Miðvikudagur 26.9.2012 - 08:17 - 1 ummæli

Svona eiga sýslumenn að vera

Þótt ég sé eldheitur aðdáandi Jóhönnu Sigurðardóttur í pólitík og viti að margt hefur breyst undir hennar forustu síðustu ár er ég ekki öðrum Íslendingum trúaðri á skilvirkni og vinnuhraða í Stjórnarráði Íslands.

Þessvegna kom það mér ánægjulega á óvart þegar forsætisráðherra svaraði fyrirspurn frá mér á þinginu um mótun málstefnu í stjórnarráðinu.

Alþingi samþykkti sérstakan viðbótarkafla um málstefnu í stjórnarráðslögin í fyrra, þar sem segir að öll gögn skuli þar vera til á íslensku nema í undantekningartilvikum, og réttur tungunnar virtur, en líka tryggður réttur þeirra sem Stjórnarráðið þjónar og eru ekki vel mæltir á íslensku, landsmanna af erlendum uppruna og útlendinga. Ennfremur um rétt Íslendinga sem nota táknmál og punktaletur. Greininni lýkur með þeirri áminningu úr lögunum um íslenska tungu og táknmál að mál það sem er notað í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess skuli vera „vandað, einfalt og skýrt“.

Þessi málstefnugrein kom inn í þáverandi allsherjarnefnd þar sem ég starfaði þetta haust, og tillagan um hana fékk eindreginn stuðning í nefndinni og þinginu þvert á flokka. Það var reyndar helst að tortryggni gætti einmitt hjá embættismönnunum í Stjórnarráðinu … og þessvegna vildi ég vita hvort eitthvað hefði gerst.

Svar Jóhönnu var „vandað, einfalt og skýrt“ – mállega og efnislega. Vinna að málstefnu er í gangi í samráði við Íslenska málnefnd og Málnefnd um íslenskt táknmál. Í ágúst fékk forsætisráðuneytið drög að þessari stefnu með margvíslegum tillögum í samræmi við lagatextann:

* Tryggja rétt fólks til að kynna sér á íslensku það efni sem frá íslenskum stjórnvöldum kemur og öll helstu gögn sem varða meiri háttar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda.

* Sérstaklega þarf að huga að því að tryggja þennan rétt fyrir þá sem nota íslenskt táknmál.

* Íslenska sé mál Stjórnarráðsins og öll vinnugögn séu á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.

* Skipuleggja málfarsráðgjöf innan Stjórnarráðsins.

* Vefur Stjórnarráðsins sé aðgengilegur fötluðu fólki og standist alþjóðlegar viðmiðunarreglur.

* Allt útgefið efni á vegum Stjórnarráðsin s, svo sem skýrslur, greinar og fréttir, sé á íslensku.

* Starfsmenn Stjórnarráðsins hafi greiðan aðgang að öllum helstu handbókum um íslenskt mál og sé gefinn kostur á hagnýtum námskeiðum um málnotkun og stafsetningu.

* Tryggja réttindi manna af erlendum uppruna í samskiptum við Stjórnarráð Íslands með því að bjóða þeim túlkaþjónustu eftir föngum.

Nú eru verið að athuga þessi drög hjá hverju ráðuneyti, sagði forsætisráðherra, og þar er meðal annars metinn kostnaður – sem ekki getur verið verulegur þótt hugsanlega þurfi að láta út eitthvert stofnfé. Kostnaður við þetta á reyndar að skila sér fljótt aftur í aukinni skilvirkni og betri þjónustu.

„Stefnt er að því að ljúka við gerð málstefnunnar nú á næstunni,“ sagði Jóhanna svo, „og ég sé fyrir mér að hrinda megi mörgum af þeim atriðum sem fram koma í drögunum fljótt í framkvæmd.“

Svona eiga sýslumenn einmitt að vera. Og þá er að vita hvernig gengur í sveitarfélögunum að vinna þetta sama verk í samræmi við svipaða grein í nýlegum lögum um sveitarstjórnarmál. Fyrirspurn til Ögmundar bíður svars.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.9.2012 - 08:47 - 4 ummæli

Höfuðborgarsamning!

Það þarf að gera höfuðborgarsamning, milli Reykjavíkur og ríkisins. Þar eiga að koma fram þær sérstöku skuldbindingar sem borgin hlýtur að standa við sem höfuðborg lýðveldisins en á móti verður að vera tryggt að forystumenn í ríkisstjórn og á alþingi taki tillit til þeirrar ábyrgðar sem á höfuðborginni hvílir – og hætti að líta á Reykjavík sem óvin einsog stundum ber við hjá héraðshöfðingjum á landsbyggðinni. Samning milli landsmanna og Reykvíkinga um vegsemd þess og vanda að vera höfuðstaður Íslendinga.

Þetta er kjarni tillögu sem við flytjum nú á alþingi þriðja sinni, fimm þingmenn Reykvíkinga. Kannski er það stærð höfuðborgarinnar sem veldur sífelldri tortryggni í garð Reykjavíkur um allt land. Hagsmunaátök milli strjálbýlis og þéttbýlis þekkjast svo sannarlega víðar en hér, og um alla heimsbyggðina er mjög til vinsælda fallið að deila á „þá fyrir sunnan“. Hvergi hafa þesskonar átök samt smitað út í stjórnmálin jafnillilega: Alla 20. öldina var það einn af rauðu þráðunum í íslenskum stjórnmálum að koma í veg fyrir vöxt og viðgang Reykjavíkur undir þeim göfuga gunnfána að hindra að í landinu myndist borgríki. Staðreyndin er þó sú að nú kann jafnvægi að vera að skapast einmitt með einmitt slíku ríki þar sem borgin leitar út á land og tengist minni byggðum. Menn tala núna um höfuðborgarsvæðið meira, milli Hvítánna eða að minnsta kosti innan þríhyrningsins Selfoss- Akranes-Keflavík. Þetta snýst ekki við næstu áratugi. Höfuðborgin er þar sem hún er – og löngu kominn tími til að samfélag allra landsmanna taki fullt mið af þeirri staðreynd. Reyndar telja erlendir athugendur sérstakan styrk í fámennu landi að höfuðborgin skuli vera eins öflug og raun ber vitni.

 Stundum höfuðborg – en stundum ekki

Hin sífellda flugvallarumræða sýnir ágætlega vanda Reykjavíkur sem höfuðborgar. Reykvíkingar lýstu í almennri atkvæðagreiðslu 2001 þeim vilja sínum að Vatnsmýrarvöllur yrði lagður af, og borgarstjórn samþykkti síðan skipulag þar sem önnur flugbrautin fer 2016, hin 2014. Flugvallarsinnar utan borgar hafa aldrei sætt sig við þessa ákvörðun í borginni og finna henni flest til foráttu. Nú síðast hafa Jón Gunnarsson og félagar flutt öðru sinni frumvarp á alþingi sem á að festa flugvöll í Vatnsmýri um aldur og ævi – bót í máli að málið er tæpast þingtækt því að skipulagsvaldið í Reykjavík er hjá Reykjavíkurborg, ekki alþingi.

