Þriðjudagur 13.4.2010 - 08:10 - 23 ummæli

Moggi segir fréttir

Morgunblaðið er ekki lengi að draga fram aðalatriði skýrslunnar miklu. Á forsíðunni er okkur sagt hvert við eigum að beina spjótum okkar: ÁBYRGÐIN BANKANNA

Já, svo sannarlega bera eigendur bankanna og stjórnendur mesta ábyrgð á hruni bankanna. Þar á eftir er líka lang-þægilegast að setja punkt.

Í annarri minni frétt kemur í ljós að rannsóknarnefndin hefur athugað aðra en bankana. Þar er fyrirsögnin: „Mat nefndarinnar á vanrækslu stjórnvalda.“ Nefndarinnar, takið eftir.

Eftir þetta bregður manni soldið við að sjá á blaðsíðu 8 að skýrslan sé „Áfellisdómur yfir leiðtogunum“. En það er haft eftir öðrum, nefnilega erlendum fjölmiðlum.

Inni í blaðinu kemur í ljós að ýmsir fengu á baukinn í skýrslunni, stjórnmálamenn, embættismenn, forsetinn, fjölmiðlar. Um Fjármálaeftirlitið segir í fyrirsögn: „Skortur á festu og ákveðni og valdheimildum sjaldan beitt.“

Fyrirsögnin um ávirðingar Seðlabankans er hinsvegar í óbeinni ræðu: „Stjórn Seðlabankans sögð hafa sýnt vanrækslu.“

Sögð!

Morgunblaðið leggur mikið rúm undir frásögn af skýrslunni og viðbrögðum við hana, og þar hefur verið unnin ágæt fagvinna á skömmum tíma sem til ráðstöfunar var. Framsetning, uppröðun og fyrirsagnalína segir hinsvegar allt sem segja þarf. Þótt ritstjórinn sé úti í löndum er blaðið skipulagt að hans hætti og alveg fyrirsjáanlegt. Maður þarf ekki einusinni að lesa leiðarann.

Fyrsti dagur í skýrslu var erfiður en góður. Mér fannst skýrslan væri að marka skref í áttina, að nú hlyti uppgjörið að ná hápunkti og síðan tæki við einhverskonar lækning og sátt á nýjum forsendum.

Moggi Davíðs ætlar sýnilega ekki að taka þátt í því – en þá er bara að segja bless við bæði hann og blaðið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.4.2010 - 11:14 - 28 ummæli

Ábyrgð er ábyrgð

Mér  finnst heldur ekki líklegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði dregin fyrir landsdóm vegna afglapa í starfi utanríkisráðhera – og ég tek undir með varnarmönnum Ingibjargar Sólrúnar sem telja smjörklípulykt af þeirri athygli sem nú beinist að henni og Samfylkingunni rétt fyrir Stóruskýrslu. Sjálf hefur hún skrifað ágæta grein í TMM um helstu sökudólga hrunsins, nýfrjálshyggjuna og Sjálfstæðisflokkinn. Greinin væri þó líklega enn betri ef stjórnmálamaðurinn hefði haldið um penna og skýrt frá eigin verkum og reynslu, en ekki látið sagnfræðinginn einan um skrifin.

Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin komast nefnilega ekki hjá því að skoða eigin þátt í hruninu. Þar skipta máli verk ráðherranna í ríkisstjórn, og ekki síður það sem þeir ekki gerðu. Þar koma líka við sögu stefnuáherslur flokksins bæði árin fyrir stjórnarmyndunina 2007 og meðan á stjórnarsamstarfinu stóð. Og það þarf líka að skoða samræður í flokknum á tímabilinu 2007 til 2009, hvernig forystumenn hans fóru að því að hlusta ekki á flokksfólk og stuðningsmenn og létu sér nægja að messa yfir liðinu á skrautsamkomum (og eimir kannski enn eftir af þeim sið, Jóhanna og Dagur?) allt fram að Þjóðleikhússkjallarafundinum fræga – þráuðust reyndar við nokkur dægur líka eftir þá niðurstöðu.

Þetta þarf meðal annars að ræða á flokksstjórnarfundi sem Samfylkingin hefur boðað til um næstu helgi. En af því Ingibjörg Sólrún er í fréttum – sem hún stendur fyrir sjálf:

Þótt utanríkisráðherra beri ekki lagalega ábyrgð á bankamálum eða hagstjórn getur formaður Samfylkingarinnar í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum ekki skorast undan pólitískri og siðferðilegri ábyrgð. Ingibjörg Sólrún ber samkvæmt íslenskri hefð ábyrgð á verkum allra samflokksráðherra sinna – þar á meðal viðskiptaráðherrans. Eitt af því sem fólk þarf reyndar að fara að vita er hvernig samskiptum þeirra tveggja var háttað. Er það rétt að bankamálaráðherrann hafi ekki fengið að vera með á fundum utanríkis- og forsætisráðherranna með Seðlabankastjóranum um stöðu bankanna? Af hverju hafði Ingibjörg Sólrún það þannig? Og hvernig í ósköpunum fór Björgvin Guðni að því að sætta sig við það?

Annað: Ég held einsog Ingibjörg Sólrún að einhver helstu mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 hafi verið að ganga inn í hana án þess að hafa þar nein áhrif á efnahagsmál og hagstjórn. Ég  var reyndar einn af þeim sem lögðu að formanni flokksins að krefjast fjármálaráðuneytisins við stjórnarmyndunina. Skilaboðin sem við fengum voru að þar hefði verið mikil fyrirstaða. Ég er ekki viss um að nógu mikið hafi verið reynt.

Forystumenn Samfylkingarinnar lögðu þessa stjórnarmyndun einfaldlega þannig upp að íhaldið ætti áfram að ráða efnahagsmálunum – Samfylkingin fengi fyrir sinn snúð ýmsar velferðarumbætur. Svo átti smám saman að koma vitinu fyrir „góðu“ Sjálfstæðismennina, ekki síst Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur en líka Geir Haarde, því þetta fólk væri miklu skárra en Davíð og hlyti smátt og smátt að þróast frá honum í stöðugu samneyti við hina ofurnútímalegu jafnaðarmenn í hinni glaðbeittu ríkisstjórn sem snjöllum PR-manni datt í huga að sviðsetja á Þingvöllum.

Vinsæl kenning í forystu Samfylkingarinnar á upphafstímum Haarde-stjórnarinnar – og má sjá stað í ræðum þáverandi formanns – var sú að það yrði að fara að endurnýja líkingamálið kringum pólitíkina, sem væri alltof gamaldags og karllegt. Til dæmis væri gott að klæða ýmislegt pólitískt samstarf í tungumál frá dansgólfinu – nú væru dansfélagarnir að laga sig hver að öðrum, og þessvegna ætti að sýna þolinmæði.

Sú þolinmæði var sýnd alltof mikið og alltof lengi – stundum  með æluna uppí háls. Það er meðal annars okkar sök, almennra flokksfélaga, sem við þurfum líka að ræða næstu helgi og næstu vikur.

Ingibjörg Sólrún skýrir eftirgjöf sína í stjórnarmyndunarviðræðunum þannig í TMM-greininni að almenningur hafi ekki verið móttækilegur fyrir efnahagsgagnrýni Samfylkingarinnar fyrir kosningar. Vitnar í blogg eftir Egil Helgason.

Ég er ósammála. Í upphafi kosningabaráttunnar 2007 hafði Samfylkingin minna fylgi í könnunum en mörg undanliðin ár. Sá árangur sem náðist, að koma fylginu úr 17–18% í tæp 27, og tapa ekki nema 3 þingönnum frá 2003, er í mínum huga að miklu leyti að þakka einarðri gagnrýni Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, ekki síst með aðstoð bæklingsins um Jafnvægi og framfarir í ritstjórn Jóns Sigurðssonar.

Rétt er hinsvegar að þegar ljóst varð að stjórnarandstaðan náði ekki meirihluta hófst mikið kapphlaup Framsóknar, Samfylkingar og VG um að mynda ríkisstjórn með íhaldinu. Á því bera ábyrgð bæði forystumenn Samfylkingarinnar og VG. Önnur leið var til – á það benti Ögmundur Jónasson í frægri afmælisræðu á NASA, og aumingi minn reyndar líka og áður í bloggi. Hún var að mynda vinstriblokk með samstöðu VG og Samfylkingar, sem síðan byði til samninga um stjórn en væri líka reiðubúin í stjórnarandstöðu. Ég er ekki þar með að segja að þetta hefði gengið upp – en það er rétt að halda til haga þeirri staðreynd að þessi möguleiki var aldrei skoðaður. Sannleikurinn var auðvitað sá að ákveðnir forystumenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins voru búnir að setja sig í aðrar stellingar sirka tveimur vikum fyrir kosningar.

Þetta þurfum við Samfylkingarmenn að fara í gegnum – og auðvitað margt annað. Það merkir ekki að flokkur okkar eða forystumenn beri höfuðábyrgð á hruninu. En án þess að takast ærlega á við þetta verkefni öðlast flokkurinn og núverandi forystumenn hans ekki þann trúnað sem nú þarf öðru fremur á að halda.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.4.2010 - 09:21 - Rita ummæli

Mögnuð sýn af Þórólfsfelli

Fórum í gær fimm saman úr fjölskyldunni í Fljótshlíðina og upp á Þórólfsfell að horfa á gosið. Maður byrjar strax að gá að bólstrunum á Kambabrún og allur vafi hverfur fljótlega á leiðinni austur frá Selfossi – og þar sem sól á sumarvegi skín yfir landið er strókurinn nánast í seilingarfjarlægð. Við rætur Þórólfsfells um sjöleytið voru allt í einu litlir reykir til hliðar við aðalstrókinn, og þetta töldum við hlyti að vera frá hrauni í snjó en aðeins uppi í hlíðum fjallsins sáum við bjarma og eldinn sjálfan. Fyrsta sinn sem yðar einlægur sér eldgos berum augum – og samt hefur gosið og gosið síðan ég var strákur og alltaf hefur maður verið á leiðinni. Þetta var meiriháttar, og færðist svo í aukana eftir því sem við komum ofar. Þá komu símtöl og SMS úr bænum um aðra sprungu. Við vorum hér greinilega viðstödd mikil tíðindi – en í notalegri fjarlægð! Þá skildum við bílljósaröðina á leið út Markarfljótsaura og síaukinn umferðarþunga okkar megin – sem jókst og jókst þegar rökkvaði og eldtungurnar tóku að sér aðalhlutverkið á þessu mikla leiksviði. Hér blikna lýsingarorðin.

Og nú hefur stefnan verið tekin á Mörkina sjálfa og nær eldinum ef nokkurt færi gefst. Samt er þetta einhvernveginn alveg nóg frá Þórólfsfelli, ef ekki vill betur.

Þetta er – ennþá að minnsta kosti – vænt eldgos, engin spjöll, engin slys, gríðarlegur áhugi, og ágætar gjaldeyristekjur! Fyrir fólk sem ekki er á stórjeppum eða snjósleðum eða gönguvant er góð leið að skoða undrin af fellinu, og þarf ekki nema upp í miðjar hlíðar, svona klukkutíma þægilegan gang.

Svo kemur að aðalerindinu með þessum pistli: Á hjalla talsverðum í Þórólfsfelli miðju gegnt gosstöðvunum lá í mosaþembu stór kíkir í hulstri sínu, merktu fangamarki. Ég tók hann auðvitað upp og skoðaði með honum eldana, tók gripinn síðan til handargagns og ímynda mér að eigandanum líði ekki vel að hafa skilið þennan góða sjónauka eftir uppi í fjalli Látið endilega vita ef þið þekkið einhverja sem voru í gær eða fyrradag á Þórólfsfelli. Netfangið hjá mér er mordurarnason@simnet.is.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.3.2010 - 21:00 - 9 ummæli

Hækkar þá kaupið?

Samtök atvinnurekenda eru farin i fýlu út af skötuselnum og ætla ekki lengur að vera með í stöðugleikasáttmálanum. En einhvernveginn man ég ekki eftir neinu sérstöku framlagi SA til stöðugleikasáttmálans.

Kannski atvinnurekendur séu núna að hóta því að hækka kaupið?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.3.2010 - 11:26 - 17 ummæli

Þjóðaratkvæði um skötuselinn!

Forysta atvinnurekenda býr sig undir stríð útaf skötuselnum! Nýsamþykkt lög eru brot á stöðugleikasáttmálanum, segir Vilhjálmur – og Gylfi tekur auðvitað undir.

Stöðugleikasáttmálinn – hann virðist hafa snúist um þann stöðugleika að ekkert mætti gerast til að bæta samfélagið eftir hrunið – nema meira af því sem til hrunsins leiddi.

Þetta er auðvitað ekki annað en lítilsháttar tilraun í sjávarútvegi þar sem miða á við eðlilegt veiðigjald og sneiða hjá gamla góða gjafakvótanum – en slík tilraun kynni að heppnast vel og veikja kröfur útgerðareigenda um eilíft eignarhald á miðunum. Og þá rísa Samtök atvinnulífsins upp.

En er ekki einfaldast að gera bara út um málið með því að setja nýju skötuselslögin í almenna atkvæðagreiðslu?

Þorir SA kannski ekki í almenning?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.3.2010 - 19:36 - 10 ummæli

Við getum þetta – ef við viljum

Eldgosið í Eyjafjallajökli er auðvitað enginn meginviðburður í jarðsögunni – en engu að síður náttúruhamfarir sem minna okkur á að við búum í stórfenglegu landi sem bæði býr yfir ógnum og dásemdum.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðunum frá því í morgun. Ráðamenn allir, sérfræðingar, bændur og aðrir heimamenn, almenningur og ferðafólk – allt nánast fumlaust, samkvæmt áætlun sem til var og fé var varið til, og auðvitað áttum við von á þessu vegna þeirrar þekkingar sem við höfum öðlast á lögmálum náttúrunnar, og þeirri tækni sem íslenskir vísindamenn hafa tekið í þjónustu sína.

Þessi dagur styrkir mann aftur í þeirri trú – sem óneitanlega var farin að laskast – að við hér á Íslandi getum brugðist við óvæntum aðstæðum og unnið bug á erfiðleikum með skynsemi og dugnaði og rósemi hugans.

Kannski við ættum að byrja upp á nýtt á eftirmálum hrunsins – með aðferðunum úr Skógarhlíðinni?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.3.2010 - 11:41 - 19 ummæli

Því ekki geislavirkan úrgang?

Tíu prósent atvinnuleysi er óþolandi, og atvinnulífið verður að komast á skrið aftur.

Hinir óþolinmóðu vilja gera þetta með gömlu aðferðunum: Rányrkju á miðunum, náttúruspjöllum til að selja billegt rafmagn, byggingum sem enginn vill kaupa eða nota.

Einhver fiskivöruþróun og grænn iðnaður og menningardútl, þetta tekur alltof langan tíma.

Nú eru meira að segja uppi tillögur um æfingaher á Keflavíkurflugvelli – einskonar risa-Paint Ball fyrir alvörustráka. Og svo eru það spilavítin sem frægðarmenn einsog Skagatvíburarnir ætla að láta okkur græða á.

Einhver grænn iðnaður og fiskivesin og menningardútl, þetta tekur alltof langan tíma.

 En af hverju ekki að fara alla leið?

*          Kanarnir eru í vandræðum með Guantanamo. Hægðarleikur að stofna eitt stykki ofurfangelsi í flugskýli á Vellinum. Fullt af pening.

*          Klám- og ofbeldisiðnaður á undir högg að sækja víða um heim. Þar er mikið tækifæri fyrir íslenska athafnamenn – og mætti til dæmis stunda á eyjum undan ströndum, til dæmis í Hrísey og Engey.

*          Alstaðar er klandur kringum geislavirkan úrgang frá kjarnorkuverum. Eyðivíkur fyrir austan og vestan henta prýðilega!

Þannig getum við orðið ein allsherjar undantekningar-paradís, þótt hugmyndin um Iceland World Trade Center hafi ekki reynst nógu vel.

Draumalandið kemur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.3.2010 - 08:49 - 12 ummæli

Villi I og Villi II

Athyglisverð forsíðufrétt í Fréttablaðinu um fjármögnunarvanda Orkuveitunnar.

Einsog allir vita gengur illa að fá fé til framkvæmda og undirtektir eru tregar í skuldabréfaútboði sem yfir stendur hjá Orkuveitunni í því skyni, en þar var einkum róið á lífeyrissjóðamið.

Stjórnarformaður Gildis, þriðja öflugasta lífeyrissjóðsins í landinu, segist ekki geta lagt fé umbjóðenda sinna í fyrirtækið. Meðal annars vegna þess að eigandi þess, aðallega Reykjavíkurborg, hafi látið greiða sér arð, og vegna þess að Orkuveitan hafi ekki hækkað verð á vöru sinni til neytenda, sem eru almenningur og fyrirtæki í Reykjavík og nágrenni.

Athyglisverð viðhorf, og vafalaust rökrétt út frá sjónarmiði fjárfestisins. En þarna stendur hnífurinn í kúnni. Tregða lífeyrissjóðanna veldur því að ekki fæst fé til virkjunarframkvæmda og annarra brýnna framkvæmda á vegum Orkuveitunnar, framkvæmda sem sjálfar mundu skapa umtalsverða atvinnu, og verða um leið aflvaki við aðra atvinnusköpun.

Athyglisvert fyrir Vilhjálm Egilsson, formann Samtaka atvinnulífsins, og rétt að hann minnist þessa dæmis næst þegar hann fer að skamma umhverfisráðherrann og náttúruverndarmenn fyrir að standa í vegi framfara og endurreisnar. Þá er bara að muna að formaður Lífeyrissjóðsins Gildis heitir líka Vilhjálmur Egilsson.

En Villi I, sá sem skammast, er náttúrlega ekki sami aðilinn og Villi II, sá sem fer með peningana. 

Það er svo nokkuð sérstakt að í þessum vítahring vantraustsins er allan hringinn um að ræða fé almennings – sjóðfélaga í Gildi, útsvarsgreiðenda í Reykjavík og á Skaga og í Borgarfirði, eiganda OR, orkukaupenda á heimilunum – en sami almenningur er nú að einum tíunda hluta án atvinnu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.3.2010 - 10:50 - 18 ummæli

Þrír ljósir punktar

Og þá er það búið líka.

Niðurstöðurnar virðast hafa verið nokkurnveginn þær að rétt rúmur helmingur atkvæðisbærra manna fór á kjörstað og sagði nei við úreltum samningi. Um fimm af hundraði skiluðu auðu – eða sögðu já, nánast í gríni – og um 40% sátu heima.

Svo er strax byrjað að takast á um túlkunina, skilaboðin svokölluðu heima og ytra. Ég á satt að segja erfitt með að sjá að nein sérstök boð hafi komið út úr þessum degi. Til þess var kjörsóknin of dræm og ástæður að baki nei-atkvæðunum alltof margvíslegar.

Og þótt í gær hafi verið búin til heil kröfuganga með spjöldum á ensku fyrir hina erlendu blaðamenn lýsa þeir fyrst og fremst hnipinnni þjóð í vanda.

Meðal nokkurra ljósa punkta er auðvitað að hér skuli þó hafa orðið þjóðaratkvæðagreiðsla, og nú er bara að vona að óheppilegur aðdragandi og eftirmál eyðileggi ekki þá lýðræðishugmynd um alla framtíð. Við skulum líta á þetta sem reynslupróf til að læra af.

Annar ljós punktur er reyndar sjálf markleysa niðurstöðunnar. Eiríkur Tómasson lögfræðiprófessor hafði þau sterku rök gegn þessari atkvæðagreiðslu að þegar Icesave-lögunum frá í desember hefði verið hafnað mundi verða erfitt að gera nýjan samning. Atburðarásin síðan um áramót ónýtti sjálft átakamálið, samninginn frá því í haust og lögin um hann – þannig að úrslit atkvæðagreiðslunnar hafa ekki nokkurt forsagnargildi um skilmála nýs samnings.

Þriðji ljósi punkturinn er svo sá að nú er von til þess að ríkisstjórn vinstriflokkanna fari að taka aftur við völdum þeim sem þjóðin fól henni í maí síðastliðnum. Það er hennar að taka forystu fyrir þjóðinni með nýjum samningum um Icesave, í framhaldi af ágætu tilboði viðsemjendanna, og taka síðan til við endurreisnina á ný, með stuðningi stjórnarandstöðunnar og forsetans eða án.

Ef hún hefur ekki styrk til þess – vegna þófs hinna síðarnefndu eða útaf Liljustríðunum í VG – þá eiga Samfylkingin og Steingrímsgrænir að óska saman eftir endurnýjuðu umboði í alþingiskosningum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.2.2010 - 09:08 - 9 ummæli

Hundrað tómar íbúðir

Hundrað íbúðir á Austurlandi ganga ekki út. Íbúðalánasjóður þarf að taka þær til sín, segir i Fréttablaðinu – og sá kostnaður eykur vextina á almennum íbúðarlánum. Íbúðirnar hundrað urðu auðvitað til þegar Alcoa kom og allt átti að verða gott.

Vituð þér enn?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur