Föstudagur 24.2.2012 - 09:37 - 20 ummæli

Miða betur, Salvör og Pawel

Alveg eðlilegt að stjórnlagaráðsmenn séu pirraðir á seinagangi kringum stjórnarskrárfrumvarpið á alþingi. Pawel Bartoszek skýtur hinsvegar vel yfir markið í gagnrýnispistli sínum í Fréttablaðinu í dag, og Salvör Nordal er líka á einhverri skrýtinni vegferð í hálfgerðu nöldurbréfi frá í fyrradag.

Hvað er nú að gerast í málinu? Jú, þingnefnd hefur farið vandlega yfir frumvarpið, kallað eftir umsögnum, fengið til sín gesti, rætt málið í heild og einstaka hluta þess. Næst ætlar nefndin að bera álitamál sem upp hafa komið, og breytingartillögur sem nefndin eða nefndarmenn hafa í huga, undir þá sem smíðuðu frumvarpið, nefnilega stjórnlagaráðið fá því í fyrrasumar.

Stjórnlagaráðið getur þá breytt frumvarpinu ef því sýnist svo, en svo breytt fer það í þjóðaratkvæðagreiðslu: Já eða nei. Ef tillögum um ný grundvallarlög er hafnað, nú þá er allt búið, en ef meirihluti styður málið heldur þingnefndin áfram störfum – og fjallar þá sérstaklega um nokkur álitamál sem kjósendur fá tækifæri til að lýsa til hug sínum. Þessi álitamál varða einstaka merkilega þætti stjórnarskrárinnar en ekki kjarna hennar, sem er viðfangsefnið í sjálfri atkvæðagreiðslunni.

Málið fer svo sína leið í þinginu, líklegast á næsta þingi af því við núverandi skipan verður að rjúfa þing þegar samþykktar eru breytingar á stjórnarskrá, og svo þarf fyrsta þing eftir kosningar að samþykkja það aftur óbreytt.

Salvör kvartar yfir því að ekki sé nægur tími fyrir ráðið. Rétt – og var ekki heldur í sumar leið. Á hinn bóginn eru vanir menn í verkunum, og spurningarnar frá þingnefndinni, sem sjá má í símskeytastíl á forsíðu Fréttablaðsins í dag, eiga að hafa blasað við öllum stjórnlagaráðsmönnum sem hafa fylgst með umræðu um málið innan þings og utan.

Auðvitað má ímynda sér allskonar aðra aðferð við þetta. Erfitt samt einsog Pawel vill, að þingið sé búið að mynda sér ákveðna skoðun og móta hana í breytingartillögu áður en stjórnlagaráðið er spurt. Hefði það ekki einmitt verið vanvirða við ráðið og þann lýðræðisferil sem að baki lá?

Andskotar nýrrar stjórnarskrár

Erfiðleikarnir í þessu liggja ekki í leti, heimsku eða hroka nefndarmanna í stjórnlaga- og eftirlitsnefnd alþingis, einsog mætti lesa úr pennum þeirra Pawels og Salvarar, heldur er þránd í götu nýrra stjórnlaga einkum að finna í stjórnmálaflokknum sem mesta ábyrgð ber á hruninu, Sjálfstæðisflokknum svokallaða, og að hluta til líka í nýjum og gömlum fylgiflokki hans, hinum svokallaða Framsóknarflokki. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi lagst gegn stjórnarskrárvinnunni og reynt við hvert einasta skref að spilla fyrir verkunum, að gera ferlið tortryggilegt, að draga í efa hæfi og umboð stjórnlagaráðsmanna, og haldið fast við að stjórnlagavinnan eigi hvergi heima nema í launhelgum alþingis í traustri umsjá lögfræðinga sem Sjálfstæðisflokkurinn velur.

Ástæðurnar eru auðvitað að þeim sárnar missir valda sem þeir töldu sjálfgefin, og svo þau íhaldsfræði að bara hin arfhelga elíta hafi rétt til að skipa grundvallarmálum í samfélaginu – en hér er auðvitað hrápólitík líka – svosem hörð andstaða við ákvæðið góða um þjóðareign auðlinda, sem stjórnlagaráðið samþykkti að lokum einum rómi.

Af hverju beina þau Salvör og Pawel ekki spjótum sínum að þessum andskota stjórnarskrármálsins heldur en að vera að skrattast í henni Valgerði?

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.2.2012 - 12:23 - 45 ummæli

Níu sinnum segðu já

Lilja Mósesdóttir fór mikinn í ræðustól þingsins áðan út af hæstaréttardómnum um gengislánin. Lögin væru dæmi um foringjaræði og skort á sátta- og samningsvilja.

Hvernig sem hægt er að fá þessa niðurstöðu í dómsmálinu – gleymdi Lilja Mósesdóttir að rifja það upp í ræðu sinni að sjálf greiddi hún atkvæði í lok 2. umræðu um málið níu sinnum, með því að segja já, fyrst við öllum breytingartillögum og svo við málinu sjálfu í heild.

Ætli við höldum áfram öðruvísi en með auðmýkt, við sem studdum þetta frumvarp eða lögðumst ekki gegn því , í desember 2010. Allir alþingismenn nema Hreyfingarfólkið. Líka Lilja Mósesdóttir sem níu sinnum sagði já.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.2.2012 - 07:52 - 23 ummæli

Formaður Sjálfstæðisflokksins er kjáni

Bjarni Benediktsson hefur nú með sínum hætti svarað spurningum DV um hlut sinn að Vafningsmálinu. Hann kallar spurningarnar að vísu pólitískar árásir, en eftir að DV birti skjal sem augljóslega var búið til annan dag en dagsetning þess sagði til um ákvað Bjarni að svara. Það ber auðvitað að meta við hann.

Svarið er tvennskonar: 1) Já, ég skrifaði undir eftir á, en það gera allir. 2) Nei, ég vissi ekkert undir hvað ég var að skrifa.

Svarið gefur tvær vísbendingar um atferli og lyndiseinkunn Bjarna Benediktssonar, lögfræðings, alþingismanns og fyrrverandi kaupsýslumanns:

Annarsvegar að formaður Sjálfstæðisflokksins skrifi undir hvað sem er að beiðni ættingja sinna.

Hinsvegar að formaður Sjálfstæðisflokksins sé einfeldningur – kjáni á daglegu máli – sem ekki veit undir hvað hann er að skrifa eða hvers vegna hann er beðinn að skrifa undir. Og er alveg sama.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.2.2012 - 12:09 - 26 ummæli

Af hverju svararðu ekki, Bjarni?

Var að lesa hina frægu grein Hallgríms Helgasonar um Glitni, Milestone, Sjóvá og Vafning – hef satt að segja ekki kynnt mér þetta mál áður að gagni og var utan landsteina þegar greinin birtist. Bjarni brást við grein Hallgríms með einum saman fúkyrðum. Í helgarblaði DV (bls. 12–13) er enn spurt sjö spurninga um málið af því Bjarni Benediktsson, alþingismaður og formaður utanríkismálanefndar vor og haust 2008, alþingismaður, formaður Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður tillögu um niðurfellingu hrunmáls gegn fyrrverandi forsætisráðherra í ársbyrjun 2012 – hafi skrifað undir fölsuð skjöl.

Þess er meðal annars spurt hvenær Bjarni Benediktsson skrifaði undir veðsamninginn mikla fyrir ættingja sína – hvort dagsetningin hafi verið röng, og um það hvað Bjarni Benediktsson vissi um lánamálið þegar hann skrifaði undir, og um undirrót sölunnar á hlutabréfum Bjarna í Glitni skömmu síðar.

Hallgrímur spyr líka margra spurninga í greininni sinni – meðal annars um það hvort Bjarni hafi skilið hversu alvarlegt málið var fyrir Glitni, aðra banka og þar með íslenska ríkið – og hvort hann hafi í því tilviki sagt forsætisráðherranum, Geir H. Haarde, frá gjörningi sínum og stöðu Glitnis.

Það er ekki Hallgríms, eða DV, eða mitt, að segja til um hvort Bjarni braut lög, og hverjar málsbætur hann þá hefði haft. Ef við viljum fá svör um þann part Vafningsmálsins væri líklega hendi næst að tala við lögregluna.

Það er hinsvegar algerlega okkar mál, mitt, Hallgríms, DV, almennings og kjósenda í landinu að fá frá Bjarna svör sem varpi ljósi á siðferðilega stöðu hans við þessa Vafningsgjörninga og stöðu hans við upprifjun þeirra síðar – svo sem núna síðast í fúkyrðaflaumnum yfir Hallgrími Helgasyni.

Af hverju svararðu ekki, Bjarni?

Hvað er að? Getur verið að almennileg svör geti spillt hugsanlegum vitnaleiðslum í málinu gegn Glitnismönnum? Að almennileg svör gætu leitt til sérstaks vitnisburðar Bjarna fyrir landsdómi um hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins vissu um stöðu bankanna vorið 2008?

Af hverju í ósköpunum kemur ekkert svar frá Bjarna Benediktssyni?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.2.2012 - 13:18 - 8 ummæli

Vaðlaheiðarforsendur

Ein af skýrslunum í málinu sem yfir stendur um Vaðlaheiðargöng er frá fyrirtækinu „IFS Greiningu“, unnin á vegum fjármálaráðuneytisins. Í skýrslunni er fjallað um ýmis álitaefni um gangaáætlunina, og meðal annars komist að því að ríkið þyrfti að leggja til sirka hálfan annan milljarð í hlutafé til að dæmið gangi upp. Nú er einmitt verið að búa til frumvarp um eitthvert slíkt framlag uppi í fjármálaráðuneyti, og verður fróðlegt að sjá hvaða mynd það tekur á sig.

Úr talsverðri skýrslu IFS hafa aðstandendur ganganna látið sér nægja í fréttum og fyrirsögnum aðeins einn forsetningarlið, þrjú orð, sem eiga að sýna að skýrslugerðarmenn ráðuneytisins telji allt í himnalagi með áætlun hlutafélagsins góða um göngin. Þetta eru orðin

„innan raunhæfra marka“

um forsendur áætlunarinnar. Síðastur endurtekur þetta í Morgunblaðsgrein í dag Pétur Þór Jónasson, einn þriggja stjórnarmanna í Vaðlaheiðargöngum hf.

En orðin eru fleiri en þrjú. Setningin er svona í heild:

IFS Greining sér ekki ástæðu til annars en að telja að viðskiptaáætlun Vaðlaheiðarganga hf. um rekstrar- og viðhaldskostnað sé innan raunhæfra marka þar sem þær byggja á forsendum Vegagerðarinnar.

Greinendurnir sjá sumsé ekki ástæðu til að efast um áætlunina – af því hún byggist á forsendum frá Vegagerðinni! Greinendurnir viðurkenna að þeir hafi ekki metið þessar forsendur sjálfir heldur taki við þeim gagnrýnislaust frá hæstvirtri Vegagerð.

Mér er jafnhlýtt til okkar góðu Vegagerðar og flestum öðrum – en einmitt um þessar forsendur frá Vegagerðinni standa efasemdir og gagnrýni – að þær séu ekki nógu traustar. Vinna greiningarfyrirtækisins IFS hefði þessvegna einmitt átt að beinast að þessum forsendum.

Meðal annars af því að þessi sama Vegagerð er meirihlutaeigandi í Vaðlaheiðargöngum hf. á vegum nokkurra ráðherra og meirihluta alþingis.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 13:40 - 23 ummæli

Eyjan, ríkisstjórnin og ég

Í „orðinu á götunni“ (aldrei skilið það dálksheiti á íslensku) á Eyjunni í dag er fjallað um meint tíðindi í þingflokki Samfylkingarinnar í gær. Þar er rætt um „tilfinningahita“ sem „lýsti sér meðal annars í yfirlýsingum Marðar Árnasonar um að hann myndi hætta að styðja ríkisstjórnina ef tillögu Bjarna yrði ekki vísað frá“.

Og þá er frá því að segja að slík yfirlýsing eða hótun er engin til og hefur aldrei verið – þetta er bara púra della. Kannski hefur einhver góðgjarn heimildamaður talið að málstaður hans eða hagsmunir væru af þeim gæðum að ekki munaði um ofurlítinn skáldskap í Eyjuslúðrinu? Umrótstímar og svona …

Efnislega er það sumsé þannig að ég styð ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur – og tel við hæfi eftir atburði gærdagsins að lýsa yfir sérstökum stuðningi við forsætisráðherra þeirrar stjórnar. Aðeins daufari er stuðningurinn við suma aðra ráðherra vissulega í bili – einsog gengur.

Soldið skrýtið að lenda í svona fréttaflutningi. Kannski líka af því ég er einhverskonar partur af Eyjunni – ennþá a.m.k. – og alltaf til viðræðu í síma 896 1385 og netfanginu mordur@althingi.is – en þetta er allavega leiðrétt hér með.

Ekki náðist í Björn Inga Hrafnsson, eiganda, Karl Th. Birgisson, fyrrverandi ritstjóra, né starfandi blaðamenn Eyjunnar við vinnslu þessarar bloggfærslu.

——-

Síðar um daginn: Samband náðist við Eyjumenn, sem brugðust vel við og hafa leiðrétt orðs-fréttina með afsökunarbeiðni. Og rétt er að taka fram að þegar ekki náðist í fyrrverandi ritstjóra var það til að vita um símann hjhá eigandanum — því að fyrrverandi ritstjóri Eyjunnar er nú hættur störfum á Eyjunni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.1.2012 - 14:54 - 14 ummæli

Fjórir, enginn eða einn

Atli Gíslason sagði í ræðu nú eftir hádegið að sér hefðu orðið á mistök — að greiða atkvæði með lokatillögunni um landsdómsmálið í september 2008. Kjarninn í málflutningi Atla var sá að fjórir hefði verið í lagi fyrir landsdóm, ekki einn. Þegar orðið var ljóst í atkvæðagreiðslunni að tillaga hans um fjóra var fallin, þá hefði átt að gefa mönnum næði til að hugsa málið upp á nýtt.

Atli sagðist hafa orðið hugsi og órólegur með þetta strax eftir atkvæðagreiðsluna í september 2007. En þó líklega ekki 30. september þegar hann sagði í samtali við Vísi.is að  þetta væri í góðu lagi: Fjórir, enginn eða einn:

Spurður hvort honum þyki réttlátt að Geir sé einn dreginn fyrir landsdóm segir Atli: „Ég hugsaði einhvern tíma með sjálfum mér: Fjórir, enginn eða einn. Það er algengt í sakamálum að aðalmaður sé ákærður en aðrir ekki, án þess að ég vilji heimfæra það beint yfir á þetta,“ segir hann.  

Síðan eru sextán mánuðir tæpir, og Atli Gíslason hefur aldei fyrr en nú orðað þá hugsun og óróleika sem fram komu í ræðunni í dag. Og hann tók á sínum tíma einsog ekkert væri kjöri sem formaður saksóknarnefndar alþingis, þeirrar nefndar sem á að fylgjast með málinu og vera tengiliður þingsins við saksóknara. Og hefur þagað sem formaður saksóknarnefndarinnar í sextán mánuði.

Fjórir, enginn eða einn.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.1.2012 - 11:00 - 39 ummæli

Afskræmd pólitík

Ég er ósammála Ögmundi Jónassyni um að nú eigi að afturkalla ákæruna á hendur Geir Haarde, og hissa á því að ráðherra dómsmála vilji stöðva réttarhald í miðjum klíðum.

Drottningargein Ögmundar í opnu Morgunblaðsins vekur ýtarlegar spurningar sem er rétt að leggja fyrir ráðherrann í þingumræðu á föstudaginn – en að einu verður að spyrja strax. Ögmundur getur svarað hér á þessu vefsvæði ef hann vill:

Hvað á ráðherrann við með því að atkvæðagreiðslan um landsdóm á sínum tíma hafi tekið á sig „afskræmda flokkspólitíska mynd“ ?

Þetta er ekki skýrt frekar í stóru Moggagreininni – en hér hlýtur eitthvað að búa undir.

Getur verið að Ögmundur Jónasson sé hér að taka undir þann ómerkilega áróður Sjálfstæðismanna að við í Samfylkingunni höfum með einhverjum hætti skipulagt atkvæðagreiðsluna þannig að flokksfélagar okkar „slyppu“ en ekki hinir tveir?

Ögmundur hefur auðvitað fullan rétt til að taka afstöðu til tillögu Bjarna Benediktssonar, og gera opinbera syndajátningu í Mogganum. Annað mál er hinsvegar að ata auri fólk sem hann á ekkert sökótt við – og starfar með í mikilvægustu ríkisstjórn síðustu áratuga á Íslandi.

Svara strax, Ögmundur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.1.2012 - 12:38 - 9 ummæli

Myrkrið er yndislegt

Ég er víst orðinn fullorðinn – Linda konan mín minnir mig stundum á þetta og telur að það eigi að hafa gerst fyrir nokkrum áratugum …

og eitt sem ég tek eftir núna í borginni þar sem ég hef alltaf átt heima er það að það eru horfnar í henni stjörnurnar á nóttunni. Þegar ég var strákur var stjörnuhiminninn hluti af tilverunni – og skipti talsverðu máli fyrir mína kynslóð í stálpaðri bernsku af því nýhafnar geimferðir kveiktu áhuga á þessum óravíddum og ókönnuðu hnöttum og sólkerfum. Partur af lífsupplifuninni að týna sér í stjörnufjarlægðunum kyrrar vetrarnætur, og reyna jafnvel að þekkja stjörnumerkin. Allavega Karlsvagninn.

Nú er þessi himinn varla til lengur í borginni – út af öllu ljósinu sem við höfum komið okkur upp og slær gulrauðum bjarma á lofthjúpinn fyrir ofan okkur. Maður þarf út í sveit, í talsverða fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, til að rifja undur hins alstirnda næturgeims.

Ljósmengun heitir þetta fyrirbrigði og er vel þekkt í útlöndum meðal stjörnuskoðara og áhugamanna um lífsgæði. Ég hef spurt tvo umhverfisráðherra um afstöðu þeirra til málsins og fengið lítil svör – önnur en þau að þingmaðurinn ætti að líta sér nær. Á mánudaginn er röðin komin að þriðja ráðherranum, Svandísi Svavarsdóttur, sem ég vona að svari betur.

Himinninn úti á Nesi

Á morgun, laugardag, ætlar hinsvegar félagið Græna netið að halda um þetta sérstakan fræðslufund – um verðmæti myrkursins! – og til að geta bæði grillt í stjörnur ef veður er sæmilegt, og skoðað ljósmengunina í borginni er fundarstaðurinn nokkuð óvenjulegur, nefnilega golfskálinn á Seltjarnarnesi.

Gestur fundarins er stjörnuáhugamaðurinn Snævarr Guðmundsson, landfræðingur og leiðsögumaður, sem hefur nýlega kannað ljós og myrkur að næturlagi á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu – og komist að því meðal annars að ljósmengun í einstökum sveitarfélögum er mest í Kópavogi, sem er þar með þeirra upplýstast! Myrkrið er hinsvegar mest á Seltjarnarnesi og Álftanesi, segir Snævarr í háskólaritgerð sinni. Á svæðinu öllu er næturbirta, og þar með hulinn næturhiminn – frá fjórum til sjö sinnum meiri en á Þórshöfn, þar sem enn er stjörnubjart þegar vel viðrar að nóttu.

Upplýst höfuðborg og japönsk hamingja

Líklega er höfuðborgin með grannbæjum eitt af upplýstustu byggðarsvæðum jarðar miðað við höfðatölu, og ekkert undarlegt við að Íslendingar vilji hafa ljós í skammdeginu. Ljósmengun fylgja hinsvegar ýmsir ókostir, þeirra mestur sá að næturhiminn hverfur og stjörnur sjást ekki fyrren talsvert utan við miðbæina. Kynslóðir borgarbarna alast því upp án þess að njóta stjarnanna – og fyrir ferðamenn dregur úr aðdráttarafli Reykjavíkur sem ævintýraborgar myrkurs og norðurljósa.

Norðurljósanna sem Einar Ben reyndi að selja – aðeins á undan sinni samtíð. Nú erum við nefnilega sífellt að selja norðurljósin á Íslandi, meðal annars ungum japönskum pörum sem hingað koma vegna þeirrar fullvissu í landi morgunroðans að einstök hamingja fylgi barni sem getið eru undir norðurljósum …

Ljósmengun er ekki einfalt úrlausnarefni og tengist auðvitað lifnaðarháttum okkar, eyðslusemi og slöseríi. Margt má gera til að draga úr mengun af ljósum án þess að valda óþægindum fyrir umferð, atvinnulíf og sálarástand íbúanna, og er reynt víða erlendis. Hér heima standa Borgnesingar fremstir í flokki við að vinna gegn ofnotkun ljósa í byggð, en Borgarbyggð er eina sveitarfélagið með reglur um þetta.

Koma svo

Fundurinn okkar í  Græna netinu um verðmæti myrkursins verður sumsé laugardaginn 14. janúar, hefst kl. 17, eftir sólsetur, í Golfskálanum á Seltjarnarnesi. Eftri spjall Snævars verður gengið út undir bert loft að líta á himinhnetti og borgarljós einsog veður leyfir.

Allir velkomnir – komiði endilega á einstæðan stjörnufund.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.1.2012 - 10:29 - 32 ummæli

Segðu upp, Steinþór

Einn helsti vandinn í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar er sá að mati bankastjóra og bankaráðs Landsbankans að þar fær yfirmaðurinn ekki nógu há laun. Hann er ekki með nema milljón plús á mánuði – ekki einusinni jafnt og forsætisráðherrann.

Margir væru til í að skipta á áhyggjumálum við Steinþór Pálsson – en við verðum auðvitað að skilja hvað þetta hlýtur að vera erfitt fyrir menn einsog hann: Að vera alltaf litli kallinn þegar bankastjórarnir hittast, að tala við erlenda kollega með tíu sinnum hærri laun, að geta bara keyrt slyddujeppa þegar hinir strákarnir í klúbbnum mæta í tennistímana á almennilegum fjallatrukkum.

Til er þó ráð fyrir Steinþór: Að segja upp hjá Landsbankanum og ráða sig á almennilegum launum hjá einkabransanum – til dæmis einhverjum af fjölmörgum gæðafyrirtækjum í eigu bankakerfisins.

Ég er ekki viss um að Landsbankinn eigi til eilífðar heima í eigu ríkisins, en tel að meðan ríkið á banka eigi að reka þann banka á öðrum forsendum en venjulegan einkabanka. Meðal þeirra forsendna er sú að launamálum sé hagað með siðrænum hætti og í samræmi við launastefnu innan opinbera geirans.

Kannski merkir það að allra mestu snillingarnir fara annað að leita sér að vinnu. En opinber fyrirtæki þurfa þá að hafa aðra kosti – og það hélt ég Landsbankinn í núverandi stöðu hefði svo sannarlega í umróti breytinga og umsköpun fjármálakerfis og atvinnulífs.

Og kannski það sé ekki alltof dónalegt að minna á – einsog ég gerði einusinni í tilefni af umræðum um launamál Seðlabankastjórans – hina frægu setningu Bandaríkjaforseta við embættistöku árið 1961, að við eigum ekki alltaf að hugsa um það sem ég get grætt á landinu mínu

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur