Ágætur fundur í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Hressilega tekist á en að lokum gert út um málin: Mikill og skýr meirihluti með Jóhönnu og tillögu hennar um nýja ráðherraskipun.
Þessir flokksstjórnarfundir – sem ég hef líklega setið flestalla að einhverju marki – hafa því miður verið heldur syfjulegar samkomur. Fyrstu árin voru flokksmenn logandi hræddir við allt sem lyktaði af ágreiningi eða átökum, af því andstæðingarnir héldu að fólki þeirri mynd af flokknum að þar væri eitthvert tækifærishröngl og hver höndin upp á móti annarri. Og vissulega munaði oft mjóu þessu fyrstu ár að Samfylkingin héldist í einu lagi. Flokksstjórnarfundirnir voru þessvegna aðallega ræða Össurar formanns og klapp fyrir henni, og síðan kurteislegar umræður með hrósi hver um annan og einkum um forystuna. Stefna og pólitík mótuðust annarstaðar, í þingflokknum, framkvæmdastjórninni og í félögunum að einhverju leyti, en þessir fundir voru einkum því til sönnunar út á við hvað allt gengi vel í flokknum.
Svo komu tímar Ingibjargar Sólrúnar – og þá hélt sýningarhaldið áfram á þessum fundum, nema nú voru höfð viðamikil pallborð og sérdagskrár þar sem gáfumenn úr akademíunni töluðu yfir höfuðið á venjulegu flokksfólki. Samræðustjórnmálin sem Solla kenndi sig við, þau voru einhvernveginn stunduð alstaðar annarstaðar en í flokknum.
Það er til marks um stöðu þessarar stofnunar innan Samfylkingarinnar að ákvörðun um þátttöku í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum var stimpluð á hálftímafundi á Sögu, minnir mig (kom ekki þar!), og það var svo fundur Reykjavíkurfélagsins í Þjóðleikhúskjallaranum sem kom þeirri stjórn að lokum frá, ekki flokksstjórnin.
Þessvegna var alveg príma að fá skoðanaskipti, pólitískan ágreining og allskyns spælingar nýjar og gamlar upp á yfirborðið í gær á gömlu Hótel Esju.
Tala saman
Það er líka augljóst að við tölum ekki nógu mikið saman í Samfylkingunni. Við höfum til dæmis ekki gert almennilega upp við þátttökuna í hrunstjórninni þrátt fyrir umbótanefndina. Í gær voru einmitt áberandi í liði óánægðra ýmsir hugmyndafræðingar og burðarmenn þess stjórnarsamstarfs – þar á meðal Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður, sem í dag skrifar sérkennilegan pistil útfrá nýjasta átrúnaðargoði sínu, aumingja Árna Páli Árnasyni.
Og við höfum heldur ekki talað nógu mikið saman um stefnuna í stjórnarsamstarfinu. Þannig kom í ljós í gær að furðumargir trúnaðarmenn Samfylkingarinnar hafa orðið fyrir áhrifum af þeim áróðri SA og Sjálfstæðisflokksins að stjórnin leggi fæð á atvinnulífið í landinu sem slíkt, eða að minnsta kosti samstarfsflokkurinn í heild sinni. Og dæmin eru hver? Einna helst Magma og Núpó – en bæði þau mál voru snúin og tortryggni gagnvart þeim verkefnum náði langt inn í raðir Samfó. Ég var og er í prinsippinu meðmæltur því að einkabransinn geti átt orkufyrirtæki og leigt auðlindaafnot af almenningi, og mér fannst að það hefði átt að reyna samninga við Núpó, en hef ekki notið mikillar hylli fyrir þessa afstöðu í hópi nánustu samherja í pólitíkinni á græna svæðinu í mínum eigin flokki. Séu menn að tala um stórkarlaprósjekt með virkjunum og álverum þá er staðreyndin – því miður! – sú að það er ekki andstaða eða efasemdir VG, grænna Samfylkingarmanna eða náttúruverndarhreyfingarinnar sem hafa spillt þeim draumahöllum, heldur fyrst og fremst skortur á fjármagni og arfalélegur undirbúningur orkufyrirtækja og iðjuhölda í 2007-stíl.
Við þurfum hinsvegar að taka til hendinni, ekki síst í löggjöf og regluverki, um auðlindir okkar og erlendar fjárfestingar. Til þess ætti stjórnarmeirihlutinn að vera hæfari nú en áður.
Afleit ráðuneyti?
Atvinnuráðuneytið nýja er gamalt stefnumál Samfylkingarinnar, mikilvægt ráðuneyti sem við hefðum öll viljað fá Samfylkingarmann til að móta. Að ætla – einsog heyrðist á sumum í gærkvöldi – að stefna stjórnarsamstarfinu í voða af því Steingrímur væri sestur þangað, það er undarleg ævintýramennska. Nú má vel vera að Steingrímur sé hinn versti maður, en þeir hinir sömu sem í gær voru reiðastir Jóhönnu vegna þessa glapræðis, þeir sögðu ekki múkk þegar illmenninu mikla var afhentur sjálfur ríkiskassinn á silfurfati vorið 2009. Og þeir sögðu reyndar heldur ekki neitt þegar Árni Mathiesen varð fjármálaráðherra með stuðningi Samfylkingarinnar. Einar K. Guðfinnsson varð kvótakerfislénsherra í umboði flokksins. Þegar Samfylkingin setti yfir heilbrigðisþjónustuna sjálfan Guðlaug Þór Þórðarson.
Og það var sérkennilegt að heyra fornar hetjur úr Kópavogi og Garðabæ hóta stjórnarslitum vegna samningsniðurstöðu með Samfylkingarráðherra í forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu!
Árni Páll
Það má að vísu halda því fram að Árni Páll Árnason hafi verið fullseinn að viðurkenna ósigur á fundinum í gær með því að mælast til að flokksstjórnin legðist ekki gegn tillögu formanns og forsætisráðherra. Skipti samt máli að hann gerði það, því hvað sem átök geta verið holl og spennandi eiga ábyrgir stjórnmálamenn ekki að deila deilnanna vegna, og gæta að því að halda opinni braut til framtíðar í þágu sameiginlegs málstaðar. Þetta lærðum við Árni Páll einmitt í slagsmálunum miklu í Alþýðubandalaginu forðum daga.
Hann hefur gert margt gott sem ráðherra félagsmála og svo efnahags- og viðskiptamála, snarpur í málafylgju, duglegur, kann að laða menn til samstarfs. Hann hefur líka haft svolítið of bólgnar hugmyndir um eigið mikilvægi og forustuhlutverk sem leiðtoga einhvers arms „krata“ og Ingibjargar-Sólrúnar-sinna, sem ég hef aldrei skilið hvað gengur út á ef hann er til yfirhöfuð. Kannski þessvegna hafa íhald og Framsókn reynt að gera hann að „sínum manni“ í ríkisstjórninni og stundað á hann klígjukennt oflof. Icesave annars hvað? Efnahags- og viðskiptaráðherrann var vissulega heill í því að reyna einsog hægt var að redda því máli enn eina ferðina – en samt endaði sá pakki þar sem hann átti ekki að enda, í ESA-dómstólnum!
Nú á Árni Páll að taka sér nokkra daga, horfa í eld og ganga með sjó, og koma svo til liðs við okkur í ný verkefni, reynslunni ríkari. Atburðarásin hrifsar menn stundum að ósekju burt frá þeim verkum sem þeim þóttu nánast vera orðin inntak tilveru sinnar, og það er ósköp skiljanlegt að menn sem í slíku lenda fyllist sárindum, og með þeim félagar þeirra og samverkamenn. En engin þau sár hafa hér myndast sem ekki græðir aftur í verkum dagsins.
Sterkari stjórn
Þótt þessi flokksstjórnarfundur okkar í gær hafi verið áhugaverð reynsla fyrir þátttakendur er það nýja ríkisstjórnin sem er undir, ekki smáskærur á Esjuhóteli eina kvöldstund.
Sjálfur er ég ekkert alltof ánægður með niðurstöðuna, og hefði viljað skýrari línur, þar á meðal um það hver tekur við af hverjum hvenær – en í heild styrkir þetta stöðu stjórnarinnar og vinnuandann í stjórnarsamstarfinu. Þær skipulagsbreytingar sem heitið var við upphaf samstarfsins eru að komast í höfn með atvinnuráðuneyti og svo nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nú er von til þess að hægt verði að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið eðlilega og heiðarlega í samæmi við stjórnarsáttmálann, þannig að það verði þjóðarinnar að gera út um málið. Kona er fjármálaráðherra í fyrsta sinn – en um leið eru yfirmannaskipti í því ráðuneyti tákn um að við erum að komast uppúr öldudalnum eftir hrunið.
Og svo er full ástæða til að ætla að Steingrímur J. Sigfússon standi sig vel í stöðu atvinnuráðherra. Ég hef aldrei verið í aðdáendaklúbbi Steingríms, allra síst þegar við vorum í sama flokknum. Ég veit hinsvegar að hann hefur dágott vit á atvinnumálunum og mér sýnist að hinu erfiðu verkefni í Arnarhvoli – og svo enn erfiðari í þingflokki Vinstri-grænna – hafi losað hann við hleypidóma og kreddur sem áður kunna að hafa þvælst fyrir. Hér á eftir að reyna mest á í fiskveiðistjórnarmálinu.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur með þessum breytingum unnið sigur og eygir nú árangur á kjörtímabilinu í mörgum þeim málum sem erfiðust þóttu. Það er mikilvægt, og kynni að hafa sín áhrif á ákvörðun sem nú blasir við henni einsog Bessastaðabóndanum: Að halda áfram, eða láta nótt sem nemur og undirbúa forystuskipti í Samfylkingunni.
2 0 1 2
Gleðilegt nýtt ár — einhver sérkennileg fegurð í þessari talnasamsetningu. Og vekur spurn. Ég er nefnilega að lesa Steinana sem tala eftir Þórberg og lifi þessa daga í Suðursveit um aldamótin þarsíðustu. Og allt vekur spurn.