Föstudagur 30.10.2009 - 08:16 - 15 ummæli

Ráða skattinum sjálfir

Loksins skil ég tillögur SA og ASÍ um hvað á að koma í staðinn fyrir orkuskattinn, og þurfti til sjálfan Gylfa Arnbjörnsson forseta Alþýðusambands Íslands að skýra það út fyrir mér í Kastljósi í gær. Í staðinn kemur nefnilega skattur sem SA og ASÍ ætla að ráða sjálf og hækkar og lækkar eftir þörfum. Aðrir geta svo bara borgað það sem viðkomandi stjórnvöldum þóknast að leggja á þá.

Tryggingargjaldið er skattur á laun, nú 7% eftir hækkun 1. júlí úr 5,34%. Hann rennur að stórum hluta í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sjöprósent tryggingargjald er þegar feikihátt og veldur því að fyrirtæki reyna að draga sem verða má úr launakostnaði, breyta launafólki í gerviverktaka, freistast til að kaupa svarta vinnu. Enn hærra tryggingargjald kemur verst við þau fyrirtæki sem einkum reiða sig á mannshöndina og mannshugann – svo sem ferðaþjónustu, verslun allskyns, sprotageirann, menntastarf af ýmislegu tagi, einyrkja – en síður við þá sem mikinn kostnað hafa af hráefnisútvegun, orkukaupum og fjárfestingum í vélbúnaði, svo sem fyrirtæki í stóriðju og sjávarútvegi.

Í stað orkuskatts vilja SA og ASÍ hafa hærra tryggingagjald. Það orðar verkalýðsleiðtogi í bloggi í gær þannig að „þeir [í SA] væru tilbúnir til þess að borga þá upphæð sem sækja átti í orkuskatt, en vildu gera það með breytingu á tryggingargjaldi, það væri einfaldara og skilaði sér betur“. Gylfi sagði svo í gær að „þeir“ treystu fyrirtækjunum til að ráða við hærra tryggingagjald nokkra hríð þangað til vextir lækkuðu og færi að rofa til, þá mundi atvinnuleysi minnka og þá væri hægt að lækka tryggingagjaldið aftur.

Við þetta er því að bæta að SA og ASÍ hafa einmitt síðustu vikur krafist þess að fá Atvinnuleysistryggingasjóð í sínar hendur.

Díllinn er sumsé að „aðilarnir“ í samfélaginu hafi verkaskipti. „Atvinnulífið“ sjái um hina atvinnulausu og afli fjár til þess með tryggingargjaldinu, sem hækki og lækki eftir því sem þörf er á. Ríkið – það er að segja skattborgararnir – sjá svo um hitt, velferðarþjónustu og önnur ríkisútgjöld, niðurgreiðslu ofurskulda, mengunar- og losunarkostnað og svo framvegis, en þessi kostnaður lækkar ekki mikið fyrr en eftir áratugi.

„Þeir“ í SA og ASÍ eiga að ráða líka Atvinnuleysistryggingasjóði – og meðan alþingi og sveitarstjórnir leggja skatt á almenning fyrir öllum kostnaðinum við hrunið ætla „þeir“ að ráða sjálfir hvað þeir borga – eftir því hvert er talið hæfilegt atvinnuleysi.

Sniðugt!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.10.2009 - 08:53 - 26 ummæli

Fyrir hverja vinnur Gylfhjálmur?

Ég er alinn upp í virðingu, lotningu næstum því, við verkalýðshreyfinguna og störf hennar í þágu alþýðu frá upphafi sínu í lok 19. aldar: Að skapa réttlátt þjóðfélag. Og hef enn ekki brugðist þeim lærdómi úr foreldrahúsum að leggja við eyrun þegar forystumenn alþýðusamtakanna tala.

Meginstefna Alþýðusambandsins hefur frá því á sjöunda áratugnum verið svokallaður korpóratismi, sem einmitt hefur gefist vel í skárstu samfélögum Vesturlanda eftir stríð – Þýskalandi, norrænu ríkjunum, Benelúxlöndum: Samvinna faghreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisvalds um stóru línurnar í atvinnu- og efnahagsmálum. Rökin eru þau að þannig næst árangur sem verkalýðshreyfingin réði ekki við ein og sér, og heldur ekki í félagi við vini og skyldfólk í pólitík – með þeim sem einu sinni voru kallaðir verkalýðsflokkarnir.

Og víst getur íslensk verkalýðshreyfing státað af margvíslegum ávinningi af þessari samvinnu, allt frá lífeyrissjóðakerfinu og Breiðholtsblokkunum (hvar er annars styttan af Guðmundi J.?) til menntaátaks og starfsendurhæfingar í nútímanum.

Fjöregg verkalýðshreyfingarinnar við þessar aðstæður er að týna ekki sjálfri sér í öllu samningaspilinu og skrifstofuþrefinu sem fylgir þessari tegund af stéttasamvinnu.  Forystumennirnir, kjörnir eða ráðnir (sumir fyrst kjörnir, svo ráðnir, aðrir fyrst ráðnir, svo kjörnir) mega ekki missa sjónar á félögunum og stemmningunni á gólfinu, og þeir verða að passa uppá það í allri þjóðfélagsverkfræðinni að niðurstaðan úr hverri samningalotu og heildarstefnan til langs tíma sé í samræmi við hagsmuni alþýðu.

Órofa samstaða

Hér er þetta þríhliða samstarf atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar og pólitískrar forystu landsins óðum að þróast út í tvíhliða samstarf. SA og ASÍ semja fyrst sín á milli og síðan saman við ríkið. Þar koma samtökin fram einsog einn maður – engin furða að bloggarar eru farnir að taka um SASÍ og kalla formanninn Gylfhjálm.

Órofa samstaða hefur verið beittasta vopn verkalýðshreyfingarinnar frá upphafsdögum hennar um miðja 19. öld. Ljóst er eftir undanfarna daga og vikur að forysta Alþýðusambandsins hefur þennan gamla arf í heiðri. Hún sýnir svo sannarlega órofa samstöðu – með vinnuveitendasamtökunum.

Ýmislegt er auðvitað til í gagnrýni ASÍ/SA á ríkisstjórnina, og sjálfsagt að setjast niður í miklu samráði um útfærslu skattahækkana – eru skattleysismörkin mikilvægari en tekjuskattsprósentan? Hvað þola fyrirtækin mikla hækkun á sínum tekjuskatti? Hvað er sanngjarnt – og óhætt – að leggja mikinn skatt á fjármagnið?

Þetta er hinsvegar ekki áhyggjuefni Gylfa og félaga á skrifstofum ASÍ, enda eru stjórnmálamennirnir bráðfúsir að fá fleiri að því borði. ASÍ leggur aðaláhersluna á að styðja SA í kröfum sem koma launafólki ekkert við og vinna sumar gegn hagsmunum þess. Það er átakanlegt að sjá Alþýðusamband Íslands róa gegn breytingum á gjafakvótakerfinu. Það tekur líka á að sjá sambandið bætast í einhæfan álkór gegn lausnum sem skapa meiri vinnu með miklu minni umhverfisfórnum. Hlálegastur er þó vígbúnaður alþýðusamtakanna gegn orkusköttum – þar sem SA/ASÍ leggur til að í staðinn verði hækkað tryggingagjald!

ASÍ: Hærri skatt á laun

Tryggingagjaldið leggst á laun og hefur aldrei verið hærra en nú – 7% frá því í júlí. Hvernig kemur það við hagsmuni launafólks? Illa, af því að eðlileg viðbrögð atvinnufyrirtækis við svo háum skatti eru að minnka einsog verða má kostnað af launagreiðslum. Ætli það hjálpi til við að berjast gegn atvinnuleysi?

Svar óskast frá skrifstofu Alþýðusambands Íslands.

Þetta var hinsvegar með í pakkanum sem ASÍ/SA samdi um við SA/ASÍ – og í nafni órofa samstöðu er afl Alþýðusambandsins lagt gegn skynsamlegum leiðum til að dreifa byrðunum eftir hrun markaðshyggjunnar. Með samtökunum sem kenna sig við atvinnulífið einsog þeir einir séu atvinnulíf sem eiga hlutabréf í vinnustöðunum.

