Fimmtudagur 3.9.2009 - 17:46 - 16 ummæli

Hannes, fjölmiðlafrumvarpið og Bláa höndin

Það er hlegið að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um allt land (hér til dæmis!) – en þó er kannski rétt að gera örlitla athugasemd við þann hluta kenningar hans um Davíð og hrunið sem lýtur að fjölmiðlunum.

Menn vita að nýja heimastjórnartesan er sú að allt hafi verið gott meðan Davíðs naut við – hrunið er öðrum að kenna. Eftir það glæsilega afrek að gera Íslendinga að ríkustu þjóð í heimi hafi hann hinsvegar tapað slagnum um fjölmiðlafrumvarpið – við bandalag auðmanna, Samfylkingarinnar og forseta Íslands. Síðan tóku við stjórnartaumum síðri menn og allt glutraðist niður þrátt fyrir sífelldar viðvaranir úr Seðlabankanum. Þeir sem vilja heyra meira eru örugglega velkomnir á háskólanámskeið HHS um kapítalismann í boði skattgreiðenda.

Sjóaður maður sagði einu sinni að ef nógu oft væri kveðin sama vísan færu menn að lokum að trúa henni, og varð vel ágengt framan af sínum ferli. Heimastjórnin hefur lengi reynt að leika þann leik um fjölmiðlafrumvarpið – vegna þess að það mál olli ákveðnum straumhvörfum í pólitík á þessum áratug, og markar ásamt hruninu lokin á valdaskeiði Davíðs og íslensku nýfrjálshyggjunnar.

Pólitísk átök í valdahópunum

Þeim sem þar fóru fremstir er örugglega hollt að líta gagnrýnum augum yfir átökin – það hefur til dæmis gert ágætlega Hallgrímur Helgason, sem rifjar upp að ekki var sérlega þægilegt að vera í sama liði og Baugsmenn í því máli. Þá má ekki gleyma að þeir sem andæfðu fjölmiðlafrumvarpi Davíðs (menn muna að forsætisráðherra flutti málið fyrst, ekki menntamálaráðherrann) völdu sig ekki saman sjálfir, og höfðu ekki allir nákvæmlega sömu ástæður til að vera á móti þessari ætlan.

Þessi fylkingaskipan breytir hinsvegar ekki meginatriðum málsins. Fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma tilraun heimastjórnarklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum – Bláu handarinnar – til að klekkja á þeim fulltrúum „nýju peninganna“ í viðskiptalífinu sem ekki féllust á að taka sér hina gömlu kolkrabbastöðu með ráðamönnum Flokksins. Um leið mótaðist frumvarpið af gömlum valdaviðhorfum til fjölmiðlanna í landinu. Frumvarpið hefði – bæði í fyrstu mynd sinni og hinum síðari – að auki skert mjög rekstrargrundvöll í fjölmiðlun og hindrað nútímaþróun í takt við sífelldar tæknibreytingar á þessu sviði.

Við sem einkum vildum ræða áhrif frumvarpsins á fjölmiðlun, og reyna að ná samstöðu um aðrar leiðir, urðum að láta undan síga, því fjölmiðlamálið snerist fljótt upp í átök þar sem mikill hluti þjóðarinnar hafnaði – loksins – valdhroka og gjörræði þaulsætinna stjórnarflokka, og einkum hins mikla leiðtoga. Forseti Íslands hjó að lokum á hnútinn með hárréttri ákvörðun um að skjóta málinu í til þjóðarinnar – og er miður að ráðamenn skyldu heykjast á að hlíta stjórnarskránni um þá atkvæðagreiðslu.

Í þessu samhengi er rétt að muna að andstæðingar fjölmiðalfrumvarpsins innan þings og utan vildu lög um fjölmiðla, lög sem stuðluðu að frjálsri fjölmiðlun, fjölræði og lýðræði á vettvangi fjölmiðla og spornuðu gegn ítökum og einokunarhneigðum valdahópa úr pólitík og bisness nema hvorttveggja væri.

Frjáls fjölmiðlun

Þegar Davíð var hættur og farinn reyndist ekki erfitt að ná nokkuð breiðri samstöðu um nýja skipan í þessa átt – með nefndarstarfinu 2005. Sjálfur var ég ekki ánægður með allt í því áliti, vildi ganga lengra í sumu, stíga varlegar til jarðar annarstaðar. En hér skipti mestu að menn úr öllum þáverandi flokkum náðu saman eftir hinn mikla hildarleik sem heimastjórnarliðið efndi til með frumvarpinu.

Hin efnislegu átök um fjölmiðlafrumvarpið sjálft voru svo í meginatriðum þessi: Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vildu afar ströng takmörk á eignarhaldi fjölmiðla. Enginn einstaklingur eða fyrirtæki mátti eiga meira en afar lítinn hlut. Krosseign milli prentmiðils og sjónvarps átti að banna (mbl.is væri sennilega ólöglegur miðill samkvæmt frumvarpinu). Ýmsar aðrar stífar reglur skyldu settar um fjölmiðlarekstur, og yfir öllu saman var ríkisskipuð nefnd – en þá var einmitt formaður í útvarpsréttarnefnd Kjartan Gunnarsson. Í raun var frumvarpið skraddarasaumað gegn Norðurljósum sem þá hétu.

Við Samfylkingarmenn tókum fljótt forystu gegn frumvarpinu á þingi. Við töldum að ekki ætti að setja lög af því forsætisráðherranum væri illa við eigendur fjölmiðlafyrirtækis, hversu ómögulegir sem þeir kynnu að vera. Við neituðum aldrei eignarhaldstakmörkunum sem úrræði gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en töldum að þröng takmörk mundu verða til bölvunar fyrir rekstur fjölmiðlanna og gefa pólitíkusum færi á annarlegum áhrifum á þróun fjölmiðlunar.

Sjálfstæði ritstjórna, alvöru-RÚV

Við lögðum aðaláherslu á tvennskonar umbætur í íslenskri fjölmiðlun. Annarsvegar að efla Ríkisútvarpið sem raunverulegt almannaútvarp, sem hefði menningarlegt og lýðræðislegt forystuhlutverk á þessum vettvangi. Hinsvegar þyrfti að styrkja sjálfstæði ritstjórnar á fjölmiðlum landsins til að vega á móti áhrifavaldi eigenda.

Að lokum gerðist svo ekki neitt – nema RÚV var gert að ohf-i, sem flestir telja nú misheppnaða ákvörðun, nema kannski útvarpsstjórinn á jeppanum góða. Og hinum fjölmiðlunum hefur hnignað, meðal annars vegna hömlulítilla eigendaáhrifa. Samanber bæði stærsta og næststærsta blað landsins (en ekki DV, takk fyrir það!).

Nú er Kata Jak að fara aftur af stað með fjölmiðlafrumvarp og vonandi líka að búa til almannaútvarp úr ohf-vitleysunni í Efstaleiti. Þetta er brýnt, ekki síst vegna þess að veikir, hikandi og háðir fjölmiðlar áttu sinn þátt í hruninu og aðdraganda þess. Við þetta verk er rétt að skoða vel málflutning í kringum fjölmiðlafrumvarpið gamla og forðast vitleysurnar sem þar voru gerðar.

Og söguskoðun Bláu handarinnar er heldur ekki besta veganestið inn í lífið eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.8.2009 - 15:57 - 5 ummæli

… de små justeringene …

Icesave samþykkt, og löngu kominn tími til eftir rúma tvo mánuði. Auðvitað er enginn glaður, eiginlega eru menn bara mismunandi fúlir. Fór þetta annars ekki örugglega 63–0?

Fróðlegur er dómur norska hagfræðingsins í Kastljósi í gær um störf alþingis þennan tíma. Tormod Hermansen telur að Bretar og Hollendingar geri ekki athugasemdir við ‚leiðréttingar‘ eða ‚afstemmingar‘ þingsins: … de små justeringene som Altinget har nå kommet fram til … Eftir öll lætin, landskjálftana og stóryrðin – og yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar í gærdag um „gjörbreytt frumnvarp“!

Þormóður sagði líka að ríkisstjórnin hafi varla átt aðra kosti, og að þótt byrðin væri erfið hefðu Íslendingar þetta af. Reyndar leyfði Norðmaðurinn sér að fullyrða að Hollendingar og Bretar hefðu í samningunum „teygt sig býsna langt“ (trukket seg ganske langt), og áttar sig ekki á að hérlendis falla svona ummæli undir landráðakafla hegningarlaga.

Ég komst ekki á fyrirlestur Hermansens í háskólanum í dag en maður lagði eyrun við þegar hann lýsti ráðstöfunum Norðmanna eftir bankakreppuna þar, banni við krosstengslum, típrósent eignatakmörkunum og skilyrði um að bankar héldu sig við fjármálastarfsemi og létu aðra um fyrirtækjarekstur. Þetta var snemma á tíunda áratugnum – löngu fyrir einkavæðingu hér.

Annað merkilegt: Í Noregi voru fagmenn í opinberum eftirlitsstofnunum löngu byrjaðir að skipuleggja aðgerðir í hugsanlegri bankakreppu. Hér sátu menn bara og biðu eftir að komast á leik með West Ham.

Nema Davíð. Hann var búinn að sjá þetta fyrir löngu. Bann við að fyrirtæki í óskyldum rekstri ættu hlut. Hámark á einstakan eignarhlut. Bann við krosseignatengslum. Hann hefur bara ekki skilið nógu vel norskuna – og ekki fattað að þar var þetta í bönkunum en ekki í fjölmiðlunum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.8.2009 - 08:25 - 3 ummæli

Flottar stelpur

Þær fara ekki áfram – en voru flottar í gær, og hafa skrifað nýjan kafla bæði í annál íþróttanna og sögu jafnréttisbaráttunnar.

Íslenskt landslið á EM eða HM, það var draumur sem maður gat varla átt von á að nokkurntíma rættist – og auðvitað er það bara gott á okkur að það var kvennalandsliðið sem hér braut ísinn. Það eru varla nema tuttugu-þrjátíu ár síðan það var lenska í fótboltahópum að konur gætu að vísu kastað dansað listdans á skautum og synt flugsund – og ein og ein kastað handbolta, en knattspyrnu kynnu þær ekki og mundu aldrei læra. Nú hafa þær á þessum nokkru áratugum (fyrsta Íslandsmót 1972!) náð lengra en nemur samanlögðum knattspyrnuárangri íslenskra karla frá því Ferguson prentari kom hingað með fótboltann það herrans ár 1895.

Þetta var auðvitað óþolandi í gær að ná ekki að jafna, eftir mikinn dugnað og snarpar sóknir í seinni hálfleik – en líklega lokaðist leiðin strax í Frakkaleiknum. Nema hvað? Í draumnum um Ísland á HM eð EM var aldrei reiknað með nema þremur leikjum, að minnsta kosti í fyrsta sinn.

Sem betur fer sýnast bæði liðið og þjóðin staðráðin í að geyma árangur „stelpnanna okkar“ í Finnlandi og þoka vonbrigðunum til hliðar. Það er gott – í öllu þessu ástandi. Við getum þetta alveg!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.8.2009 - 11:51 - 10 ummæli

Kennedy

Edward Kennedy – eftir hann er skarð – við ólumst upp með þennan flotta Jack í Bandaríkjunum, og vorum að komast til vits og ára þegar Bobby var skotinn í morðhrinunni miklu á miðjum blómatímum. Sá þriðji varð aldrei forseti en hélt í manni þeirri trú að það væri þrátt fyrir allt von í Ameríku – og það er huggun harmi gegn að núverandi ráðamenn vestra eru hugmyndalegir afkomendur Kennedyanna þriggja. Frjálslyndir amerískir vinstrimenn af bestu sort, no-nonsense, breyskir en glæsilegir. Og standa af sér alla væmnina. Mér líður einsog ég sé kominn aftur í tíu ára bekk – morguninn sem allir hvísluðu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.8.2009 - 09:07 - 25 ummæli

Námslánin fyrirmynd?

Góð tillaga hjá Þórólfi Matthíassyni í Mogganum á laugardaginn um að tekjutengja húsnæðislán sem nú skapa fjölskyldum vanda sem þær eiga á litla sök.

Það hefur lengi verið ljóst að úrræði sem nú eru í boði fyrir skuldara duga ekki öllum, og rétt  það sem Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði um daginn: Við getum ekki búist við að fólk með persónulegan skuldaklafa gangi glatt og frjálst til verka við endurreisn í samfélaginu.

Allsherjar-hókus-pókusar einsog Framsóknarmenn og Lilja Mósesdóttir boða ganga ekki upp – enda láta þau aldrei svo lítið að segja okkur hver eigi að borga. Og allar þær lausnir sem ganga út á einhverskonar skuldaniðurfellingu stórra hópa – nema þá þeirra sem teljast í slíkri neyð að um þá gildi mannúðarlögmál eða barnaverndarsjónarmið – mæta hvössum spurningum annarra samfélagshópa. Besta dæmið eru auðvitað þessir 40 þúsund sem skulda milljarða samtals í myntkörfulánum fyrir bíla – af hverju eigum við að borga fyrir þá? spurja þeir sem borguðu íslenska vexti fyrir sinn bíl, eða keyra á tíu ára gömlum bíl, eða keyptu sér aldrei bíl.

Það er líka eðlilegt að setja spurningarmerki við þá aðferð sem Árni Páll virtist kynna til sögu í Fréttablaðsviðtalinu, að bankarnir ættu sjálfir að sjá um afskriftir lána sem væru ella í hættu. Allar afskriftir eða niðurfellingar verða að eiga sér stoð í almennum gagnsæjum reglum, og þannig starfa ekki bankarnir – ekki fyrir hrun og ekki eftir hrun, hvað hin norræna velferðarstjórn geri svo vel að byrja að athuga! Við treystum þeim ekki, og þeir hafa ekki sýnt – ennþá – að þeir eigi annað skilið en fullkomið vantraust.

Þórólfur benti í grein sinni á að við hefðum á einum stað reynslu af félagslegum lánum að nokkru leyti – nefnilega í námslánakerfinu, þar sem endurgreiðslur fara að hluta eftir tekjum. Það gæti veri farsælt að breyta húsnæðisskuldum fjölskyldna sem nú eru í vanda í slík lán, sem menn greiddu niður eftir tekjum sínum. Þeir sem eiga í skammtímavanda vegna samdráttar i tekjum mundu bjargast yfir erfiðasta hjallann. Þeir sem hafa reist sé hurðarás um öxl – í nánast eiginlegri merkingu – fá svolítinn frið til að breyta högum sínum, skipta til dæmis í ódýrara húsnæði þegar markaðurinn leyfir.

Um þetta yrði að setja tiltölulega skýrar reglur, bæði gagnvart skuldurum og lánardrottnum, væntanlega þá um ábyrgð ríkisins á lánunum gegn ákveðnum afskriftum. Og sennilega væri best, einsog Þórólfur leggur til, að þessi lán fari á sérstakan stað í kerfinu, meðal annars vegna náinnar samvinnu sem nauðsynleg er við Skattinn. Þórólfur lagði til sérstaka deild hjá LÍN, af því þar hefði starfsfólk langa reynslu af félagslegum lánum af þessu tagi.

Það er auðvitað búið að pönkast mikið á því kerfi tekjutengdra námslána sem tekið var upp að ég held árið 1975, en grundvallarprinsippið hefur þó haldist: Að menntun sé sameiginlegur hagur námsmannsins og samfélagsins, samfélagið sé þessvegna reiðubúið að taka þátt í kostnaði námsmannsins svo sem með niðurgreiðslu vaxta, og sjálfsagt sé að samfélagið sjái til þess að endurgreiðslur séu í einhverju hófi að námi loknu, miðað við tekjur námsmannsins.

Að breyttu breytanda geta þessi prinsipp átt við um þá hópa sem nú eru í verstum vanda og þegar ákveðin úrræði ná ekki til eða illa. Þá er líka rétt að stinga þessu inn í umræðuna: Fyrstu áratugi námslánakerfisins sem til varð í tíð jarðbundinna vinstrimanna í SHÍ og SÍNE – og menntamálaráðherrans Vilhjálms Hjálmarssonar – lauk endurgreiðslum á ákveðnum tíma. Það sem þá var eftir féll einfaldlega niður, þannig að þeir sem „högnuðust“ á námi sínu og fengu miklar tekjur, þeir borguðu margir upp lánið sitt, en hinir sem fengu lægri laun eftir námslok þurftu að lokum ekki að borga allt lánið.

Að breyttu breytanda væri hugsanlegt að nota líka þessa reglu frá námslánabreytingunum 1975 um tiltekna hópa og tilteknar aðstæður. Slík regla mundi flytja afskriftir og niðurfellingu aftur í tímann – 20 ár? 30 ár? – þannig að léttara yrði við þær að fást, og á þann hátt að réttlátlega kæmi niður, ef skynuglega er á haldið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.8.2009 - 09:58 - 11 ummæli

Málstaður Sannra Íslendinga

Fyrir hverja vinnur þetta fólk? spyr Ólafur Arnarson í Pressugrein, og sýnist helst vera að velta fyrir sér atvinnurekendum mínum og Stefáns Ólafssonar prófessors sem birt er eftir frábær grein um Icesave-deiluna í Fréttablaðinu í gær – að vísu skrifuð áður en samkomulag tókst á þingi.

Minn glæpur er hinsvegar pistill hér á Eyjunni þar sem það álit kemur fram að lítið sé hægt að segja um samkomulagið áður en við vitum viðbrögð Breta og Hollendinga við því. Deilur þingmanna og álitsgjafa um það hvort tillögur fjárlaganefndar séu „innan samningsrammans“ eða „samningsrof“ hafi lítinn tilgang. Svo er spáð í einstaka þætti tillagnanna.

Ólafur segir að í þessu komi fram „sá undirlægjuháttur, sem ráðið hefur för ríkisstjórnarinnar og flestra þingmanna hennar í Icesave málinu. Hagsmunir Íslands og íslensku þjóðarinnar eru ekki í fyrirrúmi. Fyrir alla muni verður að forðast að styggja Breta og Hollendinga.“

Nú er einsog stundum áður eitt að hafa ekki sömu skoðun um tiltekið efni, í þessu tilviki hvort hægt hafi verið, eða sé enn, að ná betri samningum um Icesave-klandrið, og annað að ausa menn auri – sem hjá Ólafi Arnarsyni hefur það form að við Stefán – og margir fleiri – höfum ekki í fyrirrúmi íslenska hagsmuni heldur einhverja aðra – og liggur beint við að álykta að það séu hagsmunir þeirra sem ekki má styggja.

Þingmenn úr Framsóknarflokknum hafa einkum verið iðnir við þennan kola undanfarnar vikur og mánuði, Eygló Harðardóttir hóf umræður sínar um Icesave-málið með því að líkja samningagerðinni við landráð, og Vigdís Hauksdóttir talar um föðurlandssvikara í Moggagrein um helgina. Fremstur fer auðvitað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem taldi eina tillögusyrpuna í fjárlaganefnd vera svik við þjóðina. Þannig að Ólafur er í góðum hópi.

Landráðabrigsl eiga sér því miður langa sögu í íslenskum stjórnmálum þótt nokkuð sé um liðið síðan síðast – en orðbragð Ólafs og félaga er auðvitað alþekkt og ævagamalt. Og á sér hvað kunnasta hliðstæðu í Dolchstoss-áróðri öfgahægrimanna í Þýskalandi eftir fyrra stríð, kenningunni um rýtingsstungu í bak hers og þjóðar.

Slíkum málflutningi fylgir svo allajafna upphafning flytjendanna sem hinna einu raunverulegu málsvara þjóðardjúpsins, nú vopnabræðra sjálfs Jóns Sigurðssonar – sú upphafning er einna frægust í íslenskum bókmenntum þar sem útrásarhetja sinna tíma, Pétur þríhross, eflir sóma landsins á Sviðinsvík með félagsskap Sannra Íslendinga.

Í Þýskalandi varð líka til félagsskapur hinar einu sönnu þýsku þjóðar og sá til þess að óvinirnir þurftu svo sannarlega „að beita meiru en pennanum og augnaráðinu til að kúga okkur Íslendinga“.

Við ættum kannski að grípa til vopna?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.8.2009 - 09:01 - 24 ummæli

Upphefð að utan

Ef ekki væru svona margar Liljur að rugla stílinn væri upplagt að segja eftir helgina að allir vildu Lilju kveðið hafa þar sem eru breytingartillögur fjárlaganefndar við Icesave-frumvarpið – því einsog oft áður í pólitík hafa allir sigrað, líka þeir sem allsekki voru í meirihlutanum, og eru eiginlega allra gleiðastir.

Samt er ennþá alveg óljóst hvort breytingar fjárlaganefndar eftir mánaðarþóf voru góðar eða ekki góðar. Það fer eftir næsta kafla: Viðbrögðum Breta og Hollendinga. Ef þeir láta kyrrt liggja geta allir verið ánægðir. Ef þeir telja að fyrirvararnir jafngildi höfnun samninganna frá í júní – séu „gagntilboð“ – þá gæti verið verr af stað farið en heima setið, því ekkert í langvinnri umfjöllun málsins bendir til að samningsstaða okkar hafi batnað í sumar.

Upphefð meirihluta fjárlaganefndar kemur því að utan og ræðst ekki á forsíðum eða fréttatímum á Íslandi.

Á mörkum samningsrammans

Tillögurnar úr nefndinni hafa enn ekki verið birtar í síðustu útgáfu, en af fréttum sýnist mér að þær séu á mörkum samningsrammans – og það fari eftir því hvernig stendur í bólið hjá Bretum og Hollendingum hvort þeir segja þetta gott eða byrja upp á nýtt.  Þar skiptir máli hvort þrýstingur heimafyrir er enn jafnákafur og áður á ríkisstjórnir Browns og Balkenendes, og hver viðhorf eru uppi gagnvart þessari deilu hjá sameiginlegum bandamönnum, þar á meðal ríkisstjórnunum á Norðurlöndum, ekki síst Svíum. Næstu vikur reynir líka nokkuð á hina víðkunnu hlýju nærveru utanríkisráðherrans.

Manni finnst samt sennilegast að viðsemjendur láti hér við sitja. Að mestu leyti er þingið með fyrirvörunum að semja við sjálft sig vegna vandræða í íslenskri pólitík, og gefur sjálfu sér og ríkisstjórninni fyrirmæli fram í tímann: Ef staðan er svona árið 2015, þá þetta, en ef hún er hinsegin, þá hitt. Margt af þessum hegðunarreglum er ágætt fyrir stjórnvöld framtíðarinnar að hafa ef allt lendir í klandri, annað voru nánast sjálfsagðir hlutir.

Ragnars-Halls-ákvæðin kynnu hinsvegar að standa í Bretum og Hollendingum, vegna þess að þar er farið útfyrir samningsrammann, sýnist leikmanni að minnsta kosti, og verulegt fé undir. Þetta kynni að setja samningana í uppnám, og þarna reynir sannarlega á yfirlýstan góðan vilja viðsemjenda okkar og á þær óskir bandamanna að loka Icesave-dæminu. Þingið tekur verulega áhættu með þessu ákvæði. Á hinn bóginn virðast Bretar og Hollendingar ekki eiga mikið á hættu, því ofurforgangurinn sem um ræðir er hvergi í lögum, íslenskum eða evrópskum, heldur aðeins til í praxís sumra þrotabústjóra hér gagnvart aðallega einum aðila, Ábyrgðarsjóði launa. Þetta lítur þannig út að hið fyrirhugaða mál sé fyrirfram skíttapað fyrir Íslendinga og peningaeyðsla að steypa í það milljónatugum eða hundruðum. En ég skal glaður éta hattinn minn ef það fer á hinn veginn.

Orðalag fyrirvarans um hitt hugsanlega dómsmálið (að sögn Fréttablaðsins sem birtir þó aðeins parta úr tillögunum), það sem ætti að skera úr um skyldu okkar til að greiða innstæðurnar, sýnir svo ágætlega að úr því verður aldrei annað en hnyklan vöðva fyrir innanlandsmarkað.

<<Eftir að þetta birtist var mér bent á að mbl.is er með tillögutextann allan, hér>>

Evróputenging

Mikilvægasta ákvæðið frá fjárlaganefnd er svo skýr tenging samninganna við Brusselviðmiðin, og krafa um að málið verði tekið upp aftur ef Evrópusambandið breytir reglum um innistæðutryggingar. Þarna er raunverulegur möguleiki á að taka síðar upp samningana eða bæta við þá, sérstaklega ef Íslendingar eru orðin ESB-þjóð eða hafa formlega stöðu umsóknarríkis. Þetta kann að vera viðkvæmt í London og Amsterdam, en á hitt er að líta að Evrópusambandið tók sér stöðu guðforeldra við þessa samningsgerð og ber auðvitað nokkra ábyrgð á því hvernig fór.

Þriggja flokka stjórn

Aðalatriðið er að Icesave er í höfn – vonandi. Það er gott. Búið að standa alltof lengi. Nú þarf að sinna næstu verkefnum.

Til þess er hér ríkisstjórn – sem kemur út úr Icesave-átökunum ósár en ákaflega móð, og er nú skyndilega orðin þriggja flokka stjórn: Samfylkingin, VG og Liljur. Sem enginn skilur hver kvað. En það er efni í annað blogg.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.8.2009 - 18:06 - 12 ummæli

Litla bomban

Stóra bomban var það kallað á forsíðu Tímans þegar geðlæknar lýstu Jónas Jónsson dómsmálaráðherra frá Hriflu geðveikan – fyrir því stóð auðvitað Íhaldið, árið 1930 var þetta, og Jónas vann þessa orustu og stóð eftir enn keikari en áður. Á þessum stóratburði í mannkynssögunni var ég mataður í mörgum skömmtum tólf ára kaupamaður á Halldórsstöðum í Kinn, Ess Þing – en Hrifla var einmitt suðr’ og niður framan við Fellið. Og er enn.

Er þetta þá ekki litla bomban? – og sannast enn það sem Marx kvað um endurtekningu sögunnar að fyrst komi tragedía og síðan farsi. Broslegt er þetta að minnsta kosti, og enn lenda þingmenn í klandri af því þeir kunna ekki á tölvupóst!

Nema hvað Þráinn Bertelsson er betri maður, hugsuður og höfundur en svo að það sé fyndið að sjá hann svona leikinn. Rétt hjá honum að ganga burtu. Hann stækkar við það, rétt einsog Jónas í minni Þingeyinga.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.8.2009 - 19:44 - 21 ummæli

Svik við þjóðina

„Svik við þjóðina,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um sáttadrögin úr fjárlaganefnd í Sjónvarpsfréttum. Ég var aðeins á taugum að það væri verið að gera einhverja vitleysu sem gæti framlengt ruglið kringum Icesave. En um leið og ég heyrði í Sigmundi Davíð varð ég alveg rólegur. Stóryrði frá Sigmundi Davíð mæla með bæði mönnum og málefnum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.8.2009 - 20:47 - 69 ummæli

Nýja minnihlutastjórnin

Og eftir fall Icesave-frumvarpsins um miðjan ágúst var mynduð ný minnihlutastjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Hún nýtur stuðnings Borgarahreyfingarinnar frá máli til máls, og nokkrir þingmenn VG hafa ákveðið að vera hlutlausir gagnvart stjórninni meðan reynt er að ná nýjum samningum við Breta og Hollendinga. Ráðherrar stjórnarinnar eru:

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson utanríkisráðherra

Tryggvi Þór Herbertsson fjármálaráðherra

Vigdís Hauksdóttir dómsmálaráðherra

Höskuldur Þórhallsson viðskiptaráðherra

Eygló Harðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Ólöf Nordal iðnaðarráðherra

Ásbjörn Óttarsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Birkir Jón Jónsson samgönguráðherra

Ragnheiður Elín Árnadóttir heilbrigðisráðherra

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra

Meðal helstu verkefna ríkisstjórnarinnar er endurupptaka samninganna um Icesave, aðildarviðræður við Evrópusambandið eftir að ESB hefur fallist á skýr skilyrði íslenskra stjórnvalda, virkjanir í Neðri-Þjórsá og við Þjórsárver fyrir tvö til þrjú álver á Suðvesturlandi, að ganga frá fjárlögum án skattahækkana með helmingsniðurskurði útgjalda, og nýtt íslenskt ákvæði um 99 ára undantekningu frá samdrætti í losun sem skilyrði fyrir samþykki Íslands við niðurstöður loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn.

Þá hefur verið ákveðið að til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og spara fé verði rannsóknum hætt á ástæðum efnahagsþrenginga frá því í haust.

Ögmundi Jónassyni hefur verið boðin staða forseta alþingis, og Þór Saari verður formaður fjárlaganefndar. Bankastjórar Seðlabankans verða Davíð Oddsson og Finnur Ingólfsson.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur