Mánudagur 21.11.2011 - 15:52 - Rita ummæli

F-orðið

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða þýðingu orðið „feitur“ hefur í okkar daglega tali. Það er augljóst að við getum ekki notað þetta orð á jafn hlutlausan hátt og orðið „hávaxinn“ eða „dökkhærður“. En hvers vegna?

Megrun getur verið mjög félagslegt fyrirbæri, sem birtist m.a. í að fólk hrósar hvert öðru í hástert ef það hefur grennst. Við könnumst flest við þetta: „Mikið líturðu vel út! Hefurðu grennst?“ Með þessum orðum erum við þó óbeint að gefa í skyn að manneskjan hafi ekki verið með eftirsóknarverðan líkamsvöxt áður en hún grenntist.  Alls staðar eru skilaboðin þau að einn líkamsvöxtur sé æskilegri en hinn og við reynum því að öðlast þennan tiltekna líkamsvöxt með öllum tilteknum ráðum. Ímyndum okkur samfélag þar sem það þætti óæskilegt að vera rauðhærður. Þá þætti niðrandi að vera kallaður rauðhærður og venjan væri að hrósa rauðhærðum alltaf ef þeir lita á sér hárið en þegja bara ef þeir gera það ekki. Ef samfélagið væri markvisst á móti því að fólk væri rauðhært myndu rauðhærðir líklega lita á sér hárið einu sinni í viku til að fá samþykki og hrós frá fólki í umhverfinu. Svona er þetta í raun og veru með feitan líkamsvöxt. Félagsleg styrking megrunar og refsing þyngdaraukningar er gríðarleg í okkar samfélagi, sem hefur í för með sér alls konar vandamál, t.d. átröskun, lítið sjálfsálit feitra (og grannra sem finnast þeir vera feitir), og að margir nota heilsuskemmandi leiðir til að grennast. Feitt fólk vildi óska þess að það væri grannt og grannt fólk berst við að verða ekki feitt. Þeim fáu sem tekst að grenna sig, sverja þess eið að fitna aldrei aftur.

Fituhræðslan birtist á mörgum stöðum, jafnvel þannig að við hættum að taka eftir því. Hver kannast ekki við spurninguna „Er ég búin að fitna?“. Þá svarar maður yfirleitt „nei, hvaða vitleysa“ eða „nei, þú ert ekkert feit!“ Þessi svör eiga að láta viðkomandi líða betur, því það þykir mjög særandi að vera kallaður feitur. Ég leyfi mér að halda þeirri sorglegu staðreynd fram að mörgum þyki verra að vera kallaður feitur heldur en heimskur, latur, hrokafullur, leiðinlegur eða þaðan af verri lýsingarorðum. Ástæðan er sú að F-orðið er mjög gildishlaðið orð. Í daglegu tali er ítrekað gefið í skyn að feitt fólk sé latt, ógeðslegt, ljótt, heimskt og jafnvel geðveikt. F-orðið hefur verið notað á niðrandi hátt og þar af leiðandi finnst okkur hræðilegt að vera kölluð feit. Við könnumst öll við það þegar einhver segir eitthvað sem mögulega mætti túlka sem athugasemd um feitan líkamsvöxt og viðbrögðin eru „ERTU AÐ SEGJA AÐ ÉG SÉ FEIT?!“. Ég  hef ekki orðið vör við sömu viðbrögð þegar einhver er ásakaður um að vera latur eða leiðinlegur, svo ég nefni dæmi. Það að vera kallaður feitur er særandi vegna þess að samfélagið hefur upphafið grannan líkamsvöxt sem þann eina rétta og allt annað er talið óæskilegt, ljótt og ógeðslegt. Ef allt væri hins vegar eðlilegt væri það ekki svona rosalega særandi að vera kallaður feitur.

Fitufordómar hafa líka ollið því að það er alltof algengt að feitt fólk sé baktalað vegna útlits síns. Fólk veltir fyrir sér hvað manneskjan borði eiginlega, hvort hún hreyfi sig ekki neitt, hvort hún borði mikið nammi, snakk og gos. Fólk spyr „ætlar hún ekkert að gera neitt í þessu?“ og „hvernig gat hún leyft þessu að gerast?“ Ég hef oft orðið vör við að fólk velti sér upp úr einkalífi feitra og verði hissa ef manneskjan á í ástarsambandi við einhvern. Mörgum finnst það jafnvel fyndið og gerir grín að því hversu ógeðslegt kynlíf þess hljóti að vera. Um daginn sá ég umræður á facebook þar sem feitt fólk var kallað spikfeitir hlunkar og sjónmengun, allt saman undir yfirskini húmorsins.

F-orðið er notað á mjög niðrandi hátt í daglegu tali. Vegna þeirra rótgrónu fitufordóma sem ríkja í okkar samfélagi erum við nánast öll hrædd við að verða feit, eins og það sé botn tilverunnar að verða stimpluð þessum ömurlega stimpli. Til þess að við getum byrjað að nota þetta orð á hlutlausan hátt þurfum við að útrýma fitufordómum sem eru slæmir fyrir okkur öll. Við þurfum að endurhugsa hvernig við tölum um líkamsfitu og kenna börnum okkar að mismunandi líkamsvöxtur er eðlilegur. Allir eiga rétt á því að líða vel í eigin skinni, sama hvort þeir séu feitir, grannir, mjúkir, stinnir, þybbnir, mjóir, stubbar eða slánar, án þess að verða fyrir fordómum og vera mismunað eftir líkamsvexti.

Flokkar: Fitufordómar · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com