Mánudagur 30.11.2009 - 20:10 - 10 ummæli

Brandarar á vef Ríkisendurskoðunar

Ríkisendurskoðun hefur birt niðurstöðurnar úr prófkjörsuppgjörunum sem frambjóðendur sendu henni í haust. Allir sem þekkja til sjá að þær eru samsafn af bröndurum.

Það er ekki þeim á Ríkisendurskoðun að kenna, þeir hafa ekki heimildir til annars en að birta reikningana sem þeir fá í bréfunum.

Og samt fannst mér fyndið þegar í mig hringdi Ríkisendurskoðun í tilefni af mínum parti af þessu. Það var alvarleg athugasemd við uppgjörið sem ég bað Jóhannes lögfræðing að setja upp og senda á leiðarenda. Ég hafði víst gleymt að skrifa undir.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.11.2009 - 09:15 - 7 ummæli

Niðurgreiðsla launakostnaðar

Það er djarft verk og þarft hjá fjármálaráðherra og ríkisstjórninni að leggja til afnám svokallaðs sjómannaafsláttar í áföngum næstu ár (hér, 25. grein).

Djarft vegna þess að kringum þennan ríkisstyrk hefur myndast ógnarsterk varnarfylking – sjómannaleiðtoga, útgerðarmanna, byggðahöfðingja og kjördæmisþingmanna – og tilfinningarök þessarar fylkingar eiga að sjálfsögðu greiða leið að þjóð sem forðum hafði þá reglu að hverjar sem sakirnar kunni að vera er maður í sjóklæðum varinn friðhelgi. Á hann verða ekki lagðar hendur.

Þarft vegna þess að sjómannaafslátturinn er bæði úreltur og ósanngjarn. Hann var tekinn upp þegar enginn vildi á togara, á sama tíma og menn voru sjanghæjaðir af skemmtistöðum síðla nætur og vöknuðu upp við Grænlandsstrendur. Nú hafa skipsrúm verið eftirsótt í marga áratugi, og hlutur þeirra sem best afla er þannig að skattafsláttur til þeirra er fáránleikinn sjálfur. Þeir hafa unnið vel sitt verk og eru verðir launa sinna, en ekki sérstakrar ívilnunar í skatti.

Sjómenn og útgerðarmenn þurfa samt að semja sín á milli um framhaldið, og gefst til þess ágætur tími verði sólarlagsákvæðin samþykkt. Því að þessi skatttilhögun er löngu orðin hluti af kjörum sjómanna (fiskimanna og líka farmanna og smámsaman í gegnum tíðina allra þeirra sem vinna með einhverjum hætti á skipsfjöl, líka skemmtibátastarfsmanna og kallanna á dýpkunarprömmunum – og lóðsanna, sem eru opinberir starfsmenn!).

En fyrst og fremst er þetta ríkisstyrkur til útgerðarmanna. Upphaflega til að hjálpa útgerðinni að manna fiskiskipin, í staðinn fyrir að hún byði almennileg laun. Nú fullkomlega ástæðulaus undanlátssemi við grátkórinn.

Fróðlegt fyrir áhugamenn um þessi efni að kynna sér svör fjármálaráðherra á þremur þingum við fyrirspurnum Kristins H. Gunnarssonar (1996), Péturs Blöndals (1998) og Marðar Árnasonar (2004). Pétur spyr bestu spurningarinnar:

Telur ráðherra að sjómannaafsláttur sé niðurgreiðsla til útgerðar frá sjónarmiði hagfræðinnar?

Og þáverandi fjármálaráðherra svarar skýrt:

Já, það er skoðun fjármálaráðherra að sjómannaafslátturinn sé í eðli sínu niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðar og að uppruni afsláttarins og saga hans beri það með sér.

En fjármálaráðherra haustið 1998 hét Geir Haarde.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.11.2009 - 08:41 - 6 ummæli

Hindrun sem ryðja þarf úr vegi

Stefán Jón Hafstein skrifar Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra opið í bréf í dag út af fyrirheitum ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG um Helguvíkurálver og Suðvesturlínu. Hann spyr þessara spurninga í Fréttablaðinu:

1) Hvaða virkjanir eiga að útvega 360.000 tonna álveri í Helguvík þau megavött sem þarf?

2) Hversu mikið virkjanlegt afl og nýtanlegt afl (núna) verður þá eftir á SV-horninu fyrir  annars konar stóriðju (gagnaver og rafmagnsbíla og fleira)? Frá hvaða virkjunum? (Ég er ekki að tala um tæknilausnir framtíðarinnar.)

3) Samkvænt fréttaskýringum eru nú 70% af raforku Íslands bundin verðsveiflum á áli. Með Helguvíkurálveri verða 90% af allri raforkusölu á Íslandi tengd áli. Hversu mörg fjöregg telur þú rétt að hafa í einni körfu: 9 af 10? 7 af 10? Færri?

Það verður fróðlegt að lesa svör iðnaðarráðherra. Aðrir hafa nefnilega ekki svarað ámóta spurningum, einsog Stefán rekur í greininni, hvorki orkuveiturnar, álfyrirtækið, Árni Sigfússon og minni spámenn á Suðurnesjum, ráðherrar, kjördæmisþingmenn, hinir háværu álverssinnar í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda né hrópendur í verkalýðsforystu. Og ekki Orkustofnun, sem á að vera hlutlæg upplýsingaveita um orkumál og vinna fyrir landsmenn í heild.

Ekki verða flokkuð undir svör þær upptalningarromsur um alla hugsanlega virkjunarkosti á Íslandi fyrr og síðar sem undanfarið hafa birst meðal annars á heimasíðu Norðuráls og í bloggpistli hjá hinum ágæta formanni Rafiðnaðarsambands Íslands.

Mann er farið að gruna að svörin séu bara ekki til. Það viti enginn hvaða orka á að fara í síðari áfanga áversins við Helguvík. Hver og einn af öllum þessum aðilum líti svo á að það sé ekki hans mál heldur einhvers annars. Að það sé heldur enginn klár á því hvaða annar orkufrekur iðnaður kemst fyrir á Suðvesturlandi þegar Helguvík hefur étið nægju sína af orku.

Að sumir treysti á að þegar kallað verður eftir nýjum virkjunum þá hljóti þær bara að koma, sama hvað það kostar í peningum, umhverfisspjöllum og öðrum möguleikum. Aðrir reiði sig á þær tæknilausnir framtíðarinnar sem Stefán Jón minnist á – að þetta reddist seinna. Þegar einhverjir aðrir hafa tekið við.

Hér er ráð: Að stjórnvöld líti á hinar erfiðu spurningar Stefáns Jóns Hafsteins og fleiri sem eina af þeim hindrunum sem þau fjölluðu um í stöðugleikasáttmálanum víðfræga við SA og ASÍ.

Það væri ábyrgðarleysi af 2007-gerð að ryðja ekki þeirri hindrun úr vegi áður en lögð er suðvesturlína yfir vatnsbólin til að rafvæða fyrsta fjórðung Helguvíkurálversins.

Þingeyska leiðin

Dofri Hermannsson talar í Eyjarbloggi í gær um þingeysku leiðina – þá sem iðnaðarráðherra bjó til í Bakkamálinu, að setja fyrst fram áætlun um virkjunarkosti og orkumagn á svæðinu og hefja síðan viðræður við áhugasöm iðnfyrirtæki sem henta aðstæðum í byggðinni. Af hverju ekki að fara þingeysku leiðina hér suðvestanlands? Má kannski bæta því við í svörin til Stefáns Jóns?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.11.2009 - 08:31 - 10 ummæli

Ný flugstöð!

Nú hafa jafnvel ráðherrar og borgarfulltrúar komið auga á að hin fræga samgöngumiðstöð neðan við Hringbraut er peningasóun à la 2007 – og þá kemur önnur hugmynd næstum alveg eins snjöll: Ný flugstöð á rústum hinnar gömlu!

Fréttablaðið segir í dag að lífeyrissjóðirnir ætli að vera svo vinsamlegir að fjármagna dæmið með peningunum okkar og leigja svo ríkinu í 20–30 ár. Þrjátíu ár væri til 2039. Þá gæti ríkið farið að hagnast á fjárfestingunni ásamt viðbyggingum og ýmissi nýsmíði – svosem í önnur 30 ár. Þá er komið árið 2069.

Samt er ekkert ákveðið um Reykjavíkurflugvöll, og hann hefur eingöngu verið settur á vetur til ársins 2024, og bara að hluta frá 2016. Hrun og kreppa kunna að hafa áhrif á þetta einsog aðrar framkvæmdir – en vel mætti þó ímynda sér að einmitt flutningur flugvallarins eða stórframkvæmdir við samgöngubætur suður í Keflavík væri eftir nokkur ár eitt af hinum opinberu endurreisnarverkum ásamt nýbyggð í Vatnsmýrinni.

Ný flugstöð passar auðvitað ekki við það – og til þess hefur leikurinn verið gerður allan tímann, hvort sem samgönguráðherrann heitir Sturla Böðvarsson eða Kristján Möller, að festa flugvöllinn í sessi sem verða má.

Fulltrúar borgarbúa bregðast skörulega við þessari nýju hugmynd. Fjórir flokkar af fimm hafa lýst fylgi við að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýri, en Júlíus Vífill Ingvarsson formaður skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar segir í Fréttablaðinu  að þetta passi alveg við nýja flugstöð:

„Byggingin yrði létt og megi fjarlægja auðveldlega.“

Hann ætlar líklega að bera hana burt á bakinu.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.11.2009 - 18:55 - 10 ummæli

Árásin á EES

Bjarni Benediktsson hefur nú komist að því að hið mikla ESB-veldi hafi vígbúist og gert árás … á EES.

Þetta segir hann okkur í Fréttablaði dagsins, og árásin felst í því að Evrópusambandið skuli ekki fyrir lifandis löngu hafa boðið EES-ríkjunum að ganga í myntbandalagið og taka upp evru. Það sé nánast rof á EES-samningunum.

Evran var frá upphafi bundin við ríki Evrópusambandsins og byggist á sameiginlegum ákvörðunum þeirra um efnahagsmál, þar á meðal stöðu ríkissjóðs hvers og eins ríkis í myndbandalaginu (sem þeim gengur sjálfum nógu illa að stilla af!). Þessar sameiginlegu ákvarðanir og hið sameiginlega stjórnkerfi sem þeim fylgir með deildu fullveldi í peningamálum, og líkamnast í Seðlabanka Evrópu, er grundvöllur evrusamstarfsins. Þeir sem vilja uppskera, þeir þurfa líka að sá.

Undanfarin ár – líka fyrir hrun – hefur verið hlaupin hver atrennan af annarri hér heima við að fá evru án þes að ganga í Evrópusambandið, en þær hafa allar fjarað út á þessu einfalda atriði: Evran er gjaldmiðill Evrópusambandsríkjanna í myntsamstarfinu. Ekki annarra.

Þetta veit Bjarni ágætlega. Hann er hinsvegar í vondum málum innanflokks. Á aðra hlið fer Davíð Morgunblaðsritstjóri fyrir eitilhörðu íhaldsbandalagi sem leggur allt í sölurnar – líka Moggann! – gegn Evrópusambandsaðild. Hinumegin standa þeir forystumenn sem eftir eru hjá atvinnurekendum, með Vilhjálm Egilsson í broddi fylkingar, og heimta að stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins skemmi ekki árangur við uppbyggingu og framtíðina inn í Evrópusambandið.

Stjórnmálaforingi í þessari stöðu þarf umfram allt að vinna tíma og koma í veg fyrir að vera króaður af. Einmitt þá fara menn að kasta reykbombum einsog þessari um árás Evrópusambandsins á Efnahagssvæði Evrópu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.11.2009 - 09:49 - 38 ummæli

Refaveiðar eru rugl

Í eymdinni og volæðinu sem þessa daga ríkir um allt samfélagið áður en niðurstaða fæst um skatta og fjárveitingar má þó hafa nokkra skemmtun af því hversu hetjulega vörn hinir fjölmörgu fulltrúar og forystumenn veita bæði niðurskurði og skattaálögum. Við vorum að tala um það í ræktinni í fyrradag að núna væru á nokkrum vikum komnir fram í sjónvarpsfréttatímum málsvarar nokkurnveginn allra hagsmunahópa á Íslandi, og vantaði bara einhvern til að tala fyrir munn skattpíndra og þjónustulausra meðaltekjukarla á miðjum aldri.

Næstsíðast var það fulltrúi ferðaþjónustunnar sem var búinn að reikna það út afar trúlega að samfélagið færi á hausinn við að innheimta nokkrar krónur af ferðamönnum til landsins – sá sami sagði ekkert þarsíðast þegar álfyrirtækin og ASÍ börðust fyrir hærra tryggingagjaldi á mannfrekar atvinnugreinar.

Og í dag kemur svo talsmaður refaskyttna, sem bregst að sjálfsögðu ókvæða við hugmyndum í umhverfisráðuneytinu um að hætta að niðurgreiða refaveiðar. Og þetta getur maður vel skilið – það er ónotalegt að fá ekki lengur ríkisstyrk við að vera karl í krapinu og liggja á grenjum til að verja búfénað og mannlíf um hinar breiðu byggðir.

Og samt er staðreyndin sú og hefur verið í allmarga áratugi að refaveiðar eru víðast um landið hreint rugl, eiginlega alstaðar nema kringum helstu fuglabyggðir.

Refurinn er ekki drepinn til að útrýma honum, enda ekki um það nein eining – margir líta svo á að hann sé órjúfanlegur hluti af íslenskri náttúru, og að minnsta kosti elsta spendýrið á landi. Með gjörbreyttum sauðfjárbúskap eru nánast tíðindi að refurinn leggist á fé – því er ekki hleypt lengur á fjöll fyrr en nokkuð er liðið á vor, og er miklu hraustara nú en horgripirnir sem voru settir á guð og gæfuna fyrr á öldum.

Skipulag á refaveiðum bendir heldur ekki til þess að verið sé að verja fuglalíf, sem skiptir okkur vissulega miklu máli – vegna þess að skipulag á refaveiðum er ekki neitt. Það er heldur engin sérstök tenging milli refaveiðanna og svo minkahernaðarins, sem reyndar er næstum jafnmikið rugl og refaskyttiríið, en þó með aðeins öðrum hætti.

Sannleikann þekkja allir sem koma nálægt þessum veiðum – stjórnmálamenn á þingi og í sveitarstjórnum, embættismenn, bændur og skyttur: Þetta er atvinnustyrkur til einstakra byggða, sem hagsmunagæslumenn rífast um á hverju ári. Alveg gagnslaust tiltæki – nema auðvitað til að halda við hetjuskap í sveitum og styrkja þjóðlega ævintýramennsku í baráttunni við melrakkann og rífinn, skolla og blóðdrekk, holtaþór, lágfótu, djankann og dratthalann.

Núorðið er þetta kannski meira svona þjóðleg fræði – og varla ástæða til að setja skattpeningana okkar í þessar fjallaferðir. Eiginlega ætti þetta að vera öfugt, að hinir þjóðlegu skotveiðimenn borgi í sameiginlegan sjóð fyrir veiðileyfi á ref, svipað og er um aðra veiði, og þá ekki nema þar sem það er óhætt með tilliti til þokkalegrar refaverndar og varðveislu náttúrufegurðar sem af skepnunni hlýst.

Gömu góðu grenjaskytturnar ætti svo að gera að leiðsögumönnum ferðamanna um helstu refaslóðir.

Gagg, gagg!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.11.2009 - 08:01 - 14 ummæli

Sé ekki, heyri ekki, segi ekki

Menn þekkja apana þrjá sem einn heldur fyrir eyrun, annar fyrir augun, þriðji fyrir munninn – þeir eru víst japanskir, segir á Vísindavefnum. Speki apanna þriggja felst í því að ef maður lokar skilningarvitunum fyrir hinu illa, þá er það þarmeð ekki til.

Nú heldur íslenskur Sjálfstæðismaður fyrir eyru, munn og augu, og heitir Gísli Marteinn Baldursson:

„Þetta var í höndum fjármálaráðs og aðrir sáu um fjáröflunina í mínu tilviki þannig að ég vissi ekki hvaðan framlögin komu. Mér eins og fleirum þótti eðlilegra að hafa þann háttinn á að skilja á milli okkar frambjóðendanna og fjáröflunarinnar.“

Milljónin frá Baugi hefur nefnilega aldrei verið til.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.11.2009 - 19:56 - 11 ummæli

Af hverju fagnar ekki Ragnar?

Ragnar Arnalds er hættur að vera formaður Heimssýnar, félags Evrópusambandsandstæðinga, og við tekur yngri maður úr sama stjórnmálaflokki, Ásmundur Einar Daðason. Ásmundur hefur vissulega kraftinn – en vantar þó mikla reynslu Ragnars, sem á sínum annars ágæta stjórnnmálaferli hefur afrekað að vera á móti nokkurnveginn öllu starfi Íslendinga í alþjóðasamtökum með skammstöfun.

Ragnar, Ásmundur Einar, Styrmir, Sigurður Kári og aðrir Heimssýnarfélagar samþykktu á aðalfundinum í dag ályktun um að íslensk stjórnvöld ættu að hætta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Alþingi hlýtur þá að eiga að draga til baka stuðning sinn við umsóknina frá 16. júlí í sumar, og nú bíðum við spennt eftir þeirri þingsályktunartillögu frá hinum nýja Heimssýnarformanni.

Í Sjónvarpsfréttum voru rök fráfarandi formanns að viðræðurnar væru svo dýrar, og svo væri meirihluti í skoðanakönnunum á móti aðild – en gleymdi því að í sömu könnunum kemur líka í ljós annar meirihluti sem styður aðildarviðræður!

Þetta er skrýtin stefna hjá Heimssýn. Maður skyldi þvert á móti halda að ESB-andstæðingar fögnuðu viðræðunum, því að út úr þeim kemur loksins samningur, og samkvæmt kenningum Ragnars og Styrmis, Ásmundar Einars og Sigurðar Kára getur sá samningur ekki annað en verið ákaflega vondur. Og þá munu frjálsræðishetjurnar góðu í Heimssýn hrífa með sér alla þjóðina gegn Evrópusambandsaðildarsamningnum með glæsilegum sigri í þjóðaratkvæðagreiðslu, og síðan una allir glaðir við sitt.

Eða hvað? Vilja þeir ekki samning sem sýnir svart á hvítu kostina og gallana við Evrópusambandsaðild? Er betra að fiska í gruggugu vatni?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.11.2009 - 09:16 - 10 ummæli

Bankar úti í móa

Hagamálið sýnir mistök við endurreisn bankanna, gerð í tíð síðustu ríkisstjórnar, haldið áfram í tíð þessarar. Í miðjum rústunum eftir hrunið voru stjórnmálamenn svo fullir lotningar gagnvart skilunum gagnvart viðskiptalífinu að hver af nýju bönkunum átti að stjórna sér sjálfum á einhverskonar viðskiptaforsendum. Að vísu voru engir hluthafar að taka tillit til, engar hefðir sem hægt væri að styðjast við, engin sérstaða hvers banka í starfsháttum, atvinnugreinum eða viðskiptamönnum – nema það sem hver banki fékk í arf eftir nafna sinn hinn eldri.

Það voru kosin bankaráð – skipuð fulltrúum frá flokkunum, en þau áttu að leika glöð og frjáls án áhrifa frá nokkrum aðila og herma eftir raunverulegu samkeppnisástandi – með aðstoð bankastjóra sem flestir voru ráðnir úr gamla bankanum.

Einhverskonar verklagsreglur um skuldameðferð voru að lokum settar en sínar fyrir hvern banka, og alveg óljóst hvernig þær virka innan hvers banka eða hver munur er á þeim í raun milli bankanna. Lítið heyrist af störfum svokallaðra umboðsmanna, sem reyndar starfa á vegum bankastjórnarinnar!  – eftirlit er óljóst og gagnsæi fer aðeins eftir því hvort einhver fjölmiðillinn er nógu duglegur og áræðinn að grafa upp mál þau mál sem hin frjálsu bankaráð véla um ásamt hinum frjálsu bankastjórum.

Síðasta undarlega mál sem í hámæli komst var þegar Kaupþing bjóst til að fella niður milljarðaskuld Björgólfsfeðga vegna lánsins sem þeir tóku þar til að kaupa Landsbankann. Bankastjórn og -ráð hættu við í bili eftir almenna uppreisn, en ekkert gerðist annað í starfsháttum bankans eða mannaskipan í valdastöðum. (Minnir það hafi orðið breytingar í bankaráðinu vegna breyttra valdahlutfalla flokkanna, nýr formaður bæjarstjórinn Helga Jónsdóttir sem, þar mun sitja á einhvern hátt á vegum Samfylkingarinnar – við sem erum í þeim flokki sjáum hinsvegar aldrei framan í þennan mikla valdamann.)

Nú er í fréttum endurreisn Haga í sama banka og hermt að það eigi að fella niður milljarða af fyrri eigendum – og undanfarið höfum við fylgst með svipuðum tíðindum af öðru máli miklu minna en ámóta í laginu, þar sem Landsbankinn hjálpar Bjössa í World Class að losna útúr milljarða-dellumakeríi í Danmörku.

Ég skal ekkert um þessi tvö mál segja sérstaklega. Til þess þekki ég þau ekki nógu vel og get einkum ekki borið þau saman við önnur ámóta, en fréttaflutningi Morgunblaðsins er því miður ekki að treysta vegna þess að þar blandað saman fréttum og pólitík, og gert upp á milli manna og fyrirtækja. Það er örugglega skynsamlegt að reyna að bjarga lífvænlegum fyrirtækjum. En það verður að gera með samræmdum reglum í öllum bönkunum og eins gagnsærri meðferð og nokkur völ er á. Og þegar eigendurnir heita Björgólfur og Jón Ásgeir verður almenningur, eigendur bankanna, að geta verið viss um að allt sé borgað sem hægt er. Spurningin á forsíðu Moggans um traust er ekki ástæðulaus.

Fyrst og fremst verður að vera á hreinu að bankarnir gæti jafnræðis milli skuldaranna og fyrirtækjanna. Og hvar eru, vel á minnst, frá Kaupþingi þær „reglur um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga sem kunna að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir skuldara“ og eiga að vera  „aðgengilegar fyrir lántaka og aðra viðskiptavini þeirra“ – samkvæmt lögunum sem alþingi samþykkti 23. október síðastliðinn?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.11.2009 - 13:31 - 55 ummæli

Lilju snýst hugur

Lilju Mósesdóttur snerist hugur, sagði hún í Silfrinu – hafði ætlað að styðja Icesave-frumvarpið nýja en þegar hún las það betur ákvað hún að vera á móti því.

Lilju snýst gjarna hugur.

Síðast snerist henni hugur á fundi í septemberlok í Strassborg – þar voru hún og tveir aðrir alþingismenn á Evrópuráðsþingi og ræddu í leiðinni við nokkra Hollendinga og Breta. Einn af þeim var úr Verkamannaflokknum breska og mun hafa tengt saman AGS og Icesave heldur óþyrmilega. Og hugur Lilju snerist. Hún hafði áður verið veik fyrir aðild að ESB (og greiddi atkvæði með umsókninni á alþingi), en:

Eftir þessa hótun hins breska þingmanns Verkamannaflokksins varð ég afhuga aðild að Evrópusambandinu.

Það þurfti ekki meira til. Spennandi framhaldssaga.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur