Miðvikudagur 12.08.2009 - 16:09 - 2 ummæli

Hinsegin dagar

Þegar ég heyrði klökka útlendinga um daginn lýsa hrifningu sinni yfir því að hér á landi væri Gay Pride fjölskylduhátíð, þá mundi ég eftir mynd sem ég hafði klippt út úr Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum síðan. Hún var af glæsilegum manni í ballkjól, skreyttur fjöðrum og glingri, og fólki á öllum aldri sem fylgdist brosandi með gleðigöngunni. Þessi mynd var fyrir mér táknmynd þess að tímarnir breytast og réttlætið sigrar að lokum. Einu sinni var það talið nokkurn veginn það sama að vera hommi og að vera barnaníðingur á Íslandi. Fólk sem var grunað um að vera samkynhneigt var úthrópað og margir neyddust til þess að flýja land. Fram til ársins 1979 var samkynhneigð skilgreind sem geðröskun og meðhöndluð sem slík. Skrifaðar voru lærðar greinar um orsakir þessa vanda og hvernig mætti vinna bug á honum. Það ætti að kenna okkur að taka því með örlitlum fyrirvara sem talið er vera „vísindaleg staðreynd“. Það eru fordómar innan læknavísindanna eins og annars staðar.

Nú er öldin önnur. Í dag er ekki litið á samkynhneigt fólk sem afbrigðilegt heldur sem eðlilegan hluta mannlífsins. Í dag fer fólk með börnin sín niður í bæ til að fagna hommum og lesbíum og tilverurétti okkar allra. Samkynhneigð er ekki heilbrigðisvandamál heldur mannréttindamál.

Ég kemst ekki hjá því að finna tengingu við það hvernig hugsað er um fitu á okkar dögum. Í dag er ekki viðurkennt að líkamar fólks eru fjölbreytilegir frá náttúrunnar hendi heldur er búið að skilgreina hið rétta holdafar („kjörþyngd“). Aðeins þeir sem eru með þyngdarstuðul á bilinu 18,5-24,9 eru „eðlilegir“, en hinir eru afbrigðilegir. Lækningin er kunnugleg og felst í því að afneita sínum náttúrulegu hvötum í von um að verða eins og „venjuleg manneskja“. Það gengur auðvitað ekki upp til lengdar því hvernig er hægt að lifa í stöðugri baráttu við sjálfan sig? Lífið verður gleðisnautt og fólk verður samanherpt af sjálfsafneitun og ófullnægju.

Eitt sinn trúði fólk því ekki að hægt væri að lifa eðlilegu lífi og vera samkynhneigður. Ef þú varst samkynhneigð þá þýddi það að þú myndir aldrei festa rætur, eignast heimili, maka eða fjölskyldu. Þú myndir aldrei finna þér samastað í lífinu heldur verða utangarðs alla tíð. Nú sjáum við að það er ekki rétt. Samkynhneigt fólk á sömu möguleika á farsælu lífi og gagnkynhneigt fólk. Vandinn var aldrei í eðli samkynhneigðar heldur í félagslegri fyrirstöðu og fordómum.

Í dag trúir fólk því ekki að feitt fólk geti verið heilbrigt og hamingjusamt. Eina vonin um gott líf er fólgin í því að verða grannur. En hversu stórt hlutverk ætli félagsleg fyrirstaða og fordómar leiki í því samhengi?

Vonandi eigum við öll eftir að upplifa hinsegin daga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Elva Björk

    Algjörlega sammála þér 😉 bíð spennt eftir Fat pride göngu 😉 Mun mæta hiklaust !

  • Flott síða hjá þér.

    Ég sjálf hef verið liðsmaður í offituflokknum undanfarin 10 ár, þar áður var ég það sem telst „eðlileg“. Ég hef orðið fyrir ótrúlegum fordómum þessi ár. Það sem ég hef þó tekið eftir er að fordómarnir eru að versna. Fólk leyfir sér ótrúlega framkomu við mann. Það að vera í offitu á Íslandi þýðir missi á mannréttindum. Það er ekki gert ráð fyrir því að þú sért eðlileg manneskja með heilabú og tilfinningar heldur gangandi fitusprengja sem getur sprungið og „smitað“ alla í kringum þig.
    Þetta er þörf síða hjá þér, takk fyrir hana.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com