Mánudagur 4.7.2011 - 10:05 - 11 ummæli

Isavia: Svör í skötulíki

Björn Óli Hauksson forstjóri Isaviu ohf. hefur vinsamlegast sent mér svör við spurningum sem ég sendi honum í síðustu viku um auglýsingar Alþjóða-dýraverndarsamtakanna IFAW í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bréf Björns Óla er hér.

Um leið og þökkuð eru skjót svör verð ég að lýsa vonbrigðum yfir því að þau eru í skötulíki. Opinbera hlutafélagið er greinilega í vandræðum með að skýra viðbrögð sín í málinu og virðist hafa leikið af fingrum fram við undirleik hagsmunaafla.

Ég spurði þriggja spurninga. Fyrst um það hvaða reglur giltu um auglýsingar í Leifsstöð. Svarið er að um þær gildi siðareglur SÍA (hér) – samtaka auglýsingastofa. Það er klént svar, því þær reglur gilda um allar auglýsingar sem félagar í SÍA senda frá sér, sem eru yfirgnæfandi meirihluti allra almennra viðskiptaauglýsinga. Svarið leiðir þessvegna strax til næstu spurningar: Við hvaða siðareglu SÍA telja forsvarsmenn Isaviu að umræddar auglýsingar varði?

Frekari skýring forstjóra Isaviu ohf. við svar sitt er þessi: „… ekki er venja að birta auglýsingar sem varða afstöðu í álitamálum á borð við stjórnmál, trúmál eða auglýsingar sem fela í sér mismunun eða neikvæða afstöðu, t.d. til manna, málefna eða einstakra atvinnugreina.  Samgöngumiðstöð Íslands við umheiminn er Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hana ber ekki að nýta í þessum tilgangi. Í umræddri afstöðu felst ekki ritskoðun eða atlaga að tjáningarfrelsi.“

Þessi skýring vekur fleiri spurningar en hún svarar, en hér skal þessi látin nægja: Hvar kemur þessi meinta venja fram í kynningargögnum Isaviu ohf., stjórnarsamþykktum eða starfsreglum, og með hvaða hætti?

Önnur spurning mín var um það hver hefði tekið ákvörðunina um að að auglýsingarnar brytu í bága við augýsingareglur Isaviu. Því er ekki svarað, nema í ljós kemur að markaðsdeild fyritækisins samþykkti auglýsingarnar í einhverri gerð. Svarinu fylgir saga málsins af hálfu Isaviu. Þar er sagt öðruvísi frá en í máli auglýsandans, og er fróðlegt. Ég spurði hinsvegar ekki um þetta heldur um það sérstaklega hver hefði tekið ákvarðanirnar og á hvaða forsendum. Þessvegna er rétt að spyrja aftur: Hver tók lokaákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og að þær skyldi taka niður án samráðs við auglýsandann?

Í þriðja lagi spurði ég um fordæmi. Það svar er sem betur fer tiltölulega skýrt: Ekkert.

Orðrétt:

Það eru þó nokkur dæmi þess að samningum um auglýsingar hafi verið rift eða einstökum auglýsingum verið hafnað. Dæmi um það er auglýsing þar sem auglýsandi gerir lítið úr samkeppnisaðila. Einnig hefur  verið neitað að gera samning við einstaka auglýsendur. Til dæmis var hafnað að birta auglýsingar frá nektarstöðum.

Þ.e.a.s.: Engin dæmi eru þess að auglýsingum hafi verið hafnað eða auglýsingasamningum rift á forsendum álíkum þeim sem við sögu koma í IFAW-málinu. Hér þarf því ekki frekari spurningar.

Sendi þennan pistil því vinsamlegast áfram til forstjóra Isaviu ohf. með þökkum fyrir þau svör sem þegar hafa borist og óskum um frekari upplýsingar hið fyrsta.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2011 - 09:33 - 7 ummæli

Isavia spurt um auglýsingar

Sérkennileg viðbrögð hjá opinbera hlutafélaginu sem rekur Leifsstöð að taka niður hvalaauglýsingar Alþjóða-dýraverdarsamtakanna, IFAW, án almennilegra skýringa og ástæðu. Skil ágætlega að halveiðimenn kvarti – en er eitthvað rangt við þá ábendingu að til að geta selt ferðamönnum hvalkjöt að éta þurfi að veiða hvalinn og drepa?

Hvernig sem menn snúa sér í hvalamálinu – sem nú hefur staðið í ein 25 ár, frá banninu 1986! – vita það allir Íslendingar innan og utan ferðaþjónustu að um hvalveiðar við Íslandsmið eru vægast sagt deildar meiningar, og ekki undarlegt að erlendir eða innlendir aðilar vilji koma sjónarmiðum sínum á framfæri, meðal annars við ferðafólk á Íslandi. Hver ætlar eiginlega að koma í veg fyrir það? Og á hvaða grundvelli bregst opinbera fyrirtækið Isavia við auglýsimgunum sem það samdi sjálft um að setja upp í Leifsstöð?

Ég tók eftir því í Fréttablaðinu í morgun að það stendur á svörum hjá upplýsingafulltrúa fyrirtækisins – og þá er best að snúa sér að forstjóranum. Hér er bréf sem ég sendi honum út af þessu núna áðan – birti svörin strax og þau berast:

Til Björns Óla Haukssonar forstjóra Isaviu ohf.

Í tilefni af fréttum um auglýsingar á vegum Alþjóða-dýraverndarssamtakanna, IFAW, í Leifsstöð óska ég eftir svörum við þessum spurningum:

Hvaða reglur gilda um auglýsingar sem Isavia selur í Leifsstöð?

Hver tók ákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og við hverja þeirra?

Hver önnur tilvik eru um að Isavia hf. hafi rift samningum um auglýsingar í Leifsstöð?

Vinsamlegast svarið sem fyrst, í tölvupósti á netfangið, mordur@althingi.is, eða með bréfi til mín á vinnustað, Alþingi, 150 Reykjavík.

Reykjavík 30. júní 2011

            Mörður Árnason alþingismaður,

            formaður umhverfisnefndar, fulltrúi í samgöngunefnd

Afrit:

Þórólfur Árnason stjórnarformaður Isaviu

Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW á Íslandi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.6.2011 - 10:34 - 23 ummæli

Málssókn í leynum?

Hvað í ósköpunum er að því að saksóknari alþingis noti aðferðir nútímans – netið – til að kynna málsskjöl í máli sem honum hefur verið falið að reka gegn fyrrverandi forsætisráðherra landsins ? – um vanrækslu í trúnaðarstarfi sem hafi átt þátt í efnahagshruninu haustið 2008.

Hafa þeir sem hæst láta kannski ekki nennt að skoða hið umtalaða vefsetur? (r, skoða endilega!) Eða er bara verið að reyna að búa til samúð með hinum ofsótta sakleysingja til að koma höggi á mann og annan?

Á vefsetri saksóknara alþingis er nefnilega nákæmlega ekki neitt nema þau málsskjöl sem fram eru komin í  málinu gegn Geir H. Haarde, gögn sem sjálfsagt er að allir geti kynnt sér og fjallað um. Eða vilja menn að þetta sögulega dómsmál um hrunið fari fram fyrir luktum dyrum?  í leynum?

Þeir sem telja að Geir sé saklaus og málssóknin gegn honum óverðskulduð – þeir ættu einmitt að fagna því að öll skjöl málsins séu algerlega opinber. Sjálfsagt er svo að gögn frá verjanda fari á netið líka, með opinberri aðstoð ef vill. Dómurinn sjálfur er háður í heyranda hljóði – þar eru fjölmiðlamenn og almennir áheyrendur einsog pláss er til. Og væri nú annaðhvort.

Við losnum ekkert við þetta mál með því að loka augunum, hvað sem hverjum og einum finnst. Ég átti hlut að þeirri ákvörðun alþingis að höfða mál gegn Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og tel að það hafi verið rétt ákvörðun. Ég tel að alþingi hefði einnig átt að höfða mál gegn hinum þremur sem um ræddi í tillögu þingmannanefndarinnar, Árna Mathiesen, Björgvin G. Sigurðssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Af efnislegum ástæðum, en á vissan hátt sanngjarnara líka gagnvart Geir H. Haarde, hvernig sem hefði farið um sekt og sýknu.

Það varð ekki. Málið gegn forsætisráðherra hrunstjórnarinnar var hinsvegar réttilega höfðað samkvæmt stjórnarskrá og landslögum, og fenginn til saksóknarinnar vammlaus fagmaður, Sigríður Friðjónsdóttir.

Ekki alveg trúverðugt að þeir sem hrópa hæst til verndar persónuhelgi forsætisráðherrans fyrrverandi (dæmi: Bjarni Benediktsson – og svo fleiri hér) skuli nú ráðast að persónu saksóknarans með ávirðingum um ófagleg vinnubrögð og pólitíska þjónkun af ömurlegasta tagi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.6.2011 - 20:44 - 5 ummæli

Harðir og linir

Kannski ætti að taka upp félagaskiptaglugga í pólitíkinni einsog fótboltanum? Þá yrði skipulagður einskonar pólitískur fengitími, til dæmis á vorin, og rétt fyrir áramót, en þar á milli yrðu kjörnir fulltrúar að vera rólegir á þeim stað sem kjósendur skipuðu þeim, eða þeir sjálfir síðast þegar þeir hoppuðu milli glugga – eða hvernig sem þetta er nú gert í fótboltanum. Hét reyndar fardagar á fyrri öldum.

Skemmtilegt með Ásmund Einar Daðason: Þegar hann gekk úr VG sagðist hann ætla að gagnrýna VG frá vinstri. Og samkvæmt því er Framsóknarflokkurinn til vinstri við VG?

Að minnsta kosti heldur meira á móti Evrópusambandinu en VG, að mati formanns Heimssýnar. Eða hvað? Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir á Vísi að vissulega sé flokkurinn skýr valkostur fyrir þá sem eru harðir á móti ESB-aðild. En hann sé líka valkostur fyrir þá sem ekki eru harðir á móti ESB-aðild. Þetta mætti túlka þannig að Framsóknarflokkurinn sé góður valkostur fyrir bæði harða og lina – á móti ESB-aðild.

Það er ekki nema von að Guðmundur Steingrímsson sé farinn að íhuga stöðu sína í flokkinum hans pabba og hans afa. En nú er félagaskiptaglugginn einmitt galopinn hjá okkur í Samfylkingunni eftir ræðu Jóhönnu um síðustu helgi: Velkomin Guðmundur, Siv, Eygló, Birkir Jón og þið hin sem hvorki eruð hörð né lin.

Svo opnum við bara gluggann aftur þegar ekki þarf lengur að rífast um Evrópusambandið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.4.2011 - 10:12 - 16 ummæli

Þingflokkur Vinstri-móti

Í dag ætla þau Atli, Ásmundur Einar og Lilja Mós að stofna nýjan þingflokk.

Kannski.

Til þess þarf einmitt þrjá þingmenn, og þetta „borgar sig“ samkvæmt þingsköpum og reglum alþingis. Þrjú saman fá þau sérstakan starfsmann og meiri pening en sitt í hverju lagi, og í innanþingspólitíkinni komast þau sem þingflokkur að samráðsborði með hinum þingflokkunum, sem skiptir miklu máli við skipulagningu þingsins og gang mála frá degi til dags. Á þinginu er nefnilega einskonar þingflokkaræði – og þingmaður einn saman utan þingflokka á sér ósköp auma ævi.

Kannski. 

Þótt það sé ekki sérlega merkileg athöfn að stofna hentiþingflokk er í sjálfu sér ekkert að því að finna. Þetta er kostur í stöðunni, og þingmaður hlýtur að skoða þá kosti sem honum gefast hverju sinni til aukinna áhrifa í þágu málefnanna – og í þágu kjósendanna sem við efumst ekki um að hafi einmitt verið að gefa Ásmundi, Lilju og Atla alveg sérstakt umboð með því að kjósa V-listana í Reykjavíkurkjördæmi suður, Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum vorið 2009.

Kannski.

Þetta yrðu reyndar ekki sérlega merk söguleg tíðindi. Menn muna til dæmis ör-þingflokk Inga Björns Albertssonar og Hreggviðs Jónssonar – sem kölluðu sig Frjálslynda hægrimenn þegar þeir klufu sig út úr Borgaraflokknum 1989, og voru einmitt í andstöðu við ríkisstjórnaraðild þess flokks á miklum erfiðleikatímum. Síðan var lágmarkstala í þingflokki færð úr tveimur í þrjá. Og þegar til varð þingflokkur Samfylkingarinnar veturinn 1998–99 með aðild flestra þingmanna úr Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Kvennalista og Þjóðvaka – þá stofnuðu þeir sem lentu upp á skeri sérstakan þingflokk óháðra, „einkum til samstarfs og aukinna áhrifa þingmannanna innan þings, en ekki um sérstök málefni eða framboð“ einsog segir í viðeigandi neðanmálsgrein um þetta á vefsetri alþingis. Uppúr þessum þingflokki spratt svo seinna sjálft VG – en Þingflokkur óháðra var þó fyrst og fremst hentifélag þriggja vinstrigrænna þingkarla, Hjörleifs, Steingríms J. og Ögmundar, með Kristínu Ástgeirsdóttur sem hafði orðið viðskila við systur sínar úr Kvennó og „átti sig sjálf“ um þær mundir.

Kannski.

Það er eiginlega nauðsynlegt að vera í þingflokki ef alþingismaður ætlar sér raunveruleg störf á þinginu. Fyrir fæsta þingmenn er þetta nokkurntíma neitt mál – þeir voru kosnir inn í ákveðinn þingflokk og telja sig eiga þar heima hvernig sem vistin kann að vera þá og þá stundina. Stundum gengur samstarfið vel, stundum myndast fylkingar innan þingflokksins, skoðanahópar um einstök mál eða viðvarandi flokkadrættir, stundum lenda menn útí horni, og það kemur fyrir að manni líður skárst útí horni! en oftast er það samt þannig að hver þingmaður ber ábyrgð á afstöðu þingflokksins alls, meiri eða minni, og á sinn þátt í að móta honum stefnu, við landstjórnina og í þinglegum verkefnum.

Kannski. 

Gallinn við nýjan þingflokk Atla, Lilju og Ásmundar Einars er einkum sá að þeir þrír þingmenn þekkja eiginlega ekki annað úr fyrri þingstörfum sínum en viðvarandi flokkadrætti. Öllum þremur virðist þeim líða best úti í horni, sem ofsóttum píslarvottum, og eru því vönust að taka sjálfkrafa afstöðu á móti sérhverri niðurstöðu sem meirihluti þingflokksins hefur komist niður á við þá erfiðu siglingu um raunsævi sem Vinstrigrænir hafa haft að hlutskipti undanfarin tvö ár.

Kannski.

Þessvegna er núna hinn grimmi efi. Að vera þingflokkur eða vera ekki þingflokkur. Lilja, Atli og Ásmundur Einar þurfa nefnilega sem þingflokkur – jafnvel sem hentiþingflokkur – að standa saman. Taka afstöðu með einhverjum eigin málum. Ekki vera hvert á móti öðru heldur gera hvert við annað þær málamiðlanir sem styrki eininguna og efli málstaðinn. Jafnvel þótt málstaðurinn sé „ekki um sérstök málefni eða framboð“ heldur einkum á lofti hafður til „aukinna áhrifa þingmannanna innan þings“.

Kannski.

Hérmeð er þeim Ásmundi Einari Daðasyni, Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur óskað góðs gengis við þetta verkefni. Þingmennirnir þrír segjast ekki vera farnir úr gamla flokknum sínum og þessvegna er alveg sjálfsagt að heiti nýja þingflokksins beri eitthvert svipmót þeirrar fortíðar. Hvernig væri að kalla nýja þingflokkinn bara Vinstri-móti?

Kannski.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.4.2011 - 19:42 - 11 ummæli

Vel, eða alls ekki, takk

Í kvöld var þess minnst á 15 sekúndum í fréttatíma Sjónvarps að fyrir fjörutíu árum komu handritin heim. Nokkrar svipmyndir af bryggjunni og flett gömlum skinnskræðum. Síðan komu almennilegar skemmtifréttir úr dýragörðunum og af eftirmálum bikarkeppninnar á Spáni.

Í gærkvöldi var á sama stað frétt af svipaðri lengd um sýningaropnun í Þjóðmenningarhúsinu. Einmana kvenvera glápti innum gler á sýningarskáp, svo voru einhver bréf og nokkrar bækur, og gamalt skrifstofudót. Þetta var víst um Jón Sigurðsson.

Jón og handritin verða náttúrlega að sæta því að vera miklu síðra myndefni en sebrahesturinn í dýragarðinum í Texas. Bara skylduverk hjá sjónvarpsstöð allra landsmanna, sinnt á stysta tíma hugsanlegum. Ekki vera að leggja neitt í þetta, strákar.

En af hverju að segja um þetta fréttir yfirhöfuð? Annaðhvort á að flytja svona fréttir vel – sem er ekki erfitt ef menn reyna — eða þá alls ekki, takk.

Kannski er þessi fréttametnaður í samræmi við það að Ríkisútvarpið hefur núna misst nafnið sitt eftir síðustu andlitslyftingu í Efstaleitinu. Núna er fyrirtækið bara kallað Rúv. Alltof lummulegt að heita eftir ríkinu, og svo erum við aðallega að reka sjónvarp og ekki útvarp.

Rúv.

Ósköp vorkennir maður þessum stjórnendunum að forsjónin skuli ekki hafa útvegað þeim smartari atvinnurekanda.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 07:56 - 20 ummæli

LÍÚ og Vilhjálmur

LÍÚ og Vilhjálmur láta einsog einhver sé að svindla á þeim – gott ef ekki ræna þá.

Samt voru LÍÚ og Vilhjálmur líka að syngja og leika í kosningunum vorið 2009, þegar flokkarnir Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengu hreinan meirihluta á þingi, meðal annars vegna skýrrar stefnu í sjávarútvegsmálum.

Og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar sem þessir flokkar mynduðu er alveg klárt hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í fiskveiðistjórnarmálum í umboði þjóðarinnar.

Hún vill að sýnt verði „með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá“ að „fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar“. Hún telur að úthlutun aflaheimilda sé „tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum“ og segir að bregðast verði við áliti Mannréttindanefndar SÞ, meðal annars með því að „gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind“.

Meðal aðgerða í þessu skyni sé að „takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára“ og einnig að „stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar“. Að auki skyldi „heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina“ – en ekki síst að breyta lögum um stjórn fiskveiða, meðal annars með það að markmiði að

leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili.

Þessi texti lá fyrir vorið 2009. Síðan hefur skilað af sér sérstök nefnd sem stikaði út tvær meginleiðir – útfærsla annarrar var reyndar afar óljós – og nú er komið að því að leggja fram frumvarp að nýjum lögum í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna, stefnu beggja flokka og meirihlutavilja í landinu.

Það sem hægt er að skamma ríkisstjórnina fyrir er að vera ekki löngu búin að koma þessum breytingum á – í stjórnarsáttmálanum er talað um 1. september 2010.

Fyrirgefið barnaskapinn – en eiga menn ekki að búast við að stjórnarflokkar standi við skýra stefnu í samstarfsyfirlýsingu sinni?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 12:45 - 2 ummæli

Icesave í Strassborg

Þátttaka Íslendinga á Evrópuráðsþinginu í Strassborg var heldur endaslepp í þetta skiptið – þetta stendur heila virka viku í hvert sinn, en núna komu skipanir um heimferð á öðrum degi, og í gærkvöldi voru Strassborgarfarar komnir í sætin sín á alþingi Íslendinga og skiluðu hver sínu áliti á vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins: Ég sagði nei, en þau Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir vildu vantraust og kosningar, hvort á sínum forsendum.

Þetta var auðvitað hundfúlt – það er að segja hin bráða heimferð og ekki atkvæðagreiðslan. Evrópuráðið er merkilegur vettvangur og margt þar að gerast sem okkur kemur við – ég var til dæmis á leiðinni í umræðuna í dag um vatnamál þar sem við höfum ýmislegt fram að leggja og annað að læra. Þarna var líka verið að ræða framtíð og aðbúnað mannréttindadómstólsins í Strassborg, sem við þekkjum ágætlega, en hann er rekinn á vegum og á ábyrgð Evrópuráðsins, og að auki á dagskrá ýmis daglegur vandi í álfunni: Skortur á umburðarlyndi í trúarefnum, deilur Rússa og Georgíumanna, samstaða gegn kynferðisglæpum gegn börnum. Svo er Strassborg góður staður, þúsund ára fransk-germönsk miðstöð í Rínardalnum með glæsilegum arkitektúr, menningarviðburðum – og góðum mat sem Alsasshérað er frægt af um heimsbyggðina.

Núna höfðum við hlakkað nokkuð til Íslendingarnir að taka á móti félaga úr heimastjórnmálunum sem sérstökum gesti Evrópuráðsþingsins – nefnilega Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra sem þangað var boðið í tilefni af umræðu um ríkisskuldaskýrslu í kreppunni. Steingrímur hafði lofað sér með fyrirvara um annir í tengslum við atkvæðagreiðsluna á laugardag, og þegar til kom varð ekkert úr heimsókn hans og ræðu. Það var illt, því þarna var tækifæri til að hitta þingmenn frá öllum ríkjum álfunnar – en ferðin hefði tekið hann heila tvo sólarhringa sem einmitt núna reyndust óvenjulega annasamir hjá íslenska fjármálaráðherranum.

Eiginlega varð fjarvera Steingríms til þess að yðar einlægur flutti Evrópuráðsþinginu Icesave-kveðjur – reyndar fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna, eða sósíalista einsog þeir heita á þessum vettvangi. Mér fannst að ég hlyti við það tækifæri að skýra þær forsendur atkvæðagreiðslunnar að enginn borgaði með glöðu geði fyrir mistök sem aðrir væru sekir um, og að alþýðu manna tæki sárt að horfa upp á hnignandi velferðarþjónustu og menntamiðlun vegna ábyrgðarleysis og spillingar í einkageiranum. Úrslitin á Íslandi sýndu þetta vel – en íslenska nei-ið í þessu máli mætti ekki oftúlka. Eftir sem áður væru Íslendingar tilbúnir að standa við skuldbindingar sínar og greiða það sem þeim bæri.

Ræðunni (sjá hér á ensku) var ágætlega tekið, og ekki síður svolitlu ávarpi sem ég flutti yfir sósíalistunum félögum mínum daginn áður, og fór þá sérstaklega fram á skilning og stillingu breskra og hollenskra jafnaðarmanna. Þar sagði John Tomlinson, einn af nestorum breska Verkamannaflokksins, hinsvegar að hvað sem liði úrslitunum á Íslandi og ágætum málflutningi hjá Comrade Arnason, þá mundi Icesavemálið ekki gufa upp.

Og það er rétt. Hinsvegar skiptir öllu máli fyrir okkur núna að kynna stöðuna og slá á ofsaviðbrögð. Það hafa ráðherrarnir og aðrir fulltrúar okkar gert vel síðan um helgina – og þótt ferðin væri heldur stutt til Strassborgar í þetta sinn er ég ágætlega sæll yfir að hafa getað hjálpað til við þá brýnu landkynningu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.4.2011 - 08:38 - 11 ummæli

Meirihlutinn er þarna

Það þýðir ekkert að fárast yfir könnunum.

Munum hinsvegar að þegar kosningabaráttan hófst var í kortunum góður meirihluti. Fólk vildi ljúka málinu með viðunandi samningi og byrja að takast á við önnur verkefni. Fólk vildi standa við skuldbindingar sínar og ganga reistu höfði til samstarfs við grannþjóðir. Og fólk skildi að Icesave-klúðrið er aðeins lítill hluti af heildarkostnaðinum við hrunið – ef við semjum.

Þá gerðu menn sér líka grein fyrir því að nú yrði kosið um þennan tiltekna samning – ekki um ríkisstjórnina, og ekki um forystu Sjálfstæðisflokksins og ekki um Gylfhjálm í Karphúsinu.

Það er ekkert að óttast ef okkur tekst að rifja þetta upp á síðustu dögunum – og fá sem allra allra flesta til að kjósa.

Koma svo …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.3.2011 - 13:17 - 24 ummæli

Vaðlaheiðargöng í samgöngunefnd

Hinn ágæti formaður samgöngunefndar, Björn Valur Gíslason, hefur afar góðfúslega fallist á að hafa sérstakan fund í nefndinni um hin fyrirhuguðu Vaðlaheiðargöng – að öllum líkindum á miðvikudag í næstu viku. Þangað verða boðaðir fulltrúar frá nýja fyrirtækinu, Vaðlaheiðargöngum hf., forystumenn FÍB sem hafa gagnrýnt áformin vægðarlítið og svo vegamálastjóri – sem reyndar er orðinn einhverskonar hluthafi í einkaframkvæmdinni fyrir norðan.

Það verður fróðlegt að heyra í þessum mönnum svara spurningum um hagkvæmni og forgangsröð – og auðvitað mikilvægast að svo sé gengið frá að ekki verði farin hin klassíska íslenska leið og skattborgararnir látnir borga allt saman eftir að hver áætlunin af annarri hefur beðið skipbrot.

Ég ætla að vera jákvæður þangað til ástæða reynist til annars – göng geta verið góður kostur, og skipt miklu máli í byggðasamhengi, en: Það verður að vera alveg ljóst hvert menn stefna með beinni og óbeinni ríkisábyrgð af þessu tagi.

Kannski ætti að hafa þetta opinn fund og senda út beint? Spjalla um það við Björn Val og nefndina.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur