Föstudagur 11.3.2011 - 10:59 - 28 ummæli

Hryðjuverkamaðurinn í Seðlabankanum

Magnað viðtal Sigrúnar Davíðsdóttur við Alistair Darling í Sjónvarpinu í gær. Rauði þráðurinn í máli fjármálaráðherrans fyrrverandi var sá að ekkert hefði verið að marka íslenska stjórnmálamenn. Niðurstaða sín eftir samskiptin við þá – íslenska viðskiptaráðherrann, íslenska fjármálaráðherrann og íslenska forsætisráðherrann – hefði verið að annaðhvort hefðu þessir menn ekkert vitað hvað á gekk í bönkunum eða þá verið að villa um fyrir starfsbræðrum sínum í Lundúnum – einmitt þegar á reið að ráðamenn þjóðanna væru algerlega hreinskilnir hvorir við aðra til að geta bjargað því sem bjargað varð.

Bankarnir hefðu líklega hrunið samt, sagði Darling, en við þurftum ekki að fara svona illa út úr því – og vísar þar bæði til illinda eftir fjárflutningabannið með ‚hryðjuverkalögunum‘ og til Icesave-málsins ömurlega. Kurteis maður, Alistair Darling, og vel þjálfaður í hinni hábresku list úrdráttarins – the understatement – en mér leið beinlínis illa sem Íslendingi að hlusta á þessar lýsingar á atferli ráðherra okkar sumar og haust 2008, og ekkert of vel heldur sem Samfylkingarmanni.

Auðvitað er hinn breski stjórnmálamaður að lýsa sinni hlið mála. Sú lýsing passar bara svo miklu betur við það sem í glyttir af raunveruleikanum en þær fátæklegu frásagnir sem hafa fengist frá ráðherrum okkar þremur. ,,Puzzling,“ sagði svo hinn hæverski Darling um skáldsögur Árna Mathiesens.

Viðtalið við fjármálaráðherrann fyrrverandi snerist náttúrlega öðrum þræði um hinn mikla stríðsglæp breska heimsveldisins gegn eyríkinu smáa í norðri, að hafa lýst okkur hryðjuverkamenn þegar verst gegndi og þar með komið landi og þjóð endanlega á kné – en um nokkurnveginn þessa föðurlandslegu söguskýringu hafa stjórnmálamenn hér keppst við að vera sammála næstum allan hringinn.

Hér sagði Darling að vissulega hefði verið óheppilegt að beita lögum sem bæði beindust gegn fjárflótta og hryðjuverkum. Samt hefði það verið eini kosturinn í stöðunni til að koma í veg fyrir frekari þjófnað úr vösum breskra skattgreiðenda. Íslenskir stjórnmálamenn hefðu annaðhvort verið grunlausir eða samsekir – aumingjar eða illmenni, hefði Bólu-Hjálmar sagt – og útslagið hefði gert Kastljóssviðtalið fræga við Davíð Oddsson um skuldir óreiðumanna. Darling: Hann getur ekki hafa sagt þetta án þess að ráðherrarnir vissu af. Og síðan komu ‚hryðjuverkalögin‘.

Gott að fá staðfest það sem mann grunaði allan tímann: Hinn raunverulegi hryðjuverkamaður í hruninu var formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Við hryðjuverkin beitti hann svo fyrir sig kjánunum í ráðuneyti Geirs Hilmars Haarde.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.2.2011 - 09:42 - 6 ummæli

Árbót

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Árbótarmálið er komin. Hér eru  tvær málsgreinar úr samantektarkaflanum:

Lokauppgjörin vekja sérstaka athygli, ekki aðeins vegna þess að þau varða umtalsverða fjármuni, þ.e. alls um 84 m.kr. að núvirði, heldur einnig vegna þess að þau orka um margt tvímælis. Miðað við hvernig staðið var að uppsögn samninga við meðferðarheimilin að Torfastöðum og í Árbót, þ.e. þeim var sagt upp á lögmætan hátt með tilskildum fyrirvara (tólf eða sex mánuðum), virðast heimilin ekki hafa átt lögvarða kröfu til annarra greiðslna en vegna umsamins uppsagnarfrests. … Í báðum þessum til-vikum samdi ráðuneyti félagsmála engu að síður um sérstakar viðbótar-greiðslur og raunar í andstöðu við Barnaverndarstofu. …

Ljóst er að eitt þessara uppgjöra (Árbót) sker sig úr að því leyti að bóta-fjárhæðin byggði fremur í samkomulagi en eiginlegum reikningsskilum. Ekki verður heldur séð að þungvæg rök hafi verið fyrir greiðslunni, þ.e. að heimilið hafi við samningsslit setið uppi með raunverulegar eftir-stöðvar skulda sem stofnað var til vegna uppbyggingar þess. Í hinum tilvikunum (Torfastaðir og Götusmiðjan) var þrátt fyrir allt fastara land undir fótum í þessu tilliti, þ.e. bótafjárhæðin tók mið af útreikningum óháðra aðila á rekstrarframlögum eða eiginfjárstöðu heimilis.

Og tvær úr lokakafla skýrslunnar:

Í fimmta lagi vaknar sú spurning hvort stjórnmálamenn hafi haft óeðlileg afskipti af málefnum Árbótar og þeim ákvörðunum sem teknar voru um samninga við heimilið eftir að þjónustusamningi við það hafði verið sagt upp. Í því samhengi ber að hafa í huga að Barnaverndarstofa ber að öllu jöfnu stjórnsýslulega ábyrgð á þjónustusamningum við meðferðarheimili fyrir börn og unglinga, jafnt gerð þeirra, framkvæmd og lok. Eins ber að minnast þess að lögum samkvæmt má skjóta ágreiningi milli stofunnar og rekstraraðila heimila til ráðuneytis félagsmála. Nauð-synlegt reyndist að grípa til þess úrræðis í Árbótarmálinu. Það kom því í hlut félags‐ og tryggingamálaráðuneytis og ráðherra þess að ljúka málinu og er í sjálfu sér ekki gerð athugasemd við það.

Inn í samningsferli ráðuneytisins og Árbótar blönduðust þó augljós afskipti einstakra þingmanna Norðausturkjördæmis, m.a. fjármála-ráðherra … Telja verður að þau afskipti hafi að einhverju leyti veitt málinu úr faglegum farvegi og inn í hreinar samningaviðræður um bætur til heimilisins. Í þessu samhengi má á ný vitna í tölvubréf félagsmála-ráðherra til nokkurra starfsmanna ráðuneytisins frá 7. maí 2010: „Af hverju erum við að borga meira en 30 milljónir umfram skyldu? Hvers vegna? Jú – vegna sanngirnissjónarmiða og þrýstings frá kjördæmis-þingmönnum.“ Innan ráðuneytisins kom því hvorki til greina að óska álits ríkislögmanns á réttmæti bótagreiðslna, leita til dómstóla eða gera upp rekstur Árbótar á grundvelli ársreiknings heimilisins. Meginþunginn var lagður á einhvers konar málamiðlun. Að mati Ríkisendurskoðunar eru slík vinnubrögð ekki til fyrirmyndar eða til þess fallin að auka tiltrú almennings á stjórnsýslunni.

Mér sýnist þetta því miður staðfesta eigin ummæli á þingi í haust (sjá líka hér):

Um það sem hv. þm. Ólöf Nordal og fleiri ræddu áðan er það að segja að þetta mál lítur þannig út, þangað til það verður skýrt betur, að þetta sé gamaldags þjösnapólitík þar sem fagleg sjónarmið í stofnunum eru mis-virt og kjördæmahagsmunir þingmannasveitar eða einstakra þingmanna ráða mestu um úrslit mála. Það er mjög mikilvægt að öll gögn komist á borðið í þessu máli, (Gripið fram í.) að ráðherrarnir skýri frá því sem þeir hafa gert og aðhafst í þessu og einstakir þingmenn, þar á meðal hv. þm. Kristján Þór Júlíusson …

Nú bíðum við eftir því að ráðherrarnir og kjördæmisþingmennirnir segi okkur hvað þeir ætla næst að gera.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.2.2011 - 18:45 - 13 ummæli

Stjórnlagaþingið lifi

Rökrétt niðurstaða stjórnlagaþingsmeirihlutans í nefndinni um stjórnlagamálið eftir úrskurð Hæstaréttar.

Sjálfstæðisflokksforystan er á móti stjórnlagaþinginu og reynir allt til að koma í veg fyrir að það verði til – taldi sig hafa himin höndum tekið þegar Hæstiréttur felldi sinn úrskurð, og hótaði öllu illu þegar sú hugmynd var nefnd að hafa uppkosningu um leið og þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave. Þar blikaði auðvitað á málþófsvopnið sem virkar best þegar hlutirnir þurfa að gerast hratt. Að föllnum sameiginlegum kjördegi var orðinn eini möguleikinn að kjósa aftur einhverntíma í vor, sem er alltof seint. Sjálfstæðisflokkurinn kemur sumsé í veg fyrir uppkosningar eftir Hæstaréttardóminn – en honum tekst ekki að koma í veg fyrir sjálfa endurskoðun stjórnlaganna á sérstakri samkomu.

Stjórnlagaráðið vantar umboð, segja sumir. Auðvitað var það óskemmtilegt klandur að Hæstiréttur skyldi taka umboðið af hinum þjóðkjörnu stjórnlagaþingmönnum á tæknilegum forsendum sem flestum leikmönnum þykja heldur veigalitlar. Umboð til starfa er hinsvegar ekki föst stærð sem menn taka út úr banka í eitt skipti fyrir öll. Það verður nú fulltrúanna í hinu nýja stjórnlagaráði að vinna sér það umboð sem á þykir vanta – með skynsamlegum og framsýnum tillögum sem um næst sæmileg samstaða.

Tek svo undir hugmyndir um að það eigi að kalla þjóðina að kjörborði um tillögur stjórnlagaráðsins áður en alþingi fær þær í hendur – að því tilskildu að ráðið nái með góðum meirihluta saman um ein frumvarpsdrög. Slík atkvæðagreiðsla mundi styrkja nýja þingið í störfum og gefa því það beina samband við þjóðina sem það þarf á að halda eftir úrskurð Hæstaréttar og hina þjóðfjandsamlegu þrákelkni Sjálfstæðisflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.2.2011 - 18:36 - 16 ummæli

Samningar eða dómstólar

Forsetinn ákvað það sem forsetinn ákvað – og þá er að fara í atkvæðagreiðsluna. Mér sýnist hún hljóti að snúast um það hvort við samþykkjum þennan síðasta samning eða hefjum málarekstur fyrir dómstólum.

Sumir segja að atkvæðagreiðslan hljóti að snúast um líf ríkisstjórnarinnar. Það er örugglega leitun að ríkisstjórn sem óskaði sér dómstólavafsturs eftir alla Icesave-söguna – en ef ríkisstjórnin þarf að fara frá við fall Buchheit-samningsins – hlýtur þá ekki líka Sjálfstæðisflokkurinn að þurfa að fara frá?

Allavega eitt gott við þetta mál: Kjördaginn má nýta til uppkosningar fyrir stjórnlagaþingið. Það verður ekkert skemmtilegt fyrir frambjóðendurna að keppa um athygli við já- og neihreyfingarnar í Icesave-málinu, en þetta er það eina rökrétta einsog málin standa. Fáum að minnsta kosti stjórnlagaþing.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.2.2011 - 14:25 - 1 ummæli

Til hamingju með Langasjó

Bjartar fréttir frá umhverfisráðherranum: Langisjór friðaður, og hluti Eldgjár í grenndinni – í samkomulagi við heimamenn í Skaftárhreppi – og áform Landvirkjunar um Skaftárveitu þarmeð útaf borðinu.

Græna netið var meðal fagnenda :

Græna netið óskar Íslendingum til hamingju með friðlýsingu Langa-sjóvar sem nú er orðinn hluti Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt hluta Eldgjár í Skaftártungu. Þetta eru merk tíðindi í sögu náttúruverndar á Íslandi og efla enn stórfengleik og aðdráttarafl stærsta þjóðgarðs í Evrópu.

Með því að friðlýsa Langasjó batt Svandís Svavarsdóttir umhverfis-ráðherra enda á ráðagerðir um að eyðileggja vatnið með svokallaðri Skaftárveitu, en ekki er nema um hálfur áratugur síðan sú fram-kvæmd var á teikniborðum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar. Þá hófst öflug barátta náttúruverndarafla fyrir friðlýsingu Langasjóvar, og má minna á að hann er meðal náttúrusvæðanna sem nefnd eru sérstaklega í umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, Fagra Íslandi. Nú telja allir sem til þekkja að vatnið sé ein af helstu náttúruperlum landsins, enda er þar orðinn eftirsóttur ferðamannastaður. Má dæmi Langasjóvar verða stjórnvöldum til áminningar um að vanda til verka við ákvarðanir um orkuöflun og verndarnýtingu í náttúru Íslands. Græna netið þakkar umhverfisráðherra og sveitarstjórnar-mönnum í Skaftárhreppi þessa friðlýsingarframkvæmd og óskar þeim farsældar í stöfum.

Stjórn Græna netsins leggur til að næsta stórverkefni í verndar-nýtingu verði myndarleg stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem bindi enda á öll áform um Norðlingaölduveitu.

Það fallegasta við þetta verk er kannski að friðunin vekur enga stórkostlega athygli, og það mótmælir henni ekki nokkur maður sem öfgum eða hryðjuverki. Samt hefði Skaftárveita um Langasjó örugglega verið rosalega hagkvæm, alveg einsog Norðlingaölduveita í Þjórsárverum. Fyrir bara hálfum áratug var Landsvirkjun með allt sitt Power komin á fremsta hlunn, ásamt vænum skammti af heimamönnum. Nú eru verðmætin metin á annan veg.

Ég man ágætlega eftir troðfullu Norrænu húsi í janúar 2005 þar sem dýrð Langasjóvar var sýnd á myndum og færustu vísindamenn landsins töluðu um gildi svæðisins – þá hafði ég ekki komið þarna sjálfur en hét því samstundis að láta það ekki bíðam lengi. Og Langisjór er þannig að þar er eiginlega ekki hægt að verða fyrir vonbrigðum með móbergshryggina báða beint í stefnu að jöklinum í fjarska og þetta undarlega bláa vatn … nema þá helst vegna annars ferðafólks því nú er Langisjór orðinn fjölsóttur, bæði af útlendum gestum og heimafólki. Allt í lagi ennþá, en auðvitað verður að passa uppá sjóinn og umhverfi hans einsog aðra ferðastaði – það er að verða svartur blettur á okkur sem gestgjöfum og umsjónarmönnum þessa einstaka lands hvað við sinnum illa fjölsóttum stöðum (sjá hér ljóta skýrslu Umhverfisstofnunar um þetta).

Fyrir fræðimenn er Langisjór reyndar einskonar Surtsey – því ekki er nema tæp öld síðan hann varð til í núverandi mynd – áður rann um hann kvísl úr Skaftá og var hann þá jökullitur og líflítill. Um 1960 breytti áin farvegi sínum og ólíklegt að hún hitti af eigin völdum aftur á sjóinn. Þá hófst ár 1 fyrir lífríkið í vatninu, svipað og eftir Surtseyjargosið. Fræðimenn telja að vísu galla að einhverjir ævintýra-menn slepptu silungi í vatnið, og þar mun nú vera væn bleikja – en það var áður stærsta fisklausa vatn á landinu, sem gefur rúm öðrum dýrum. Sjá um Langasjó hér (stutt Wiki-grein) og hér (góð úttekt á vefsetri Landverndar, sem hefur öðrum fremur barist fyrir friðuninni) – á síðari vefnum kemur meðal annars fram að Ari Trausti sjónvarpsvísindamaður telur Langasjó eitt af fimm merkustu vötnum Íslands, ásamt Mývatni, Þingvallavatni, Leginum og Hvítárvatni, og í sínum huga allra merkast.

Langasjóvar? -sjávar? -sjós?

Að lokum nokkrar línur um eignarföll. Í ályktun Græna netsins er eignarfallsmynd örnefnisins höfð Langasjóvar – og hefur vakið spurningar. Mér er málið skylt, er varamaður í stjórn félagsins og látinn prófarkalesa alla félagstexta:

Grunnorðið er til í þremur myndum: sjór, sær og sjár. Algengast í nefnifalli, þolfalli og þágufalli er nú sjór. Myndin r er líklega einkum höfð í skáldskap og hátíðamáli, en sjár er tiltölulega óalgengt orð – nema í eignarfallssamsetningum, og öðru fremur í orðinu sjávarútvegur. Kannski er algengasta beygingin núna einhverskonar samsláttur: sjór, um sjó, frá sjó, til sjávar; en eðlilegt er að hver orðmynd haldi sínu eignarfalli: sjár – sjávar, sær – sævar, sjór – sjóvar eða sjóar. Eignarfallið sjós er svo til líka, en þótti dönskulegt, að minnsta kosti þegar menn voru til sjós – nú er það náttúrlega orðið klassískt íslenskt orðasamband. Mæli samt ekki með því í örnefnum. Langasjósferð? Fögnum frekar friðun Langasjóvar.   😉

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.2.2011 - 10:04 - 15 ummæli

Árásarákæran rann á rassinn!

Úrslitin í héraðsdómi eru sigur fyrir málstað tjáningarfrelsis, lýðræðis og heilbrigðrar skynsemi: Ákæran um árás á alþingi samkvæmt 100. grein hegningarlaga – í slagtigi með greinunum um valdarán, tilræði við forsetann og önnur hryðjuverk – var hlegin út úr héraðsdómi.

Nokkrir sakborninga fengu dóma, fyrir önnur ákæruatriði, og sjálfsagt verðskuldaða. Sá sem bítur í nef má búast við að vera bitinn í nef.

Aðalatriðið er auðvitað að ákæran mikla um árásina á alþingi – og kröfur um fangelsi frá 1 ári í ævilangt – hún rann á rassinn, líka saksóknarinn og líka hinn raunverulegi ákærandi, yfirmenn alþingis þegar atburðirnir urðu 8. desember og æ síðan.

Nú er bara að vona að það fólk kunni að skammast sín.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.2.2011 - 16:43 - 8 ummæli

Ræða utan dagskrár

Hér er mitt framlag í utandagskrárumræðu í dag um Flóaskipulag, Landsvirkjun og Svandísi Svavarsdóttur (reyndar vannst ekki tími fyrir tvær síðustu málsgreinarnar):

Forseti

Miðað við orðalag 34. greinar gömlu skipulags- og byggingarlaganna um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu, þar sem ekki er gert ráð fyrir annarri fjármögnun aðalskipulags en úr sveitarsjóði og úr Skipulagssjóði,

      miðað við 23. grein sömu laga þar sem landeiganda eða framkvæmdaraðila er  heimilað, með leyfi forseta, „að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað,“

      miðað við úrskurð umboðsmanns alþingis um kæru til ráðuneytis sveitarstjórnarmála frá mars 2009,

     miðað við úrskurð samgönguráðherra frá september 2009 um ólögmæti tiltekinnar greinar í samningi Landsvirkjunar og Flóahrepps,

     miðað við fordæmið þegar umhverfisráðherrann Siv Friðleifsdóttir neitaði að fallast á flugvallarhluta aðalskipulags Reykjavíkur árið 2002,

     og miðað við sögu þessa máls, þar sem forystumenn sveitarfélagsins féllu frá fyrri skipulagsákvörðun – gegn meirihlutavilja í sveitinni – eftir tilboð frá Friðrik Sophussyni þáverandi forstjóra Landsvirkjunar um greiðslu fyrir skipulagsvinnuna, fyrir bundið slitlag á tvo vegi, fyrir vatnsveituframkvæmdir og fyrir gsm-samband – sem allt virðist langt umfram nokkur eðlileg mæri í slíkum samskiptum

     þá er eðlilegt að hæstvirtur umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir skuli hafa synjað staðfestingar á Urriðafosshluta Flóahreppsskipulagsins, og látið reyna á þá ákvörðun fyrir dómi.

Ásakanir um lögbrot og valdníðslu eru fáránlegar í þessu máli. Hér voru engin lög brotin heldur hlaut ráðherrann við ákvörðun sína að túlka lögin einsog honum þótti réttast og vitlegast – á sama hátt og starfsmenn í stjórnsýslunni gera á hverjum degi. Þetta sjá allir sanngjarnir menn – en auðvitað ekki þeir sem eru í pólitískum hasar og heimta nú afsögn ráðherrans til að koma höggi á ríkisstjórnina og troða niður skynsemismálstað í skipulagsmálum og náttúruvernd.

Málsatvik eru hvað skýrust í því ljósi að í nýju skipulagslögunum er grein þar sem framkvæmendum er leyft að kosta skipulag – en sú greiðsla á aðeins að nema skipulagsvinnunni sjálfri og má ekki fara eina krónu umfram þann reikning.

Þessvegna eru yfirgnæfandi líkur á því að samningur Landsvirkjunar við Flóahrepp frá í júlí 2007 yrði úrskurðaður ógildur samkvæmt núverandi lögum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.2.2011 - 08:53 - 20 ummæli

Landsvirkjun hætti mútum

Sjálf Landsvirkjun hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem „alfarið“ er „hafnað“ hinum „alvarlegu ásökunum“ Marðar Árnasonar þingmanns í Silfri Egils í gær – þeim að nota orðið mútur um samning ríkisfyrirtækisins við Flóahrepp um að fá Urriðafossvirkjun inn á skipulag gegn því að borga meðal annars bundið slitlag á tvo vegi, vatnsveituframkvæmdir og gsm-umbætur auk ríflegra greiðslna fyrir sjálfa skipulagsvinnuna og fundi sveitarstjórnarmanna sem henni tengjast vonandi.

Mútur eru vissulega stórt orð – en ég bara kann ekki annað kurteislegra. Hreppsnefndin var búin að segja nei, og meirihluti íbúa lýsti sig andsnúinn framkvæmdunum – en þá boðaði Friðrik Sophusson þáverandi forstjóri Landsvirkjunar til fundar og lagði fram splunkunýtt tilboð, sem endaði með samningunum í júlí 2007 um bundna slitlagið, vatnstankinn og gsm-sambandið. Og forkólfar Flóamanna gáfust upp.

Mútan blindar hinn skyggna og hallar máli hins réttláta, segir í boðorðum Gamla testamentisins (2M 23.8). En spekingurinn segir okkur því miður ekkert um áhrif mútunnar á þann sem veitir – sem ef eitthvað er ennþá alvarlegri verknaður.

Nú er kominn ný stjórn og nýr forstjóri hjá Landsvirkjun, og það má sjá af yfirlýsingunni að þetta fólk skammast sín augljóslega fyrir samninginn – sem er reyndar engan veginn einstæður í sögu Landsvirkjunar.

Ég skora hér með á Hörð Arnarson forstjóra Landvirkjunar, og stjórnarmenn fyrirtækisins, þau Bryndísi Hlöðversdóttur, Sigurbjörgu Gísladóttur, Ingimund Sigurpálsson, Pál Magnússon og Stefán Arnórsson, að sýna nú í verki að Landsvirkjun er ný og breytt – og segja upp mútusamningnum við Flóahrepp. Verði af Urriðafossvirkjun (sem ég vona ekki, en það er annað mál) er ósæmandi og óþolandi fyrir framkvæmandann að það hafi gerst í blóra við siðferðiskennd velflestra Íslendinga, að ekki sé talað um hegðunarreglurnar sem Móse þáði af meistara sínum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.2.2011 - 19:02 - 26 ummæli

Álver á Bakka er plat

Nú eru enn farnar af stað hugleiðingar um álver á Bakka við Húsavík. Það á að vera bara 250 þúsund tonna – og á að „smellpassa“ einsog sagt var í fréttum í gær.

Gallinn er bara sá að slíkt álver er plat. Fyrirtæki í áliðnaði byggja ekki 250 þúsund tonna álver lengur. Þau telja að álver borgi sig ekki fyrren sirka við 400 þúsund-tonna-markið (Fjarðaál: 346 þ.t.), og nýjustu tíðindi herma að kjör-álverið nú sé verksmiðja sem getur afkastað 750 þúsund áltonnum á ári.

Þessvegna eru álver uppá 250 þúsund tonn, einsog nú er rætt um á Bakka — hvað þá enn minni álver, einsog lobbíistarnir reyna að selja í Helguvík – bara áfangar. Strax og þeir eru komnir upp hefst næstu áfangi, að stækka um svona helming í krafti hagkvæmni, og svo fram alla vegu.

Þessvegna er Landsvirkjun að missa áhugann á að selja alla orkuna í álverin – af því af þau þurfa að lokum meiri orku en hægt er að útvega með nokkurri skynsemi. Meðal annars þess vegna er verið að leita annarra kosta en álveranna bæði nyrðra og syðra.

Álverið á Bakka er bara í plati. Skammæir héraðshöfðingjar, stórorðir kjördæmaþingmenn og aðrir smákóngar sem fyrir því berjast – þeir treysta líklega á að vera komnir á elliheimili fyrir sunnan þegar raunveruleikinn kemur í ljós.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.2.2011 - 10:51 - 8 ummæli

Hagsmunavarsla í Flugmálastjórn

Merkileg niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um Flugmálastjórn í gær: Opinber stjórnsýslustofnun stundar hagsmunavörslu fyrir einkafyrirtæki í stað þess að verja almannahag og neytendarétt.

Samkeppniseftirlitið stendur sig hinsvegar og skipar Flugmálastjórn að fara að samkeppnisreglum. Flugfélagið Astræus (= Iceland Express) á að geta flogið næsta sumar með viðkomu í Keflavík milli Winnipeg og Lundúna án þess að ganga erinda keppinauta sinna – Icelandair fyrst og fremst – við kanadísk yfirvöld.

Flugmálastjórn hafði sett það skilyrði fyrir þessu flugi að flugfélagið útvegaði Icelandair svipuð flugréttindi í Kanada og það hefur sjálft. Hvernig félagið Astræeus á að útvega einhverjum slík réttindi hjá kanadískum stjórnvöldum er óljóst –  en byggist kannski á innlendri venju um samskipti heimaflugfélaga og stjórnvalda?

Málið virðist nefnilega lýsa þeirri venju í íslenskum stjórnsýslustofnunum að haga sér einsog framlenging af hagsmunaaðilum með innlenda kennitölu(r) – en telja skipta minna máli hagsmuni almennings – neytenda og skattborgara – eða alþjóðlegt orðspor Íslendinga.

Í frásögn á vefsetri Samkeppniseftirlitsins (hér) kemur í ljós að skilyrði Flugmálastofnunar í þágu keppinautar flugfélagsins sem um sótti eru ekkert einsdæmi. Flugmálastjórn fékk tilmæli um að hætta slíkum vinnubrögðum fyrir þremur árum – en hefur í tvígang virt þau að vettugi.

Hver er annars yfir á Flugmálastjórn? Innanríkisráðherrann Ögmundur Jónasson – eða forstjóri Icelandair?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur