Mánudagur 29.11.2010 - 22:30 - 4 ummæli

Litlu prinsessurnar okkar

Nýlega greindu fjölmiðlar frá rannsókn sem sýndi að stúlkur hafa þegar tileinkað sér ríkjandi fegurðarstaðla, um að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður og fita ógeðsleg, við þriggja ára aldur. Á þessum sama aldri fara börn að gera sér grein fyrir kynhlutverkum sínum og þeim áherslum sem þeim fylgja. Að eitthvað sé „stelpulegt“ og annað „strákalegt“. Félagsmótun inn í kassahugsun samfélagsins tekur sum sé um þrjú ár.

Snemma er byrjað á því að ala börn á öllum hinum ósögðu samfélagsreglum um hvernig við eigum að vera. Allir sem hafa horft á teiknimyndir með börnunum sínum vita t.d. hversu ráðandi ströng fegurðarviðmið nútímans eru í barnaefni. Flestar kvenpersónur eru með þetta dæmigerða útlit sem stelpur eiga að sækjast eftir: Grannur líkami, mjótt mitti, stór brjóst, langir leggir, sítt hár og þrýstnar varir. Karlpersónurnar eru hávaxnir og herðabreiðir kraftajötnar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að börnin skuli vita upp á hár strax í leikskóla hvað telst flott útlit og hvað ekki. Þau fá þetta beint í æð á fyrstu árum ævinnar.

Rannsóknir undanfarinna áratuga staðfesta að skilaboð um útlit eru vægast sagt algeng í afþreyingarefni fyrir börn.  Í rannsókn frá árinu 2000 var farið yfir útlit 120 persóna sem birst höfðu í tuttugu og þremur Disney teiknimyndum yfir sex áratuga tímabil. Niðurstöður leiddu í ljós að söguhetjur í teiknimyndunum voru gerðar meira aðlaðandi en andstæðingar – og að meiri áhersla var lögð á að gera kvensöguhetjur aðlaðandi en karlsöguhetjur. Auk þess voru söguhetjur almennt grennri en andstæðingar, einkum og sér í lagi ef um kvenpersónur var að ræða. Í annarri rannsókn voru Grimms ævintýrin innihaldsgreind og reyndust þau sem höfðu staðist tímans tönn, þ.e. haldið vinsældum fram á þennan dag, einna helst vera ævintýri sem gera út á kvenlega fegurð: Öskubuska, Mjallhvít og Þyrnirós, svo dæmi séu tekin. Ævintýri sem lögðu minna upp úr útliti kvenna höfðu frekar fallið í gleymsku.

Rifjum nú aðeins upp rannsóknina sem sýnir að þriggja ára stelpur hafa þegar tileinkað sér ríkjandi fegurðaráherslur og skoðum framhaldið.  Þegar stelpur ná unglingsaldri er yfirgnæfandi meirihluti þeirra orðinn óánægður með líkama sinn og útlit. Á þeim aldri er slæm líkamsmynd orðin sjálfsagður hluti af lífinu. Sífellt yngri stelpur spá í kaloríur og fara í megrun. Átröskunarsjúklingar eru kvenkyns í 90% tilfella. Þetta er engin tilviljun. Við getum bent ásakandi á líkamsræktar-, fegrunar- og megrunariðnaðinn þegar dætur okkar eru farnar að klípa óánægðar í magann á sér fyrir framan spegilinn og það með réttu. En við megum ekki horfa framhjá því að Barbie, Bratz og Disney prinsessurnar hafa undirbúið jarðveginn í áraraðir.

Flokkar: Átraskanir · Líkamsmynd · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (4)

 • Já, það er óþolandi hversu mikil áhersla er á útlit kvennhetja í barnaefni. Og svo eru hlutverkin þeirra ekki skárri. Oft annaðhvort ráðríka stelpan eða heimska ljóskan. Sem betur fer er búið að talsetja myndir Astrid Lindgren en þar eru sögupersónurnar margslungnari en gengur og gerist í barnaefni. Í mörgu barnaefni … og reyndar í myndefni f. fullorðna þá eru sögupersónurnar annaðhvort góðar eða vondar. … enginn millivegur eða breiskleiki hjá fólki.

 • Sammála. Og þegar maður fer að hafa augun betur opin fyrir þessu kemur í ljós að þetta er eins nær alls staðar og ekkert að breytast. Ekki má gleyma því að þessum blessuðu prinsessum fylgir svo nær alltaf fórnarlambs heilkennið, „lenda í“ einhverjum vandræðum, hafa lítið sem ekkert um eigin aðstæður að segja og þurfa hjálp stærri, sterkari og úrráðbetri stráka til að bjarga sér, geta allavega ekki reddað þessu sjálfar. Stelpur læra sem sagt að það sé eftirsóknarvert að vera sæt, mjó, ósjálfbjarga og óframfærin, þannig er góð prinsessa. Góð lexía það!

 • Gabríela

  Sæl og takk fyrir frábært blogg með þarfan boðskap!

  Þegar ég var lítil átti ég plötuspilara með fullt af barnaplötum og fannst ekkert skemmtilegra en að hlusta á þær, hækka í botn og syngja hástöfum með. Ein af uppáhalds plötunum mínum var plata með Ladda og eitt af lögunum á henni var lagið „Of feit fyrir mig“. Hér má sjá textann í þessu lagi:

  http://www.gitargrip.is/song/of-feit-fyrir-mig/

  Ég áttaði mig ekki á því fyrr en nýlega hversu fáránlegur boðskapur er í þessu lagi sem er samið fyrir börn. Auðvitað á þetta að vera grín en þarna er samt ekki verið að gera grín að fordómum heldur frekar að feitum konum, svo ég tali nú ekki um kvenfyrirlitninguna sem er í þessum texta.

 • Enn og aftur væl um steríotípur og hvað konur eru mikil fórnarlömb! Hafið þið aldrei séð hvernig hetjurnar í Disney …og nokkurn vegin öllum ævintýrum líta út. Þar fara myndarleg hreystimenni sem ekkert hræðast …hvernig haldið þið að ungum vöðvalausum og kjarklitlum strákum lítist á það.
  Ótrúlegt kvabb hérna …hver haldið þið að nenni að horfa á ævintýramynd (ævintýri er fantasy) þar sem prinsessan er bólugrafin og forljót og prinsinn er alger lúði og dauðhræddur við dreakann!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com