Sunnudagur 21.2.2010 - 20:46 - 19 ummæli

Birtið tilboðið

Nú er kominn tími til að birta tilboð Breta og Hollendinga opinberlega – þegar flokksformennirnir eru farnir að lýsa áliti sínu á því í fjölmiðlum.

Forsendan fyrir að halda tilboðinu leyndu var að gefa forystumönnum í íslenskum stjórnmálum svigrúm til að ná samstöðu um næstu skref. Eftir viðbrögð formanns Framsóknarflokksins í kvöld, og raunar alla helgina, er nokkuð ljóst að hann ætlar sér að skerast úr leik, og er byrjaður að safna sér til þess einhverskonar röksemdum með tilvísunum í tilboðið og aðdraganda málsins – til dæmis utanferð þeirra Bjarna Benediktssonar. Þá er ekki lengur ástæða til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson viti meira um tilboðstextann og stöðu Icesave-málsins en íslenskur almenningur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.2.2010 - 19:48 - 24 ummæli

Leynimakk og svikabrölt

Það einkenndi einusinni Morgunblaðið að þar var haft fremur hátíðlegt málfar. Bæði blaðamenn og pólitískir stjórnendur forðuðust gildishlaðnar upphrópanir í eigin texta, enda reyndi blaðið að sverja sig í ætt við fyrirmyndir sínar, stórblöð einsog Times og Mondinn og Berlingske og svo framvegis.

Nú er annað hljóð í strokknum og gamli Moggi farinn að leika götustrák. Á forsíðu er sagt frá „grun um leynimakk“ en í Reykjavíkurbréfi fjallað um „svikabrölt“. Svo vill til að í báðum tilvikum er um að ræða ríkisstjórn Íslands – sem er auðvitað algjör tilviljun. 😉

Þetta minnir soldið á verstu harðlífistímabil Þjóðviljans, þegar stóru orðin voru heldur ekki spöruð, og oftar en ekki einmitt um ríkisstjórn hvers tíma. Fór Þjóðviljanum samt einhvernveginn mun skár en blaðinu með gotneska hausinn.

Annars eru alltaf einsog sömu þrjár fréttirnar í Mogganum þegar ég sé hann:

Ein er um Icesave. Göfugur útlendingur segir að Íslendingar skuldi engum neitt – en samt þrjóskast ríkisstjórnin við að koma landinu endanlega til andskotans.

Önnur er um fyrningarleiðina. Skrifstofustjóri hjá útgerðarfyrirtæki telur að fiskveiðar leggist af við Íslandsstrendur ef fyritækin hætti að eiga kvótann. Ekki spurður hvað hafi orðið um bankahlutabréfin.

Þriðja um meintar loftslagsbreytingarnar. Upp hefur komist um nýja prentvillu í neðanmálsgrein á blaðsíðu 2397 í 5. viðauka IPCC-skýrslunnar frá 2007. Sem sýnir enn einusinni að það er ekkert að marka loftslagsblaðrið í þessum vinstrimönnum.

Stundum verður þetta heldur þreytulegt. En auðvitað hefur Morgunblaðið líka ákveðið skemmtigildi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.2.2010 - 12:16 - 21 ummæli

Smáfasismi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hamast á þingi og í fjölmiðlum við að láta reka breskan hagfræðing, Önnu Sibert, úr peningastefnunefnd Seðlabankans vegna þess að hún skrifaði grein um Icesave-málið í evrópskt veftímarit.

Þar hafi Anna Sibert mælt gegn „málstað Íslands“ og þarmeð óþolandi að hún sé að hjálpa Má Guðmundssyni að segja til um vextina – það sé einsog að kaupa í fótboltalið bakvörð sem ekkert kann nema skora í eigið mark.

Vá!

Að vísu snerta störf Önnu Sibert í peningastefnunefndinni ekki Icesave-deiluna, og auk þess er fólk valið utanfrá í peningastefnunefndina á þeim forsendum að það hafi fullt sjálfstæði og lúti engu valdi nema fræðilegu hyggjuviti sínu.

Anna Sibert heldur því meðal annars fram í greininni að lánsupphæðin sé ekki hærri en svo að Íslendingar ráði að öllum líkindum við hana. Hún segir líka að Íslendingar hafi nokkuð til síns máls um lagalega þáttinn, og telur 5,55% vexti nokkuð háa („rather unfavourable“ með breskum úrdrætti) – þannig að hér er varla á ferð svarinn fjandmaður?

Eitt af því sem fram kemur hjá Önnu er að líklega endurheimtist um 90 prósent af Landsbankaeignunum – ólíkt mati í nýlegri blaðagrein annars launamanns hjá íslenska ríkinu, Evu Joly, sem telur þetta hlutfall einungis um 30 prósent.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki krafist þess að Eva verði rekin. Ávirðingar Önnu eru sumsé ekki þær að hafa skrifað um málið, heldur að hafa skrifað um málið gegn „málstað Íslands“. Og hver ákveður hvernig „málstaður Íslands“ lítur út hverju sinni? Jú – það er einmitt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Eitt af því allra ógeðfelldasta við Icesave-málið er einmitt orðið þetta: Hinn daglegi smáfasismi í orði og æði Sigmundar Davíðs, Moggaritstjórnarinnar og miklu fleiri – sem reyna að kæfa rök og umræðu með galdrabrennuhrópum í bland við Áfram Ísland-popúlisma. Samanber til dæmis árásirnar gegn þjóðníðingnum nýja, Þórólfi Matthíassyni.

Undarlegt í viðbrögðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar núna – og bendir ekki til oftrúar á „málstað Íslands“ – er hinsvegar að hann skuli ekki treysta sér til að svara grein Önnu Sibert heima og úti með efnislegum rökum.

Líklega vegna þess að honum finnst mikilvægara að koma höggi á forsætisráðherra Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.2.2010 - 21:33 - 37 ummæli

Svavar, aðstoðarmaðurinn og Samfylkingin

Svavar Gestsson er sennilega sá Íslendingur sem hefur setið undir hvað lágkúrulegustum skömmum og söguburði síðan um mitt ár í fyrra. Þessvegna var fróðlegt að hlusta á hann rekja gang Icesave-viðræðnanna frá sínum sjónarhóli í síðdegisútvarpinu á Rás tvö í dag (hér, um miðbik þáttarins).

Svavar leggur áherslu á að Icesave-samningur II hafi verið pólitískur samningur – einmitt ekki einfaldur lánasamningur – þar sem beitt var pólitískum rökum, þar á meðal þeim sem rakin eru í frægum Brussel-viðmiðum. Þar skiptu miklu viðræður Össurar Skarphéðinssonar og Davids Millibands á ögurstundu í samningaferlinu. Af þessum sökum hafi náðst verulegur árangur, í greiðslufresti og kjörum, þótt lengi þvældist fyrir samningur Baldurs Guðlaugssonar í umboði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Kristrún Heimisdóttir hefur opinberlega sett fram þá söguskýringu að Svavar og Steingrímur hafi glutrað niður nánast unninni stöðu í Icesave vegna einskærrar andúðar á Evrópusambandinu.

Forystumenn Samfylkingarinnar hafa ekki haft geð í sér til að fjalla um þá kenningu eða skýra meinta stefnubreytingu flokksins í málinu frá hausti 2008 til vors 2009. En auðvitað er athyglisvert fyrir félaga í þeim flokki að heyra Svavar Gestsson svara ásökunum aðstoðarmannsins fyrrverandi.

Kannski er kominn tími til að við í Samfylkingunni söfnum kjarki og byrjum að rannsaka upp á eigin spýtur þátt flokksins í hrunmálunum í staðinn fyrir að bíða skjálfandi eftir skýrslunni frá rannsóknarnefnd alþingis?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.1.2010 - 15:15 - 12 ummæli

Skýrsluna fyrir atkvæðagreiðslu

Það er út í hött að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau eftirmál hrunsins sem mestum deilum hafa valdið – Icesave – án þess að fyrir liggi skýrslan frá rannsóknarnefnd alþingis.

Umræður um hrunið og afleiðingar þess hafa tafist og hamlast vegna biðarinnar eftir þessari skýrslu – hvort sem hún nú stendur undir því eða ekki – og það er hreinlega ekki að marka þjóðaratkvæðagreiðsluna nema fyrir liggi þær grundvallarupplýsingar sem þar eru boðaðar.

Skýrsluvinnan hefur meðal annars valdið því að lykilmenn í atburðarásinni hafa kosið að tjá sig ekki um sinn hlut áður en ljóst yrði hvað í skýrslunni stendur og hvert framhaldið verður.  Stjórnmálaflokkarnir hafa líka, beint og óbeint, vísað til skýrslugerðarinnar til að afsaka að engin rannsókn eða umræða hefur enn farið fram á þeirra vegum um hrunið og ábyrgð á því.

Skýrslan og atkvæðagreiðslan tengjast í smáu og stóru. Það er ekki í anda lýðræðis og upplýsingar að ganga til atkvæða áður en skýrslan kemur út eða þá svo skömmu fyrir kjördag að enginn getur kynnt sér hana.

Ekki er annað að gera en að taka mark á þeim Páli Hreinssyni um að skýrslan sé ekki tilbúin. Þessvegna verður að fresta atkvæðagreiðslunni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.1.2010 - 11:34 - 11 ummæli

Stefnulaus niðurskurður

Takk, Páll Magnússon, fyrir að ætla að skila jeppanum. Má samt í miðjum þeim fagnaðarlátum minna á að jeppinn var þrátt fyrir allt fyrst og fremst tákn – um hina nýju og glöðu ohf.-veröld á Ríkisútvarpinu. Ef ekki á að koma annað í staðinn er kannski bara við hæfi að forstjórinn haldi jeppanum?

Niðurskurðurinn úr fréttunum í gær (ekkert plagg eða áætlun liggur ennþá fyrir frá opinbera hlutafélaginu) er verulegur, og á ýmsan hátt undarlegur. Uppsagnir reyndra starfsmanna eru flestar óskýrðar – tökum til dæmis hina vönduðu blaðamenn og stjórnendur Elínu Hirst og Friðrik Pál Jónsson. Sumar hina boðuðu breytinga hljóma skynsamlega, svo sem langdregnar beinar útsendingar frá verðlaunahátíðum og öðrum skemmtisýningum. Nema maður hélt að þetta kostaði þó ekki miklu meira en sú dagskrá sem þarf að víkja. Annað er undarlegt, stórt og smátt – nefnum til dæmis útþurrkun „Viðtalsins“ sem Bogi Ágústsson hefur séð um nokkur misseri, og er gagnmerkur þáttur sem ekki getur kostað ósköpin öll: Tveir menn í stólum.

Megingallinn við tilkynningu útvarpsstjórans er þó þessi: Niðurskurðurinn er stefnulaus. Hann er hefur áhrif á starfsemi RÚV til frambúðar, en ráðstafanirnar eru handahófskenndar. Ýmsir segja líka að niðurskurðurinn sé of mikill miðað við rekstrarhorfurnar – þótt enginn neiti því að nú þurfi að draga saman Efstaleitinu einsog annars staðar. Við þær aðstæður eiga starfsmenn og stjórnendur að setjast á rökstóla og skilgreina hver sé kjarni starfseminnar, meginhlutverk þjóðarútvarpsins. Athuga hvort stefnan hefur undanfarin ár miðast við þetta og hverju megi breyta án þess að skera á vöðvana.

Slíkar hugleiðingar er hvergi að finna í yfirlýsingum útvarpsstjórans hingað til, og ekki ljóst að neinskonar stefnumótun liggi að baki ákvörðunum hans.

Útvarpsstjórinn klæðir þær aftur á móti þeim búningi að hér sé verið að „verja“ RÚV í þágu eigendanna, almennings, fyrir árásum stjórnvalda. Líklega treystir útvarpsstjórinn á að hagsmunahópar og áhugamenn rísi upp til varnar ýmsu því sem nú á að skera niður, svo sem svæðisstöðvunum eða kaupum á íslenskum bíómyndum og efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þá er Páll í alþekktri en fullkomlega óábyrgri stofnanapólitík þar sem verðmæti almennings eru undir.

Hvar er stjórnin?

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið ohf. starfar þar stjórn sem alþingi kýs. Hún á – sem betur fer – ekki að skipta sér af dagskrá en ber ábyrgð á störfum útvarpsstjóra og skal „taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna“.

Hvar er þessi stjórn? Hvaða stefnu hafa stjórnarmenn  mótað Ríkisútvarpinu á þeim tímamótum sem nú eru augljós í störfum þess – aðra en þá að hnýta í dónalegu ályktunina frá flokksráðsfundi VG? Af hverju er stjórn RÚV ohf. í felum?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.1.2010 - 10:38 - 19 ummæli

Fyrsta uppsögn: Páll Magnússon

Sárar uppsagnir á Ríkisútvarpinu þar sem útvarpsstjóri og stjórn bera að sjálfsögðu fyrir sig niðurskurð þings og ríkisstjórnar – og um leið harmar stjórnin ályktun frá flokksráði VG þar sem fram hafi komið meiðandi aðdróttanir …

Niðurskurður var ekki það sem Ríkisútvarpið átti skilið núna í kreppunni þegar hlutverk þess er mikilvægara en nokkru sinni.

Stefnumið og stjórnunarhættir á Ríkisútvarpinu hafa hinsvegar verið þannig undanfarin ár að útvarpsstjórinn og hin meðvirka stjórn RÚV – held þetta sé í sirka fyrsta sinn sem hún tjáir sig opinberlega – verða að líta í eigin barm eftir verulegum hluta skýringa á því hvernig komið er.

Því miður er alltof margt sláandi satt í dónalegu ályktuninni frá VG. Sjónvarpsstöðin stefnir óðfluga að því að verða einskonar Séðs- og heyrðs-útibú með léttmeti til að þjóna auglýsendum, og á meðan drabbast Útvarpið niður í blankheitum og metnaðarleysi á báðum rásum.

Samt hafa fjármálin verið ein tragedía, líka fyrir hrun og niðurskurð – en Páll fréttalesari finnur upp nýjan og nýjan fortíðarvanda og allskyns samtímaaðstæður til að afsaka hallareksturinn.

Staðreyndin er sú að tilraun Sjálfstæðisflokksins og 2007-gengisins um RÚV ohf. hefur ekki gengið upp. Það á Páll Magnússon að viðurkenna með því að segja fyrst upp sjálfum sér – og skila svo jeppanum dýra.

Þá væri kannski hægt að taka til við raunverulegt almannaútvarp í þjónustu við landslýð.  

Hvað ofsagt?

Hér er annars ályktunin frá VG. Ég hefði líklega orðað þetta aðeins öðruvísi – og auðvitað má ekki gleyma því ýmislega sem vel er gert – en fróðlegt væri að vita hvað þeim Svanhildi, Ara, Auði, Kristínu og Margréti í stjórn RÚV ohf. þykir almennt sagt of eða van í þessum texta.

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að búa svo um hnútana að hér geti frjálsir fjölmiðlar þrifist. Að sama skapi er mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og það hlutverk sem því er ætlað í íslensku samfélagi. Lagaumgjörð, stjórnun og rekstrarfyrirkomulag sem nú gildir um RÚV, hefur ekki tryggt hlutverk miðilsins, sem virðist undir sömu sök seldur og aðrir miðlar. Stjórnendur RÚV hafa heldur ekki borið gæfu til að skilja hlutverk stofnunarinnar. Áherslan er áfram á ungar, vellaunaðar sjónvarpsstjörnur, forstjóralaun og jeppa, og niðurskurðartillögur ganga helst út á tilraunir til að losna við láglaunaða, reynda útvarpsmenn, sem ætti að öðrum ólöstuðum helst að halda í.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.1.2010 - 20:09 - 55 ummæli

Hefndarkærur

Ríkissaksóknari dundar sér við að elta uppi þátttakendur í búsáhaldabyltingunni og ætlar nú að setja níu mótmælendur í steininn í heilt ár.

Þetta er sami ríkissaksóknarinn og Eva Joly ráðlagði okkur að láta fara – sem ekki var hægt. Þá kvartaði hann einmitt yfir gríðarlegu álagi við saksókn í venjulegum málum og sá ofsjónum yfir liðsafla og fjárveitingum hins sérstaka saksóknara í hrunmálunum – sem ríkissaksóknarinn var vanhæfur að rannsaka.

Nú skulu ekki afsakaðar hér allar gerðir mótmælenda eða dregin fjöður yfir meiðsl og tjón lögreglumanna. Víða hefði þó komið til greina að veita sakaruppgjöf fyrir brot framin í búsáhaldabyltingunni, nema þá þau sem beinlínis flokkast undir glæpaverk. Einkum meðan enn eru ódæmdir allir helstu hrunverjar úr hópi kaupsýslu-, embættis- og stjórnmálamanna.

Ákærur ríkissaksóknara á hendur mótmælendunum níu líta hinsvegar út einsog ríkissaksóknarinn sé loksins að ná sér niður á pakkinu – fyrir hönd hinnar eilífu íslensku yfirstéttar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.1.2010 - 08:32 - 9 ummæli

Davíð kallar

Davíð Oddsson vill ekki að Bjarni og Sigmundur Davíð séu að makka á „furðufundum“ með Jóhönnu og Steingrími. Davíð segir í Sunnudagsmogga að næst sé þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem „ólánslögin“ eru felld, og fyrst að henni lokinni komi „þverpólitísk“ samninganefnd. Framhald í næsta Reykjavíkurbréfi.

Þetta er fróðlegt. Staðan er þannig að eina leiðin til að ná lendingu í Icesave-málinu, að ekki sé talað um efnislegan ávinning, er breið samstaða innanlands. Breytingar, nýr samningur eða einhverskonar gerðardómur með milligöngumanni eða sáttasemjara – þetta er útilokað nema viðsemjendur og aðstoðarmenn geti verið þokkalega vissir um að á nýja niðurstöðu verði fallist á Íslandi.

Þessvegna gerir ríkisstjórnin rétt með því að kalla forystumenn stjórnarandstöðunnar til liðs, þrátt fyrir allt sem á hefur gengið. Og þessvegna var nákvæmlega rétt hjá Bjarna og Sigmundi Davíð að taka þátt í samráði um hvernig á að halda áfram. Þeir eru að sumu leyti fangar eigin árangurs – eftir að forsetinn féllst á óskir þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslu bera þeir sinn hluta ábyrgðarinnar á því hvernig fer í framhaldinu. Þeir eru reyndar menn að meiri að hafa áttað sig á þeirri nýju ábyrgðarstöðu.

Hvað sem nú verður, þegar jötunninn hefur kallað úr Hádegismóum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.1.2010 - 11:56 - 5 ummæli

Hjartað slær í Kjararáði

Fréttablaðið segir frá því í morgun að Kjararáð hafi enn ekki brugðist við lögum frá því í sumar um að enginn ríkisstarfsmaður fari fram úr forsætisráðherra í launum.

Lögin eru frá 18. ágúst og hefur ráðið því haft tæpa fimm mánuði til að fylgja lögunum fram.

Þetta er örugglega alveg eðlilegt. Guðrún Zoëga, sem er formaður Kjararáðs, segir að launamennirnir sem um ræðir verði að geta andmælt og svo séu ýmis álitaefni sem þurfi að taka á og málið sé snúið. Um er að ræða fjölmennan hóp, eitthvað á fimmta tuginn, fyrst um tuttugu forstöðumenn stofnana og ríkisfyrirtækja, svo næstum þrjátíu dótturfélaga ríkisfyrirtækja – allir með meira en 935 þúsund krónur í laun á mánuði. Það er alveg eðlilegt að þetta taki sinn tíma.

Í Kjararáði situr líka fólk sem hefur hjarta sem slær með þeim sem verða illa úti í kreppunni og missa hluta af bjargræði sínu.

Og úr því þetta tekur sinn tíma er alveg eðlilegt að endurreisnin öll taki sinn tíma. Þetta er svo snúið, og svo þurfa aðilar máls að geta nýtt andmælaréttinn og að auki koma ýmis álitaefni.

Fólk sem missir vinnuna hefur að vísu engan andmælarétt. Og fólk sem missir húsið sitt lendir ekki mjög í miklum álitaefnum. En það fólk á sér heldur ekkert Kjararáð undir forystu Guðrúnar Zoëga.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur