenda og eigenda að íbúðarhúsnæði, um það er ekki nokkur vafi.

Einn er sá þáttur sem aldrei má vanmeta í þessu sambandi, en það er hvernig hægt er að aðstoða fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði. Á þessu er tekið með afgerandi hætti í tillögunum, því ákveðið hlutfall af tekjum í ákveðinn tíma verður hægt að nota skattfrjálst til fyrstu íbúðakaupa. Sett verða sérstök lög um fasteignalán og lánveitendur fá svigrúm til að horfa til fleiri þátta en eingöngu hver niðurstaða greiðslumatsins er.

Hálf öld er nú frá því að stór skref voru stigin í tengslum við kjarasamninga þar sem húsnæðismálin spiluðu jafn stórt hlutverk og nú.  Árið 1965 var uppbygging nýs hverfis tengd kjarsamningum; það var Breiðholtið. Fyrst Neðra-Breiðholt og síðar Fella- og Hólahverfi. Það var stórt skref.  Nú er tekið risaskref til framtíðar með nýju félagslegu kerfi, gríðarlegri uppbyggingu, stöðugleika á leigumarkaði og löngu tímabæru réttlæti fyrir hina efnaminni.

Framtíðin byrjar núna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur