Miðvikudagur 13.10.2010 - 09:48 - 38 ummæli

Rústum kjördæmakerfinu!

Það eru fjöldafundir víða um land til að verjast „árás á landsbyggðina“ – greinilega öflug hreyfing að verja nærsamfélagið og forystumenn í héraði láta falla þung orð. Þeir fyrir sunnan eru ekki vinsælir þessa dagana, bandalag sameinaðra heimamanna neitar allri uppsuðu frá ráðuneytaliði um sín mál. Vissulega áhrifamikið.

Undan því verður ekki vikist að opinber þjónusta af margvíslegu tagi er ólítill þáttur í þeim vef sem byggð á hverjum stað þarf á að halda. Þau sjónarmið verður að taka með í reikninginn og víkja þessvegna frá ströngu höfðatöluviðmiði.

Ekki er það heldur heppilegur siður að tengja saman niðurskurð og skipulagsbreytingar. Best er að breyta kerfinu í góðæri þegar samfélagið hefur efni á allskyns títtnefndum mótvægisaðgerðum. Gallinn er bara sá að þá hefur enginn áhuga á því, ekkert knýr til verka.

Heilbrigðisumræðan núna sýnir reyndar að það er ansi langt frá því að í þessum efnum komist að nokkur höfðatala, frekar en í til dæmis samgöngumálum eða langvinnum styrkjum til atvinnufyrirtækja gegnum sérstakar byggðastofnanir. Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á sér hinsvegar fjölmargar grátkonur, hetju á hetju ofan: Rústum fjárlögunum! æpti einn af þingmönnum Norðurausturlands vígreifur á einum þúsundafundunum og uppskar ákaft lófatak og hyllingaróp. Þetta var einmitt varaformaður fjárlaganefndar á tímum hrunstjórnarinnar 2007–2009. Rústum fjárlögunum!

Þegar nánar er að gáð kemur svo í ljós veruleg mismunun á landsbyggðinni í heilbrigðismálum. Byggðir þar sem hetjur ríða um héruð hafa miklu betri þjónustu en þar sem meðalmenn einir ráða ríkjum.

Sjálfsagt er að athuga hvort hægt er að gera þessar breytingar á lengri tíma og í betra samráði við fólkið á hverjum stað – en mér sýnast breytingarnar sjálfar sem nú eru boðaðar á heilbrigðisþjónustunni um landið vera skynsamlegar og alveg nauðsynlegar í yfirstandandi harðindum. Aukin áhersla á heilsugæslu en uppbygging sjúkrahúsa á einkum tveimur þéttbýlisstöðum þar sem má nálgast alla tengda þjónustu. Ein meginforsendan er auðvitað að á Íslandi hefur orðið samgöngubylting á Íslandi síðustu 15–20 árin, og henni fylgdi tenging byggða og héraða sem áður urðu að una ein við sitt – með nokkrum hætti keyptu landsbyggðarmenn samgöngubæturnar (meðal annars á kostnað höfuðborgarsvæðisins) því verði að þurfa að hagræða í öðrum innviðum. Sjáiði hvað er að gerast við Eyjafjörð norðvestanverðan eftir Múlagöng og Héðinsfjarðargöng – samvinna, hagræðing og vonandi blómstrandi byggðir.

Við eigum annars að hætta þessu eilífa karpi um höfuðborg og landsbyggð. Hvert byggt ból hefur sína kosti og sína ókosti – og við jafnaðarmenn teljum að innan vissra marka eigi að ríkja jafnræði um allt land um aðgang að grunnþjónustu. Til þess er sjálfsagt að við leggjum ýmislegt á okkur.

Á þeim örlagatímum sem við lifum nú í landinu gengur hinsvegar ekki að setja enn einusinni af stað þennan kunnuglega væl þar sem breitt er yfir innri mistök, mótsagnir og óstjórn með sameiginlegu bauli á allt og alla „fyrir sunnan“. Og svo kveikt í rakettunum sem ganga undir nafninu þingmenn landsbyggðarinnar og ráða úrslitum á alþingi óháð almannahag – sem oftast fer hinsvegar saman við hagsmuni þeirra rúmlega sex af hverjum tíu Íslendingum sem sagan og forlögin hafa valið bústað í Reykjavík og stórnágrenni.

Rústum fjárlögunum! hrópaði hetjan mikla úr fjárlaganefnd hrunsins. Það verður nú ekki, háttvirtur þingmaður Kristján Þór Júlíusson. Þau eru okkur lífsnauðsynleg nokkurnveginn einsog þau eru nú, og ekki síður næstu kynslóðum syðra og nyrðra. En kannski væri það skynsamleg hagræðing að rústa kjördæmakerfinu?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.10.2010 - 09:28 - 24 ummæli

Hringborð

Í staðinn fyrir að halda afleitlega vondar ræður sem bírókratar semja í ráðuneytum og rétta fram sáttahendur — til Sjálfstæðisflokksins – ættu ráðherrar fyrstu alvöru-vinstristjórnarinnar að viðurkenna að venjuleg pólitík er lömuð á Íslandi og efna til hrinborðssamræðna við alla þá sem vilja koma til slíkrar umræðu. Þetta hefur verið gert með góðum árangri annarstaðar þegar að steðjar vandi sem hefðbundið stjórnmálakerfi ræður ekki við.

Við hringborðið ættu að vera á dagskrá tiltekin afmörkuð málefni, skuldavandinn, Icesave, hegðun fjármálafyrirtækjanna, endurreisn atvinnulífs, ríkisfjármál.

Kannski heppnast þetta ekki – en ekki er okkur að ganga sérlega vel núna, og það eina sem er nokkurnveginn víst er að það gengur ekki betur þótt Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þór Saari drekki meira kaffi í gamla tukthúsinu við Lækjargötu.

Auk þess legg ég til að bankarnir verði þjóðnýttir hið fyrsta.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.9.2010 - 09:33 - 44 ummæli

Júdas ráðinn á Moggann

Alþingi komst að þeirri niðurstöðu með þrjátíu og þremur atkvæðum gegn þrjátíu að sakarefni á hendur forsætisráðherra stjórnarinnar 2007–2009 væru nægileg og líkleg til sakfellingar fyrir landsdómi, sem samkvæmt stjórnarskrá dæmir um brot ráðherra.

Það er algerlega eðlilegt að ýmsar skoðanir séu uppi um þessi málalok á þinginu. Mikil umræða hefði komið upp í samfélaginu um hverja þá niðurstöðu sem alþingi hefði komist að um málshöfðun eftir þann feril sem það ákvað sjálft í desember í fyrra þegar samþykkt voru einróma lögin um þingmannanefndina. Hvernig ímynda menn sér að tónninn væri í umræðunni ef meirihluti alþingis hefði fellt allar tillögurnar um málshöfðun á hendur fyrrverandi ráðherrum?

Líka eðlilegt að mörgum sé heitt í hamsi þegar mál er í fyrsta sinn höfðað gegn ráðherra fyrir þessum dómi. Spurningarnar um sök og ábyrgð eru margslungnar. Enginn einn er algerlega sekur í þess orðs daglegu merkingu, og fáir geta með öllu vikið sér undan einhverri ábyrgð.

Að gera reiðina að dagskipan í heilum stjórnmálaflokki er þó varla skynsamlegt eða hollt fyrir sálarlífið, hversu viðkvæmur sem valdahópurinn í Sjálfstæðisflokknum kann að vera fyrir því að geta ekki lengur sagt fólki á Íslandi að sitja og standa einsog honum einum sýnist.

Allavega veltir maður aðeins vöngum yfir orðbragði forystumanna flokksins, einstakra þingmanna hans (þar á meðal í undarlegum persónulegum hótunarbréfum) og ekki síst gamla flokksmálgagnsins sem nú er samið uppi í Hádegismóum. Hér eru gullmolar úr Morgunblaði dagsins frá þríeykinu mikla, Davíð, Agnesi og Kolbrúnu, í leiðara, pistli og „frétt“, lauslega tengt saman til frekari ánægju og yndisauka.

Agnes:

Þungt hljóð í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eru ævareiðir og hafa megna fyrirlitningu á þingmönnum úr Samfylkingunni og Framsóknarflokknum sem standa nú fyrir pólitískum réttarhöldum og pólitískri aðför, sviku í leiðinni sitt eigið fólk og eru þessvegna niðurlútir og skömmustulegir, enda óalandi, óverjandi og óferjandi eftir að hafa afhjúpað sitt rétta eðli með sínum aumingjalegu jáum, tvískinnungi og ómerkilegheitum.

Kolbrún:

Þetta er algjör niðurlæging og Samfylkingin sek um ákærugleði og ómerkilegheit enda tapað skynsemisglórunni, og útatað samvisku sína með subbuskap en fyrirlitlegust af öllu er sú skömmómerkilegir pólitískir loddarar standi fyrir þessari fórn til að friða lýðinn með himinhrópandi óréttlæti.

Og Davíð, sem kann sínar Biblíusögur:

Margt ógeðfellt á þinginu sem samþykkti samhljóða froðusnakk Atlanefndarinnar (þingsályktunartillöguna um samfélagsúrbætur eftir hrunið) en síðan komu siðleysingjarnir og kóngarnir í drafinu sem toppuðu viðbjóðinn þannig að Júdas hefði öfundað þá.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 18:13 - 41 ummæli

Gangi honum vel

Ekki mín niðurstaða – en í sjálfu sér rökrétt niðurstaða. Það hefði verið undarlegt að alþingi höfðaði ekki mál samkvæmt lögunum um landsdóm og ráðherraábyrgð gegn þeim sem báru ábyrgð á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar 2007–2009, og af þeim fjórum sem til álita komu hvílir þyngst ábyrgð á forsætisráðherranum. Hann er ábyrgur fyrir hagstjórninni, hann fór með málefni Seðlabankans, hann var verkstjóri ríkisstjórnarinnar, og var sjálfur eða fulltrúar hans á vettvangi alstaðar þar sem bregðast hefði mátt við. Ræður þeirra Helga Hjörvars og Skúla Helgasonar í dag voru skýrar um þetta – þótt ég væri þeim ekki að öllu leyti sammála.

Niðurstaða mín var sú að allir fjórir ábyrgðarmenn efnahagsmála í ráðuneyti Geirs H. Haarde hinu síðara ættu að verjast ákærunum fyrir landsdómi. Ég var lengst í vafa um utanríkisráðherrann og viðskiptaráðherrann – vegna þess, einsog kom fram í atkvæðisskýringu, að sum málsgögn og yfirlýsingar sem þau varða eru misvísandi og stangast á, án þess skorið verði úr nema með frekari rannsókn. Niðurstaðan var að lokum sú að líkur væru að minnsta kosti jafnmiklar á sakfellingu í báðum tilvikum. Mér þótti hinsvegar ekki gerlegt að skilja mál þeirra að, og sat þessvegna hjá um kæruna gegn Björgvini Guðna þegar ljóst var að Ingibjörgu Sólrúnu yrði ekki gert að mæta fyrir landsdómi.

Ég vona þetta fari vel – að landsdómsferilinn upplýsi betur en orðið er um gang mála í stjórninni 2007–2009, og geti orðið hluti af nauðsynlegum sáttum eftir hreinskilið uppgjör, sem enn virðist vera rétt að hefjast.

Mönnum kann að finnast það þversagnarkennt – en ég vona líka að Geir Haarde, inspector scholae í MR þegar ég var í fjórða bekk, söngmanni og KR-ingi, gangi vel í málaferlunum framundan, og að hann og fjölskylda hans komi heil úr þessari eldraun. Þetta mál er ekki knúið áfram með refsigleði og hefndarþorsta gagnvart einstökum mönnum, að minnsta kosti ekki af minni hálfu, heldur snýst það um landslög, réttlæti og ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.9.2010 - 18:53 - Lokað fyrir ummæli

Ábyrgð

Hér er þingræða um málshöfðunartillögurnar – flutt um sexleytið á mánudegi, fyrst og fremst íhuguð störf ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009:

Heill þingflokkur og nokkrir einstakir háttvirtir þingmenn að auki hafa í þessari umræðu og hinni fyrri efast um formsþætti málsins, fullyrt að lögin um landsdóm væru nánast úrelt og haft miklar áhyggjur af mannréttindum þeirra sem kynnu að standa í sporum sakborninga fyrir dóminum, ennfremur átalið þingmannanefndina fyrir vinnubrögð í þessum málum sem hér eru til umræðu.

Tvennt um þetta áður en kemur að meginþætti málsins: Annarsvegar að mér finnst nokkurnveginn nýkomnum til þings afar undarlegt að hlusta á þessa umræðu núna í september 2010. Þessu verki var hrundið af stað í desember í fyrra, á sama löggjafarþingi og nú stendur ennþá – og þegar maður les þrjár umræður um frumvarpið um þingmannanefndina sést að það koma ekki fram í einni einustu ræðu efasemdir um þetta efni. Ekkert töluðu þá um þetta háttvirtir þingmenn Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Bjarni Benediktsson, hvað þá aðrir.

Hinsvegar að ég tel enga ástæðu til efasemda eftir talsverða vinnu einmitt í formsþættinum, hef hlustað á miklar sveitir lögfræðinga tala um þetta meðal annars, annarsvegar í þingflokki Samfylkingarinnar og síðan í allsherjarnefnd hér á dögunum, og sé engin þau sannfærandi rök – í ritum fræðimanna eða dæmum frá öðrum ríkjum – sem hér ættu við. Fordæmi hér heima eru ekki til einsog allir vita.

Í þriðja lagi, forseti, las ég aftur nákvæmlega þá þingsályktunartillögu sem oft hefur verið vitnað til síðustu daga, sem núverandi hæstvirtur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, flutti á fjórum þingum, frá 2001 til 2005, síðast ásamt mér meðal annarra. Þar er ekki að finna neinar efasemdir um þau efni sem okkur varða – en fitjað upp á ýmsum breytingum, sem ég er reiðubúinn að kynna og ræða hér síðar ef óskað er. Margt merkilegt þar en á ekki við okkar stöðu. Auk þessa er rétt að nefna svar forseta alþingis við fyrirspurn um landsdóm og ráðherraábyrgð frá 21. desember 2009 – þar er heldur ekkert talið sem ætti að hindra það ferli sem nú er farið af stað.

Það er auðvitað ýmislegt sem þarf að skoða seinna í þessum efnum. Til dæmis erum við hér í þeirri furðulegu stöðu í máli sem snýst um störf 4 ráðherra í ríkisstjórninni 2007 til 2009, að hér greiða atkvæði 7 aðrir ráðherrar úr sömu ríkisstjórn. Og sé staðan í málinu sú sem rætt er um hér í hliðarsölum og í fjölmiðlum, þá eru það einmitt þessir sjö ráðherrar sem ákveða hvort málshöfðunin nær fram að ganga. Gömlu ráðherrarnir úr síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde hafa sumsé málið í höndum sér, núverandi þingmenn og ráðherrar hátt- og hæstvirtir Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Össur Skarphéðinsson. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt, en það verður að gera þá kröfu að þessir núverandi þingmenn og ráðherrar skýri mjög vel út fyrir þingi og þjóð hér í umræðunni á hvaða forsendum þeir taka afstöðu í málinu um fyrrverandi samráðherra sína og verkstjóra.

Forseti

Ég hef kappkostað að vinna að minni afstöðu í þessu máli eins vandlega og heiðarlega og mér er unnt. Ég lít svo á að hér verði hver alþingismaður að hugsa óvenjulega fast um tvennt það sem markar farveg störfum allra þeirra: Í fyrsta lagi drengskaparheit mitt að stjórnarskránni, í öðru lagi sá áskilnaður sömu stjórnarskrá að leiðarljós í störfum mínum fyrir þjóðina sé fyrst og fremst sannfæring mín.

Þetta mál – flókið sem það kann að virðast – er í raun og veru einfalt. Stjórnarskráin skipar mér að athuga hvort þau sakarefni sem hér eru talin séu nægileg og líkleg til sakfellingar þeim ráðherrum fjórum sem um ræðir.

Fyrst nokkur orð um afmörkun þessara fjögurra. Afhverju fjórir, hafa menn spurt, afhverju ekki allir tólf – eða að minnsta kosti líka þessi ráðherra og hinn ráðherrann. Svarið af minni hálfu er einfaldlega það að það voru þessir fjórir sem báru ábyrgð á efnahagsmálum og hagstjórn í ríkisstjórninni 2007–2009. Aðrir voru athugaðir í rannsókn þingmannanefndarinnar, en þóttu ekki koma til álita, og ég er því sammála svo langt sem nef mitt nær.

Ég harma það á hinn bóginn að hverjar sem sakir þessara fjögurra stjórnmálamanna kunna að vera þá nær alþingi og hugsanlegur landsdómur ekki til þeirra sem bera enn meiri ábyrgð og hafa jafnvel enn meira erindi í landsdóm að verja sig. Þetta eru forystumenn ríkisstjórnanna sem hér sátu frá árinu 2003 til 2007, þeir sem fá þá einkunn í skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis að á þeirra vakt, í síðasta lagi árið 2006, hefði verið hægt að koma í veg fyrir fall bankanna haustið 2008. Þessir menn og þessir flokkar brugðust þjóð sinni með skaðlegum aðgerðum og skaðlegu aðgerðaleysi, ekki síst með því að skipta ríkisbönkunum milli vina sinna og vanrækja vegna kreddukenninga að hafa með þeim eftirlit af hálfu almannavaldsins – og gerðu svo illt verra með hagstjórn sem ýmist einkenndist af villtri frjálshyggju eða rakalausum popúlisma – samanber íbúðarlánin sem áttu verulegan þátt í fasteignaverðsbólunni.

Þetta fólk er undanþegið hugsanlegri ákæru vegna fyrningarfrests landsdómslaganna. Sumum finnst – og það er alveg skiljanlegt – að þar með eigi að láta aðra í friði. Það lýsir vissulega ákveðinni sanngirni og hjartahlýju – en stendur þvert á réttarfarsvenjur í nútímasamfélagi. Við alþingismenn höfum ekkert val í því efni: Þessir fjórir – plús eða mínus– eru þeir sem standa núna fyrir framan okkur – það eru sakarefnin á hendur þessum fjórum sem hér eru til rannsóknar. Það alvarlega í þessu sambandi er það að ef við bregðumst við þetta verk – þá höfum við um leið fríkennt þá sem áður komu. Sýkna nú á einhverskonar mér-finnst-forsendum frá þeim sem stjórnarskráin hefur falið málshöfðungegn brotlegum ráðherrum – slík sýkna er um leið sýkna yfir þeim fyrri foringjum sem hér bera vissulega mesta sök.

En hér þarf að sjálfsögðu að fara gætilega. Að lokum er spurt um sakarefnin og líkindi á sakfellingu, sem við þurfum að vera sannfærð um að séu að minnsta kosti jafnar og sýkna – að minnsta kosti 50% líkur. En það nægir líka, segja saksóknarar og fræðimenn í refsirétti.

Þau sakarefni sem felast í alvarlegri vanrækslu gagnvart váboðum árin 2007 og 2008, og felast í því að hafa ekki brugðist við innan ríkisstjórnarinnar, á hinum svonefndu ráðherrafundum, þegar ráðherrana átti að renna í grun hver háski vofði yfir. Þetta er niðurstaða sjö af níu fulltrúum í þingmannanefndinni – og í þessu styðjast fulltrúarnir sjö rækilega við rannsóknarskýrsluna. Menn gera mikið úr ágreiningi og klofningi, og mismun skýrslu og ákæru. Fyrir því tali er vissulega fjöður – en meginatriði eru þó alveg ljós í þessu gagnvart ábyrgðarmönnum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Sjálfur hef ég ekki komist að endanlegri niðurstöðu um þetta gagnvart öllum fjórum ráðherrunum, og ég geri ráð fyrir að nota til þess allan þann tíma sem við höfum fram að atkvæðagreiðslunni. Á þessu stigi get ég þó sagt að mér þykja öll vötn falla til þess fjarðar að í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde hafi verið sýnt stórkostlegt gáleysi og alvarleg vanrækt í efnahagsmálum. Það má vera rétt hjá rannsóknarnefndinni að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir fall bankanna eftir árslok 2006. Þá er að minna á þau orð í skýrslu hennar að sú ríkisstjórn sem tók við greip heldur ekki til þeirra ráða sem hugsanlega hefðu getað dregið úr afleiðingunum af fallinu, afleiðingunum sem við sjáum allt í kringum okkur og þarf ekki að rekja hér.

Ég er með öðrum orðum kominn að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherrann fyrrverandi, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, annaðhvort gátu vitað eða máttu vita og að minnsta kosti áttu að vita hvað var á seyði í bönkunum og hversu fátæklegur viðbúnaðurinn var af hálfu stjórnsýslunnar. Þetta sýna öll málsgögn. Forsætisráðherrann er skipstjórinn á þjóðarskútunni. Hann er – eftir atvikum ásamt áhöfn sinni – ábyrgur fyrir siglingunni.

Menn láta hér sumir einsog ráðherrarnir í ríkisstjórninni 2007–2009 séu fórnarlömb. Þeir hafi ekkert getað áttað sig á náttúruhamförunum sem yfir riðu frá útlöndum. Vondu kallarnir i bönkunum hafi platað þá – og sumir félagar mínir bæta því við að hinn plataði Sjálfstæðisflokkur hafi svo vikið úr vegi til að plata Samfylkinguna. Ég legg til að þeir sem halda þessu fram fari vandlega yfir atburðarásina árið 2008 sem lýst er hjá þingmannanefndinni bls. 105 og áfram, bara tíu-fimmtán síður, í umfjöllun um 6. bindi rannsóknarnefndarskýrslunnar. Skal fara yfir þetta í síðari ræðu ef áhugi er á og tími gefst til.

Ég hvet þá til að skoða sérstaklega sögu Icesave-reikninganna og viðbragða hvers og eins ráðherranna við þeim. Dótturfélagið í Bretlandi og upphaf útlána í Hollandi á starfstíma ríkisstjórnarinnar. Ég hvet þá til að íhuga hverskonar andvaraleysi, gáleysi, vanrækt það er sem felst í því að þáverandi utanríkisráðherra, oddviti Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu og talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, sagði úr þessum ræðustól hér hinn 2. september 2008, mánuði fyrir hrun, í umræðu um skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál, að eitt af ráðunum til að leysa lausafjárvanda bankanna, sem ríkisstjórnin taldi þá eitt helsta úrlausnarefni í hagstjórninni, væri það að bankarnir ættu að stofna fleiri Icesave-reikninga í útlöndum. Með leyfi forseta: „Þeir geta haldið áfram að afla sér innlána á erlendum mörkuðum …“ Hvernig fellur þetta að alvarlegum athugasemdum sem löngu voru komnar fram um þessa starfsemi frá Amsterdam og Lundúnum? Hagstjórnarráðherrar ríkisstjórnarinnar vissu vel af þeim. En þeir vildu meiri innlán í útlöndum, og fyrrnefndur ráðherra gaf sama ráðið í Fréttablaðsgrein tveimur dögum síðar, 4. september haustið 2008, að bankarnir gerðu best í því að auka enn innlán á erlendum mörkuðum.

Það er líklega margt til í því að ekki hafi verið hægt að bjarga bönkunum eftir 2006. En kannski var hægt að bjarga öðrum? Hindra tjón fyrirtækja og almennings sem grunlaust og án nokkurrar aðvörunar af hálfu stjórnvalda héldu áfram að fjárfesta í tækjum og bílum og húsum allt árið 2008 fram að mánaðamótum september-október, héldu áfram í þeirri góðæristrú sem ríkisstjórnin hélt leynt og ljóst á lífi erlendis og innlendis, meðal annars með hástemmdum en algerlega innihaldslausum yfirlýsingum um traust bankakerfi á Íslandi. Hvaða skjól er þessu fólki og þessum fyrirtækjum í þeirri afneitunarmöntru að við í ríkisstjórninni seinustu gátum ekkert gert eftir 2006? Ekkert skjól – enda bregst það við með reiði – sannarlega réttlátri reiði – en því miður miklu heldur með fálæti, jafnvel uppgjöf – gagnvart þessu samfélagi sem ekkert vit virðist vera í,þessu samfélagi þar sem enginn virðist bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut.

Forseti

Spurningin sem við alþingismenn stöndum frammi fyrir, hún er í rauninni sú hvort athafnir ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009  og athafnaleysi hennar – hvort þetta lýsir eingöngu vanrækt og gáleysi, einsog háttvirtur þingmaður Birgir Ármannsson taldi hér fyrr í dag, eða hvort þetta er til merkis um alvarlega vanrækt og stórkostlegt gáleysi? Þetta er það sem við eigum að skera úr, miðað við sannfæringu okkar og miðað við drengskaparheit okkar unnið að stjórnarskránni. Sem betur fer dæmum við ekki. Það gera aðrir og það er mikil ábyrgð. En þá verðum við að gá að því, einsog Sigurður Tómas Magnússon fyrrverandi saksóknari sagði í útvarpinu og síðar í allsherjarnefnd, að í raun kveður saksóknari upp sýknudóm með því að falla frá ákæru. Í slíkri ákvörðun felst líka mikil ábyrgð gagnvart samfélaginu og ggnvart framtíðinni.

