Fimmtudagur 09.07.2009 - 16:14 - 5 ummæli

Er ofþyngd hin nýja kjörþyngd?


Í kringum aldamótin síðustu var offita sett á oddinn í heilbrigðismálum og stríðið gegn fitu var hafið. Eitt af slagorðum þeirrar baráttu í Bandaríkjunum var að 300.000 dauðsföll mætti árlega rekja til offitu og þannig væri offita mesta heilsufarsógn þar í landi á eftir reykingum. Það sem kom þó aldrei fram var að þessi tala byggðist á heldur vafasömum gögnum. Rannsóknin sem lá þar að baki var metnaðarfull að því leyti að hún var fyrsta alvöru tilraunin til þess að áætla fjölda dauðsfalla af völdum offitu. Engu að síður voru þar ýmsir annmarkar, þar á meðal að ekki var stjórnað rétt fyrir áhrifum truflandi þátta, eins og kyns, aldurs og reykinga, og gagnasöfnin sem rannsóknin byggði á voru komin til ára sinna og gáfu ekki þversnið af bandarísku þjóðinni með tilliti til aldurs, kynja og kynþátta.

Nokkrum árum síðar var gengið skrefinu lengra og því haldið fram að offita hefði tekið við af reykingum sem leiðandi orsök ótímabærra dauðsfalla. Þessi staðhæfing byggðist á rannsókn sem þótti sýna að tollur offitu væri 400.000 dauðsföll á ári í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að þessi rannsókn hafi notað nýrri gagnasöfn en sú fyrri voru aðferðir þeirra nánast þær sömu og því svipaðir vankantar. Fljótlega kom í ljós að um ofmat var að ræða og neyddust rannsakendurnir til þess að draga niðurstöður sínar til baka og birta leiðréttingu.

Árið 2005 birtist önnur rannsókn, stýrð af Katherine Flegal og félögum hennar við CDC-stofnunina í Bandaríkjunum. Rannsókn þeirra var ólík hinum tveimur að því leytinu til að hún byggði á traustum, nýlegum gagnagrunni sem speglaði bandarísku þjóðina með tilliti til aldursdreifingar, kynja og kynþátta. Gögnin voru fengin úr hinni virtu NHANES langtímarannsókn, sem staðið hefur yfir frá því snemma á sjöunda áratugnum, og voru niðurstöðurnar skýrar. Dánartíðni reyndist ekki aukin meðal þeirra sem voru of þungir (BMI 25- <30) heldur voru dauðsföll í þessum þyngdarflokki færri en meðal fólks í kjörþyngd (BMI 18,5- <25). Lítilsháttar aukning kom fram meðal þeirra sem voru of feitir (BMI 30- <35) en meiri meðal þeirra sem voru mjög feitir (BMI 35 og yfir). Dánartíðni þeirra sem voru í undirþyngd (BMI <18,5) var þó yfirleitt hæst allra.

Þessi rannsókn er sú vandaðasta sem gerð hefur verið á tengslum þyngdar og dauða. Hún vakti mikla athygli og fyrst um sinn gerðu rannsakendurnir lítið annað en að svara gagnrýni. Það skrýtnasta var þó ekki hvað niðurstöðurnar leiddu í ljós heldur hve mjög þær komu fólki á óvart. Flestar rannsóknir sem kannað hafa samband þyngdar og dánartíðni sýna svipaðar niðurstöður og ættu því að vera vísindaheiminum vel kunnar. Samt stóðu allir á öndinni. Sumir gengu jafnvel svo langt að halda málþing til þess að kasta rýrð á rannsóknina og draga hæfni þeirra sem að henni stóðu í efa.

Þetta dæmi sýnir ágætlega hvernig fordómar og fyrirframgefnar hugmyndir stýra áliti fólks, jafnvel innan vísindanna. Við erum öll alin upp við þá hugmynd að fita sé slæm. Okkur finnst erfitt að ímynda okkur nokkuð annað og þegar við rekumst á eitthvað sem gengur gegn skoðunum okkar, þá lítum við framhjá því. Við tökum frekar eftir því sem staðfestir rótgrónar hugmyndir okkar og þannig verðum við sífellt sannfærðari um að þær séu réttar.

Nú í júní birtust tvær rannsóknir til viðbótar. Önnur kanadísk og hin japönsk. Sú kanadíska var svipuð Flegal rannsókninni að því leyti að þetta var vönduð rannsókn með gott alhæfingargildi. Niðurstöðurnar voru þær sömu: Þeir sem voru of þungir lifðu lengur en fólk í kjörþyngd. Mesta áhættan reyndist vera meðal þeirra sem voru annað hvort mjög feitir eða mjög grannir, en þó meiri meðal þeirra síðarnefndu. Japanska rannsóknin, sem tók aðeins til eldri borgara, leiddi í ljós sama mynstur. Minnsta hættan fólst í því að vera of þungur en mesta áhættan tengdist grönnum vexti, jafnvel þótt það væri innan marka kjörþyngdar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Gott innlegg og vandaður pistill, takk fyrir hann! Við þurfum einmitt meira á svona umfjöllun að halda.

 • Þórarinn

  Af skrifum þínum að dæma þá finnst mér eins og þú sért að leita að réttlætingum fyrir því að vera of feitur. Lífstílstengdir sjúkdómar, eru þeir eitthvað sem þú ert að spá í, sykursýki, stoðkerfisvandi vegna alltof mikils álagas á líkaman og þar fram eftir götunum.

  Það er hægt að gleyma sér í rannsóknarbunkanum. Þú ert að falla í þá gryfju. Það er hægt að halda lífinu í fólki lengi, mjög lengi. Þó það sé fárveikt.

  Einnig tel ég að þú sért að falla í sömu gryfju og þeir sem harðastir eru gagnvart líkamsvexti fólks. Tekur nánast ætíð málstað þess að vera ekki í kjörþyngd. Normið er ekki norm af því þú vilt það ekki. Ef allir eru ólöghlýðnir, er það þá í lagi? Norm.

 • Guðmundur Guðmundsson

  Í aprílhefti PLOS Medicine birtist merkileg grein um tengsl lífshátta og dánartíðni. Þar segir frá yfirgripsmikilli og vandaðri rannsókn þar sem mat var lagt á það hversu mörg dauðsföll í Bandaríkjunum mætti tengja „fyrirbyggjandi“ áhættuþáttum eins og tóbaksreykingum, háum blóðþrýstingi, hreyfingarleysi, áfengisneyslu og ofþyngd/offitu.

  Vísindamennirnir áætluðu hversu margir hefðu látist af völdum hvers áhættuþáttar og var niðurstaðan sú að tóbaksreykingar og hár blóðþrýstingur hefðu valdið flestum dauðsföllum. Næst á eftir komu ofþyngd/offita og hreyfingarleysi.

  Niðurstaða rannsóknarinnar bendir ótvírætt til þess að offita auki hættu á ótímabærum dauða en áhættan er ekki sú sama fyrir þá akfeitu og þá sem eru aðeins of þungir. Í rannsókninni var líkamsþyngdarstuðullinn (BMI) 20-22 talinn hafa minnsta áhættu í för með sér. Þeir sem voru þar yfir var skipt í þrjá flokka. Í lægsta flokknum voru þeir sem höfðu líkamsþyngdarstuðul undir 25. Þá komu þeir sem höfðu stuðulinn 25-29,9 og loks þeir sem höfðu líkamsþyngdarstuðul 30 og þar yfir. Dauðsföllum af völdum ofþyngdar/offitu var deilt niður á þessa þrjá flokka. Sextíu og þrjú prósent dauðsfalla féllu á þyngsta hópinn, tuttugu og níu prósent á þann næst þyngsta og átta prósent á léttasta hópinn. Samkvæmt þessu er mesta áhættan tengd offitu en ofþyngd virðist einnig hafa áhættu í för með sér í samanburði við þá sem hafa líkamsþyngdarstuðulinn 20-22.

  Greinina má finna á slóðinni: http://www.plosmedicine.org/article/info:doi/10.1371/journal.pmed.1000058

 • Ég myndi fara mjög varlega í að túlka niðurstöður PloS greinarinnar (Danaei og félagar, 2009) og persónulega legg ég ekki mikið vægi í þær tölur sem þarna koma fram. Þessi rannsókn hefur marga galla þrátt fyrir að vera yfirgripsmikil. Meðal þeirra eru:

  • Engin tölfræðileg próf framkvæmd til þess að kanna hvort tölfræðilega marktækur munur sé milli tveggja áhættumata.

  • Áhættumötin eru ekki óháð hvert öðru, sem getur bæði haft áhrif á röðun áhættuþátta og stækkað áhrif þeirra (ef manneskja bæði reykir og hefur of háan blóðþrýsting er dauðsfall hennar skýrt tvisvar sinnum með mismunandi áhættuþáttum). Lesandi gerir ráð fyrir að setning eins og „467.000 dauðsföll má rekja til tóbaksreykinga og 395.000 til háþrýstings“ þýði að samanlagt hafi reykingar og háþrýstingur valdið 862.000 dauðsföllum, en það er ekki rétt, því mikið af dauðsföllunum falla í báða flokka.

  • Vegna þess að þeir áhættuþættir sem teknir voru til athugunar eru tengdir innbyrðis (tölfræðitengsl eru milli offitu og háþrýstings, reykinga og háþrýstins o.fl.) og vegna þess að áhættumötin eru ekki óháð hvert öðru, þá verða áhrif hvers áhættuþáttar (þ.e. fjöldi dauðsfalla tengd honum) stærri en ef áhrif hinna hefðu verið tekin með í reikninginn.

  • Þessir vankantar voru einnig stórir gallar á rannsókn Mokdad og félaga (2004) sem sýndi að 400.000 dauðsföll á ári væru tengd ofþyngd/offitu. Sú rannsókn notaði aðferð við gagnavinnslu (attributable fraction method) sem tekur ekki rétt tillit til truflandi þátta og hefur ýkjandi áhrif á niðurstöður. Rannsókn Danaei og félaga notar sömu aðferð og hefur því sömu galla. Þessi aðferð hefur verið mjög gagnrýnd af faraldursfræðingum og tölfræðingum, þar sem hún er talin leiða til alvarlegrar skekkju.

  • Varðandi dauðsföll sem rakin eru til ofþyngdar og offitu þá er mikilvægt að athuga að hlutfallsleg áhætta var aðallega fengin úr rannsóknum á fólki af asískum uppruna. Það er vel þekkt að offitutengdir sjúkdómar koma fram við mun lægri líkamsþyngdarstuðul hjá fólki af asískum uppruna og því vafasamt að nota slík viðmið þegar reikna á út áhættu fyrir almenning í Bandaríkjunum.

 • Sæl

  Takk fyrir þennan áhugaverða pistil og gaman að sjá þig hér. Langar að forvitnast úm eitt. Var eitthvað reynt að skýra afhverju of feitir lifðu lengur en þeir sem eru í kjörþyngd?

  Svo væri líka fróðlegt að skoða ekki bara dauðsföll heldur heilbrigði mælt á einhverskonar hlutlægan hátt (heimsóknir til læknis, greiningar e.t.c) og sjá hvort að það sé munur á hópunum. Eflaust hefur það verið gert.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com