Mánudagur 14.11.2011 - 21:14 - 3 ummæli

Hinn þögli dauði

Það er ekki fyrr búið að kveða eina heimsendafréttina í kútinn en önnur sprettur upp. Fjölmiðlar á Íslandi virðast alveg staðráðnir í því að hér skuli ríkja óslitið neyðarástand yfir holdafari þjóðarinnar. Í dag birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu um að níu manns hafi dáið „úr offitu frá árinu 2002 og rætt við forstöðulækni Hjartaverndar sem spáir hér hörmungum á hörmunar ofan takist ekki að draga úr þyngd þjóðarinnar. Í þessari frétt er síðan aftur hamrað á þeirri rangfærslu að við séum næst feitasta þjóð Vesturlanda. Maður veit varla hvar á að byrja.

1. Það er ekki hægt að deyja úr offitu. Feitt fólk deyr af sömu orsökum og aðrir, þ.e. úr sjúkdómum (eins og krabbameini, kransæðastíflu o.fl.) eða af slysförum. Það væri hægt að halda því fram að 9 dauðsföll hafi mátt rekja til offitu á þessu tímabili en það vekur upp ýmsar spurningar. Hvernig er hægt að gefa sér að fitan sem slík sé sökudólgurinn? Hvað með þætti eins með mataræði? Hreyfingu? Streitu? Þyngdarsveiflur? Við vitum ekkert annað en að 9 feitar manneskjur hafi látið lífið og holdafari þeirra verið kennt um.

2. Það er ekki hægt að álykta um þróun mála út frá örfáum dauðsföllum yfir tiltölulega stuttan tíma – hver svo sem orsökin er. Við getum þess vegna ekki vitað hvort fleiri dauðsföll megi nú rekja til offitu en áður. Hvað vitum við nema „offita“ sé einfaldlega oftar sett á dánarvottorð feitra einstaklinga nú en áður?

3. Fjaðrafok yfir níu dauðsföllum yfir átta ára tímabil kemur spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að hér á landi eru 250 dauðsföll árlega rakin til reykinga. Af hverju er það ekki stöðugt á forsíðum dagblaðanna? Tæplega 200 manns hafa látið lífið í umferðinni síðan 2002.  Sjötíu manns dóu af völdum sortuæxla á sama tímabili en húðkrabbamein er eitt af því sem vel má fyrirbyggja: Ekki vera óvarinn í sól og aldrei fara í ljósabekki. Samt man ég ekki eftir neinni opinberri herferð gegn óvarlegum sólböðum. Sautján manns létust einnig í kjölfar líkamsárása á þessu tímabili. Þá létust 7 manns við að falla fram af klettum – sem auðveldlega mætti koma í veg fyrir:  Ekki fara nálægt kletti.

Þá er einnig merkilegt að yfir sama tímabil og níu dauðsföll voru tengd við offitu létust þrisvar sinnum fleiri vegna eftirstöðva berkla. Það finnst mér að hefði frekar mátt setja á forsíðu Fréttablaðsins. Ég hélt að berklum hefði verið útrýmt á Íslandi en í hittifyrra mátti rekja alls sjö dauðsföll til þeirra. Það er sami fjöldi og þeirra sem féllu fram af klettum yfir átta ára tímabil! Það þykir mér stórfrétt.

3. Það er ábyrgðarleysi, bæði af hálfu fjölmiðla og fagfólks, að halda endalausum hrakspám á lofti vegna offitu. Árið 1997 birtist þungorð skýrsla á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar sem setti bókstaflega allt á annan endann hér á landi sem annars staðar. Þar var offitu ekki aðeins lýst sem faraldri, heldur einni mestu ógn okkar tíma, og því var spáð að komandi áratugur myndi einkennast af holskeflu sjúkdóma og vanheilsu sem gæti lagt heilbrigðiskerfi Vesturlanda í rúst ef ekkert yrði að gert. Það sem gerðist í kjölfarið var í stuttu máli:  Almenningur fór á taugum, megrunariðnaðurinn blés út og fullt af fólki græddi formúgu á því að braska með þyngdarstjórnunaraðferðir sem allir ættu að vita að gera ekkert gagn. Skilaði þetta tilætluðum árangri – dró allt þetta offors úr tíðni offitu? Nei, offita hefur tvöfaldast hér á landi frá aldamótum. En hefur heilbrigðiskerfi okkar kaffærst í offitutengdum sjúkdómum? Nei. Helsta ógn heilbrigðiskerfisins var ekki feitt fólk heldur peningagráðugir skúrkar sem settu landið okkar á hausinn.

Á þeim 14 árum sem liðin eru frá því hin myrka skýrsla WHO leit dagsins ljós hefur dregið úr hjarta- og æðasjúkdómum, sem eru langalgengasta dánarorsök Íslendinga, og lífslíkur hafa aukist jafnt og þétt. Í skýrslu velferðarráðuneytisins, sem hefur verið rangtúlkuð svo vandlega í fjölmiðlum undanfarið, má einnig lesa að tíðni alvarlegra sjúkdóma sé svipuð hér á landi og á öðrum Norðurlöndum en tíðni sykursýki sé með því lægsta sem þekkist á Vesturlöndum. Það er erfitt að túlka þetta sem svo að Íslendingar séu að kaffærast í offitutengum sjúkdómum. Í dag er því engu að síður spáð á forsíðu Fréttablaðsins að næstu ár muni bera með sér „sprengingu í hjartaáföllum“ af því við erum svo feit.

Þetta fer að verða ansi þreytt tugga, að heimsendir sé alltaf á næsta leyti, og fyrst hann kom ekki í dag þá þýði það bara að hann komi á morgun.

Flokkar: Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (3)

  • Jón Skafti Gestsson

    Í alvöru? Stendurðu virkilega við lið 1? really?

  • Jón Trausti Sigurðarson

    Þarna, með þennan lið 1, hann er rosalegur. Prófaðu að skipta út ,,offita“ fyrir ,,reykingar“ t.d., eða eitthvað annað tilfallandi. Þ.e. þarna er einhver ,,topplógík“ í ferðinni.

  • Jón Skafti og Jón Traust. Af hverju ætti hún ekki að geta staðið við lið 1? Það að feit manneskja deyji þýðir ekki að það að hún sé feit sé ástæðan fyrir dauðsfallinu heldur getur það einfaldlega verið að hún hafi borðað óhollan mat í áraraðir og ekkert hreyft sig. Fitan væri þá afleiðing af vondum lífstíl. Vont mataræði og hreyfingarleysi væri þá ástæða dauðsfallsins en ekki fitan sjálf. Fitan væri bara afleiðing.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com