Föstudagur 11.11.2011 - 09:01 - 16 ummæli

Ísland er EKKI næst feitast

Reglulega birtast fréttir í fjölmiðlum um hve Íslendingar eru orðnir feitir. Þegar farið er yfir gömul dagblöð má finna dæmi um slíka umfjöllun allt að 40 ár aftur í tímann, og það sem vekur athygli, er að viðkvæðið er alltaf það sama: Óháð því hversu feitir Íslendingar hafa verið á hverjum tíma þá hefur sífellt verið argað yfir því að þeir séu ALLTOF feitir. Af þessu má draga tvennskonar ályktanir:

1) Ekkert magn af fitu virðist ásættanlegt. Það er alveg sama hversu hátt hlutfall fólks telst vera feitt í raun og veru, það er alltaf tilefni til opinberra æðiskasta. Árið 1975 voru minna en 10% fullorðinna Íslendinga of feit en eins og myndin hér að ofan sýnir var það hlutfall samt sem áður alltof hátt.

2) Allt þetta arg og garg um hvað við erum feit hefur ekki haft nokkur einustu áhrif á þyngdarþróun Íslendinga nema hugsanlega þveröfug við það sem vonast var til. Það eina sem hefur gerst frá því að opinber þráhyggja um holdafar, mat og hreyfingu fór af stað fyrir alvöru er að fólk hefur fitnað, átvandamál hafa aukist og megrunariðnaðurinn hefur vaxið ár frá ári.

Nýlega varð allt vitlaust einu sinni enn. Sprengjunni var varpað þegar sagt var frá því í fréttatíma Stöðvar 2 að ný skýrsla á vegum velferðarráðuneytisins hefði leitt  í ljós að við værum næst feitasta þjóð Vesturlanda. Aðeins Bandaríkjamenn væru feitari en við og það var ekki að spyrja að því:  Netheimar hafa logað allar götur síðan, heilsubloggarar landsins hafa beinlínis sopið hveljur af hugaræsingi og ekki hefur verið um annað rætt á kaffistofum landsmanna síðustu vikur. Getur þetta verið??? Ó hvað þetta er hryllilegt! Svo feit, svo feit!!!

Jæja. Áður en staðreyndir málsins verða viðraðar nánar langar mig að benda á að lífsvenjur þjóðarinnar hafa stöðugt verið að færast í átt til aukins heilbrigðis og langlífis undanfarna áratugi. Samhliða þessum endalausa barlómi um hvað við erum feit hefur dregið úr reykingum, kaffidrykkja hefur vikið fyrir aukinni vatnsdrykkju, neysla grænmetis- og ávaxta hefur aukist, sömuleiðis hreyfing í frístundum svo um munar, tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, sem fyrir 40 árum var á uppleið, hefur stöðugt farið minnkandi og lífslíkur hafa aukist ár frá ári. En það skiptir auðvitað engu máli því við erum svo feit.

Við erum samt ekki (næst) feitust í heimi. Þegar skýrsla velferðarráðuneytisins er gaumgæfð sést glögglega að Ísland er enn í 6. sæti OECD ríkja hvað tíðni offitu snertir (bls. 13). Alveg eins og við vorum í fyrra. Þá varð reyndar allt brjálað yfir því að við værum í 6. sætinu…en hvað um það.  Sú niðurstaða að við séum næst feitust er (ranglega) fengin þegar þeim sem teljast of þungir (BMI 25 og yfir) og þeim sem teljast of feitir (BMI 30 og yfir) er skellt saman í einn flokk. En hér þarf að athuga tvö mikilvæg atriði:

1. Þeir sem teljast of þungir eru ekki endilega feitir heldur er algengt að þessi þyngdarflokkur innihaldi fólk sem er sterklega byggt og í góðu líkamlegu formi. Þetta á sérstaklega við um karlmenn því sá karlmaður er vandfundinn sem hefur einhvern vöðvamassa en telst samt vera í „kjörþyngd“. Tom Cruise, Brad Pitt og George Clooney eru til dæmis allir „of þungir“ samkvæmt stöðlum. Reyndar er Tom Cruise yfir offitumörkum. Þetta undirstrikar hversu lélegur mælikvarði á holdafar, hvað þá heilbrigði, blessaður BMI stuðullinn er. Það kæmi sannarlega ekki á óvart þótt sjálfur íþróttaálfurinn væri yfir kjörþyngd þrátt fyrir að hann bölsótist nú yfir öðrum sem dvelja utan þeirra marka.

2. Listinn yfir þjóðirnar sem Íslendingar voru bornir saman við og átti að sýna að við værum „næst feitust“ innihélt ekki þær þjóðir sem hafa hærri tíðni offitu en við að Bandaríkjunum frátöldum. Það er vegna þess að sumar þjóðir gefa ekki upp hlutfall fólks í „ofþyngd“ – enda eins og við sjáum hér fyrir ofan getur sá flokkur verið ansi villandi.  Á þennan lista vantar lönd eins og  Bretland, Ástralíu og Nýja Sjáland, sem öll hafa hærri offitutíðni en Ísland, og þess vegna lendum við í „öðru sæti“.

Það sem ég velti fyrir mér er af hverju hefur enginn leiðrétt þetta? Af hverju eru svona rangfærslur látnar veltast í umræðunni vikum saman án þess að neinn dragi fram staðreyndir málsins? Þetta staðfestir í það minnsta að enginn þeirra sjálfskipuðu heilsuspekinga, sem hafa æpt og gólað undanfarnar vikur yfir þeim harmafregnum að við séum næst feitasta þjóð Vesturlanda, hefur raunverulega haft fyrir því að lesa skýrsluna sjálfa.

Flokkar: Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (16)

 • Blaða- og fréttamenn virðast ekki kunna grunnaðferðafræði né tölfræði og rangtúlka niðurstöður rannsókna eða taka þær úr samhengi. Fyrir utan að þeir þýða oft beint bullfréttir frá útlöndum án þess að kanna þær nánar. Þetta selur kannski en þetta er óþolandi og siðlaust!

 • Gott innlegg í umræðuna og þörf áminning til fréttaflytjenda og álitsgjafa að kynna sér málin fyrst.
  http://malbeinid.wordpress.com/2011/10/30/frumvarp-til-laga-um-offituvanda-thjodarinnar/

 • Tara Margrét

  Alveg frábær pistill Gísli!

 • Góður pistill og þörf áminning.

 • Það er bara miklu meiri peningur í því að hrópa upp svakalegar yfirlýsingar og ekki að hugsa hvað þar stendur á baki. Nú er hægt að koma inn hjá fólki samviskubiti og megrunaruppskriftum og allra handa vitleysu sem óprúttnir einstaklingar græða á.
  Það er alltaf vafasamt að horfa á tölur án þess að skoða hvað er á bak við þær.

 • Uni Gíslason

  Takk fyrir að hafa farið í sauman á statistíkinni, Sigrún! Ég var sjálfur búinn að leita hátt og lágt að einhverju sem staðfesti að Íslendingar væru næst feitastir á vesturlöndum, skv. fréttinni sem víða er vitnað í, en gat hvergi fundið „rétta“ skýrslu.

  Þá datt mér ekki í hug að hér hefði einhver slegið saman BMI >25 og BMI >30

  Allavega, þá kann ég þér bestu þakkir fyrir að hafa leyst ráðgátuna fyrir mig.

 • Laufey Hrólfsdóttir

  Þrátt fyrir misvísandi upplýsingar fjölmiðla, þá er raunin samt sú að ofþyngd og offita fer ört vaxandi hér á landi sem er mikið áhyggjuefni. Ég tel að einstaklingar sem eru í ofþyngd og eru heilbrigðir og hreyfi sig séu ef til vill ekki aðal áhyggjumálið. Þegar aftur á móti er talað um offitu þá eru margar miklar og góðar rannsóknir sem sýna tengsl þess við fjölmarga alvarlega sjúkdóma og skert lífsgæði, og því held ég að það sé nauðsynlegt að gera ekki lítið úr þeirri staðreynd. Það sem ég hef einnig miklar áhyggjur af eru börnin, það er skylda okkar að taka á þessu máli og sópa þessu ekki undir teppið þeirra vegna. Svo ég tel að þrátt fyrir að niðurstöðurnar hér voru ef til vill ýktar þá er það alveg á hreinu að við erum ekki í góðum málum hvað þetta varðar. Fókusinn á þó ekki að vera á þyngdina eina og sér, heldur á lífstílsbreytingu og almennt heilbrigði.

 • Mig hefur lengi undrað hversvegna það birtist ekki í lægri lífaldri þjóðarinnar að alltaf höfum við verið sögð feitust og að fitna — og hversvegan styttast ekki lífslíkur okkar í raun þegar holdarfar okkar ætti að gera okkur 20-30 árum yngri við andlát en kjörþyngdarþjóðirnar — en erum í raun allra þjóða elst og eldri en allar hinar sem eru svo fitt.
  Hvernig var „kjörþyngd“ fundin út? — Hvaða rannsóknir og sannprófanir standa þar að baki?

 • Fín grein.

  Í fréttinni var verið að tala um vesturlönd. Hvað koma Ástralía og Nýja Sjáland því við?

 • Björk Varðardóttir

  það er mín einlæga von að við einmitt náum að stoppa þessa umræðu, mjög gaman að lesa þessa grein og hægt að heimfæra þetta á marga neikvæða umræðu sem er búin að vera í gangi… hérna er einmitt líka grein sem nálgast þetta sama mál á svolítið annan hátt! http://www.bleikt.is/fegurdheilsa/Lesagrein/neikvaedogjakvaedlikamsmyndhverermunurinn/#.Tr2Z1q8fPmM.facebook

 • Árni Árnason

  @Björk, hvaða umræðu viltu stöðva? Að Íslendingar séu of feitir? Það er engin spurning um það, maður þarf bara að horfa í kringum sig. Ég er búsettur í Danmörku og ég fæ alltaf sjokk þegar ég heimsæki Ísland. Flestir Íslendingar bara enga virðingu fyrir líkama sínum, því miður.

 • Jon Magnusson

  Við erum samt of feit

 • Alfreð Hauksson

  Það þarf enga BMI-mælingu, hvort sem hún er rétt eða röng, til að segja manni að ástandið sé að versna. Fólk í ofþyngd er alls staðar og sérstaklega í Stjörnutorginu og öðrum skyndibitastöðum! Þetta hlýtur að vera fíkn sem fólk ræður orðið ekkert við lengur.
  Þó ég búi á Íslandi þá verð ég alltaf jafn undrandi á holdafari fólks þegar ég fer á meðal annars fólks.

 • Hver reiknar þessa vitleysu út ? og setur allt á annan endann. Við erum bara sátt í okkar BMI stuðli..

 • „Flestir Íslendingar bera (bara) enga virðingu fyrir líkamasínum.“ Ó, Árni ert þú einhvers konar meistari í sleggjudómum eða byggir þú þetta á einhverjum vitrænum grunni?

 • Árni Árnason

  Ef aukakílóin eru farin að skipta tugum þá er líkamsvirðingin ekki mikil að mínu mati. Ég hugsa að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt hve slæm heilsufarslegu áhrifin eru af þannig lifnaðarhætti. Það er ekki hægt að segja að heilsa er á ábyrgð hvers og eins þegar skattgreiðendur þurfa að standa undir kostnaðinum að stórum hluta. Þróunin er skuggaleg, ekki bara á Íslandi, og samanburður við önnur lönd segir lítið um stöðuna. Sérstaklega slæmt þegar sumir fara að verja þetta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com