Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hamast á þingi og í fjölmiðlum við að láta reka breskan hagfræðing, Önnu Sibert, úr peningastefnunefnd Seðlabankans vegna þess að hún skrifaði grein um Icesave-málið í evrópskt veftímarit.
Þar hafi Anna Sibert mælt gegn „málstað Íslands“ og þarmeð óþolandi að hún sé að hjálpa Má Guðmundssyni að segja til um vextina – það sé einsog að kaupa í fótboltalið bakvörð sem ekkert kann nema skora í eigið mark.
Vá!
Að vísu snerta störf Önnu Sibert í peningastefnunefndinni ekki Icesave-deiluna, og auk þess er fólk valið utanfrá í peningastefnunefndina á þeim forsendum að það hafi fullt sjálfstæði og lúti engu valdi nema fræðilegu hyggjuviti sínu.
Anna Sibert heldur því meðal annars fram í greininni að lánsupphæðin sé ekki hærri en svo að Íslendingar ráði að öllum líkindum við hana. Hún segir líka að Íslendingar hafi nokkuð til síns máls um lagalega þáttinn, og telur 5,55% vexti nokkuð háa („rather unfavourable“ með breskum úrdrætti) – þannig að hér er varla á ferð svarinn fjandmaður?
Eitt af því sem fram kemur hjá Önnu er að líklega endurheimtist um 90 prósent af Landsbankaeignunum – ólíkt mati í nýlegri blaðagrein annars launamanns hjá íslenska ríkinu, Evu Joly, sem telur þetta hlutfall einungis um 30 prósent.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki krafist þess að Eva verði rekin. Ávirðingar Önnu eru sumsé ekki þær að hafa skrifað um málið, heldur að hafa skrifað um málið gegn „málstað Íslands“. Og hver ákveður hvernig „málstaður Íslands“ lítur út hverju sinni? Jú – það er einmitt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Eitt af því allra ógeðfelldasta við Icesave-málið er einmitt orðið þetta: Hinn daglegi smáfasismi í orði og æði Sigmundar Davíðs, Moggaritstjórnarinnar og miklu fleiri – sem reyna að kæfa rök og umræðu með galdrabrennuhrópum í bland við Áfram Ísland-popúlisma. Samanber til dæmis árásirnar gegn þjóðníðingnum nýja, Þórólfi Matthíassyni.
Undarlegt í viðbrögðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar núna – og bendir ekki til oftrúar á „málstað Íslands“ – er hinsvegar að hann skuli ekki treysta sér til að svara grein Önnu Sibert heima og úti með efnislegum rökum.
Líklega vegna þess að honum finnst mikilvægara að koma höggi á forsætisráðherra Íslands.