Sem betur fer virðast ráðherrar Samfylkingarinnar og VG hafa ákveðið að ,kalla blöffið’. Í yfirlýsingu stjórnarinnar frá í fyrragær er ekki fallist á neinar kröfur „aðilanna“ – sem að lokum þorðu ekki að standa við hótanirnar.

Eða ætlar Gylfi Arnbjörnsson að boða til verkfalla til að styðja gjafakvótann og hækka tryggingagjaldið?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.10.2009 - 11:45 - 18 ummæli

Í hvaða fötum er stöðugleikasáttmálinn?

Það er látið einsog allt fari beinleiðis til andskotans ef þessi svokallaði stöðugleikasáttmáli fokkast upp.

Af hverju?

Treystum við ekki atvinnurekendum og verkalýðsforystu til að gera á vinnumarkaði samninga í samræmi við stöðu þjóðarinnar?

Er hugsanlegt að Vilhjálmur Birgisson á Akranesi hafi rétt fyrir sér um að fjölmörg fyrirtæki geti vel borgað laun í samræmi við fyrri samninga?

Auðvitað er eðlilegt að „aðilar vinnumarkaðsins“ (alltaf þessir sömu tveir einir) hafi skoðun á skattamálum – en hafa þeir enga skoðun á gífurlegum niðurskurði í velferðarþjónustu sem yrði enn ógnvænlegri ef ekki verða hækkaðir skattar?

Auðvitað er rétt að Liljur, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur og ýmiskonar þjóðernispopúlískur kverúlans í samfélaginu hefur skemmt fyrir endurreisninni með því að tefja Icesave-samkomulagið og kenna AGS – og forsetanum! – um hrunið. Hefur ríkisstjórnin þar með „svikið“ efnahagsþættina í samkomulaginu?

Af hverju berst ASÍ gegn því að stóriðjufyrirtæki leggi sitt fram á erfiðustu tímum í nútímasögu Íslendinga?

Hver kaus Vilhjálm Egilsson og Gylfa Arnbjörnsson til að stjórna ferðinni í atvinnumálum með stórkarlaframkvæmdum og náttúruspjöllum?

Hver gaf forystu Alþýðusambandsins umboð til að hóta verkföllum ef loksins yrðu stigin skref til að lagfæra gjafakvótakerfið?

Svo spurt sé svipað og litla barnið í kóngsins Kaupinhafn: Er stöðugleikasáttmálinn mikli í einhverjum fötum?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.10.2009 - 09:38 - 14 ummæli

Sælgæti, sígarettur, vindlar – og Tómas í Alcoa

Tómas Már Sigurðsson heitir ein helsta bjargvættur Íslands eftir hrun – formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Alcoa – en þessi félög berjast einmitt hönd í hönd með SA þessa dagana gegn skattpíningu ríkisstjórnarinnar á þjóðþrif, og hafa fengið í lið með sér sjálft Alþýðusamband Íslands.

Pínulítill kall sem nú leyfir sér að vera félagsmálaráðherra var með kjaft um daginn út í álfyrirtækin og því svaraði herra Tómas einsog skot í Morgunblaðinu: Sitt félag, Alcoa, héldi ekki bara uppi öllum Austfjörðum heldur borgaði í skatt heila 4 milljarða króna á ári.

„Beinar skattgreiðslur okkar í fyrra voru um fjórir milljarðar króna að ónefndum hafnargjöldum og raforkureikningum,“ segir forstjóri Alcoa sem finnst ræða ráðherrans einkennast af sleggjudómum. (Mbl. 26. október.)

Og nú setur litla kalla auðvitað hljóða. Þegar nánar er að gáð kemur samt í ljós að Tómas hefur misskilið eitthvað í rekstrinum hjá sér. Skattgreiðslur Alcoa geta nefnilega ekki verið 4 milljarðar, hvorki í ár né í fyrra, því samanlagðar skattgreiðslur allra álfyrirtækjanna á Íslandi á þessum árum ná ekki 2 milljörðum.

Mínar upplýsingar eru þessar – komnar í upphafi frá Ríkisskattstjóra:

Gjaldárið 2008: Tekjuskattur 1.277 milljónir króna, tryggingagjald 419 milljónir; samtals 1.696 milljónir = 1,7 milljarðar.

Gjaldárið 2009: Tekjuskattur 1.335 milljónir króna, tryggingagjald 566 milljónir; samtals 1.901 milljónir = 1,9 milljarðar.

Þetta eru tölurnar fyrir: Alcan á Íslandi ehf., Alcoa á Íslandi sf.,  Alcoa á Íslandi ehf., Norðurál Grundartangi ehf., Norðurál ehf., Norðurál Helguvík ehf., Norðurál Helguvík sf. og Norðurál Helguvík Holding II ehf.

Hvað sem líður álitaefnum og viðhorfum er enginn að gera lítið úr mikilvægi Alcoa eða annarra álfyrirtækja fyrir íslenskt atvinnulíf. Við vitum að vísu ekki á hvaða verði þau kaupa rafmagnið, en við vitum að þau mynda vinnustaði fyrir líklega 1500–2000 manns eftir því hvernig reiknað er, eða allt að 1,2% af vinnuafli á Íslandi, og kaupa ýmsar íslenskar vörur og þjónustu – þótt mestur hluti hlutdeildar þeirra í útflutningsskýrslum hverfi aftur úr landi vegna hráefniskaupa og arðgreiðslna.

Til ríkisins í skatt borga þau hinsvegar bara tæpa 2 milljarða öll til samans. Af hverju heldur Tómas Þór Sigurðsson öðru fram?

Er hann að rugla óviljandi? Er hann kannski að bæta við virðisaukaskatti sem Alcoa fær endurgreiddan? Sköttum starfsmanna, sem þeir borga, ekki hann?

Eða er Viðskiptaráð/Alcoa viljandi að bjóða uppá sælgæti, sígarettur og vindla?

Tómas Már er velkominn hér á bloggið með nánari skýringar á skattgreiðslum Alcoa á Íslandi ehf. og sf.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.10.2009 - 11:20 - 17 ummæli

Ginningarfíflin öskra á Árna Pál

Ef tilhugsunin um róttækar breytingar vekur upp meiri ótta en tilhugsunin um aðsteðjandi ógn – hvernig er þá hægt að koma í veg fyrir voðann? (Brennuvargarnir, síðasta orðsvar fyrir hlé)

Illugi – Þorgerður Katrín – Gunnar Bragi Sveinsson – Siv – LÍÚ-kontórinn – og auðvitað Davíð sjálfur á Mogga – eru æf af illsku útaf ræðu Árna Páls Árnasonar á ASÍ-þinginu þar sem hann skammaði forkólfa stóriðju og sjávarútvegs fyrir frekjugang og sérhlífni.

Árni Páll má vera ánægður með viðbrögðin frá þessu samansúrraða sérhagsmuna- og afturhaldsliði. En af hverju eru þau svona æst? Vegna þess að ráðherrann stendur í lappirnar – sem nú er mikið lýst eftir – þar sem aðrir beygja kné:

Við eigum að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu en við eigum ekki að sæta afarkostum óforskammaðra kapítalista. Þeir vinna að einu markmiði – hámörkun arðs. Það vitum við vel af reynslu undanfarinna ára. Við eigum að standa með okkur sjálfum, setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og við eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum.

Um sjávarútvegsbarlóminn:

Við viljum semja við erlend fyrirtæki en ekki upp á hvaða býti sem er. Við erum til dæmis ekki tilbúin að semja um óendanlega skattaafslætti. Atvinnulíf sem ekki getur lagt af mörkum til samfélagsins er ekki upp á marga fiska. Við getum tekið dæmi af sjávarútveginum sem hefur notið ríkulega ávaxtanna af stórfelldri gengisfellingu, en kveinar samt viðstöðulítið undan hugmyndum um hóflega innköllun aflaheimilda. Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna. Gengisfellingin færði peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju. Grátkór og kveinstafir útgerðar og álfyrirtækja er háværari og ágengari á sama tíma og launafólk hefur stillt kröfum í hóf og sýnt mikið þolgæði. Það er íhugunarefni. Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?

Og um stóriðjuhróp og -köll úr öllum áttum:

Við viljum ekki standa í vegi ákvarðana fyrirtækja um uppbyggingu í Helguvík. Ákvörðun umhverfisráðherra um línulagnir hefur verið gagnrýnd en mér finnst það billegt að reyna að kenna þeirri ákvörðun um tafir. Ákvörðunin mun ekki tefja verkefnið að neinu marki – og ekkert umfram þær tafir sem stafa af því að framkvæmdaaðilinn hefur ekki tryggt fjármagn til verkefnisins og innlend orkufyrirtæki njóta ekki lánstrausts og vafi leikur á að fullnægjandi orkukostir séu til reiðu. Það eru hinar raunverulegu ástæður tafa í Helguvík. Og endaleysan um álverið á Bakka er svo kapítuli út af fyrir sig. Ekkert lýsir betur áherslum ríkisstjórnarinnar en sú ákvörðun að endurnýja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa í óbreyttu formi. Við viljum nefnilega uppbyggingu á Bakka. En við viljum ekki afhenda einum útlendum auðhring sjálfdæmi um álitlegan nýtingarkost og gera öðrum áhugasömum fyrirtækjum ókleift að komast að borðinu. Við höfum á undanförnum árum glatað ótöldum tækifærum með aðferðafræði fortíðarinnar. Við höfum samið á forsendum álfyrirtækjanna án þess að skapa okkur samningsstöðu með nauðsynlegri samkeppni um ólíka kosti.

Það er ekki nema von þau öskri á Árna Pál. Hann er nefnilega að segja satt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.10.2009 - 23:21 - 5 ummæli

Teigsskógur sigrar í Hæstarétti

Dómur Hæstaréttar í dag er öllum unnendum Teigsskógar í Þorskafirði mikið ánægjuefni. Í ljós kemur að Vegagerðin hefur rasað um ráð fram við umhverfismat, og þó einkum að Jónína Bjartmarz Framsóknarráðherra í umhverfisráðuneytinu var á skjön við lögin þegar hún sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar um vegagerð á þessum slóðum undir pólitískum þrýstingi.

Jafnljóst er það að á sunnanverðum Vestfjörðum verður ekki mikil ánægja með úrskurðinn. Þar þurfa menn að íhuga málið rækilega, og spyrja bæði sjálfa sig héraðshöfðingja sína þá sem enn eru óbrottfluttir hvort samgöngumálum væri nú ef til vill betur komið ef endirinn hefði veri skoðaður betur í upphafinu og hlustað eftir varnaðarorðum og athugasemdum í staðinn fyrir hefðbundinn bumbuslátt yfir lönd og strönd.

Þær raddir hafa lengi heyrst innan úr Vegagerðinni að þverunar- og skógarleiðin sé alls ekki besta faglega lausnin heldur orðin til undir pressu frá pólitíkusum fyrir vestan og sunnan.

Eftir þessi úrslit í héraðsdómi og hæstarétti hljóta Vegagerðin og yfirmaður hennar, Kristján Möller samgönguráðherra, að staldra við og hugsa málið algerlega upp á nýtt. Fram hefur komið tillaga um jarðgöng í stað þverunar og brautar gegnum skóginn og það er heldur ekki fullreynt með vegabætur á gömlu leiðinn en hvort tveggja hefur hingað til verið slegið og hlegið út af borðinu vegna áætlananna sem nú hafa siglt í strand á báðum dómstigum.

Það er svo full ástæða til að óska til hamingju þeim sem stóðu vörð um Teigsskóg í þessum málarekstri, ekki síst Gunnlaugi Péturssyni verkfræðingi og lögmanninum Katrínu Theodórsdóttur sem er að verða einn af öflugri umhverfis- og mannréttindalögmönnum landsins.

Teigsskóg á svo auðvitað að friða sem fyrst, og auðvelda íslensku og erlendu útivistar- og ferðafólki að njóta hans og þessara slóða allra við norðurströnd innanverðs Breiðafjarðar um leið og félagi Möller setur sína menn til verka við alvöru-samgöngubætur vestra.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.10.2009 - 22:33 - 13 ummæli

Velkominn, Björgvin Guðni

Björgvin G. Sigurðsson hefur lýst stuðningi við tillögu stjórnarandstæðinga á þingi gegn ákvörðun umverfisráðherra um mat á svokallaðri suðvesturlínu til álversins í Helguvík.

Gott og vel – til þess hefur hann fullan rétt. Þegar maður er ekki bara stjórnarþingmaður heldur formaður þingflokks forsætisráðherrans – þarf sannfæringin samt að vera afar öflug til að stíga slíkt skref, og málið algerlega á tæru.

Nú vill svo til að hinn gamli félagi minn Björgvin Guðni Sigurðsson frá Skarði hefur líka lýst sig andvígan áformum um virkjanir í Þjórsá neðanverðri, og náði á sínum tíma kjöri sem fyrsti þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæmi sínu á þeim forsendum.

Veit Björgvin G. hvaðan orkan á að koma gegnum suðvesturlínu til álversins í Helguvík?

Og hefur hann fullvissu um það að Þjórsá neðri verði ekki virkjuð til þess einmitt að knýja verið á Suðurnesjum?

Áður en þingmaðurinn greiðir atkvæði með tillögu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn umhverfisráðherra hlýtur hann að gera okkur grein fyrir þessu.

Og segja okkur hvaðan sú orka kemur sem á að renna gegnum hinar langþráðu línur í álverið, sem verður aftur … 250 þúsund tonn eða 360 þúsund tonn? Og hvaða orka verður eftir í Suðurkjördæmi fyrir annað en álver? – til dæmis ,sæta’ stóriðju á borð við gagnaver og sólarkísil, eða fyrir ylræktina eða bara fyrir vaxandi þéttbýli um allt svæðið næstu áratugi. Þessum spurningum hafa þeir nefnilega ekki svarað sem mest æsa sig yfir nokkurra vikna eða mánaða töf vegna matsmálsins, og allra síst hinn gunnreifi þingflokksformaður af Þjórsárbökkum.

Á laugardaginn heldur Græna netið fund um einmitt þetta á Sólon, byrjar klukkan 11, málshefjendur Sigmundur Einarsson jarðfræðingur, Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi og Ágúst Hafberg upplýsingafulltrúi Norðuráls. Þú ert velkominn, Björgvin Guðni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.10.2009 - 15:13 - 10 ummæli

Svikin samþykkt!

34 þingmenn stjórnarflokkanna gefast upp fyrir ofbeldisöflunum, afsala rétti Íslands í Icesave-málinu og fella tillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þetta gætu orðið fréttirnar eftir samþykkt Icesave-frumvarpsins nýja ef þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fengju að ráða.

Því að auðvitað eru þetta „svikasamningar við Breta“ og Hollendinga, og með þeim hefur ríkisstjórnin unnið „smánarlegt verk“. Þessi „níðingslegu svik“ eru svo fullkomnuð með því að stjórnarherrarnir neita „hinni sjálfsögðu kröfu að þjóðin sjálf fengi að ákveða hvort samningurinn skyldi taka gildi, og sýnir það best að þeir vita hvað þeir voru að gera og óttast dóm þjóðarinnar,“ enda er varla hægt að kalla málflutning stuðningsmanna samningsins við hið erlenda vald annað en „áróðursröskur ráðþrota manna“.

En „Ísland mun slíta svikafjötrana“ sem „breskur [og hollenskur] níðingsskapur, breskt [og hollenskt] ofbeldi, bresk [og hollensk] flærð og vesaldómur íslenskra valdhafa er nú að leggja á þjóðina. Ísland hefur áður verið bundið undir erlent ok. Það hefur hrist það af sér, og það mun hrista þetta ok af sér líka, þrátt fyrir allt.“

Plus ça change …

Nei, þetta er auðvitað ekki af heimasíðu xB eða xD daginn eftir að nýja frumvarpið verður samþykkt – heldur úr Þjóðviljanum 10. mars 1961, daginn eftir að alþingi samþykkti samning ríkisstjórnarinnar um lyktir landhelgisdeilunnar sem hófst með 12 mílna-reglugerð Lúðvíks Jósepssonar haustið 1958. Fyrirsögnin var SVIKIN SAMÞYKKT, og undirfyrirsögn yfir þvera forsíðuna:

33 þingmenn stjórnarflokkanna opna 12 mílna landhelgina fyrir ofbeldisflotanum, afsala rétti Íslands til einhliða stækkunar landhelginnar og fella tillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þá voru aðrir tímar, en nú minnumst við ekki lykta þessarar deilu sem sérstaks ósigurs í þjóðarsögunni, og þótt mikið hafi legið undir þykir manni nokkuð stórkarlalega talað á forsíðu málgagnsins þennan marsdag í upphafi sjöunda áratugarins.

Plus ça change, plus ça reste la même chose, segja Frakkar: Hvernig sem allt veltist verður einhvernveginn alltaf það sama uppá teningnum. Dómar Þjóðviljamanna um landhelgissamning Ólafs Thors og Emils Jónssonar 1961 eru keimlíkir umsögnum Bjarna og Sigmundar Davíðs um Icesave-samning Jóhönnu og Steingríms 2009.

Nema hvað þeir skrifuðu miklu flottari texta á Þjóðviljanum kringum 1960.

Svo verður skálaferð um helgina í skíðaskála ÆFR og ÆFK. Farið frá Tjarnargötu 20 klukkan 7.30 síðdegis á morgun, laugardag. Þeir ættu kannski að prófa eitthvað svoleiðis drengirnir sem núna ráða í stjórnarandstöðunni?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.10.2009 - 22:42 - 12 ummæli

Icesave: Einsog vænta mátti

Lendingin í Icesave-málinu er einsog vænta mátti. Við þurfum að afturkalla „fyrirvarana“ um að hætta að borga 2024 og um að ríkisábyrgð falli niður ef mál skyldi vinnast um að ríkið beri ekki ábyrgð á Tryggingarsjóðnum. Í staðinn fallast stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi á að íslenska ríkið megi fara í slíkt mál, og að koma að viðræðuborði ef það vinnst. Þau fallast líka á að Ragnars Halls-deilan um forgang krafna fari fyrir EFTA-dómstólinn, sem er skynsamlegt af allra hálfu.

Þetta er nokkurn veginn einsog vænta mátti. Þeir sem hafa lagt áherslu á dómstólaleiðina geta bent á nokkurn árangur. Spurningunni um það hvort hann er fjögurra mikilvægra mánaða virði verður svarað þegar dómsmálunum lýkur eftir mörg ár og nokkra milljónatugi í kostnað. Hugmyndin um að skuldunauturinn ákveði einhliða að hætta að borga á tímapunkti sem hann sjálfur ákveður, hún er dáin drottni sínum – einsog vænta mátti – ævintýraleg sem hún var.

Ögmundur og Liljur standa að samkomulaginu og styðja það á þinginu. Þau bjarga andlitinu eftir afsögnina, og nú ætla allir að verða góðir vinir á stjórnarheimilinu. Sprungan er samt fyrir hendi, vegna þess að hún er hugmyndaleg – en aðilum máls var enginn kostur annar en að klára þetta nokkurnveginn svona.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins taka strax þá afstöðu að þetta sé niðurlæging og uppgjöf – það var einmitt eftir bókinni frá því í sumar. Það er reyndar soldið fyndið að heyra þá Hrunabræður hamast gegn stjórninni fyrir að ætla að „svíkja“ samþykkt alþingis um ríkisábyrgðina frá í sumar – af því að þá voru stjórnarþingmennirnir þeir einu sem samþykktu frumvarpið. Framsóknarmenn voru á móti, og Sjálfstæðisflokksmenn sögðu hvorki já né nei heldur sátu hjá. Hverja eru þá VG og Samfylkingin að svíkja?

Hávaðinn í Bjarna og Sigmundi Davíð stafar fyrst og fremst af  vonbrigðum þeirra með að stjórnin skyldi ekki springa á þessu erfiða máli. Þeir vita að úr því hún komst yfir þennan hjalla er líklegast að hún styrkist fyrir næsta verkefni: Að halda Íslandi og sjálfri sér á lífi þann illvíga vetur sem nú er að hefjast.

Icesave-málið er auðvitað h.f.f. – eiginlega móðir allra HFF-a –  og rifrildið um það í sumar og haust bendir ekki til að við séum mikið að átta okkur á nýju lífi eftir hrun. Við erum hinsvegar komin á skrið og þegar þessi stífla loksins brestur í efnahagslífi og þjóðarsál er kannski orðinn séns að við náum næstu áföngum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.10.2009 - 17:26 - 6 ummæli

Örvænting á fiskmörkuðum?

Árið 2007 var landinn orðinn svo snjall að fiskur var hættur að skipta okkur máli. Fjármálalífið aflaði tvö- eða þrefalt á við sjávarútveginn og þetta pauf við að selja saltfisk og frosin flök ofan í einhvern lýð í útlöndum var meira einhverjar leifar frá því í gamla daga. Enda streymdi fólk úr þeim sölustörfum í alvöruvinnu fyrir alvörukaup í blessuðum bönkunum.

Nú heldur fiskurinn aftur í okkur lífinu – ásamt nátttúruauðæfum landsins sem við seljum ferðafólki – en þá berast vond tíðindi af mikilvægum fisksölusvæðum: Ekki linni sífelldum undirboðum útflytjenda langt niðrúr öllu samkeppnisvaldi, og lengst gangi stórfyrirtæki í eigu eða forsjá ríkisbankanna.

Ég heyrði fyrst lauslega af þessu í sumar gegnum og núna um daginn hitti ég svo kunningja í þessum bransa sem segir að undirboðin séu ennþá regla, ekki undantekning. Ein afleiðingin er sú að Norðmenn eru orðnir órólegir! en þeir eru vanir að vera með sína vöru, að minnsta kosti saltfiskinn, nokkrum klössum neðan við Íslendinga.

Það er enginn að biðja um einokunarsamsölu einsog áður tíðkaðist – en þjóðarhagur krefst þess sem aldrei fyrr að fyrirtækin hugsi til langs tíma og splundri ekki langvinnu starfi á mörkuðum með óábyrgri undirboðastefnu.

Hver er skýringin? Eru þetta kröfur nýju bankanna um sýna sem mestan pening sem fyrst? Er þetta gjaldeyrisgræðgi? – yfirskuldsett fyrirtæki þurfi hverja evru og dollar til að halda frá erlendum lánardrottnum? Eru þetta skuldugir útgerðarmenn og hluthafar – að borga peningabréfin og jeppana og þyrlurnar?

Ytra er sérstaklega fylgst með þeim fyrirtækjum sem nýlega hafa fengið afskrifaðar stórskuldir og nota það forskot til að undirbjóða þá sem fóru varlegar og sitja þessvegna enn uppi með sínar klyfjar. Björgunarstarfið í bönkunum getur þannig orðið skjól fyrir grófa mismunun þar sem „gælu“-fyrirtækjum bankanna (sem nú eru í almannaeigu) er beitt gegn öðrum fyrirtækjum í sama bransa, sem að réttu lagi ættu að njóta þess að þar var haldið skynsamlegar á málum.

Þennan vanda þekkjum við undanfarna mánuði í atvinnu- og viðskiptalífi hér heima – en grunaði kannski ekki að sömu aðstæður ynnu beinlínis gegn þjóðarhagsmunum á mikilvægum mörkuðum þar sem dýrmætur gjaldeyrir fæst fyrir afurðir úr hinni sameiginlegu sjávarauðlind. Kannski þarf að nefna nöfn?

Útlendum fiskkaupendum er fyrir löngu farið að þykja nóg um, einkum þeim grónu og vönu. Þeir vilja auðvitað sem best verð – en hafa engan áhuga á að sprengja sig langt niður á matarmarkaði heima hjá sér í verðstríði sem ekkert vit er í. Sumir þeirra munu hafa haft á orði að hætta að kaupa íslenskan fisk ef ástandið lagaðist ekki. Aðrir spyrja hvort ríkisstjórnin á Íslandi viti virkilega ekki af þessu háttalagi á mörkuðunum.

Það er góð spurning. Fiskútflutningur er okkur einfaldlega það mikilvægur að hér má ekki ríkja stjórnlaus örvænting. Hvað er sjávarútvegsráðherra að hugsa? Æ, fyrirgefið, hann er að berjast gegn ESB. En utanríkis-viðskipta-ráðuneytið? Á það sér ekki duglegan og harðskeyttan ráðherra með munninn fyrir neðan nefið?

Íslensk útflutningssaga gerist ekki mikið eldri en á sumum þeim mörkuðum sem hér um ræðir. Örvænting og flumbrugangur eftir hrunið er nú að spilla þeim árangri á einu ári sem margar kynslóðir af duglegum sjómönnum, útgerðarmönnum, fiskflytjendum ogsölufólki hafa náð í nafni Íslands.

Það er aumt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur