Fimmtudagur 06.02.2014 - 08:35 - Rita ummæli

Það besta í lífinu

diet

Þessi tími ársins er aftur runninn upp. Það er fljótt að koma í ljós hvað nýja árið þýðir hjá stórum hluta þjóðarinnar. Vonin um grennri, fegurri og þóknanlegri líkama hefur aftur náð völdum, allir búnir að gleyma síðasta áhlaupi og hvernig það skilaði nákvæmlega engu, nema brostnum vonum, ofátsköstum, uppgjöf, skömm og endurnýjaðri andúð á eigin líkama. En nú skal tekið á því fyrir alvöru. Nú mun það takast.

Það er magnað að sjá hvernig samtakamáttur þjóðarinnar birtist á þessum árstíma. Allir leggjast á eitt við að tryggja að hvergi verði rof í samhljóma kyrjun megrunaráróðursins. Meira að segja þeir sem hafa engan sérstakan hag af því að halda þessum áherslum á lofti. Á Borgarbókasafninu er til dæmis búið að stilla upp megrunarbókum tilefni janúarmánaðar: Manhattan kúrinn, Sjö daga safakúrinn og Franskar konur fitna ekki í bland við detox og LKL uppskriftir. Bókasafnið hefur nákvæmlega engan hag af því að fólk lesi megrunarbækur. En sökum einskærrar meðvirkni við megrunarmenninguna ákveður starfsfólkið―opinberir starfsmenn á fræðslu- og menningarstofnun―að hafa frumkvæði að því að ginna fólk í enn einn kúrinn.

Þetta er ástæðan fyrir því að talað er um megrunarmenningu. Af því hún er allsstaðar og fáir setja spurningamerki við hana nema hafa tekið viðhorf sín til gagngerrar endurskoðunar. En við ættum öll að staldra við. Við ættum að taka meðvitaða ákvörðun um eitthvað sem gegnsýrir svona allt okkar umhverfi frekar en að láta berast ósjálfrátt með straumnum. Þannig að skoðum málið.

Megrunarmenningin birtist okkur björt og hressileg með loforðum um allt það besta í lífinu: Heilsu, hamingju og fegurð. Þar sem hún er búin að telja okkur trú um að við séum bæði ljót og óheilbrigð í samanburði við hina frelsuðu þá langar okkur ofsalega til að trúa þessu. En efndirnar eru engar. Áratug eftir áratug koma fram nýjar og nýjar (það er að segja, gamlar og endurunnar) megrunaráherslur sem hvorki hafa skilað okkur grennri vexti né sálarró nema síður sé. Megrunaráherslur á Vesturlöndum hafa haldist fullkomnlega í hendur við vaxandi þyngd almennings síðustu áratugi. Í besta falli hefur allt þetta brölt engu breytt og í versta falli hefur það átt sinn þátt þeirri þyngdarþróun sem orðið hefur. Það er alls ekki svo fráleitt. Fæðuskortur (hvort sem hann stafar af raunverulegum matarskorti eða viljandi aðhaldi) ýtir undir matarlöngun og tilhneigingu til fitusöfnunar. Á endanum bresta varnirnar og þá er búið að koma líkamanum í það ástand að hann getur varla hætt að borða þegar hann er byrjaður og mokar öllu beint í fitugeymslurnar.

Megrunarmenningin hefur alið af sér slæma líkamsmynd, átraskanir og fordóma á grundvelli líkamsvaxtar. Meirihluti kvenna lifir alla ævi í líkama sem þær eru ósáttar við og átraskanir, sem eitt sinn voru fáheyrðar og sjaldgæfar geðraskanir, eru nú meðal algengustu geðraskana sem hrjá ungar konur. Einn af hverjum tíu nemum í framhaldsskóla hefur einkenni sem benda til átröskunar. Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta er bara ástand sem við höfum skapað.

Samanburður við aðra menningarheima sýnir að þessi vandi kemur nánast eingöngu fram í samfélögum sem hafa tileinkað sér vestrænar áherslur varðandi megrun og líkamsvöxt. Í rannsókn hollenskra vísindamanna á karabísku eyjunni Curaçao fundust til dæmis engin tilfelli átraskana meðal innfæddra. Tíðnin meðal hvíta minnihlutans var hins vegar svipuð þeirri sem þekkist á Vesturlöndum. Þegar dæminu var snúið við og átröskunartíðni könnuð meðal karabískra innflytjenda í Hollandi var engan mun að finna milli þeirra og annarra Hollendinga. Af þessum sökum eru átraskanir stundum kallaðar menningarbundnar geðraskanir. Þær fylgja vestrænni nútímamenningu.

Megrunarmenningin birtist okkur ekki bara á bókasafninu eða í áherslum fjölmiðla. Hún kemur fram spjalli á kaffistofunni. Hún endurómar í hugsunum okkar og viðhorfum. Við tökum öll þátt í að skapa hana og við þurfum öll að taka höndum saman ef við ætlum að breyta þessu. Það að samþykkja megrunarmenninguna sem sakleysislegt eða jafnvel gagnlegt fyrirbæri þýðir að leggja blessun sína yfir þann skaða sem hún veldur. Það er ekki hægt að vinna gegn neikvæðri líkamsmynd, átröskunum og fitufordómum öðruvísi en að hafna megrunarmenningunni. Þetta helst í hendur.

Það að hafna megrunarmenningunni þýðir ekki að hafna heilbrigði―heldur að endurheimta það. Það er búið að stela þessu hugtaki frá okkur og markaðssetja það. Heilbrigði felst ekki í tilteknu útliti eða öfgafullum, kostnaðarsömum og plássfrekum lífsvenjum. Ein mesta blekking megrunariðnaðarins felst í því að telja okkur trú um þetta. Flest af því sem skapar heilbrigt líf kostar ekki neitt: Ást og vinátta, samverustundir með fjölskyldu, hvíld, hugarró, göngutúrar, góður nætursvefn, tóbaksleysi, minna áfengi, minna gos og minni skjátími.

Það besta í lífinu er ókeypis. Þess vegna getur þú verið viss um að þú finnur það ekki í því sem verið er að reyna að selja þér.

Flokkar: Átraskanir · Megrun · Þyngdarstjórnun

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com