Loksins skil ég tillögur SA og ASÍ um hvað á að koma í staðinn fyrir orkuskattinn, og þurfti til sjálfan Gylfa Arnbjörnsson forseta Alþýðusambands Íslands að skýra það út fyrir mér í Kastljósi í gær. Í staðinn kemur nefnilega skattur sem SA og ASÍ ætla að ráða sjálf og hækkar og lækkar eftir þörfum. Aðrir geta svo bara borgað það sem viðkomandi stjórnvöldum þóknast að leggja á þá.
Tryggingargjaldið er skattur á laun, nú 7% eftir hækkun 1. júlí úr 5,34%. Hann rennur að stórum hluta í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sjöprósent tryggingargjald er þegar feikihátt og veldur því að fyrirtæki reyna að draga sem verða má úr launakostnaði, breyta launafólki í gerviverktaka, freistast til að kaupa svarta vinnu. Enn hærra tryggingargjald kemur verst við þau fyrirtæki sem einkum reiða sig á mannshöndina og mannshugann – svo sem ferðaþjónustu, verslun allskyns, sprotageirann, menntastarf af ýmislegu tagi, einyrkja – en síður við þá sem mikinn kostnað hafa af hráefnisútvegun, orkukaupum og fjárfestingum í vélbúnaði, svo sem fyrirtæki í stóriðju og sjávarútvegi.
Í stað orkuskatts vilja SA og ASÍ hafa hærra tryggingagjald. Það orðar verkalýðsleiðtogi í bloggi í gær þannig að „þeir [í SA] væru tilbúnir til þess að borga þá upphæð sem sækja átti í orkuskatt, en vildu gera það með breytingu á tryggingargjaldi, það væri einfaldara og skilaði sér betur“. Gylfi sagði svo í gær að „þeir“ treystu fyrirtækjunum til að ráða við hærra tryggingagjald nokkra hríð þangað til vextir lækkuðu og færi að rofa til, þá mundi atvinnuleysi minnka og þá væri hægt að lækka tryggingagjaldið aftur.
Við þetta er því að bæta að SA og ASÍ hafa einmitt síðustu vikur krafist þess að fá Atvinnuleysistryggingasjóð í sínar hendur.
Díllinn er sumsé að „aðilarnir“ í samfélaginu hafi verkaskipti. „Atvinnulífið“ sjái um hina atvinnulausu og afli fjár til þess með tryggingargjaldinu, sem hækki og lækki eftir því sem þörf er á. Ríkið – það er að segja skattborgararnir – sjá svo um hitt, velferðarþjónustu og önnur ríkisútgjöld, niðurgreiðslu ofurskulda, mengunar- og losunarkostnað og svo framvegis, en þessi kostnaður lækkar ekki mikið fyrr en eftir áratugi.
„Þeir“ í SA og ASÍ eiga að ráða líka Atvinnuleysistryggingasjóði – og meðan alþingi og sveitarstjórnir leggja skatt á almenning fyrir öllum kostnaðinum við hrunið ætla „þeir“ að ráða sjálfir hvað þeir borga – eftir því hvert er talið hæfilegt atvinnuleysi.
Sniðugt!