Þriðjudagur 21.07.2009 - 15:08 - 9 ummæli

Beth Ditto er æði

Næstkomandi fimmtudag mun verslun Evans í Kringlunni hefja sölu á nýrri fatalínu sem hönnuð er af pönksöngkonunni Beth Ditto. Beth Ditto er töff stelpa sem vílar ekkert fyrir sér. Hún braust úr sárri fátækt til fræðgar og frama og er þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir. Hún er ekki aðeins fræg fyrir tónlistina sína heldur einnig fyrir það að vera feit og stolt af því. Það þykja nefnilega tíðindi.

Beth Ditto er stórkostleg fyrirmynd sem sýnir að maður þarf ekki að vera 40 kíló til að vera flott. Ég auglýsi hér með eftir slíkum fyrirmyndum á Íslandi. Ég veit ekki hversu oft ég hef haft augastað á fallegri og klárri feitri konu, og hugsað með mér að þarna sé komin manneskja sem hægt er að líta upp til. En það næsta sem ég veit er að sú hin sama er komin í átak eða viðtal í helgarblaðinu þar sem hún segir frá líkamsangist sinni og endalausri viðleitni til að grennast. Og þar með er draumurinn fallinn.

En ég er samt í smá vandræðum með Beth Ditto. Eins frábært og það er að hún skuli ekki vera í felum með holdafar sitt þá skil ég ekki alveg þessa strípihneigð hennar. Eins og í þessu viðtali þar sem hún byrjar á því að vippa sér úr bolnum þegar blaðakonan sest niður til að spjalla við hana. Hvað er það? Ef þetta væri einhver önnur fræg kona myndi svona lagað teljast fáránleg hegðun. Sjálfhverf og athyglissjúk. En hér þarf að hafa í huga að flestar aðrar frægar konur uppfylla stöngustu skilyrði fyrir nútímafegurð. Það þykir ekki fínt að flagga því um of. Það er svipað og að monta sig af því hvað maður á mikla peninga. En Beth Ditto er ekki vaxin samkvæmt neinum skilyrðum. Svo hvað er hún að gera?

Þegar ég hugsa málið betur þá sé ég samt að líkami Beth Ditto hefur mikilvæga merkingu. Það er örugglega þess vegna sem allir vilja að hún fari úr fötnum og af hverju hún er svona tilbúin til þess. Líkami hennar er tákn þess sem er bannað. Hann er ögrun við ríkjandi gildi sem segja að allt sem er eftirsóknarvert sé bundið við það að vera grannur. Dugnaður, gáfur, sjálfsagi, vinsældir, heilsa og fegurð. Staðalmyndin segir að feitt fólk hafi ekki neitt af þessu til að bera. Beth Ditto ögrar þessari hugmynd og þess vegna er líkami hennar svo mikilvægur. Kannski þarf að setja hann fram á sérlega áberandi hátt til þess að fólk fatti að þetta snýst einmitt um líkama hennar. Takið eftir honum. Pælið í honum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • … en á sama tíma felst ákveðin undirgefni í því að draga athyglina sífellt að líkamanum – með því undirstrikar hún hlutverk kvenna í kynjaðri veröld misréttis, þ.e. að hlutverk kvenna er að vera líkamar en ekki manneskjur! Persónulega finndist mér flottara að skora þá hugsun á hólm.

 • Veit ekki mikið um Beth Ditto. En af útlitinu að dæma þjáist hún af offitu. Er það eitthvað til að dást að?

 • Og miðað við það sem ég hef lesið mér til um hana síðustu mínútur virðist hún ekki vera fræg fyrir neitt annað en að vera feit. Sem er að sjálfsögðu ekkert öðruvísi en alls kyns konur sem eru ekki þekktar fyrir annað en að vera mjóar. Eða með stór brjóst. Eða eitthvað álíka.

 • Sóley Guðmundsdóttir

  Andri: Ditto er þekkt sem hæfileikarík söngkona frekar þekktrar hljómsveitar: the Gossip. Jútjúbaðu það.

 • @Sóley: Þetta er eins og að segja að Pete Doherty hafi verið þekktur fyrir að vera hæfileikaríkrar söngvari frekar þekktrar hljómsveitar: Babyshambles.

  Sú athygli sem Beth Ditto og hljómsveit hennar hefur fengið byggist að miklu leiti á því hversu mikið hún sker sig úr.

  Það myndi engin vita hver Beth Ditto er, né hvaða hjómsveit The Gossip er, ef söngkonan væri ekki feit.

  Hún hefur öðrum frekar nýtt líkama sinn í markaðssetningu hljómsveitar sinnar. Ætla ekki að gagnrýna það. En skil ekki hvernig það er frábrugðið söngkonum á borð við Lady Gaga eða einhverri álíka sem keppist við að ögra með nekt.

  @Sigrún: Skemmtilegt blogg hjá þér.

 • Já já Andri, þessar feitu kjedlíngar eiga auðvitað bara að halda sig við mussuna og skammast sín.

 • @Ína:Það er alls ekki það sem ég er að segja. Ef konur eða karlar vilja flagga holdi til að vekja athygli á sér í fjölmiðlum þá er það þeirra mál.

  Ég er bara að reyna að benda á að það er einhvers konar tvöfalt siðgæði í gangi hérna.

 • Andri, Beth Ditto á það sameiginlegt með Peter Doherty að vera tónlistarmaður sem er þó frægari fyrir annað. Hvorugt þeirra væru þekkt í dag ef þau hefðu ekki komið sér á framfæri fyrst sem tónlistarmenn. Það að þú nefnir Babyshambles í samhengi við Doherty bendir reyndar ekki til þess að þú hafi heyrt af honum fyrr en eftir að hans vandræði hófust (kannski ekki frekar en að þú hafðir heyrt af The Gossip), en hann varð frægur í Bretlandi þegar hann var í hljómsveitinni The Libertines.

 • Kristín K

  Beth Ditto er mjög hæfileikarík og flott kona (óháð þyngd!) og það er vel hægt að dást að henni fyrir að hafa brotist úr viðjum fátæktar.

  Alveg eins og mér finnst að ekki ætti að hampa þeim sem eru óeðlilega grannir og láta alla sem eru þyngri en 40 kíló finnast eins og þeir séu of feitir, er þá ekki jafn varhugavert að setja einstaklinga á stall sem þjást af offitu, eins og það sé æskilegt líkamsástand?

  Það er alveg satt að maður þarf ekki að vera 40 kíló til að vera flottur, en maður þarf heldur ekki að vera 140.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com