Miðvikudagur 30.06.2010 - 09:01 - 2 ummæli

Ertu ólétt?

epli og peraÉg hef verið að hugsa mikið um þessa spurningu undanfarið. Kannski af því ég er sjálf nýbúin að vera ólétt og man eftir vandræðaganginum. Ég er mjög fljót að láta á sjá og því var suma í kringum mig farið að gruna að ég væri með barni áður en fréttirnar urðu opinberar. En enginn þorði auðvitað að spyrja, enda eitt það vandræðalegasta sem fólk lendir í að spyrja fullfríska konu hvort hún sé ófrísk…

Þeir sem lenda í þessu segjast aldrei hafa langað eins mikið að láta jörðina gleypa sig eins og akkúrat augnablikið eftir að hafa kastað fram þessari spurningu og fengið neitun til baka. Fólk roðnar og blánar og líður að líkindum helmingi verr en frísku manneskjunni sem var spurð að því hvort hún væri ófrísk.

Ég lenti sjálf í þessari stöðu fyrir ekki svo löngu. Að spyrja, altsvo. Ég hélt að það myndi aldrei koma fyrir mig af því ég geri það ekki að vana mínum að koma með athugasemdir um holdafar fólks. En áður en ég vissi af stóð ég á kafi í súpunni. Málið var að ég hitti konu sem ég hafði ekki séð í mörg ár. Grannvaxna konu. Ég hafði aldrei sérstaklega tekið eftir maganum á henni – en þarna allt í einu fannst mér hann eitthvað útstæður. Og af því þetta er grannvaxin kona þá þóttist ég viss um að hún væri með barn í maganum. Sem hún var ekki. Og ég óskaði þess heitt og innilega að jörðin myndi gleypa mig.

Eftir þetta atvik hef ég oft pælt í þessu. Sérstaklega þegar ég var sjálf ófrísk. Ég fór að hugsa um af hverju við höldum alltaf að konur með bumbur séu óléttar? Sumar konur eru bara náttúrulega með stóra maga, alveg eins og sumar eru með stóran rass, stór brjóst eða stór eyru frá náttúrunnar hendi.  Þær geta alveg verið grannvaxnar svona heildrænt séð en verið samt með stóran maga. Það er bara ekki hluti af þessari dæmigerðu mynd sem við höfum af kvenlíkamanum að vera með stóra maga og þess vegna reiknum við með því að ef konur eru með slíkan maga þá hljóti eitthvað að vera inni í honum. Við þurfum að átta okkur á því að konur eru allavega í laginu og bumba þarf ekki að þýða barn.

Að því sögðu þá ættum við auðvitað líka að enduskoða þessa skelfingu sem tengist því að spyrja (eða vera spurð) hvort það sé barn á leiðinni þegar svo er ekki. Af hverju er þetta svona hræðilegt? Af því við erum að gefa í skyn að manneskjan sé feit? Í rauninni ekki, því þegar manneskja er þéttvaxin yfir allan líkamann er mun síður ályktað að hún sé ófrísk. Konur sem eru álitnar óléttar eru konur sem hafa smá bumbu þar sem maður býst ekki við neinni.  (Takið til dæmis mjónurnar í Hollywood sem vekja grunsemdir um barnsburð í hvert sinn sem þær nást á mynd að lokinni máltíð).

Og fyrir utan það, hvað er svona hræðilegt við það þótt einhver gefi í skyn að maður sé feitur? Er það ekki heila málið að allir líkamar eru góðir líkamar? Við þurfum að aftengja þessi neikvæðu viðhorf og tilfinningar við fitu og hluti af því er að hætta að líta á fitu sem móðgun. Ekki myndum við fara í hnút eða móðgast þótt einhver segði að við værum hávaxin eða með þykkt hár. Kannski passar sú lýsing og kannski ekki. Við getum verið sammála eða ósammála. En við verðum ekkert reið þótt einhverjum finnist við vera með þykkt hár en okkur finnst það ekki.

Það er einmitt málið. Við ættum að stefna að því að lýsingar á líkamsvexti verði hlutlaus fyrirbrigði í stað þess að vera tilfinningahlaðin sprengjusvæði. Það að vera sagður feitur (eða með barni) ætti ekki að vekja meiri viðbrögð en að vera sagður með litla fætur. Eða stór augu eða granna fingur. Við erum kannski ekki sammála. Okkur finnst kannski að augun okkar eða fæturnir séu bara venjuleg. En við verðum ekkert reið þótt einhverjum finnist eitthvað annað.

Flokkar: Fjölbreytileiki

«
»

Ummæli (2)

  • Halldóra

    Góð pæling.

  • Tad er rétt hjá tér, tetta er tví midur rosalega vandrædalegt, ad spyrja sem sagt.

    En tad er líka vegna tess ad stadal ímyndin er ad kallar fái bumbu tegar teir fitna en konur stóran rass og læri. Tannig í raun lídur manni eins og ad madur hafi bædi kallad konuna feita OG karlmannlega. Tad er líka á einhvern hátt meira vidurkennt ad konur stærri sig af stórum rassi, séu stoltar af honum og sýni hann óspart fram í trongum buxum, en morgum tætti skrítid ef kona væri yfir sig stolt af bumbunni sinni og gerdi í tví ad vera í trongum bol til ad sýna hinn laglega voxt….Tetta er tví midur ein enn steríótýpan sem vid turfum ad slást vid, ad allar konur séu med mjótt mitti og maga, og fitni bara á rassi og mjodmum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com