Laugardagur 19.11.2011 - 09:45 - Rita ummæli

Siglt undir fölsku flaggi

Góð vinkona benti mér á konu að nafni Nancy Upton. Nancy þessi ákvað að taka þátt í keppni á vegum bandaríska tískuvörurisans American Apparel en þeir stóðu fyrir auglýsingaherferð þar sem þeir ákváðu að auka úrvalið í verslunum sínum og bjóða upp á „plus-size“ föt, það er föt fyrir konur sem nota stærri flíkur en hafa verið seldar í verslunum þeirra hingað til. Í tilefni þess ákváðu American Apparel að efna til samkeppni meðal kvenna í Bandaríkjunum til þess að finna „stóra“ fyrirsætu fyrir þessa nýju fatalínu. Í tengslum við það má nefna, eins kaldhæðnislegt og það er, að konur eins og Nancy eru skilgreindar sem stórar/feitar af tískuiðnaðinum, jafnvel þótt þær séu í meðallagi ef litið er til dreifingar holdafars fólks almennt.
Fólk hefur dregið í efa að ástæðurnar að baki þessari herferð American Apparel séu góðmennska þeirra og einlægur vilji til að útrýma fitufordómum þar sem fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots og sárvantar fleiri viðskiptavini. Auk þess hermir almannarómur að stefna fyrirtækisins varðandi holdafar starfsmanna sé skýr – þar vinnur aðeins fólk sem að mati fyrirtækisins er fallegt og notar ekki föt yfir ákveðinni stærð. Ekki mikil virðing borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins á þeim bæ ef þetta er satt! American Apparel hefur auk þess löngum sætt gagnrýni fyrir umdeildar auglýsingaherferðir þar sem fyrirsæturnar eru oft barnungar og myndirnar sem birtast í auglýsingum þeirra hlaðnar augljósum kynferðislegum tilvísunum og hafa sterka tilhneigingu til að hlutgera konur. Nancy mislíkaði hvernig plus-size auglýsingaherferðin var sett fram, fannst hún niðurlægjandi og tala í niðrandi tón til þeirra sem auglýsingunni var beint að. Hún ákvað því að grípa til sinna ráða, snúa vörn í sókn og fá vinkonu sína í lið með sér. Saman unnu þær myndaþátt sem er frábær ádeila á American Apparel og þau skilaboð sem fyrirtækið og tískuiðnaðurinn almennt senda almenningi um holdafar og útlit. Almenningur kaus svo milli keppenda á netinu – skemmst er frá því að segja að Nancy sigraði. American Apparel vildu ekki viðurkenna sigur hennar og Nancy hafði áður sjálf ekki sagst vilja vinna fyrir fyrirtækið ef til þess kæmi að hún sigraði en frekari eftirmál má lesa um á síðu Nancyar. Ljósmyndir þeirra vinkvenna og skrif Nancyar tala sínu máli.

Flokkar: Fjölbreytileiki · Samfélagsbarátta · Tíska · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com