Miðvikudagur 01.02.2012 - 22:31 - 2 ummæli

Ræktin

Ég fékk e-mail um daginn frá líkamsræktarstöðinni minni hérna úti í Kaupmannahöfn. Í því var einhvers konar fréttabréf þar sem meðal annars var varað við því að drekka of mikið af ávaxtasafa, því í honum leyndust svo ægilega margar hitaeiningar. Ég hafði svo sem heyrt þetta áður og velti fyrir mér hvers konar hlutverk þessi líkamsræktarstöð hefur tekið að sér. Hvers vegna fannst þeim nauðsynlegt að senda kúnnum sínum þessar upplýsingar? Eiga þær erindi við alla þá sem stunda líkamsrækt? Ég er ein af þeim sem stunda líkamsrækt mér til heilsubótar og ánægju og hef því ekkert að gera við þessar upplýsingar, en engu að síður fannst mér þessi varúðarorð um ávaxtasafa hafa áhrif á mig. Ég er auðvitað ekkert að þamba tvo lítra af ávaxtasafa á dag en mér finnst samt glatað að nú sé líkamsræktarstöðin mín hálfpartinn búin að banna mér að fá mér ávaxtasafa ef mig langar í hann.

Það er erfitt að finna þá líkamsræktarstöð sem ekki leggur höfuðáherslu á þyngdartap í auglýsingum sínum. Alls staðar er lögð áhersla á brennslu og hitaeiningar. Það er eins og maður komist ekki hjá því að þessum skilaboðum sé troðið ofan í kokið á manni hvert sem maður fer. Þetta á ekki einungis við um þá sem standa á bak við auglýsingar líkamsræktarstöðva, heldur einnig þá sem standa manni næst. Ef ég er dugleg að fara í ræktina fæ ég athugasemdir eins og „á nú að fara að hrista af sér spikið?“ eða „á að koma sér í kjólinn fyrir jólin?“. Nei, ég fer í ræktina vegna þess að mér líður vel af því en ekki vegna þess að ég vil þröngva líkama mínum í eitthvað ákveðið form.

Fólkið sem birtist í auglýsingum líkamsræktarstöðva er yfirleitt rosalega brúnt og skorið og endurspeglar ímynd þess að vera „í formi“. En hvað er að vera „í formi“? Er það að vera búinn að massa sig upp og skera sig niður, og þar með að passa í eitthvað ákveðið form sem samfélagið hefur ákveðið að er fallegast? Eða er það að geta hlaupið hratt og lengi, lyft mörgu og þungu og gert ýmsar kúnstir? Sumir telja að þetta tvennt fari saman en ég komst hins vegar að því þegar ég var í menntaskóla, mér til mikillar furðu, að þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Á menntaskólaárunum var ég nefnilega ein af þeim sem mætti í spinning tíma til þess að brenna allt að 900 hitaeiningum (það var það sem líkamsræktarstöðin lofaði), og fylgdist grannt með hitaeiningateljaranum á hlaupabrettinu þegar ég hljóp á því. Ég reyndi að gera jafn margar magaæfingar og Britney Spears (1000 magaæfingar á dag, takk fyrir), enda engin kona með jafn frægt six pack og hún á þeim tíma. Þess vegna kom það mér sífellt á óvart að í leikfimitímum í skólanum gat ég nákvæmlega ekki neitt. Ég var alltaf síðust að hlaupa hringinn í kringum tjörnina á meðan þybbnar skólasystur þutu fram hjá mér á ljóshraða. Hvernig gat það verið að þybbnar stelpur gætu hlaupið svona hratt? Gat það verið að magn líkamsfitu hefði lítið sem ekkert að gera með líkamlegt þol og úthald?

Því skil ég ekki hvers vegna líkamsrækt er ekki bara einmitt það; LÍKAMS-RÆKT?  Hefur fólk leyfi til þess að mæta í líkamsræktarstöð án þess að vera í einhvers konar niðurskurðarpælingum? Hérna myndu margir svara „já“ en einungis með granna manneskju í huga. Hvað með feitt fólk? Má það hreyfa sig ánægjunnar og heilsunnar vegna? Má það mæta í ræktina með það markmið eingöngu að viðhalda úthaldi, þreki, styrk og vellíðan? Ég vil sjá líkamsræktarstöðvar beina fólki í þá átt að efla líkama sinn í stað þess að vera stanslaust að þrýsta á fólk að vera í megrun, aðhaldi, átaki, mótun eða hvað fólk vill kalla það. Burt með hitaeiningar og fituprósentur og inn með styrk, úthald, vellíðan, skemmtun og alvöru líkamsrækt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Takk – orð í tíma töluð.

  • Gisli Foster

    Skemmtilegur pistill og góður – ég mæti í ræktina til að taka aðeins á því, láta mér líða vel og ég veit að mér líður betur á eftir – bæði á sál og líkama.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com