Hvað sem mönnum finnst um Vatnsmýrina eru ein af rökum flugvallarsinna marktæk: Að höfuðborgin hafi ákveðnar skyldur sem taka verður tillit til við ákvarðanir borgarbúa um innri mál. Gallinn er sá að þeir hinir sömu sem telja að Vatnsmýrarflugvöllurinn sé forsenda þess að Reykjavík sé höfuðborg eru allra manna iðnastir við að reyna að flytja sem allra flestar stjórnsýslustofnanir og miðstöðvar almannaþjónustu úr höfuðborginni heim í eigið hérað. Þá vegur höfuðborgarhlutverkið ekki eins mikið, og atvinnufæri í höfuðborginni eru sjaldnast verð umtals.

Við sem stöndum að baki tillögunni um höfuðborgarsamning – auk mín Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir – teljum að það sé kominn tími til þess að setja umræðunni um höfuðborg og landsbyggð þokkalegan hljómbotn, og stuðla að sáttum milli höfuðborgar og annarrar landsbyggðar. „Allajafna er við það miðað um höfuðborg,“ segjum við í greinargerð, „að hún sé aðsetur æðsta valds í ríkinu og miðstöð stjórnsýslu. Skyldur höfuðborgarinnar sem sveitarfélags eru því víðtækari en annarra sveita ríkisins þar sem íbúar hennar og leiðtogar þeirra verða í starfsháttum og skipulagi að taka tillit til þjónustuhlutverks borgarinnar fyrir alla landsmenn. Réttindi verður höfuðborgin að hafa á móti, þar á meðal þau að samráð sé haft við stjórnendur hennar um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnufæri, skipulag og yfirbragð.“ Við viljum að ríki og borg geri með sér samning „þar sem yrðu reifaðar skyldur Reykjavíkurborgar og réttindi sem höfuðborgar, getið þeirra breytinga á lögum og öðrum regluramma sem samningsaðilar yrðu ásáttir um að beita sér fyrir og kveðið á um skipulegt samráð ríkisstjórnarinnar, Alþingis og borgarstjórnar um ákvarðanir sem sérstaklega snerta stöðu Reykjavíkur

Við fluttum þessa tillögu líka í fyrra og fögnum undirtektum sem hún fékk þá, frá Reykjavíkurborg, Byggðastofnun og fagfólki um skipulag. Í umsögnunum kemur ágætlega fram að höfuðborgarsamningur gæti vísað veginn til framtíðar í þessum samskiptum, og þar er bent á norrænar fyrirmyndir sem gætu hjálpað okkur við að skapa landinu öllu góða höfuðborg.

Birtist líka í Fréttablaðinu 24. september 2012 — sjá að auki leiðara Ólafs Stephensens í því blaði 25. september

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.9.2012 - 22:03 - Rita ummæli

Síðasta bók höfundar

Ljóðabók eftir Jónas Þorbjarnarson kom út í vikunni, heitir Brot af staðeynd, og þarna fer þroskaður höfundur sem ekki hikar við að deila með okkur brotum frá ýmsum tímum ævi sinnar af verðskulduðu sjálfstrausti, fer með okkur út um heiminn talsverðan spöl öðru hvoru, í Alpafjöll meðal annars og einusinni alla leið til Gvatemala, en svo alltaf aftur heim í Eyjafjörð þar sem maður horfir með honum frá Hrísey í norður með mávagarg að baki, kynnist farartækjasmiðnum sem aldrei komst af stað frá Dagverðareyri, og svo fáum við KA-búninginn sjálfan í jólagjöf: ,,sólgula treyjuna, heiðríkjubuxur og -sokka“ – hefur ekki í annan tíma verið ort jafninnilega um fótboltaföt.

Ég keypti nýju bókina í dag, eiginlega á báðum áttum. Hef aldrei kynnst Jónasi nema sem höfundi af og til, og varð aðeins undrandi þegar birtist frá honum skyndilega netpóstur í vor þegar ég var á ferðalagi í Frans, hann þurfti að fá svör við brýnum spurningum um nákvæmni í texta, um eðlilegt samhengi sagntíða minnir mig það væri, hann væri að ganga frá bók og staddur fjarri hjálpargögnum, og ég svaraði eins og ég gat. Svo kom aftur daginn eftir önnur spurning, ég held um tilvísunarsetningu, með kankvísri afsökunarbeiðni af því það lægi á, og mér fannst einmitt að þetta hlyti líka að vera allra brýnasta verkefni mitt þá stundina. Þannig gekk þetta tæpa viku, fimm eða sex póstar, og vorum þó nær hvor öðrum en við vissum af. Svo var ég kominn heim og önnur tíðindi yfirgnæfðu daginn og minnið.

Þangað til allt í einu orðið kom í sumar um endalyktir hins nýja málvinar míns um tíðir og tilvísanir í ljóðrænni frásögn. Sviplegt er líklega rétta lýsingin á minni tilfinningu um þennan atburð og þau kynni við skáldið sem voru í þann veginn að takast og nú yrðu engin.

Og auðvitað verður lesandinn upptekinn af dauðanum í bókinni, því hann er mættur þarna ásamt vinkonum ljóðskáldsins, steinum í Alpahyl, Proust og KA-búningnum, þýska Gvatemalahippanum og Óla á Dagverðareyri. Dauðinn er að vísu fastagestur í ljóðabókum og kannski bara kringumstæðurnar sem gera hann ágengari við lesendur þessarar bókar en allajafna: ,,Og þó var mér að nokkru leyti ljóst orðið / að ég sjálfur / myndi einhverntíma enda …´´ — eða lambið á heiðinni og dauði þess sem lá ,,einkum í því að nærvera mín / skuli ekki vekja ótta …´´

Ég vona að það sé ekki bara að höfundurinn er allur sem veldur sterkum áhrifum þessarar bókar nú í haustbyrjun – og þykist vera nógu þroskaður sjálfur til að vita að þannig er það ekki hvað sem líður stuttum skilaboðum gegnum tölvupóst um nákvæmnisleg málfræðiatriði – en ég veit það auðvitað ekki, því að hvað sem öðru líður

er hugurinn alltaf óvarinn

 

sem ef til vill mætti líkja við það

að við þyrftum að lifa með iðrin úti.

 

Allavega:

 

þótt höfuð sé kannski betra en ekkert

á hugur manns í raun engan samastað.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.9.2012 - 17:25 - 2 ummæli

Spjallað við Styrmi

Yðar einlægur naut þess heiðurs að vera í hádeginu framsögumaður á fundi Heimssýnar um meint andlát umsóknarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hinn framsögumaðurinn var Styrmir Gunnarsson . Þetta var skemmtilegt, bæði að kynnast Heimssýnarfólkinu og rökræða við Styrmi – það hef ég reyndar gert oft áður yfir Morgunblaði fyrri tíma, en aldrei að honum sjálfum viðstöddum. 😉

Hérna er framsöguræðan nokkurnveginn, varð að sleppa nokkrum köflum þegar kom á fundinn, svosem makrílnum:

Þakka ykkur fyrir að fá mig hér á þennan fund, það er ánægjulegt, sérstaklega kannski vegna þess að spurningunni sem fundurinn á að fjalla um, ,,Er ESB-umsóknin dauð?“, var svarað ágætlega í skýrslu sem kom út fyrir nokkrum dögum um gjaldeyrismál frá Seðlabankanum. Úr henni les ég að umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu er ekki bara sprelllifandi heldur hefur aldrei verið meiri þörf á henni en nú.

Haftakróna eða evra

Í skýrslu Seðlabankans kemur fram að í gjaldeyrismálum eru til framtíðar bara tveir kostir. Við getum notað haftakrónu eða evru. Með því að hætta við umsóknina væri verið að fækka þessum tveimur kostum í aðeins einn: Haftakrónuna.

Það koma auðvitað vomur á ýmsa við þessa skýrslu. Hér hefur verið undanfarin misseri einskonar gestaþraut að búa til aðra valkosti en þessa tvo, og menn hafa nefnt, væntanlega í alvöru einhliða upptöku annars gjaldmiðils – Bandaríkjadollars, norskrar krónu, Kanadadollars – nú eða þá evru án þess að ganga í Evrópusambandið eða spyrja um leyfi. Tvíhliða samningar svokallaðir um nýjan gjaldmiðil eru líka afgreiddir burt, þar sem þeim fylgir miklu meira framsal fullveldis en þátttaka í samstarfi um evruna

Kostirnir eru tveir. Evrunni fylgir auðvitað áhætta. Við þurfum að fylgjast vel með tíðindum á næstunni, og Íslendingar eiga ekki að taka upp evru nema jafnframt sé samstaða innanlands um að aga hagstjórnina og gera þær ráðstafanir aðrar sem fastgengisstefna krefst. Kostirnir eru hinsvegar ljósir: Lægri vextir, verðbólga í skefjum, verðtrygging úti sem almenn regla, viðskiptakostnaður lækkar verulega og um leið verðlag, og þjóðartekjur ættu að hækka. Umfram allt gefur evran færi á stöðugleika í gengi og verðlagi, öfugt við krónuna sem sjálf veldur sveiflum í gengi og kaupmætti.

Haftakrónan – vissulega er hægt að búa við hana áfram, en þá með gjaldeyrinn í stöðugri gjörgæslu, sem seðlabankamenn kalla „stýrt flot“ og „varúðarreglur“ – það yrði stanslaust fjör við Arnarhólinn. Rétt að menn geri sér grein fyrir því að það koma aldrei aftur þeir tímar að krónan sé höfð á fljótandi gengi með frjálsum fjármagnsflutningar.

Haftakrónan krefst feikilegra fórna af þjóðinni. Án evrukostarins, án umsóknarinnar tæki það okkur mörg ár að létta núverandi gjaldeyrishöft, og 800 milljarða snjóhengjan vofir sífellt yfir. Í rauninni hafa ekki komið fram nein ráð til að leysa það mál – nema helst frá Samtökum atvinnulífsins sem vildu svipta burt höftunum í ein u vetfangi, með leiftursókn = mikil gengisfelling = verðhækkun og kaupmáttarrýrnun, sem átti svo bara að reddast.

Önnur leið út úr þessum bráðavanda okkar byggist á umsókninni. Með henni erum við með krónuna í ákveðnu skjóli. Vegna umsóknarinnar er þolinmæði hinna EES-ríkjanna í lagi, og vegna hennar er órói ekki meiri en raun ber vitni hjá eigendum aflandskrónanna, hverjir sem þeir nú eru, erlendir eða innlendir, vegna þess að þeir vonast til að krónurnar þeirra verði smámsaman að evrum.

Opið hagkerfi – lokað hagkerfi

Tveir kostir. Það er líka hægt að setja þá fram á annan hátt. Jafnvel þótt við öguðum hagstjórn og ynnum í okkar málum – mundi haftakrónunni fylgja lokað hagkerfi með meiri hagsveiflum, minni útflutningi og fjárfestingum, hærra verði og lakari lífskjörum. Evran er hinsvegar ávísun á opið hagkerfi með hindrunarlitlum millilandaviðkiptum, meiri útflutningi og fjárfestingum, minni sveiflum og betri lífskjörum.

Sumum kann að finnast skrýtið að heyra mig tala um frjálsa verslun og opið hagkerfi meðan Styrmir Gunnarsson þegir – en svona er þetta nú samt.

Að hætta við umsóknina, eða fresta henni um ótiltekinn tíma sem kemur út á eitt, merkir að útiloka fyrirfram annan þessara kosta. Því fylgir mikil ábyrgð.

Það er rétt að ríkin á evrusvæðinu eru í vanda. það er kreppa um allan heim, og birtingarmynd hennar í Evrópu er reiptogið milli evruríkjanna. Í raun er þessi kreppa þó ekki gjaldeyriskreppa, heldur – einsog Seðlabankinn segir – bankakreppa og ríkisskuldakreppa. Evran stendur jútakk ágætlega á gjaldeyrismörkuðum.

Björn vill evru

Við eigum að fylgjast vel með þróuninni í evruríkjunum hvort sem menn vilja inn eða ekki. Líkurnar og sagan segja manni að evruríkin hafi þetta af, með betra skipulagi og sameiginlegu FME-i, líklega líka einhverskonar ramma um ríkisfjármálin. Ekkert af því ætti reyndar að koma okkur illa, ef við viljum læra af reynslunni á annað borð.

Ég tek eftir því að eftir Seðlabankaskýrsluna vilja ekki allir efasemdarmenn um Evrópusambandsaðild skella dyrum á evruna. Í þeim hópi er sjálfur Björn Bjarnason, sem nú dreymir um að komast inn í evrusamstarfið bakdyramegin á svipaðan hátt og hann kom okur inn í Schengen. Ég hef ekki trú á þeirri leið, en þakka Birni fyrir að taka ekki eindregna afstöðu með haftakostinum.

