Mánudagur 13.09.2010 - 11:28 - 14 ummæli

Af hverju virkar megrun ekki?

dejavu

Nú er megrunarbrjálæði haustsins að ganga í garð og líkamsræktarstöðvarnar farnar að keppast um að auglýsa aðhaldsnámskeiðin fyrir veturinn. Ljóst er að þúsundir Íslendinga munu flykkjast í einhverskonar prógram á næstunni í von um grennri, stæltari, og umfram allt, fegurri kropp. Jafn ljóst er hins vegar að fæstir munu hafa erindi sem erfiði, nema þá kannski í stutta stund.

Megrunariðnaðurinn (þ.e. þeir sem hafa lifibrauð sitt af því að fá fólk til að reyna að grennast) hefur lengi vitað að það er ekki til nein viðurkennd megrunaraðferð sem reynst hefur bæði árangursrík og hættulaus til lengri tíma. En í stað þess að viðurkenna þetta—sem væri áhættusamt fyrir iðnað sem veltir billjónum árlega—reyna þessir aðilar að telja okkur trú um að árangursleysi megrunar stafi fyrst og fremst af því að við notum rangar aðferðir og leggjum okkur ekki nógu mikið fram. Þetta er hin fullkomna skýring því hún tryggir að við höldum áfram að reyna, það er endalaust hægt að selja okkur nýjar og nýjar aðferðir og þegar þær klikka þá er það okkur sjálfum að kenna: Við vorum greinilega ekki nógu dugleg.

Þótt þessi skýring henti vel þeim sem vilja selja okkur drauminn um grannan vöxt þá er hún engu að síður röng. Ástæða þess að megrun virkar ekki liggur ekki í vitlausum aðferðum einstakra kúra eða óforbetranlegri leti almennings, heldur í viðbrögðum líkamans við fæðutakmörkun.

Þegar við borðum minna en líkaminn þarf á að halda fara af stað ósjálfráð ferli sem miða að því að hægja á efnakiptum, hámarka nýtingu næringarefna, auka matarlöngun og halda í fitu eins lengi og mögulegt er. Þetta gerist til þess að við getum lifað lengur á skertum matarskammti og höfum nógu mikinn áhuga á því að finna meira æti. Líkaminn gerir engan greinarmun á sjálfskipuðu aðhaldi og raunverulegum fæðuskorti. Það eina sem hann veit, er að þegar hart er í ári, er eins gott að bregðast við.

Meðal þess fyrsta sem líkami okkar gerir er að minnka vöðvamassa. Líkaminn er gáfaður og veit að vöðvar eru orkufrekir. Ef hægt er að minnka vöðvamassa, dugar orkan sem líkaminn hefur til umráða lengur. Þess vegna fer hann ekki beint í fitubirgðirnar til að taka út þegar við upplifum fæðuskort, heldur sparar eins og hann getur og nýtir líka orku og massa úr vöðvum, líffærum og beinum. Líkaminn gengur hægt á fituna því hún er síðasti varasjóðurinn.

Þessu má líkja við eðlileg viðbrögð fólks á krepputímum. Við förum ekki beint í varasjóðinn og höldum áfram að eyða eins og vitleysingar, heldur drögum úr kostnaði og lærum að lifa spart. Þannig duga peningarnir lengur. Nákvæmlega á sama hátt dregur líkami í fæðukreppu úr kostnaði, hagræðir og sker niður allan óþarfa. Hann eyðir minni orku en áður í athafnir, kyndingu, skipulag og viðhald. Eftir því sem fæðuskortur vex og varir lengur fer heilastarfsemi að snúast meira og meira um mat. Eitt helsta einkenni sveltisástands er einmitt þegar hugsanir, draumórar og þráhyggjukenndar bollaleggingar um mat bókstaflega flæða yfir heilabúið. Sömuleiðis breytast bragðskyn og viðbrögð líkamans við mat á þann hátt að fátt verður nú ánægjulegra en að borða. Allt miðar þetta að því að vernda okkur gegn frekara þyngdartapi og auka líkur á að vinna til baka það sem tapast.

Varnarviðbrögð líkamans fara ekki öll í gang á sama tíma, heldur bætast við stig af stigi og vaxa eftir því sem orku- og fitutap verður meira. Þau eru engu að síður óhjákvæmileg, rétt eins og svitamyndun við hita eða skjálfti við kulda. Þetta eru ósjálfráð viðbrögð líkamans sem miða að því að viðhalda innra jafnvægi og halda okkur á lífi. Þetta er ástæðan fyrir því að það er erfitt að grennast. Ekki leti, aumingjaskapur eða skortur á sjálfsstjórn. Þegar við reynum að borða minna en við þurfum til að þvinga fram þyngdartap kviknar á viðbrögðum sem hafa þann eina tilgang að vinna gegn því sem við erum að reyna að gera. Þetta eru kröftug viðbrögð sem hafa þróast í gegnum milljónir ára til þess að halda mannkyninu á lífi og hafa í gegnum aldirnar gert okkur kleift að hætta lífi okkar eða drepa fyrir mat. Það eru þessar hvatir sem við ætlum okkur að sigra þegar við förum í megrun. Það er óþarfi að taka fram að það tekst yfirleitt ekki.

Flokkar: Megrun · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (14)

 • Bransi er lykilordid.

  Takk fyrir gódan pistil.

