Ég heyri í fjölmiðlum að nokkrir þingmenn ætla að hætta að styðja ríkisstjórnina ef Magma-málið leysist ekki. Svo stórum orðum þyrfti að vísu að fylgja nánari leiðbeining um lausnina – á ríkið að kaupa Magma út? Rifta samningnum – og þá hvernig? Hvað má lausnin kosta og hvaðan á að taka það fé?
Hitt veldur meiri áhyggjum:
Að þingmaður styður ríkisstjórn er grundvöllur þingræðislegrar stjórnskipunar þar sem ríkisstjórn verður að njóta meirihluta á þingi. Ef slíkur þingmaður hættir að styðja ríkisstjórnina þarf eiginlega annaðhvort að hafa gerst:
Að ríkisstjórnin fer í bága við stjórnarsáttmálann, sem myndar forsendur stuðningsins,
eða að við einhverjar nýjar aðstæður sem ekki er gert ráð fyrir í þessum sáttmála brýtur ríkisstjórnin gegn anda stjórnarsáttmálans, þeim hugmyndagrunni sem samstarfið hvílir á.
Svo skoðar maður samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG frá 5. maí 2009 – og ekkert finnst í honum um Magma Energy. Sérstakur kafli – alveg ágætur (fyrir utan klúðurslegan stíl) – er þó þarna um umhverfi og auðlindir, og byrjar svona: „Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum“ – heyr! – en þetta mál snýst ekki um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum enda eru auðlindirnar á Suðurnesjum í lögbundinni sveitarfélagseigu.
En eru þetta þá ekki nýjar aðstæður?
Undir forystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks seldi ríkið hlut sinn í HS vorið 2007, til hins illræmda Geysis Green Energy. Þar með eignaðist GGE ekki bara hlut í fyrirtækinu sem slíku heldur beinan eignarhlut í auðlindunum. Þetta var upphafið.
Með nýju lögunum frá 2008 var komið í veg fyrir að þetta gæti gerst aftur. Þar segir að ekki megi selja auðlindina einkaaðilum. Með sömu lögum var svo kveðið á um uppskiptingu orkufyrirtækjanna, þar sem veiturnar skyldu vera í félagslegri meirihlutaeigu en við eignarhaldi virkjunar- og rekstrarhlutans voru engar hömlur settar. Þessi lög urðu til á tímum ríkisstjórnarinnar vondu sem Samfylkingin þvældist í með Sjálfstæðisflokknum, og báru þess merki. Leigutíminn er of langur. Endurnýjunarrétturinn er túlkaður afar frjálslega í Magma-samningnum. Og núna finnst okkur undarlegt að íslenska ríkinu skuli ekki hafi verið áskilinn forkaupsréttur við sölu hluta í orkufyrirtækjunum.
Meginatriði í lögunum var hinsvegar þetta tvennt: Auðlindirnar í opinberri eigu, uppskipti orkufyrirtækja. Og lögin urðu til þess að forsvarsmenn HS – sem lögin náðu ekki til – ákváðu að skipta fyrirtækinu upp og setja auðlindirnar aftur til sveitarfélaganna. Lögin leyfðu hinsvegar einkahlut í orku-partinum, og Magma sá sér þar leik á borði. Hvernig sem mönnum líkar það verður veskú að viðurkenna að það var lögunum samkvæmt (undanskil hér deiluna um sænsku skúffuna, sem er efnislega frekar ómerkileg).
VG var í stjórnarandstöðu á þessum tíma og talaði gegn frumvarpinu – nokkuð óskýrt í megindráttum en með ýmsum ágætum ábendingum. Hver var afstaða VG að lokum til þessara laga sem sumir þeirra kenna nú við frjálshyggju og landsölu? – Þingmenn VG sátu hjá. Greiddu ekki atkvæði. Það var ekki einusinni nafnakall við þriðju umræðu í þinginu.
Í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2009 hefur VG greinilega lagt svo mikla áherslu á þetta að á HS er ekki minnst einu orði, hvorki beint né óbeint. Samt er staðan þá sú að einkaaðili – GGE – átti verulegan hlut. Um sumarið seldi GGE Magma part af þessum hlut. Seinna á árinu 2009 – með VG í ríkisstjórn – keypti Magma hlut OR, svo Hafnarfjarðar. Og loks allan GGE-hlutinn. Og þá loksins vöknuðu þjóðfrelsisliljurnar í VG.
Ég var ekki á þingi 2008 þegar lögin voru samþykkt – en studdi þau úr fjarska, bæði sem jafnaðarmaður og umhverfissinni. Nú er lag að endurskoða þessi lög, og ræða allar hliðar máls – forkaupsrétt og leigutíma, almannahag, fjárfestingar og áhætturekstur, hugmyndafræði og eignarhald, þar á meðal reynsluna af „félagslegri“ eigu Landsvirkjunar og OR, sem lengstaf hafa hagað sér einsog ríki í ríkinu með rányrkju og umhverfisspjöllum – með góðfúsu samþykki pólitíkusa í ofurlaunuðum stjórnum – án raunverulegs eftirlits frá „öðrum“ stofnunum ríkis og sveitarfélaga.
Ræðum þetta endilega allt saman, sem fyrst, sem dýpst, sem opnast. Án hótana, takk.