Norðvesturbandalagið og Ólafur Ragnar

Þessi spurning um gjaldeyriskostina er víðtækari en svo að hún nái „bara“ til gjaldmiðilsins. Ein af niðurstöðunum í skýrslu Seðlabankans er sú að ef Íslendingar ætla að standa sig á evrópskum og alþjóðlegum mörkuðum, þá verður evran að vera framtíðarkosturinn. Ef hætt er við umsóknina er hætt við að Ísland einangrist og klippi á þau efnahagstengsl sem við þurfum á að halda í framtíðinni. Þeir sem þetta vilja hætta viðræðum verða þessvegna að stika út aðrar leiðir í utanríkisviðskiptum og í utanríkismálum yfirleitt. Styrmir Gunnarsson er nánast eini maðurinn sem hefur fitjað upp á þvílíku og bendir í nýlegri grein á „norðvesturbandalagið“ – vill snúa frá nánum samskiptum og samstöðu með Evrópuþjóðum, þar á meðal norræmu þjóðpunum en taka þess í stað upp einhverskonar endurnýjað bandalag við Bandaríkin að viðbættu Kanda. Þetta er viðhorf og má ræða – alveg einsog ábendingar bóndans á Bessastöðum um Kína, Indland og Rússland. Þeim sem ekki líst á að fara með Styrmi eða Ólafi Ragnari í slíkan leiðangur, þeir mega gjarna fara að gera sér grein fyrir hvað hér kann að vera í húfi.

Stjórnmálamenn og ýmsir „kraftar“

Er ESB-umsóknin dauð? – þeirri spurningu á að svara hér á þessum fundi. Í fundarkynningu eru nefndar skoðanakannanir, og talað um að fyrir umsókninni sé „lítill stuðningur á alþingi“. Utanþings séu heldur „engir kraftar sem orð er á gerandi“ sem tali fyrir umsókninni.

Þá er að svara:

Skoðanakannanir um aðildina sjálfa eru upp og niður, en í þeim öllum kemur fram öflugur stuðningur við að viðræðurnar haldi áfram, oftast meirihluti. Fólk vill sjá samninginn og ákveða svo hvað á að gera.

Í pólitíkinni er umsóknin vel á sig komin og heilsuhraust sprelllifandi. Þingið samþykkti að sækja um í júlí 2009 með meirihluta atkvæða, 33–28, að sækja um, fá samning og leggja hann síðan undir þjóðina. Þessi meirihluti er enn til, hvað sem menn mala og hjala. Hann jókst við atkvæðagreiðslu í vor um tillögu frá Vigdísi Hauksdóttur, sem hér situr einmitt, um að kjósa um málið án samnings. Það var fellt, 25–34.

Í stjórnmálaflokkunum er staðan mjög svipuð og eftir kosningar 2009. Samfylkingarmenn eru jákvæðir en vilja sjá samninginn fyrst, Framsókn er klofin, bæði þingliðið og félagarnir, Sjálfstæðisflokkurinn líka – Bjarni og Illugi tala nú þvert á það sem þeir sögðu fyrir kosningar, ekki alltaf með miklum sannfæringarkrafti, en í flokknum eru líka staðfastir og hugrakkir þingmenn sem styðja umsóknaferlið – Rannveig og Þorgerður Katrín. Allir vita að þau viðhorf eiga sér mikinn hljómgrunn víða í flokknum.

Það var fróðlegt að heyra greiningu Katrínar Jakobsdóttur á stöðunni í VG á Hólafundi þeirra um daginn. Hún sagði að innan flokksins væru þrjár deildir að þessu leyti. Þeir sem tækju eindregna afstöðu gegn aðild og umsókn, væri einsmálsmenn. Þeir sem efuðust um gagnsemi Evrópusambandsins fyrir Íslendinga en litu á þetta mál sem eitt af mörgum úrlausnarefnum í landstjórninni og stjórnarsamstarfinu. Að lokum þeir sem ekki hefðu gert upp hug sinn um mikilvægi málsins. –Allir vita að fylgismenn VG eru ýmissar skoðunar um ESB, og á tímabili svaraði meirihluti þeirra játandi í könnunum um inngöngu.

Ný stjórnmálaöfl eru svo á ýmsu reki í þessu efni. Björt framtíð vill klára viðræðurnar, Lilja er á móti, Dögun líklega á báðum áttum, Hægrigrænir með held ég.

Hagsmunablokkir í SI

Um þessa „enga kraftar sem orð er á gerandi“er það að segja að ég hef ekki orðið var við neina stefnubreytingu hjá hagsmunasamtökum, málefnahreyfingum eða áhugafélögum í þessu efni. Þau sem höfðu mótað sér stefnu halda sig við hana – þau sem ekki höfðu gert það fylgjast vel með og ætla að fara af stað þegar samningurinn er tilbúinn – og lýsa afstöðu til þeirra þátta hans sem helst snertir þeirra svið. Eini „krafturinn“ sem mér kemur til huga í þessu sambandi eru Samtök iðnaðarins, sem áður voru áhugasöm um aðild en hafa heldur látið undan síga uppá síðkastið. Ég held að þar sé ekki á ferðinni eiginlega stefnubreyting heldur miklu frekar að valdahlutföll einstakra hagsmunablokka innan samtakanna hafi hnikast til, sést meðal annars með mannaskiptum í forystunni.

Fyrst og fremst bíða menn almennt í samfélaginu eftir að viðræðunum ljúki. Þá er tími til að taka afstöðu, þá tekur pólitíkin við sér, og þá koma „kraftarnir“. Mér sýnist að hagsmunasamtök taki góðan þátt í undirbúningi viðræðnanna, LÍÚ ætlar til dæmis ekki að láta taka sig í bólinu ef af inngöngu verður, og jafnvel Bændasamtökin hafa upp á síðkastið hafa breytt um vinnulag í umsóknarferlinu.

Makríll milli vina

Það er líka nefndur makríll. Það er eðlilegt að fiskveiðidellur veki hita í Íslendingum en makrílmálið er þrátt fyrir sérkenni sín hefðbundin deila sem við höfum margoft staðið í áður, milli strandríkjanna við Norðursjó og Norður-Atlantshaf. Þetta eru Skotar og þó einkum Írar, sem Evrópusambandið semur fyrir hönd þeirra, og svo eru Færeyingar, og við, og Norðmenn. Rússar eru ekki langt undan og nú eru Grænlendingar komnir líka. Írskir útgerðarmenn og sjómenn reyna að hafa sem allra mest gagn af Evrópusambandinu, en þó eru Norðmenn líklega öflugasti andstæðingur okkar í þessari deilu. Þetta er ekki skemmtilegt. Það er grannakrytur sjaldan, en það er engin ástæða til að fara á límingunum. Makríllinn á ekki að spilla viðræðunum – nema menn vilji endilega láta makrílinn spilla viðræðunum.

Áfram eftir kosningar

Sjálf umsóknin er svo á ákaflega góðu lífi frá því menn byrjuðu fyrir hálfu öðru ári. Þingið hefur afgreitt 28 samningsafstöðuskjöl, af 32, og í árslok verður hugsanlega búið að semja um 15 kafla, eða fast að helmingi. Það sem helst stendur á er sjávarútvegskaflinn, og honum tengjast tveir aðrir kaflar vegna fjárfestingahindrana okkar. Fyrir nokkrum vikum lýsti Stefán Fühle, stækkunarstjóri ESB, því yfir að sjórinn verði opnaður fyrir jól. Ég er ekki sérlega bjartsýnn en þetta er ennþá möguleiki.

Líklegast er samt að viðræðunum ljúki ekki í heild fyrr en síðla árs 2013, jafnvel á árinu 2104. Áður verða hér alþingiskosningar og stjórnarmyndun. Í þeim slag verður auðvitað tekist á um ESB. Mín spá er þó sú að viðræðunum verði haldið áfram hvaða stjórn sem hér tekur við eftir kosningar, vegna þess að það eru hagsmunir Íslendinga, og ábyrgir stjórnmálamenn loka ekki neinum dyrum fyrr en allir kostir eru ljósir.

Svo lifandi er þessi umsókn.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.9.2012 - 17:51 - 10 ummæli

Lærdómar af Zoëga-málinu

Þeir Björn Zoëga og Guðbjartur Hannesson hafa nú gefist upp á launahækkuninni góðu fyrir aukastörf forstjórans við lækningar. Þá er að vona að Björn haldist í vinnu þrátt fyrir lélegu launin.

Getur kannski kennt okkur sitthvað. Annarsvegar að hafi menn markað sér stefnu þá á að standa við hana, jafnvel þótt hún sé fyrst og fremst táknræn einsog sú að enginn hafi hjá ríkinu hærri laun en forsætisráðherrann. Eða þá að breyta henni. Ekki reyna hjáleiðir.

Hinsvegar að það er óskynsamlegt – og reyndar alveg vonlaust til lengdar – fyrir opinbera vinnuveitendur að eltast við ofurlaun á almennum markaði, eða þá kostakjör í útlöndum. Launin geta aldrei orðið svo há hjá ríki og borg að þau standist slíka samkeppni. Ef menn vilja hærri laun en þar eru í boði verða þeir einfaldlega að drífa sig annað að sækja þau.

Launin geta aldrei orðið sá partur af opinberri stöðu sem laðar til sín gott fólk. Þar eiga að koma til aðrir þættir: Atvinnuöryggi, gott starfsumhverfi, liðlegheit í samtvinnun vinnudags og einkalífs, símenntunarmöguleikar, virðing fyrir starfsfólki, vissa um að farið sé eftir kjarasamningum, traust stéttarfélög, aðlögun að starfslokum og svo framvegis. Ég þori ekki að nefna lífeyrismálin, en í áratugi hafa þau einmitt verið sögð uppbót opinberra starfsmanna fyrir lægri laun en á almennum markaði. Ég þori heldur ekki að nefna að mönnum geti fundist ánægjulegra að vinna fyrir þjóðina sína en á einkamarkaði – en þó kunna ennþá að vera til einhverjir svo vitlausir (og sanngjarni stjórnmálamaðurinn bætir því við að á einkamarkaði séu líka margir að vinna óbeint fyrir þjóðina).

Held að þetta sé ekki raunverulegt vandamál – að það fáist oftast einhverjir sem eru næstum jafngóðir og Björn Zoëga, og geti jafnvel orðið betri en hann með svolítilli reynslu og hjálp. Á alþjóðamarkaði ef ekki finnast hæfileikamenn á Íslandi.

Raunverulega vandamálið á opinberum vinnumarkaði er það að almennir starfsmenn hafa ekki nægileg laun, einsog við höfum um fjölmörg dæmi síðustu vikur og opinberaðist ágætlega kringum Björns-Zoëga-málið. Það er ekki auðleystur vandi með ríkissjóð í stórskuldum eftir hrunið og skattheimtu við þolmörk. Eitt af verkefnum næsta kjörtímabils.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.9.2012 - 10:54 - 5 ummæli

Evra eða haftakróna

Megintíðindin úr skýrslu Seðlabankans um gjaldeyriskosti (hér, 622 bls.) eru þau að þeir séu tveir. Annarvegar er það evran eftir inngöngu í Evrópusambandið, hinsvegar krónan með höftum.

Aðrar tillögur fá falleinkunn í skýrslunni, að taka einhliða upp dollara, norska krónu, svissneskan franka o.s.frv. – eða þá evru án aðildar, að halda krónunni með fastri tengingu við annan gjaldmiðil eða myntkörfu en sleppa höftunum, eða þá að semja við annað ríki um gjaldmiðil þess, einsog sumir hafa talað um með norsku krónuna. Það gæti reyndar haft ýmsa tæknilega kosti – en þá værum við í raun að ganga í Noreg eða hvað það ríki annað sem samið yrði við.

Evran merkir að íslenski gjaldmiðillin hefur fast gengi gagnvart flestum helstu viðskiptalöndum og sveiflast ekkert í líkingu við krónuna. Hún merkir stöðugleika í verðlagi og kaupmætti, lægri vexti, lægra vöruverð vegna minni viðskiptakostnaðar. Evruupptaka þýðir líka að við verðum að hafa önnur ráð við innlendum sveiflum en gengisfall, svo sem sterka jafnvægissjóði og aukinn aga í ríkisfjármálum og öðrum sviðum hagstjórnar.

Krónan getur aldrei orðið annað en haftakróna. Örsmátt gjaldeyrissvæði getur ekki til lengdar gert það tvennt í einu að láta gengið fljóta og leyfa frjálsa fjármagnsflutninga. Með því undirselja menn sig spákaupmönnum og setja hagkerfið – en fyrst og fremst fólkið sem við það býr – í stórhættu af harkalegum gengis- og verðlagssveiflum við minnstu hræringar í efnahagslífi hér og ytra.

Í stöðunni núna eru höftin nauðsynleg en jafnnauðsynlegt er að losna við höftin sem allra fyrst til að millilandaviðskipti geti gengið eðlilega. Málið er reyndar enn alvarlegra: Höftin eru í ósamræmi við fjórfrelsið og þar með samninginn um Efnahagssvæði Evrópu. Meðan við erum að ná okkur upp úr kreppunni hreyfa önnur ríki ekki athugasemdum, þótt hugsanlegt sé að einstaklingar sem eiga innilokaðar krónur geti reynt að sækja rétt sinn. Hér skiptir aðildarumsóknin líklega enn meira máli – með henni höfum við markað okkur stefnu í gjaldeyrismálunum út úr höftunum. Það róar hin ríkin í EES, og ekki síður krónueigendur sem vonast til að eignir þeirra verði smám saman að evrum.

