Málið kringum Gylfa Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nokkrar hliðar, og sumar þeirra eru ekki upplýstar að fullu þegar þetta er skrifað – þá einkum hver vissi hvað og hvernig í ráðuneytinu.
Því er svo haldið fram að Gylfi hafi ekki sagt satt við þingið um gengistryggðu lánin. Virtur stjórnmálafræðingur telur að hann hafi „afvegaleitt“ þingið. Nokkrir háttvirtir þingmenn hafa krafist afsagnar og hótað vantrauststillögu. Aðrir háttvirtir vilja fund í efnahags-, skatta- og viðskipta. Bjarni Ben vill kalla saman þingið allt.
Alvarleg sök – alvarleg ásökun
Það eru alvarleg mistök og afsagnartilefni að ráðherra ljúgi að þinginu eða afvegaleiði það – það er að segja villi um fyrir alþingi Íslendinga vitandi vits. Ásökun um það er líka ábyrgðarhluti og verður að styðjast við veigamikil rök, hvort sem hún kemur frá alþingismönnum eða háskólaprófessorum.
Ég hef ekki myndað mér neina lokaskoðun í þessu máli, en í fílólógíu og tengdum fræðigreinum er grunnreglan að gá í frumtextann og byggja rök sín og afstöðu á því sem þar stendur.
Fyrirspurn Birkis Jóns
Frægt svar Gylfa Magnússonar um lánin kom í fyrirspurnatíma á þinginu 1. júlí í fyrra. Í þessum fyrirspurnatímum svara ráðherrar spurningum sem þingmenn hafa lagt fram skriflega, og hefur ráðherra samkvæmt þingsköpum tvær vikur til að undirbúa svar við slíkri fyrirspurn.
Fyrirspurnin sem Gylfi svaraði miðvikudaginn 1. júlí 2009 var frá Birki Jóni Jónssyni. Í sjálfri hinni skriflegu fyrirspurn talar Birkir um „bílalán í erlendri mynt“, um einstaklinga „með erlend lán“, sem „skulda bílalán í erlendri mynt“. Í ræðunni þar sem fyrirspurnin er reifuð endurtekur Birkir Jón þetta og segir svo að allir hljóti að vilja lækka skuldir íslenskra heimila – og að hann „myndi vilja sjá þar sérstaklega horft á myntkörfulánin sem hafa hækkað gríðarlega síðustu missirin“. Fyrirspyrjandinn gerir í fyrirspurn sinni og reifun hennar ekki greinarmun á þessum lánum eftir því hvort þau eru í erlendum gjaldmiðli eða í gengistryggðum íslenskum krónum.
Gylfi svarar meginspurningum Birkis Jóns um fjölda lántaka og upphæð lána með tölum frá Seðlabankanum um þá sem „eru með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt“. Í svari Gylfa er heldur enginn greinarmunur gerður á lánum í erlendum gjaldmiðli og lánum í gengistryggðum krónum. Ekki kemur skýrt fram hvort Seðlabankinn gerir greinarmun á þessu og liggur beinast við að álykta svo sé ekki.
Miðvikudagsumræðurnar þar sem svarað er undirbúnum fyrirspurnum eru þannig skipulagðar að fyrst talar fyrirspyrjandinn, svo svarar ráðherrann. Svo mega aðrir þingmenn tala, hver í eina mínútu aðeins einu sinni, þá talar fyrirspyrjandinn aftur og að lokum ráðherrann.
Greinarmunur Ragnheiðar og Gylfa
Fyrsti ræðumaður eftir ráðherrasvar var í þetta sinn Ragnheiður Ríkarðsdóttir, og þá fyrst kom fram spurningin til Gylfa um það hvort gengistryggðu lánin væru lögleg. Hún vísar til hinna frægu laga um vexti og verðtryggingu og spyr hvort „myntkörfulánin“ séu lögleg vegna þess að þau virðist í raun vera „hrein krónulán en með erlendu viðmiði“. Gott hjá Ragnheiði.
Næst tala þrír Framsóknarmenn, aðallega um IceSave og afskriftarhugmyndir og síðan fyrirspyrjandinn og gerir ekki heldur þann greinarmun sem lesa má úr ræðu Ragnheiðar. Loks svarar Gylfi síðara sinnið og fyrst um „fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt“. Gylfi virðist sumsé ekki sinna þeim greinarmun sem Ragnheiður gerir heldur svarar einsog hún sé að spurja um lögmæti allra lánanna. Vísar að lokum til dómstóla sem einir séu færir um að skera úr þessum álitaefnum.
Þar með er umræðan búin. Ragnheiður Ríkarðsdóttir gat ekki tekið til máls aftur til að benda ráðherranum á að hann hafi ekki svarað hinni óundirbúnu spurningu sinni, og enginn annar þátttakenda í umræðunum virðist hafa kveikt á spurningu Ragnheiðar – eins augljós og manni finnst hún núna.
Umræðurnar leggjast þannig að ráðherrann misskilur spurningu Ragnheiðar, sem var flutt óundirbúin sem aukageta inni í fyrirspurn annars þingmanns. Skipulagið er þannig að Ragnheiður getur ekki bent honum á misskilninginn og hann getur ekki leiðrétt sig, að minnsta kosti ekki í þessari umræðu.*
Það sem sannara reynist
Þegar þessi texti er skoðaður í samhengi sýnist mér fráleitt að halda því fram að Gylfi Magnússon hafi verið að ljúga að þinginu eða afvegaleiða það – nema þá að hann hafi vitað fyrirfram af lögfræðilegum niðurstöðum um að hinn gengistryggði hluti lánanna stangaðist á við lögin. Um það veit ég ekkert ennþá – frekar en hinir háttvirtu kollegar mínir á þinginu eða professores sapientissimi Universitatis Islandiæ. En hef enga ástæðu til að efast um heilindi Gylfa Magnússonar í þessu efni þar til annað reynist sannara.
—————
* Ragnheiður, eða þá einhver annar, hefði reyndar getað vakið (og hefði náttúrlega í ljósi síðari tíma átt að vekja) athygli á msskilningnum/afvegaleiðingunni með athugasemd um fundarstjórn forseta …