Sunnudagur 12.9.2010 - 20:58 - 11 ummæli

Kem af fjöllum

Var að koma af fjöllum – núna rétt fyrir kvöldmat, úr frábærri ferð með Sigmundi Einarssyni um hugsanleg virkjunarsvæði í eldsveitunum – og heyri ljósvakafréttir um tillögur þingmannanefndarinnar:

Þar eru þau heiðurshjúin Margrét Frímannsdóttir og Þorsteinn Pálsson sammála, fyrrverandi formenn Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins. Lögin um landsdóm eru úrelt og aldeilis fráleitt fyrir núverandi alþingismenn að taka á þeim nokkurt mark. Fráleitt að kæra ráðherrana, segja flokksformennirnir gömlu.

Athyglisvert.

Margrét Frímannsdóttir starfaði á alþingi frá 1987 til 2007, samtals tuttugu ár. Þorsteinn Pálsson starfaði á alþingi frá 1983 til 1999, samtals sextán ár, þar af ellefu ár sem ráðherra.

Og breyttu aldrei lögunum um landsdóm.

Sumsé: Kem af fjöllum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.9.2010 - 16:09 - 14 ummæli

Agnes og Davíð – túkall

Agnes Bragadóttir á að njóta sannmælis. Hún er duglegur og óttalaus blaðamaður með ágæt sambönd – vel tengd – og þessvegna oft fyrst með fréttirnar. Agnes kann líka að taka viðtöl, getur kallað fram persónuna í viðmælendum sínum og gengur oft nokkuð nærri þeim án þess að samband bregðist milli blaðamanns, lesanda og viðmælanda.

Því miður er Agnes Bragadóttir líka feikilega vondur blaðamaður þegar kemur að faglegum frumatriðum kringum heimildarýni og þeirri grundvallarforsendu í almennilegri fjölmiðlun að blaðamaðurinn sé fyrst og síðast fulltrúi lesanda síns, áheyranda eða áhorfanda – en ekki undir annarlegum áhrifum við að hagræða fréttaflutningi eða hanna atburðarás.

Sennilega urðu einmitt báðar þessar hliðar á Agnesi til þess að Davíð Oddsson gerði hana að meginstjörnu á Morgunblaðinu eftir að hann tók þar við – og sleppti við hana öllum þeim faglegu kröfum sem Styrmir Gunnarsson hafði uppi.

Frétt Agnesar í morgun um Samfylkinguna og þingmannanefndina er fróðlegt dæmi um samspil gallaða stjörnublaðamannsins og pólitíkussins í ritstjórastóli. Þar er tilkynnt að þinglið Samfylkingarinnar sé að bræða með sér hverja eigi kæra fyrir landsdómi – og séu að myndast tveir armar utanum tiltekna sakborninga – allt hafi svo farið í hund og kött á þingflokksfundi í gærdag.

Það skiptir eiginlega minnstu máli hversu vitlaus þessi frétt er – að hvorki brá fyrir hundi né ketti á þingflokksfundi gærdagsins, þar sem rætt var um störf þingsins og skil þingmannanefndarinnar (ekki einusinni honum X sem oftast dormar útí horni, labradornum hans Helga), – að fulltrúar flokksins hafa í engu brugðist trúnaðarskyldu sinni innan þingmannanefndarinnar og ekki flutt þaðan neinar fréttir nema um hugsanlegar tímasetningar fyrir niðurstöðu og umræður, – að formaðurinn og utanríkisráðherrann hafa hvorugt lýst neinni skoðun á kærumálunum og ekki vitað að þau hafi neina slíka áður en þeim verður einsog öðrum þingmönnum gert að taka afstöðu til tillagna þingmannanefndarinnar. Sem ekki verður auðvelt verk fyrir nokkurn alþingismann. 

Agnes hefur auðvitað heyrt eitthvað haft eftir einhverjum öðrum sem segist hafa talað við þann þriðja – og einsog venjulega litið á það sem fullnægjandi heimild fyrir gamla stórveldið á blaðamarkaðnum. Það skiptir sosum ekki máli heldur.

Það athyglisverða við Moggafréttina er að nú, tveimur dögum fyrir skil þingmannanefndarinnar, telja þau Agnes og Davíð rétt að beina kastljósinu að Samfylkingunni – og ekki síður: Reyna að gera þennan feril að tómri flokkapólitík, jafnvel þannig að einstakir armar takist á um það hvern eigi að senda fyrir dómarana og hverja ekki.

Þetta spáir ekki góðu um viðbrögð Davíðsvina á þingi og annarstaðar í samfélaginu við niðurstöðum þingmannanefndarinnar. En kannski er leikurinn til þess gerður að draga athyglina frá hinu augljósa:

Hvernig sem bekkur sakborninga verður skipaður eftir að alþingi hefur fjallað um niðurstöður þingmannanefndarinnar er fyrirfram ljóst að þar vantar þann eina mann sem ábyrgð hans er meiri en allra annarra á þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið frá því á haustdögum 2008.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.9.2010 - 07:57 - 22 ummæli

Hin leiðin er engin leið

Nefndin sem einhverjum snillingnum datt í hug að kenna við sættir hefur nú skilað af sér og segist hafa fundið upp tvær leiðir til að framkalla réttlæti og skynsemi í sjávarútvegi. LÍÚ, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur fara fyrir annarri leiðinni, sem hefur fengið hið skáldlega heiti samningaleiðin, en hin er einsog munaðarlaus í nefndinni enda heitir hún bara tæknilegu nafni, tilboðs- eða uppboðsleið.

Með síðarnefndu leiðinni er gert ráð fyrir innköllun og endurúthlutun aflaheimilda á löngum tíma þannig að enginn lendi í vandræðum en að lokum náist það mark að þjóðin eigi sjávarauðlindina í raun og fái sanngjarnt gjald fyrir nýtingu hennar. Nýliðun er tryggð og alþjóðakröfum um mannréttindi á Íslandi fullnægt. Þetta er ágæt útgáfa af fyrningarleiðinni (æ, fyrirgefðu Gutti ég skuli vera svo ódannaður að missa útúr mér þetta orð).

Hin leiðin, leiðin sem LÍÚ bendir á, er eiginlega hvorki fugl né fiskur einsog hún er kynnt í skýrslunni. Þar fer niðurstaðan algerlega eftir útfærslunni. Þeir sem vilja halda áfram núverandi kerfi alveg óbreyttu geta sagst styðja þessa leið, því það er einfaldast að hugsa sér útfærslu sem engu breytti. Aðrar útfærslur gætu vissulega breytt kerfinu og bætt að hluta – en þó varla svo að full mannréttindi næðust að kröfu SÞ-nefndarinnar þar sem núverandi „eigendur“ kvótans hefðu alltaf yfirhöndina. Þessvegna hefur hún meirihluta í þessari hagsmunanefnd. Samningaleiðin“ eða “samninga- og auðlindaleiðin“ eða LÍÚ-leiðin eða hin leiðin – er ósköp einfaldlega engin „leið“ heldur lauslegar hugmyndir utanum núverandi kerfi. Með henni er hægt að halda áfram sama veginn.

Nefndin er búin að vera að í heilt ár rúmlega, og tafir í nefndarstarfinu hafa þegar slátrað tímasetningu sjávarútvegsumbóta í stjórnarsáttmálanum. Samt hefur nánast ekkert gerst í hugmyndavinnu merkilegra en þegar var komið fram í skýrslu auðlindanefndar frá því á öldinni sem leið árið 1999. Þar voru líka tvær leiðir, önnur sem lagði til umbætur með fyrningu/tilboðum og hin sem gerði ráð fyrir því að sömu útgerðarmenn sætu áfram að miðunum gegn ofurlítilli borgun. Við erum í sömu skrefunum núna og fyrir ellefu árum.

LÍÚ vann þessa lotu – einsog sjá mátti á fulltrúa þeirra í Kastljósinu í gær, hinum hlakkandi Einari K. Guðfinnsssyni. En næsta leik á ríkisstjórnin og það bandalag gegn óréttlæti og rugli í sjávarútvegi sem lengi hefur notið meirihlutafylgis meðal þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.9.2010 - 18:57 - 12 ummæli

Velheyrandi

Nú hef ég tekið mér viðurnefnið Velheyrandi. Heyri í Lindu gegnum þrennar dyr. Heyri í símanum inní stofu. Heyri allt sem allir segja á nefndafundunum. Heyri suð og hvísl og vindinn hvína í lauftrjám hinumegin götu. Heyri skýrt hvellar athugasemdir og lágmæltar spurningar frá stuðningssyninum sem varð sex ára síðustu helgi. Heyri dyn kattarins og anda fisksins. Grasið gróa.

Þetta hófst fyrir svona tólf árum í sumarfríi í Frans, í smábænum Argentat við Dordogne-fljót í sunnanverðu Mið-Frakklandi. Indælt frí og eitt kvöldið erum við að ganga heim í miðaldahúsið okkar í bæjarjaðrinum eftir kyrrlátum trjágöngum að kvöldi og Linda fer að tala um hvað engispretturnar séu óvenjulega háværar – en ég heyrði engin engisprettuhljóð og neitaði staðfastlega tilvist engisprettna í Corrèze-héraði. Þetta væri bara einhver ímyndun í henni.

Og lauk um daginn þegar var að byrja framhaldsmynd á Stöð tvö um halastjörnu á leið til jarðar með tilheyrandi vesini og útrýmingarhættu fyrir mannkynið – ég hafði horft á fyrrihlutann kvöldið áður við litla hrifningu á heimilinu en var núna að dunda við stofuborðið, og alltíeinu fer Linda að tala eitthvað um hundasund mannkynsins. Það þótti mér sérkennilegt. – Ha? Hundasund mannkynsins? spyr ég. En þá hafði hún verið að tilkynna mér að nú væri á Stöð tvö runnin upp hinsta stund mannkynsins.

En auðvitað byrjaði þetta miklu fyrr, í sjálfum Dalagenunum. Pabbi er kominn með heyrnartæki fyrir löngu og við þurftum alltaf að tala hátt við hana ömmu mína í gamla daga – einn föðurbróðir minn var sífellt að nudda í mér þegar ég var í Útvarpsráði og fannst hálfgerður aumingjaskapur að ég skyldi ekki ráða við að láta texta allt í Sjónvarpinu, heyrði ekki bofs. Og sá þeirra bræðra sem stóð mér næst var svo slæmur undir lokin að við bara sátum og horfðumst í augu.

Eftir hundasundið dreif ég mig loksins til heyrnarfræðingsins Ellisifjar Katrínar Björnsdóttur í Kópavogi – mæli með henni, ákaflega fær og líka ljúf við skilningssljóa karla á miðjum aldri. Hún mældi í mér heyrnina og hampaði svo línuriti þar sem vantaði eitt hornið. Jamm – ég skil þetta – en þarf ég nokkuð heyrnartæki? Spurði ég og hún sagði já, að sjálfsögðu. Spurði þrim sinnum í samtalinu, fékk þrim sinnum sama svarið.

Vill til að þessi tæki eru bæði létt og meðfærileg – og ber næstum ekkert á þeim, bara svolítill glær þráður niður í hlustina. Þetta er sumsé nokkuð langt frá öfuga lúðrinum á skrípamyndunum. Samt leið mér einsog þetta væri einhverskonar ósigur, og þegar ég gekk með tækin til reynslu næstu daga – gekk og keyrði og hjólaði og talaði og horfði á sjónvarpið og fór á völlinn og hlustaði á vind og regn og börn og konur – þá fannst mér að alltíeinu færðist yfir mig ógnarlega mikill aldur. Hvað er ég eiginlega orðinn gamall? Ég sem er alltaf ungur! Ég sem hélt ég væri svo allt öðruvísi en þetta léttsjúskaða og þreytulega lið sem var með mér í skóla í gamla daga!

En þetta er auðvitað ekki aldur, og á ekki heldur að vera nein skömm, frekar en gleraugu eða önnur verkfæri sem nútímafólk notar til að lifa heilu lífi. Hef tekið gleði mína. Eftir að ég gerði þá tilraun að skilja tækin eftir einn morguninn og fara gegnum daginn án þeirra – og uppgötvaði að það vantaði allt í einu eitthvað – hljóðheimurinn var bara hálfur.

Og tók þá einu ákvörðunina sem til greina kom.

Svo er önnur saga hvað þetta er dýrt – og hvað það kemur lítið úr sameiginlegum sjóðum til fólksins sem þarf á þessu að halda. Ég valdi á milli tækja uppá 250 og 350 þúsund – að framlagi TR frádregnu, en það er um 60 þúsund sama hvað tækin kosta og sama hvaða tekjur kaupandinn hefur. Ég get auðvitað borgað, en hvað um gamla fólkið og þá atvinnulausu og námsmennina? Þarf að ræða þetta við Guðbjart.

Þetta var ekki spurning eftir tækjalausa tilraunadaginn með hálfa heyrn. Bara að deila kostnaðinum niðrá alla dagana sem fyllast af týndum hljóðum – og svo er að átta sig á því ef manni finnst skammarlegt að vera heyrnarlaus – að það er einmitt liðin tíð. Það var þá. Nú er ég Velheyrandi.  Bróðir Velvakanda og Velhöggvanda og Velbergklifranda. Heyri allt.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.8.2010 - 09:12 - 55 ummæli

Atkvæði um ESB-viðræðurnar

Þorsteinn Pálsson segir í Fréttablaðinu í dag að alþingi eigi að afgreiða sem fyrst þingsályktunartillögu Heimssýnarbandalagsins um að hætta viðræðum við Evrópusambandið.

Sammála. Helst í lok septemberþingsins. Mætti lengja það um nokkra daga til að afgreiðslan tefji ekki önnur mál.

Í fyrsta lagi vegna þess að alþingi á að afgeiða sem allra flest mál sem fyrir það eru lögð, bæði stjórnarfrumvörp og frumvörp frá þingmönnum, sérstaklega ef þau skipta þjóðlífið miklu máli. Líklega mundi þingmálum fækka við slíka breytingu og þau batna að gæðum sem eftir yrðu – menn væru þá að setja fram raunverulegar tillögur til umræðu og afgreiðslu en ekki stílæfingar til brúks i heimasveitum.

Í öðru lagi hafa andstæðingar aðildarviðræðnanna  vísað mjög til Heimssýnarfrumvarpsins þessar vikur og fullyrða að ekki sé lengur fyrir hendi meirihlutinn frægi frá 16. júlí í fyrra, sá sem fól ríkisstjórninni að óska viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Þessi meirihluti á alþingi er mikilvægari en ella vegna þess að ríkisstjórnin er sem kunnugt er ekki einhuga um málið. Annar stjórnarflokkurinn vill aðild ef forsendur samnings eru viðunandi, hinn alls ekki.

Það er skrýtin staða en þá er að muna hvernig hún skapaðist: Við þingkosningarnar vorið 2009 fékk fyrrverandi minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og VG meirihluta á þingi. Sá meirihluti var ekki einhuga í ESB-málum en hinsvegar var fyrir hendi meirihluti þeirra framboða sem fyrir kosningar höfðu lýst stuðningi við viðræður: Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin. Ákvörðunin í stjórnarsáttmálanum um viðræður byggðist á þessum þingmeirihluta, og það varð svo hlutskipti VG – og lýsti heilindum þess fólks og kjarki – að styðja umsóknina á þingi þegar fyrri stuðningsmenn málsins hrukku frá málstað sínum .

Í þriðja lagi berast fréttir ekki bara til landsins heldur líka frá því. Kannanir sveiflast upp og niður og ekki mikið að marka afstöðu í könnunum að rétt nýhöfnum viðræðum. Efasemdir um að ríkisstjórn í aðildarviðræðum hafi þingmeirihluta að baki sér veikja hinsvegar stöðu Íslands í samningaviðræðunum – og draga úr líkum á að fram náist viðunandi samningur. Það þykir mörgum andstæðingum aðildar hið besta mál, því þeir vilja að samningurinn verði sem allra verstur. Þannig er meiri möguleiki að fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Með því að afgreiða Heimssýnartillöguna fæst úr þessu skorið, og staða Íslendinga í samningaviðræðunum  mundi batna að mun að henni felldri.

Og hvað ef hún yrði samþykkt? Þá er að taka því – en slík samþykkt leiddi væntanlega beint eða óbeint til nýrra alþingiskosninga – þar sem ESB-málið yrði í kastljósi. Það er líka eðlileg niðurstaða ef kjósendur geta ekki lengur treyst þeim meirihluta sem þeir fólu síðast að fara í aðildarviðræður.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.8.2010 - 09:09 - 16 ummæli

Traustur vinur

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fundið út að samningaviðræðurnar við Evrópusambandið séu allsekki samningaviðræður heldur sé Evrópusambandið undir yfirskini samninga að véla Íslendinga til hættulegra breytinga á stjórnkerfinu – sem einmitt hefur reynst okkur svo vel – undir yfirskini samninga. Ætlunin sé að fimmta herdeildin veiki svo varnirnar innan borgarmúra stjórnarráðsins að ekki verði nein fyrirstaða þegar áhlaupið loksins hefst.

Í Mogganum í dag leggur ráðherrann fram sönnunargögnin sem sýna að svona er í pottinn búið.

Til er nefnilega minnisblað þar sem segir að vegna samninganna verði að „undirbúa aðlögun landbúnaðarstefnu Íslands að landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu ESB“. Vitnað er í ályktun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að tilteknar breytingar þurfi í landbúnaði „áður en aðild Íslands að ESB tekur gildi“ (rammagrein í Mbl., bls. 6). Ekkert kemur frekar fram um minnisblaðið – nema sú túlkun ráðherrans að hér með sé „aðlögunarferlið“ hafið.

Já – sjálfsagt er það svo að ef við ætlum okkur aðild þarf að gera ákveðnar breytingar, hér heima og í regluverki ESB – „áður en aðild Íslands að ESB tekur gildi“. Og hvað með það?

En hvaðan er nú þetta góða minnisblað? Frá fræðimönnum um ESB og íslenska hagsmuni? Frá samningamönnum okkar? Frá óháðri rannsóknarstofnun, hér eða ytra?

Nei. Hið umrædda minnisblað er frá ráðuneytisstjóranum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, næsta undirmanni Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Endurtek: Heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um aðlögunarhættuna er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisstjóri.

Það er örugglega ágætur maður, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og þaráður aðstoðarmaður Halldórs Blöndals landbúnaðarráðherra, Sjálfstæðismaður af Heimastjórnar- og Heimssýnarskólanum. Hlýðinn yfirboðurum sínum. Traustur vinur. Og getur greinilega gert kraftaverk.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.8.2010 - 12:05 - 31 ummæli

Orð skulu standa

Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að átta sig á því afhverju útvarps- og sjónvarpsstöðin RÚV hefur heitið Ríkisútvarp – þar virðist ekki rekin nein sú stefna sem eigi skylt við almannaútvarpsstöð einsog þær eru skilgreindar í grannlöndunum, og hefðir hins gamla þjóðarútvarps áttatíu ár aftur í tímann eru einsog hafðar upp á punt á tyllidögum.

En til þess borgum við öllsömul afnotafgjöld, nú í formi nefskatts, að hér sé einmitt rekið ríkisútvarp. 

Nýjustu fréttirnar úr Efstaleiti eru þær að vel látinn og vinsæll útvarpsþáttur þar sem íslenskt mál er undirstaða lágværrar skemmtunar og íbygginnar fræðslu, Orð skulu standa – sem hefur meðal annars fengið sérstaka viðurkenningu Íslenskrar málnefndar – er látinn niður falla af svokölluðum hagræðingarástæðum.

Þegar skrifstofustjóri Páls Magnússonar yfir útvarpshlutanum er spurður af hverju eini reglulegi þátturinn um íslenskt mál sé að hverfa – þá segir Sigrún Stefánsdóttir að það sé rabbað svolítið um tungumál árdegis á miðvikudögum, og svo verði einmitt fjallað um forn tengsl Ríkisútvarpsins við íslenska tungu í sérstökum þáttum sem á að flytja í vetur í tilefni 80 ára afmælis stofnunarinnar. Það voru sannarlega aum svör.

Tillaga: Hættið við þættina um 80 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Endurflytjið frekar þættina um 70 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Það er hvort eð er engin sérstök ástæða til að gleðjast yfir tíu síðustu árunum. Haldið Orðunum sem standa.

Önnur tillaga: Fáum til verka á Ríkisútvarpinu fólk sem vill reka almennilegt almannaútvarp og skilur hvað útvarp og sjónvarp snúast um.

Orð eiga að standa, líka þau sem snúast um skyldur RÚV við íslenska menningu.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.8.2010 - 11:48 - 34 ummæli

Afvegaleiðing?

Málið kringum Gylfa Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nokkrar hliðar, og sumar þeirra eru ekki upplýstar að fullu þegar þetta er skrifað – þá einkum hver vissi hvað og hvernig í ráðuneytinu.

Því er svo haldið fram að Gylfi hafi ekki sagt satt við þingið um gengistryggðu lánin. Virtur stjórnmálafræðingur telur að hann hafi „afvegaleitt“ þingið. Nokkrir háttvirtir þingmenn hafa krafist afsagnar og hótað vantrauststillögu. Aðrir háttvirtir vilja fund í efnahags-, skatta- og viðskipta. Bjarni Ben vill kalla saman þingið allt.

Alvarleg sök – alvarleg ásökun

Það eru alvarleg mistök og afsagnartilefni að ráðherra ljúgi að þinginu eða afvegaleiði það – það er að segja villi um fyrir alþingi Íslendinga vitandi vits. Ásökun um það er líka ábyrgðarhluti og verður að styðjast við veigamikil rök, hvort sem hún kemur frá alþingismönnum eða háskólaprófessorum.

Ég hef ekki myndað mér neina lokaskoðun í þessu máli, en í fílólógíu og tengdum fræðigreinum er grunnreglan að gá í frumtextann og byggja rök sín og afstöðu á því sem þar stendur.

Fyrirspurn Birkis Jóns

Frægt svar Gylfa Magnússonar um lánin kom í fyrirspurnatíma á þinginu 1. júlí í fyrra. Í þessum fyrirspurnatímum svara ráðherrar spurningum sem þingmenn hafa lagt fram skriflega, og hefur ráðherra samkvæmt þingsköpum tvær vikur til að undirbúa svar við slíkri fyrirspurn.

Fyrirspurnin sem Gylfi svaraði miðvikudaginn 1. júlí 2009 var frá Birki Jóni Jónssyni. Í sjálfri hinni skriflegu fyrirspurn talar Birkir um „bílalán í erlendri mynt“, um einstaklinga „með erlend lán“, sem „skulda bílalán í erlendri mynt“. Í ræðunni þar sem fyrirspurnin er reifuð endurtekur Birkir Jón þetta og segir svo að allir hljóti að vilja lækka skuldir íslenskra heimila – og að hann „myndi vilja sjá þar sérstaklega horft á myntkörfulánin sem hafa hækkað gríðarlega síðustu missirin“. Fyrirspyrjandinn gerir í fyrirspurn sinni og reifun hennar ekki greinarmun á þessum lánum eftir því hvort þau eru í erlendum gjaldmiðli eða í gengistryggðum íslenskum krónum.

Gylfi svarar meginspurningum Birkis Jóns um fjölda lántaka og upphæð lána með tölum frá Seðlabankanum um þá sem „eru með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt“. Í svari Gylfa er heldur enginn greinarmunur gerður á lánum í erlendum gjaldmiðli og lánum í gengistryggðum krónum. Ekki kemur skýrt fram hvort Seðlabankinn gerir greinarmun á þessu og liggur beinast við að álykta svo sé ekki.

Miðvikudagsumræðurnar þar sem svarað er undirbúnum fyrirspurnum eru þannig skipulagðar að fyrst talar fyrirspyrjandinn, svo svarar ráðherrann. Svo mega aðrir þingmenn tala, hver í eina mínútu aðeins einu sinni, þá talar fyrirspyrjandinn aftur og að lokum ráðherrann.

Greinarmunur Ragnheiðar og Gylfa

Fyrsti ræðumaður eftir ráðherrasvar var í þetta sinn Ragnheiður Ríkarðsdóttir, og þá fyrst kom fram spurningin til Gylfa um það hvort gengistryggðu lánin væru lögleg. Hún vísar til hinna frægu laga um vexti og verðtryggingu og spyr hvort „myntkörfulánin“ séu lögleg vegna þess að þau virðist í raun vera „hrein krónulán en með erlendu viðmiði“. Gott hjá Ragnheiði.

Næst tala þrír Framsóknarmenn, aðallega um IceSave og afskriftarhugmyndir og síðan fyrirspyrjandinn og gerir ekki heldur þann greinarmun sem lesa má úr ræðu Ragnheiðar. Loks svarar Gylfi síðara sinnið og fyrst um „fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt“. Gylfi virðist sumsé ekki sinna þeim greinarmun sem Ragnheiður gerir heldur svarar einsog hún sé að spurja um lögmæti allra lánanna. Vísar að lokum til dómstóla sem einir séu færir um að skera úr þessum álitaefnum.

Þar með er umræðan búin. Ragnheiður Ríkarðsdóttir gat ekki tekið til máls aftur til að benda ráðherranum á að hann hafi ekki svarað hinni óundirbúnu spurningu sinni, og enginn annar þátttakenda í umræðunum virðist hafa kveikt á spurningu Ragnheiðar – eins augljós og manni finnst hún núna.

Umræðurnar leggjast þannig að ráðherrann misskilur spurningu Ragnheiðar, sem var flutt óundirbúin sem aukageta inni í fyrirspurn annars þingmanns. Skipulagið er þannig að Ragnheiður getur ekki bent honum á misskilninginn og hann getur ekki leiðrétt sig, að minnsta kosti ekki í þessari umræðu.*

Það sem sannara reynist

Þegar þessi texti er skoðaður í samhengi sýnist mér fráleitt að halda því fram að Gylfi Magnússon hafi verið að ljúga að þinginu eða afvegaleiða það – nema þá að hann hafi vitað fyrirfram af lögfræðilegum niðurstöðum um að hinn gengistryggði hluti lánanna stangaðist á við lögin. Um það veit ég ekkert ennþá – frekar en hinir háttvirtu kollegar mínir á þinginu eða professores sapientissimi Universitatis Islandiæ. En hef enga ástæðu til að efast um heilindi Gylfa Magnússonar í þessu efni þar til annað reynist sannara.

 

—————

* Ragnheiður, eða þá einhver annar, hefði reyndar getað vakið (og hefði náttúrlega í ljósi síðari tíma átt að vekja) athygli á msskilningnum/afvegaleiðingunni með athugasemd um fundarstjórn forseta …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.8.2010 - 09:10 - 7 ummæli

Hættan er heimatilbúin

Nú er ljóst að Einar K. Guðfinnsson og aðrar þjóðhetjur sem hneykslast á  erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi – vissu fyrir allt um þessa fárfestingu og þar með að hún  má samkvæmt lögum nema allt að 49,9%. Að minnsta kosti að áliti sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins 1999–2005. Upphrópanirnar núna eru pólitískur blindingsleikur. Þeim er ætlað að þeyta upp moldviðri sem um leið hylji fullkomið áhugaleysi sjálfrar viðkomandi þjóðhetju um að leysa vandann.

En hver er nákvæmlega vandinn? Ekki peningar frá útlöndum eða hvað? – því allt íslenskt atvinnulíf er fullt af peningum frá útlöndum, þeim sem aflast við sölu afurða, þeim sem fást að láni og þeim sem lagðir eru fram sem fjárfesting. Vandinn er auðvitað sá að um leið og við viljum sjá sem mest af peningum frá útlöndum verðum við að tryggja að þær auðlindir sem við gengum í arf gagnist okkur og afkomendum okkar. Besta leiðin til þess er sú að þær séu eftir því sem kostur er í þjóðareigu – og síðan greitt gott verð til eigandans fyrir afnot af þeim.

Í sjávarútvegi er eðlilegast, réttlátast og skynsamlegast að þjóðareign auðlindarinnar sé bæði negld rækilega niður í lögum og stjórnarskrá og staðfest með leigufyrirkomulagi – veiðileyfagjaldi – þar sem útgerðarfyrirtæki geta tryggt sér afnotarétt til mislangs tíma eftir hentugleikum og undir eðlilegu eftirliti með greiðslum, fyrirfram eða eftirá. Að þessu er stefnt með hinni frægu fyrningarleið og öðrum svipuðum aðferðum til að rjúfa gjafakvótakerfið frá 1983 og 1990.

Væri þessi skipan komin á þyrfti ekki lengur að hafa neinar teljandi áhyggjur af erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi. Þvert á móti væri slík fjárfesting í flestum tilvikum afar æskileg, og má raunar búast við miklu framboði fjár að utan til sjávarútvegsgreinanna, vegna þess að við erum góðir sjómenn og útgerðarmenn og fiskverkendur og fisksalar, og vegna þess að hér er öflug fræðihefð um fisk og annan auð í sjónum, vísindaleg og reynsluleg.

Hættan við slíka fjárfestingu er lítil, og tiltölulega auðvelt að stemma stigu við henni með lögum og reglum, svo sem um að allur afli skuli að meginreglu seldur á fiskmörkuðum. Hagur af henni getur orðið mikill þar sem erlendir fjárfestar mundu auðvelda tæknilega framþróun og tilraunir í veiðum og vinnslu, en nú einkum losa íslenskan sjávarútveg við gríðarlegan skuldabagga. Líklegt er líka að erlendri fjárfestingu fylgdu kröfur um fulla alvöru í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna í stað ævintýramennsku og fjárausturs út úr greininni sem allir þekkja, einkum þó íbúar í þeim byggðum sem háðastar eru glímunni við Ægi.

Eina ástæðan – en hún er líka veigamikil – til að óttast erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi einsog málum er nú háttað er auðvitað sú að með fjárfestingu í útgerðarfyrirtækjunum „eignast“ útlendingar kvóta, og þarmeð hlut í sjálfri auðlindinni. Af því við höfum ekki haft vit (sum okkar) – eða kjark (önnur okkar) – eða vilja (þau okkar sem hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi) – til að taka til í eigin ranni og leggja af gjafakvótakerfið vonda og spillta.

Reyndar eiga útlendingar þegar slíkan kvóta – annarsvegar í krafti laganna frá 1991, sem heimila þeim 49,9% eign í sjávarútvegsfyrirtækjum, og hinsvegar eiga erlendir bankar veð í fyrirtækjunum, skipum þeirra og kvótum, sem þeir geta kallað eftir hvenær sem er.

Þessvegna er óbreytt ástand ómögulegt. Mönnunum munar – annaðhvort aftur á bak, þá þannig  að við bönnum sjávarútvegsfyrirtækjum bæði að selja útlendingum hlut og að taka lán gegn veði í kvóta eða verðmætum sem tengjast honum – ellegar nokkuð á leið: Íslensk þjóðareign auðlindarinnar en óheft svigrúm handa fyrirtækjunum sem borga okkur fyrir nýtingarréttinn.

Hættan við erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi er heimatilbúin. Sem betur fer er það líka á okkar valdi að losa okkur og börnin okkar undan þeirri hættu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.8.2010 - 09:13 - 7 ummæli

49,9% Einar

Einar K. Guðfinnsson sagðist í gær vera steinhissa á umræðunni um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Hann væri algerlega á móti erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.

Hefur ekki Einar K. setið á þingi á nokkur ár? Og meira að segja verið sjávarútvegsráðherra?

Góður félagi sendi mér þessa tilvitnun í flokksbróður Einars og fyrirrennara – umræða á alþingi október árið 2000, Árni M. Mathiesen þáverandi sjávarútvegsráðherra gjöriði svo vel:

Ég hef hins vegar talið ástæðu til að fjalla um þetta mál [erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi] í fjölmiðlum að undanförnu og reyndar verið að gera athugun á því síðustu vikurnar, jafnvel síðustu mánuðina að segja má, og sú athugun hefur leitt í ljós að óbeint geta erlendir aðilar átt allt að 49,9% í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki sem stundar bæði útgerð og frumvinnslu. Þetta er mjög í takt við það sem er í þeim löndum þar sem við höfum verið að fjárfesta, t.d. Chile og Mexíkó þar sem þessi mörk eru líka 49,9%.

Þetta var sumsé reyndin árið 2000. Svaf þá Einar K., alþingismaður samfellt frá 1991? Og þeir allir hinir sem nú eru yfir sig hissa?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur