Laugardagur 31.12.2011 - 15:22 - 22 ummæli

Hressileg átök — sterkari stjórn

Ágætur fundur í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Hressilega tekist á en að lokum gert út um málin: Mikill og skýr meirihluti með Jóhönnu og tillögu hennar um nýja ráðherraskipun.

Þessir flokksstjórnarfundir – sem ég hef líklega setið flestalla að einhverju marki – hafa því miður verið heldur syfjulegar samkomur. Fyrstu árin voru flokksmenn logandi hræddir við allt sem lyktaði af ágreiningi eða átökum, af því andstæðingarnir héldu að fólki þeirri mynd af flokknum að þar væri eitthvert tækifærishröngl og hver höndin upp á móti annarri. Og vissulega munaði oft mjóu þessu fyrstu ár að Samfylkingin héldist í einu lagi. Flokksstjórnarfundirnir voru þessvegna aðallega ræða Össurar formanns og klapp fyrir henni, og síðan kurteislegar umræður með hrósi hver um annan og einkum um forystuna. Stefna og pólitík mótuðust annarstaðar, í þingflokknum, framkvæmdastjórninni og í félögunum að einhverju leyti, en þessir fundir voru einkum því til sönnunar út á við hvað allt gengi vel í flokknum.

Svo komu tímar Ingibjargar Sólrúnar – og þá hélt sýningarhaldið áfram á þessum fundum, nema nú voru höfð viðamikil pallborð og sérdagskrár þar sem gáfumenn úr akademíunni töluðu yfir höfuðið á venjulegu flokksfólki. Samræðustjórnmálin sem Solla kenndi sig við, þau voru einhvernveginn stunduð alstaðar annarstaðar en í flokknum.

Það er til marks um stöðu þessarar stofnunar innan Samfylkingarinnar að ákvörðun um þátttöku í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum var stimpluð á hálftímafundi á Sögu, minnir mig (kom ekki þar!), og það var svo fundur Reykjavíkurfélagsins í Þjóðleikhúskjallaranum sem kom þeirri stjórn að lokum frá, ekki flokksstjórnin.

Þessvegna var alveg príma að fá skoðanaskipti, pólitískan ágreining og allskyns spælingar nýjar og gamlar upp á yfirborðið í gær á gömlu Hótel Esju.

Tala saman

Það er líka augljóst að við tölum ekki nógu mikið saman í Samfylkingunni. Við höfum til dæmis ekki gert almennilega upp við þátttökuna í hrunstjórninni þrátt fyrir umbótanefndina. Í gær voru einmitt áberandi í liði óánægðra ýmsir hugmyndafræðingar og burðarmenn þess stjórnarsamstarfs – þar á meðal Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður, sem í dag skrifar sérkennilegan pistil útfrá nýjasta átrúnaðargoði sínu, aumingja Árna Páli Árnasyni.

Og við höfum heldur ekki talað nógu mikið saman um stefnuna í stjórnarsamstarfinu. Þannig kom í ljós í gær að furðumargir trúnaðarmenn Samfylkingarinnar hafa orðið fyrir áhrifum af þeim áróðri SA og Sjálfstæðisflokksins að stjórnin leggi fæð á atvinnulífið í landinu sem slíkt, eða að minnsta kosti samstarfsflokkurinn í heild sinni. Og dæmin eru hver? Einna helst Magma og Núpó – en bæði þau mál voru snúin og tortryggni gagnvart þeim verkefnum náði langt inn í raðir Samfó. Ég var og er í prinsippinu meðmæltur því að einkabransinn geti átt orkufyrirtæki og leigt auðlindaafnot af almenningi, og mér fannst að það hefði átt að reyna samninga við Núpó, en hef ekki notið mikillar hylli fyrir þessa afstöðu í hópi nánustu samherja í pólitíkinni á græna svæðinu í mínum eigin flokki. Séu menn að tala um stórkarlaprósjekt með virkjunum og álverum þá er staðreyndin – því miður! – sú að það er ekki andstaða eða efasemdir VG, grænna Samfylkingarmanna eða náttúruverndarhreyfingarinnar sem hafa spillt þeim draumahöllum, heldur fyrst og fremst skortur á fjármagni og arfalélegur undirbúningur orkufyrirtækja og iðjuhölda í 2007-stíl.

