Alveg eðlilegt að stjórnlagaráðsmenn séu pirraðir á seinagangi kringum stjórnarskrárfrumvarpið á alþingi. Pawel Bartoszek skýtur hinsvegar vel yfir markið í gagnrýnispistli sínum í Fréttablaðinu í dag, og Salvör Nordal er líka á einhverri skrýtinni vegferð í hálfgerðu nöldurbréfi frá í fyrradag.
Hvað er nú að gerast í málinu? Jú, þingnefnd hefur farið vandlega yfir frumvarpið, kallað eftir umsögnum, fengið til sín gesti, rætt málið í heild og einstaka hluta þess. Næst ætlar nefndin að bera álitamál sem upp hafa komið, og breytingartillögur sem nefndin eða nefndarmenn hafa í huga, undir þá sem smíðuðu frumvarpið, nefnilega stjórnlagaráðið fá því í fyrrasumar.
Stjórnlagaráðið getur þá breytt frumvarpinu ef því sýnist svo, en svo breytt fer það í þjóðaratkvæðagreiðslu: Já eða nei. Ef tillögum um ný grundvallarlög er hafnað, nú þá er allt búið, en ef meirihluti styður málið heldur þingnefndin áfram störfum – og fjallar þá sérstaklega um nokkur álitamál sem kjósendur fá tækifæri til að lýsa til hug sínum. Þessi álitamál varða einstaka merkilega þætti stjórnarskrárinnar en ekki kjarna hennar, sem er viðfangsefnið í sjálfri atkvæðagreiðslunni.
Málið fer svo sína leið í þinginu, líklegast á næsta þingi af því við núverandi skipan verður að rjúfa þing þegar samþykktar eru breytingar á stjórnarskrá, og svo þarf fyrsta þing eftir kosningar að samþykkja það aftur óbreytt.
Salvör kvartar yfir því að ekki sé nægur tími fyrir ráðið. Rétt – og var ekki heldur í sumar leið. Á hinn bóginn eru vanir menn í verkunum, og spurningarnar frá þingnefndinni, sem sjá má í símskeytastíl á forsíðu Fréttablaðsins í dag, eiga að hafa blasað við öllum stjórnlagaráðsmönnum sem hafa fylgst með umræðu um málið innan þings og utan.
Auðvitað má ímynda sér allskonar aðra aðferð við þetta. Erfitt samt einsog Pawel vill, að þingið sé búið að mynda sér ákveðna skoðun og móta hana í breytingartillögu áður en stjórnlagaráðið er spurt. Hefði það ekki einmitt verið vanvirða við ráðið og þann lýðræðisferil sem að baki lá?
Andskotar nýrrar stjórnarskrár
Erfiðleikarnir í þessu liggja ekki í leti, heimsku eða hroka nefndarmanna í stjórnlaga- og eftirlitsnefnd alþingis, einsog mætti lesa úr pennum þeirra Pawels og Salvarar, heldur er þránd í götu nýrra stjórnlaga einkum að finna í stjórnmálaflokknum sem mesta ábyrgð ber á hruninu, Sjálfstæðisflokknum svokallaða, og að hluta til líka í nýjum og gömlum fylgiflokki hans, hinum svokallaða Framsóknarflokki. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi lagst gegn stjórnarskrárvinnunni og reynt við hvert einasta skref að spilla fyrir verkunum, að gera ferlið tortryggilegt, að draga í efa hæfi og umboð stjórnlagaráðsmanna, og haldið fast við að stjórnlagavinnan eigi hvergi heima nema í launhelgum alþingis í traustri umsjá lögfræðinga sem Sjálfstæðisflokkurinn velur.
Ástæðurnar eru auðvitað að þeim sárnar missir valda sem þeir töldu sjálfgefin, og svo þau íhaldsfræði að bara hin arfhelga elíta hafi rétt til að skipa grundvallarmálum í samfélaginu – en hér er auðvitað hrápólitík líka – svosem hörð andstaða við ákvæðið góða um þjóðareign auðlinda, sem stjórnlagaráðið samþykkti að lokum einum rómi.
Af hverju beina þau Salvör og Pawel ekki spjótum sínum að þessum andskota stjórnarskrármálsins heldur en að vera að skrattast í henni Valgerði?