Fimmtudagur 03.11.2011 - 16:52 - 1 ummæli

LíkamsÁst

Óánægja með líkamsvöxt er landlæg meðal kvenna og er að aukast meðal karla. Kannanir benda til þess að allt að 80% kvenna séu óánægðar með líkama sinn og vilji vera grennri. Margvíslegir samfélagsþættir stuðla að þessari óánægju. Haldið er að okkur að feitt sé óæskilægt en grönnu fólki er hampað. Fólk sem er í megrun eða átaki mætir alla jafna jákvæðu viðhorfi og er hvatt áfram með hrósi. Það má því segja að við ölumst upp í samfélagi sem kennir okkur að feitt sé óæskilegt/ljótt og grannt sé gott. Þessi samfélagsskilyrði geta ýtt undir átröskun, slæma andlega líðan og síðast en ekki síst óánægju með líkamsvöxt.

Líkamsóánægja leiðir oft til þess að konur og menn reyna að breyta líkama sínum í átt að ríkjandi viðmiðum um fallegan líkama. Einungis 5 % kvenna eru með líkama ofurfyrisætu frá náttúrunnar hendi. Það liggur því í hlutarins eðli að hin 95 % sem  reyna að öðlast þetta ofurgranna útliti há erfiða baráttu við líkama sinn. Ein rannsókn sem ég rakst á bendir til þess að 82% kvenna hafa farið í megrun 10 sinnum eða oftar. Það þykir mér afar há tala. Í grunnnámi mínu í sálfræði lærðum við um kenninguna um náttúrulega kjörþyngd  (Set Point Theory). Sú kenning byggir á rannsóknum sem sýna að erfðir ákvarða að mestu leyti líkamsvöxt okkar og að líkaminn leitast við að halda sér í sínu eðlislæga formi. Þetta skýrir hvers vegna varanlegt þyngdartap er undantekningin í megrun en reglan að þyngdin„jó jó –ar” niður og svo aftur upp. Sama hversu mikið fólk neitar sér um mat og hreyfir sig á milljón þá mun líkaminn leitast við að koma sér aftur í upprunalega þyngd.  Ofsafengin „átök” við líkamann skila því yfirleitt ekki draumaþyngdinni. Rannsóknir sýna einnig að sveiflur í líkamsþyngd tengjast heilsufarsvandamálum, sem eru mörg hver nákvæmlega þau sömu og tengjast offitu…

Það þarf ekki að vafra lengi á svokölluðm kvennasíðum á netinu til að detta niður á gullfallegar konur sem eru í átaki, að byrja í átaki eða leiðbeina öðrum konum í átaki. Það sama á við um ýmis kvennatímarit; oftast lenda þær sem hafa misst flest kíló á forsíðunni og þemað í viðtalinu er að hamingjuna sé að finna í mjóum kroppi.

Um daginn stóð ég mig að því að skoða myndir af konum á leið í átak. Þarna stóðu þær á nærklæðunum og lýstu yfir óánægju sinni með líkamann og á hvaða hátt þær vildu breyta honum. Sama hvað ég rýndi þá sá ég ekki gallana sem þær töluðu um. Ég sá bara flottar konur sem valdar höfðu verið af dómnefnd til að fara í átak og fengu þar með staðfestingu á því að líkami þeirra væri ómögulegur. Þetta vakti með mér sorg og fannst mér þarna verið að gefa þeim og öðrum þau skilaboð að þær væru ekki fallegar eins og þær eru og að þær þyrftu breytinga við. Ég er orðin langþreytt á þessum skilaboðum til kvenna. Mig þyrstir í umfjöllun um konur sem geta verið öðrum konum fyrirmyndir hvað líkamsánægju varðar. Boðskapur Megrunarlausa dagsins hefur lengi verið sá að hvetja fólk til þess að hugsa um heilsu óháð holdarfari (Health at Every Size). Hugsunin er að fólk lifi í sátt við líkama sinn, stundi hreyfingu sér til skemmtunar og heilsueflingar (ekki fitubrennslu) og gefi líkama sínum góða og heilsusamlega næringu án allra öfga.

Það sem mig myndi langa til að sjá er meðtak. Meðtakið gæti heitið LíkamsÁst 2011. Orðið meðtak er dregið af því að meðtaka  þ.e. því að meðtaka líkama sinn eins og hann er. Líkamsást lýsir sér, eins og öll önnur ást, í því að fólk vill eða reynir að sýna hinum elskaða hlýju og umhyggju. Þátttakendur myndu þurfa að vera af öllum stærðum og gerðum því það er mikilvægt að svona meðtak gefi góðan þverskurð af samfélaginu og sýni allskonar fegurð. Þátttakendur myndu tjá sig um hvernig líkamsástin þeirra lýsir sér og hvernig þeir hafi öðlast þessa ást. Ég held að það væri hollt fyrir flestalla að taka þátt í svona meðtaki.  Verðlaunin fyrir þátttöku yrðu svo ekki efnisleg heldur andleg og felast í því að fólk upplifir meiri líkamsánægju og betri líðan. Margir munu svo líklega uppgötva að þegar þau eru laus úr viðjum líkamsóánægju þá skapast sjálfkrafa rými fyrir aðrar og vonandi meira uppbyggilegar hugsanir og frístundir.

Flokkar: Líkamsmynd

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com