Við þurfum hinsvegar að taka til hendinni, ekki síst í löggjöf og regluverki, um auðlindir okkar og erlendar fjárfestingar. Til þess ætti stjórnarmeirihlutinn að vera hæfari nú en áður.

Afleit ráðuneyti?

Atvinnuráðuneytið nýja er gamalt stefnumál Samfylkingarinnar, mikilvægt ráðuneyti sem við hefðum öll viljað fá Samfylkingarmann til að móta. Að ætla – einsog heyrðist á sumum í gærkvöldi – að stefna stjórnarsamstarfinu í voða af því Steingrímur væri sestur þangað, það er undarleg ævintýramennska. Nú má vel vera að Steingrímur sé hinn versti maður, en þeir hinir sömu sem í gær voru reiðastir Jóhönnu vegna þessa glapræðis, þeir sögðu ekki múkk þegar illmenninu mikla var afhentur sjálfur ríkiskassinn á silfurfati vorið 2009. Og þeir sögðu reyndar heldur ekki neitt þegar Árni Mathiesen varð fjármálaráðherra með stuðningi Samfylkingarinnar. Einar K. Guðfinnsson varð kvótakerfislénsherra í umboði flokksins. Þegar Samfylkingin setti yfir heilbrigðisþjónustuna sjálfan Guðlaug Þór Þórðarson.

Og það var sérkennilegt að heyra fornar hetjur úr Kópavogi og Garðabæ hóta stjórnarslitum vegna samningsniðurstöðu með Samfylkingarráðherra í forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu!

Árni Páll

Það má að vísu halda því fram að Árni Páll Árnason hafi verið fullseinn að viðurkenna ósigur á fundinum í gær með því að mælast til að flokksstjórnin legðist ekki gegn tillögu formanns og forsætisráðherra. Skipti samt máli að hann gerði það, því hvað sem átök geta verið holl og spennandi eiga ábyrgir stjórnmálamenn ekki að deila deilnanna vegna, og gæta að því að halda opinni braut til framtíðar í þágu sameiginlegs málstaðar. Þetta lærðum við Árni Páll einmitt í slagsmálunum miklu í Alþýðubandalaginu forðum daga.

Hann hefur gert margt gott sem ráðherra félagsmála og svo efnahags- og viðskiptamála, snarpur í málafylgju, duglegur, kann að laða menn til samstarfs. Hann hefur líka haft svolítið of bólgnar hugmyndir um eigið mikilvægi og forustuhlutverk sem leiðtoga einhvers arms „krata“ og Ingibjargar-Sólrúnar-sinna, sem ég hef aldrei skilið hvað gengur út á ef hann er til yfirhöfuð. Kannski þessvegna hafa íhald og Framsókn reynt að gera hann að „sínum manni“ í ríkisstjórninni og stundað á hann klígjukennt oflof. Icesave annars hvað? Efnahags- og viðskiptaráðherrann var vissulega heill í því að reyna einsog hægt var að redda því máli enn eina ferðina – en samt endaði sá pakki þar sem hann átti ekki að enda, í ESA-dómstólnum!

Nú á Árni Páll að taka sér nokkra daga, horfa í eld og ganga með sjó, og koma svo til liðs við okkur í ný verkefni, reynslunni ríkari. Atburðarásin hrifsar menn stundum að ósekju burt frá þeim verkum sem þeim þóttu nánast vera orðin inntak tilveru sinnar, og það er ósköp skiljanlegt að menn sem í slíku lenda fyllist sárindum, og með þeim félagar þeirra og samverkamenn. En engin þau sár hafa hér myndast sem ekki græðir aftur í verkum dagsins.

Sterkari stjórn

Þótt þessi flokksstjórnarfundur okkar í gær hafi verið áhugaverð reynsla fyrir þátttakendur er það nýja ríkisstjórnin sem er undir, ekki smáskærur á Esjuhóteli eina kvöldstund.

Sjálfur er ég ekkert alltof ánægður með niðurstöðuna, og hefði viljað skýrari línur, þar á meðal um það hver tekur við af hverjum hvenær – en í heild styrkir þetta stöðu stjórnarinnar og vinnuandann í stjórnarsamstarfinu. Þær skipulagsbreytingar sem heitið var við upphaf samstarfsins eru að komast í höfn með atvinnuráðuneyti og svo nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nú er von til þess að hægt verði að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið eðlilega og heiðarlega í samæmi við stjórnarsáttmálann, þannig að það verði þjóðarinnar að gera út um málið. Kona er fjármálaráðherra í fyrsta sinn – en um leið eru yfirmannaskipti í því ráðuneyti tákn um að við erum að komast uppúr öldudalnum eftir hrunið.

Og svo er full ástæða til að ætla að Steingrímur J. Sigfússon standi sig vel í stöðu atvinnuráðherra. Ég hef aldrei verið í aðdáendaklúbbi Steingríms, allra síst þegar við vorum í sama flokknum. Ég veit hinsvegar að hann hefur dágott vit á atvinnumálunum og mér sýnist að hinu erfiðu verkefni í Arnarhvoli – og svo enn erfiðari í þingflokki Vinstri-grænna – hafi losað hann við hleypidóma og kreddur sem áður kunna að hafa þvælst fyrir. Hér á eftir að reyna mest á í fiskveiðistjórnarmálinu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur með þessum breytingum unnið sigur og eygir nú árangur á kjörtímabilinu í mörgum þeim málum sem erfiðust þóttu. Það er mikilvægt, og kynni að hafa sín áhrif á ákvörðun sem nú blasir við henni einsog Bessastaðabóndanum: Að halda áfram, eða láta nótt sem nemur og undirbúa forystuskipti í Samfylkingunni.

2 0 1 2

Gleðilegt nýtt ár — einhver sérkennileg fegurð í þessari talnasamsetningu. Og vekur spurn. Ég er nefnilega að lesa Steinana sem tala eftir Þórberg og lifi þessa daga í Suðursveit um aldamótin þarsíðustu. Og allt vekur spurn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.12.2011 - 14:21 - 6 ummæli

Kreddukreppufjör

Stefán Snævarr hefur lag á því að koma viðmælanda sínum á óvart – með því að orða hugmyndir sínar og röksemdir þannig að maður þarf að fara að hugsa upp á nýtt. Og kemst þá að því að viðtekin sannindi eru bara rugl – eða þá að hin viðteknu sannindi eru einmitt sannindi hvað sem þau hafa verið viðtekin og útþvæld.

Kenningar um miðjuna hörðu í pólitík líta fyrst í stað út einsog stílæfingar um bragðið paradox – af því miðflokkar svokallaðir eru yfirleitt frekar slepjulegir, og almennilegt vinstri eða jafnvel hægri hljómar meira töff en miðjumoðið. Þangað til í ljós kemur að miðjan harða er í raun staðföst sósíaldemókrasía sem hafnar öfgum – og beitir sem stjórntæki hinni mjúku hentistefnu: List hins mögulega við að ná árangri.

Eða er ég kannski að túlka mér í hag? Um það snýst líka nýjasta bók Stefáns, Kredda í kreppu, einstaklingsbók gegn hugmyndafræðingum sem ekki vilja kannast við hagsmunatengsl sín (í anda Marx! sem Stefán vill þó ekki viðurkenna um of í sínu sálufélagi).

Þetta nýja úrvalsrit hefur farið lægra en skyldi nú í haust – kann reyndar að verða ein þeirra bóka sem fer fjallabaksleiðina að áhrifum og frægð og verður kúltbók á hægri ferð upp á yfirborðið.

Samt kemur hún á hárréttum tíma: Einmitt eftir heimssögulegan ósigur þeirrar frjálshyggjustefnu sem Stefán hefur í nokkra áratugi haft þvílíkt yndi af að hakka í sig, meðal annnars hér á Eyjunni síðustu misserin.

Sumir sakna í bókinni reynslusagna úr hruninu og skýringa á einstökum leikfléttum útrásarvíkinga og haardískra stjórnmálamanna – og það er rétt, þetta er rit úr akademíunni, ekki undan hvunndegi blaðamannsins. Þar á móti kemur að hinn útlægi Litlahamarsprófessor skrifar af miklu stílfjöri og fullkomnum tökum á efni sínu – og opnar lesandanum góða sýn um lendurnar á mörkum stjórnmála og heimspeki.

Mæli með henni – til dæmis ef það vantar eitthvað í pakkann fyrir áhugamann um stjórnmál. Og þegar við í Samfylkingarfélaginu erum búin á námskeiðinu um hrunið með Jóni Baldvin, þá byrjum við í leshring um Kreddukreppuna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.12.2011 - 13:53 - 22 ummæli

Rugl um Icesave-fyrirsvar

Leiðtogar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins eru ásamt Morgunblaðinu að gera mál úr svokölluðu fyrirsvari í Icesave-málinu. En þetta fyrirsvar er alveg skýrt: Utanríkisráðherra sér um samskipti við önnur ríki, gerir samninga og tekur til varna í málarekstri fyrir hönd Lýðveldisins Íslands. Fyrir kemur að aðrir ráðherrar vinna mikilvæg utanríkisverk á sínu fagsviði, t.d. sjávarútvegsráðherra í hvalamálum og umhverfisráðherra í loftslagsmálum, en þá í umboði utanríkisráðherrans.

Með þessu brölti öllu eru B, D og Moggi líklega að leiða athyglina frá því að Icesave er núna komið fyrir dómstól — sem ýmislegt það fólk taldi áður algerlega fráleitt að mundi gerast þegar það barðist gegn samningum um málið. Niðurstaða málsins fyrir ESA-dómstólnum er auðvitað upp í loft, en við þessu var sérstaklega varað í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðari um þetta mál – sem hefði reyndar verið hægt að ljúka með vel ásættanlegum samningum snemma árs 2010.

Ekki nema von að þeir kalli og æpi, veini og kveinki sér sem bera mesta ábyrgð á núverandi stöðu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 20:18 - 5 ummæli

Stöngin inn

Fyrirspurnir alþingismanna eru sumar einsog skot að marki í fótboltanum, sumar langt framhjá, aðrar lenda í vörninni, enn aðrar grípur ráðherrann fimlega á lofti — en stundum fer boltinn líka beint í mark.

Það er sjaldgæft að ná með fyrirspurn þeim árangri að ráðherra segist ætla að beyta kerfinu, en þetta gerðist samt í gær um fyrirspurn sem ég stóð að um virðisaukaskatt af  áskrift að erlendum blöðum og tímaritum (takk Ian Watson og þið hin í Neytendasamtökunum fyrir samvinnuna).

Í svarinu kemur í ljós að 6 — sex – áskrifendur á Íslandi greiddu virðisaukaskatt af erlendu blaði eða tímariti í fyrra, árið 2010. Frá reglugerð sem sett var um þetta árið 1993, fjármálaráðherra Friðrik Sophusson, urðu greiðandi áskrifendur flestir 38 árið 2005 en flest árin hafa um það bil tíu manns greitt þenna n skatt samkvæmt reglugerð nr. 336/1993.Ísopftas. Áskrifendur eru auðvitað miklu fleiri á Íslandi að erlendu blaði eða tímariti – en borga engan virðisaukaskatt – enda ekkert eftir því gengið að undanskildum bókstafnum í reglugerðinni, og líklega ekki hægt nema með umfangsmiklum lögreglunjósnum!

Tilgangur reglugerðarinnar var reyndar alveg ágætur, nefnilega að jafna stöðu áskrifenda og þeirra sem kaupa erlend blöð í venjulegum verslunum og borga skatt sem verslunin innheimtir og skilar í ríkissjóð. Það átti að gera með því að áskrifandinn tilkynnti sig ,,ótilkvaddur“ og byðist til að borga skattinn. Falleg hugsun hjá Friðriki og þetta hefði örugglega gengið ágætlega í Himnaríki.

Gallinn er líklega sá að ekki er tekið við erlendum fyrirtækjum á virðisaukaskattskrá á Íslandi – sem veldur reyndar fleiri furðulegheitum í viðskiptasamskiptum einstaklinga við útlönd. Nýlega var þetta reyndar tekið upp um rafræna verslun – samþykkt í frumvarpinu sem upphaflega var frá okkur Helga Hjörvar um raf- og vefbækur og tók að lokum til tónlistarniðurhals og lestölva.

Biluð reglugerð

Fjármálaráðherra og hans menn viðurkenna í svarinu að reglugerðin góða virkar ekki – og ætla að skipta um kerfi. Um það er að vísu notað nokkuð hulduhrútslegt orðalag en niðurstaðan er sú sama:

Þær tölur sem raktar eru hér að framan sýna að fáir aðilar greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt vegna kaupa á blöðum og tímaritum erlendis frá. Með vísan til þessa telur ráðuneytið rétt að farið verði yfir reglugerðina í samráði við Íslandspóst, tollstjóra og ríkisskattstjóra með það að markmiði að meta hvort eða eftir atvikum að hve miklu leyti breytinga sé þörf á núverandi fyrirkomulagi.

Stöngin inn.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.11.2011 - 11:11 - 13 ummæli

Íhaldið gegn Palestínu

Á fundi í utanríkismálanefnd í morgun var sagt frá því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætluðu ekki að standa með öðrum nefndarmönnum að jákvæðu áliti um viðurkenningu Palestínu.

Von mun vera á séráliti – og er því hér með spáð að þar telji þau Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir að enn sé ekki rétti tíminn til að stíga þetta skref af því ekki sé ljóst að það leiði til friðar, og ekki sé ljóst um áhrif samtakanna Hamas í Palestínustjórn, og mörg önnur ríki hafi ekki viljað viðurkenna Palestínu. Sem væru hreinar undanfærslur í þeirri stöðu að forseti Palestínu segir (á Evrópuþinginu í Strassborg í október nokkurnveginn):

Margir hafa heitið okkur stuðningi, og við fáum sífellda hvatningu til samninga og friðarumleitana, stöðug fyrirheit um aðstoð til samfélagslegrar uppbyggingar heimafyrir og til þátttöku í samfélagi þjóðanna. Núna er tíminn kominn. Núna þurfum við stuðning, viðurkenningu, atkvæði í öryggisráðinu og á allsherjarþinginu í New York. Núna.

Íslenska íhaldið hafnar samstöðu um að viðurkenna Palestínu – og það er í ágætu samræmi við flokkinn að öðru leyti þessa dagana.

Þeim mun mikilvægari er stuðningur annarra stjórnarandstöðuflokka við málið, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins, sem í þessu efni er sjálfum sér samkvæmur og sögu sinni. Bæði Steingrímur Hermannsson – sem fór til fundar við Arafat forðum daga – og Halldór Ásgrímsson gerðu sér ágæta grein fyrir því hversu mikilvægt það er til lausnar og friðar að vestræn ríki séu í góðum tengslum við Palestínumenn, og áttu verulegan þátt í að móta þá íslensku stefnu sem á næstu dögum leiðir til fullrar viðurkenningar á Palestínu sem frjálsu og fullvalda ríki. Það er þeim Steingrími og Halldóri einmitt til hróss að í þessu máli sinntu þeir ekki óánægjuröddum úr Valhöll.

Annars finnst mér þetta mál að lokum þannig að það stendur upp á þá sem neita að viðurkenna Palestínu að færa rök fyrir þeirri afstöðu sinni. Ríkið Palestína uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru að þjóðarétti til ríkis (í Montevideo-samningnum frá 1933, sjá umsögn Elvu Bjarkar Barkardóttur hér). Ríkin sem Lýðveldið Ísland hefur stjórnmálasamband við eru um það bil tvö hundruð, af margvíslegu tagi, og þeir sem ekki vilja viðurkenna Palestínu þurfa líka að bera rök sín um Hamas og hryðjuverkahópa að ýmsum þeim ríkjum. Að ógleymdu ríkinu Ísrael sem Íslendingar viðurkenndu strax 1948, og veittu mikilvæga aðstoð við umsókn Ísraelsmanna að Sameinuðu þjóðunum. Með stuðningi allra þáverandi stjórnmálaflokka á alþingi.

Í næstu viku kemur endanlega í ljós hvort það tekst aftur í máli Palestínumanna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.11.2011 - 21:57 - 22 ummæli

Aðförin að Berlusconi

Þyngra er en tárum taki að horfa upp á aðförina að Berlusconi á Ítalíu. Bíræfnir stjórnmálamenn – aðalforsprakkinn á vegum Alþjóðabankans (og heitir Mont) – hafa nú hrakið Berlusconi frá völdum og ómerkilegir svokallaðir rannsóknardómararar reyna síðan sem þeir geta að klekkja á honum fyrir upplognar sakir.

Hinn farsæli leiðtogi til margra ára stendur hinsvegar keikur gegn ofureflinu, og um allan heim lúta almennilegir menn höfði í blygðun vegna þessara skuggalegu aðfara – í borginni eilífu þar sem svo margur glæsilegur foringi hefur beint mönnum til frelsis og frægðar.

Í raun stendur Ítalía í blóma eftir stjórnartíð Berlusconis. Allar lestirnar ganga á réttum tíma og orðrómur um óstjórn og yfirvofandi gjaldþrot er einungis lymskuáróður vinstriaflanna.

Ég veit að ég tala fyrir munn allra þeirra sem fylgjast með þessum fréttum, Silvio, og ég tala fyrir hönd þúsunda Íslendinga þegar ég segi við þig að við stöndum öll með þér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.11.2011 - 07:36 - 25 ummæli

Griðrof á þingi

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn á alþingi hefur gripið til óvenjulegs ráðs: Að eyðileggja atkvæðagreiðslur með því að mæta ekki í þær.

Til að atkvæðisgreiðsla sé gild þarf meirihluti þingmanna að taka þátt í henni. Þetta er sjálfsögð lýðræðisregla á þessum vettvangi og útheimtir þá auðvitað að atkvæðagreiðslum sé hagað þannig að sem flestir þingmenn eigi sem auðveldast með að taka þátt í þeim.

Auðvitað er pressan meiri á stjórnarþingmönnum að mæta í atkvæðagreiðslur en á þetta hefur hingað til verið litið sem almenna og sjálfsagða skyldu á þinginu, enda landslög: „Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“ (71. gr. þingskapalaga.) – og hefðin er sú að menn taka saman höndum um að atkvæðagreiðslurnar séu gildar þótt það takist ekki alltaf.

Ég satt að segja man ekki eftir að það hafi áður gerst á þingi að hluti þingheims hafi vísvitandi eyðilegt atkvæðagreiðslu á þennan hátt. Það er alveg ný baráttuaðferð í íslenskri pólitík. Jafnvel á þeim stundum að þingmenn eða heilir þingflokkar hafa talið að meirihlutinn sé að brjóta stjórnarskrána, níðast á lýðræðinu, ráðast að ekkjum, öryrkjum og fátæku fólki, vinna stórspjöll á ginnhelgum náttúrusvæðum, selja landið … – hafa þingmenn á alþingi Íslendinga komið til þingfundar og tekið þátt í atkvæðagreiðslu.

En núna fóru þau Ragnheiður Elín og Gunnar Bragi á taugum yfir heimildum i fjáraukalögum!

Þetta var ekki merkileg atkvæðagreiðsla – um leyfi til kvöldfundar í þinginu. Og yðar einlægur var reyndar sammála ýmsum stjórnarandstæðingum. Sá ekki ástæðu til að flýta fjáraukalögum – óánægður með frekjuna í Steingrími og fleirum sem hindruðu okkur í að bíða eftir Ríkisendurskoðun um Vaðlaheiðargöng – og fannst að oft hefði verið gert hlé og efnt til ráðslags af minna tilefni en þarna komu upp. Ýtti á gula takkann.

Með því að ganga út í atkvæðagreiðslunni um kvöldfund – og ætla sér svo ekki að koma á eftir að geiða atkvæði um fjáraukalögin sjálf – er þetta fólk hinsvegar að rjúfa grið á þinginu og bregðast þeim heitum sem það gekkst undir þegar það tók með þingsetu að sér mikilvæg þjónustustörf fyrir almenning á Íslandi. Brjóta í sundur lögin, hefði kannski verið sagt einusinni.

 En auðvitað eru þau umfram allt að gera sig hlægileg.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.11.2011 - 11:56 - 30 ummæli

Frú Ekkert gegn herra Ekkert

Fátt lýsir betur ótta og eymd Sjálfstæðisflokksins en nýjasta nýtt úr átökunum um formennskuna: Bjarni og Hanna Birna neita í kór að svara ellefu spurningum Fréttablaðsins um afstöðu til brýnna úrlausnarmála í samfélaginu – um gjaldmiðilinn, fiskveiðistjórnina, velferðarniðurskurð, bankafyrirtækin, skuldavanda heimilanna, stjórnarskrárbreytingarnar og svo framvegis og svo framvegis – að ógleymdri lykilspurningu um ábyrgð Flokksins á hruninu.

Formannsefnin hafa hér með ákveðið að gerilsneyða baráttu sína pólitísku innihaldi, einmitt á þeim tímum að ekkert skiptir meira máli í pólitík en innihald.

Nú er eðlilegt að við kosningar af þessu tagi sé reynt að koma í veg fyrir að frambjóðendur berist á banaspjót eða spilli stöðu flokksins. Við þekkjum það úr Samfylkingunni fyrir nokkrum árum. Þá hlífðu frambjóðendurnir Ingibjörg Sólrún og Össur sér ekki við málefnaumræðu þar sem áherslur voru ólíkar – en fóru fram af fullri kurteisi þannig að flokkurinn héldist í einu lagi á eftir. Slíka jafnvægislist má núna til dæmis sjá í baráttu um forsetaframboð hjá repúblikönum vestanhafs, og nýverið lauk prófkjöri franskra sósíalista um forsetaframbjóðanda án blóðbaðs (tár féllu að vísu …). Þessi kosningabarátta í Bandaríkjunum og Frakklandi væri hinsvegar alveg óhugsandi án ólíkra málefnaáherslna – og á báðum stöðum hafa frambjóðendurnir svarað áleitnum spurningum um leiðina út úr kreppunni, vanda skuldugra í ríkjunum, bankamálin, lausnir á siðferðilegum álitamálum og fleira og fleira, eins ólíkir og þessir tveir flokkar eru, GOP og Parti socialiste.

Á Íslandi hinu nýja býður Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar upp á eitt stórt málefnalegt Núll. Herra Ekkert berst um formannsstólinn í gamla valdaflokknum við frú Ekkert.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.11.2011 - 17:59 - 4 ummæli

Saga íslenskrar byggðastefnu

Ef ég væri á Facebook — þá mundi ég núna eftir erfiðan dag á þinginu setja í statusinn þessa tilvitnun sem ég fann um daginn á netinu hjá Kjartani Ólafssyni, háskólakennara á Akureyri:  

Saga íslenskrar byggðastefnu er allt fram á síðustu ár saga markvissrar vannýtingar á vísindalegri þekkingu um eðli nútímasamfélags.

En sannir karlmenn eru ekki á Facebook.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.11.2011 - 14:05 - 23 ummæli

Milljóndollaraspurningin

Opinn fundur um Vaðlaheiðargöng í morgun í umhverfis- og samgöngunefnd: Niðurstaðan að einhver óháður fari yfir útreikninga ríkiseinkafyrirtækins Vaðlaheiðarganga h.f., vonandi að minnsta kosti Ríkisendurskoðun.

Þetta var fróðlegur fundur – þótt áætlanir gangamanna, sem fjármálaráðuneytið blessar, stangist svo ævintýralega á við mat FÍB að maður nær ekki botni.

Þarna var meðal annars fulltrúi MP-banka sem gefur h.f.-inu ráð um fjármögnun. Ég spurði Arnar Guðmundsson einmitt milljóndollaraspurningarinnar:

Fyrst þetta lítur svona vel út – er þá ekki MP-banki til í að fjármagna dæmið?

Svarið var að bankinn sæi bara um ráðgjöfina. Hitt hefði aldrei verið rætt.

En þá ættu Göngin háeff, Steingrímur og Margeir endilega að gera það. Með því að bankinn tæki að sér lánin til Vaðlaheiðarganga væri gulltryggt að kostnaður félli ekki á skattborgarana – og MP mundi græða vel miðað við eigin ráðgjöf.

Og allir brosandi út að eyrum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur