Mér finnst heldur ekki líklegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði dregin fyrir landsdóm vegna afglapa í starfi utanríkisráðhera – og ég tek undir með varnarmönnum Ingibjargar Sólrúnar sem telja smjörklípulykt af þeirri athygli sem nú beinist að henni og Samfylkingunni rétt fyrir Stóruskýrslu. Sjálf hefur hún skrifað ágæta grein í TMM um helstu sökudólga hrunsins, nýfrjálshyggjuna og Sjálfstæðisflokkinn. Greinin væri þó líklega enn betri ef stjórnmálamaðurinn hefði haldið um penna og skýrt frá eigin verkum og reynslu, en ekki látið sagnfræðinginn einan um skrifin.
Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin komast nefnilega ekki hjá því að skoða eigin þátt í hruninu. Þar skipta máli verk ráðherranna í ríkisstjórn, og ekki síður það sem þeir ekki gerðu. Þar koma líka við sögu stefnuáherslur flokksins bæði árin fyrir stjórnarmyndunina 2007 og meðan á stjórnarsamstarfinu stóð. Og það þarf líka að skoða samræður í flokknum á tímabilinu 2007 til 2009, hvernig forystumenn hans fóru að því að hlusta ekki á flokksfólk og stuðningsmenn og létu sér nægja að messa yfir liðinu á skrautsamkomum (og eimir kannski enn eftir af þeim sið, Jóhanna og Dagur?) allt fram að Þjóðleikhússkjallarafundinum fræga – þráuðust reyndar við nokkur dægur líka eftir þá niðurstöðu.
Þetta þarf meðal annars að ræða á flokksstjórnarfundi sem Samfylkingin hefur boðað til um næstu helgi. En af því Ingibjörg Sólrún er í fréttum – sem hún stendur fyrir sjálf:
Þótt utanríkisráðherra beri ekki lagalega ábyrgð á bankamálum eða hagstjórn getur formaður Samfylkingarinnar í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum ekki skorast undan pólitískri og siðferðilegri ábyrgð. Ingibjörg Sólrún ber samkvæmt íslenskri hefð ábyrgð á verkum allra samflokksráðherra sinna – þar á meðal viðskiptaráðherrans. Eitt af því sem fólk þarf reyndar að fara að vita er hvernig samskiptum þeirra tveggja var háttað. Er það rétt að bankamálaráðherrann hafi ekki fengið að vera með á fundum utanríkis- og forsætisráðherranna með Seðlabankastjóranum um stöðu bankanna? Af hverju hafði Ingibjörg Sólrún það þannig? Og hvernig í ósköpunum fór Björgvin Guðni að því að sætta sig við það?
Annað: Ég held einsog Ingibjörg Sólrún að einhver helstu mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 hafi verið að ganga inn í hana án þess að hafa þar nein áhrif á efnahagsmál og hagstjórn. Ég var reyndar einn af þeim sem lögðu að formanni flokksins að krefjast fjármálaráðuneytisins við stjórnarmyndunina. Skilaboðin sem við fengum voru að þar hefði verið mikil fyrirstaða. Ég er ekki viss um að nógu mikið hafi verið reynt.
Forystumenn Samfylkingarinnar lögðu þessa stjórnarmyndun einfaldlega þannig upp að íhaldið ætti áfram að ráða efnahagsmálunum – Samfylkingin fengi fyrir sinn snúð ýmsar velferðarumbætur. Svo átti smám saman að koma vitinu fyrir „góðu“ Sjálfstæðismennina, ekki síst Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur en líka Geir Haarde, því þetta fólk væri miklu skárra en Davíð og hlyti smátt og smátt að þróast frá honum í stöðugu samneyti við hina ofurnútímalegu jafnaðarmenn í hinni glaðbeittu ríkisstjórn sem snjöllum PR-manni datt í huga að sviðsetja á Þingvöllum.
Vinsæl kenning í forystu Samfylkingarinnar á upphafstímum Haarde-stjórnarinnar – og má sjá stað í ræðum þáverandi formanns – var sú að það yrði að fara að endurnýja líkingamálið kringum pólitíkina, sem væri alltof gamaldags og karllegt. Til dæmis væri gott að klæða ýmislegt pólitískt samstarf í tungumál frá dansgólfinu – nú væru dansfélagarnir að laga sig hver að öðrum, og þessvegna ætti að sýna þolinmæði.
Sú þolinmæði var sýnd alltof mikið og alltof lengi – stundum með æluna uppí háls. Það er meðal annars okkar sök, almennra flokksfélaga, sem við þurfum líka að ræða næstu helgi og næstu vikur.
Ingibjörg Sólrún skýrir eftirgjöf sína í stjórnarmyndunarviðræðunum þannig í TMM-greininni að almenningur hafi ekki verið móttækilegur fyrir efnahagsgagnrýni Samfylkingarinnar fyrir kosningar. Vitnar í blogg eftir Egil Helgason.
Ég er ósammála. Í upphafi kosningabaráttunnar 2007 hafði Samfylkingin minna fylgi í könnunum en mörg undanliðin ár. Sá árangur sem náðist, að koma fylginu úr 17–18% í tæp 27, og tapa ekki nema 3 þingönnum frá 2003, er í mínum huga að miklu leyti að þakka einarðri gagnrýni Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, ekki síst með aðstoð bæklingsins um Jafnvægi og framfarir í ritstjórn Jóns Sigurðssonar.
Rétt er hinsvegar að þegar ljóst varð að stjórnarandstaðan náði ekki meirihluta hófst mikið kapphlaup Framsóknar, Samfylkingar og VG um að mynda ríkisstjórn með íhaldinu. Á því bera ábyrgð bæði forystumenn Samfylkingarinnar og VG. Önnur leið var til – á það benti Ögmundur Jónasson í frægri afmælisræðu á NASA, og aumingi minn reyndar líka og áður í bloggi. Hún var að mynda vinstriblokk með samstöðu VG og Samfylkingar, sem síðan byði til samninga um stjórn en væri líka reiðubúin í stjórnarandstöðu. Ég er ekki þar með að segja að þetta hefði gengið upp – en það er rétt að halda til haga þeirri staðreynd að þessi möguleiki var aldrei skoðaður. Sannleikurinn var auðvitað sá að ákveðnir forystumenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins voru búnir að setja sig í aðrar stellingar sirka tveimur vikum fyrir kosningar.
Þetta þurfum við Samfylkingarmenn að fara í gegnum – og auðvitað margt annað. Það merkir ekki að flokkur okkar eða forystumenn beri höfuðábyrgð á hruninu. En án þess að takast ærlega á við þetta verkefni öðlast flokkurinn og núverandi forystumenn hans ekki þann trúnað sem nú þarf öðru fremur á að halda.