Björn Óli Hauksson forstjóri Isaviu ohf. hefur vinsamlegast sent mér svör við spurningum sem ég sendi honum í síðustu viku um auglýsingar Alþjóða-dýraverndarsamtakanna IFAW í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bréf Björns Óla er hér.
Um leið og þökkuð eru skjót svör verð ég að lýsa vonbrigðum yfir því að þau eru í skötulíki. Opinbera hlutafélagið er greinilega í vandræðum með að skýra viðbrögð sín í málinu og virðist hafa leikið af fingrum fram við undirleik hagsmunaafla.
Ég spurði þriggja spurninga. Fyrst um það hvaða reglur giltu um auglýsingar í Leifsstöð. Svarið er að um þær gildi siðareglur SÍA (hér) – samtaka auglýsingastofa. Það er klént svar, því þær reglur gilda um allar auglýsingar sem félagar í SÍA senda frá sér, sem eru yfirgnæfandi meirihluti allra almennra viðskiptaauglýsinga. Svarið leiðir þessvegna strax til næstu spurningar: Við hvaða siðareglu SÍA telja forsvarsmenn Isaviu að umræddar auglýsingar varði?
Frekari skýring forstjóra Isaviu ohf. við svar sitt er þessi: „… ekki er venja að birta auglýsingar sem varða afstöðu í álitamálum á borð við stjórnmál, trúmál eða auglýsingar sem fela í sér mismunun eða neikvæða afstöðu, t.d. til manna, málefna eða einstakra atvinnugreina. Samgöngumiðstöð Íslands við umheiminn er Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hana ber ekki að nýta í þessum tilgangi. Í umræddri afstöðu felst ekki ritskoðun eða atlaga að tjáningarfrelsi.“
Þessi skýring vekur fleiri spurningar en hún svarar, en hér skal þessi látin nægja: Hvar kemur þessi meinta venja fram í kynningargögnum Isaviu ohf., stjórnarsamþykktum eða starfsreglum, og með hvaða hætti?
Önnur spurning mín var um það hver hefði tekið ákvörðunina um að að auglýsingarnar brytu í bága við augýsingareglur Isaviu. Því er ekki svarað, nema í ljós kemur að markaðsdeild fyritækisins samþykkti auglýsingarnar í einhverri gerð. Svarinu fylgir saga málsins af hálfu Isaviu. Þar er sagt öðruvísi frá en í máli auglýsandans, og er fróðlegt. Ég spurði hinsvegar ekki um þetta heldur um það sérstaklega hver hefði tekið ákvarðanirnar og á hvaða forsendum. Þessvegna er rétt að spyrja aftur: Hver tók lokaákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og að þær skyldi taka niður án samráðs við auglýsandann?
Í þriðja lagi spurði ég um fordæmi. Það svar er sem betur fer tiltölulega skýrt: Ekkert.
Orðrétt:
Það eru þó nokkur dæmi þess að samningum um auglýsingar hafi verið rift eða einstökum auglýsingum verið hafnað. Dæmi um það er auglýsing þar sem auglýsandi gerir lítið úr samkeppnisaðila. Einnig hefur verið neitað að gera samning við einstaka auglýsendur. Til dæmis var hafnað að birta auglýsingar frá nektarstöðum.
Þ.e.a.s.: Engin dæmi eru þess að auglýsingum hafi verið hafnað eða auglýsingasamningum rift á forsendum álíkum þeim sem við sögu koma í IFAW-málinu. Hér þarf því ekki frekari spurningar.
Sendi þennan pistil því vinsamlegast áfram til forstjóra Isaviu ohf. með þökkum fyrir þau svör sem þegar hafa borist og óskum um frekari upplýsingar hið fyrsta.