Mánudagur 28.11.2011 - 14:24 - 2 ummæli

Núna!

Mörgum kann að finnast slagorðið „lifðu í núinu“ hálfgerð klisja sem það ef til vill er en þrátt fyrir það getum við sennilega flest tekið það til okkar að einhverju leyti. Mörg okkar eru í stöðugri leit að auknum lífsgæðum og sífellt á leiðinni eitthvað, að bíða eftir að eitthvað gerist, að morgundagurinn færi okkur aukna hamingju og betra líf. Ef til vill skyldi engan undra þar sem okkur er að vissu leyti innrætt þessi hugsun frá unga aldri, leikskólabörnum er sagt að bráðum verði þau „stór“ og byrji í grunnskóla, grunnskólabörnum er sagt að búa sig undir hin alræmdu unglingsár, unglingunum er sagt að búa sig undir framhaldsskólanám (hver hefur ekki heyrt að það eigi að vera skemmtilegustu árin í lífinu?) og framhaldsskólanemum stundum sagt að háskólanám sé næsta skref, að þá „verði maður eitthvað“. Að sjálfsögðu er skynsamlegt og nauðsynlegt að búa sig undir það sem koma skal og það er gott og gaman að hafa eitthvað að hlakka til. En er samt ekki möguleiki á því að með þessum hugsunarhætti sláum við lífinu og lífsánægjunni að einhverju leyti á frest?

Þessi hugsunarháttur virðist ríkjandi hjá mörgum þegar kemur að sjálfsrækt og lífshamingju. Margir stefna á að verða eitthvað annað eða öðruvísi en þeir eru nú. Það þykir eðlilegt og stundum jafnvel hálfgerð dyggð að vera ósáttur við sjálfan sig og flestir virðast geta fundið eitthvað í fari sínu sem þeir myndu vilja breyta, oft eitthvað útlitstengt. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem strangar útlitskröfur samfélagsins dynja á fólki úr öllum áttum, ekki bara frá fjölmiðlum, þó þar sé auðvitað af nógu að taka, heldur líka í samræðum manna á milli. Þessar kröfur um ákveðið útlit enduróma í okkur sjálfum. Hver kannast ekki við að hafa heyrt eitthvað á borð við þetta:

„Á morgun skal mataræðið tekið í gegn! Á morgun skal hundskast í ræktina! Á nýja árinu hefst aðhaldið og meinlætalífið!“

eða

„Ég get ekki farið í frí til sólarlanda fyrr en ég er orðin bikíníhæf!“ „Ég verð að vera tíu kílóum léttari þegar ég gifti mig!“ „Ég verð ekki sátt við sjálfa(n) mig fyrr en ég hef losað mig við fitupúkann!“ „Ég get ekki gengið í svona fötum fyrr en ég er komin(n) í form!“

Kröfur samfélagsins og fólks til sjálfs sín um ákveðið útlit eru vægast sagt ósanngjarnar. Fólk slær lífshamingju sinni á frest þar til markmiðum um ákveðið útlit hefur verið náð. Fæstir ná þessum markmiðum sem er ávísun á fátt annað en vonbrigði, depurð og sjálfsniðurrif og leiðir til þess að fæstir leyfa sér að njóta lífsins til fulls. Hversu dapurleg er sú tilhugsun? Til hvers er lífið ef ekki til að njóta þess?

Ég legg til að við hættum að eyða dýrmætum tíma okkar og orku í tilgangslausa  og óæskilega drauma (eða martraðir?) sem aldrei rætast og óraunhæf markmið sem aldrei nást, ættleidd frá útlits-, megrunar- og heilsuiðnaðinum. Hættum að hugsa um kílóin, fatastærðirnar og allt það sem engu máli skiptir. Leyfum okkur að þykja vænt um okkur nákvæmlega eins og við erum núna, ekki eins og við viljum vera á morgun, eftir mánuð eða einhver ár. Verum þakklát fyrir lífið og líkamann sem okkur var gefinn og nýtum hverja stund til fullnustu. Munum að njóta líðandi stundar í sátt við okkur sjálf, ekki seinna en núna!

Flokkar: Líkamsvirðing

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com