Ríkisstjórn Geirs Haarde tókst kannski ekki upp sem skyldi, segja ýmsir flokksfélagar mínir, en sakirnar hafi þegar verið fyrir hendi þegar sú stjórn tók við. Óháð sakarefnum einstakra ráðherra hvet ég þá Samfylkingarmenn sem telja að flokkurinnn hafi verið fórnarlamb í ríkisstjórninni 2007–2009, einkum þá hér á þinginu sem sátu í þessari sömu ríkisstjórn, studdu hana eða störfuðu á hennar vegum, til að rifja upp grundvallarrit flokksins fyrir kosningarnar 2007, rit hagráðsins okkar um Jafnvægi og framfarir. Þar höfðu menn að vísu ekki hugmyndaflug til að spá fyrir um fall bankanna en í þessu riti er því lýst í greinilegu og rökstuddu máli að hagkerfið var orðið fársjúkt veturinn 2006–2007, þannig að næsta ríkisstjórn yrði að grípa til róttækra ráðstafana. Hvað var gert við þetta rit um Jafnvægi og framfarir? Það var ekki mikið. Sjálfstæðisflokknum var eftirlátin efnahagsstefnan, og við skiptingu ráðuneyta fékk Samfylkingin aðeins einn hagstjórnarpóst, viðskiptaráðuneytið, sem var klofið út úr öðru ráðuneyti og sett af stað með fámennt starfslið, auglýst eftir ráðuneytisstjóra. Yfir það var settur stjórnmálamaður án sérþekkingar eða reynslu á þesu sviði, nýliði við framkvæmdavaldsverkefni. Á meðan sat gamli Sjálfstæðisflokkurinn í forsætisráðuneytinu, í fjármálaráðuneytinu og í Seðlabankanum. – En auðvitað tókum við í Samfylkingunni að okkur það stórmerkilega verkefni fyrir lýðveldið að koma íslenskum diplómat í Öryggisráð hinna Sameinuðu þjóða.

Forseti

Það er eðlilegt að við tökum hér almennt til umræðu verk ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009, sem hóf feril sinn sem Þingvallastjórnin en er nú einna helst kölluð hrunstjórnin. Menn hafa sumir kallað eftir því til hvaða ráða hún hefði átt að grípa. Einn ræðumanna í fyrri umræðu, ráðherra, taldi að hún hefði ekkert getað hreyft sig vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar. Það er stórt orð, skaðabótaábyrgð, og ekki von að nokkur ráðherra þori í námunda við slík ósköp. Tveimur árum síðar gefur á að líta um skaðabótaábyrgðina. Skaðinn er skeður. Bótina vantar. Og ábyrgðin er útí móa.

Málflutningur af þessu  tagi – að ríkisstjórn Geirs Haarde hafi í raun ekkert getað gert – þessari umræðu er eiginlega lokið, að minnsta kosti á hinum pólitíska vettvangi. Hún fór fram í desember, janúar og febrúar 2008 til 2009. Þessi málfutningur var hrópaður niður hér úti á Austurvelli fyrir tveimur árum. Sú bylgja sem þar hófst svipti gömlu ríkisstjórninni frá völdum og kom á nýrri ríkisstjórn. En kannski var það alltsaman bara misskilningur?

Samfylkingin – ég á við sjálfan stjórnmálaflokkinn með uppundir tuttugu þúsund félaga –  hún hefur af sinni hálfu svarað þessari spurningu um verk ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009, hvað sem sumir fulltrúar þess flokks hér á þingi kunna að vera að segja og hugsa og gera. Það svar var veitt á flokksstjórnarfundi – æðstu stofnun flokksins milli landsfunda – í Garðabæ laugardaginn 17. apríl þessa árs, þegar fundurinn samþykkti erindisbréf handa sérstakri umbótanefnd sem nú er störfum í flokknum. Að gefnu tilefni og með leyfi forseta ætla ég að ljúka máli mínu hér með upphafi þessa erindisbréfs sem var samþykkt einum rómi á um tvöhundruð manna áhrifamiklum fundi:

Samkvæmt ítarlegri og vandaðri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði má rekja rætur hrunsins til þess hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna og markvissri stefnu um afskiptaleysi þar til svo var komið í ofvexti bankakerfisins að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 til að forða hruni. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar var því þegar of seint að bjarga bönkunum frá falli þegar Samfylkingin settist í ríkisstjórn 24. maí 2007. Hins vegar kemur afdráttarlaust fram í skýrslunni að grípa hefði mátt til margvíslegra aðgerða til að draga úr tjóni samfélagsins eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn. Þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar.

Ég endurtek:

Hins vegar kemur afdráttarlaust fram í skýrslunni að grípa hefði mátt til margvíslegra aðgerða til að draga úr tjóni samfélagsins eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn. Þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar.

Forseti

Að minnsta kosti þar liggur ábyrgð þeirra ráðherra sem nú er rætt um hér á alþingi. Og nokkurnveginn þar liggur líka ábyrgð okkar sem hér stöndum og getum ekki annað.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.9.2010 - 10:22 - 3 ummæli

Notaleg Orð í leikhúsinu

Ég hafði satt að segja ekki nokkra trú á því að gera einhverskonar leiksýningu úr útvarpsþættinum hans Kalla Th. um Orð sem skulu standa. Þetta væri bara della.

En í þetta sinn var ákaflega gaman að hafa rangt fyrir sér, því Orðin í Borgarleikhúsinu gengu algerlega upp á frum-„sýningunni“ í gærkvöldi. Þetta er nokkurnveginn sami útvarpsþátturinn en persónur og leikendur fylla Litlasalinn lífi með notalegheitum og því sposka yfirlæti sem Karli hefur tekist að heilla með útvarpsáheyrendur sína. Viðbætur eru söngur og annar flutningur „gestanna“ – sem í gær voru Egill Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir – þetta verður eiginlega í leiðinni soldið variété uppá frönsku. Svo taka áhorfendur alveg áreynslulaust þátt í leiknum, sem væntanlega merkir að enginn „þáttur“ verður eins.

Allt fer þetta auðvitað fram á venjulegri og náttúrlegri íslensku – með ákveðnum menningarlegum stoltsbrag – og í gömlum og góðum Ríkisútvarpsstíl. Mæli með Orðunum ef fólk vill notalega íslenska kvöldstund. Og vera kominn heim í góðu skapi fyrir tíufréttir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.9.2010 - 18:19 - 9 ummæli

Hálftómt eða hálffullt?

Oft er hálfa vatnsglasið nefnt sem dæmi um hneigð í frásögn. Sá sem talar um glasið, finnst alltof lítið í glasinu og vill vinna áheyrandann á sitt band – hann talar um hálftómt glas. Sá sem telur nægt vatn í glasinu og vill sannfæra sinn áheyranda sinn – hann talar um hálffullt glas.

Einn partur af umræðunni um tillögur þingamannanefndarinnar er einmitt svona. Einsog kunnugt er komu frá nefndinni tvær þingsályktunartillögur, en tveir nefndarmanna flytja enga tillögu. Þeir eru úr Sjálfstæðisflokknum. Aðra tillögu nefndarinnar flytja fimm þingmenn úr Framsóknarflokknum, Hreyfingunni og Vinstrigrænum. Hina tveir þingmenn úr Samfylkingunni.  Efnið og mun tillagnanna þekkja menn.

Sá sem tekur afstöðu gegn tillöguflutningnum og vill ekkert með niðurstöðurnar hafa – hann segir að nefndin sé þríklofin eftir flokkspólitískum línum. Að eitthvað sé klofið er neikvætt, og á okkar tímum fátt verra en flokkspólitík. Glasið er næstum tómt.

Sá sem vill lýsa niðurstöðunum jákvætt  segir að tveir Sjálfstæðismenn hafi að vísu ekki skilað áliti en sjö af níu nefndarmönnum séu sammála með einni undantekningu: Tveir nefndarmanna telja að einn ráðherrann hafi bara sýnt „gáleysi“ en hinir fimm telja hann hafa sýnt „stórkostlegt gáleysi“. Glasið er hérumbil fullt.

Um þetta má rífast lengi – en var ekki meiningin að við tækjum afstöðu til raka og mótraka í málinu?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.9.2010 - 18:59 - 43 ummæli

Hættiði þessari vitleysu

Birna Gunnarsdóttir skrifar beitta grein í Fréttablaðið/Vísi um mál nímenninganna sem nú eiga á hættu fangelsisdóma fyrir „árás á alþingi“. Saksóknarinn sem komst að þessu með árásina og 100. grein hegningarlaga er Lára V. Júlíusdóttir lögmaður. Hinn eiginlegi kærandi er þó sjálft alþingi, en í bréfi skrifstofustjóra þess til lögreglu var á sínum tíma sérstaklega vísað til þessarar greinar. Forseti alþingis var þá Sturla Böðvarsson, en núverandi forseti, Ásta R. Jóhannesdóttir, tók efnislega undir kæruna í svari við fyrirspurn á þinginu í vor.

Við vorum held ég um sex hundruð sem spurðum að því í sumar af hverju við værum ekki ákærð líka fyrir árás á alþingi sem þátttakendur í búsáhaldabyltingunni. Birna bendir svo á fyrri „árásir“ sem ekki þóttu ákæruverðar – þar á meðal fræga heimsókn stúdenta á þingpalla um miðjan áttunda áratuginn. Formaður Stúdentaráðs haustið 1976 var Össur Skarphéðinsson, en stjórn hans var þá nýtekin til starfa á vegum vinstrimanna. Gjaldkeri stjórnarinnar á undan, sem líka var vinstristjórn, var Lára V. Júlíusdóttir.

Þessi málsókn fyrir árás á alþingi auðvitað algerlega fáránleg, og þeim Láru, Sturlu og Ástu til háborinnar skammar. Legg til að saksóknarinn komi nú í veg fyrir frekari niðurlægingu ákæruvaldsins og alþingis (að ekki sé minnst á hreyfingu jafnaðarmanna – ég hef til dæmis verið á framboðslista með bæði Ástu og Láru), endurskoði málsókn sína – og hætti svo þessari vitleysu með því að fella niður ákæruna fyrir brot samkvæmt 100. grein hegningarlaga. Síðan má semja um aðrar hugsanlegar sakir.

Lesið grein Birnu!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.9.2010 - 17:11 - 23 ummæli

Umbótanefndarsvarafundarræða

Fyrir hálfum mánuði var yðar einlægur gerður að framsögumanni á einskonar kvöldráðstefnu Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, SffR, um flokkinn og hrunið. Við vorum þrjú, auk mín Helga Vala Helgadóttir og Þorsteinn Helgason, á eftir var svo skipt í hópa um einstaka þætti máls. Beint tilefni fundarins var kall umbótanefndarinnar í flokknum eftir svörum við tilteknum spurningum sem félagið átti að skila um miðjan septembermánuð. Það var úthlutað tíu mínútum á hvern framsögumann, og mér fannst þægilegast að tala í símskeytastíl uppúr punktum – en lenti svo í að skrifa þetta út fyrir félagið  og umbótanefndina. Mér fannst svo að textinn gæti átt erindi við fleiri – með þeim fyrirvara að hér er jafnaðarmaður að tala við jafnaðarmenn um sameiginlegan vanda, og reynir að vera eins hreinskilinn og þarf – ég hefði kannski skrifað fyllra mál ef þetta hefði verið ræða á almennum opnum fundi – og þá getið oftar um það sem vel hefur verið gert í sögu Samfylkingarinnar og um árangur sem þó náðist í „hrunstjórninni“ 2007–2009. En hér er þetta – guðhræddum lesara heilsun:

Samfylkingin og hrunið

Punktar úr framsöguræðu á fundi SffR um efnahagshrunið og ábyrgð Samfylkingarinnar miðvikudaginn 1. september 2010

Upphafsathugasemd er auðvitað sú að þótt við í Samfylkingunni eigum ekki að skorast undan ábyrgð á hruninu og mistökunum í aðdraganda þess er höfuðábyrgðin annarra – bankastjóranna og auðjöfranna að sjálfsögðu, og svo þeirra sem sátu í ríkisstjórn í sextán ár áður en flokksmenn okkar fengu völdin í helmingi ráðuneytanna. Hvorki ríkjandi hugmyndafræði, stjórnskipan né efnahagsstefna þessara tíma er á okkar ábyrgð heldur gagnrýndum við þetta allt alveg frá stofnun flokksins og bárum fram tillögur um breytingar og vildum gera þetta öðruvísi. Oftast – því skýr dæmi eru líka til um einskonar meðvirknistilvik í afstöðu flokksins, þar sem hann réð að vísu sjaldnast úrslitum en elti meirihlutann fremur af taktískum ástæðum en vegna sannfæringar: Kárahnjúkar, lífeyrismálið.

Þegar við athugum frammistöðu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn 2007–2009 og þátt flokksins í hruninu held ég ekki megi sleppa þessum nokkru atriðum sem ég ætla að fjalla hér um, og mynda ýmist svið atburðanna eða eru hluti af atburðarásinni.

Hugmyndafræðilegar sveiflur um 1990 til 2005

Kommúnisminn lagðist af í Evrópu við lítinn orðstír kringum 1990, en sá atburður olli ýmiskonar hugmyndalegu umróti og spennu. Nýir tímar kölluðu eftir frjóum kenningum og öðrum vinnubrögðum en áður. Klassísk vinstriviðhorf duttu „úr tísku“ – og í miðri hinni miklu bylgju nýfrjálshyggjunnar leituðu fræðimenn og stjórnmálamenn á vinstrikantinum nýrra leiða til að virkja markaðinn en draga um leið úr misréttisáhrifum hans. Économie de marché, Já, en société de marché, Nei – sagði Lionel Jospin í Frakklandi – hérna heima fullyrtum við að markaðurinn gæti verið góður þjónn en vondur húsbóndi. Þriðja leiðin byggðist ekki síst á slíkum hugleiðingum – auk kröfu um trygg borgaraleg réttindi og heilbrigða stjórnsýslu.

Við innbyrtum þetta allt, í stjórnarandstöðu við Davíð og Halldór, og með gamaldags þjóðernisíhald „til vinstri“ við okkur, VG. En pendúllinn sveiflaðist stundum of langt í hina áttina hjá forystumönnum og gerendum, þannig að fyrir kom að Samfylkingarmenn misstu sjónar á almannahag í allri þjóðfélagsverkfræðinni og fönguðust af oftrú á markaðslausnunum. Kannski einsog trúskiptingum hættir til.

Þar skiptir líka máli að á mótunartímanum kringum stofnun Samfylkingarinnar voru allra augu á Bretlandi. Þar hafði Nýi verkamannaflokkurinn sigrað með látum 1997 eftir átján ára thatcherisma og hinn ungi Tony Blair var hugljúfi evrópskra sósíaldemókrata/sósíalista. Athygli Samfylkingarfólks beindist að Bretunum langt umfram norrænu flokkana sem næstir stóðu eða samherja sunnar í Evrópu. Til dæmis tók ýmislegt ungt fólk þátt í kosningabaráttunni í Bretlandi 2001, meðal annars Björgvin og Katrín, og kom heim með stjörnur í augunum! Tjóaði lítt að flokksformaðurinn Össur Skarphéðinsson segðist snemma draga meiri dám af frönskum sósíalistum en breskum, einkum vegna áherslu hinna fyrrnefndu á hlutverk almannavaldsins í atvinnulífi.

Hér skal ekki gert lítið úr afrekum breskra jafnaðarmanna framan af valdaferli sínum em nú er nýlega lokið. Aðstæður kunna hinsvegar að hafa villt íslenskum aðdáendum sýn. Bretarnir tóku á sínum tíma við nánast sviðinni jörð í velferðar- og félagsmálum eftir Thatchertímabilið og hlutu að móta nýja pólitík, að mestu án aðstoðar verkalýðshreyfingarinnar eða annarrar félagslegrar kjölfestu – og markaðstilraunir þeirra áttu einfaldlega illa við á Íslandi. Samanber til dæmis skólagjöldin, sem um skeið voru talin til sérstakrar fyrirmyndar sumstaðar hjá okkur.

Ég tel að það hafi verið full þörf á þeirri hugmyndalegu endurnýjun sem flokksmenn af ýmsum uppruna gengu saman gegnum á þessum árum. Ég held hinsvegar líka að þetta umrót hafi leitt til ákveðinnar hægrislagsíðu í flokknum og veikt hann fyrir þá þolraun sem framundan var.

Breytingarnar í viðskiptalífinu: Hrun Kolkrabbans, myndun nýrra bandalaga

Ólígarkar gleyptu SÍS um leið og gömlu Sovétríkin – sem hvorttveggja voru mikil tíðindi á Íslandi. Enn meiri tíðindi þennan áratuginn var svo óvænt hrun gamla Kolkrabbans og ný bandalög á viðskiptavettvangi. Sú saga er ágætlega rakin annarstaðar, en þessar breytingar höfðu sitt að segja fyrir Samfylkinguna.

Skyndilega var komin upp sú staða að meginfyrirtæki landsins skiptust ekki lengur í einungis tvær fylkingar eftir skilum milli íhalds og Framsóknar. Og ennþá óvæntara var svo það að forysta Sjálfstæðisflokksins nánast sleit sambandi við suma helstu forkólfa nýju fyrirtækjablokkanna. Í viðskiptalífinu var orðið til einhverskonar fjölræði í stað gamla valdabandalagsins sem margir héldu að yrði eilíft, og jafnaðarmenn í Samfylkingunni tóku þessum tíðindum fagnandi: Til að það væri hægt að nýta markaðinn þurfti þar að vera  frjáls samkeppni og eðlileg tengsl við stjórnmálin.

Persóna Davíðs Oddssonar og einkennilegir atburðir í samfélaginu urðu svo til þess að milli Samfylkingarinnar og sumra af helstu nýju samsteypunum myndaðist það sem kalla má strategískt bandalag – alliance objective, segja Frakkarnir – sem byggist á því að óvinur óvinar míns er minn vinur. Þetta gilti um samvinnu við að losa um höft og hömlur í viðskiptum, rjúfa kóngulóarvefinn úr Valhöll og Morgunblaðsskrifstofunum, og við það sérstaklega að mæta ofsafengnum árásum frá Davíð og félögum á fjölmiðlun í landinu vegna þess að óæskilegir menn réðu þar of miklu.

Þessi tengsl milli Samfylkingarinnar og nýju blokkanna voru í sjálfu sér eðlileg. Jafnaðarflokki er skylt að halda góðu sambandi við forystumenn í atvinnu- og efnagslífi. Þau urðu þó til þess að deyfa sýn flokksforystunnar og flokksmanna á þróunina í viðskiptalífinu, villa um fyrir okkur gagnvart einkavæðingu bankanna (þótt þar hafi flokkurinn vissulega lagt til skárri leiðir en farnar voru), og slaka á árvekni gagnvart útrás, ævintýramennsku og græðgisvæðingu. Viðurkennum það bara: VG stóð sig betur, með allar sínar gömlu og leiðinlegu lummur.

Ný staða varð líka til þess að raddir fóru að hljóma í flokknum, nálægt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, nýjum og glæsilegum forystumanni í flokknum frá 2003, um að nú ætti Samfylkingin að grípa tækifærið og stilla sér upp sem forystuafli í atvinnu- og viðskiptalífinu, svipað og Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið áður. Hætt er við að slíkar hugmyndir hafi skapað nánari tengsl við ýmsa viðskiptajöfra en heppilegt var, en einkum ollu þær skammsýni og drógu úr náttúrlegri gagnrýni jafnaðarflokks á atferli útrásarvíkinganna.

Ef til vill átti þvílík „nálgun“ hlut að máli þegar Ingibjörg Sólrún gerði tilraun til að sveigja flokkinn af fyrri leið í sjávarútvegsmálum með frægri ræðu hjá LÍÚ – sem hægt var að túlka þannig að það væri mikilvægara fyrir flokkinn að vera á talfæti við atvinnulífið en að halda fram auðlindastefnu í almannahag.

Íslenskt sifjaspell: Tengsl stjórnmála og viðskipta

– Tengslin milli stjórnmálanna og viðskiptanna hjá ykkur hérna eru einsog sifjaspell, sagði við mig hollenskur blaðamaður í miðri búsaáhaldabyltingu fyrir utan Iðnó – incestuous á útlenskunni – og endurtók þetta held ég hjá Agli næstu helgi.

Já, það eru orð að sönnu, og Samfylkingin hefur í sín tíu ár barist gegn allri þeirri spillingu með fundum og upphrópunum og starfshópum og samþykktum og tillögum: Rifjiði bara upp bara þúsund þingsályktunartillögur Jóhönnu, eða hinar rökvísu stjórnfesturæður Bryndísar Hlöðversdóttur.

Og samt var Samfylkingin fátækur flokkur, með skuldir í arf frá fyrirrennurunum, og varð að reiða sig á framlög fyrirtækja, vinveittra eða að minnsta kosti ekki andstæðra. Slíkar gjafir sjá kannski ekki viðstöðulaust til gjalda – en veikja staðfestu flokksins gagnvart gefendum.

Það á ennþá frekar við um einstaka stjórnmálamenn sem þáðu milljónastyrki frá fyrirtækjum fyrir prófkjörin dýru – sumir vissulega af því flokkurinn ætlaðist nánast til þess með því að halda galopin auglýsingaprófkjör sem áttu að vekja athygli og draga að fólk.

Og þetta á því miður líka við annarskonar innanflokkskappleiki – einkum formannsslaginn 2005 þar sem frambjóðendurnir tveir vörðu tugmilljónum til að ná forystu í flokknum. Hvaðan?

Þessi kurl þurfa öll að koma til grafar þegar við skoðum Samfylkinguna og hrunið. Nema okkur nægi ein saman afsögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.

Veikir stjórnmálaflokkar – léleg stjórnmálamenning

Margt hefur verið skrifað eftir hrun um stjórnmálamenningu á Íslandi og fátt af því er ofsagt, þótt Samfylkingunni sé óþarft að taka það allt saman til sín. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að síðustu áratugi hafa stjórnmálaflokkarnir sjálfir skipt sífellt minna máli í íslenskum stjórnmálum. Að sumu leyti skyggja stjórnmálamennirnir á stjórnmálaflokkana. Annarsvegar hefur staða stjórnmálamanna breyst með prófkjörum og forvölum ýmiskonar þannig að þeir eiga sér ekki endilega bakland meðal félaga í flokki heldur í einhverskonar prófkjörssveit sem lítið kemur við sögu milli prófkjaranna. Þeim hættir því til að líta á flokkinn fyrst og fremst sem kosningavél og klapplið, og af þessu höfum við ekki farið varhluta í Samfylkingunni. Hinsvegar eru flokkarnir einfaldlega óburðugar stofnanir, peningalitlir með örfáa eigin starfsmenn. Það hefur meðal annars þær afleiðingar að stjórnmálaflokkarnir eru sjaldnast uppspretta stefnumótunar, hugmynda eða lausna. Þar ráða miklu heldur hagsmunasamtök með fjölmennt starfslið og digra sjóði og ýmiskonar þankatankar úr viðskiptalífinu, fjölmiðlarnir, fræðasamfélagið að einhverju leyti, stjórnkerfið sjálft. Nánast allir þessir aðilar fengu falleinkunn í rannsóknarskýrslunni góðu – en á þá hafa stjórnmálamennirnir reitt sig langt umfram skoðanir og viðhorf eigin félaga eða vinnu sem fram hafi farið í flokkunum.

Samfylkingin er veikburða að skipulagi – þótt lög flokksins séu afar umfangsmikil og nákvæm. Hún ber auðvitað ennþá merki þess að þar komu saman ólík stjórnmálasamtök, og skipulagsramminn var viljandi frekar losaralegur þar sem fyrstu árin þurfti að stíga varlega til jarðar og forðast umfram allt að ýfa upp deilur frá umliðnum árum og áratugum. Sumstaðar – í Reykjavík að minnsta kosti – gekk af þessum ástæðum erfiðlega að byggja upp sameiginlegar grunnstofnanir. Þingflokkurinn var svo frá upphafi sterkasti kjarni flokksins. Heilan vetur, 1999–2000, var Samfylkingin hvergi til nema í þingflokknum, og allt fram á ríkisstjórnarárin var málum fyrst og fremst ráðið þar.

Með mikilvægri undantekningu – ESB-atkvæðagreiðslunni haustið 2002 – var það ekki flokkurinn sjálfur sem glímdi við vanda dagsins heldur fámenn forystusveit, einkum í þingflokknum og kringum hann. Og stundum voru stofnanir flokksins sniðgengnar með öllu. Það átti til dæmis við um Kárahnjúkaákvörðunina á útmánuðum 2003. Málið var um veturinn til umræðu á sameiginlegum fundum framkvæmdastjórnar og þingflokks og mátti búast við að það yrði útkljáð á helsta stefnuvettvangi Samfylkingarinnar milli landsfunda, í flokksstjórn. Raunin varð sú að stuðningsmenn málsins gerðu einskonar hallarbyltingu á um það bil hálfri viku með sókn í fjölmiðlum og innan þingflokks, og lauk með því að forystan sneri upp á hendurnar á efasemdarmönnum í þingliðinu nema þeim Rannveigu og Þórunni. Andstæðingar virkjunaráforma voru teknir í bólinu – en mátu stöðuna svo að Samfylkingin sjálf væri í hættu ef  þeir neyttu réttar síns og knýðu fram formleg átök um málið á flokksvettvangi (sem þó bættu ekki spjöllin fyrir austan). Þetta var sumsé í leiðinni einskonar blakkmeil. Það eimdi lengi eftir af þessum viðburði í flokknum og gerir reyndar enn.

Þegar Ingibjörg Sólrún varð formaður leist henni ekki vel á þingflokkinn. Þar voru auðvitað  margir sem ekki studdu hana í formannsslagnum, en hún hefur sjálfsagt líka viljað draga burst úr nefi þingflokksins af fullkomlega eðlilegum pólitískum ástæðum. Leið Ingibjargar Sólrúnar var þó ekki að byggja upp sjálfan flokkinn sem eðlilegt aðhald og mótvægi við þingflokkinn heldur kaus hún að styðjast við elítuhópa á eigin vegum – framhald af framtíðarhópunum (sem unnu margir gott starf ) – og vildi með nokkrum hætti sníða flokkinn utan um sjálfa sig, búa sér til sinn eigin flokk innan og utan við Samfylkinguna, ekki ósvipað og Blair í Bretlandi.

Hlutverk landsfunda og flokksstjórnarfunda var að alltof miklu leyti að skapa ramma fyrir ræður flokksforingja, að vera „sett“ fyrir sjónvarpsvélarnar. Þetta á við fyrstu ár flokksins í formannstíð Össurar, að sumu leyti af nauðung, en færðist í aukana eftir formannsskiptin.  Umræður voru ekkert sérlega æskilegar og óþægilegum málum vikið til hliðar – þar á meðal þeim sem tengdust umhverfismálum og stóriðjuáformum. Stefnan um of unnin í elítuhópunum og síðan stillt af fyrir kosningar með hjálp ókjörinna ráðgjafa sem sumir þurftu talsverð laun fyrir vinnu sína. Samband forystu og grasrótar lítið – í þessu félagi til dæmis, SffR, hefur það (með nokkrum undantekningum) verið viðburður að kjörinn fulltrúi komi á fund nema hann sé þar auglýstur sem ræðumaður. Taktík ákveðin í þröngum hópi. Staða áherslumála óljós, og umboð foringjanna óskýrt.

Flokkurinn var með þessum hætti vanbúinn til hinna erfiðu verka í ríkisstjórninni sem mynduð var vorið 2007.

Stjórnarsamstarfið – uppgjöfin undarlega

Ég ætla ekki að tala hér um sjálft hrunið og framgöngu okkar fólks hinar örlagaríku vikur haustið 2008, eða frammistöðu ráðherra og annarra þingmanna mánuðina og misserin áður. Þau mál eru gerð upp á öðrum vettvangi.

Hvað flokkinn varðar tel ég að afdrifaríkustu mistökin hafi verið gerð við sjálfa stjórnarmyndunina, og að þangað sé einkum að rekja vonda stöðu flokksins í þessu óheilla-stjórnarsamstarfi, sem umbótanefndin er nú að skoða.

Við hófum kosningabaráttuna í lágmarksfylgi, höfðum um 20% frá áramótum og fengum 18% á landsfundinum um miðjan apríl, hækkuðum aðeins eftir það en ekki almennilega fyrren kom fram í maí, náðum að lokum tæplega 27%, sama fylgi og 1999 en töpuðum fjórum prósentustigum og tveimur mönnum frá kosningunum 2003.

Kosningabaráttan var fagmannlega háð af okkar hálfu og í lokin töldu flestir að hér hefði unnist varnarsigur – við töpuðum að vísu kosningunum en unnum kannanirnar, einsog stundum er sagt. Samfylkingin hélt allavega stöðu sinni sem næststærsti flokkur landsins og átti mikla möguleika vegna slakrar niðurstöðu stjórnarflokkanna, einkum Framsóknarflokksins sem beið afhroð. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig, tæplega 3%, en þá er rétt að hafa í huga að þar vann Geir Haarde aftur einungis hluta þess fylgis sem Davíð Oddsson hafði tapað, 7%, í síðustu kosningum sínum vorið 2003.

Ég tel að einkum tvennt hafi skipt máli við þennan árangur. Annarsvegar umhverfisstefna flokksins, Fagra Ísland, sem vakti athygli og vonir í grænum kjósendahópum og meðal ungs fólks. Fagra Ísland gerði okkur að valkosti við VG í umhverfismálum – og tók stefnu VG fram að ýmsu leyti. Umhverfisstefnan braut niður múra og opnaði leiðir í kosningabaráttunni. (Það skiptir svo ekki máli hér að gerð hennar og samþykkt var ekkert alltof lýðræðisleg, sem við sýttum kannski ekki nægilega sem höfðum orðið undir í Kárahnjúkakúppinu.)

Öllu máli skipti hinsvegar efnahagsstefnan sem kynnt var í bæklingnum um Jafnvægi og framfarir. Þar var dregin upp dökk mynd af stöðu efnahagsmála og skipulagi hagstjórnar, lagðar til bráðaaðgerðir og langtímastefna, í efnismiklu en skýrlega skrifuðu og framsettu riti sem Jón Sigurðsson á af mestan heiður. Ritið um Jafnvægi og framfarir hjálpaði okkur ósköpin öll, skapaði frambjóðendum og forystumönnum sjálfstraust, var gott áróðursefni, eins langt frá auglýsingafroðunni og hægt var, og varð hljómbotn fyrir kosningastefnuna alla, velferðarprógrömmin Unga Ísland og Gamla góða fólkið og hvað þetta nú alltsaman hét.

Sjálfur lyfti ég litla rauða ritinu alltaf fyrst á loft á vinnustaðafundunum og sagði að hér væri hinn óþægilegi sannleikur – sem setti ramma utan um öll okkar loforð og fyrirheit. Þetta féll í góðan jarðveg. Fólki fannst við vera að tala í alvöru og ætla að leysa vandamálin. Raunverulegir jafnaðarmenn í norrænum stíl.

„Íslenska hagkerfið er í miklu ójafnvægi um þessar mundir.“ Upphaf formála Jóns Sigurðssonar. Kannski ekki alveg einsog vofan í Evrópu hjá Marx, en áhrifamikið rúmum þremur árum síðar. Grunntónn efnahagsstefnunnar er líka góð lesning:

Jafnvægi í efnahagsmálum á grundvelli traustrar stefnu í fjármálum og peningamálum er í senn forsenda varanlegra framfara í þjóðarbúskapnum og jafnréttis í samfélaginu. Það tjá og tundur sem fylgir stórum og tíðum sveiflum í gengi, vöxtum og verðlagi raskar forsendum fyrir fjárfestingu og rekstri nýrra, hagkvæmra fyrirtækja og verkefna í atvinnulífinu. Óstöðugleiki í efnahagsmálum og verðbólga sem honum fylgir rýrir sérstaklega lífskjör þeirra sem úr minnstu hafa að spila. Ábyrg stjórn efnahagsmála er í reynd undirstaða velferðarríkisins. Það er sérstaklega mikilvægt að stefnan í ríkisfjármálum og peningamálum sé vel samstillt og miði að því að halda verðbólgu í skefjum og skapa umhverfi sem eflir nýsköpun í atvinnulífinu.

Hvernig passar nú þetta við hagstjórnarstefnu Geirs Haarde II?

Þó er hér vissulega ekki spáð fyrir um bankahrunið – en af ritinu er augljóst að þegar þarf að grípa til umfangsmikilla aðgerða í efnahagsmálum. Þeim mun undarlegri er sú uppgjöf að þegar kom að stjórnarmyndun eftir hægt andlát fyrri ríkisstjórnar skipti efnahagsstefnan einsog engu máli.

Ég fékk um það óþægilegan grun um það bil hálfri annarri viku fyrir kosningar að forystumenn flokksins stefndu að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn – nema þáverandi stjórnarandstaða fengi öruggan meirihluta sem sífellt varð ólíklegra. Nefið sagði mér þetta miklu heldur en ég hefði einhverskonar upplýsingar úr samtölum. Upp í slíka niðurstöðu gengu líka ýmsir atburðir síðustu misserin, sem meðal annars lýstu hlýju milli varaformanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Samfylkingarinnar– undir merkjum einhverskonar kvennasamstöðu – og líka tónar frá öðrum áhrifamiklum foringjum okkar, þar á meðal Össuri.

Aðallega lá þó öllum lífið á að komast í ríkisstjórn – og þar er ég sjálfur ekki undanskilinn. Við álitum að flokkurinn þyrfti á því að halda, og að því höfðum við auðvitað stefnt, meðal annars með þeim undirbúningi að leitast við ábyrga afstöðu í þinginu í ýmsum þeim málum sem óábyrgari flokkar við hliðina á okkur nýttu til upphlaupa af hefðbundnu íslensku stjórnarandstöðutagi.

Kaffibandalagið (S-V-F) lifði ekki af kosningaúrslitin, og það gerðist sem verra var: Vinstriflokkarnir tveir brugðust við með því að fara í kapphlaup um samstarf við höfuðandstæðinginn. Vel má vera að ekki hafi annað verið hægt. Aumingi minn hafði þá týnt þingsætinu sínu og leið einsog vönkuðum manni í vegkanti eftir bílslys – en setti þó fram þá kenningu í bloggi nú væri ráðlegast að Samfylkingin og VG mynduðu blokk, kæmu sér saman um nokkrar grunnlínur við hugsanlega stjórnarstefnu og byðu hinum flokkunum – þá einkum Sjálfstæðisflokki – sameiginlega til viðræðna. Ef þeim yrði neitað gætu þeir myndað öflugan stjórnarandstöðupól og beðið þess að helsærð ríkisstjórn gæfist upp með sinn eins manns meirihluta. – Samdægurs predikaði Ögmundur í svipuðum stíl í afmælisveislu í Sigtúni, óháð mér auðvitað, þannig að hugmyndin kviknaði víðar, en þessi sáðkorn féllu í grýttan jarðveg. Sýna þó að aðar leiðir voru a emm ká hugsanlegar en sú sem farin var.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn var svo einsog samfelld gleymskuþoka legðist yfir bæklinginn góða um Jafnvægi og framfarir – og fyrri gagnrýni Samfylkingarmanna á hagstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Í stjórnarsáttmálanum má að vísu finna einstakar leifar – en niðurstaðan var meira og minna sú að Sjálfstæðisflokkurinn réð för í efnahagsmálunum. Stundum er samstarf stjórnarflokka sýnt á skopmyndum einsog hjónaband á bóndabæ – mér hefur reyndar aldrei þótt það smekklegt grín – en hér má segja að slík líking hafi gengið upp. Sjálfstæðisflokknum féllu í skaut flest hin karllegu hlutverk í ganmaldags hjónalífi: Að ráða og skaffa og stjórna utanhúss; en Samfylkingin átti að vera húsmóðirin, sjá um að koma fæði og klæðum til heimilisfólksins, sinna börnunum og gamla fólkinu og niðursetningunum.

Þetta sést auðvitað skýrast á ráðuneytaskiptingu flokkanna. Þar tók Samfylkingin nokkurnveginn við fyrri ráðuneytum Framsóknarmanna, þannig að flestir meginráðherrar Sjálfstæðisflokksins sátu áfram á sínum stað. Það sem hér skiptir máli sérstaklega er að Sjálfstæðisflokkurinn réð tveimur af þremur helstu hagstjórnarpóstum stjórnarinnar, forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Þann þriðja, viðskiptaráðuneytið, fékk Samfylkingin. Það var hinsvegar rifið útúr öðru ráðuneyti þannig að þar var fyrsta verk að finna nýtt húsnæði og ráða yfirmenn – og Samfylkingin setti þar til verka mann sem vissulega hafði staðið sig ágætlega í stjórnmálastörfum en var nýliði við meðferð framkvæmdavalds og hafði enga sérþekkingu á sínu sviði.

Og skiptir alveg sérstaklega miklu máli vegna þess að á fjórða hagstjórnarpóstinum í stjórnkerfinu sat sá gamli sjálfur, Davíð í Seðlabankanum, sem svo lék eitt aðalhlutverkið á stjórnarheimilinu og í hruninu.

Innanflokks og í flokksjaðri hvöttu ýmsir til þess að djarfar yrði gengið fram í þessum efnum – að formaður flokksins krefðist þess að fjármálaráðuneytið kæmi í hlut Samfylkingarinnar og tæki þar sjálfur til starfa. Það varð ekki, og var borið við andstöðu í Sjálfstæðisflokknum – en mig grunar að sjálfan áhugann hafi skort, í fullu samræmi við þá húsbónda- og húsfreyjustefnu sem lagt var upp með í stjórnarsamstarfinu. Líka kann að hafa ráðið nokkru um samningsstöðuna að Geir Haarde gat alltaf bent á að í kortunum væri annar meirihluti, 25 frá D og 9 frá V.

Einsog áður segir verður saga ríkisstjórnarinnar ekki rakin hér frekar, en þessi mistök í upphafi stjórnarsamstarfsins reyndust flokknum dýrkeypt – og þó fyrst og fremst þjóðinni.

Ritið góða um Jafnvægi og framfarir sýndi að hagkerfið var sjúkt – og það sýndi líka að Samfylkingin gerði sér grein fyrir að það væri sjúkt. Þótt þar væri ekki spáð þeim ósköpum sem síðar urðu verður að álykta sem svo að efnahagsstefna Samfylkingarinnar hefði átt að gera forystumönnum flokksins  þá atburði að einhverju leyti fyrirsjáanlega. Og þar með að einhverju leyti fyrirbyggjanlega.

–  o –

Þetta allt þurfum við að rifja upp og ræða um. Ekki síst til að valda þeirri ábyrgð sem þjóðin hefur falið okkur með forustu í ríkisstjórninni sem á að reisa landið úr rústunum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.9.2010 - 10:55 - 33 ummæli

Ég er dóni

Það vissu þetta auðvitað margir en nú hefur formaður Arkitektafélagsins slegið því föstu frammi fyrir alþjóð: Mörður Árnason er dóni.

Það er „argasti dónaskapur“ að finnast arkitektar bera sína ábyrgð á ástandi byggingarlistarinnar í landinu. Enda er leitun að ljótum húsum og illa skipulögðum hverfum eftir arkitekta. Það er öðrum að kenna, verkfræðingum og tæknifræðingum og byggingarfræðingum og skipulagsfræðingum – og auðvitað stjórnmálamönnum og bisnessmönnum. En ekki arkitektum. Eða þá að húsin eru alls ekki ljót heldur er nágrenni þeirra vitlaust, sem er auðvitað ekki húsaskáldunum að kenna.

Ég vona það sé rétt. Kannski eru arkitektarnir alsaklausir af klessuhúsum og hrokabyggingum, burtruðningi fornra húsaverðmæta, fáránlegu Ameríkuskipulagi höfuðborgarsvæðisins, smekkleysi, stílrugli, lýtum í daglegu umhverfi okkar.

Og það eru mörg dæmi sem betur fer um fallegar nýjar byggingar, glæsilegar, hlýlegar, stílfagrar, sem falla inn í umhverfi sitt, virða gamla tímann og fyrri snillinga – og lyfta þeim jafnvel til vegs. Margir frábærir arkitektar íslenskir að störfum þrátt fyrir opinbert sinnuleysi um þessa list- og fræðigrein.

Vonandi er dónayfirlýsingin merki um það að faglegur metnaður sé að glæðast meðal arkitekta, að í stéttinni verði til einskonar „innra eftirlit“ sem sér um að skussum og gróðapungum er settur stóll fyrir dyrnar, setur höft á blinda þjónustu við verktakana.

Viðbrögð formanns Arkitektafélagsins við sakleysislegum ummælum á nefndarfundinum sýna að minnsta kosti að arkitektum er annt um heiður sinn. Fari þess að sjást frekari staður í borg og bæ og sveit í kringum okkur hin skal ég glaður gangast við dónaheitinu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur