Miðvikudagur 28.7.2010 - 19:22 - 27 ummæli

Verndum sjávarútveginn

Það þarf að vernda sjávarútveginn fyrir erlendu fjármagni, var haft eftir Jóni Bjarnasyni í kvöldfréttum Sjónvarps.

Kannski finnst Jóni að það ætti að vernda atvinnuvegina frá fjármagni yfirhöfuð?

En það er rétt – það þarf sannarlega að vernda sjávarútveginn fyrir erlendu fjármagni – sérstaklega erlendu lánsfjármagni.

Skuldar hann ekki hérumbil 600 milljarða?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.7.2010 - 09:37 - 34 ummæli

Hvar í stjórnarsáttmálanum?

Ég heyri í fjölmiðlum að nokkrir þingmenn ætla að hætta að styðja ríkisstjórnina ef Magma-málið leysist ekki. Svo stórum orðum þyrfti að vísu að fylgja nánari leiðbeining um lausnina – á ríkið að kaupa Magma út? Rifta samningnum – og þá hvernig? Hvað má lausnin kosta og hvaðan á að taka það fé?

Hitt veldur meiri áhyggjum:

Að þingmaður styður ríkisstjórn er grundvöllur þingræðislegrar stjórnskipunar þar sem ríkisstjórn verður að njóta meirihluta á þingi. Ef slíkur þingmaður hættir að styðja ríkisstjórnina þarf eiginlega annaðhvort að hafa gerst:

Að ríkisstjórnin fer í bága við stjórnarsáttmálann, sem myndar forsendur stuðningsins,

eða að við einhverjar nýjar aðstæður sem ekki er gert ráð fyrir í þessum sáttmála brýtur ríkisstjórnin gegn anda stjórnarsáttmálans, þeim hugmyndagrunni sem samstarfið hvílir á.

Svo skoðar maður samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG frá 5. maí 2009 – og ekkert finnst í honum um Magma Energy. Sérstakur kafli  – alveg ágætur (fyrir utan klúðurslegan stíl) – er þó þarna um umhverfi og auðlindir, og byrjar svona: „Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum“ – heyr! – en þetta mál snýst ekki um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum enda eru auðlindirnar á Suðurnesjum í lögbundinni sveitarfélagseigu.

En eru þetta þá ekki nýjar aðstæður?

Undir forystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks seldi ríkið hlut sinn í HS vorið 2007, til hins illræmda Geysis Green Energy. Þar með eignaðist GGE ekki bara hlut í fyrirtækinu sem slíku heldur beinan eignarhlut í auðlindunum. Þetta var upphafið.

Með nýju lögunum frá 2008 var komið í  veg fyrir að þetta gæti gerst aftur. Þar segir að ekki megi selja auðlindina einkaaðilum. Með sömu lögum var svo kveðið á um uppskiptingu orkufyrirtækjanna, þar sem veiturnar skyldu vera í félagslegri meirihlutaeigu en við eignarhaldi virkjunar- og rekstrarhlutans voru engar hömlur settar. Þessi lög urðu til á tímum ríkisstjórnarinnar vondu sem Samfylkingin þvældist í með Sjálfstæðisflokknum, og báru þess merki. Leigutíminn er of langur. Endurnýjunarrétturinn er túlkaður afar frjálslega í Magma-samningnum. Og núna finnst okkur undarlegt að íslenska ríkinu skuli ekki hafi verið áskilinn forkaupsréttur við sölu hluta í orkufyrirtækjunum.

Meginatriði í lögunum var hinsvegar þetta tvennt: Auðlindirnar í opinberri eigu, uppskipti orkufyrirtækja. Og lögin urðu til þess að forsvarsmenn HS – sem lögin  náðu ekki til – ákváðu að skipta fyrirtækinu upp og setja auðlindirnar aftur til sveitarfélaganna. Lögin leyfðu hinsvegar einkahlut í orku-partinum, og Magma sá sér þar leik á borði. Hvernig sem mönnum líkar það verður veskú að viðurkenna að það var lögunum samkvæmt (undanskil hér deiluna um sænsku skúffuna, sem er efnislega frekar ómerkileg).

VG var í stjórnarandstöðu á þessum tíma og talaði gegn frumvarpinu – nokkuð óskýrt í megindráttum en með ýmsum ágætum ábendingum. Hver var afstaða VG að lokum til þessara laga sem sumir þeirra kenna nú við frjálshyggju og landsölu? – Þingmenn VG sátu hjá. Greiddu ekki atkvæði. Það var ekki einusinni nafnakall við þriðju umræðu í þinginu.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2009 hefur VG greinilega lagt svo mikla áherslu á þetta að á HS er ekki minnst einu orði, hvorki beint né óbeint. Samt er staðan þá sú að einkaaðili – GGE – átti verulegan hlut. Um sumarið seldi GGE Magma part af þessum hlut. Seinna á árinu 2009 – með VG í ríkisstjórn – keypti Magma hlut OR, svo Hafnarfjarðar. Og loks allan GGE-hlutinn. Og þá loksins vöknuðu þjóðfrelsisliljurnar í VG.

Ég var ekki á þingi 2008 þegar lögin voru samþykkt – en studdi þau úr fjarska, bæði sem jafnaðarmaður og umhverfissinni. Nú er lag að endurskoða þessi lög, og ræða allar hliðar máls – forkaupsrétt og leigutíma, almannahag, fjárfestingar og áhætturekstur,  hugmyndafræði og eignarhald, þar á meðal reynsluna af „félagslegri“ eigu Landsvirkjunar og OR, sem lengstaf hafa hagað sér einsog ríki í ríkinu með rányrkju og umhverfisspjöllum – með góðfúsu samþykki pólitíkusa í ofurlaunuðum stjórnum – án raunverulegs eftirlits frá „öðrum“ stofnunum ríkis og sveitarfélaga.

Ræðum þetta endilega allt saman, sem fyrst, sem dýpst, sem opnast. Án hótana, takk.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.7.2010 - 07:09 - 5 ummæli

Orð dagsins

Ég hef aldrei kunnað að meta Þóri Stephensen – enda geng ég með minn væna skammt af allskonar fordómum, pólitískum og persónulegum – og hef svosem aldrei kynnst Þóri nema gegnum fjölmiða

en þegar svona texti blasir við í dagblaðinu með morgunmatnum verður maður að fara að taka til í fordómasafninu:

Ég á ekki sannleikann en mig langar til að sannleikurinn eigi mig.

Þetta er í merkilegri grein eftir Þóri í Fréttablaðinu, um Evrópumálin,  Sjálfstæðisflokkinn, íhaldsstefnu í stjórnmálum og alræðisleg vinnubrögð. Framhaldið er á þennan veg:

Ég er tortrygginn gagnvart þeim sem ekki þurfa að leita sannleikans, búa hann jafnvel til handa sjálfum sér og virða ekki sannleiksþrá annarra manna.

Í greininni lýsir Þórir Stephensen sjálfstæðismaður fyrr og síðar sovéskum starfsstíl valdamanna í flokki sínum þegar kemur að Evrópumálunum, þar sem niðurstaðan er fengin fyrirfram og önnur viðhorf koma ekki til greina. Þetta er afar fróðlegt á vettvangi dagsins. Lýsingin passar því miður líka við aðra flokka og önnur mál en Sjálfstæðisflokkinn og Evrópumálin. Hvað til dæmis um Magma og VG? Jájá, og Samfylkingin er ekki undanskilin, einsog vonandi verður ljóst í vinnunni kringum umbótanefndina sem einmitt þessa dagana er rekin af ánægjulegum þrótti og miklum hug (hlýtur að vera).

Kannski ættu allar ræður á flokksfundum næstu árin á Íslandi að hefjast með þessum orðum Þóris Stephensens um sannleikann. Því að hann kann einsog áður segir að gera yður frjálsa.

Og ekki vildi ég vera formaður í Sjálfstæðisflokknum eftir þennan vitnisburð frá gamla dómkirkjuprestinum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.7.2010 - 15:47 - 44 ummæli

Magma – óþarfur æsingur

Allur ótti, pirringur og æsingur út af orkubisnessnum á Íslandi er algerlega eðlilegur og réttmætur eftir þau stórslys sem ráðamenn hafa staðið fyrir í orku-, stóriðju- og umhverfismálum undanfarna áratugi.

Samt verða vinir íslenskrar náttúru og áhugamenn um efnahagslegt forræði að staldra við og hefja sig uppúr skotgröfunum kringum Magma – því að sú taugaveiklun er löngu farin að spilla fyrir raunverulegum árangri.

Sænskt eða kanadískt?

Magma-málið er tvöfalt. Annarsvegar eru athugasemdir við að sænskt fyrirtæki sé í raun og veru kanadískt. Magma í Svíþjóð sé bara skúffufyrirtæki til að fara kringum íslensk-evrópsk lög. Alveg rétt – svo langt sem það nær.

En umræddum lögum var aldrei ætlað að hindra að fjárfestingar á Íslandi eða annarstaðar á Efnahagssvæði Evrópu kæmu frá öðrum en Evrópumönnum. Þvert á móti. Tilgangur laganna er fyrst og fremst að tryggja að fyrirtæki sem fjárfestir á EES-svæðinu hagi sér samkvæmt evrópskum lögum. Þessvegna er gerð krafa um heimili og varnarþing á EES-svæðinu, til að hægt sé að höfða mál gegn því á grunni evrópskra laga fyrir evrópskum rétti – hvort sem hann er í Madríd eða Umeå eða á Akureyri.

Látum í bili vera að menn séu yfirhöfuð ósáttir við erlendar fjárfestingar – en hvaða máli skiptir hvort þær koma frá Gautlandi eða Bresku Kólumbíu? Deilan um þetta er nauða-ómerkileg – og mér liggur við að gera hér þá eina athugasemd – hvað það er heimskulegt að ekki sé hægt að stofna svona fyrirtæki á Íslandi í staðinn fyrir Svíþjóð.

Orka – veitur

Að hinu leytinu snýst Magma-málið svo um eignarhald á orkufyrirtækjum. En aðeins þeim orkufyrirtækjum sem borga eigandanum – veitufyrirtæki í félagslegri eigu – fyrir afnot af auðlindinni í tiltekinn tíma. Við höfum síðan síðast skipt þeim í tvennt,  veitu- og eignarhaldsfyrirtæki annarsvegar, áhætturekstur við framkvæmdir og orkusölusamninga hinsvegar.

Ég segi já við þessari skipan – og styð prinsippið í lögunum frá 2008, á sama hátt og ég styð veiðileyfagjald í sjávarútvegi og finnst skynsamlegt það kerfi sem Norðmenn hafa komið sér upp á olíusvæðunum sínum.

Áhættufé geti komið frá bissnessfyrirtækjum við virkjanasmíðar, rekstur og orkusölu, arður af auðlindinni renni til eigendanna. Ekkert bannar hinsvegar að orkufyrirtæki í almannaeigu keppi á þessum markaði einsog verið hefur – þótt það sé líklega ekki skynsamlegt til lengdar. Meðal annars vegna þess að slíkum fyrirtækjum hættir til að hreiðra smámsaman um sig einsog ríki í ríkinu, samanber Landsvirkjun og OR, og þrýsta kjörnum fulltrúum til ákvarðana sem ekki eru í almannahag. Margföld reynsla af þessu. Síðast við Kárahnjúka.

Hvað er að?

Ég veit í sjálfu sér ekkert um Magma nema sýnist að það hafi ráðið sér kjaftforan og þjösnalegan forstjóra af gamla ál- og orkuskólanum. Þeim mun meiri ástæða er til að fylgjast nákvæmlega með fyrirætlunum þess á Íslandi. Alveg einsog virkjanapartinum af Landsvirkjun, OR, OV og Rarik. Magma hefur líka tekist að ná bjánalega löngum samningum við frjálshyggjupólitíkusinn Árna Sigfússon, sem nú er að verða langt kominn með að leggja Suðurnesin í rúst. Það þarf líklega að endurskoða lögin frá 2008 og stytta tímann í 40 ár, einsog þáverandi ráðherra vildi, en 65 árin voru þá málamiðlun við Sjálfstæðisflokkinn, illu heilli.

Önnur slys í málatilbúnaði Árna og félaga tókst hinsvegar að koma í veg fyrir, einkum þá ógæfu að Árni seldi sjálfa auðlindina undan Suðurnesjamönnum til að redda sjálfum sér uppúr djúpum skít í Reykjanesbæ.

Nicht diese töne!

En í meginatriðum er Magma-málið stormur í vatnsglasi. Það skiptir engu máli hvort útlendingurinn er kanadískur eða sænskur, ef hann fer að íslensk-evrópskum lögum. Það er líka fjarstæða að halda því fram að hérmeð sé hið illa alþjóðaauðvald að eignast íslenskar auðlindir. Þvert á móti eru nú líkur á því, eftir lögin frá 2008, að stórnotendur – óháð fæðingarþorpi – borgi í fyrsta sinn sanngjarnt verð fyrir íslenska orku – beint til eigendanna, sem er fólkið á Íslandi.

Sjálfsagt að kanna og ræða allt í botn. Þegar það er búið skulum við endilega fara að snúa okkur að raunverulegum vanda og raunverulegum lausnum, félagi Svandís og aðrir umhverfisjafnaðarmenn. Sóknarfærin blasa við – ef við bara kynnum að losa okkur úr samsærunum og sjálfsvorkunninni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.7.2010 - 09:29 - 30 ummæli

En hver kaupir hvalinn?

„Það gengur vel að selja hval,“ segir í Fréttablaðinu í dag: „Hvalkjöt verið selt fyrir 800 milljónir.“ Þetta verð hefur fengist fyrir 372 langreyðartonn sem flutt hafa verið út á þessu ári – af aflanum frá í fyrra.

Þessar uplýsingar skipta verulegu máli, einsog blaðið bendir á, því nokkuð hefur verið efast um að markaður sé fyrir hendi erlendis – þ.e. í Japan – fyrir þetta kjöt. Að vísu er ekki allur afli ársins 2009 kominn á markað, heildaraflinn var 1500 tonn og virðast því 1128 tonn enn ófarin austur.

Fréttablaðið leitar álits útflytjandans á þessum tölum, en Kristján Loftsson „baðst undan því að ræða hvalveiðarnar í smáatriðum“ af því að „allar upplýsingar sem hann láti frá sér séu afbakaðar í fjölmiðlum og þeim beitt gegn fyrirtækinu af andstæðingum hvalveiða“. Kristján segir hinsvegar með nokkrum drýgindum að það „eigi ekki að koma mönnum á óvart að hægt sé að selja vöruna“ – það sé auðvitað forsenda fyrir að „standa í þessari útgerð ár eftir ár“.

Heimild Fréttablaðsins um Japanssöluna 2010 eru útflutningsskýrslur Hagstofunnar. Þær eru traustar og byggjast á tollskýrslum. 372 tonn af langreyðarafurðum hafa sannarlega verið send frá Íslandi í skipslest. Í tollskýrslum er verðmæti útflutningsins tilgreint eftir upplýsingum útflytjandans, og með þeim hætti eru 800 milljónirnar komnar á forsíðu Fréttablaðsins. Lokaheimildin um 800 milljóna króna hvalafurðakaup Japana á þessu ári er sumsé – sjálfur Kristján Loftsson.

Fréttablaðinu hefur því tekist að leggja hálfa forsíðuna og heila fréttaskýringarsíðu í innblaðinu undir ekki neitt, og blaðamaðurinn, Svavar Hávarðsson, lætur sér lynda að ljóstra ekki upp um „smáatriði“ kringum hvalveiðarnar – svo sem þau hver sé hinn japanski  kaupandi hvalafurðanna og hvernig sala hafi gengið í Japan, nú eða hvað sé að frétta af farminum sem stöðvaður var í Rotterdam í janúar.

Örugglega af tilliti til þjóðarhagsmuna – einsog títt er fyrr og síðar um íslenska fjölmiðla. Um það hefur hrunið sem betur fer engu breytt.

Viðbætir: Njósnastarfsemi!

Eftri að þetta var skrifað birtist frétt á Vísi — þar staðfestir Kristján Loftsson að um 11.000 tonn liggi enn hér heima en vill annars ekkert um málið segja. Fréttafrásagnir af útflutningsmálum sínum séu í raun njósnastarfsemi.

Gaman að menn kunna enn að taka upp í sig, en samt er einhver skrýtin lykt af svona ummælum frá einum helsta auðkýfingi landsins …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.6.2010 - 11:13 - 44 ummæli

Skynsamleg lausn

Hinir nýju forystumenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafa sent út tilmæli um gengistryggðu lánin, hversu með skuli fara þangað til dómstólar úrskurða annað. Annaðhvort séu notaðir lægstu vextir óverðtryggt eða lægstu vextir verðtryggt. Þetta er góð lína og einboðið að lánveitendur og lántakendur fari eftir þessu.

Í venjulegum neytendaviðskiptum er það þannig að hafi neytandi keypt gallaða vöru þá fær hann hana endurgreidda – sem á hér illa við – eða seljandinn lætur hann fá aðra vöru sem er eins eða kemur að sömu notum – er staðkvæmdarvara á stofnanamálinu.

Staðkvæmdarvara hinna gölluðu gengistryggðu lána eru önnur eins, óverðtryggð með nokkuð háum vöxtum, eða verðtryggð með heldur lægri vöxtum. Hér skiptir auðvitað miklu hvernig lánakjör hvers og eins verða útfærð, og hvaða úrræði eru í boði fyrir þá sem áfram eru í klandri vegna hrunsins – en í prinsippinu er þetta skynsamlegt og sanngjarnt.

Og algerlega samkvæmt bókstafnum, sýnist manni. Fjórða grein laga nr. 38/2001:

Þegar greiða ber vexti …, en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum … Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum …

Nú hefjast auðvitað málaferli, en líklegust og æskilegust lok þeirra eru í þessum dúr. Skelfing hinna gengistryggðu hefur þá linast, og menn geta aftur komið sér að verkum við það annarsvegar að bæta stöðu hinna verst settu og hinsvegar að snúa hjólunum  í gang þannig að atvinnuleysi hverfi og kaupmáttur aukist – á leiðinni í Nýja Ísland með lærdóma hrunsins í vegarnesti.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.6.2010 - 09:59 - 16 ummæli

Þrír aftur, einn fram

Einhverntímann sagði Jón Baldvin að hægri og vinstri væru ekki lengur til í pólitík, bara aftur og fram.

Ég var ekki sammála Jóni þá og ekki heldur nú – þótt það séu vissulega margar andstæður í pólitík er sú sem fyrr og síðar skiptir mestu máli einmitt hægri og vinstri, sem ég skal seinna rökstyðja í lengra máli …

en nýafstaðnir flokkafundir minntu mig á fram, aftur og Jón Baldvin, því eftir þá virðast íslenskir stjórnmálaflokkar skiptast einkum í tvo staði: Einn fram og þrír aftur.

Samfylkingin vill fram, inn í ESB, hinir þrír aftur.

Samfylkingin vill fram, skynsamlega og réttláta fiskveiðistjórn, hinir aftur (fyrirgefið í VG, en hér er miðað við sjávarútvegsráðherrann sem þið völduð ykkur).

Samfylkingin vill fram, velferðarsamfélag þar sem markaðurinn er þjónn, hinir aftur – mismunandi langt.

Samfylkingin vill fram, uppstokkun í stjórnkerfinu, meira lýðræði, skilvirka og ódýra stjórnskipun, hinir aftur (VG – muna Atla, Jón og Ásmund).

Svo vildi ég geta bætt við kinnroðalaust sirka þessu:  Samfylkingin vill fram, út úr stóriðjudraumunum inn í nýja veröld hátækni, umhverfisverndar og menntasamfélags, hinir (nema kannski VG) aftur. En auðvitað er heimurinn ekki alveg fullkominn.

Þrír aftur, einn fram. Fyrir stjórnmálamann sem að undanförnu hefur þjáðst af ýmsum erfiðum efasemdum um flokkinn sinn – þá er þessi niðurstaða ákaflega hressandi.

Þegar kenningin var viðruð í búningsklefanum í ræktinni sagði hinsvegar einn á handklæðinu að ef þetta stæðist, þá væri ástandið í pólitíkinni orðið einsog ítalskur skriðdreki í seinni heimsstyrjöldinni. Um þá var sagt að þeir hefðu fjóra gíra: Einn fram, þrjá aftur.

Og það er auðvitað alveg rétt.

Guð blessi Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.6.2010 - 18:29 - 4 ummæli

Seðlabankinn líka

Eftir spjall í Ræktinni:

„FME skoðaði aldrei gengislánin“ segir þvert yfir forsíðu Morgunblaðsins á laugardaginn – og það virðist vera alveg rétt. Eitt af því sem þetta skrýtna Fjármálaeftirlit gleymdi að gera var að lesa lögin um vexti og verðtryggingu númer 38/2001 ásamt helstu lögskýringargögnum (hér og hér), og missti þessvegna af þeirri skýru tilkynningu í greinargerðinni, kafla V í inngangi að meðal breytinga sem lagðar væru til í þessu frumvarpi til laga væri að „[h]eimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður“.

En þeir á Mogganum virðast líka hafa gleymt að lesa lögin. Sú stofnun í stjórnkerfinu sem beinlínis er falið eftirlit með lánakjörum er nefnilega Seðlabanki Íslands samkvæmt 10. grein:

Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst. …

 Bankinn hefur sumsé það lögbundna hlutverk að fylgjast með þessum lánskjörum, og í greinargerðinni er auk viðskiptabankanna sérstaklega minnst á eignarleigufyrirtækin.

Núverandi aðalritstjóri Morgunblaðsins er því að minnsta kosti samsekur FME um vanrækslu við lögskyld eftirlitsstörf árin 2005–2009. Enn hefur hann þó ekki skýrt þetta út fyrir lesendum á fréttasíðum Morgunblaðsins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.6.2010 - 11:53 - 15 ummæli

Davíð rúlar

Fróðlegur leiðari Moggans í dag. Þar fá áhugamenn um ESB-aðild í Sjálfstæðisflokknum þá umsögn að þeir séu „fámenn og einöngruð klíka“ – „sem fylgir forystu Samfylkingarinnar í Evrópumálum en ekki sinni eigin“. En nú hafi flokksforystan – Bjarni, Ólöf et cetera – tekið á sig rögg og fylgi „þjóðarviljanum“ í ESB-málinu með tillögunni um eindregna andstöðu við aðild og tilheyrandi riftun samningaviðræðna.

Davíð Oddsson kom víst á landsfundinn en lét sér nægja að spjalla við fundargesti og talaði ekkert sjálfur. Hann bauð sig heldur ekki fram til forustu einsog aðdáendur hans höfðu sumir hvatt til.

Þess þurfti ekki.

Formaður flokksins var endurkjörinn en „galt þess að hafa teygt sig of langt í átt að þeim sem höfðu í hótunum,“ nefnilega fámennu og einöngruðu klíkunni þeirra Benedikts Jóhannessonar, Ragnheiðar Ríkarðsdóttur og Ragnhildar Helgadóttur og þúsunda annarra flokksmanna.

En Bjarni er að koma til. Hann er að vísu „sanngjarn maður og sáttfús“ en býr jafnframt yfir „skapfestu og styrk,“ alveg einsog flokksfaðirinn og leiðarahöfundurinn.

Skapfesta Bjarna Benediktssonar hefur nú leitt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur einangrast frá öllum venjulegum hægriflokkum grannlandanna í Evrópumálum – og er einna helst kominn í hóp með Le Pen og Alessöndru Mussolini.   

Styrkur Bjarna Benediktssonar er slíkur að tæpum tveimur árum eftir hrun er staðan í Sjálfstæðisflokknum  sú … að Davíð Oddsson rúlar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.6.2010 - 07:15 - 157 ummæli

Sammála Kidda

Til hamingju sem hafið verið að glíma við gengistryggðu lánin – en ég er sammála Kristni H. Gunnarssyni í Fréttablaðinu í dag: Þegar lögfræðinni sleppir verður að taka við réttlætiskennd og skynsemi.  Það er eðlilegt að venjuleg verðtrygging færist nú á gengistryggðu lánin. Þeir sem þau tóku hagnast verulega (vonandi) miðað við að bera gengisfallið, en geta ekki vænst þess að lánin nánast falli niður – eða með öðrum orðum að að aðrir Íslendingar borgi þau, með auknum sköttum eða minni velferðarþjónustu eða skertum lífeyri. Þeir borgunarmenn eru margir þegar að sligast undan venjulegum verðtryggðum lánum, og gera auðvitað kröfu um að þau fái sömu útreið og gengistryggðu lánin.  Rökin um forsendubrestinn eru vissulega öflug – en hver á að lokum að borga?

Einsog Kristinn lærði ég einusinni þá hagfræði að ef Jón borgar ekki skuldina sína  þá lendi það á Gunnu. Alveg einsog efnið í heiminum eyðist ekki heldur verður að orku og svo að öðru efni. Ég var farinn að efast um þennan barnalærdóm í góðærinu og svo aftur eftir langvarandi ræðuhöld niðurfellingarsinna á eftirhrunstímum. En hér hefur Kiddi rétt fyrir sér:  Skuldir þarf að greiða. Það er ekki sanngjarnt að skuldari losni við að borga skuld sína vegna þess að þá þarf næsti maður að borga hana.

Það er ekki fallið til vinsælda, en eina réttlætispólitíkin er að styðja þá beint og rösklega sem eiga um sárast að binda, og hjálpa hinum að hjálpa sér sjálfir með lausnum og úrræðum sem eru sanngjarnar og ábyrgar.

Til lengdar læra menn að vara sig á þeim sem lofa Paradís á jörðu – sem í einkennilega mörgum tilvikum eru þeir sömu fyrir hrun og eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur