Það er hlegið að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um allt land (hér til dæmis!) – en þó er kannski rétt að gera örlitla athugasemd við þann hluta kenningar hans um Davíð og hrunið sem lýtur að fjölmiðlunum.
Menn vita að nýja heimastjórnartesan er sú að allt hafi verið gott meðan Davíðs naut við – hrunið er öðrum að kenna. Eftir það glæsilega afrek að gera Íslendinga að ríkustu þjóð í heimi hafi hann hinsvegar tapað slagnum um fjölmiðlafrumvarpið – við bandalag auðmanna, Samfylkingarinnar og forseta Íslands. Síðan tóku við stjórnartaumum síðri menn og allt glutraðist niður þrátt fyrir sífelldar viðvaranir úr Seðlabankanum. Þeir sem vilja heyra meira eru örugglega velkomnir á háskólanámskeið HHS um kapítalismann í boði skattgreiðenda.
Sjóaður maður sagði einu sinni að ef nógu oft væri kveðin sama vísan færu menn að lokum að trúa henni, og varð vel ágengt framan af sínum ferli. Heimastjórnin hefur lengi reynt að leika þann leik um fjölmiðlafrumvarpið – vegna þess að það mál olli ákveðnum straumhvörfum í pólitík á þessum áratug, og markar ásamt hruninu lokin á valdaskeiði Davíðs og íslensku nýfrjálshyggjunnar.
Pólitísk átök í valdahópunum
Þeim sem þar fóru fremstir er örugglega hollt að líta gagnrýnum augum yfir átökin – það hefur til dæmis gert ágætlega Hallgrímur Helgason, sem rifjar upp að ekki var sérlega þægilegt að vera í sama liði og Baugsmenn í því máli. Þá má ekki gleyma að þeir sem andæfðu fjölmiðlafrumvarpi Davíðs (menn muna að forsætisráðherra flutti málið fyrst, ekki menntamálaráðherrann) völdu sig ekki saman sjálfir, og höfðu ekki allir nákvæmlega sömu ástæður til að vera á móti þessari ætlan.
Þessi fylkingaskipan breytir hinsvegar ekki meginatriðum málsins. Fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma tilraun heimastjórnarklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum – Bláu handarinnar – til að klekkja á þeim fulltrúum „nýju peninganna“ í viðskiptalífinu sem ekki féllust á að taka sér hina gömlu kolkrabbastöðu með ráðamönnum Flokksins. Um leið mótaðist frumvarpið af gömlum valdaviðhorfum til fjölmiðlanna í landinu. Frumvarpið hefði – bæði í fyrstu mynd sinni og hinum síðari – að auki skert mjög rekstrargrundvöll í fjölmiðlun og hindrað nútímaþróun í takt við sífelldar tæknibreytingar á þessu sviði.
Við sem einkum vildum ræða áhrif frumvarpsins á fjölmiðlun, og reyna að ná samstöðu um aðrar leiðir, urðum að láta undan síga, því fjölmiðlamálið snerist fljótt upp í átök þar sem mikill hluti þjóðarinnar hafnaði – loksins – valdhroka og gjörræði þaulsætinna stjórnarflokka, og einkum hins mikla leiðtoga. Forseti Íslands hjó að lokum á hnútinn með hárréttri ákvörðun um að skjóta málinu í til þjóðarinnar – og er miður að ráðamenn skyldu heykjast á að hlíta stjórnarskránni um þá atkvæðagreiðslu.
Í þessu samhengi er rétt að muna að andstæðingar fjölmiðalfrumvarpsins innan þings og utan vildu lög um fjölmiðla, lög sem stuðluðu að frjálsri fjölmiðlun, fjölræði og lýðræði á vettvangi fjölmiðla og spornuðu gegn ítökum og einokunarhneigðum valdahópa úr pólitík og bisness nema hvorttveggja væri.
Frjáls fjölmiðlun
Þegar Davíð var hættur og farinn reyndist ekki erfitt að ná nokkuð breiðri samstöðu um nýja skipan í þessa átt – með nefndarstarfinu 2005. Sjálfur var ég ekki ánægður með allt í því áliti, vildi ganga lengra í sumu, stíga varlegar til jarðar annarstaðar. En hér skipti mestu að menn úr öllum þáverandi flokkum náðu saman eftir hinn mikla hildarleik sem heimastjórnarliðið efndi til með frumvarpinu.
Hin efnislegu átök um fjölmiðlafrumvarpið sjálft voru svo í meginatriðum þessi: Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vildu afar ströng takmörk á eignarhaldi fjölmiðla. Enginn einstaklingur eða fyrirtæki mátti eiga meira en afar lítinn hlut. Krosseign milli prentmiðils og sjónvarps átti að banna (mbl.is væri sennilega ólöglegur miðill samkvæmt frumvarpinu). Ýmsar aðrar stífar reglur skyldu settar um fjölmiðlarekstur, og yfir öllu saman var ríkisskipuð nefnd – en þá var einmitt formaður í útvarpsréttarnefnd Kjartan Gunnarsson. Í raun var frumvarpið skraddarasaumað gegn Norðurljósum sem þá hétu.
Við Samfylkingarmenn tókum fljótt forystu gegn frumvarpinu á þingi. Við töldum að ekki ætti að setja lög af því forsætisráðherranum væri illa við eigendur fjölmiðlafyrirtækis, hversu ómögulegir sem þeir kynnu að vera. Við neituðum aldrei eignarhaldstakmörkunum sem úrræði gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en töldum að þröng takmörk mundu verða til bölvunar fyrir rekstur fjölmiðlanna og gefa pólitíkusum færi á annarlegum áhrifum á þróun fjölmiðlunar.
Sjálfstæði ritstjórna, alvöru-RÚV
Við lögðum aðaláherslu á tvennskonar umbætur í íslenskri fjölmiðlun. Annarsvegar að efla Ríkisútvarpið sem raunverulegt almannaútvarp, sem hefði menningarlegt og lýðræðislegt forystuhlutverk á þessum vettvangi. Hinsvegar þyrfti að styrkja sjálfstæði ritstjórnar á fjölmiðlum landsins til að vega á móti áhrifavaldi eigenda.
Að lokum gerðist svo ekki neitt – nema RÚV var gert að ohf-i, sem flestir telja nú misheppnaða ákvörðun, nema kannski útvarpsstjórinn á jeppanum góða. Og hinum fjölmiðlunum hefur hnignað, meðal annars vegna hömlulítilla eigendaáhrifa. Samanber bæði stærsta og næststærsta blað landsins (en ekki DV, takk fyrir það!).
Nú er Kata Jak að fara aftur af stað með fjölmiðlafrumvarp og vonandi líka að búa til almannaútvarp úr ohf-vitleysunni í Efstaleiti. Þetta er brýnt, ekki síst vegna þess að veikir, hikandi og háðir fjölmiðlar áttu sinn þátt í hruninu og aðdraganda þess. Við þetta verk er rétt að skoða vel málflutning í kringum fjölmiðlafrumvarpið gamla og forðast vitleysurnar sem þar voru gerðar.
Og söguskoðun Bláu handarinnar er heldur ekki besta veganestið inn í lífið eftir hrun.