Miðvikudagur 08.02.2012 - 12:22 - Rita ummæli

Karlmenn og hinn “fullkomni líkami”

Oft finnst mér karlmenn gleymast aðeins í umræðunni um líkamsvirðingu og líkamsvöxt. Það eru ýmist teikn á lofti um að ungir karlmenn í dag séu undir meiri samfélagsþrýstingi en karlmenn af eldri kynslóðum. Samantekt á rannsóknum sýnir að á árum áður þá voru menn ánægðari með líkama sinn  en í dag er öldin önnur og þegar karlmenn eru beðnir að velja drauma líkamann þá velja þeir yfirleitt líkama sem er mun vöðvastæltari en þeirra eigin líkami. Þegar menn velja draumalíkamann þá nota þeir í miklum meirihluta vaxtarlag sem birtist á öldum ljósvakans sem viðmið. Þeir líkamar sem þar birtast virðast með mjög lága fituprósentu, vöðvarnir eru útblásnir og líkaminn er V laga, þ.e. breiðar axlir og mjótt mitti.

Samantekt á rannsóknum sýnir einnig að karlmenn sem horfa á myndir af vöðvastæltum, myndvinnsluunnum mönnum upplifa óánægju með líkamsvöxt sinn í kjölfarið og benda rannsóknir til þess að ítrekað áhorf sé einn af þremur mikilvægum þáttum sem ýta undir varanlega óánægju með líkamsvöxt. Hinir þættirnir eru félagsþrýstingur og áhrif fjölskyldu. Varanleg óánægja með líkamsvöxt gerir karlmenn líklegri til að taka vaxtaraukandi hormón (stera) en slík neysla er mikið áhyggjuefni þar sem hún getur aukið árásargirni. Þá gerir óánægja með líkamsvöxt karlmenn viðkvæma fyrir því að þróa með sér líkamsímyndarraskanir af ýmsu tagi. Vöðvafíkn er líkamsímyndarröskun sem er að aukast meðal karlmanna en einkenni hennar birtast meðal annars sem óánægja með líkamann á þann hátt að vöðvarnir eru aldrei nógu stórir, ofuráhersla á mataræði og bætiefni í mataræði, öfgakennd líkamsrækt, skapsveiflur o.m.fl.. Margir unglingsstrákar horfa gangrýnislaust á myndir af ofurvöðvastæltum mönnum. Það út af fyrir sig er hættulegt því að gagnrýnin hugsun getur skipt sköpum og komið í veg fyrir að fólk samþykki sjálfkrafa að svona “eigi það að vera.”

Það eru til fullt af myndböndum sem sýna hvernig myndvinnsluforrit búa til hina “fullkomnu konu” (sjá t.d hér) og margt fólk  er því meðvitað um að útlit kvenfyrirsæta er tálsýn ein. Hingað til hefur þó verið minni áhersla á umfjöllun um hversu óeðlilegir líkamar karlfyrirsæta oft eru. Ég varð því einkar glöð þegar ég sá að sambærilegt myndband hefur verið gert fyrir karlmenn. Það sem gerir það síðan enn betra er að það er unnið af óháðum aðila, en ekki snyrtivörufyrirtæki. Þetta myndband sem ég vil sýna ykkur er mjög áhugavert fyrir margar sakir, aðallega vegna þess að þarna stígur karlmaður fram og talar til kynbræðra sinna en einnig vegna þess að þarna eru sýndar svart á hvítu blekkingarnar sem búa að baki hinum “fullkomna líkama.”

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com