Fimmtudagur 25.06.2009 - 20:00 - 6 ummæli

Sund er allra meina bót


Sund er hin fullkomna heilsurækt. Það er ekki aðeins alhliða hreyfing sem stykir hjarta, lungu og alla helstu vöðvahópa líkamans, heldur eflir sundiðkun líka geðheilsuna betur en nokkur önnur hreyfing. Leyfið mér að útskýra.

Sund býður upp á hreyfingu úti undir beru lofti mitt í hringiðu náttúruaflanna. Það eitt eflir andann. Það er ekki til neitt sem heitir vont veður í sundi. Það er frábært þegar það er sól. Ef maður lokar augunum er eins og maður sé á Ibiza. Það er yndislegt þegar það er snjókoma, sérstaklega á köldum vetrarkvöldum. Það er hressandi þegar það er rok og rigning. Því brjálaðra veður, þeim mun notalegra er að kúra sig í heita pottinum. Soðningin býður auk þess upp á fjölbreyttan félagsskap og spennandi samræður. Einmana fólk ætti að gera mikið af því að fara í sund. En rúsínan í pylsuendanum er að í sundi býðst einstakt tækifæri til að sjá hvernig alvöru líkamar líta út.

Fyrir nútímafólk sem býr við stöðugt áreiti tölvugerðra líkama og útlitsviðmiða sem eru löngu komin út fyrir öll velsæmismörk, þá eru sundstaðirnir kannski einu staðirnir á jarðríki sem bjóða upp á tengingu við raunveruleikann. Í sundi eru manneskjur af öllum stærðum og gerðum. Maður getur séð hvernig alvöru konur og karlar líta út frá frumbernsku til elliára. Maður getur séð svart á hvítu hvernig mannslíkaminn vex og dafnar, þroskast og eldist, ár frá ári og losnað þannig við alla ímyndunarveiki um hvað er „rétt“ útlit. Maður sér að flest smábörn eru með bumbu. Flestar konur eru með mjúkan maga og appelsínuhúð. Brjóst eru ekki stinn nema á unglinsstúlkum. Gamlar konur eru með siginn maga, rass og brjóst en litríkar sundhettur og varalit. Þegar maður er í sundi er auðvelt að sætta sig við hlutskipti sitt sem ófullkomin manneskja á lífsbrautinni. Það eina sem fyrir okkur liggur er að eldast, færast frá því að vera smábörn yfir í að verða fullorðin yfir í að verða gamalmenni. Við fáum engu ráðið nema því hvernig við förum þessa ferð: Angistarfull og spyrnandi við fótum eða með bros á vör og glitrandi sundhettur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Frábær skrif hjá þér Sigrún og síðan í heild. Rakst á þetta fyrir nokkru og kíki reglulega inn. Glæsilegt framtak!!

 • Danton (María Jónsd.)

  Þetta er mjög góð grein og hverju orði sannara

  Meira af þessu!

 • Sólveig Anna

  fallegt!
  pant vera með sundhettu og varalit!
  ég mæli með árbæjarlauginni, útsýnið yfir borgina er frábært.

 • Dagný Daníelsdóttir

  Ædislega upplífgandi grein! Madur kemst alveg í stud ad bara fara út og njóta lífsins!!:)

 • Dittó, flottur pistill hjá þér.

  Fyrir nokkrum árum skrifaði ég álíka grein í dagblað.

  Í henni sagði ég að hægt væri að sjá alvöru líkama, af öllum stærðum og gerðum, í sundlaugunum. Sem mótvægi við staðalkroppaútlitið sem aðeins er til í huganum.

  Þá hafði maður samband við mig og spurði hvar væri hægt að sjá þessa líkama – talandi um rörsýni! Sá greinilega misskildi all hrapalega skrif mín, hélt kannski að hægt væri að skoða þá í gegnum gæjugat eða álíka!

 • Snilldar grein hjá þér systa. Sé alveg fyrir mér þessar gömlu konur með sundhetturnar og varalitinn klípandi í kinnarnar á litlu börnunum með bumbumagana. En svo má heldur ekki gleyma gömlu gráhærðu/sköllóttu körlunum sem eru orðnir svo krumpaðir að maður veit ekki hvort það sé af elli eða of miklilli pottasetu 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com