Laugardagur 04.02.2012 - 15:32 - 1 ummæli

Stöndum saman!

Í ársbyrjun ýtti Íslandsvinurinn Marilyn Wann út vör mótmælaherferð gegn afar umdeildum auglýsingum á vegum Barnaheilsugæslunnar í Atlanta í Georgíufylki í Bandaríkjunum þar sem dregið er fram hversu ömurlegt hlutskipti það sé að vera feitt barn og gefið í skyn að það sé foreldrum þeirra að kenna. Einnig má lesa úr auglýsingunum að holdafar barnanna beinlínis kalli á stríðni og útskúfun. Þetta er algengt stef í umræðu um offitu barna en sem betur fer eru sífellt fleiri farnir að átta sig á því hversu skaðleg og niðrandi slík skilaboð eru.

Hugmyndin er því að hvetja fólk til að taka afstöðu gegn herferðum af þessu tagi og vekja athygli á því að heilbrigði og hamingja eru ekki bundnar við tiltekið holdafar. Feit börn – rétt eins og öll önnur börn – þurfa á ást, umhyggju og samþykki annarra að halda. Reyndar þurfa þau þetta enn frekar þar sem spjót umhverfisins standa gegn þeim. Að draga þau í dilka, varpa neikvæðu ljósi á líf þeirra og gera líkama þeirra að ömurlegu vandamáli sem er þessum eða hinum að kenna þjónar klárlega ekki þeim tilgangi.

Allir geta tekið þátt í andspyrnuherferðinni með því að senda inn myndir af sér ásamt staðhæfingum um það sem þeir vilja standa fyrir – eða gegn – í tengslum við líkamsvirðingu og stríðið gegn offitu. Afraksturinn einstaklega fjölbreyttur og hrífandi og gefur okkur von um betri heim þar sem allir eru velkomnir.

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com