Mánudagur 05.12.2011 - 21:55 - 3 ummæli

Hin hamingjusama brúður?

Áhugi fólks á brúðkaupum endurspeglast vel í hinu gríðarlega áhorfi á og umfjöllun um hið breska konunglega brúðkaup þann 29. apríl síðastliðinn. Fjölmiðlar bjuggu til fréttir úr öllum minnstu smáatriðum um brúðkaupið. Fólk tók andköf þegar það sá Kötu í kjólnum, þegar Vilhjálmur leit á Kötu í fyrsta sinn og þegar þau kysstust tvisvar fyrir framan alla. Það sem var þó einna mest áberandi í umfjölluninni var vaxtarlag Kötu. Við heyrðum fréttir af því að hún hefði þurft að láta minnka giftingarhringinn svo hann passaði á hana á stóra daginn. Á sama tíma og fjallað var um grannan líkamsvöxt Kötu var fjallað um hversu falleg og fullkomin hún var í kjólnum, nánast þannig að litið var á hana sem einhvers konar yfirnáttúrulegan engil sem flaut um í fallegasta kjól veraldar. Dýrkun á grönnu brúðinni fór ekki á milli mála og þetta er ekki eina tilfellið.

Opinber umræða um megrun fyrir brúðkaup verður meira áberandi með hverju árinu. Við sjáum raunveruleikaþætti eins og „FIT TO BE WED – America’s Boot Camp for Brides“  og „Shedding for the Wedding“. Einnig hafa verið gefnar út sérstakar megrunarbækur fyrir brúðir, t.d. „The Perfect Bride – The Complete Beauty, Diet and Exercise Countdown“ og „The Wedding Dress Diet“. Auðvitað er þessi boðskapur sérstaklega ætlaður brúðinni, en ekki brúðgumanum.

Rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2008 á konum sem voru á leið í hjónaband, sýndi að yfir 70% þátttakenda reyndu að létta sig og 21% vildu koma í veg fyrir þyngdaraukningu fyrir brúðkaupið. Aðeins 9% hafði ekki í hyggju að reyna að stjórna þyngd sinni fyrir brúðkaupið. Um 46% þeirra sem vildu létta sig og 19% þeirra sem vildu koma í veg fyrir þyngdaraukningu notuðu eina eða fleiri öfgakenndar aðferðir til að grennast, t.d. að sleppa máltíðum, taka megrunarpillur, fasta í einn eða fleiri daga, byrja að reykja eða taka laxerolíu. Fjórtán prósent þátttakenda keyptu brúðarkjólinn sinn viljandi í of lítilli stærð til að geta grennt sig í kjólinn.

Það fer óþægilegur hrollur um mig þegar ég hugsa til þess að yfir 90% kvennanna hafi haft áhyggjur af þyngd sinni fyrir brúðkaupið sitt. Þessar niðurstöður eru ekki aðeins áhyggjuefni útaf fyrir sig, heldur hefur önnur rannsókn sýnt að um 3% kvenna sem fara í megrun enda með átröskun. Hversu margar konur ætli hafi þróað með sér átröskun í kjölfar megrunar fyrir brúðkaup?

Megrunarumfjöllun í tengslum við brúðkaup virðist vera að skila sér, því konur í samfélaginu eru farnar að taka skilaboðin til sín. Upphafning hinnar grönnu brúðar er meira áberandi og áhersla á fegurð brúðarinnar hefur aldrei verið meiri. Fjölmiðlar veltu sér stanslaust upp úr fatastærð Kötu prinsessu, eins og við ættum allar að vilja stefna að sama marki og hún. Umfjöllun um þyngd og fatastærðir stjarnanna, sérstaklega þeirra sem eru dýrkaðar jafn mikið og Kata, getur verið neistinn sem þarf til að konur þrói með sér átröskun. Konur geta farið að hugsa „Ef hún getur það, þá get ég það“ og „Ég verð að vera jafn mjó og hún, annars er ég ekki falleg“.

Um leið og áherslan á grannan líkamsvöxt er alls ráðandi í okkar samfélagi er þrýstingurinn mikill á konur að vera fallegar á brúðkaupsdaginn. Allt í einu er grannur líkamsvöxtur orðinn aðalmarkmið kvenna fyrir brúðkaupsdaginn. Maður hefði haldið að undirbúningur fyrir hjónaband væri mikilvægari. Tilvonandi brúðhjón ættu að einbeita sér að gildum til að láta hjónabandið endast og undirbúa sig andlega undir þessa fallegu athöfn. Það sem ætti að vera mikilvægasta markmiðið við brúðkaupsundirbúning er að láta daginn vera sem eftirminnilegastan, í stað þess að rembast við að grenna sig og hætta á að vera orðin örmagna af næringarskorti og þreytu á daginn sjálfan. Þó að það sé gaman að klæða sig upp í sitt fínasta púss á þessum hátíðardegi, þýðir það ekki að þessi dagur eigi að snúast um útlitið eingöngu, og þá sérstaklega ekki um magn líkamsfitu!

Flokkar: Megrun · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (3)

 • Fyrir utan það að maður er að giftast unnustu sinni afþví að hann elskar hana eins og hún er, og ætlast ekki til að hún breyti sér fyrir brúðkaupið sjálft! Hef allavega aldrei heyrt einhvern brúðguma biðja brúður sína vinsamlegast um að léttast svo hún líti „betur“ út í brúðkaupinu.

 • Hvaða mjónudýrkun er þetta eiginlega?

  Engum karlmanni finnst horgrindur fallegar.

  Brúðirnar eru því allavega ekki að grenna sig fyrir unnusta sína.

  Fyrir hvern þá?

  Hinar mjónurnar?

  Til lukku með það.

  Eða hitt þó.

 • Ekki gleyma lýtaaðgerðum fyrir brúðkaupið eins og þetta: http://en.wikipedia.org/wiki/Bridalplasty
  Ég vorkenni unnustum kvennanna sem fóru í þennan þátt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com