Við komumst með krónuna í skjól af evru eftir aðild en hún verður ekki gjaldmiðill hér strax. Áður þurfum við að vinna heimavinnuna okkar – og fylgjast að sjálfsögðu með breytingunum á evrusvæðinu upp úr kreppunni þar. Þær breytingar virðast reyndar ætla að verða góðar fyrir okkar framtíðarhorfur.

Við þurfum hinsvegar sem allra fyrst að verða nokkurnveginn sammála um áfangastaðinn. Kostirnir sem einangraðir eru í skýrslu Seðlabankans – evra eða haftakróna – hjálpa til við það.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.9.2012 - 14:29 - 9 ummæli

Hvernig fiskveiðistjórnarfrumvarp?

Steingrímur J. Sigfússon íhugar nú hvernig nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp á að líta út.

Eftir þrjá haustfundi í karlanefndinni góðu er komin greinargerð (hér) þar sem fjórir af körlunum fimm gera grein fyrir því um hvað þeir eru sammála og um hvað ekki.

Og hafið er túlkunarstríð um framhaldið – Einar K. Guðfinnsson úr Sjálfstæðisflokknum segir að nú skipti mestu að í yfirlýsingu frá formönnum stjórnarflokkanna í vor

skuldbinda þau sig til að leggja frumvarpið fram með þeim breytingum, sem við yrðum ásáttir um.

Þetta er hæpin túlkun. Í yfirlýsingunni segir að greinargerð frá hópnum verði lögð til grundvallar frumvarpi – ef allir í hópnum yrðu sammála. Í greinargerðinni sést að karlarnir fjórir eru ekki sammála um allavega tvo veigamikla þætti – leigupottinn og kvótaþingið. Að auki hefur greinargerðin þau missmíði að hún kemur bara frá fjórum körlum af þeim fimm sem þarna völdust til fundarstarfa – Þór Saari var aldrei boðaður á fund af óljósum og óskýrðum ástæðum.

Mér finnst þetta alltsaman vond tíðindi. Mikill áfangi í sjávarútvegs- og auðlindamálum náðist í vor með veiðigjaldinu, en framhaldið er í óvissu. Þó er stefna Samfylkingarinnar og VG alveg skýr frá kosningunum vorið 2009, og stjórnarsáttmálinn er líka alveg á tæru.

Ég veit ekki hvað Steingrímur ætlar að gera – en hann er að minnsta kosti ekki bundinn af þessari greinargerð. Rétt að minna á það líka að þingflokkar standa ekki að baki henni – að minnsta kosti ber þingflokkur Samfylkingarinnar ekki ábyrgð á plagginu, þrátt fyrir að þar komi fram persónuleg viðhorf hins ágæta félaga okkar Kristjáns Möllers.

Sjálfur get ég á þessu stigi ekki annað en tekið undir orð Ólínu Þorvarðardóttur í bókun hennar á hasarfundinum í atvinnuveganefndinni í gær:

Aldrei getur heldur orðið sátt um 20 ára forgangsúthlutun 95% aflaheimilda til núverandi kvótahafa án þess að á móti tímabundnum nýtingarleyfum komi öflugur og vaxandi leigumarkaður, þar sem menn geta á jafnræðisgrundvelli gert tilboð í og leigt til sín aflaheimildir. Hugmyndir innan fjórmenningahópsins um að festa hluta 2 í hlutdeild og takmarka vaxtarmöguleika leigupottsins við 20 þúsund tonn – í stað þess að miða við það magn sem upphafsstöðu – eru óásættanlegar.

Óásættanlegt er að í uppsjávar- og úthafsveiðum deilistofna verði komið á samskonar gjafakvótakerfi og því sem viðgengist hefur í botnfiskveiðum, eins og tillögur hópsins gera ráð fyrir.

Verði þær breytingar á fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu sem fjórmenningarnir hafa drepið á er ljóst að upphaflegt markmið með frumvarpinu — um jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðunar möguleika – yrði að engu. Væri þá verr af stað farið en heima setið með mál þetta í heild sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 10:01 - 6 ummæli

Repúblikanar, stefnuræða og sósíalismi

Hér er framlag yðar einlægs til umræðna um stefnuræðu forsætisráðherra í gær (mynd hér). Í drögum var þetta miklu lengra — svo sker maður úr gáfulega aukakafla og alla fyrirvara og seming, bætir inn molum sem detta inn í umræðunni sjálfri, og að lokum hrynja burt setningar í kapphlaupi við tímann: 5 mínútur. Þetta varð samt nokkuð gott, en í svona giggi vigtar flutningurinn alltaf sirka helming. — Eitt af því sem þarf svo að endilega gera er að breyta þessum eldhúsdögum haust og vor, laða fram meiri samræðu og skarpari skil þar sem þau eru fyrir hendi. Hugsanlega ættu bara flokksleiðtogar að tala á eftir stefnuræðu forsætisráðherra, og aðrir þá að fá andsvör — það yrði að minnsta kosti líflegra sjónvarpsefni. En næstur tekur til máls 11. þingmaður Reykjavíkur norður og talar af hálfu Samfylkingarinnar:

 

Forseti.

Leikur að tölum, leikur að orðum, sagði háttvirtur þingmaður Bjarni Benediktsson. Það er vissulega gott að leika sér en grundvöllur umræðu er að viðurkenna staðreyndir. Staðreyndirnar um stöðu efnahagsmála, um lífskjör þjóðarinnar, eru þær að núna erum við að ná okkur upp úr kreppunni. Allar vísbendingar eru í sömu áttina um þetta: Hagvöxtur, kaupmáttur launa, atvinnuþátttaka, skuldastaða og svo má lengi telja.

Staðreyndirnar tala. Staðreyndirnar segja okkur ekki að kreppan sé búin og að nú megi byrja upp á nýtt á næsta fylliríi, en þær segja okkur að það sé orðinn verulegur árangur við að endurreisa samfélag og hagkerfi eftir hrunið. Á alþjóðavettvangi er horft til Íslands sem fordæmis vegna þess að við, ríkisstjórnin og allir landsmenn, gerðum þetta í stórum dráttum eins vel og hægt er. Efnahagslífið komst aftur í gang án þess að niðurskurður, sem var nauðsynlegur, og kaupmáttarrýrnun bitnaði fyrst og fremst á lág- og meðaltekjufólki eins og víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Með því að bjarga flestum alvörufyrirtækjum frá því að fara á hausinn tókst að koma böndum á atvinnuleysið. Þetta hefur gerst undir forustu jafnaðarmanna. Við höfum gert þetta á forsendum jöfnuðar, og við höfum varið velferðarþjónustuna sem var bæði sanngjarnt og skynsamlegt

Þetta vekur athygli sérfræðinga innlendis og erlendis. Við fáum fyrir þetta hrós frá erlendum forustumönnum. Nokkrir eru samt óánægðir, eru í fýlu yfir batanum. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri SA eru í nýrri fýlu sem mætti kalla bata-fýlu. Það er sorglegt en við hin skulum virða þetta við þá og halda áfram.

Forseti.

Það er auðvitað algerlega eðlilegt að tala hér í kvöld um árangurinn við endurreisnina. Við jafnaðarmenn ætlum okkur að halda áfram á þessari braut í verkum vetrarins og í kosningunum að vori er eðlilegt að Íslendingar geti valið að byggja framtíðina næstu ár á þeim árangri sem nú hefur náðst. Jafnaðarmenn boða til nýrrar sóknar með áherslu á menntun og græna hagkerfið til að tryggja atvinnu og lífskjör í framtíðinni. Við viljum halda uppi jöfnuði með bættri þjónustu við fjölskyldurnar, taka fulla ábyrgð í umhverfis- og náttúruverndarmálum og hagnýta tækifærin sem þar liggja, stíga enn djarfari skref við að efla lýðræðið með beinni þátttöku borgaranna og vera með í samvinnu Evrópuþjóða.

Sem betur fer virðist staðan vera þannig að annar skýr kostur verður líka í boði. Hann býður fram flokkurinn sem ber ábyrgð á hruninu og hörmungum þess umfram öll önnur stjórnmálaöfl. Í Sjálfstæðisflokknum hafa menn setið og spekúlerað þessi fjögur ár, það er gott, og núna í sumar og haust er þar líka að koma í ljós svolítill árangur. Háttvirtir þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson lýstu því yfir í sumar að nú væri fram undan mikil tiltekt í samfélaginu, leiftursókn, ný leiftursókn sem fælist í því að lækka skatta og skera miklu meira niður en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði tekist.

Næsti kafli var að Bjarni Benediktsson og háttvirtur þingmaður Ragnheiður Elín Árnadóttir fóru á flokksþing repúblikana í Bandaríkjunum í haust. Þriðji þátturinn er svo sérstakt málefnaþing á Akureyri hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna undir vígorðunum Sókn gegn sósíalisma. Eins og frægt er orðið á þar ekki bara að sækja gegn sósíalistunum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni heldur líka á móti sósíalistanum François Hollande, forseta Frakklands, og sósíalistanum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.

Flokkurinn stefnir á hugmyndafræðilega kosningabaráttu í vor, þar á að tefla repúblikanisma Sjálfstæðisflokksins fram gegn sósíalisma stjórnarflokkanna á Íslandi og gegn sósíalisma Baracks Obamas.

Það kemur svolítið á óvart að þetta séu lærdómar hrunsins í Valhöll, að gera Sjálfstæðisflokkinn að íslenskri teboðshreyfingu, en það er sjálfsagt líka að fagna þessu því að núna í vetur og vor þurfum við ekki bara að ræða um hin mikilvægu praktísku verkefni sem fram undan eru heldur líka hvaða samfélag við viljum.

Viljum við samfélag þar sem markaðurinn ræður lögum og lofum og frumskógarlögmálin skapa mönnum örlög, eins og nú boða Mitt Romney, Paul Ryan og Bjarni Benediktsson í baráttu sinni gegn sósíalistunum Jóhönnu Sigurðardóttur og Barack Obama?

Eða viljum við samfélag mótað af jafnaðarstefnu? – samfélag þar sem menn taka ábyrgð hver á öðrum, þar sem markaðurinn er góður þjónn en ekki húsbóndi, þar sem jafnrétti, frelsi og bræðralag eru æðstu boðorð eins og frönsku sósíalistarnir á 18. öld vildu, samfélag þar sem þjóðin á auðlindirnar, og þar sem menntun, heilsa og lágmarksafkoma er ekki byggð á náð og miskunn heldur á lögfestum rétti, samfélag „þar sem þú hugsar ekki bara um það sem landið þitt getur gert fyrir þig, heldur ekki síður um það sem þú getur gert fyrir landið þitt“ — eins og sagði í frægri ræðu fyrir rúmri hálfri öld sósíalistinn John F. Kennedy.

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 6.9.2012 - 18:16 - 10 ummæli

Í batafýlu

Forstjóri Toyota er í batafýlu, alveg einsog Morgunblaðið og formenn hrunflokkanna:

… telur batann í hagkerfinu ekkert hafa með verk ríkisstjórnarinnar að gera. Útflutningsgreinarnar haldi hagkerfinu gangandi og aðrir reyni að hoppa á vagninn.

Nú er ekki hægt að komast hjá því lengur að viðurkenna batann í hagkerfinu, enda eru allar vísbendingar á sama róli. En umfram allt má batinn ekki vera ríkisstjórninni að þakka.

Nú er batinn auðvitað ekki ,,að þakka“ ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluta – við höfum öll þurft að færa fórnir til að bjarga skipinu af strandstað og koma því á siglingu. Eða mörg hver að minnsta kosti. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og hagstjórnin hafa hinsvegar skapað aðstæðurnar fyrir batann. Sjá grein Jóns Steinarssonar í Fréttablaðinu í dag. Besta setningin þar:

Ég hvet lesendur til þess að reyna að hugsa þá hugsun til enda að Davíð væri enn seðlabankastjóri.

Úlfar Steindórsson forstjóri mundi líklega vilja hafa Davíð ennþá í Svörtuloftum. Hann telur í viðtali við Viðskiptablaðið að útflutningsgreinarnar, sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan, hafi sjálfar búið til batann – það hafi „ekkert með ríkisstjórnina að gera“. Nú? Er það þá alveg óháð gengi krónunnar og umbúnaði um þann skrýtna gjaldmiðil? Alveg óháð aðgerðum á vinnumarkaði? Hefur ekkert að gera með endurskipulagningu fyrirtækja með sérstökum ráðstöfunum í stað þess að una fjöldagjaldþrotum einsog sumstaðar annarstaðar? Óháð framlagi af skattfé til að auglýsa Íslandsmarkað fyrir erlendu ferðafólki?

