Mánudagur 16.12.2013 - 22:34 - 1 ummæli

Megrunarhátíð

excercise

Núna styttist í  megrunar“hátíðina“. Megrunar“hátíð“ kalla ég veisluna og fjörið á líkamsræktarstöðvum landsins í janúar og nokkra daga í febrúar. Mikill þrýstingur er á fólk að taka af sér hin svokölluðu jólaaukakíló og flykkjast margir í ræktina með það að markmiði. Flestar líkamsræktarstöðvar auglýsa „átaks“námskeið sem eiga að hjálpa fólki að styrkjast og grennast. Árangurssögur eru birtar með fyrir og eftir myndum þar sem fólk hefur misst fjölda kílóa á stuttum tíma.

Það er þó orðið ljóst að megrunariðnaðurinn vill lengja „hátíðina“ og berast okkur auglýsingar um námskeið til að ná af okkur kílóum FYRIR jól samanber; Í kjólinn fyrir jólin eða Jólakíló – Nei takk sem er nýjasta útspil líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar. Á heimasíðu Hreyfingar kemur fram að námskeiðið Jólakíló – Nei takk sé fjögurra vikna námskeið þar sem unnið er að því að fyrirbyggja hin árlegu „jólakíló“. Markmiðið er að komast í gott form fyrir jólin til að geta notið þess að borða góðan mat án þess að sitja uppi með aukakíló og vanlíða

Námskeiðið er auglýst sem sérstakt kvenna-námskeið og kemur fram í námskeiðslýsingu að það sé sértaklega fyrir ÞÆR sem vilja fyrirbyggja hin árlegu jólakíló. Þessi auglýsing Hreyfingar er gott dæmi um þann mikla þrýsting sem fólk og þá sérstaklega konur finna fyrir um að líta út á ákveðinn hátt.

Til að sýnast enn áreiðanlegri auglýsa sum fyrirtæki „langtímaárangur“. Þá eru oft fyrir og eftir myndir birtar og sögur um fólk sem viðhélt þyngdartapinu í marga mánuði, jafnvel ár.

En hvað köllum við langtímaárangur? Er það góður árangur að léttast um einhver kíló, taka við hrósum og hamingjuóskum en þegar frá líður fer hrósum ört fækkandi og jafnvel vandræðaleg þögn fylgir í kjölfarið þar sem kílóin hafa læðst aftur á okkur hvert á fætur öðru, flestum til ómældrar gremju? Er það góður árangur að festast í jójói megrunar, léttast og þyngjast á víxl, strengja sama megrunaráramótaheitið ár eftir ár?

Ég man ekki til þess að hafa séð einustu auglýsingu með fyrir og eftir myndum þar sem árangurinn hélst í mörg ár. Hvað þá myndir af hópi fólks sem viðhélt þyngdartapi sínu til margra ára. Raunveruleikinn er nefnilega sá að flestir bæta á sig kílóum eftir þyngdartap og verða jafnvel þyngri en fyrir megrunina þegar árin líða. Fjöldi rannsókna sýna einnig að við getum hreinlega ekki stjórnað þyngd okkar eins mikið og við höldum, þar sem líffræðilegir þættir hafa mun meira um þyngd okkar að segja en megrunariðnaðurinn vill viðurkenna.

Til er fjöldi rannsókna um megrun sem sýna að langtímaárangur er lítill. Einnig eru til rannsóknir sem sýna að það að hugsa vel um líkama sinn og hreyfa sig reglulega hefur jákvæð áhrif á okkur andlega og líkamlega. Þau jákvæðu áhrif sem þyngdartap á að hafa geta að miklu leyti náðst með því að hugsa vel um sig og hreyfa sig óháð líkamsþyngd. Til hvers þá að strengja aftur og aftur það áramótaheit að grennast, vitandi að það hefur ekki tekist hjá mörgum hingað til?

Ef markmiðið er að bæta líkamlega og andlega heilsu en ekki að brjóta sig niður fyrir misheppnaða megrunartilraun, af hverju ekki þá setja sér annars konar markmið? Til dæmis að lifa heilbrigðu lífi, hreyfa sig ánægjunnar vegna og njóta alls þess góða sem lífið hefur að bjóða?  Það er eitthvað sem við höfum mun meiri stjórn á en líkamsþyngd okkar.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Megrun · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com