Magnað viðtal Sigrúnar Davíðsdóttur við Alistair Darling í Sjónvarpinu í gær. Rauði þráðurinn í máli fjármálaráðherrans fyrrverandi var sá að ekkert hefði verið að marka íslenska stjórnmálamenn. Niðurstaða sín eftir samskiptin við þá – íslenska viðskiptaráðherrann, íslenska fjármálaráðherrann og íslenska forsætisráðherrann – hefði verið að annaðhvort hefðu þessir menn ekkert vitað hvað á gekk í bönkunum eða þá verið að villa um fyrir starfsbræðrum sínum í Lundúnum – einmitt þegar á reið að ráðamenn þjóðanna væru algerlega hreinskilnir hvorir við aðra til að geta bjargað því sem bjargað varð.
Bankarnir hefðu líklega hrunið samt, sagði Darling, en við þurftum ekki að fara svona illa út úr því – og vísar þar bæði til illinda eftir fjárflutningabannið með ‚hryðjuverkalögunum‘ og til Icesave-málsins ömurlega. Kurteis maður, Alistair Darling, og vel þjálfaður í hinni hábresku list úrdráttarins – the understatement – en mér leið beinlínis illa sem Íslendingi að hlusta á þessar lýsingar á atferli ráðherra okkar sumar og haust 2008, og ekkert of vel heldur sem Samfylkingarmanni.
Auðvitað er hinn breski stjórnmálamaður að lýsa sinni hlið mála. Sú lýsing passar bara svo miklu betur við það sem í glyttir af raunveruleikanum en þær fátæklegu frásagnir sem hafa fengist frá ráðherrum okkar þremur. ,,Puzzling,“ sagði svo hinn hæverski Darling um skáldsögur Árna Mathiesens.
Viðtalið við fjármálaráðherrann fyrrverandi snerist náttúrlega öðrum þræði um hinn mikla stríðsglæp breska heimsveldisins gegn eyríkinu smáa í norðri, að hafa lýst okkur hryðjuverkamenn þegar verst gegndi og þar með komið landi og þjóð endanlega á kné – en um nokkurnveginn þessa föðurlandslegu söguskýringu hafa stjórnmálamenn hér keppst við að vera sammála næstum allan hringinn.
Hér sagði Darling að vissulega hefði verið óheppilegt að beita lögum sem bæði beindust gegn fjárflótta og hryðjuverkum. Samt hefði það verið eini kosturinn í stöðunni til að koma í veg fyrir frekari þjófnað úr vösum breskra skattgreiðenda. Íslenskir stjórnmálamenn hefðu annaðhvort verið grunlausir eða samsekir – aumingjar eða illmenni, hefði Bólu-Hjálmar sagt – og útslagið hefði gert Kastljóssviðtalið fræga við Davíð Oddsson um skuldir óreiðumanna. Darling: Hann getur ekki hafa sagt þetta án þess að ráðherrarnir vissu af. Og síðan komu ‚hryðjuverkalögin‘.
Gott að fá staðfest það sem mann grunaði allan tímann: Hinn raunverulegi hryðjuverkamaður í hruninu var formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Við hryðjuverkin beitti hann svo fyrir sig kjánunum í ráðuneyti Geirs Hilmars Haarde.