 • Elva Björk

  Frábær pistill!!!! Ég nefni einmitt oft að mig langar aldrei eins mikið í nammi eins og þegar ég er í nammibindindi! Þegar ég er hins vegar ekki í nammibindindi spái í ósköp lítið í sælgæti… og gleymi ansi oft að fá mér eitthvað gúmmulaði, þó það sé nú alveg í boði…

  annað sem mér hefur líka fundist einkennilegt. Hið duglegasta fólk, bæði í einkalífinu og starfi er fljótt talið latt og án alls viljastyrks þegar það nær ekki af sér kílóunum…. Mér hefur alltaf fundist það hálf skrítið….

 • Flott hjá þér. Ég var einmitt að velta þessu fyrir mér um daginn því mér finnst undarlegt að menn séu ennþá að rannsaka einstaka kúra til þess að fá úr því skorið hvort þeir virki eða ekki. Pointið virðist mér vera það að það þarf ekki að rannsaka þá. Með þessum pistli þínum sýnist mér þú vera búin að debunka alla megrunarkúra framtíðarinnar. Nema þennan eina sem virkar á löngum tíma. Að temja sér almennt heilbrigðari lífsstíl til lengri tíma litið.

 • Júlía Garðarsdóttir

  Ég mæli með að fólk kynni sér þennann mann hér : http://michaelpollan.com/ og hugmyndir hans um mat og hvernig hann tekur upp vörnina fyrir mat, þ.e. alvöru mat en ekki matarlíki. Hans speki felst í 7 orðum; Eat food. Not too much. Mostly plants. Hætta að hugsa um kaloríur, prótein, kolvetni, sykur, fitu og allt það dót og endurskoða þetta endalausa matarlíki sem fólk borðar! Það er náttúrlega matarlíki sem megrunar- og líkamsræktariðnaðurinn þrífst svo vel á.

 • Heyr, heyr

 • Það er sem sagt vonlaust að losa sig við fituþ

 • Umferðarmiðstöðvarkúrinn svínvirkar!

 • Hjördís

  Mjög góðir pistill hjá þér eins og annað sem þú skrifar um þessi málefni.

 • Flottur pistill 🙂 En mig langar til að vita hvort það væri hægt að fá þig til að skrifa pistil um hvað gæti virkað. Breyting á lífstíl er hægara sagt en gert og það væri frábært ef þú hefðir einhver góð ráð 🙂

 • endilega komdu með pistil um það sem virkar til að ná af sér kg fyrir þau okkar sem geta ekki sætt sig við að vera feit í formi. Þaulsætin aukakíló skemma frammistöðu í íþróttum og krefjandi áhugamálum svo það er ekki option að sætta sig við þau.
  hvernig verður sjálfsagi t.d. til í átdeildinni – margir myndi fagna slíkum ráðum – eru þau til?

 • Elva Björk

  Mig langar að benda á að nær allar langtímarannsóknir á árangri megrunar/lífstílsbreytinga sýna að þyngdartap sé óraunhæft. Þær rannsóknir sem sýna fram á góðan árangur þyngdarstjórunaraðgerða eru oftast skammtímarannsóknir og segja því ekki alla söguna.

 • Tinna, þeir sem eru að leita sér megrunnarráða gegn þessum „þrálátu aukakílóum“ munu svo sannarleg ekki finna þau hér..(reyndar held ég prívat og persónulega að þau séu hvergi að finna..). Líkamsvirðing felur í sér að sættast við líkama sinn eins og hann er, eins og okkur er eðlislegt að vera (sumum okkar með „aukakíló“.. ef slík skyldi kalla), bera virðingu fyrir líkama okkar og fjölbreytileika hans, sem og annara.

 • @ Dagný – ég er ekki að leita að megrunarleið – og er ekkert ósátt við eigin líkama, ég bara næ ekki þeim árangri sem ég vil ná í íþróttum og á erfiðara með krefjandi fjallgöngur til dæmis vegna þess að ég er 30 kg of þung og næ þessum kg ekki af mér þrátt fyrir hollt og gott mataræði og miklar æfingar – líklega vegna ,,eðlislægrar tilhneigingar“ líkamans í að vera feitur en á ég (og þeir sem eru í sömu sporum og ég) að finna sér bara önnur áhugamál og sætta sig við fituna?
  Það er ekkert hægt að setja þetta svona fram að fólk eigi bara að sætta sig við að vera feitt og elska kroppinn sinn meira!

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Dagný.

  Það er reyndar vonlaust mál að rökræða við fólk sem vill ekki losna við offituna og krefst þess að fá að vera metið til jafns við minnihlutahópa eins og samkynhneigða, en lengi skal manninn reyna.

  Það er ekkert „eðlislægt“ við fitu. Hún er óholl – það er löngu vitað mál.
  Ég var einu sinni mörgum kílóum of þung. Ég borðaði of mikið og hreyfði mig ekki nóg. Ég fór í megrun – eða breytti um lífstíl – og hef haldið mér grannri síðan. Ég veit að það er ekkert auðvelt, en það er samt hægt. Þetta getur tengst andlegri vanlíðan og því nauðsynlegt að tala við góðan lækni sem sýnir þessum málum skilning.

  Það er ekki ætlun mín að móðga eða særa nokkra manneskju og ég er ekki að tala um að það sé óheilbrigt að vera smávegis búttaður. En séu aukakílóin orðin mörg, getur líkaminn ekki talist eðlilegur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com