Fyrir utan batafýlukastið segir Úlfar allt gott. Hann vill fá annan gjaldmiðil í landið, evru, og telur helsta vandamál Íslendinga vera agaleysi, bæði í ríkisfjármálum og fyritækjarekstri. Sammála. Hann telur að það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að skapa störf. „Ríkið á að skapa gott umhverfi og vera síðan ekki fyrir.“ Sammála – en þá er mikilvægt að þeir standi í stykkinu sem eiga að skapa störfin, þar á meðal hinir agalausu stjórnendur atvinnufyrirtækjanna. Og hann telur að rammaáætlun um vernd og orkunýtingu hefði átt að vera búið að afgreiða fyrir löngu. Líka sammála. En drætti á því máli verður ekki kennt um að ekki skapist störf einsog Úlfar gefur í skyn. Því miður, liggur mér við að segja, er það er ekki andstaða grænna stjórnmálamanna eða barátta náttúruverndarsinna sem mestan þátt á í því að stóriðjudraumarnir hafa ekki orðið að veruleika, heldur annarsvegar breyttir tímar í orkumálum/atvinnusköpun og hinsvegar lokaðir lánsfjármarkaðir og kreppa víðast um heiminn. Eitt af því góða við batann og árangur ríkisstjórnarinnar er einmitt að þetta er að gerast án þess að fram fari stórkarlavirkjanir með umhverfisspjöllum.

En svo eiga litlir kallar auðvitað að passa sig þegar Úlfar Steindórsson talar um hagstjórn og rekstur, ráðinn forstjóri bílainnflytjandans á vegum sjálfs Magnúsar Kristinssonar fyrrverandi útgerðarmanns. Þekkir agaleysið ekki bara af afspurn.

 

Flokkar: Dægurmál

Mánudagur 3.9.2012 - 12:10 - Rita ummæli

Nýr jeppi í Skuggasundinu

Við hæfi að fagna því nú í septemberbyrjun að tekið er til starfa nýtt ráðuneyti sem sér um umhverfis- og auðlindamál – ráðherra Svandís Svavarsdóttir, til hamingju Svandís, og þið hin öll sem hafið barist fyrir þessu, þar á meðal umhverfisráðherrarnir Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisverndarfólk og áhugamenn um nútímalega stjórnsýslu.

Ætlunin er sú að lagt sé á ráðin um allar auðlindir lands og hafs á einum stað í stjórnarráðinu, einmitt þar sem fjallað er um önnur umhverfismál, náttúruvernd og skipulag. Þar verði sagt fyrir um nýtingarþol þeirra og vernd í nafni alvöru-sjálfbærni, en annað ráðuneyti annist svo stjórnun og þjónustu í þágu atvinnuveganna. Ekki ný hugmynd og í gangi um öll Norðurlönd – en hefur hér mætt mikilli andspyrnu íhalds og sérhagsmuna í pólitíkinni og meðal atvinnurekenda sem stundum láta einsog Páll Watson sé mættur á svæðið ef þeir þurfa að sinna einhverju sem byrjar á umhverfis-.

Jón Gunnarsson alþingis- og hvalveiðiáhugamaður er varla með hýrri há eftir þessar breytingar. Hans hugmynd um stöðu umhverfismála í stjórnarráðinu er sú að í hverju ráðuneyti eða skrifstofu atvinnuveganna sé svolítið afherbergi þar sem sinnt er umhverfismálum. Þannig séu þau málefni á hæfilegum stað í skipuritinu og til þess séð að góðir menn geti farið með athugasemdir úr afherbergjunum einsog passar stórkörlum. Hélt lengi að þetta væri bara fixídea hjá Jóni – en svo sá ég að Samtök atvinnulífsins eru sama sinnis …

Framfarastökkið: Veiðimálastofnun!

Það slær aðeins á fögnuðinn yfir hinu nýju ráðuneyti að breytingin virðist felast fyrst og fremst í nýju heiti fyrir skrifstofurnar við Skuggasund. Eina ríkisstofnunin í hinu nýja ráðuneyti umfram þær sem heyrðu undir það gamla er Veiðimálastofnun. Með fullri virðingu fyrir merkilegum vatnafiskarannsóknum á þeirri góðu stofnun verða þetta seint taldar grundvallarbreytingar í starfseminni. Í frétt á vef ráðuneytisins nýja eru reyndar talin líka landshlutaverkefni í skógrækt – stórkostlegt! – og svo ÍSOR, sem er alls ekki stjórnsýslustofnun heldur fyritæki í ríkiseigu og ætti eiginlega að vera í fjármálaráðuneytinu.

Fyrir utan stofnanir landbúnaðarins – kannski rétt að bíða með þær þangað til ljóst verður um ESB? – var stóri bitinn auðvitað Hafró. Þessi breyting hefði verið í alvöru ef Hafró með rannsóknir sínar og ráðgjöf hefði flust í heilu lagi til umhverfis- og auðlindaráðherrans. Það varð ekki – hagsmunatengslin reyndust greinilega of sterk. Í staðinn fær nýi um- og auð að skipa menn í stjórnina.

Það var sannarlega aumt – og ekki mikill völlur á hinu Græna framboði að standa svona að málum, því þessi skipting milli ráðuneytanna tveggja hlýtur að vera fyrst og fremst á ábyrgð þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Svandísar Svavarsdóttur.

Jeppans dæmi

Ég er bjartsýnismaður af viljastyrk, hvað sem skynseminni líður, og ætla að halda áfram að fagna þessu ágæta ráðuneyti og hinum nýju umhverfis- og auðlindatímum. Umhverfisráðuneytið hefur vaxið og eflst á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan það varð til.

Sem kunnugt er hófst ferill þess í jeppanum hjá Júlíusi Sólnes – sem reyndar var og er sannur umhverfissinni með sínum hætti. Ég er viss um að nýja ráðuneytið á líka eftir að vaxa fram úr þeim þrönga ramma sem VG-ráðherrarnir hafa nú skapað því.

PS daginn eftir:

Menn hafa spurt mig hvort þetta sé virkilega rétt um SA og Jón Gunnarsson. Ágætt að hafa það alveg á hreinu — bæði atvinnurekendasamtökin og hinn ágæti skuggaráðherra Sjálfstæðisflokksins í hvalveiði- og stóriðjumálum vilja hluta umhverfisráðuneytið í sundur og henda bitunum inn í ,,deildir“ annarstaðar í stjórnarráðinu.

Úr ályktun SA jan. 2011:

Samtökin benda á að jafnframt verði könnuð sú hagræðing sem náðst getur með því að skipta verkefnum umhverfisráðuneytis milli iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis án þess að slaka á efnislegum kröfum í umhverfismálum.

Úr þingræðu JG 13.9. 2011:

Einhverjir þingmenn hafa sagt að umhverfisráðuneyti ætti að vera meginráðuneyti allra ráðuneyta. Í mínum huga er umhverfisráðuneytið dæmi um ráðuneyti sem má leggja niður. Þar væri hægt að spara alveg heilmikið. Það ættu að vera umhverfisdeildir í atvinnuvegaráðuneytunum þannig að við tryggðum hagsmuni á vettvangi, þá hagsmuni sem ber að verja þar.

 

 

Flokkar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur