Í eymdinni og volæðinu sem þessa daga ríkir um allt samfélagið áður en niðurstaða fæst um skatta og fjárveitingar má þó hafa nokkra skemmtun af því hversu hetjulega vörn hinir fjölmörgu fulltrúar og forystumenn veita bæði niðurskurði og skattaálögum. Við vorum að tala um það í ræktinni í fyrradag að núna væru á nokkrum vikum komnir fram í sjónvarpsfréttatímum málsvarar nokkurnveginn allra hagsmunahópa á Íslandi, og vantaði bara einhvern til að tala fyrir munn skattpíndra og þjónustulausra meðaltekjukarla á miðjum aldri.
Næstsíðast var það fulltrúi ferðaþjónustunnar sem var búinn að reikna það út afar trúlega að samfélagið færi á hausinn við að innheimta nokkrar krónur af ferðamönnum til landsins – sá sami sagði ekkert þarsíðast þegar álfyrirtækin og ASÍ börðust fyrir hærra tryggingagjaldi á mannfrekar atvinnugreinar.
Og í dag kemur svo talsmaður refaskyttna, sem bregst að sjálfsögðu ókvæða við hugmyndum í umhverfisráðuneytinu um að hætta að niðurgreiða refaveiðar. Og þetta getur maður vel skilið – það er ónotalegt að fá ekki lengur ríkisstyrk við að vera karl í krapinu og liggja á grenjum til að verja búfénað og mannlíf um hinar breiðu byggðir.
Og samt er staðreyndin sú og hefur verið í allmarga áratugi að refaveiðar eru víðast um landið hreint rugl, eiginlega alstaðar nema kringum helstu fuglabyggðir.
Refurinn er ekki drepinn til að útrýma honum, enda ekki um það nein eining – margir líta svo á að hann sé órjúfanlegur hluti af íslenskri náttúru, og að minnsta kosti elsta spendýrið á landi. Með gjörbreyttum sauðfjárbúskap eru nánast tíðindi að refurinn leggist á fé – því er ekki hleypt lengur á fjöll fyrr en nokkuð er liðið á vor, og er miklu hraustara nú en horgripirnir sem voru settir á guð og gæfuna fyrr á öldum.
Skipulag á refaveiðum bendir heldur ekki til þess að verið sé að verja fuglalíf, sem skiptir okkur vissulega miklu máli – vegna þess að skipulag á refaveiðum er ekki neitt. Það er heldur engin sérstök tenging milli refaveiðanna og svo minkahernaðarins, sem reyndar er næstum jafnmikið rugl og refaskyttiríið, en þó með aðeins öðrum hætti.
Sannleikann þekkja allir sem koma nálægt þessum veiðum – stjórnmálamenn á þingi og í sveitarstjórnum, embættismenn, bændur og skyttur: Þetta er atvinnustyrkur til einstakra byggða, sem hagsmunagæslumenn rífast um á hverju ári. Alveg gagnslaust tiltæki – nema auðvitað til að halda við hetjuskap í sveitum og styrkja þjóðlega ævintýramennsku í baráttunni við melrakkann og rífinn, skolla og blóðdrekk, holtaþór, lágfótu, djankann og dratthalann.
Núorðið er þetta kannski meira svona þjóðleg fræði – og varla ástæða til að setja skattpeningana okkar í þessar fjallaferðir. Eiginlega ætti þetta að vera öfugt, að hinir þjóðlegu skotveiðimenn borgi í sameiginlegan sjóð fyrir veiðileyfi á ref, svipað og er um aðra veiði, og þá ekki nema þar sem það er óhætt með tilliti til þokkalegrar refaverndar og varðveislu náttúrufegurðar sem af skepnunni hlýst.
Gömu góðu grenjaskytturnar ætti svo að gera að leiðsögumönnum ferðamanna um helstu refaslóðir.
Gagg, gagg!